Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2014

2119 - Hellisheiði

Það er til lítils fyrir mig að vera að fjölyrða um stjórnmál og fréttir dagsins. Þó mér takist kannski stöku sinnum að vera sæmilega frumlegur í hugsun, þá eru skrifin venjulega orðin afskaplega úrelt hjá mér þegar ég sleppi af þeim hendinni. Og þó mér finnist í lagi að setja þau samt á bloggið mitt, er ekki víst að öðrum finnist það.

Einu sinni var ég ekkert sérlega vitlaus á tölvur. Nú er ég eiginlega orðinn það. Ekki skil ég nema að mjög litlu leyti það sem fram fer á fésbókinni. Já, en það er nú bara forrit mundi einhver segja. Það eru samt allir þar og það er dálítið „frústrerandi“ að flestir aðrir skuli skilja betur fínni blæbrigðin þar en ég. Til að aðrir sjái ekki hvað maður er illa að sér í fésbókarfræðum fer ég þangað frekar sjaldan. Ja, það er segja sem mér finnst það. Fer samt þónokkrum sinnum á dag þangað og mun oftar en ég fer á heimabankann minn eða tölvupóstinn. Oftast bara til að skoða og svo gleymi ég mér við lestur á einhverju sem þar er bent á og fer oftast út úr fésbókinni þegar ég veit ekkert hvað ég er að gera á viðkomandi stað. Stundum get ég ekki stillt mig um að láta eitthvað í mér heyra, en það er fremur sjaldan og öll tilboð forðast ég eins og heitan eldinn. Lenti samt í því um daginn að dreifa vírus á alla (eða flesta) mína fésbókarvini, sem eru talsvert margir, því ég var einu sinni að safna þeim.

Man vel eftir að menn héldu mig vera með miklu fjörugra ímyndunarafl en ég þó er, þegar ég var í framhaldi af BBS-unum einhverntíma fyrir 1990 að segja frá Internetinu. Það var löngu fyrir daga bráseranna. Merkasta nýjungin þar var Lynx, sem kom að mörgu leyti í stað Gophersins.

Boðnarmjöður er ágæt síða á fésbók. Þangað fer ég stundum. Kann samt ekkert nema venjulegan ferskeyttan rímnahátt. Þekki hringhendur frá öðrum og finnst oddhenduháttur skemmtilega dýr. Á öðrum bragarháttum þekki ég varla meira en nöfnin. Limrur liggja alls ekki fyrir mér. Sléttubönd eru ekki mjög erfið, en afdráttarháttur er það. Hann hef ég glímt við en árangurinn er bara bull. Þegar ort er undir hefðbundnum háttum er meiningin oftast helsta vandamálið. Það er lítill vandi að raða saman orðum eftir ströngum reglum hvað rím og stuðla varðar. Að öðru leyti er þetta fyrst og fremst æfing. Svo geta menn ýmist verið hraðkvæðir eða þurft að hafa heilmikið fyrir þessu. Ég fell í seinni hópinn. Sumir virðast ekkert hafa fyrir þessu. Nefni engin nöfn.

Í gær fór ég í Hveragerði til að hitta Þórhall Hróðmarsson og Sigga í Gerðakoti. Við erum nefnilega að undirbúa hitting í sumar. Gleymdi bæði myndavél og lesgleraugum hjá Þórhalli og þessvegna neyðist ég til að hafa letrið á tölvunni fremur stórt núna og ég veit ekki hvernig Moggablogginu líkar það. Fyrir viku gerðum við líka tilraun til að hittast en náttúruöflin voru okkur ekki hagstæð þá. Snjókoma og fjúk næstum alla leiðina. Á heimleiðinni var þetta mjög slæmt. Ég vonaði að það væri bara á heiðinni og fjúkinu linnti þegar ég kæmi í Hveradalabrekkurnar. Ekki gekk það eftir. Þá var að treysta á Draugabrekkuna, en ekki gekk það. Það var ekki fyrr en í Lögbergsbrekkunni sem við keyrðum niður í rigningu og eftir það var allt í lagi.

Ef ég á að spá í stjórnmálaviðhorfið þá sé ég ekki betur en Hanna Birna sé á útleið sem Innanríkisráðherra. Hugsanlega er þetta aðeins millikafli í stórkostlegri stjórnmálafléttu: Bjarni Ben. vill komast í stjórn með Samfylkingunni í stað Framsóknar og kannski notar hann Má í seðlabankanum til þess. Um leið vill hann losna við hættulegan keppinaut um formennskuna í Sjálfstæðisflokknum. Nei annars. Ég er enginn spámaður.

Auk þess legg ég til að Ásgautsstaðir verði lagðir í rúst. Nei, sá bær er víst horfinn, en jörðin er eftir og beðið er eftir því að erfingjarnir verði svo margir að ekki taki því að vera með opinber skipti. Þetta sé hvort eð er allt í rugli eins og annað á þessu ísa köldu landi. Svo er Árborg alltaf að stækka.

IMG 5891Sjósund afmyndað.


2118 - Kranablaðamennska fréttabarna

Vissulega er það rétt að Internetið hefur breytt mjög hinu hefðbundna hlutverki blaðamanna í íslensku þjóðfélagi. Það er samt óþarflega mikið á þá ráðist. Það getur enginn skrifað eða talað íslenskt mál á þann hátt að öllum líki. Eiður Guðnason er duglegur við að tína upp helstu ambögurnar sem verða til hjá þeim sem í vinsæla fjölmiðla skrifa eða tala. Sjálfur skrifar hann ágætt mál, en er samt á sinn hátt fulltrúi gamla tímans. Verst er að þeir sem helst þyrftu á leiðbeiningum hans að halda lesa skrif hans síst allra.

Í vaxandi mæli er fólk að yfirgefa fjölmiðlana sem hér hafa ráðið lögum og lofum í marga áratugi. Flokksblöðin týndu tölunni og eru nú með öllu horfin. Mogginn heldur þá áfram að koma út og sumt er þar ágætlega vandað. Fréttir á mbl.is eru yfirleitt fjarskalega illa skrifaðar en eftirlit með fréttastofunni að öðru leyti nokkuð gott. Stjórnmálaskrifin eru sér kapítuli og margt er mjög undarlegt við blaðið. Annars er ég ekki áskrifandi og ætti ekki að fullyrða mikið um efni þess. Fréttablaðið sé ég nær aldrei. Ef ég fæ þá hugmynd að eitthvað merkilegt sé í því, kíki ég kannski í það á netinu. Vefritin les ég stundum. Blogg Egils Helgasonar á Eyjunni er það eina sem ég les nokkuð reglulega. Kíki oft á kjarnann.is og dv.is og visir.is svona stöku sinnum. Fésbókina skoða ég a.m.k. einu sinni á dag eða oftar, en hangi ekki þar heilu dagana eins og mér virðist að sumir geri. Bæði Mogginn og DV reyna enn að selja sig á netinu, en það gengur ekki. Nægilega vönduð skrif um allt mögulegt er hægt að fá ókeypis hvar sem er á netinu. Bækur, tónlist og sjónvarpsefni allskonar er á góðri leið með að verða aðgengilegt öllum án endurgjalds svo þessi viðleitni er vonlaus.

Um daginn kom forstjóri Brims í viðtal í sjónvarpi allra landsmanna og skýrði frá því grátklökkur að ekki væri rekstrargrundvöllur fyrir frystitogara og hann neyddist til að segja 30 til 40 manns upp störfum. Bíddu við. Er ekki eitthvað gruggugt við þetta? Er þetta ekki sami maðurinn og fékk eftirgefnar skuldir og svo er því haldið fram að útgerðin græði. Jafnvel einhverjar skýrslur til sem sýna það. Fer tap og gróði semsagt bara eftir einhverjum hentugleikum? Kannski er ofureðlilegt að menn láti svona. A.m.k. alvanalegt.

Margir velta fyrir sér hve lengi gjaldeyrishöftin haldist. Þegar þau voru sett var fullyrt á þau yrðu við lýði í hæsta lagi í 3 mánuði. Einhverjir trúðu þessu. Þeir eru jafnvel til sem trúa því að gjaldeyrishöftin hverfi á næstunni. Ekki er það líklegt. Sennilegast er að þau verði við lýði a.m.k. þangað til Ísland gengur í ESB. Eða fram að næsta hruni. Enginn veit hvernig Íslensk efnahagsmál þróast næstu árin. Margir vilja samt endilega spá um það og þykjast vera miklir spámenn. Sumt sem sagt er um þau er fremur ógáfulegt. Sumu er samt hægt að trúa með góðum vilja. Sá vilji fer aðallega eftir stjórnmálaskoðunum og sveiflast daglega til.

Margir spá því að veðurfar í heiminum fari kólnandi, enda svotil sólblettalaust með öllu. Samhengið þarna á milli og svo hnatthlýnunarinnar af mannavöldum er fræðimönnum ekki að fullu ljóst svo engin furða er þó leikmenn eins og ég hugsi fyrst og fremst um veður dagsins. Já, ég fór austur í Hveragerði á mánudaginn var og lenti í skafrenningi og fjúki á Hellisheiðinni og víðar eins og búast mátti við. Á heimleiðinni vonaðist ég til að komast niður úr snjófjúkinu fyrst í Hveradalabrekkunum, svo í Draugabrekkunni, en það var ekki fyrr en í Lögbergsbrekkunni sem því lauk og rigning tók við.

Auk þess legg ég til að bæjarstjórn Árborgar semji við eigendur Ásgautsstaðajarðarinnar og hætti því arðráni sem staðið hefur í marga áratugi. Jafnframt að fréttamenn kynni sér þetta mál, ef þeir hafa ekkert þarfara að gera, t.d. með því að hafa samband við lögfræðing þann sem hluti erfingja jarðarinnar hefur á sínum snærum. Hann nær þó engum árangri vegna samtryggingar valdamanna á svæðinu. Lögfræðingurinn heitir Sigurður Sigurjónsson og er sonur fyrrverandi lögreglustjóra hér í Reykjavík. Skrifstofu hafði hann í Kringlunni síðast þegar ég vissi.

IMG 5890Vaðið út í sjóinn.


2117 - Olympíuleikar o.fl.

Eru gömlu risaeðlurnar úr íslenskum stjórnmálum enn að stýra pólitískri umræðu á landinu? Með gömlu risaeðlunum á ég t.d.við Björn Bjarnason, Hjörleif Guttormsson, Styrmi Gunnarsson og Ragnar Arnalds. Reyndar eru þeir kannski ekkert eldri en ég, en þeir eru þó allavega á móti inngöngu í ESB en það er ég ekki. Þessvegna er það sem ég kalla þá risaeðlur og finnst að ég megi það.

Annars er það ekki inngangan í ESB, sem er mál málanna í dag. Vinstri kórinn vill álíta að það sé öryrkja- og ellilífeyrisfrumvarpið sem samþykkt var á alþingi s.l. þriðjudag. Vel má líta á það sem aðför að þeim sem annt er um persónulegan rétt sinn. Í flestum greinum held ég samt að þetta verði til mikilla bóta og leyfi það sem starfsfólk TR fær til söfnunar upplýsinga afsakanlegt. Mér hefur fundist starfsfólk TR standa sig eins og búast má við af fólki í þess konar störfum. Hvorki vel né illa. Margir hafa samt ekki sömu sögu að segja af samskiptum sínum við þá stofnum. Held að hlutverk þeirra sem hjá TR vinna sé stundum erfitt. Almennt líta opinberir starfsmenn niður á almenning. Algerlega að ófyrirsynju.

Mál málanna þessa dagana er auðvitað Vetrarólympíuleikarnir í Rússlandi. Þau íþróttamót sem draga að sér flesta áhorfendur og auglýsendur eru Ólympíuleikar, Heimsmeistararamót í Knattspyrnu og Formúlu eitt mótin. Formúlan er á hverju ári og OL og fótboltinn á fjögurra ára fresti. Það er nýlega sem farið er að halda Vetrar-OL á milli sumarleika. Sennilega er það gert til að græða meiri peninga. OL-hringirnir eru góð söluvara. Evrópumót og allskyns svæðamót í hinum ýmsu greinum söngvakeppnir og allskyns uppákomur er síðan reynt að halda til að fá bita af auglýsingakökunni. Hún er alveg gríðarstór og þar skipta tímasetningar miklu máli. Fyrst og fremst er þetta barátta um að vekja á sér athygli. Síðan koma mannréttindamál og fleira sem verklitlir fjölmiðlamenn hafa áhuga á, inn í myndina. Ef réttlætanlegt var að kalla Ólympíuleikana sem haldnir voru í Berlín árið 1936 Hitlers-leika er margt sem bendir til að ekki sé síður hægt að kalla þess Vetrarolympíuleika sem eru að hefjast í Rússlandi núna Pútín-leika.

Hef undanfarið verið að lesa í kyndlinum mínum bók um aldraðan mann með gervifót og langt genginn Alzheimers-sjúkdóm sem þvælist fram og aftur um Bandaríkin með 13 ára gömlum strák. Kona karlsins, sem er miklu yngri en hann og foreldar stráksins eru auðvitað að farast úr áhyggjum og margskonar misskilningur veður uppi. Karlinn og strákurinn ná hinsvegar ágætlega saman. Bók þessi heitir „Taking flight“ og er eftir Adrian R. Magnuson. Kannski svolítið stefnulaus og fjallar ekki um neina stóra atburði. Er ágæt samt. Höfundur lætur allar helstu persónurnar segja frá til skiftis og notar ýmist fyrstu eða þriðju persónu frásagnarhátt. Hann virðist einkum vera að velta fyrir sér andstæðunum frelsi og öryggi. Fuglaskoðun kemur einnig mjög við sögu. Á sínum tíma kostaði þessi bók ekki nokkurn skapaðan hlut, en nú sýnist mér að hún kosti yfir 8 dollara á Amazon. Veit ekki mikið um þennan Magnusson. Hann gæti verið af íslenskum ættum.

Auk þess legg ég til að bæjarstjórn Árborgar verði neydd til að semja um not af Ásgautsstaðajörðinni og látin hætta þessu sífellda arðráni.

IMG 5887Sjósund undirbúið.


mbl.is Sjón í hópi höfunda sem mótmæla
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

2116 - Verðtryggingin enn og aftur

Skyldu fésbókartölvurnar vera svo öflugar að þær geti flokkað og sundurgreint eftir kúnstarinnar reglum öll lækin, deilingarnar og þá milljarða smáatriða sem til falla á hverjum degi á þessum vinsæla samskiptavef? Já, þær geta það alveg áreiðanlega og sú tækni sem til þess þarf er sífellt að batna og verða ódýrari. Fyrir hvern þann ávinning sem við náum í frelsisátt verðum við að gjalda dýru verði í auknu rafrænu eftirliti. Hver sá upplýsingasnepill sem ekki er gagnlegur í augnblikinu er geymdur endalaust í Stasi-líku gagnasafni og hver sú arða sem þar er geymd á eflaust eftir að koma tölvuveldinu, sem í uppsiglingu er, einhvertíma að gagni.

Fésbókarupplýsingarnar sem við látum fúslega af hendi eru ekki nema örlítið brot af öllu því gagnamagni sem næst frá allskyns rafeindatækjum og Internetinu. Símum, GPS-tækjum, eftirlitsmyndavélum o.s.frv. Hinar líklegustu og ólíklegustu stofnanir taka þátt í þessu hvort sem þær vita það og skilja eða ekki. Allir taka á sinn hátt þátt í því að gera gagnamagnið sem aðgengilegast og auðskiljanlegast fyrir tölvurnar.

Rafrænu fótsporin okkar eru útum allt og sífellt að verða mikilvægari og mikilvægari fyrir tölvurnar sem sanka  þeim saman að lokum.  

Stefnir þá ekki allt í eitt miðstýrt tölvukerfi sem öllu ræður? Jú, auðvitað. En frá hverjum verður það vald tekið? Sennilega engum. Í alþjóðlegum samskiptum er gríðarlegt vald ónotað og felst það einkum í tölvuupplýsingum allskonar. Sum ríki leggja talsvert á sig til að trufla og afvegaleiða þetta alþjóðlega gagnasafnskerfi og úr því getur orðið einhver töf. En tölvurnar og forritarar þeirra finna ráð við öllu.

Það er í tísku um þessar mundir að fjölyrða um verðtrygginguna. Með mikilli einföldun má segja að þrír aðilar berjist um völdin í landinu. ASÍ, SA og ríkisstjórnin. Á yfirborðinu er látið líta svo út að ríkisstjórnin ráði einhverju. Svo er þó ekki í raun og veru. Með þjóðarsáttinni svokölluðu afsalaði ASÍ (verkalýðurinn) sér réttinum til að ráða nokkru. Verðtrygging launa, eða víxlverkun kaupgjalds við vörur og þjónustu, eins og það var þá kallað, hafði mistekist með öllu og var ekki leyfð framar.

Verðbólgan (verðtrygging vöru og þjónustu) hafði eiginlega étið upp launahækkanirnar jafnóðum. ASÍ stóð frammi fyrir því að halda áfram á sömu braut eða láta SA ráða ferðinni. Raunin varð sú að bankar og fjármálastofnanir réðu ferðinni. Allt mögulegt var verðtryggt, nema launin. Verðlagning vöru hafði í raun og veru verið verðtryggð lengi. Nú bættust húsnæðislánin við og ýmislegt fleira. Lánin voru verðtryggð og bundin vísitölu sem ríkisstjórnin réði í orði kveðnu hvernig reiknuð var út, en bankarnir LÍÚ og SA í raun og veru. Launataxtar hættu með öllu að skipta máli. Verkafólk snerist jafnvel gegn verkalýðsfélögunum. Samt komst ekki með öllu á „bandarískt ástand“ að þessu leyti. Félögin héldu áfram að semja, en lögðu nú áherslu á ýmiss konar réttindi umfram beinar launahækkanir.

Lífeyrissjóðirnir voru stofnaðir um þetta leyti eða fyrr og með því að láta ASÍ fá ítök í stjórn þeirra (ætti auðvitað að hafa þar öll völd – þetta eru í rauninni laun) tókst að fá fulltrúa þeirra að þjóðarsáttinni. Stjórnir sjóðanna skiptu litlu máli meðan þeir voru litlir og lítils megnugir en smám saman fóru fulltrúar SA þar að láta að sér kveða. Stór hluti launa fólks fór þá að renna til fjárglæfra hverskonar og framhaldið þekkja allir. Frelsið og máttleysi stéttarfélaganna leiddi meðal margs annars af sér bankahrunið árið 2008.

Verðtryggingin útaf fyrir sig er ekki svo vitlaus. Vísitalan sem miðað er við er það hinsvegar. Það tók ekki langan tíma að fá fólk almennt til að sætta sig við löng lán og verðtryggingu. Greiðslubyrðin varð við það viðráðanlegri og með því að SA lét ASÍ-félaga njóta að hluta þess sem sparaðist við að losna við sífelld verkföll tókst að binda verkalýðshreyfinguna á þann klafa sem síðan hefur ekki bilað.

Að hafa hundsvit á mörgu, en sérfræðivit á fáu er einkenni á mörgum Íslendingum. Kannski ekkert frekar á þeim en annarra þjóða kvikindum. Ég þekki það bara ekki. Annað er svo að koma orðum að hugsun sinni og hvort réttara er að kalla það hundsvit eða sérfræðivit. Ekki veit ég það, en Egill Helgason ætti að vita það. Hann, Ómar Ragnarsson og Jónas Kristjánsson eru mjög færir í því að koma orðum að hugsun sinni. Óvíst er samt að hún sé nokkuð merkilegri en hugsun annarra.

Gunnar Vigfússon var yfirbókari hjá KÁ í eina tíð. Hann var giftur föðursystur minni. Gunnar Álfur var hans helsti aðstoðarmaður. Hann hafði einhverntíma lent í því að listi sem hann hafði unnið fyrir framsóknarfélagið á Selfossi um stjórnmálaskoðanir Selfossbúa hafði komist í óvandaðra manna hendur og verið misnotaður í kosningum. Ekki þótti þetta fallegt þá, en er í raun smámundir einir samanborið við upplýsingamagn það sem á floti er hér á landi og aðgengilegt þeim sem kæra sig um.

Ég vil gjarnan halda Ásgautsstaðmálinu lifandi. En hverskonar líf er það að minnst skuli á það reglulega í einu Moggabloggi, sem ekki er einu sinni vinsælt. Kannski fer Gúgli frændi að kannast við þetta mál.

IMG 5883Í heita pottinum á nýársdag.


2115 - Verðtrygging eða ekki verðtrygging

Ég get ekki annað en hugsað svolítið um ESB. Auðvitað var það ógnarleg vitleysa hjá vinstri grænum að samþykkja að sækja um inngöngu ef þeir voru algerlega á móti því. Með tímanum verður það langstærsta málið sem þarf að semja um við hver stjórnarskipti hvort sækja skuli um inngöngu eða ekki. Á margan hátt hlýtur öfgavinstrifólk og það sem telja má til öfgahægri að vera sammála um andstöðuna við inngöngu. (Þó ekki væri nema vegna þjóðrembu) Þó slík andstaða sé í meirihluta núna og hafi verið um nokkurt sinn, er ekki víst að svo verði alltaf. Kannski verður innganga í ESB framsókn að þakka að lokum. Um miðjumoð verður þá að ræða en það er það eina sem getur bjargað okkur. Þó utanríkisráðherra og kannski forsætisráherra líka vilji helst að þetta mál hverfi og hætti að vera til, þá er ólíklegt að þeim verði að þeirri ósk sinni.

Verðtrygging eða ekki verðtrygging, virkjun eða ekki virkjun, Greenvichtími eða ekki Greenvichtími. Allt þetta og margt fleira má hugsanlega semja um eða tala sig niður á einhverja lausn á sem bæði andstæðingar og fylgjendur geta sætt sig við. Varðandi ESB-aðild er ekki neinu slíku til að dreifa. Annað hvort göngum við í Evrópusambandið eða ekki. Þetta mál er því vel fallið (eins og hermálið á sínum tíma) til að skipta þjóðinni í tvær andstæðar fylkingar. Þess vegna er þjóðaratkvæðagreiðsla um aðild góð hugmynd. Verst er ef margir lýsa því yfir fyrirfram að þeir muni ekki sætta sig við niðurstöðu slíkrar atkvæðagreiðslu. Útfærslu hennar mætti hugsanlega semja um.

Ég fæ ekki betur séð en sú ríkisstjórn sem nú situr stefni að auknum ójöfnuði í þjóðfélaginu. Það er ekki þar með sagt að þeir sem hana styðja vilji ekki gera vel við okkar minnstu bræður. Það er bara þannig að hvernig sem horft er á málin er veruleg hætta á því að ójöfnuður aukist sé þeirra stefnu fylgt. Sú stefna á sér samt verulegar málsbætur því næsta ríkisstjórn á undan, sem kennd var við vinstri, jók hann ekki heldur og vinstri stjórnir ganga oft hættulega langt í ríkisafskiftum allskonar. Auðvitað glímdi sú ríkisstjórn sem var við mikinn vanda sem orsakaðist af bankahruninu 2008, en hefði samt átt að gera betur.

Núverandi ríkisstjórn reynir með ýmsu móti að auka fjárfestingu í landinu og auka hraðann á „hjólum atvinnulífsins“. Takist henni ekki fljótlega að ná marktækum árangri í því efni á hún sér engar málsbætur og ætti að fara frá.

Um daginn varð ég alveg steinhissa. Hildur Lilliendahl Viggósdóttir bauð mér bloggvináttu. Sennilega hefur það nú verið alveg óvart hjá henni. En hvað um það ég ákvað að samþykkja það tilboð og fá að auki tilkynningar um innleggin hennar og sennilega gera það fleiri því mig minnir að hún sé með yfir 3500 fésbókarvini, sem þýðir að hún hefur sennilega enga yfirsýn yfir hverjir það eru. Ég fékk svo fljólega tilvísun í grein eftir hana sem hún kallar „Kvalarar“ og hefur svo birst á Knúz.is og margir mælt með.

Ekki neita ég því að þessi grein er áhrifamikil og vel skrifuð. Get samt ekki gert að því (ég er svo mikið karlrembusvín) að mér finnst hún öðrum þræði vera hugsuð sem réttlæting á því (að sumra áliti a.m.k.) vanhugsaða verki sem hún vann ásamt með annarri konu með því að kæra ráðningu JBH til Háskóla Íslands. Það mál kom aftur uppá yfirborðið einmitt um daginn og sýnir ljóslega vanmátt núverandi háskólarektors. Grein Hildar er líka hugsanlega svolítið ýkt og færð í stílinn þó ég viti auðvitað ekkert um það.

Skilst að fljótlega verði haldinn fundur um Ásgautsstaðamálið, svo ég ætla að reyna að stilla mig um að hallmæla Sýslumanninum á Selfossi og bæjarstjórn Árborgar. Þeir sem vilja fræðast meira um þetta mál geta gert það hér: http://saemi7.blog.is/blog/saemi7/day/2013/12/10/ eða með samtölum við málsaðila. Fjölmiðlar hafa engan áhuga á þessu máli og er það á vissan hátt skaði því margt í sambandi við það snertir einmitt samskipti þéttbýlis við strjálbýli og embættismanna við almenning.

Þetta mál er að afar litlu leyti sambærilegt við Vatnsendamálið svokallaða. Greiðslur þær sem Kópavogsbær innti af hendi til Þorsteins Hjaltested voru þó greiddar þinglýstum eiganda jarðarinnar. Ekki var heldur um eignarnám að ræða. Þar að auki eru peningaupphæðir allar miklu lægri í Ásgautsstaðamálinu.

IMG 5880Snjór á sólarströnd? 


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband