2129 - Kaninn er farinn

Bandaríkjamenn gáfust upp á okkur fyrir rest. Þegar svo var komið lá beinast við að reyna að koma sér í mjúkinn hjá Evrópusambandinu. Um það er nú tekist á. Reynt er að halla þjóðinni í áttina að Rússlandi og Kína. Ágætlega gekk daður okkar við Sovétríkin forðum. Um það eru rússneskir bílar og fleira til vitnis. Okkur Íslendingum gengur ekki vel þegar við eigum að gera allt uppá eigin spýtur. Við erum einfaldlega alltof fá. Stórveldi verður Ísland seint. Við ættum þó að geta haldið uppi svipuðum lífskjörum og eru í kringum okkur. Vöknuðum að vísu ekki til vitundar um mátt okkar fyrr en á síðustu öld, eftir margar aldir af niðurlægingu sem í tísku er að kenna Dönum um. Jæja, sleppum því. Ef rétt er á spilunum haldið er ekkert sem mælir á móti því að við getum plumað okkur sæmilega í samfélagi stórþjóða.

Í dag er fjórði í mótmælum. Var að fá fundarboð um að hefjast eigi handa klukkan fimm í dag. Það finnst mér dálítið seint. Nú hefði verið tækifæri til að taka daginn snemma. Kannski einhverjir ætli að fylgjast með Austurvallar-leikritinu í sjónvarpinu. Auðvitað er það afsakanlegt.

Ég neita því ekki að stundum þegar mér tekst sæmilega upp (að því er mér sjálfum finnst) þá kíki ég gjarnan á vinsældalistann hjá Moggablogginu. Ætli ég hafi ekki komist í svona 18. sæti eða svo þar þegar best lætur. Einu sinni var ég mjög ánægður með að vera í svona 100. til 150. sæti þar, en nú er ég venjulega í þrítugasta til sextugasta sæti eða svo. Auðvitað er það mest vegna þess að vinsældir Moggabloggsins hafa dvínað verulega. Ég vil þó aðallega þakka það frábærum skrifum mínum. Hugsanlega eru þau samt ekkert frábær. Aðrir verða að meta það. Kannski Moggabloggið nái sér eitthvað á strik aftur. Þjónustan þar er góð. Hvað sem hver segir. Ég er satt að segja mjög ánægður með að einhverjir skuli hafa það nánast fyrir reglu að lesa bloggið mitt. Vanda mig meira fyrir vikið.

Minn styrkleiki sem bloggari er fólginn í því að skrifa um allan fjárann. Stjórnmálin eiga þó til að verða alltof fyrirferðarmikil hjá mér. Þó ég hafi gaman af að skrifa um stjórnmál leiðist mér óskaplega að leggja tölur á minnið eða leita að þeim í því sambandi. Oft eru þessar blessaðar tölur líka ákaflega blekkjandi og oftast sérvaldar til þess að ríma sæmilega við það sem viðkomandi hefur að segja að öðru leyti.

Svolítið leiðist mér hve þær stöllurnar Lára Hanna Einarsdóttir og Birgitta Jónsdóttir skrifa oft á fésbókarvegginn sinn. Ég fæ nefnilega alltaf tilkynningar um það. Ég vil samt ekki missa af því sem þær segja, svo það er tilgangslaust að segja mér að hætta bara að vera áskrifandi að veggjunum þeirra. Annars er ég óttalega ruglaður á öllu sem fram fer á fésbókinni. Mér er sagt að hún sé svo gamaldags að réttast væri að hætta alveg þar. Það get ég samt ekki því ég fer alltaf þangað oft á dag og skil hann samt ekki. Ef eitthvað bjátar á með skilninginn þá fer ég bara útúr bókarræflinum og svo inn aftur ef mér finnst taka því.

Sumir aðrir (ég nefni engin nöfn) eru sískrifandi á vegginn sinn og fæla mig frá sér með því. Annars er ég sennilega ekki dæmigerður fésbókarnotandi. Hver er það eiginlega? Hugsa að það sé litlu betra en að vera „virkur í athugasemdum“. Já, ég er steinhættur að skrifa í netblöð útaf þessu uppnefni. Það er spurning hvort það er nokkuð kúl lengur að vera fésbókarnotandi. Þegar skyrið varð að skyr.is þá steinhætti þetta .is að vera kúl.

Auk þess legg ég til að allar byggingar á Ásgautsstaðalandi verði jafnaðar við jörðu. (Ekki.)

IMG 0036Kaffitár.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband