Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2013

1933 - Mitt daglega blogg

Nú eru leikar að æsast í pólitíkinni, og ég er hræddur um að æsingurinn sé fullmikill í mörgum. Það er ekki lífsspursmál hver lýgur mest í undirbúningi kosninga eða hvaða flokkur er bestur. Ég held að allir vilji vel sem bjóða sig fram. Svona er ég nú saklaus. En einhverjir verða víst að tapa og aðrir að vinna. Oft er þó skemmtilegt að heyra skýringar eftirá á sigri og töpum. Áróðurinn og lætin síðustu vikurnar fyrir alþingiskosningar er samt fremur leiðinlegur.

Vissulega stefnir í stórsigur Framsóknarflokksins samkvæmt skoðanakönnunum. Yfirleitt eru þær nokkuð réttar. Það er samt alltof grunnfærnisleg skýring að segja að þeir kjósendur sem þann flokk ætla að kjósa séu bara svona vitlausir. Lágmark er að viðurkenna að áróður þeirra Framsóknarmanna sé betur heppnaður en andstæðinganna. Sú frétt að skuldavandi heimilanna sé það sem flestir álíta aðalkosningamálið kemur mér nokkuð á óvart. Ég hefði haldið að sá skuldavandi væri ekki einu sinni sjálfstætt vandamál. Miklu fremur hluti af öðrum.

Mér finnst ekki taka því að láta hið pólitíska ljós mitt skína. Sjálfum finnst mér það þó ansi skært. Ótrúlega oft er það talsvert líkt bloggljósi Egils Helgasonar. Veit ekki hvort það eru meðmæli með mér eða Agli. Kannski hvorugum.

Lengi má snurfusa texta. Bloggið er góð æfing í að gera ekki alltof mikið af því. Sumir virðast að vísu ekki einu sinni lesa bloggin sín yfir. Margir gera það þó og ég er einn af þeim. Það er næstum endalaust hægt að lagfæra orðalag og þessháttar. Með tilkomu bloggsins er þessari sótt þó markaður styttri tími en öðrum skrifum. Einskonar rithöfunda hlýtur að mega kalla góða bloggara þó þeir gefi kannski aldrei neitt út nema bloggin sín. Hér er víst við hæfi að ég flýti mér að láta þess getið að ég álít sjálfan mig allsekki nema miðlungsbloggara, þó ég bloggi kannski ögn meira en meðaltalið segir til um.

Að byggja þjóðfélag er ekkert smámál. Það verður ekki til af sjálfu sér. Áður fyrr meðan samband milli fólks var af skornum skammti voru það fáir menn sem réðu öllu. Eða a.m.k. öllu sem þeir vildu ráða. Fjölmiðlar voru þá ótrúlega valdamiklir. Í dag er því alls ekki svo varið. Það eru ótal margir sem geta komið skoðunum sínum á framfæri og gera það. Gallinn er bara sá að svo fáir heyra það. Stjórnmálaþátttaka fólks er alltaf að aukast. Sennilega skiptir netið þar mestu máli.

Þessvegna er það svo mikilvægt að hverskyns stjórnsýsla sé opin og aðgengileg öllum. Ekki má heldur eyðileggja möguleika „litla mannsins“ til að kjafta frá eins og sagan segir að litli putti hafi gert. Netið og nanótæknin er ein sú mesta bylting sem orðið hefur lengi. Hugsanlega bæði mikilvægari en iðnbyltingin og prentlistin. Máttur netsins á þó að mestu eftir að koma í ljós enda er það varla fyrr en á þessari öld sem það hefur náð verulegri útbreiðslu. Nauðsynlegt er að ungt fólk kynnist strax í skólanámi nýjustu tækni og vísindum.

IMG 2936Fjögur dekk.


mbl.is Ungmenni forrituðu vélmenni til slagsmála
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

1932 - Stjórnmál og þess háttar

OK, það virðist vera sem ég geti valið á milli þess að kjósa Guðmund Steingrímsson, Bjarna Benediktsson, Árna Pál Árnason, Eygló Harðardóttur, Ögmund Jónasson, Margréti Tryggvadóttur, Birgittu Jónsdóttur og Lýð Árnason. Ekki dónalegt það. Svona er að vera búsettur í Kópavogi. Þetta er bara fólkið sem er í efstu sætunum í Suðvestur-kjördæmi hjá þeim framboðum sem ég hef fundið. Sjálfsagt eru þau mun fleiri. Ég er ekkert uppfullur af valkvíða því ég reikna með að geta útilokað allmörg framboð. Jafnvel Sturlu Jónsson, en mér finnst það mjög hraustlega gert hjá honum að vera heill stjórnmálaflokkur.

Íris Erlingsdóttir heldur því fram í grein sem hún nefnir: „Hvert fór fortíð Framsóknar?“ http://www.dv.is/blogg/iris-erlingsdottir/2013/4/5/hvert-for-fortid-framsoknar/   að á vefsvæði Framsóknarflokksins sé búið að þurrka næstum allt út sem eldra er en frá 2009. Þessu trúi ég varla, en nenni ekki að gá. Er eiginlega alveg sama því ég ætla alls ekki að kjósa þann flokk. Einu sinni var sagt um hann að hann væri opinn í báða enda. Mér hefur alltaf fundist hann afskaplega tækifærissinnaður og áður fyrr var hann afar hallur undir bændaforystuna og samvinnuhreyfinguna auk þess að vera spilltur mjög. Hef alltaf haft mikla samúð með verkalýðnum og er þar af leiðandi talsvert vinstri sinnaður. Sennilega krati.

Margir (eða a.m.k. sumir) virðast halda að Framsóknarmenn séu að lofa upp í ermina á sér þegar þegar þeir lofa að skuldir fólks verði lækkaðar svo og svo mikið. (Kannski er erfitt að gera það svona eftirá – en Sigmundur lætur ekki smáatriði stöðva sig.) Það getur vel verið að þetta séu ermaloforð, en það skiptir bara engu máli. Verði einhverjir fyrir vonbrigðum er ekki hægt að refsa flokknum fyrr en eftir fjögur ár.

Í mínum huga koma, eins og er, einkum tveir aðilar til greina með að fá mitt atkvæði í komandi kosningum. Það eru Píratar og Lýðræðisvaktin. Á samt eftir að skoða málin betur og það liggur í rauninni ekkert á að ákveða sig. Ný skoðanakönnun Fréttablaðsins og Stöðvar 2 var birt í morgun og þar er mér tjáð að Framsóknarflokkurinn fái um 40 prósent atkvæða. Um það hef ég bara ekkert að segja og geri ráð fyrir að skýringarnar séu margar á uppsveiflu Framsóknar og afhroði Sjálfstæðisflokksins sem hvorttveggja kemur eflaust sumum á óvart. Held að margir hafi hinsvegar gert ráð fyrir að sú ríkisstjórn sem nú situr, riði ekki feitum hesti frá þessum kosningum.

Sennilega er fólk ekki eins nýjungagjarnt og það lætur í veðri vaka. Mér finnst hinn gríðarlegi stuðningur sem Framsóknarflokkurinn fær í skoðanakönnunum undanfarið vera best skýrður með því að fólki finnist að fjórflokkurinn eigi að vera áfram við völd. Eflaust kjósa margir ólíkt því sem þeir eru vanir án þess að taka það stóra skref (sem þeim finnst) að kjósa útfyrir fjórflokkinn. Fróðlegt mjög verður að sjá hvað kemur uppúr kjörkössunum í lok þessa mánaðar.

Þetta blogg mitt er að verða ansi pólitískt. Eiginlega er það skaði. Samt er það á margan hátt afsakanlegt því svo stutt er orðið til kosninga. Fésbók, blogg, Internet, bækur, saga, tölvur og tæki er samt það sem ég hef að mörgu leyti mestan áhuga á. Vissulega er þar um margt að ræða sem vel mætti skrifa um, en pólitíkin er bara svo spennandi núna. Það eru samt margir sem engan áhuga hafa á henni og hundleiðist allt sem henni tengist. Hrunið og þau versnandi lífskjör sem mjög margir (jafnvel flestir)  verða að búa við eftir það, hefur samt aukið stjórnmálaáhuga fólks. Miklu fleiri virðast þurfa að tjá hug sinn opinberlega en áður var. Kannski er samt ekkert meira lesið, en baráttan um lesendurna bara mun harðari.

IMG 2930Hús.


1931 - Reynisfjara, kosningar o.fl.

Reynisfjara er hættuleg. Þetta skrifa ég bar til að erfiðara sé að ásaka mig fyrir misnotkun á þessari hugmynd Moggabloggsguðanna að kalla athugasemdir við fréttir blogg og leyfa svo að athugasemdir væru gerðar við þau. Man ekki eftir að hafa komið í Reynisfjöru en vinsælt er, bæði á baðströndum og víðar, að hlaupa undan haföldunni. Auðvitað getur það verið hættulegt eins og allur óvitaskapur er.

Jafnvel þeir sem vel eru að sér um málbeitingu deila oft um einstök orð og orðasambönd. Þetta segja þeir gjarnan sér til afsökunar, sem aldrei skrifa neitt. Mér finnst að eins megi nota þá staðreynd til marks um það að ekki sé nein skömm að því að skrifa vitlaust. Þeir sem þykjast vita betur gera oft aukaatriði að aðalatriðum með því að deila á þau. Því aðeins finnst mér hægt að gera verulegar athugasemdir við málfar að það sé í opinberum miðli sem mikið er notaður. Þó einhverjir beiti málinu öðruvísi en maður sjálfur í bloggi eða á fésbók finnst mér það alger orðhengilsháttur og málfarsfasismi að vera að gera athugasemdir við það, ef vel er hægt að skilja það sem sagt er eða reynt að segja.

Úrslit næstu kosninga geta vel snúist um það hvort mynduð verður hægri eða vinstri stjórn. Allt gæti eftir kosningarnar snúist um það hvernig Sigmundi Davíð er strokið. Ég efast ekkert um það að úrslit kosninganna verða eitthvað í líkingu við það sem skoðanakannanir hafa sýnt að undanförnu. Sennilega myndar Framsóknarflokkurinn stjórn eftir kosningar, en úrslitin geta hæglega ráðið því hvort það verður til hægri eða vinstri. Ekki Sigmundur og ekki flokkurinnn. Ef tap Sjálfstæðisflokksins heldur áfram gæti sú stjórn eflaust orðið með Samfylkingunni og Vinstri grænum. Allt bendir til að fjórflokkurinn verði áfram mjög öflugur eins og verið hefur og fátt breytist. Þó er ég að vona að heldur dragi úr áhrifum hans og spillingunni þar með.

Mér er náttúrulegt að efast um allt. Þegar ég heyri tölur lesnar um kynferðislegt ofbeldi og að þær séu frá Stígamótum komnar segir eðli mitt mér að efast um að þær séu réttar. En um leið verð ég að viðurkenna að þó þær séu e.t.v. smávegis ýktar eru þó enn meiri ýkjur að láta eins og kynferðilegt ofbeldi sé ekki til. Þannig höfum við samt hagað okkur lengi vel. Einhverjir þjáðust mikið áður fyrr, þó á yfirborðinu væri allt slétt og fellt.

Stóra fíkniefnamálið. Mikið er rætt í fréttum um stóra fíkniefnamálið, en eru þau ekki öll stór? Ég er orðinn alveg ruglaður á þessari umfjöllun og finnst stóru fíkniefnamálin vera orðin svo mörg að kannski væri rétt að einkenna þau öðru vísi. Kannski bara eins og göturnar í Þorlákshöfn i eina tíð. „Ég er víst flæktur í fíkniefnamál W.“ „Nú, ertu í framboði fyrir W-listann, þá hlýtur að vera áhætt að lána þér lyfjakassann smástund.“

Merkilegt er að Gúgli virðist hafa svipað álit á fésbókinni og ég. Það sem skrifað er á hana er ekki hægt að finna með GOOGLE leitarvélinni, en allt sem sett hefur verið á Moggabloggið getur Google.com fundið eins og skot. Þetta á að minnsta kosti við um það sem ég skrifa annars vegar á fésbókina og hins vegar á Moggabloggið. Sennilega er hægt að finna allt sem skrifað hefur verið á fésbókina þó ég kunni það ekki. Öll netnotkun fólks er þó skráð einhvers staðar. Er strax farinn að vorkenna sagnfræðingum framtíðarinnar. Mikilvægasta kunnátta þeirra getur hæglega orðið að kunna nógu vel að leita í gömlum netfærslum. Ég er t.d. sannfærður um að hægt væri að setja saman langa sögu um mig þó bara væri stuðst við netið, en skelfing væri hún ófullkomin.

Eftirfandi grein skrifaði ég í janúar 1984 í Borgarblaðið og birti reyndar á blogginu mínu fyrir rúmu ári síðan (14. Janúar 2012) Þetta er það síðasta í þessu bloggi svo þeir sem eftir þessu muna þurfa ekki að lesa lengra en að greininni. En af hverju er ég að birta hana aftur? Veit það eiginlega ekki. Er ástandið kannski dálítið svipað ennþá?

Kveikjan að því að ég birti þessa grein einu sinni enn er sú að ég las nýlega grein um fornfálegan búnað á skrifstofu þjóðskrárinnar. Sjálfur heiti ég Sæmundur Steinar Bjarnason en á einhverjum tímapunkti tapaðist miðnafnið. Sennilega vegna plássleysis hjá þjóðskránni. Systir mín Jóhanna Sigrún Bjarnadóttir hlaut svipuð örlög. Jóhönnunafnið glataðist vegna þess að hún er yfirleitt kölluð Sigrún. Kannski væri samt hægt að kippa þessu í liðinn. En svona er greinin:

Eru eiginkonur húsdýr?

Eitt er það ritverk íslenskt, sem út kemur árlega í mörgum og stórum bindum. Útgáfa þess frá 1984 kostar 10500 krónur. Allra Íslendinga eldri en 16 ára er getið í þessum bindum, hvorki meira né minna. Ekki er verk þetta oft til umræðu manna á meðal, þó vita vafalaust flestir að það er til. Hér á eftir verður fjallað lítillega um þessa merku bók.

Tæplega velkist nokkur í vafa um hvaða bók þetta er. Jú, auðvitað þjóðskráin, eða réttara sagt nafnnúmeraskrá þjóðskrárinnar.

Í þessu að ýmsu leyti ágæta ritverki, veður karlremban satt að segja uppi og ekki hef ég orðið þess var að kvenréttindakonur fordæmdu það sem vert væri.

Fleira er það og í sambandi við þessa bók sem athygli vekur, eins og tildæmis það að mikill meirihluti (líklega um eða yfir 70%) allra nafna í þessu riti sem þó á að heita grundvallarfræðirit eru rangt rituð, og á ég þar við að brodda vantar yfir stafi, é er skrifað je o.s.frv., en íslensku stafina þ æ ð og ö er þó þarna að finna.

Í bókinni má segja að litið sé á eiginkonur sem húsdýr, eða í besta falli sem börn. Nöfn þeirra eru (eins og nöfn barna undir 16 ára aldri) inndregin um eitt stafabil. Komið skal þannig í veg fyrir að eiginkonum og börnum sé ruglað saman við venjulegt fólk. Í sérstökum dálki aftast á hverri blaðsíðu er síðan aftan við nafn hverrar eininkonu getið um hver á viðkomandi kvenpersónu. Þ.e.a.s. þar er að finna nafnnúmer eiginmanns hennar. Hliðstæðu er ekki að finna hjá eiginmönnum.

Talnalykill er notaður til að tákna hjúskaparstétt fólks. T.d. hvort fólk er fráskilið, ekklar, ekkjur o.s.frv. Einn flokkurinn, sá nr. 8 vekur mesta athygli, en hann er yfir konur sem gifst hafa varnarliðsmönnum. Jafnvel þó verið geti að einhverjar hagkvæmnisástæður séu fyrir þessu, er þetta smekklaust og ber vott um fordóma. Það er ekki eins og allt kvenfólk sem gifst hefur útlendingum sé merkt svona, nei nei bara þær sem hafa lagst svo lágt að giftast varnarliðsmönnum. Og auðvitað eru engar hliðstæðar merkingar við nöfn karlmanna.

IMG 2929Svalir.


mbl.is Í hættu í briminu við Reynisfjöru
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

1930 - Ný fuglaflensa o.fl.

Ekki er nóg með að Norður-Kórea ógni heimsfriðnum með kjarorkuvopnum, heldur berast nú frá Kína upplýsingar um nýja og skæða fuglaflensu sem breiðst gæti út með ógnarhraða. Best er sennilega fyrir hinn óbreytta Vesturlandabúa að hlusta lítið á alla þessa austrænu heimsendaspádóma.

Hingað til hefur verið samræmi á milli þeirra talna sem birtast á vinsældalista  Moggabloggsins og þess súlurits sem er við hliðina á því á stjórnborðinu. Nú er það fyrir bí. Þannig hefur það verið í nokkra daga. (Já, ég er alltaf að kíkja á vinsældirnar.) Ekki er einu sinni svo (virðist mér) að súluritið sé alltaf hærra eða alltaf lægra heldur virðist það geta verið allavega. Mér dettur í hug að ef einhver sem leiðrétt getur þetta og þessar línur sér, þá væri rétt að athuga það. Er annars nokkuð sama. Það hafa fyrr komið undarlegar tölur þarna. Samt treystir maður þessu og lætur það hafa áhrif á sig.

Þegar talað er um fjórflokkinn er venjulega átt við Framsókn, Sjálfstæðisflokk, Samfylkingu og Vinstri græna. Skil vel það fólk sem velur Framsókn helst af þessum fjórum flokkum. Margir vinstri menn (og auðvitað hægri menn ekki síður) álíta að þeir flokkar sem verið hafa í ríkisstjórn undanfarin fjögur ár eigi ekki skilið að fá fylgi sitt endurnýjað. Ef velja skal á milli Framsóknar og Sjálfstæðisflokks (þ.e. ef fólk vill alls ekki yfirgefa fjórflokkinn, sem er auðvitað skiljanleg vanafesta) er ekkert einkennilegt við það að Framsóknarflokkurinn verði fremur fyrir valinu.

Einn er sá Moggabloggsmaður sem skrifar af miklu viti um pólitík (finnst mér) og það er Ómar Ragnarsson. http://omarragnarsson.blog.is/blog/omarragnarsson/ og ég hvet alla sem hingað flækjast til að kynna sér bloggið hans. Sérstaklega finnst mér það skemmtilegt sem hann segir um „Ófeig“. Ekki er ég hissa þó hann sé efstur á vinsældalista Moggabloggsins. (400 listanum). Veit samt ekki hvað hann kemur til með að kjósa. Líklega Samfylkinguna þó.

Góðir hlutir gerast hægt.Vitundarvakning sú sem Inernetið er að valda um allan heim verður með tímanum áhrifameiri en nokkur bylting hefur nokkru sinni verið. Ég hika oft ekki við að skipta fólki í hægri og vinstri enda er það á margan hátt eðlileg skipting. Á meðan andstæðingar frjálsra upplýsinga um næstum allt mögulegt fela sig á bak við stór fjölþjóðafyrirtæki og lyfjarisa hvers konar, mun allur sá fjöldi netverja sem umfram allt vill opna og skilvirka stjórnsýslu grafa undan þeim þröngsýnu í fjórflokkum hvers lands sem flestu eða öllu stjórna í raun. Í fyrstunni hefur það kannski ekki mikil áhrif á stjórnmálin, en mikill fjöldi af ungu fólki fylgir þessari stefnu og mun ekki gefast upp og þeirra baráttumál sigra auðvitað að lokum. Kjósið píratana.

Ekki hvarflar að mér að kjósa neinn af fjórflokkunum. Kjósa mun ég þó og gæta þess að ógilda ekki atkvæði mitt.

Að flugfarþegar verði rukkaðir eftir þyngd er sennilega það sem koma skal. Lengi hefur tíðkast að láta hvern flugfarþega hafa með sér vissa þyngd af farangri og rukka jafnt fyrir það sem framyfir er. Að einhverju marki er hægt að nota þetta um fólk líka þó viðkvæmara geti það orðið. Margar aðferðir væri hægt að nota og gæta þarf þess að móðga fólk ekki með þessu. Ósanngjarn getur munur á þyngd orðið þar sem miklu getur munað á kostnaði flugfélagsins eftir þyngd og umfangi farþeganna. Fullkomnum jöfnuði er þó líklega ekki hægt að ná í þessu efni.

IMG 2922Tré á verði.


mbl.is Finna þarf sökudólginn fljótt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

1929 - Svei mér þá

Mér finnst nú of langt gengið að fremja sjálfsmorð útaf raunveruleikaþætti í sjónvarpi. Tekur fólk virkilega þessa vitleysu svona alvarlega. Þetta er alveg örugglega ómerkilegasta, ódýrasta, lélegasta og vitlausasta sjónvarpsefni sem til er og er þá langt til jafnað.

Hver skjótti hann? Spurði barnið þegar það frétti lát afa síns. Auðvitað hafa börnin það eftir sem fyrir þeim er haft. Sennilega er þeim ekki hollt að heyra um öll þau dráp og limlestingar sem stöðugt eru í fréttum. En hver á að koma í veg fyrir það? Sennilega skólarnir eins og flest annað. Annars hafa þau ekki mikinn áhuga á fréttum sem betur fer. Öfunda börn dagsins í dag og vorkenni þeim um leið. Þau fá allt upp í hendurnar samanborðið við okkur, sem erum að yfirgefa þennan heim, um leið og þau kynnast vonsku heimsins í gegnum Tomma og Jenna og fréttirnar í sjónvarpinu.

Mér finnst lýðurinn láta illa. Það er engin ástæða til að láta svona þó allt fari ekki að vilja manns. Er ekki allt í lagi þó margir flokkar bjóði fram? Frambjóðendurnir gera þá ekki annað af sér rétt á meðan það er verið að munstra þá. Og þó sprengt hafi verið norður í landi fyrir löngu síðan er engin ástæða til að sprengja neitt núna. (T.d. möguleika á samstarfi til að snúa á kjörstjórnina sem við fáum náðarsamlegast að hafa í boði fjórflokksins.)

Í alvöru talað finnst mér allt í lagi þó eitthvað af atkvæðum falli dauð niður. Þau styðja þó ekki fjór(eðafimm)flokkinn á meðan nema í mesta lagi óbeint. Frekar vil ég láta atkvæði mitt falla steindautt til jarðar og verða til einskis gangns en að fara að styðja fjórflokkinn. Hann hefur ekki breyst það mikið. Nýtt fólk er komið í brúna hjá Framsókn og sá flokkur nýtur þess. (Auk þess sem það virðist ganga vel í fólk að næla sér í svolítið af peningum (sem alltaf vantar hvort eð er) frá helvítis hrægömmunum (útlendingunum)). Þeir sem áður riðu öllu á slig um árið ráða enn of miklu hjá Sjálfstæðisflokknum. Kýs sennilega Píratana. (Sko mig – er bara farinn að nota tvöfalda sviga – meira má það samt ekki vera.)

Það var aldrei líklegt að alþingi gæfi réttinn til að hringla með stjórnarskrána frá sér þegjandi og hljóðalaust. Það verður að gera það með illu og það tekur tíma. Líklega er ESB fyrir bí í þessari atrennu, en í næstu tilraun tekst það. Þá verða orðin kynslóðskipti hjá Sjálfstæðisflokknum og hann orðinn ESB-flokkur til að halda bísnessmönnunum þar. Þá flýgur umsóknin í gegn.

Var að enda við að lesa í kyndlinum mínum bók um Úteyjarmálið eða réttara sagt um sálfræðilegar rannsóknir á Anders Behring Breivik. Athyglisverðar mjög. Fjallað er líka um réttarhöldin yfir honum og hvort hann hafi verið geðveikur í skilningi laganna þegar hann framdi hryðjuverk sín í júlí 2011.

IMG 2921Framkvæmdir á fullu.


mbl.is Framdi sjálfsvíg eftir lát sjúklings
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

1928 - Fyrsti apríl

Í dag er fyrsti apríl. Þessvegna er merkilegt að hlusta á fréttir. Fréttin um rotturnar á Reykjanesi uppfyllir öll skilyrðin til að vera aprílfrétt útvarpsins. Aftur á móti held ég að Novartis fréttin sé rétt.

Er hættur að ímynda mér að ég sé merkilegastur allra. Við það verður miklu einfaldara að skrifa um allt mögulegt. Aðallega þó að vaða elginn. Fíflinu skal nefnilega á foraðið etja.

Svona væri hægt að halda endalaust áfram. Gallinn er bara sá að sennilega mundi enginn nenna að lesa það. Þetta er samt ágætis dagbókarhugmynd. Skrifa bara nógu andskoti mikið þá nennir enginn að lesa það. Athugist betur við tækifæri.

Sá áðan á fésbókinni að einhver auglýsti X-J. Man bara ekki fyrir mitt litla líf hver á þann bókstaf. Aumingja pínulitlu flokkarnir. Eru kjósendur tómir „analfabetar“ og þarf alltaf að nota einhvern bókstaf ef vera skyldi að það væri það eina sem væri hægt að innprenta þeim. Svei mér þá. Er þetta það eina sem fólki dettur í hug. Má ekki bara nota mynd af belju eða sjóræningja eða einhverju öðru.

Samstarf af einhverju tagi kemur til greina af hálfu litlu framboðanna en þó er ég ekki viss um að af því verði. Tólf dagar eru sagðir til stefnu í því máli. 

Sá mynd í DV sem sýndi meðaltalsprósentur af skuld vs eign í íbúðarhúsnæði á ýmsum stöðum á landinu. Þessar prósentutölur virtust vera frá 24% uppí 76%. Algengast virtist vera að prósentutalan væri um 50%. Fyrirsögnin var eitthvað á þá leið að íbúar á Seltjarnarnesi og í Garðabæ ættu vel fyrir skuldum sinum en svo væri ekki á Suðurnesjum. Það getur vel verið að þetta tákni einmitt það sem DV var að gefa í skyn, en ég er ekki sannfærður um að það sé eina ástæðan. Það hve mikið hefur verið byggt eða selt nýlega samanborið við þær eignir sem fyrir eru gæti vel haft mikil áhrif á þessar tölur. Það er samt sláandi hve tölurnar eru háar á Suðurnesjum.

Ég er farinn að fá svolítið af illskiljanlegum athugasemdum. Af hverju skyldi það vera? Ekki virðast þær auka á vinsældir bloggsins míns. En mér er sama um það. Þessar athugasemdir eru svosem ekki nein skemmdarstarfsemi og kannski skilja sumir þær betur en ég. Ekki mega þær þó verða mjög margar við hvert einstakt blogg. Þá fara þær nú að verða hálfgerð misnotkun.

IMG 2918Skipsstefni?


mbl.is Bjóða ekki sameiginlega fram
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband