Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2013
18.4.2013 | 23:21
1943 - Free Country
Fór í sjúkraþjálfun í fyrsta skipti í morgun. Eiginlega var það ekkert sögulegt. Ágætt samt að láta ókunnan kvenmann fulhnúa sig og það lá við að hún kæmi við hláturskeppinn í mér. Hann er samt ekki alveg nógu nálægt hryggnum til þess.
Finn aldrei neitt til að linka í á mbl.is núorðið, en mér er alveg sama. Það skiptir mig eiginlega engu máli hvort það eru 50 eða 500 sem lesa þetta. Það eru áhrifin sem linkurinn getur valdið. Þetta er ég búinn að reikna út. Alveg einn og sjálfur.
Bókin sem ég er að lesa núna í Kyndlinum er ágæt. Hún fjallar um tvo náunga sem ákveða að ganga (eða hjóla) frá syðsta odda Englands (Lands End) og til nyrsta hluta Skotlands. Þeir fara af stað í nærbuxum einum fata og eiga að sníkja sér allt sem þeir þurfa á leiðinni. Ekki mega þeir fá far í bílum en hjóla mega þeir, takist þeim að sníkja sér hjól. Þetta gengur mjög vel og bókin er skemmtilega skrifuð.
Free Country er bókin kölluð og að sjálfsögðu var hún ókeypis á Amazon. Ég kaupi ekki annað!! Höfundurinn heitir George Mahood og hann er hægt að finna á Facebook undir því nafni: http://www.facebook.com/GeorgeMahood?fref=ts
Greiningadeildir bankanna eru að reyna að gera sig gildandi aftur. Gallinn er bara sá að enginn trúir þeim lengur. Það er líka alveg ástæðulaust, því fyrir Hrunið voru þær langt úti í móa. Ekkert var að marka það sem þær spáðu. Egill Helgason hefur alveg rétt fyrir sér í því að akkur væri í því að óháð stofnum sæi um spádóma alla og hagfræðilega útreikninga. Hún mætti semsagt hvorki vera háð seðlabankanum, flokkunum eða ríkisstjórninni svo ég tali nú ekki um gríningardeildir bankanna, sem ætti tafarlaust að leggja niður.
Ég er ekki frá því að mér sé að fara fram í bloggskrifunum. Finn samt meira fyrir því en áður að þetta er svosem ekki um neitt. Einu sinni fannst mér flest af því sem ég skrifaði afar merkilegt. Þessi tilfinning er að mestu horfin.
Áslaug fór á fund í tómstundamálarafélaginu áðan. Reyndar heitir það víst félag frístundamálara og hefur meira að segja sína eigin vefsíðu: http://www.fristundamalarar.is/sidur/forsida/
Mér leiðist þessi sífelldi lestur í fréttum hjá RUV á því hvaða þingmenn hafa verið kosnir í hverju kjördæmi og hverjir hafa fallið samkvæmt einhverri skoðanakönnun. Of mikið má af öllu gera. Skoðanakannanir eru líka orðnar fullmargar. 2-3 á hverjum degi sem tíundaðar eru fram og aftur í öllum fréttatímum er fullmikið.
Páskaegg?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.4.2013 | 23:46
1942 - Vals tómatsósa
Jæja, þá er komið að fæðingarárinu mínu. Svona er ég nú búinn að skrifa mörg blogg um dagana (cirka). Kannski eru þau alltof mörg. Ætti ég kannski að spara mig svolítið? Það er eiginlega orðinn siður hjá mér að blogga á hverjum degi. Þeir sem þetta lesa geta bara sjálfum sér um kennt. Ég er samt hættur að líta á það sem einhverja kvöð að blogga alla daga og alltaf á sama tíma. Einu sinni gerði ég það nefnilega.
Ég deili ekki þeim áhyggjum með mörgum öðrum að við höfum alið þá kynslóð sem nú er að taka við upp í of mikilli heimtufrekju. Hinsvegar er það hugsanlegt að yngsta kynslóðin (sú þriðja eða næsta) sé of frek. Með öðrum orðum, ég held að Hrunið (með stórum staf) sé alls ekki það versta sem fyrir gat komið. Held að við getum átt eftir að lenda í enn verri hremmingum. Sú ógn gæti tengst veðurfari. Hugsanlega verður hún að því leyti lík Hruninu mikla að um heimskreppu verði að ræða en verst verði hún á norðurslóðum.
Frá þessu svartagallsrausi yfir í ánægjulegri hluti. Ef svo fer sem horfir er ekkert sérstakt sem mælir á móti því að sumarið í sumar verði mjög hlýtt og gott. Ég er allavega farinn að láta mig dreyma um vorið og sumarið. Það er að vísu satt að auðveldara er að klæða af sér kulda en hita, en mikið skelfing eru myrkrið og kuldinn leiðinleg fyrirbrigði. Einkum ef þau fara saman. Réttast væri að banna með öllu ísingu og snjókomu. Hringsnúninginn um sólina getum við víst ekki haft áhrif á.
Sá áðan út um gluggann flutningabíl sem aulýsti mest seldu tómatsósu í heimi. Ef ég hefði verið spurður að þessu einhverntíma fyrir þónokkru síðan hefði ég sagt að það væri áreiðanlega Vals tómatsósa. Þekkti ekki aðra á þeim tíma, en góð var hún.
Eitt sinn lagði ég það í vana minn að athugasemdast með vísum (ferskeytlum). Þær draga jafnan dám af tilefninu, sem ekki er jafnauðvelt að sveigja til og í bloggi. Þessvegna blogga ég.
Hugmyndin var að minnast ekki á kosningar í þessu bloggi og þarmeð gera það einstakt (a.m.k. meðal þeirra sem ég les) en nú er það víst ekki hægt lengur. Skefjalaus kosningaáróður er nú rekinn um allar þorpagrundir. Ég reyni að taka sem minnst mark á honum en það gengur illa.
Af einhverjum ástæðum hef ég ekki mikla trú á skoðanakönnunum sem Stöð 2 og Fréttablaðið framkvæma. Mesta trú hef ég á skoðanakönnunum frá Capacent Gallup og MMR virðist líka vera ágætt fyrirtæki. Mín tilfinning er að breytingar séu ekki miklar frá síðustu könnunum. Veit að ríkisstjórnarflokkarnir eru að tapa og Framsókn og litlu flokkarnir (a.m.k. sumir hverjir) að bæta við sig. Held ekki að Sjálfstæðisflokkurinn sé að rétta úr kútnum þó mörgum hafi líkað vel frammistaða Bjarna Benediktssonar um daginn. Held að von sé á Gallup-könnun á morgun eða a.m.k. fyrir helgi.
Dettur í hug varðandi myndirnar sem ég birti með hverju bloggi (af vananum einum saman) hvort hægt er að sjá útúr þeim einhvern ákveðinn stíl sem þessvegna gæti harmónerað við bloggin mín. Stundum eru þær í góðu samræmi við það sem ég skrifa, en stundum allsekki finnst mér. Þegar ég fer út að labba leyfi ég myndavélinni stundum að koma með. Tek svo kannski 20 myndir eða svo og vel þær skástu úr til birtingar hér. Oftast eru þær semsagt nokkuð nýlegar og þar að auki úr nágrenninu, nema þegar ég fer eitthvað. En nú er ég farinn að skrifa um einskisverða hluti finnst áreiðanlega mörgum, svo ég er hættur því.
Anna í Holti var einhverntíma að blogga um hve vandræðalegt það gæti verið að vita ekki hvort sá sem maður væri að tala við hefði lesið bloggið manns. Þá var hún nýkomin úr einhverri flúðasiglingu minnir mig og búin að blogga um það. Ég er búinn að finna ráð við þessu. Maður á aldrei að muna neitt eftir því sem maður hefur bloggað. Best er að láta eins og þetta gerist allt ósjálfrátt. Með auknu bloggi finnst mér ég líka hafa minna að segja í mannfagnaði allskonar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
16.4.2013 | 21:21
1941 - Nennessuekki
Einhverjar hugleiðingar um mál sem fjallað er um á mbl.is virðist vera lykillinn að vinsældum á Moggablogginu, en hvers virði eru slíkar vinsældir? Mér finnst þær ekki mikils virði og snúast um það eitt að komast sem efst á einhvern lista sem birtur er daglega og kallast 400-listinn. (50 er samt defáltið). Nennessuekki. Aftur á móti er blogg-gáttin alveg óvitlaus hugmynd. Þar er ég líka og stundum jafnvel á meðal þeirra bestu. Mér finnst samt alveg vera þess virði að vera á Moggablogginu því þar klikkar fátt. Þar að auki er einhver fjöldi tölvufróðra manna sem vinnur þar og leystir þau vandamál sem upp koma.
Pólitíkin er alveg að gera mig gráhærðan og var hárið á mér og skeggið þó orðið hvítt fyrir. Mér finnst þessi söngur um hver sé að slátra hverjum og upprifjun á því sem frambjóðendum kann að hafa orðið á í fortíðinni vera orðin hundleiðinleg. Það er eiginlega svo margt að gerast í veröldinni að það tekur því ekki að vera að þessu væli. Auðvitað er samt hægt að halda því fram að einhverju máli skipti hvaða nesti menn hafa með sér við stjórn landsins næstu fjögur árin. Nennessuekki.
Lausaganga hunda er víða bönnuð. Ef farið er að tala við hunda-aðdáendur um það fara þeir oft samstundis að tala um ketti. Þess vegna er varasamt að gera það. Munið bara að geltandi hundar bíta ekki. Þeir eru nefnilega uppteknir við að gelta og ganga í augun á eiganda sínum eða meðreiðarsveini. Hundar sem eru lausir úti að ganga væru áreiðanlega búnir að finna sér fórnarlamb ef þeir væru grimmir. Sumir hundar þykjast ráða yfir ákveðnum svæðum og þá er bara að virða það með því að taka sveig framhjá þeim. Annars eiga hundar ekki að vera lausir.
Eftirfarandi eru fáein fótmæli úr Rafritinu sáluga og hér er linkurinn þangað: http://snerpa.is/net/rafrit/raf.htm
Prentvilla?. Útilokað. Módemið mitt er með leiðréttingarútbúnaði.
Námskeið um tímaferðalög var haldið fyrir hálfum mánuði.
Munnlegur samningur er ekki virði pappírsins sem hann er skrifaður á.
Kemur stálull af stálkindum?
OS/2 = 0
Ég er ekkert búinn að tapa vitinu, það er backup hérna einhvers staðar.
Ef ég bjarga hvölunum, hvar á ég þá að láta þá?
Aldrei tilkynnir DOS "EXCELLENT command or file name".
Ef verkið heppnast ekki í fyrstu tilraun skaltu eyða öllum ummerkjum um að þú hafir reynt.
Farðu að mínum ráðum, ég þarf ekki á þeim að halda.
Hreint skrifborð er merki um troðfullar skrifborðsskúffur.
File not found. Ég sæki bara eitthvað sem *mér* finnst áhugavert.
Dauðir eru 30 sinnum fleiri en lifendur.
Sá sem brosir í erfiðleikum hefur fundið einhvern til að kenna um.
Hvert erum við að fara? Og af hverju erum við í þessari körfu?
Skelfing er fésbókin að verða leiðinlega svona í tilefni af kosningunum. Kannski hef ég svona lélegan vinaveljara en þeir virðast næstum allir helteknir af kosningaveikinni. Held að það sé jafnvel verra að hafa flokkana svona marga. Þá virðist þurfa að mæla með svo mörgum. Hvernig skyldi lífið vera ef engar væru kosningarnar. Reyndar skipta kosningarnar sjálfar minnstu máli. Það er þessi gír sem besta fólk dettur í þegar þær nálgast sem er næstum óþolandi.
Undarlegur andskoti að menn skuli helst ekki geta stundað heilbrigða og holla útivist án þess að þykjast vera jeppafrík, veiðimaður eða golfari. Mér finnst alveg nóg að vera úti að ganga og ekki þurfa að þykjast vera eitthvað annað en maður er í raun og veru. Fyrir marga held ég að jökla-aksturinn, sportveiðimennskan og hlaupin á eftir golfkúlunum séu bara afsökun fyrir því að vera úti. Engin raunveruleg sannfæring fylgi þessum gerfiáhuga.
Svanur, eða er þetta kannski álft?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
16.4.2013 | 14:33
1940 - Þau tíðkast nú hin breiðu spjótin
Ráðist er á Pírata-greyin af mikilli heift, að mér finnst. Þeir geta þó huggað sig við það að fleiri hafa brogaða fortíð en þeir einir. Gísli Ásgeirsson birtir t.d. eftirfarandi grein á sínu vinsæla bloggi: http://malbeinid.wordpress.com/2013/04/14/amnesty-asgerdar-jonu/
Svo má auðvitað minna á Árna Johnsen, en það verða áreiðanlega margir til þess.
Auðvitað er það slæmt að lög séu brotin, http://www.ruv.is/frett/telur-brot-valitors-framin-af-asetningi eins og Valitor eða réttara sagt Visa virðist hafa gert samkvæmt þessari frétt. Mesta athygli mína vekur samt hve langt er síðan brotin voru framin. Ef afsökunin er sú að of mikill málafjöldi hafi verið hjá samkeppniseftirlitinu mætti benda á að forgangsraða þar betur. Trúi illa að um mörg jafn umfangsmikil mál hafi verið að ræða þar.
Já, ég er sammála Jóni Steinari Gunnlaugssyni um að fjölga beri dómsstigum hér á landi. Það er ekki við hæfi að hæstaréttardómarar séu að vasast í svona mörgum málum. Auðvitað mundi það kosta eitthvað en traustið á dómstólunum er það sem heldur þjóðfélaginu saman. Það finnst mér a.m.k. Þegar traustið á þeim er að mestu þorrið er fátt eftir.
Satt að segja er öll þessi umræða um fjármál heimilanna og verðtrygginguna að verða dálítið þreytandi. Líklega fælir þetta bull allt venjulegt fólk frá stjórnmálunum. Kannski er það bara ágætt. Stjórnmálastéttin sameiginlega ber ein og sér ábyrgð á Hruninu og henni verður aldrei treyst framar. Áhuginn allur sem t.d. olli búsáhaldabyltingunni (ég er persónulega sannfærður um að hún var algjörlega sjálfsprottin og ekki stjórnað af neinum samtökum.) kemur núna einkum fram í fjölda flokka (sem ekki er útaf fyrir sig neitt fagnaðarefni) og versnandi lífskjörum.
Eiginlega er það best að reyna að leiða þessa svokölluðu stjórnmálaumræðu sem mest hjá sér. Vissulega rata atriði úr henni í almennar fréttir en við því er ekkert að gera. Margt fólk hagar sér eins og örgustu kjánar í baráttu sem þessari. Leyfum þeim það bara.
Ég er að komast meira og meira á þá skoðun að það komi ekkert vorhret hér á Reykjavíkursvæðinu. Gott væri að vorið kæmi bara svona hægt og hægt. Hunangsflugurnar (sem villast inn um glugga) og geitungarnir eru það eina neikvæða við vorið. Fuglasöngurinn, birtan og hitinn er það sem maður á að hlakka til að komi.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
15.4.2013 | 00:02
1939 - Heimur
Allir sem eitthvað skrifa um pólitísk málefni (ég ekki endanskilinn) verða að sæta því á öfgatímm eins og nú eru (aðdragandi mikilvægra kosninga) að vera álitinn pólitíkus í dulargerfi. Tala nú ekki um ef menn eru á framboðslista. Þegar flokkarnir eru eins margir og þeir eru núna er ekkert merkilegt þó menn sem ættu ekki að vera á framboðslistum, slæðist þangað. Veit ekki hvernig valið er á þá. Hlýtur að vera misjafnt. Sjálfur er ég víst á einhverjum félagalista í Framsóknarfélagi Kópavogs (ekki framboðslista samt) eftir að ég studdi systurson minn í prófkjörsbaráttu þar um árið. Tölum ekki meira um það.
Sé á myndum að hirslur eins og apótekaraskápurinn hér á heimilinu eru afar vinsæl húsgögn. Það er engin furða því skúffurnar í honum er ótrúlega margar og hentugar.
Fólki í IKEA er sífellt að fjölga sýnist mér. Maturinn þar er líka alveg sæmilegur og þjónustan í lagi enda er þetta líklega einhver vinsælasti og mest sótti matsölustaður borgarinnar og ódýr eftir því.
Ef maður skrifar eitthvað á fésbókina hverfur það strax nema kannski hjá þeim fáu sem vilja fá tilkynningar um allt sem maður skrifar. Bloggið tryggir meiri athygli t.d. með því að linka í fréttir og greinar. Annars eru frétta- og greinatilvísanirnar eitt það besta við fésbókina. Lækingar-sóttin og auglýsingarnar þar virðast vera að minnka. Þó veit ég ekkert um það. Kannski er hún að versna.
Af hverju ákveða frumur að vinna saman í líkömum manna og dýra og sérhæfa sig svo mikið sem raun ber vitni? Með tímanum gengur svo þetta frumusamfélag úr sér og áframhaldandi líf genanna er aðeins tryggt með kynfrumunum. Varðandi verkaskiptinguna er ekki að sjá að frumurnar eigi neitt val, en einhverntíma hefur það kannski verið fyrir hendi.
Við mennirnir höfum einhverja stjórn á dauðum hlutum en næstum enga á lifandi frumum eða því sem stjórnar þeim. Við vitum ekki hvað það er sem gerist þegar efnisleg atóm verða að lifandi frumu. Jú frumurnar skipta sér, en vandamálin þar eru samt mörg og margvísleg.
Stuttar málsgreinar um margvíslegustu efni virðast eiga vel við mig, Sumar fullyrðingarnar þar eru eflaust dálítið vafasamar, en þeim er samt furðu lítið mótmælt þó ótrúlega víðlesar séu. Langt er samt frá að þarmeð telji ég þær eitthvað sennilegri. Sannleikurinn býr nefnilega í lesandanum. Hann getur ákveðið með sjálfum sér hvað er sannleikur og framhjá hverju má óhikað ganga. Það er óneitanlega svo komið í nútímasamfélagi að nauðsynlegt er að velja úr því stöðuga áreiti sem fréttir, andfréttir og hverskyns upplýsingar og skoðanir, sem dynja sífellt á okkur úr öllum áttum, valda.
Hef ekkert legið á því að það er Jónas Kristjánsson sem að mörgu leyti er minn mentor í þessu. Hann er samt (að því er mér finnst) meira en ég bundinn við fréttir (einkum pólitískar). Að öðru leyti er ég alls ekki að líkja okkur saman. En þetta með að hafa það sem skrifað er stutt og hnitmiðað hef ég reynt að tileinka mér.
Já, ég las grein Benedikts Jóhannessonar á Heimi.is http://www.heimur.is/heimur/pistlar/details1_pistlarsida//Enginn_venjulegur_ma%C3%B0ur_(BJ)_0_399374.news.aspx(þó löng væri) því sjálfur Hallgrímur Helgason benti á hana á fésbókinni. Mér þótti hún vel skrifuð og bera vott um mikil og grimmileg átök innan Sjálfstæðisflokksins. Kannski fylkingarnar séu þrjár en ekki bara tvær eins og ég hélt.
Kilroy (græni herinn) was here.
Bloggar | Breytt 16.4.2013 kl. 21:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.4.2013 | 01:31
1938 - Stormsker
Ekki verður það af Sverri Stormsker skafið að orðhagur er hann. http://stormsker.blog.is/blog/stormsker/entry/1292855/?fb=1 Hann bloggar bara alltof sjaldan. (Ég hinsvegar sennilega alltof oft hvort ætli sé verra?) Eflaust nær þetta blogg hans talsverðum vinsældum. Ég rakst á upplýsingar um það á fésbókinni, en hlutirnir eiga það til að hverfa svo hratt þar að ég ákvað að setja link hérna.
Andstæðingar Sjálfstæðisflokksins blogga líka að sjálfsögðu um nýjustu tíðindin úr þeim herbúðum: http://blog.pressan.is/karl/2013/04/12/borgarastyrjoldin/#.UWgsjevBYeY.facebook og það sá ég líka á fésbókinni.
Er hún að verða aðalvettvangurinn? Ég bara spyr. Moggabloggið er greinilega fallið í ónáð eftir að Davíð gerði sjálfan sig að ritstjóra Moggans eða fékk réttu mennina til þess. Kosningaskjálftinn er greinilega að magnast.
Ekki hafði ég rétt fyrir mér varðandi Bjarna Benediktsson, enda er það svosem ekki vaninn. Nú segi ég bara að þetta hafi verið tilraun Bjarna til að hertaka umræðuna frá Sigmundi Davíð hjá Framsókn. Annars stóð Bjarni sig svosem ágætlega í sjónvarpsyfirheyrslunni margfrægu. Samt er varla líklegt að þetta mál skipti sköpum í sambandi við úrslit kosninganna
Ég ætla að reyna að skrifa um eitthvað annað en kosningar ef ég mögulega get. Mér leiðist líka að þurfa alltaf að vera að leita að fréttum til að linka í á mbl.is svo ég er hættur því. Kannski geri ég það samt ef ég sé að ástæðu til þess.
Mér finnst ég þó blogga svo sjaldan um fréttir dagsins að mér finnst ekki líklegt að þetta með linkinn verði algengt,
Bjarni heldur áfram sem formaður | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
11.4.2013 | 23:54
1937 - Bjarni mun hætta
Enginn vafi er á því að Bjarni Benediktsson mun hætta sem formaður Sjálfstæðisflokksins og það mun gerast fyrir kosningarnar 27. apríl n.k. Hanna Birna Kristjánsdóttir mun að sjálfsögðu taka við enda má gera ráð fyrir að hún hafi ætlað sér það alllengi. Um þátt hennar í þeirri skoðanakönnun sem birt var í Viðskiptablaðinu í dag (fimmtudag) veit ég samt að sjálfsögðu ekkert.
Ýmsar spurningar varðandi komandi þingkosningar leita óneitanlega á hugann. Af hverju hefur Regnboginn (eða Regnbogaflokkurinn) listabókstafinn J? Er það til heiðurs Steingrími Jóhanni? Af hverju nær Dögun ekki betri árangri í skoðanakönnunum en raun ber vitni? Þar er gjörvallur Frjálslyndi flokkurinn innan borðs (að ég held) og margir fleiri. Það er eitthvað bogið við þetta. Mér þykir það næstum því eins skrýtið og fylgisaukning Framsóknarmanna. Og er það virkilega svo að fólk hefur næstum engan áhuga á stjórnarskránni nýju eða er Þorvaldur Gylfasona bara svona leiðinlegur og mikill besservisser?
Í þeirri kosningabaráttu sem nú er að byrja er næstum ekkert rætt um nema loftfimleika Sigmundar Davíðs. Fast er sótt að honum en hann virðist háll sem áll og gefur ekki mikil færi á sér. Því er ekki að leyna að gera má ráð fyrir að eitthvað standi útaf þegar gerðir verða nauðasamningar við raunverulega eigendur gömlu bankanna. Það er reyndar búið að eyða þessari peningavon og það var gert þegar kröfurnar voru seldar. Vitanlega væri hægt að færa þær ennþá meira niður. Þar er komið að veikasta þættinum í röksemdafærslu Sigmundar. Hann segir að hrægammasjóðirnir (sem hann kallar svo) vilji örugglega semja sem allra fyrst. Engin rök eru færð fyrir þeirri fullyrðingu og kannski vilja þeir ekkert semja um neitt.
Jafnvel þó allt gengi eins og Sigmundur Davíð segir og hagstæðir samningar næðust er ekkert rætt um þau áhrif sem það kynni að hafa á gengið og vilja útlendinga til að fjárfesta hér. Í síðasta lagi er heldur ekki farið að ræða um hvernig þessu 300 milljarða herfangi Sigmundar Davíðs verður skipt og hvort ríkið mundi bara ekki soga það í sína botnlausu hít. Full þörf er fyrir það þar.
Finnst það afar einkennileg tímasetning að birta núna könnun sem sýnir að Sjálfstæðisflokkurinn hefði fengið mun fleiri atkvæði ef Hanna Birna Kristjánsdóttir hefði verið við stjórnvölinn en ekki Bjarni Benediktsson. Öfl innan flokksins vilja áreiðanlega losna við Bjarna strax eftir kosningarnar í lok þessa mánaðar, en ómögulegt er að skipta núna. Þetta tryggir næstum endanlega mikið afhroð flokksins í komandi kosningum.
Á margan hátt er erfiðara að breyta því eftirá sem sett er á blað en það sem sett er í tölvuskjal. Fólk á mínum aldri eru kannski óvant að setja hugsun sína á blað. (Eða í tölvuskjal). Það er samt lítill vandi, en mikilvægt er að stytta mál sitt nokkuð og endurtekningar ber að forðast. Ekki gengur upp að vera jafnmargorður og maður er jafnan í töluðu máli. Að öðru leyti er þetta alls ekki ýkja frábrugðið hvort öðru.
Tré.
Ég útiloka ekkert | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt 12.4.2013 kl. 00:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
10.4.2013 | 23:25
1936 - Húsavík
Eitthvað var ég víst að tala um fjölda flokka í gær en virðist hafa gleymt merkilegasta flokknum. Hann heitir að sögn Sturla Jónsson og er víst eini flokkurinn sem heitir mannsnafni. Held að það séu samt fleiri en Sturla í honum en er ekki viss um framboðið. Sturla var a.m.k. í sjónvarpinu um daginn fyrir hönd þessa flokks sem sagt er að hafi einhverntíma heitið Framfaraflokkurinn. Þá eru flokkarnir víst orðnir 27 og læt ég hér með staðar numið í þessari upptalningu. Er þó alls ekki viss um að hún sé tæmandi.
Eiginlega eru það Húsavíkur-málið og Al Thani-málið sem tröllríða fjölmiðlunum um þessar mundir. Ég hef náttúrulega skoðanir á þeim eins og flestu öðru.
Verið er að reyna að gera Húsavíkurmálið að kristilegu kirkjumáli. Biskupinn er að reyna að sanna sig. Kannski er ekki vanþörf á því. Held samt að í grunninn séu það ekki trúmál sem skipta mestu þarna. Ekki er samt vanþörf á að hreinsa svolítið til í þessu máli öllu. Vald Kastljóssins er greinilega mikið. Húsvíkingar eru ekkert verri en aðrir. Ragnar Þór Pétursson (Maurildi á blogspot) skrifar ágæta grein um Húsavíkurmálið og ég vil að öðru leyti vísa í hana. http://maurildi.blogspot.com/2013/04/lrdomurinn-fra-husavik.html?fb_action_ids=10151372253634205&fb_action_types=og.likes&action_object_map=%255B198532640270394%255D&action_type_map=%255B%2522og.likes%2522%255D&action_ref_map=%255B%255D#.UWXvUrWePTp
Já, þetta er svosem talsvert langur linkur, en með þessu lítur bloggið mitt út fyrir að vera lengra og merkilegra en það kannski er. Ehemm.
Al Thani-málið minnir mig að ég hafi minnst á í gær (þriðjudag) Fjölmiðlar hafa fjallað talsvert um þetta mál í dag og meðal annars sagt að það eigi sér engin fordæmi. Á alveg eins von á að dómarinn svari tilraunum þeirra Gests og Ragnars með fordæmalausum hætti þegar málið kemur fyrir rétt á morgun (fimmtudag). Annars er þetta mál svo flókið og yfirgripsmikið og ég lélegur lögfræðingur að sennilega er best að segja sem minnst um þetta.
Stundum hugsum við lítið um þá hljóðveröld sem er allt í kringum okkur. Tökum þá sjáanlegu framyfir. Hvernig skyldi sú þefveröld vera sem blasir við hundum? Eða kannski öllum nema mér. Við mennirnir eigum greinilega margt ólært. Hvað gerist t.d. þegar frumur breytast í frumefnablöndu? Meltingarfæri öll virðast hafa fundið aðferðir til að nýta sér það, en ekki við mennirnir.
Prestar eiga ekki að leita sátta í ofbeldismálum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.4.2013 | 22:42
1935 - Birgitta komin heim
Mogginn segir að Birgitta sé komin heim, óhandtekin og allt. Hún ætti að gleðjast yfir því að fylgi Píratanna virðist vera að rjúka uppúr öllu valdi. Eða þannig. Á margan hátt er ég samt orðinn fyrirfram leiður á þessu kosningastagli. Mest er talað um milljarða núna. Það er liðin tíð að talað sé um milljónir og þessháttar smápeninga. Ætli það verði ekki trilljónir næst. Eða jafnvel skrilljónir.
Eftir lauslega talningu hef ég komist að því að flokkarnir hér á landi eru a.m.k. 26. Ellefu voru í sjónvarpinu áðan. Flokkur heimilanna er samstarf átta flokka hefur mér skilist og Bjarni Harðarson segir að Regnboginn sé samstarf sex flokka. Einnig telst mér til að þarna séu ekki meðtaldir Alþýðufylkingin, Húmanistar og Samstaða. Þetta telst mér til að séu 26 (11+7+5+3) Þetta er of mikið. Helsta sparnaðartillaga mín í komandi kosningum er að fækka þeim niður í þrjá, í mesta lagi. Þá yrðu þeir: Fjórflokkurinn, allir hinir og restin. Þetta finnst mér góð tillaga.
Margaret Thatcher er sögð hafa dáið í gær, mánudag. Eflaust er það alveg rétt. Mér er minnisstæðast varðandi hana það uppnefni sem hún fékk þegar hún varð ráðherra í fyrsta sinn. Mrs. Thatcher, the milk snatcher var hún kölluð. Eftirmælin um hana eru mjög misjöfn. Sumir hægri menn telja hana, ásamt Ronald Reagan kvikmyndaleikaranum í Hvíta húsinu, næstum því í guða tölu og hafa breytt heiminum, eða a.m.k. hinum vestræna heim og fært hann langt til hægri. Róttæklingar margir hafa alla tíð hatað hana og það sem hún stóð fyrir.
Á sínum tíma las ég bók sem á ensku heitir Ripples from Iceland og er eftir Amalíu Líndal. Hún var gift efnaverkfræðingnum Baldri Líndal sem m.a. kom við sögu saltverksmiðjunnar á Reykjanesi. Þessi bók er mér einkum minnisstæð vegna hnitmiðaðrar og vel saminnar gagnrýni á Ísland og Íslendinga, þó hún bæri þeim í heild vel söguna. Meðal annars segir hún frá því að hún hafi farið á æskustöðvar Baldurs þegar hún var nýkomin til landsins. Þar þurfti hún að sitja alein heillengi í ókunnu landi með suðandi flugur allt í kringum sig og karlmennina talandi mál sem hún skildi ekki orð í, bara vegna þess að hún var kona og þótti ekki hæf til að taka þátt í umræðum. Bók þessi kom fyrst út árið 1962 og það getur vel verið að ég hafi lesið hana nokkru seinna og í íslenskri þýðingu.
Geirfinns- og Guðmundarmálin er að mestu dottin úr umræðunni aftur, þó Erla Bolladóttiir reyni eftir mætti að halda henni áfram. Hræddur er ég um að ríkissaksóknari reyni enn og aftur að komast hjá því að taka þetta mál upp þó flest rök mæli með því að svo verði gert. Úrslit málsins geta varla orðið nema á einn veg og þó dæmt verði e.t.v. á annan veg að þessu sinni má búast við að skaðabætur verði torsóttar.
Umræður hafa orðið um þróunarhjálp eða réttara sagt þróunaraðstoð okkar Íslendinga. Hlægilegt er að bera saman velmegunarvanda okkar hér á Íslandi og neyðina víða í Afríku. Gagnrýnivert getur þó verið hið háa kaup og skattfríðindi hinna íslensku starfsmanna við aðstoðina, en hætt er við að annars fengjust ekki hæfir starfsmenn, því miður.
Bakkað var á bílinn okkar um daginn þar sem hann stóð á planinu hér fyrir utan. Nú er hann á réttingaverkstæði Auðuns sem er hér í næsta húsi og við komin á bílaleigubíl á meðan gert er við hann. Ekki veit ég hvort við notum hann mikið en þó getur það vel verið.
Ég á dálítið erfitt með að taka zombie- vampýru- og varúlfa-sögur og kvikmyndir alvarlega. Þó verður varla þverfótað fyrir þessu rusli. Sama er eiginlega um íslenskar draugasögur að segja. Held að ég sé alveg laus við myrkfælni. Var næturvörður í allmörg ár og undarleg hjóð og þess háttar á stórum yfirgefnum vinnusvæðum voru mér bara tilefni til að athuga málið. Og í engum tilfellum leiddi sú athugun neitt einkennilegt í ljós. Þó held ég að mig hafi ekkert skort ímyndunarafl til að ímynda mér að eitthvað hræðilegt væri á seyði. Aðalatriðið var að bíða alls ekki með athugunina.
Ég þarf ekki að vera handtekin til að fá athygli | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
8.4.2013 | 21:05
1934 - Al Thani
Einu sinni voru til laumukommar. Nú er þeir allir komnir úr skápunum, auk þess sem það er ekki í tísku lengur að vera kommi. Nú eru menn í mesta lagi laumuframsóknarmenn og skammast sín einhver ósköp fyrir að trúa fagurgalanum í Sigmundi, ef marka má andstæðinga hans. Framsóknarkommar eru víst líka til og hafa hreiðrað um sig í einum af pínulitlu flokkunum eftir því sem sagt er. Pólitískar skilgreiningar af þessu tagi eru samt alltaf vafasamar og þjóna engum tilgangi. Það eina sem skiptir máli er krossinn á kjörseðlinum.
Ætlaði samt sem minnst að fjalla um stjórnmál en get bara ekki stillt mig. Það eru svo spennandi tímar núna. Hugsið ykkur hvernig það yrði ef Framsóknarflokkurinn fengi hreinan meirihluta á alþingi. Einhverjir færu í fýlu það er ég viss um. Þetta verður það sem sérfræðingarnir munu kalla sutta og snarpa kosningabaráttu. Fram að þessu hefur svo margt truflað stjórnmálamennina frá því að einbeita sér að kosningabaráttunni, að það hefur farið blessunarlega lítið fyrir þeim. Nú eru þeir sælutímar liðnir og það verður enginn friður fyrir þeim næstu vikurnar. Samt er veðrið ágætt. Ætli það verði ekki bara smákosningahret og svo komi sumarið.
Á fésbókinni hefur verið rætt um veiðiskap og hnefaleika svo eitthvað sé nefnt. Auðvitað hef ég skoðanir á því eins og öðru. Á Mallorca sá ég eitt sinn nautaat og þótti það eftirminnileg sjón. Hef sáralítið stundað veiðiskap, kannski einkum vegna leti. Meðal uppháldsíþróttagreina minna má (eða mátti eitt sinn) telja skák, kappakstur (formúla 1), tennis og hnefaleika. Liðsíþróttir eiga ekki mikið uppá pallborðið hjá mér. Þó get ég ekki annað en hrifist með þegar strákarnir okkar standa sig vel. Ég er mikið á móti sportveiðum og öllum ónauðsynlegum veiðum af hugsjónaástæðum, en hef allsekkert á móti veiðimönnum. Nautaat er í mínum núverandi augum dyrplageri af verstu sort, eins og danskurinn mundi segja. Bardagaíþróttir allar (og einkum þó hnefaleikar) finnst mér að ættu að sæta ströngum skilyrðum og eru fyrst og fremst til fyrir áhorfendur og vegna peninganna.
Hef enga trú á að þeir Gestur Jónsson og Ragnar Hall hafi gert skjólstæðingum sínum neinn greiða með yfirlýsingum sínum í dag. Almenningsálitið er fyrir löngu búið að dæma þá menn sem þeir eru að verja og ef dómstólarnir vilja gera sitt líka, þá er það ekki lögfræðinga (þó góðir séu) að segja þeim til. Ef pöpullinn á að haga sér eins og dómstólarnir segja, þá eiga skjólstæðingar þeirra Gests og Ragnars ekki síður að gera það. Líklegt er að þeir lögfræðingarnir, sem hingað til hafa verið nokkuð virtir af almenningi, hafi með öllu eyðilagt orðspor sitt með þessu.
Segja sig frá Al Thani málinu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)