Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2013
30.4.2013 | 00:12
1953 - Framsókn á að mynda stjórn til vinstri
Eflaust eru margar skýringar á afhroði ríkisstjórnarflokkanna í nýafstöðnum kosningum. Það er ekki eins og þetta þurfi að koma á óvart. Skriftin hefur lengi verið á veggnum. Af hverju í ósköpunum vilja þeir flokkar sem hafa myndað ríkisstjórnina alls ekki hlusta á fólk? Kunna þeir ekkert að notfæra sér skoðanakannanir? Eru þeir úr öllum tengslum við almenning í landinu?
Sennilega væri best að Samfylkingin og Vinstri grænir hyrfu alveg úr íslenskum stjórnmálum. Það er til nóg af vinstri sinnuðu fólki sem getur tekið við. Jafnvel á alþingi. Það er Jóhönnu og Steingrími að kenna (ef endilega þarf að persónugera þetta.) að íhaldsöflin ná nú ef til vill að valta yfir allt það hugsjónafólk sem til er í landinu og hefur þá trú að umhverfismálin séu í þann veginn að verða að mikilvægustu málum heimsins. Fjármál öll eru tittlingaskítur í samanburðinum. Það er hægt að lifa án hagvaxtar.
Ég lít þannig á stjórnmálin að þar sé einkum um að ræða hægri og vinstri stefnu. Vissulega er sú flokkun eftir mínu höfði, en einhverjir eru áreiðanlega sammála mér. Samfylkingin og Vinstri grænir fengu umboð í kosningunum 2009 til að stjórna landinu. Greinilega álitu þeir flokkar sig ekki hafa fengið umboð til að breyta hefðum á alþingi og stjórnmálunum þar með þó löngun hafi verið til slíks og eðlilegt að álíta að það mætti gera vegna Hrunsins. Flokkarnir þorðu beinlínis ekki að ganga á þann hátt gegn hagsmunum auðvaldsins sem þurft hefði og því fór sem fór. Stuðningurinn nú við auðvaldsöflin er rúmlega 51%. Þ.e.a.s ef Framsóknarflokkurinn er sá auðvaldsflokkur sem margir álíta.Vinstri öflin hafa því enn þrátt fyrir hörmulega útreið í kosningunum um síðustu helgi og mikla sundrungu um 49% stuðning kosningabærs fólks í landinu.
Ef á þetta er litið er ekki hægt að komast hjá því að álíta heppilegra fyrir Framsókn að mynda þriggja flokka stjórn með Samfylkingunni og Vinstri grænum. Þó er alls ekki víst að svo verði.
Sigmundur: Við gefum okkur tíma | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
29.4.2013 | 14:46
1952 - Fimm prósent
Undarleg sú vitleysa sem er í gangi um 5% vegginn. Áður og fyrr var það svo að flokkar fengu allsekki uppbótarþingmann ef þeir fengu engan kjördæmakjörinn þingmann. Þessu var svo breytt þannig að það væri ekki lengur nauðsynlegt. Þá var það mark sett að ekki mætti sá flokkur sem einungis fengi uppbótarþingmenn fá minna en 5% atkvæða. Auðvitað væri vel hægt að hafa þetta mark miklu lægra, eða jafnvel hærra. Nú eða hafa allsekkert slíkt ákvæði. Það breytir því ekki að upphaflega var þetta sett á til að auðvelda litlum flokkum að komast á þing. Í seinni tíð hefur þetta þó óhjákvæmilega virkað þannig að það hefur verið litlum flokkum (sem þó bjóða fram í öllum kjördæmum) markmið að komast yfir þennan fimm prósent múr. Þó sumum kunni að finnast það einkennilegt var þetta ákvæði upphaflega allsekki sett til verndar fjórflokknum. Frekar í þágu smáflokkanna og einsmálsflokkanna.
Já, sennilega má telja mig nokkuð nýjungagjarnan í pólitískum efnum. Að sjálfsögðu er ég ánægður með að Píratar skuli hafa komið mönnum á alþingi og eigna mér jafnvel svolítinn þátt í þeim sigri. Vakti eftir tölunum héðan úr Suðvesturkjördæmi sem komu þeim endanlega inn. Þær komu loksins rétt fyrir sjö og voru ekki að öllu leyti óvæntar.
Misvægi atkvæða er alltof mikið á landinu. Samkvæmt núgildandi stjórnarskrá er leyfilegt að það sé tvöfalt. Um það bil þannig er það líka og mun halda áfram að verða. Það er vegna þess að ástæðulaust er að ætla að ástandið í búsetubreytingum snúi skyndilega við. Engin ástæða er til að hafa það leyfilega bil hærra en svona 1,3 til 1,5. (Nei, það er nú eiginlega í hærra lagi.) Jafnvægi í byggð landsins, byggðastofnun, byggðakvóti og strandveiðar eru allt saman smádúsur sem hent er í landsbyggðarlýðinn svo hann sé til friðs.
Man að ég horfði á myndband frá Selfossi af nauðungarsölu á húsi einu þar í bæ rétt fyrir kosningar. Man líka að ég hugsaði einkum um tvennt meðan ég horfði á myndbandið. Í fyrsta lagi: Er þjóðfélag okkar virkilega orðið þannig að svona lagað þyki sjálfsagt og eðlilegt? Hinsvegar hugsaði ég einnig eitthvað á þessa leið: Kosningabaráttan hjá okkur er komin á nýtt og alvarlegt stig ef svonalagað er hiklaust sett á svið. Sem betur fer var hvorugt rétt hjá mér. Þarna var um algjörlega einstakan atburð að ræða og kosningakeimurinn af þessu var algjör tilviljun.
Menn eru talsvert í því að útskýra niðurstöðu kosninganna. Fyrir mér eru þær bara ein af staðreyndum lífsins. Nauðsynlegt er að lifa með þeim. Sú ríkisstjórn sem kemst á koppinn fljótlega verður hvorki betri né verri en þær sem áður hafa setið. A.m.k. ekki fyrst í stað. Svo má fara að velta einhverju fyrir sér. En sumarið er alveg að koma svo það tekur því eiginlega ekki. Best væri auðvitað að hafa enga ríkisstjórn sem allra lengst, en það er víst ekki í boði.
Var að enda við að lesa mánudagspistil Guðmundar Andra. Hann þykist vera Samfylkingarmaður og mig minnir að pistillinn hafi allur verið um kosningarnar. Man samt ekkert af honum. Hann ýtir þó á rétta takka og hefur sjálfsagt áhrif, en mér finnst það samt ekki skipta miklu máli hvað hann segir. Hann er bara að skrifa á sjálfstýringunni og velta því fyrir sér hvað hann geti fengið mikið fyrirframgreitt fyrir næstu bók. Núna þegar bráðum verður hætt að prenta bækur og látið nægja að gefa þær út á netinu eins og píratarnir boða.
Hvurslags stéttarfélag er það?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
28.4.2013 | 15:23
1951 - Úrslitin liggja fyrir
Allir eru að rembast við að vera normal. Er ekki bara betra að vera ónormal? Ætti ég ekki að prófa það? Hvernig ætti ég þá að byrja? Allir eru talsvert ónormal í dag. (Skrifað í gær) Enda er ónormalt að vera að kjósa um fjórflokkinn. Hann stjórnar hvort eð er öllu. Kannski fjalla kosningarnar mest um það hverjum á að hygla og hverjum ekki. Þeir sem óþekkir eru við AðalFlokkana þarf að setja einhvers staðar á bás þar sem þeir valda litlum skaða. Þannig finnst mér hugsunin vera. En hverjir eru óþægastir? Það kemur í ljós í kosningunum í dag. Óþekktin er að aukast. Það sýnir fjöldi framboða. Allir vilja vera óþekkir við fjórflokkinn. En ég held að nægilega margir kjósi hann samt. Ef hætta er á að menn fari að yfirgefa hann í stórum stíl verður að setja undir þann leka.
Hvað er mold? Ánamaðkaskítur? Einu sinni var reynt að telja mér trú um það. En ég efast. Alveg eins og Atli Harðarson heimspekingur hefur kennt mér þá efast ég um næstum allt. Auðvitað er til lítils að efast um einhvern tittlingaskít. Nær er að efast um eitthvað stórvægilegt. T.d. um eigin tilveru. Já, en ég geri það einmitt. Alveg fram í fingurgóma.
Ort í Fossvoginum.
Skokkarar hér skokka um
með skynsemina í bandi.
Halda í taum á hundunum,
sem hala þá að landi.
Virkjaði í gærmorgun adblock-ið á Chrome-vafranum mínum og tókst að blokkera alveg út bloggið mitt og gat hvorki lesið það né skrifað nýtt. Komst framúr þessu fyrst með því að nota annan vafra og svo tókst mér að ógilda blokkunina. Það sem þetta kennir mér er að fara varlega í að fikta mikið í tölvunni.
Var að skoða nýja netútgáfu af VGA-planets leiknum. Hver veit nema ég fari að spila hann aftur. Man að hér áður og fyrr þegar ekki var einu sinni búið að finna upp vafrana þá spilaði ég VGA-planets nokkuð mikið. Blöskraði undir það síðasta hve mikið verk var fólgið í hverjum leik. Nú er þetta orðið miklu einfaldara sýnist mér.
Nú eru kosningarnar næstum búnar. Verið að rembast við að telja atkvæðin. Er að vona að Píratar nái inn á þingið þó síðustu tölur bendi ekki til þess. Eitt af því merkilegasta við úrslit þessara þingkosninga er að fullljóst er nú að fólk kærir sig lítið um miklar breytingar á stjórnarskránni. A.m.k. er það ekki framarlega í forgangsröðinni hjá flestum. Þó er ekki annað að sjá en mikill meirihluti sé fyrir sumum ákvæðum nýju stjórnarskrárinnar. Annað afar merkilegt í sambandi við þessar kosningar er að allir (nema helst aumingja Samfylkingin) hafa í þessum kosningum unnið stórsigur. Ekki síst hafa litlu flokkarnir unnið stórsigur í þeim. Kannski einkum í því að koma saman framboðslistum. En sigur samt.
Úrslitin liggja fyrir | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.4.2013 | 00:08
1950 - Kjörfundur hefst í fyrramálið
Með því að kjósa einn af litlu flokkunum er ég að stuðla að minnkun þess af fjórflokknum sem höfðar mest til mín. Þetta finnst mér rétt að komi fram því mér finnst Samfylkingin hafa brugðist kjósendum sínum að verulegu leyti. Með þessu er ég einnig að segja að þó hinir hægri sinnuðu flokkar auki í staðinn áhrif sín þá sé það ekki eins hættulegt og margir vilja vera láta. Í grunninn held ég að allir sem í stjórnmálum eru vilji láta gott af sér leiða.
Þess vegna er mér alveg ósárt um það þó Framsókn og Sjálfstæðisflokkur auki áhrif sín á kostnað Samfylkingarinnar vegna þess að ég kýs Píratana. Ég er eiginlega búinn að ákveða að kjósa þá. Frammistaða Birgittu Jónsdóttur var með þeim hætti í umræðuþættinum í sjónvarpinu í gærkvöldi að mér virðist það ekki vera nein áhætta. Það eru margir sem láta í ljósi skoðanir sínar fyrirfram í aðdraganda kosninga. Ekki ætti mér að vera neitt vandara um en þeim. Einu sinni var kosið í heyranda hljóði. Mikið vildi ég að sá tími væri kominn aftur.
Ég er fyrir löngu búinn að missa tökin á þessari bloggónáttúru hjá mér að því leyti að ég gleymi svotil strax hvað ég er búinn að blogga um. Stundum finnst mér að allir séu að hamast við að gera eins og ég. Stundum er ég líka uppfullur af þeirri hugmynd að ég sé að herma eftir einhverjum öðrum. Sennilega er ekkert að marka þessar ímyndanir. Kannski er bara best að blogga í þeim ímyndarheimi sem til staðar er hverju sinni.
Nú er víst kominn föstudagur og örstutt orðið til kosninga. Nú er bara að einbeita sér að því að finna sína kjördeild og kjósa. Hvort maður kýs rétt eða vitlaust skiptir minna máli. Flestir kjósa hvort eð er vitlaust. Það er helst að sumir frambjóðendur kjósi hugsanlega rétt enda eru þeir búnir að vera á þrotlausum æfingum undanfarið. Þeir eru samt ekki það margir að úrslitum ráðí.
Hvurslags er þetta? Hugsar fólk bara ekki um annað en kosningar. Fór áðan á fésbókina og þar er ekki hægt að þverfóta fyrir kosningaáróðri. Ekki er ég svona slæmur. Er það nokkuð? Kannski hef ég skrifað um fátt annað en pólitík undanfarna daga, en ég lofa að hætta því eftir helgina. Þá er ég að hugsa um að taka þátt í stjórnarmyndunarkaplinum. Muhaha. Þarna plataði ég sjálfan mig.
Hjá plötuelskandi pöplinum, sem ég vil nú helst ekki tilheyra, virðist það vera álitin sérstök listgrein að lesa það sem stendur utaná plötu-umslögum. A.m.k. virðast margir útvarpsþættir vera þannig að fólki séu greidd laun fyrir að lesa slíkt með mátulegri tilfinningu á milli laga. Ég er svo ómúsíkalskur að mér finnst slíkum þáttum frekar fara fjölgandi en hitt. Man eftir einum þætti sem hét lunga fólksins (eða var það kannski: lög unga fólksins). Manni fannst að maður ætti að hafa áhuga á því hvað væri spilað þar en mér tókst aldrei að drífa þann áhuga upp.
Varðandi snjókomuna og það alltsaman bið ég fólk að fara gætilega. Þetta er bara venjulegt kosningahret og á eftir að lagast. Hver veit nema sumarið komi fyrir rest. Ég er allavega búinn að festa mér bústað í Ölfusborgum seinni partinn í ágúst. Þá verður sumarið áreiðanlega komið. (En kannski farið aftur.)
Kjörfundur hefst í fyrramálið | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.4.2013 | 21:58
1949 - Engin atkvæði eru dauð
Trúlegt er að það jákvæðasta sem útúr kosningunum næstkomandi laugardag komi sé það að sveiflurnar séu meiri en oftast áður. Af hverju er það jákvætt? Jú, það bendir til þess að það sem flokkarnir og þingmenn þeirra geri eða geri ekki skipti meira máli. Að mörgu leyti eru stjórnarmyndunarviðræðurnar eftir kosningarnar meira spennandi. A.m.k. er þar ekki við neinar skoðanakannanir að styðjast. Flestir virðast gera ráð fyrir að kosningaúrslitin verði talsvert lík síðustu skoðanakönnunum. Þær eru samt svolítið mismunandi og eins getur fylgið breyst á allra síðustu dögunum. Hugsanlegt er líka að minna sé að marka skoðanakannanir en oftast áður vegna sveiflnanna.
Í fyrirsögn segir Pétur Hafstein Lárusson: Dauð atkvæði eru ekki til. Þarna er ég sammála honum. Sennilega er engin röksemd fulltrúa fjórflokksins eins fráleit og sú að atkvæði greidd flokkum sem ekki komi manni að séu í rauninni dauð. Þetta er tómt bull og í rauninni er ekki hægt að taka mildilegar til orða um þessa fáránlegu fullyrðingu. Sem betur fer sjá margir og jafnvel flestir þetta, en mögulegt er samt að þessi fullyrðing hafi áhrif á einhverja. Sumir kjósa jafnvel frekar eitthvert framboð fjórflokksins en litlu flokkana vegna þessarar fullyrðingar. Réttur hvers kjósanda er að kjósa það sem honum hugnast best og hann á alls ekki að láta hræða sig frá því.
Kosningarnar á laugardaginn eru áreiðanlega það sem flestir eru að hugsa um þessa dagana. Sennilega er þó allur áróður tilgangslaus þegar svona nálægt kosningum er komið. Frambjóðendum er samt mikið í mun að halda baráttunni áfram fram í rauðan dauðann. Ekki á ég von á að nein óvænt eða mikil tíðindi gerist í sambandi við kosningarnar. Ekki er þess heldur að vænta að mikilvægar ákvarðanir varðandi stjórnarmyndunarkapalinn verði teknar allra fyrstu dagana á eftir. Þó er það aldrei að vita. Svo upptjúnaðir geta menn orðið vegna spenningsins að þeir tali án þess að hugsa.
Sú sótt virðist hrjá marga sem mikilla bloggvinsælda njóta (Jónas Kristjánsson, Pál Vilhjálmsson og marga fleiri) að reyna ávallt að skrifa um þau mál sem efst eru á baugi hverju sinni. Þetta erum við sem minni eða fremur lítilla vinsælda njótum að mestu lausir við. Þó hef ég fundið fyrir þessu. Í rauninni er þetta ákaflega takmarkandi og minnkar frelsið til að skrifa um það sem meðvitað og ómeðvitað kemur upp í hugann hverju sinni. Varasamt er þó að skrifa eins oft og ég geri því með því er sú áhætta tekin að fastir lesendur gefist fljótlega upp. Mest legg ég uppúr því að vera stuttorður, ef ég mögulega get.
Framsókn stærst í könnun Stöðvar 2 | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
23.4.2013 | 23:27
1948 - Er Sigmundur lærður?
Sennilega verður Már rekinn úr Seðlabankanum og Davíð endurreistur ef fer sem horfir. Ný helmingaskipastjórn mun hafa nóg að gera. Líklega verður að losa sig við sérstakan saksóknara líka. Og selja eða gefa það sem hægt er. T.d. Landsbankann. Þegar Al-Thani málið kemur fyrir hæstarétt uppúr miðri öldinni verða allir búnir að gleyma hvert upphaflega sakarefnið var. Einstaka maður mun samt kannast við að það tengist svokölluðu hruni.
Það er svo einkennilegt að eftir því sem fleiri inspirasjónir eru notaðar því auðveldara verður að nálgast nýjar. Þetta er eflaust ekki frumleg hugsun. Án þess að horft sé á æfinguna þá verður mun auðveldara að mála nýja mynd eftir því sem þeim fjölgar sem málaðar hafa verið. Hugmyndunum fækkar ekki eftir því sem af er tekið heldur vaxa tvö ný höfuð fyrir hvert sem tekið er. Þetta má heimfæra á margt óefnislegt. Efniskenndir hlutir eru takmörkuð auðlind en andlegir ekki. Eftir því sem meira er notað af andlegu atgervi því meira er eftir.
Auðvitað væri hægt að hætta við komandi kosningar og láta skoðanakannanirnar nægja. En mundu allir sætta sig við það? Margar krónur mundu sparast. Ekki væri hægt að láta hvaða fyrirtæki sem er sjá um skoðanakönnun sem kæmi í stað kosninga. Leyfi til slíks mætti selja á háu verði. Það er aumt kapitalistaríki sem ekki getur einkavætt kosningar. Þetta ættum við Íslendingar að athuga og skjóta með því mörgum ref fyrir rass. Jafnvel Guðs eigin landi. Ég er að hugsa um að taka einkaleyfi á þessari hugmynd. Það hlýtur að vera hægt. Annars sel ég hana bara á útsölu, eða skottsölu.
Er Sigmundur lærður eða ekki lærður? Það er stóra spurningin. Eitthvað hefur verið reynt að kenna honum, en ekki hefur hann tekið eins mikið af prófum og sumir halda. Er hann hagfræðingur, skipulagsfræðingur eða kannski bara hjúkrunarfræðingur? Það veit enginn og fær enginn að vita. Kannski er hann framsóknarfræðingur, kosningafræðingur eða loforðafræðingur. Ætli við fáum að vita það eftir kosningarnar? Segi bara svona. Sagt er að hann hafi a.m.k. komið til Oxford.
Gunnar Hersveinn skrifar ágæta grein á Smuguna sem hann nefnir: Kaldar tær kjósenda: http://smugan.is/2013/04/kaldar-taer-kjosenda/ Hér er linkur á hana. Hann er þarna að tala um kosningarnar á laugardaginn kemur.
Þjóðaratkvæði fer eftir tímasetningu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
22.4.2013 | 21:55
1947 - Vorinu frestað
Ég sá einhversstaðar í blaði að litlar líkur séu á að Framsókn myndi stjórn til vinstri. Þessu er ég ekki sammála. Ég þekki innviði Framsóknarflokksins betur en flestra annarra flokka og veit að þar er margt gegnheilt vinstra fólk. Auvitað er SDG ekki neinn vinstri maður sjálfur en margir menn í flokknum eru það.
Í stjórnmálalegri umræðu er það mikið veikleikamerki að viðurkenna að andstæðingarnir geti haft rétt fyrir sér. Ég er alls ekki sá innsti koppur í búri Samfylkingar sem sumir halda og þess vegna get ég leyft mér þá ósvinnu að hæla Framsóknarmönnum. Sá flokkur er a. m. k. skárri en Sjáflstæðisflokkurinn og formaður þeirra a.m.k. hæfileikaríkari.
Fjórflokkurinn er í fíflasætinu núna því sagt er að fíflinu skuli á foraðið etja. Kannski geta tveir af fjórflokknum skilað Framsókn nægilega mörgum atkvæðum á þingi til að mynda stjórn. Sú er a.m.k. von mín. Framsóknarmenn hefur nefnilega langað í stjórn allt síðastliðið kjörtímabil.
Núna er ein vika til kosninga. Flest er komið fram sem barist verður um. Engar sérstakar rannsóknir held ég að hafi farið fram á því hvort flokkunum tekst betur eða verr að koma boðskap sínum til kjósenda síðustu daga kosningabarátturnnar. Þessvegna er nóg að taka meðaltalið úr síðustu könnunum og styðjast við það ef menn vilja kjósa taktískt. Það getur samt mistekist hrapallega.
Af hverju eru menn að þreyta sig á hallmæla Framsókn og Íhaldi. Nær væri að sætta sig við sigur Framsóknar og einbeita sér að því að LÍÚ-flokkurinn komi sem fæstum mönnum að. Vona bara að vinstri sinnarnir í Framsókn verði ofaná. Víst eru þeir spilltir og kunna ekki einu sinni að leyna því. Samt ætti að vera hægt að nota þá, þó ekki væri nema til annars en að gefa fölsk loforð. Þeir eru flinkir í því.
Engum er Ármann líkur. Hann er tvímælalaust á góðri leið með að verða minn uppáhaldsbloggari. Í nýjasta bloggi sínu fjargviðrast hann mikið útaf úlpunni Feminin sem hann tók til handargangs að móður sinni látinni. Ef hægt er að blogga langt mál um lítið efni þá er hann meistari í því. Á enn eftir að lesa bókina hans um tuddann. Hlakka til þess. Þarf að muna eftir að spyrja um hana á bókasafninu næst þegar ég fer þangað.
Þessi síðasta klausa er ekki nærri nógu pólitísk, enda er ég orðinn svo leiður á öllu slíku að ég get ekki á hálfum mér tekið. Ármann má þó helst ekki minnast á ef maður er á Moggablogginu. Gamla reglan er a.m.k. sú. Hann er nefnilega svo útsmoginn að hann bloggar á Smugunni og næstum því leynilega. Þetta er samt linkurinn á bloggin hans: http://smugan.is/raddir/fastir-pennar/armann-jakobsson/
Í einhverju blaði var verið að tala um alkapillu. Ég las það náttúrulega sem al-kapillu og hélt að þetta væru einhver nýmóðins hryðjuverkasamtök. Svo er víst allsekki, heldur er sagt að þetta sé nýmóðins antabus enda er antabusinn sem ég kynntist í bernsku löngu kominn úr tísku. Ég verð endilega að fara að fylgjast betur með. Man að ég misskildi hroðalega fyrirsögnina á baksíðu Moggans sem hljóðaði þannig: Skreið til Nígeríu. En ég skildi samt Danina um árið þegar þeir voru að tala um krydsild og hélt ekkert að það væri kryddsíld.
Alltaf er Veðurstofan eitthvað að díleia vorinu. Ég kann bara ekki við þetta. Svo er eftir að moka einhverjum snjó fyrir norðan. Mér finnst nú ástæðulaust að fresta vorinu þessvegna. Það má svosem mín vegna bíða fram yfir kosningar, en alls ekki lengur.
Sigmundur: Vinstristjórnaráróður sjálfstæðismanna | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
22.4.2013 | 00:27
1946 - Hrægammar hér og hrægammar þar
Já, nú er eiginlega kominn tími á eins og eitt pólitískt blogg. Kosningarnar sem framundan eru virðast ætla að verða fremur skrýtnar. Mér finnst skrýtið að Framsóknarflokkurinn skuli njóta svona mikils fylgis eins og skoðanakannanir sýna. Mér sýnist að þessi loforð hjá Sigmundi Davíð séu mestmegnis út í loftið.
Í fyrsta lagi er ekkert víst að þessir hrægammasjóðir vilji neitt semja þó Sigmundur vilji það. Ef samið verður má hinsvegar búast við að ríkið eignist peninga. En hvort þeim verður varið í flata niðurgreiðslu á húsnæðislánum er annað mál. Ég held að þó Framsóknarflokkurinn fengi hreinan meirihluta þá yrði það ekki gert. Það er einfaldlega svo margt annað sem kallar að. Verðtryggingarkerfið má auðvitað bæta heilmikið og verður áreiðanlega gert. Með atbeina Sigmundar Davíðs eða án hans.
Mér finnst líka skrýtið að Dögun og Lýðræðisvaktin virðast engu flugi ætla að ná. Að fólk skuli raunverulega halda að Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn séu búnir að bæta sig svo mikið að rétt sé að færa þeim stjórnartaumana aftur, finnst mér með miklum ólíkindum. Ríkisstjórnin á hinsvegar engin verðlaun skilið og svo er að sjá sem kjósendur ætli að segja henni það.
Litlu flokkarnir ættu að vera með miklu meira fylgi samtals. Hverjir koma mönnum að er ómögulegt að segja. Mér finnst fjórflokkurinn ekki eiga neitt gott skilið. Þó ekki væru nema efstu menn úr Bjartri Framtíð sem kæmust að hef ég engar áhyggjur af kunnáttuleysi í löggjafarstarfi, því alþingi mundi skána talsvert við að losna við allt úrvalsdeildarliðið á einu bretti. Það hefur ekki gert rassgat síðustu fjögur árin og ekki er hægt að reikna með neinum framförum þar.
Mér finnst hætt við að við Íslendingar verðum álitnir óheiðarlegir í viðskiptum ef gengið er útfrá því að allir sem eiga eignir hér á landi og hlutabréf í bönkunum séu hrægammar sem virðingarvert sé að ná sem mestu frá. Þetta mætti e.t.v. orða með ákveðnari hætti, en sem fyrrum stuðningsmaður samningsleiðar í Icesave-málinu þori ég það ekki.
Brostnar vonir um hagvöxt | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
20.4.2013 | 21:18
1945 - Manifesto
Í dag er laugardagur og enn styttist til kosninga. Vorkenni litlu framboðunum sem enga von virðast eiga. Stóru hákarlarnir gína yfir öllu. Það er þyngra en tárum taki, en svona er þetta. Það er ekki nóg að segja að kerfinu þurfi að breyta, það verður að gera það. Stóru flokkarnir breytast hægt, ef þeir breytast þá nokkuð. Stuðningur þeirra við markaðinn svokallaða er gulltryggður. Kommúnisminn og allt sem honum tengist er fyrir bí. Sósíalisminn jafnvel líka. Fólkið sjálft skiptir engu máli. Allt á að vera sem ódýrast og hagkvæmast. Markaðurinn segir það. Reyndar er hann ekkert betri en gamli guðinn. Þeim fjölgar sífellt sem afneita honum, en þeir eru ofurliði bornir af hagkvæmni stærðarinnar. Það er hún sem öllu ræður. Veðrið bregst samt ekki. Þó rignt hafi talsvert í gærkvöldi er fínasta gluggaveður a.m.k. núna.
Já, drepum allt sem heitir þjóðlegt einstaklingsframtak. Það er svo dýrt og óhagkvæmt. Trúum á stórfyrirtækin og að við getum breytt þeim. Við getum það alveg. Gert þau stórum mannlegri en þau eru. Það er afdalamennska og útúrboruháttur að vilja loka sig inni og búa að sínu. Tímarnir eru breyttir. Stórfyrirtækin eru búin til úr fólki. Það er ekki ósnertanlegt. Íslendingar eru ekki einir í heiminum. Okkur kemur við hvað aðrir gera. Internetið og samband fólksins hvert við annað er það sem mestu máli skiptir. Skipting heimsins í smávasa eftir tungu og menningu er bölvun hans. Þrátt fyrir allt hugsar fólk svipað í Súdan og Grímsnesinu.. Það er til einskis að berjast gegn framförum og dýrka hið gamla endalaust. Samvinna er lykilorðið. Látum ekki stærðina eina hræða okkur. Drekarnir forðum daga voru hræðilega stórir en samt sigruðu hetjurnar þá og fengu sínar prinsessur að launum.
Verndum þá sem vilja kjafta frá. Alltaf eru einhverjir sem eru tilbúnir að fórna sínum eigin hagsmunum og jafnvel krónum líka fyrir heildina. Gerum þeim auðveldara að setja sínar járnstengur í kerfið. Látum ekki ópersónulegt og illt vald ná tökum á okkur. Berjumst ekki endalaust gegn öllu sem hægt er að kalla pólitíska rétthugsum. Bara af því að einhverjir ópersónulegir pótintátar hafa sagt okkur það. Gerum Netið (með stórum staf) að því afli sem það getur hæglega verið. Píratar eru lausnin.
Þetta er mitt manifesto. Sumum finnst að þau eigi að vera óralöng, en ég er á því að athygli fólks verði ekki haldið endalaust. Því styttra, því betra.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
19.4.2013 | 22:21
1944 - Sturla
Nú er ég líklega orðinn virkur í athugasemdum jafnvel mikilvirkur. Ég var nefnilega að kommenta á frétt um Sturlu Jónsson núna rétt áðan. Eins og ég er nú mikið á móti stjórnmálum. Það er bara ekki hægt að varast þau þó ég sé að reyna að forðast að skrifa um þau þessa dagana.
Hinir og þessir eru alltaf að segja að það eigi að fara eftir lögum, ef þeim finnst ástæða til að svindla eitthvað. Sturla Jónsson hefur þetta svolítið öðruvísi. Ef lögin standast ekki skilning hans þá eru þau ómark og að engu hafandi. Þetta er sú hugsun sem ég held að margir hafi um Sturlu. Sumir virðast forðast hann eins og þeir geta, en aðrir trúa hverju orði sem hann segir. Þarna er dálítið bil á milli.
Höfundur bókarinnar um Free Country, sem ég sagði svolítið frá í gær ef ég man rétt, skrifaði mér í gegnum fésbókina og ég er talsvert upp með mér af því. Jú, auðvitað skrifaði ég honum fyrst. Honum var nær að setja upplýsingar um fésbókarsíðuna í bókarræfilinn.
Nú forðast ég eins og ég get að setja eitthvað með pólitísku ívafi í bloggið mitt. Gat þó ekki stillt mig um að hnýta svolítið í Sturlu hér áðan. Skoðanakannanir hrynja yfir mann þessa dagana eins og hvert annað haglél. Túlkanirnar (eins mismunandi og þær eru) eru samt jafnvel verri. Eru engin málefni eftir? Bara spádómar. Á virkilega að kaffæra fólk í kosningabulli? Trúa þessu einhverjir?
Hér eru nokkur fótmæli úr rafritinu. Hægt er að nálgast það merka rit hér: http://snerpa.is/net/rafrit/raf.htm Fótmæli eru til þess að hafa í bréfafótum. Segja má líka að það séu spakmæli út úr kú. Já, yfirleitt eru þau tóm vitleysa. Því vitlausari því betra.
Sælir er unglingarnir því þeir munu skuldirnar erfa.
Stöðugar breytingar eru komnar til að vera.
Skerðu pizzuna í 6 sneiðar, ég get ekki borðað 8.
Windows 3.0: kemur frá fólkinu sem færði þér EDLIN.
Windows 3.1: flottasti kapall sem ég hef séð.
Sega og Nintendo ætla að sameinast. Nýja fyrirtækið á að heita Windows NT.
SYSTEM ERROR: Ýttu á F13 til að halda áfram.
Það er lífshættulegt að verða gamall.
Mánudagar eru rót alls ills.
Ekkert er svo einfalt að ekki sé hægt að klúðra því.
Nú, þegar ég hef gefið upp alla von, líður mér miklu betur.
Þegar þú ert farinn að skilja hvernig tölvan þín vinnur, þá er hún orðin úrelt.
Frestaðu því aldrei til morguns sem þú getur alveg eins gert hinndaginn
Samkvæmt lögmáli Arkímedesar léttist hlutur sem settur er í vatn um þriðjung þeirrar vegalengdar sem er auð og hindrunarlaus framundan.
Bannið ruslpóst og bjargið trjánum.
Láttu mig vita ef þú hefur ekki fengið þetta bréf.
Framtíðin er eins og nútíðin, nema lengri.
Enginn sleppur lifandi frá lífinu.
Númerið sem þú hringir úr hefur verið aftengt.
Helstu kostirnir við þessi fótmæli sem ég er að birta núna og um daginn er að sumum finnst þau fyndin. Ekki get ég gert að því . Viðsnúningur algengra spakmæla getur líka verið fyndinn. Einu sinni safnaði ég slíku, en ég veit ekkert hvar það er. Það er einmitt aðalgallinn við söfnunarnáttúruna sem margir hafa að hún (eða afrakstur hennar) týnist. Þannig er það bara.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)