1951 - Úrslitin liggja fyrir

Allir eru að rembast við að vera normal. Er ekki bara betra að vera ónormal? Ætti ég ekki að prófa það? Hvernig ætti ég þá að byrja?  Allir eru talsvert ónormal í dag. (Skrifað í gær) Enda er ónormalt að vera að kjósa um fjórflokkinn. Hann stjórnar hvort eð er öllu. Kannski fjalla kosningarnar mest um það hverjum á að hygla og hverjum ekki. Þeir sem óþekkir eru við AðalFlokkana þarf að setja einhvers staðar á bás þar sem þeir valda litlum skaða. Þannig finnst mér hugsunin vera. En hverjir eru óþægastir? Það kemur í ljós í kosningunum í dag. Óþekktin er að aukast. Það sýnir fjöldi framboða. Allir vilja vera óþekkir við fjórflokkinn. En ég held að nægilega margir kjósi hann samt. Ef hætta er á að menn fari að yfirgefa hann í stórum stíl verður að setja undir þann leka.

Hvað er mold? Ánamaðkaskítur? Einu sinni var reynt að telja mér trú um það. En ég efast. Alveg eins og Atli Harðarson heimspekingur hefur kennt mér þá efast ég um næstum allt. Auðvitað er til lítils að efast um einhvern tittlingaskít. Nær er að efast um eitthvað stórvægilegt. T.d. um eigin tilveru. Já, en ég geri það einmitt. Alveg fram í fingurgóma.

Ort í Fossvoginum.

Skokkarar hér skokka um
með skynsemina í bandi.
Halda í taum á hundunum,
sem hala þá að landi.

Virkjaði í gærmorgun „adblock“-ið á Chrome-vafranum mínum og tókst að blokkera alveg út bloggið mitt og gat hvorki lesið það né skrifað nýtt. Komst framúr þessu fyrst með því að nota annan vafra og svo tókst mér að ógilda blokkunina. Það sem þetta kennir mér er að fara varlega í að fikta mikið í tölvunni.

Var að skoða nýja netútgáfu af VGA-planets leiknum. Hver veit nema ég fari að spila hann aftur. Man að hér áður og fyrr þegar ekki var einu sinni búið að finna upp vafrana þá spilaði ég VGA-planets nokkuð mikið. Blöskraði undir það síðasta hve mikið verk var fólgið í hverjum leik. Nú er þetta orðið miklu einfaldara sýnist mér.

Nú eru kosningarnar næstum búnar. Verið að rembast við að telja atkvæðin. Er að vona að Píratar nái inn á þingið þó síðustu tölur bendi ekki til þess. Eitt af því merkilegasta við úrslit þessara þingkosninga er að fullljóst er nú að fólk kærir sig lítið um miklar breytingar á stjórnarskránni. A.m.k. er það ekki framarlega í forgangsröðinni hjá flestum. Þó er ekki annað að sjá en mikill meirihluti sé fyrir sumum ákvæðum nýju stjórnarskrárinnar. Annað afar merkilegt í sambandi við þessar kosningar er að allir (nema helst aumingja Samfylkingin) hafa í þessum kosningum unnið stórsigur. Ekki síst hafa litlu flokkarnir unnið stórsigur í þeim. Kannski einkum í því að koma saman framboðslistum. En sigur samt.

IMG 3044Krókusar komnir á kreik.


mbl.is Úrslitin liggja fyrir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband