1919 - 19:19 (Á Lynghálsi)

Þetta blogg er númer 1919. Man að fréttatíminn á Stöð 2 var í byrjun alltaf kallaður 19:19. Byrjaði líka klukkan 19 mínútur yfir sjö. Fannst ágæt kenningin um að þeir sem sömdu þetta hefðu kannski haldið að á eftir nítján-nítján kæmi nítján-títján. Man líka eftir stríðinu við RUV útaf fréttatímanum,vegna þess ég gerði dagskrárplanið þá og þurfti t.d. að taka tillit til lengdar lógó-sins, því allt þurfti að passa.

Veit ekki hvort ég held áfram þessu linkunarstandi, þó getur það verið. Virðist gefast vel, en auðvitað er bloggið með þessu gert að einskonar athugasemd við frétt. Þar með er maður víst orðinn „virkur í athugasemdum“ sem er á margan hátt eitt mesta skammaryrðið þessa dagana. Þetta með að auglýsa beint á fésbókinni er samt ágæt hugmynd.

Heyrði áðan sungið með talsverðri tilfinningu (Kannski á Útvarpi Sögu) „Við viljum stjórnarskrá.“ Minnti mig á gamla tíma. „Sóleyjarkvæði“ eftir Jóhannes úr Kötlum var sungið víða. Það var stórkostlegt kvæði. Veit ekki hve mikil áhrif það hafði samt. Mér finnst þjóðremba ekkert betri þó hún sé í formi ríms og stuðla. Auk þess voru allt aðrir tímar þegar það var samið. Nýja stjórnarskrá vil ég þó og trúi að það sé útaf hræðslu (við kjósendur) sem þingmenn vilja ekki taka hana til atkvæðagreiðslu.

Umræðan um auðævi lífeyrissjóðanna er umræða sem verður að taka. Hún var tekin á hinum Norðurlöndunum fyrir nokkrum áratugum og við gætum sem best reynt að herma eftir þeim. Sömu eða svipuðum lífskjörum náum við þó líklega aldrei. Ömurlegt hlutskipti er samt að vera taglhnýtingur Bandaríkjanna. Verðtryggingin er bara einn hluti af þeim kynslóðareikningi sem á sér stað í gegnum lífeyrissjóðakerfið og sæmileg sátt þarf að ríkja um milli kynslóðanna. Málin eru margflókin.

Minnir að ég hafi skrifað um það í gær að ríkisstjórnin hafi greinilega tapað í áróðursstríðinu sem óhjákvæmilega er háð allt kjörtímabilið. Á alþingi finnst mér þetta einkum hafa komið fram í því að í stað þess að mildast við undanlátssemi ríkisstjórnarflokkanna hefur stjórnarandstaðan magnast í andstöðu sinni þangað til svo er nú komið að henni þykir sjálfsagt að stjórna að fullu. Með öðrum orðum, ég er algjörlega búinn að gefast upp á fjórflokknum. Fulltrúum hans er alls ekki viðbjargandi og munu verja klíkuskapinn og spillinguna fram í rauðan dauðann.

Sýndist í frétt í sjónvarpinu áðan að framboðin séu eitthvað undir tuttugu. Kannski eru einhverjir bókstafir semsagt lausir ennþá. Held samt að flokkarnir á þingi verði ekki svona margir. Kannski uppundir tíu eða svo. Hvernig segir maður sig annars úr eins manns þingflokki? Þetta er bara dæmi um vandamál sem ég að velta fyrir mér nákvæmlega núna.

Þetta blogg er næstum eingöngu um pólitík. Hvernig stendur eiginlega á því? Mér finnst hún ekkert sérlega merkileg. Fjölbreytt er hún samt einmitt núna. Ekki er hægt að neita því. Það verður fjör að fara að kjósa í vor. Eiginlega er það synd að hafa ekki svona eina eða tvær þjóðaratkvæðagreiðslur samhliða. En við endum samt í sósíalísku ESB. Já, þetta eru allt laumukommar.  

IMG 2872Lækur.


mbl.is Langi-Jón fannst á Lynghálsi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband