Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2013

2083 - Mesti svíðari skáksögunnar

Heimsmeistaraeinvígið í skák sem haldið var á Íslandi árið 1972 er mörgum í fersku minni. Einnig er endurkoma Robert James Fishers til Íslands árið 2005 fólki minnisstæð. Margar bækur hafa verið skrifaðar um þennan snilling skáklistarinnar. Hann var greinilega geðbilaður (þ.e.a.s ekki eins og fólk er flest) og eftir að hafa unnið heimsmeistaratililinn hér í Reykjavík tefldi hann ekki opinberlega fyrr en árið 1992 og þá enn og aftur við Spassky.

Nýlokið er í Chennai á Indlandi heimsmeistaraeinvígi í skák, en þar sigrðaði Norðmaðurinn Magnus Carlsen Indverjann Viswanathan Anand í einvígi með talsverðum yfirburðum. Einvígið sem haldið var hér í Reykjavík árið 1972 hefur oft verið kallað einvígi aldarinnar og er þá átt við tuttugustu öldina. Vel getur verið að einvígið á Indlandi verði með tímanum kallað einvígi tuttugustu og fyrstu aldarinnar.

Þó margt sé líkt með þeim Fischer og Carlsen er ekki líklegt að Carlsen loki sig af á sama hátt og Fischer. Fischer kom frá brotnu heimili og sá að mestu leyti um sig sjálfur. Carlsen hefur aftur á móti lifað venjulegu fjölskyldulífi og er á flestan hátt ósköp venjulegur ungur maður. Skákhæfileikar hans og minni er samt með ólíkindum. Skákin hefur á undanförnum árum gengið í gegnum mikla erfiðleika hér á Íslandi og víðar, en mun hugsanlega ganga í endurnýjun lífdaga eftir þennan fræga sigur Carlsens.

Magnus Carlsen er okkur á Íslandi að góðu kunnur. Hann verður 23 ára í dag þann 30. nóvember og var því aðeins 22 ára þegar hann vann heimsmeistaratitilinn. Hann tefldi hér á Íslandi fræga atskák (umhugsunartími um hálftími) árið 2004 við Garry Kasparov sem þá var heimsmeistari. Kasparov var fjarri því að vera ánægður með að þurfa að sætta sig við jafntefli við strákinn (13 ára) í þeirri skák.

Í einvíginu á Indlandi voru þeir Carlsen og Anand aðskildir frá áhorfendum með glervegg. Ekkert slíkt var til staðar í Laugardalshöllinni árið 1972 þegar þeir Fischer og Spassky leiddu saman hesta sína. Á margan hátt var því líkast sem þeir Anand og Carlsen væru dýr í búri sem væru til sýnis fyrir forvitna og ágenga áhorfendur og ljósmyndara.

Víst er skákin í eðli sínu brútal. Þar er menn drepnir til hægri og vinstri og markmiðið er að lama kóng andstæðingsins. Samt er það svo að skákin ber með sér sigur andans yfir efninu og þó líkamlegt atgervi sé nauðsynlegt til að ná langt í þeirri íþrótt er það ekki skilyrði og aldur skiptir oftast litlu máli.

Í dag klukkan fjögur er blaðamannafundur og þar mun Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra skýra frá tillögum nefndar um skuldamál heimilanna og samkomulagi milli stjórnarflokkanna um meðferð þeirra. Eflaust verður miklu pólitísku moldviðri þyrlað upp í framhaldi af því, en ekki er líklegt að það verði stjórninni að falli.Vinsældir hennar hafa þó dvínað mjög undanfarið og halda sennilega áfram að gera það. Annað mál er sennilegt að verði stjórninni hættulegra, en það er um skipun rannsóknarnefndar vegna Icesave-málsins. Þar er ruglað saman pólitískri og lagalegri ábyrgð og eingöngu farið af stað í hefndarskyni.

IMG 4843Málað í Feneyjum.


mbl.is Verður gert í skrefum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

2082 - Uppsagnirnar á RUV

Guðjón E. Hreinberg hefur skrifað margt athyglisvert. M.a. bækur og ýmislegt fleira. Hann hefur yfir léninu not.is (http://not.is/ ) að ráða og þar má nálgast allt hans efni. Í bók sinni „Varðmenn kvótans“ kemur hann t.d. ágætlega inná muninn sem er á því hvernig menn nálgast tölvur. Tölvur og tölvuvinnsla, forrit, stýrikerfi og gagnavinnsla eru að mörgu leyti samsafn af vandamálum. Illyfirstíganleg gjá getur myndast á milli þeirra sem nálgast þau vandamál með hugarfari notandans og þeirra sem gera það með hugarfari forritarans eða hugbúnaðarhönnuðarins, alveg eins og bifvélavirkinn hefur ekki sömu sýn á bíla og ökumenn oft hafa. Um þetta má margt segja og þetta getur haft talsverð áhrif á mannleg samskipti.

Uppsagnirnar á RUV hafa eflaust áhrif. Mér finnst samt ekki samræmi í því að gagnrýna allt sem RUV gerir og líka fyrir að vilja spara. Geri ekki ráð fyrir að skrifa undir áskoranir um að hætta við uppsagnirnar. Þekki einfaldlega ekki málið nógu vel til þess. Undirskriftasafnanir eru einfaldlega að verða viðurkennd aðferð í pólitískum aðgerðum. Vopnið er að slævast. Um atburðina í dag vil ég bara segja að Helgi Seljan (yngri) hefur sennilega vaxið í áliti hjá mörgum og Páli Magnússyni væri hollt að minnast málsháttarins um að sannleikanum verði hver sárreiðastur.

Þegar ég var í forsvari fyrir videokerfið í Borgarnesi vakti tilvist þess talsverða athygli hjá fjölmiðlum þess tíma. Svo langt gekk það, að einu sinni a.m.k. var haft samband við mig sem álitsgjafa. Ekkert var þó DV-ið og engin fésbókin í þann tíma. Þar lærði ég það að fréttamiðlar segja sjaldnast alveg satt og rétt frá og það hvaða fréttir komast að, helgast fyrst og fremst af áhuga fjömiðilsins og hvað hann heldur (eða vonar) að fólk vilji lesa. Áhugi miðilsins stjórnast stundum af von um aukið traust, en líka oft af mögulegum gróða. Fréttir eru samt yfirleitt ekki hafðar viljandi vitlausar og villandi. Heldur stafar það oftast einfaldlega af þekkingarskorti.

Sennilega fer fésbókin að syngja sitt síðasta, nema sem tenging milli náinna félaga og venslamanna. „Statusarnir“ eru óðum að verða álíka vitlausir og jafnmikið út í hött og athugasemdirnar hjá Vísi og DV. Ætli „virkur á fésbók“ verði ekki bráðum (eða sé nú þegar) álíka mikið skammaryrði og „virkur í athugasemdum“.

IMG 4801Í Feneyjum.


mbl.is Ekki komist hjá uppsögnum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

2081 - Halastjarna á leiðinni

Horfi yfirleitt afar lítið á þætti í sjónvarpinu. Horfði þó á seinni hluta endursýningarinnar á þætti Gísla Marteins Baldurssonar þar sem hann ræddi við Jón Gnarr og það sem á eftir því viðtali fór. Verð að viðurkenna að mér fannst Gísli komast betur frá þessu en ég hafði búist við. Trúlegt er bara að ég reyni að horfa á þáttinn hans um næstu helgi. Laugarvatns-táknrænan sem bent var á í lok þáttarins er athyglisverð. Efast ekki um að SDG hefur hugleitt hver örlög Hriflu-Jónasar urðu og hvernig sagan dæmir hann.

Líka hef ég lesið svo jákvæða dóma á fésbókinni og jafnvel blogginu um nýjan þátt um íslenskt mál í Sjónvarpinu að ég neyðist sennilega til að horfa á hann. Að mestu leyti er ég hættur að horfa á Kiljuna hans Egils Helgasonar. Er þó ekkert hræddur um að ég hafi misst af neinu.

Man vel eftir Hale-Bopp halastjörnunni sem sást vel með berum augum og var hátt á lofti á kvöldin í talsverðan tíma, þegar við bjuggum á Vífilsgötunni. Ætli það hafi ekki verið svona rétt fyrir síðustu aldamót (vel mætti auðvitað Gúgla það). Nú um næstu mánaðamót er von á annarri halastjörnu en hætt er við að hún verði sjáanleg í miklu skemmri tíma og auk þess lægra á lofti. Aðdáendur loftsjóna ættu samt ekki að láta þetta tækifæri framhjá sér fara.

Man ekki alveg hvar það var en einhversstaðar sá ég um daginn umfjöllun (með myndum) um Fordlandiu. Þorpið sem Henry Ford stofnsetti í Suður-Ameríku. Hvernig sem á því stendur finnst mér minna til um svona sögulegar upprifjanir ef ég hef sjálfur einhverntíma skrifað um þær á blogginu mínu. Man vel eftir að hafa skrifað um Fordlandiu og vitanlega er óttaleg vitleysa að láta svona. Hvað mætti t.d. Illugi Jökulsson segja um Lemúrinn sinn. Ekki vantar að fjölmargt athyglisvert hefur hann fjallað um þar. Margt festist manni betur í minni ef maður skrifar sjálfur um það. Og engin leið er að neita því að fésbókin bendir manni á margt afar athyglisvert þó margt sé skelfilega lítils virði sem þar er að finna. Svo má ekki gleyma Gúgla gamla.

Frá fornu fari hef ég haft talsverðan áhuga á Science Fiction bókum eða vísindaskáldsögum eins og réttast er að kalla þær á íslensku. Núorðið má helst ekki hafa áhuga á neinu nema kvikmyndum og eitthvað hefur verið framleitt af SF kvikmyndum, en ég hef ekki séð margar þeirra. Post Apocalyptic bækur eða það sem kalla mætti „eftir lok siðmenningar“ bækur eru í rauninni sérgrein innan SF bókanna og að mörgu leyti hef ég mestan áhuga fyrir þeim. „Dystopia“ sem er eiginlega andstaða við „utopia“ sem flestir kannast við er líka orð sem mikið er notað til að lýsa SF bókum. Geimferðabækur er svo enn ein greinin og þar er nýkomin út bók sem vekur talsverða athygli. Hún er kölluð „The Pluto Enigma“ og er eftir Nick Oddo. Sú bók er talsvert frábrugðin venjulegum SF bókum (raunverulegri er sagt) og þó ég hafi bara lesið kynningu á henni sýnist mér hún vera nokkuð góð.

IMG 4755Hótellíf.


2080 - Er fólk fífl?

Auðvitað er það hvers og eins að ákveða hvort honum finnst að fólk sé fífl eða ekki. Einna best er að finnast svo ekki vera, en ákveða samt, með sjálfum sér, að maður sé bestur í heimi (eða einhverjum öðrum hópi) í sem allra flestu. Bæði er það vissast og svo kemur það auðvitað í veg fyrir vanmat. Heimspekilega spurningin um það hvort fólk sé fífl eða ekki og sú spurning, sem snýr innávið og fjallar um það hvort í gangi sé gagnvart sjálfum sér vanmat eða ofmat og á hvaða sviðum þá helst, eru þær spurningar sem mér þykja á margan hátt vera merkilegastar alls. Allir þurfa sífellt að velta þeim fyrir sér og gera áreiðanlega á sinn hátt.

Auðvitað er hægt að koma hugsun sem þessari að á margan hátt. Minn háttur er bara svona. A.m.k. að þessu sinni. Samband fólks við aðra er það sem mestu máli skiptir, því maðurinn er félagsvera. Fjölskylduböndin eru hjá flestum eitt það sterkasta afl sem til er. Fjölskyldur í dag eru reyndar oft svo flókin og margbrotin fyrirbrigði að fyrir ókunnuga getur verið mjög erfitt að átta sig á þeim. Fordæming á öðrum sem hugsa á ólíkan hátt er einnig mjög algeng. Þjóðernisofstopi og útlendingahatur getur sem hægast verið sprottið af slíkum rótum. Einmanakennd og að finnast maður ekki tilheyra neinum hópi, getur verið grunnur margrar sálfræðilegrar truflunar.

Trúmál geta sem hægast blandast inn í þetta allt og gera mjög oft. Þessvegana eru þau næstum alltaf afar vandmeðfarin og stutt getur verið í fordæminguna og þar með illvilja og afskiptasemi. Nútímatækni hefur líka gert margskonar samskipti mun auðveldari og fyrirhafnarminni en áður var. Auðvitað eru þessi samskipti oft yfirborðskennd, en samskipti eru það engu að síður. Nú er ég orðinn svo hátiðlegur að líklega er best að hætta.

Sérstakt „app“ eða forrit eins og við gamla fólkið köllum fyrirbrigðið, hefur verið fundið upp til að fólk geti ekki séð athugasemdirnar (kommentin á nútímaíslensku) sem settar eru við greinar í vinsælum fjölmiðlum. „Pöpulinn“ mætti kannski kalla þetta venjulega fólk, sem „kommentin“ skrifar. Ég er þó ekki vel að mér í þeirri tungumálalegu endurskoðun og enskuást sem nú á sér stað. Auðvitað vill „elítan“ ekki að „pöpullinn“ sé að skipta sér af málum. Nógu slæmt er að þurfa að lyfta með atvinnusköpun undir rétta og slétta blaðamenn.

Pólitík ruglar fólk oft í ríminu. Hún verður stundum að nokkurs konar trúarbrögðum eða kreddufestu og getur þá orðið hættuleg. Áhrif hennar er erfitt að mæla. Bæði er hætta á ofmati og vanmati. Sama má segja um mörg þau stjórnmálalegu atriði sem hæst ber á hverjum tíma. Oftast er hægt að tala sig niður á skynsamlega niðurstöðu. Þó ekki alltaf. Ef trúmál og pólitík blandast of mikið saman er veruleg hætta á ferðum. Kaldhæðni verður svarið hjá mörgum, en hún leysir engin vandamál. Ekki er hægt að skemmta sér til ólífis og geðveiki er ekki eftirsóknarverð. Allt sem ekki samræmist þeim þjóðfélagslegu normum sem í gildi eru virðist gjarnan fá geðveikistimpil.

Já, pólitíkin er á margan hátt mannskemmandi. Vissulega ljúga pólitíkusar manna mest. Það vita allir. Mér finnst það nú samt langt gengið þegar SDG sakar menn um það fyrirfram að ætla að ljúga. Kannski er hann bara að breiða fyrirfram yfir það sem hann ætlar að ljúga. Hingað til hef ég ekki orðið var við að hann ljúgi minna en aðrir. Björt framtíð er að stela Pírataflokknum, segir annar Davíð. Vitanlega er það lygi líka.

IMG 4748Ekki fyrir túrista.


2079 - Skuldavandi heimilanna o.fl.

„Gunnar Jóhannsson, yfirmaður rannsóknardeildar lögreglunnar á Akureyri, segir að maðurinn hafi verið fangelsaður á þeirri forsendu að hann hafi brotið skilyrði reynslulausnar. Fangar eiga ekki að hafa aðgang að internetinu meðan á afplánun stendur.“

Þetta er af fréttavef RUV, svo varla er ástæða til að efast um að það sé rétt. Kannski eru það mín einu mannréttindi að ég hef aðgang að internetinu. Um flest annað er ég svikinn.

Ég trúi því samt alveg að einhver leið finnist til þess að minnka „skuldavanda heimilanna“ (með eða án gæsalappa). Sú leiðrétting verður áreiðanlega mest á pappírnum og í framtíðinni. Við Íslendingar erum svo vanir að færa allan (eða flestan) vanda á framtíðina að okkur verður ekki skotaskuld úr því. Jafnvel gætu „hjól atvinnulífsins“ farið að snúast hraðar. Öfugt við suma aðra er ég þó þeirrar skoðunar að áhrifin á verðbólguna verði talsvert mikil. Auðvitað verður „snjóhengjunni“ svokölluðu kennt um þau áhrif, en stjórnarfarið sjálft er þó aðaláhrifavaldurinn.

Ýmislegt átti að gerast nú í nóvember í síðasta lagi. Einhverjar barbabrellur kemur SDG þó vafalaust með sem eiga að gagnast „skuldsettum heimilum“. Fyrst og fremst verður það bókhaldslegt og kannski áþreifanlegt einhverntíma í framtíðinni, „ef enginn hreyfir andmælum“.

Lakast er frá mínu sjónarmiði séð að engar líkur eru á að Eygló Harðardóttir og fylgifiskar hennar standi við stóru orðin um ellilaunin eða hvað sem það er nú kallað í dag.

Bókastaflinn á náttborðinu hjá mér er alveg horfinn (eða farinn annað) eftir að ég eignaðist Kyndilinn minn. (Takið eftir upsiloninu). Held að greinarnar hjá mér séu alltaf að styttast. A.m.k. finnst mér engu við þetta að bæta. (Skammstafanirnar og svigarnir halda sér þó.)

Dagurinn í dag (22. nóvember) er um sumt merkisdagur. 50 ár eru liðin síðan Kennedy forseti var myrtur í Dallas og Norðmaðurinn Magnus Carlsen varð heimsmeistari í skák í dag. Með því hefst að mínum dómi nýr kafli í skáksögunni. Kasparov og Fischer eiga þar einnig kafla og jafnvel fleiri. A.m.k einhverjir af gömlu meisturunum.

IMG 4730Fiskveiðar á Gardavatni.


mbl.is Carlsen heimsmeistari
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

2078 Hanna Birna Kristjánsdóttir og Eva Hauksdóttir

Tvennt virðist einkum skapa vinsældir hjá Moggablogginu. Nöfn og linkar. Þ.e.a.s. nöfn þekktra persóna og linkar í fréttir. Nú ætla ég semsagt að gera smátilraun með þetta. Skrifin hér eru heldur ómerkileg og stutt, en þessi tvö atriði eru í lagi.

Bjórfrétt Vísis í sambandi við knattspyrnulandsleikinn í síðustu viku hefur, mér til mikillar undrunar, orðið til þess að margir hafa afneitað þeirri frétt og reynt að gera blaðamanninn sem skrifaði hana sem tortryggilegastan. Í mínum augum er fréttin sönn. 70 bjórar (sem mig minnir að hafi verið talan) er ekkert sérstaklega mikið fyrir heilt knattspyrnulið. (Varamenn og fararstjórar líklega meðtaldir) Aftur á móti er spurning hvort rétt hafi verið að birta hana. Það er ekki mál blaðamannsins sem skrifaði hana. Lítum á hagsmunina (peningana). Hagsmunir blaðamannsins eru eingöngu þeir að segja satt og rétt frá og undir engum kringumstæðum að segja frá heimildum sínum. Hagsmunir hótelstjórans og þjálfara liðsins eru allt aðrir eins og blaðamaðurinn Atli Fannar gerir ágæta grein fyrir á bloggi sínu http://atlifannar.wordpress.com/ .  

Mörg ógáfuleg orð eru látin falla um kílóa- og alkóhólbaráttu okkar hér á Vesturlöndum. Að vísu eru vandamál okkar talsvert frábrugðin þeim sem íbúar fátækari landa eiga við að stríða. Samt eru þau ekki einskisverð. Fólk er ákaflega misvel til baráttu við þessi vandamál fallið. Sjálfur á ég í litlum vandræðum með áfengið og sælgætið. Það eru kökurnar, kexið og brauðið sem eru mitt vandamál. Ekki svo að skilja að mig vanti það, heldur á ég erfitt með að neita mér um það. Peningar skipta litlu máli hvað þetta snertir, nema mjög óbeint þá. Það eru lífstíllinn og vaninn sem ráða mestu. Við þau systkini er erfitt að eiga og sumir fara meira halloka í þeirri baráttu en ég. 

Hanna Birna Kristjánsdóttir er svonefndur innanríkisráðherra. Áður var þetta embætti kennt við dóms og kirkjumál. Þetta embætti er vandasamt og spurning hvort Hanna Birna veldur því. Starfsfólk stofnana sem undir það heyra og ráðuneytisins sjálfs virðast stundum gera sér leik að því að koma henni í vanda. Það hlýtur að vera hennar mál að fást við þann vanda en ekki fjölmiðla og almennings. Þarna á ég fyrst og fremst við svonefnda hælisleitendur og Eva Hauksdóttir og DV hafa gert ágæta grein fyrir því. Sjálf virðist hún einfær um að koma sér í vandræði hvað kirkjumálin varðar.

IMG 4710Allir að ganga með grímur. Man ekki hvort það var Rómeó eða Casanóva að kenna.


mbl.is „Borgararnir verða að vera öryggir gagnvart ríkinu“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

2077 - Kennedy

Ég hef enga trú á að núverandi ríkisstjórn verði langlíf. Sigmundur Davíð virðist vaða í villu og svíma. Í næstu kosningum mun fylgið hrynja af Framsókn. Sjálfstæðisflokkurinn er einnig stórlega laskaður. Varla að hann nái sér á strik aftur. Hreinn meirihluti er fjarlægari en nokkru sinni í mjög langan tíma. Verst er að samstjórn Samfylkingarinnar og Vinstri grænna var ekki hótinu skárri. Kannski lofuðu þau ekki eins miklu og Sigmundur Davíð en vinstri sinnað fólk bjóst áreiðanlega við meiru af þeim. Ríkisstjórn þessara flokka var óneitanlega bölvað klúður.

Kannski knattspyrnuhysterían renni nú aðeins af fólki. Landsliðið okkar er samt mun betra en venjulega. Fáar stórþjóðir leggja verulega rækt við landsliðin og vissulega er tækifæri þar fyrir smáþjóðir eins og okkur Íslendinga. Þó eigum við langt í land með að verða á heimsmælikvarða í fótboltanum. Í augum útlendinga erum við Íslendingar fyrst og fremst hlægilegir fyrir að þykjast alltaf vera stærri en við erum.

Þó stöndum við okkur ágætlega á sumum sviðum t.d. í listum og einstaka íþróttagreinum „miðað við fólksfjölda“. Samt erum við hrikalega aftarlega á merinni í flestu öðru. Þó vinsæl iðja sé að hallmæla öllu sem íslenskt er, ætla ég að reyna að falla ekki í þá gryfju. Á margan hátt er mesta furða að við skulum geta haldið uppi menningarþjóðfélagi svo fámenn sem við erum.

Mér finnst þingmaðurinn Birgitta Jónsdóttir breyta fésbókarforsíðunni hjá sér of oft. Einhverjir gætu misst af þessu. Svo ætti hún að hafa nóg að gera við að vekja fólk til Internet-vitundar eins og Pírata er siður. Ég er alls ekki að hallmæla Pírötum. Kaus þá sjálfur og sé ekkert eftir því, en fyrr má nú rota en dauðrota. Af einhverjum orsökum hef ég setið meira við tölvuna í dag (miðvikudag) en venjulega og meðal annars farið hvað eftir annað á fésbókina (já, ég er bara svona – það sem helst hann varast vann, varð þó að koma yfir hann.) Hef enga tölu á því hve Birgitta hefur oft breytt um forsíðumynd í dag, en mér finnst það semsagt of oft. Kannski er hún bara vön þessu, öskufljót að því og ekkert við því að segja.

Já, ég lít svolítið á mig sem eins manns fjölmiðil. Oftast eru það svona hundrað manns á dag sem lesa bloggið mitt eða kíkja a.m.k. á það. Mörgu verð ég þó að sleppa sem gaman væri að skrifa um. Hvað skrifelsismagnið snertir er ég alveg á pari við Ómar Ragnarsson, finnst mér. Að öðru leyti er ég alls ekki að líkja okkur saman. Hann skrifar óhemju mikið og Jónas líka. Veit ekki með aðra. Má sjaldan vera að því að lesa langar greinar því mér finnst ég þurfa að skrifa svo mikið.

Nú eru að verða 50 ár frá morðinu á Kennedy. Enn eru menn að búa til samsæriskenningar um þennan atburð. Ef einhver fótur væri fyrir þessum kenningum væri það afar vel af sér vikið að hafa tekist að halda öllu leyndu í 50 ár. Þó margt sé ansi skrítið í sambandi við mál þetta trúi ég því að Oswald hafi gert þetta. E.t.v. samt með einhverri aðstoð. Annars er ekki hægt að ætlast til þess að allir hlutir upplýsist að lokum. Okkar eigin Guðmundar og Geirfinnsmál eru enn óleyst ráðgáta og sama má segja um Palmemálið í Svíþjóð.

IMG 4693Hringleikahúsið í Veróna.


2076 - Prófkjör

Andstæðingar Sjálfstæðisflokksins reyna að gera sem mest úr því að prófkjör flokksins í Reykjavík hafi verið misheppnað. Víst var það svo að mörgu leyti. Kjörsóknin var léleg ef miðað er við þá bestu í fortíðinni. Úrslitin voru heldur ekki góð fyrir flokkinn. Langtímamarkið hans hlýtur að vera að ná aftur völdunum í Reyjavík og gera höfuðborgina að höfuðvígi flokksins. Aðrir bæir í nágrenninu henta ekki nærri eins vel til þess.

Ekkert útlit er fyrir að þetta takist. Aðkoma flokksins að málefnum borgarinnar hefur hingaðtil ekki verið með þeim hætti að það stuðli að slíku. Andstæðingar hans óttast þó að svo geti farið. Landsmálin ráða oft miklu um úrslitin í Reykjavík. Óvinsæl ríkisstjórn mun ekki hjálpa flokknum. Engar horfur eru á almennri ánægju með störf ríkisstjórnarinnar á næstunni. Líklegt er að skuldamál heimilanna muni enn dragast og ekki er endalaust hægt að kenna fyrri stjórn um allt sem miður fer.

Stjórnarandstaðan er þó sjáfri sér sundurþykk og ósamstaða hennar mun valda því að áhrif hennar verða lítil. Helsta von hennar er sú að náttúruverndarmálin verði stjórninni að falli. Græðgi hennar verði of mikil. Ástandið í þjóðfélaginu er alls ekki það sama og fyrir Hrun. Andstaðan gegn ESB og flugvallarfylgispektin munu þó fara minnkandi og útlit er fyrir að hvorugt muni hafa úrslitaáhrif í komandi sveitarstjórnarkosningum. Pólitíkin er þó óðum að detta í sitt fyrra horf og naggið og rifrildið að verða allsráðandi. Landslagið er þó verulega breytt. Sérhagsmunahópar allskonar eiga vegna tækninnar mun auðveldara með að ná saman en áður var. Það hefur hvað eftir annað sýnt sig bæði hér og erlendis.

Einhverjir hafa e.t.v. búist við því að hagræðingarhópurinn væri einskonar yfir-ríkistjórn sem ætti að segja Sigmundarstjórninni fyrir verkum. Svo var ekki, þetta voru bara gasprarar sem þurfti að þagga niður í og á endanum sömdu þau lista sem kannski verður hægt að nota og kannski ekki. Sigmundur lifir held ég ennþá í þeirri von að fá ráðherra til viðbótar og ætlar sér hugsanlega að gera Ásmund Einar að slíkum til að komast enn hjá því að sparka Vigdísi uppávið.

Læt ég svo lokið mínum daglegu (eða næstum því) stjórnmálahugleiðingum.

Enn og aftur er ég að hugsa um að minnast á heimsmeistaraeinvígið í skák. Þar er Carlsen með 4,5 vinninga gegn 2,5 vinningum Anands. Áttunda skákin var tefld í morgun. (Í dag þriðjudag.) Afar litlar líkur eru á að Carlsen glutri þessari forystu niður. Hernaðaráætlun hans hugsa ég að sé núna að láta Anand sækja og bíða þess að hann gangi of langt.

Læt þetta bara duga. Dettur ekkert krassandi í hug.

IMG 4659Kirkjugarður á mörgum hæðum (veitir ekki af).


2075 - Mór, kol og olía

Já, ég spáði vitlaust um úrslit Króataleiksins, enda hef ég lítið vit á knattspyrnu og spámaður er ég enginn. Króatar eru (eða voru a.m.k.) ágætir í fótbolta og hæfileg svartsýni er kannski það rétta gagnvart útileiknum. Ætla samt engu að spá um úrslit hans. Þeir sem andstæðir eru inngöngu í ESB og voru á sínum tíma andvígir því að semja um Icesave-málið reyna að tengja fátboltafárið núna þeim málum. Þvílík vitleysa. Nenni ekki einu sinni að tala um það.

Kannski er samt aðaltilgangur þessarar bloggfærstu að breiða yfir þennan svartsýnisspádóm um Króataleikinn. Eiginlega hef ég ekkert að segja. Jú, ég fer flesta fimmtudega í Kost og kaupi mér ávexti til vikunnar. Þeir eru nefnilega með 50% afslætti þá, en reyndar ekki alltaf sérlega góðir. Bananar á 120 krónur eru þó yfirleitt sæmileg kaup.

Í Kosti tek ég líka oft ókeypis eintak af Bændablaðinu. Að sumu leyti er það ágætt mótvægi við Fréttatímann sem yfirleitt kemur hingað á fimmtudögum líka. Svo má nota helgina til að glugga í þessi blöð meðfram netskoðun.

Var að enda við að lesa grein (með harfagrautnum) um mó, í Bændablaðinu. Í framhaldi af því fór ég að hugsa um kol og olíu og síðan um heimshlýnun. Er það hugsanlega að verða eins og var með blessaðar sígaretturnar? Allir gera sér grein fyrir óhollustunni, en enginn vill samt hætta. Fréttablaðið er ég sem betur fer alveg laus við. Tala ekki um Moggann.

Sennilega hef ég aðeins meira vit á skák en fótbolta. Er einn af þeim sem spáði Carlsen sigri í einvíginu við Anand. Kannski hef ég rétt fyrir mér þar. Hann er a.m.k. búinn að vinna eina skák.

Andskotans frekja er þetta alltaf í fésbókinni. Maður má ekki einu sinni kíkja á það sem að manni er rétt þá þarf fésbókin að kjafta því í alla í gegnum tímalínuna. Hverjir skyldu annars skoða tímalínuna hjá öðrum? Það er hægt að verða gráhærður (þessu fáu sem eftir eru) yfir þessari afskiptasemi hjá fésbókarfjáranum. Ætli hann Sigmundur viti af þessu?

Þetta verður fremur þunnur þrettándi hjá mér. Enda fyrst og fremst hugsað sem ábreiða yfir Króatamistökin.

IMG 4582Þetta er tekið út um framrúðuna á rútunni.


2074 - Króatía 3 Ísland 0

Það virðist vera orðinn vani á hinu háa alþingi að á eftir hálftíma hálfvitanna komi einhver annar hálftími. Sennilega hálftími treikvartvitanna. Venjan er að kalla þetta sérstaka umræðu en það blekkir engan. Þetta er bara framlenging á hinu venjulega karpi.

Í dag, föstudaginn fimmtánda nóvember 2013, eiga Íslendingar að leika mikilvægan knattspyrnuleik við Króata. Auðvitað er langlíklegast að þeir skíttapi þeim leik. Allra hluta vegna er langbest að spá einhverju slíku. Einhverntíma hefði ég haft heilmikinn áhuga á þessum leik. Svo er samt ekki núna. Mér er eiginlega alveg sama um hvernig fer. Það er hart að þurfa að viðurkenna þetta, en svona er það nú.

Einu sinni var ég þeirrar skoðunar að Íslendingar ynnu alla þá landsleiki sem ég færi á. Þetta gekk ágætlega lengi vel. Ég sá þá vinna Bandaríkjamenn, Norðmenn, Austur-Þjóðverja og jafnvel fleiri. Svo töpuðu þeir náttúrulega fyrir Dönum eins og þeir eru vanir. Líklegast er líka að það verði ávani eða kækur hjá þeim úr þessu að tapa fyrir Króötum. Ólíklegt er samt að það verði 14:0. Tvö eða þrjú mörk í mínus er miklu líklegra. Læt þetta svo duga um fótboltann. Leiðist hann. Mun samt horfa á leikinn í sjónvarpinu ef að líkum lætur.

Það dugar ekki einu sinni að hallmæla Ragnheiði Elínu til að fá menn til að lesa þetta blogg. Það er eiginlega ekki annað eftir en að kalla menn kommúnista til að laða þá að þessu afburðabloggi. Einu sinni sagðist ég jafnvel sjálfur vera kommúnisti. Kannski er það rétt. Hugsanlega er ég eini kommúnistinn sem blogga á Moggablogginu. Ekki væri það dónalegt. Og eiginlega bara mátulegt á Davíð frænda.

Ég er samt kominn á áttræðisaldur. Fyrir nokkru síðan var ég orðinn svo aumur fyrir aldurs sakir að ég gat ekki einu sinni farið í buxurnar mínar án þess að styðja mig. Svo fór ég í sjúkraþjálfun og þá lagaðist þetta. Nú get ég semsagt komist skammlaust í buxurnar.  Hvort eitthvað annað lagaðist veit ég ekki. Ég ætlaði a.m.k. varla að komast niður fjölmargar tröppur einhvers staðar nálægt Kufstein í Austurríki um daginn. Lappirnar á mér eru semsagt hálfbilaðar ennþá. Ekki er fótboltanum samt um að kenna.

Ég er á móti hringtorgum. Leiðist þau. Þegar farið er útúr þeim er ekki vitað í hvaða átt vegurinn liggur sem maður velur. Svipað er að segja um mislægu gatnamótin. Lykkjurnar geta legið hvert sem er.

Nú er Carlsen kominn með forystuna í einvíginu við Anand. Vann fimmtu skákina.

IMG 4484Kastalinn í Kufstein.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband