Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2013
14.11.2013 | 10:06
2073 - Örvhendi
Örvhendi er merkilegur sjúkdómur, ef sjúkdóm skyldi kalla. Margskonar hjátrú tengist örvhendi. Margir trúa því að örvhent fólk sé gáfaðra en annað. Ekki dettur mér í hug að viðurkenna slíkt, enda er ég ekki örvhentur. Sagt er að um það bil tíundi hver einstaklingur sé örvhentur. Örvhendi getur þó verið mismunandi mikil. Skilgreiningu vantar. T.d. eru sumir örvhentir á sumt en ekki annað. Engin leið er að greina þarna á milli. Vitaskuld tengist þetta eitthvað heilastarfsemi, ekki síst vegna þess að vitað er að hvað hreyfingu varðar stjórnar hægra heilhvelið vinstri hluta líkamans og öfugt. Málstöðvar eru sagðar vinstra megin í flestum, hvað sem það þýðir nú.
Líklega er örvhendi ekki ættgeng. Er semsagt ekki í genunum. Ekki er þetta vegna einhvers ávana. Hvernig í ósköpunum stendur þá á þessu?
Á ensku er þeir kallaðir southpaw sem eru örvhentir. Best væri að þýða það með suðurkrumla eða einhverju þessháttar. Mér skilst að paw þýði loppa, krumla, fótur eða eitthvað þess háttar. Af hverju það er frekar kennt við suður en norður hef ég enga hugmynd.
Óumdeilt er að flest er fremur sniðið að þörfum rétthentra og örvhentir þurfa oft að glíma við vandamál sem aðrir þekkja ekki. Heilastarfsemi þeirra er á margan hátt frábrugðin þeirri sem er hjá rétthentum einstaklingum. Auðvitað stafar það oftast af því að skipuleggja þarf þá starfsemi öðruvísu og fátt eða ekkert bendir til þess að örvhentir einstaklingar skari framúr í listum eða þ.h. Þó er u.þ.b. 10 - 15% munur á tekjum örvhentra og rétthentra og er sá munur hinum örvhentu í hag. Þetta hefur ekki tekist að skýra.
Sumir halda því fram að örvhendi sé að aukast. Sé það rétt er ekki vitað af hverju það er. Óneitanlega er þetta efni sem áhugavert væri að rannsaka. Rannsóknir þær sem gerðar hafa verið á þessu efni hingað til, eru fremur fátæklegar.
Margt er einkennilegt í sambandi við íþróttir og örvhendi. Áhöldin sem notuð eru virðast þar geta haft áhrif. Í íþróttum sem menn snertast mikið er ekki um það að ræða að hlutfall örvhentra sé hærra en eðlilegt er, en ef svo er ekki virðist fjarlægð milli iðkenda geta haft áhrif í þá átt að gera hlutfall örvhentra hærra en almennt er. T.d. eru mjög margir örvhentir í skylmingum.
Alþjóðadagur örvhentra er 13. ágúst.
Satt að segja finnst mér boðskapur Ragnheiðar Elínar hálf ógeðslegur. Hún virðist vera tilbúin til að selja orku á tombóluverði og gefa mikinn afslátt af henni. Sennilega er hún að skipa forstjóra Landsvirkjunar að láta ekki svona. Mér finnst að hann eigi frekar að segja af sér en hlýða svona vitleysu.
Þegar við komum til Munchen var ákveðið að starta Októberfest strax, þó September væri.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
12.11.2013 | 16:39
2072 - Íslensk erfðagreining
Nú eru menn hættir að rífast um Hrunið og farir að rífast aftur um Íslenska erfðagreiningu. Ég hef ekki fylgst mikið með því rifrildi en aðalþátttakendurnir virðast vera Kári Stefánsson og Helgi Seljan. Í mínum augum var Íslensk erfðagreining eitt svindilbrask frá upphafi til enda. Eiginlega hefðu menn átt að vera búnir að læra af því svindli að vara sig á bönkunum. Auðvitað gátu þeir það samt ekki því stjónvöld (ekki bara Kári og Davíð) sameinuðust um að taka þátt í þeim svikum. Það voru líka margir sem vissu og áttu að gera sér góða grein fyrir Hannesarsvindlinu, en hneykslast samt á því að hann skuli vera ákærður núna. Eiginkona Geirs Haarde var í stjórn Flugleiða þegar Hannesarmálið kom upp og átti að sjálfsögðu að kæra hann. Ég nenni þessari vitleysu ekki lengur. Þetta er svo rotið að það tekur engu tali.
Er Pétur Blöndal eini heiðarlegi alþingismaðurinn? Birgir Ármannsson segir oft sína meiningu líka, en talar bara svo óskaplega hægt að maður er yfirleitt búinn að gleyma upphafi setningarinar þegar hann lýkur henni. Held reyndar að Jóhanna hafi viljað vel og standa við sitt en bara ekki fengið það fyrir látunum í Steingrími. Hef ekki þá trú á framsóknarmönnum sem sumir virðast hafa eða höfðu. Sigmundur lofaði og lofaði en ég efast stórlega um að hann geti komið nokkru í verk. Aðrir framsóknarmenn eru lakari en hann og er þá mikið sagt.
Læt ég svo lokið mínum pólitísku hugrenningum á þessum vetrardegi. Auðvitað er svolítið kalt en það kemur ekki að sök, ef maður man bara eftir að klæða sig sæmilega. Það er reyndar fyrir löngu kominn vettlingatími hjá mér. Spurningin er bara varðandi húfuna.
Leikar standa nú jafnir í einvíginu Carlsen Anand. Sumir segja að Anand geti verið alveg rólegur því hann hafi unnið heimsmeistaratitilinn svo oft, en Carlsen aldrei. Þetta álít ég ekki alveg rétt. Að mörgu leyti er þetta fyrsta alvörueinvígið síðan Kasparov hætti. Margt hefur breyst í skákinni síðan einvígi síðustu aldar var háð hér í Reykjavík. Tölvurnar eru orðnar miklu sterkari en maðurinn í þessu og ekkert skrýtið við það. Mótahald allt er að vísu orðið erfiðara því gæta þarf þess að ekki sé svindlað. Sá videómynd í gær þar sem bæði Anand og Carlsen voru látnir fara í gegnum vopnaleitarhlið. Sitt hvora hæðina hafa þeir á hótelinu fyrir sig og aðstoðarfólk sitt. Sitt hvora lyftuna einnig. Þrjú jafntefli og þrjár skákir af 12 búnar er að vísu svolítið svekkjandi fyrir áskorandann en ekkert alvarlega þó.
Er fésbókin sú félagslega stoð og þerapía sem margir halda. Mundu nokkrir reagera þó ég færi að skrifa einhverja bölvaða vitleysu sem benti beinlínis til þess að ég væri hættulega geðveikur. Eg efast um að nokkur mundi hafa aandsnærværelse nok til að gera nokkurn skapaðan hlut. En þá mundu þeir fara að hugsa, þó sú hugsun yrði kannski ekki mjög gáfuleg: Kannski Snowden og hans nótar og pótentátar gætu samið forrit eða app sem sýndi fram á hvert ég hef komið. Það er best að flýta sér í burtu. Ekki er hægt að sjá hve fljótur ég eru að lesa, eða er það? Já, en það er kannski hægt að mæla það og ekki dugir að fara niður á litlu-gulu-hænuna stigið því sennilega eru til nýrri og vandaðri upptökur af mér.
Fór að lesa blogg hjá Sveini Arnari Sæmundssyni áðan og ætlaði ekki að geta hætt. Það var gaman að lesa Glasgow sögurnar hans. Svo var pæling hann um dauðann virkilega áhugaverð. Einkennileg sú bannhelgi og þöggun sem ríkir á öllu varðandi hann. Hann er þó örugglega það eina sem á eftir að koma fyrir okkur öll. Jafn háa sem lága.
Þegar ég var í skóla fyrir óralöngu var eitt fyrsta prófið sem ég þreytti á þá leið að skrifa átti á blað ein 30 orð sem lesin voru upp. Ég hafði stóran staf í öllum orðunum en að öðru leyti voru þau rétt skrifuð. Fékk 30 villur (það átti ekki að vera stór stafur) og hef síðan haft fremur lítið álit á íslensku skólakerfi.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
8.11.2013 | 20:11
2071 - Anand vs. Carlsen
Sniðugasta leiðin varðandi Geysi og skúramálið er að girða af bílastæðin við Kerið. Minnir að Jónas Kristjánsson hafi komið með þá gerræðislegu lausn. Annars væri svolítið fyndið að sjá upplitið á saklausum ferðamönnum þegar þeir kæmu að afgirtum bílastæðum. Hugmyndin er góð.
Dettur stundum í hug að við bloggarar gætum sameinast um að skrifa ekkert um Vigdísi Hauksdóttur. Ætli henni færi þá ekki að leiðast þófið. Sigmundi tókst að komast hjá því að gera hana að ráðherra. Með ærnum kostnaði að vísu. Því hann neyddist í staðinn til að gera bæði Gunnar Braga Sveinsson og Sigurð Inga að ráðherrum. Sem aldrei skyldi verið hafa. En það er of seint að iðrast eftir dauðann.
Á sama hátt og það var greinilegt að Steingrímur J. Sigfússon var aftursætisbílstjóri fyrri ríkisstjórnar og hafði þar þá yfirstjórn sem honum sýndist, langar Bjarna Bendiktsson til að verða slíkur aftursætisbílstjóri núverandi ríkisstjórnar. Kannski tekst honum það. Bjarni er greinilega sá ráðherra stjórnarinnar sem mest hefur komið á óvart að því leyti að hann er mun meira útundir sig en menn höfðu álitið.
Neitun Bjarna á því að fallast á tillögur framsóknarmanna um skuldavanda heimilanna sýnir vel hver stjórnar. Sigmundur leitar nú í örvæntingu að einhverju haldreipi í því máli sem augljóslega var aðalkosningamál framsóknar en allt kemur fyrir ekki. Fylgið flýr hraðfara og ómögulegt er að vita hvar það stöðvast. Ekki er að sjá að þó Sigmundi tækist að koma í veg fyrir að Vigdís Hauksdóttir yrði ráðherra að hann hafi verið nokkuð heppnari með utanríkis- og umhverfis- ráðherrana.
Nú skilst mér að búið sé að setja olíufund á stefnuskrá framsóknarflokksins. Sennilega er það ekkert vitlausara en hvað annað. Reyndar hef ég ekki mikla hugmynd um hvernig slíkir fundir fara fram. Kannski er það bara eins og hver annar húsfélagsfundur. Á þeim eina húsfélagsfundi sem ég hef setið um ævina var ákveðið að taka kettlingsgrey af lífi. Held samt ekki að olíufundur sé beinlínis hættulegur. Varasamt getur þó verið að setja hann á kosningastefnuskrá stjórnmálaflokks. En allt er hey í harðindum eins og þar stendur.
Þar fór það. Ég er alveg sannfærður um að Sigurður Líndal er ekki sá aumingi að geta ekki svæft allar tilraunir til að endurvekja stjórnarskrármálið. Einkum vegna þess að það er einmitt það sem íhaldsflokkarnir (framsókn og sjálfstæðis) ætla sér. Ef draumar súkkulaðidrengjanna rætast þá verður ekki minnst á þjóðaratkvæðagreiðslur eða stjórnarskrár allt kjörtímabilið.
Nú er ég búinn að fimbulfamba svo mikið um pólitík að þetta blogg er farið að hallast ískyggilega. Vonandi kviknar samt ekki í því. Þó snjólaust sé hér á Stór-Kópavogssvæðinu er orðið ansi kalt. Líklega er veturinn bara kominn. Bæði á almanakinu og í rauninni.
Á margan hátt er skákeinvígið milli Carlsen og Anands fyrsta alvöru skákeinvígið síðan 1972 þegar einvígi aldarinnar var haldið hér í Reykjavík. A.m.k. er það mitt mat. Ég hef nefnilega ekki fylgst almennilega með skák lengi. Þetta einvígi hefst fyrir alvöru á morgun (laugardag). Hins vegar hófst í dag Evrópukeppni landsliða í skák og á sinn hátt er það mót auðvitað a.m.k. jafnspennandi fyrir okkur Íslendinga.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.11.2013 | 00:00
2070 - Malbik
Einn af þeim fáu sem stundum minnist á mig með nafni í blogginu sínu er Jóhannes Laxdal Baldvinsson. Þessvegna hika ég lítið við að nefna hann með nafni. Ég fann uppá því um daginn að leita með aðstoð Gúgla sjálfs að nafninu mínu í blogginu hans og það bar ótrúlega mikinn árangur. Hann er að vísu alltof snjall til þess að vera að baktala mig eitthvað á þeim vettvangi. Hef reyndar séð margt af þessu áður en var alveg búinn að gleyma því. Þarf að skoða þetta betur við tækifæri en hann virðist aðallega minnast á mig í sambandi við vísnagerð og Steina Briem.
Eins og ég man eftir Steina Briem-málinu þá var það Gísli Ásgeirsson, bróðir Páls Ásgeirs sem fældi Steina Briem frá því að birta rímæfingar sínar, sem oft voru ansi sniðugar, í athugasemdum á blogginu mínu. Þar hafði hann hreiðrað um sig og þó ég kallaði hann stundum sníkjubloggara, (það lærði ég hjá Hörpu Hreins.) þá kippti hann sér lítið upp við það.
Nú, en áfram með smjörið. Ég var víst að tala um Jóhannes Laxdal. Hann er alveg úrvals hagyrðingur og opinion-ated í þokkabót. Það minnir mig á að ég er svo gamall að ég man vel eftir strákunum í Þokkabót, en það er nú önnur Saga eins og þar stendur, eða alltönnur Ella ef því er að skipta. Það er alvarlegt með mig hvað ég leiðist fljótt út í aðra sálma, en hvað um það. Ég var semsagt að tala um Jóhannes Laxdal þegar önnur orð urðu til þess að afvegaleiða mig og nú man ég ekkert hvað ég ætlaði að skrifa um hann. Meira seinna. Þá verð ég vonandi búinn að lesa meira af þessu. Einn af göllunum við að eldast er nefnilega að þá verður maður svo painfully seinlesinn.
Árangur minn eða árangursleysi í bréfskákum á netinu er að miklu leyti eiturlyfjum að þakka eða kenna. Sagan er nefnilega sú að ég verð stundum andvaka á nóttinni og tek þá gjarnan inn svefnlyf. Meðan ég bíð eftir að þau fari að virka er ég ævinlega mjög virkur í bréfskákunum mínum. Þó ég segi frá þessu hérna er ég næstum viss um engir andstæðinga minna gera sér grein fyrir þessu og lesa eða skilja íslenskuna áreiðanlega alls ekki. Annars minnir þetta mig á söguna um..... Jæja, nú er farinn að sofa.
Ekki skil ég þá sem geta sýnkt og heilagt fjargviðrast um stjórnmál á blogginu sínu. Vissulega geri ég það stundum líka, en ég reyni alltaf að hafa eitthvað annað auðmeltara með. Þau verða svo leiðinleg með engu. Altsvo stjórnmálin. Annars þótti okkur krökkunum mikið trít í gamla daga að fá tómt skyr. Vaninn var að hræra afganginum af hafragrautnum frá morgninum saman við það og þá kallaðist það hræringur og var ekki nærri eins gott. Bráðum verð ég líklega svo gamall að fólk frá Þjóðminjasafninu kemur í heimsókn til mín með allskyns græjur í farteskinu til að bjarga ómetanlegum menningarverðmætum frá glötun.
Athyglisverð er sú kenning Ómars Ragnarssonar og fleiri að léleg umferðarmenning og raunar flest sem aflaga fer í þjóðfélaginu sé lélegu malbiki að kenna. Þetta mál er miklu flóknara en svo. Vissulega er malbikið lélegt samanborið við útlönd, en það er alltof mikil einföldun að kenna því um allt. Í rauninni þjónar þessi gagnrýni því eina markmiði að kasta rýrð á yfivöld samgöngumála í landinu.
Auðvitað eru þeim mislagðar hendur. Vegirnir eru ekki nærri því eins góðir og þeir ættu að vera. Sjóflutningarnir voru fluttir uppá land um árið og margt fleira hefur verið gert sem setja má spurningarmerki við. Samt sem áður hafa vegaframkvæmdir um allt land staðið undir svo miklum framförum að engin leið er að meta það til fullnustu. Veit ekki betur en a.m.k. Grælendingar sáröfundi okkur af hinu frábæra vegakerfi. Þó ekki sé annað nær það þó allavega á milli staða.
Sá áðan einhverja kökuuppskrift og þar stóð kakað í 20 mínútur. Ekki er reyndar víst að þetta dugi eitt og sér til að baka köku, en reyna má það. Minnir mig á bók sem ég fékk í hendurnar á Vegamótum þegar ég tók þar við útdeilingu á dýralyfjum. Þar stóð að blanda ætti eitthvað meðal eftir kúnstarinnar reglum og hella í hund. Þetta var handskrifað og átti líklega að vera hella í hana. Ekki hvaða hana sem er heldur hana beljuna. Einnig var sagt ítarlega frá gömlu þjóðráði við súrdoða í kúm. Það átti semsagt að henda á þær ketti. Þetta hefur kannski reynst vel þvi mér skilst að aðalgaldurinn sé að fá þær til að standa upp.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
5.11.2013 | 10:59
2069 - Gísli Marteinn
Skattholufyrirtæki er nýyrði sem ég sá nýlega notað á fésbókinni. Auðvitað er það svo að fyrirtæki eru misjafnlega kræf í því að koma sér hjá því að borga skatta. Minnir að rætt hafi verið um Apple fyrirtækið í þessu sambandi. Á sínum tíma, þegar trúarbragðastríðið mikla milli makka og pésa geisaði, var það óneitanlega svo að ég hafði hvað mest á móti makkatölvugreyunum, að þau skyldu vera uppá náð og miskunn eins fyrirtækis komin en pésarnir voru þó framleiddir af ýmsum og þar af leiðandi yfirleitt ódýrari. Skattholustarfsemi hafði engin áhrif þar á. Seinna meir sá ég að mismunurinn gat hæglega stafað að miklu leyti af slíku.
Rafpóstur er hræðilega illa þróaður. Í stórum dráttum er hann eins uppbyggður nú einsog löngu fyrir síðustu aldamót. Það sem ég vildi gjarnan sjá í mínum e-mail er m.a. þetta: Póstforritið sjálft á að búa til lista yfir þann póst sem kemur frá aðilum sem áður hefur verið svarað. Sá póstur á ævinlega að vera efstur. Auðvitað á móttakandi að geta bætt póstföngum á þann lista. Um helgar á aðeins að sýna þann póst sem er frá þeim aðilum sem eru á þessum lista. Vefpóst á að vera hægt að nota þannig að hægt sé að dánlóda aðeins þeim bréfum sem þannig eru merkt. Líka þarf að vera hægt að dánlóda þeim hverju fyrir sig.
Hægt á að vera að merkja afsendingar-adressu sem spam og þá hendir póstforritið öllum bréfum sem frá því póstfangi koma. Þannig væri hægt að halda áfram lengi dags, en í stuttu máli sagt þá á póstforritið að hugsa. Það er engin goðgá að ætlast til þess af forritum núorðið. Þau hugsa mörg. Óþarfi er að hafa notkun á póstforritum ókeypis. Með því að taka smágjald af öllum rafpóstsendingum mætti koma í veg fyrir spam-póst sem er langt kominn með að eyðileggja rafpóstinn sem virðingarverða notkun á Internetinu.
Einn áberandi galli er á núverandi forsetateymi alþingis. Þeir hafa ekki hugmynd um hvað stundvísi er. Það vissi Ragnheiður Ásta þó nokkurnvegin. Auðvitað skiptir það ekki miklu máli en er þó lýsandi fyrir margt annað hjá núverandi ríkisstjórn. Meðan henni tekst ekki einu sinni að koma sér vel við klukkuna er lítil von til þess með aðra, enda hrynur af henni fylgið samkvæmt skoðanakönnunum.
Já, ég sé að síðasta blogg mitt hefur farið á netið þann fimmta. Kannski ég fari bara að ljúka þessu og setja það upp. Horfði ekki á Gísla Martein í sjónvarpinu um helgina og einhvern vegin finnst mér lítil ástæða til þess. Hef ekki enn orðið svo frægur að horfa á þáttinn hans. Ráðning hans hefur hugsanlega verið pólitísk mistök hjá Páli. Veit ekki hversu vinsæll hann verður en það fer ekki hver sem er í fötin hans Egils. Hann var samt orðinn ansi þreyttur og ágæt hugmynd að skipta honum út, en ég er ekki sannfærður um að Gísli Marteinn sé rétti maðurinn.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
3.11.2013 | 12:49
2068 - Sveitarstjórnarkosningar
Hvort er það tæknin sem er að breyta fjölmiðlun dagsins í dag eða fjölmiðlunin að breyta tækninni og beygja hana undir sig? Mér finnst þetta vera sama spurningin og sú með eggið og hænuna. Hvort kom eiginlega á undan? Er bloggið t.d. afurð tækninnar sem þarf til þess að gera það almennt? Ég held ekki. Ég held einmitt að bloggið eða viljinn til þess að blogga hafi alltaf verið fyrir hendi. Það vill bara svo til að tæknin sem mjög margir hafa yfir að ráða í dag gerir þetta mögulegt. Er ekki miðlun hugmynda (og frétta) að fara að miklu leyti frá stóru fjölmiðlunum og yfir í samfélagsmiðlana svokölluðu? Stóru, prentuðu fjölmiðlarnir hafa einokað þennan markað að undanföru. Ekki hefur það alltaf verið þannig. Á öllum tímum hafa verið margir sem vilja láta ljós sitt skína. Eru ekki samfélagsmiðlarnir einkum fyrir þá?
Eftirfarandi skrifaði ég og birti á blogginu mínu þann nítjánda október árið 2007. Já, það kemur sér stundum vel að kunna að leita í sínu eigin bloggi að hinu og þessu. Ekki veit ég hversvegna ég er að endurtaka þetta, en athyglisvert er það. Sennilega set ég þetta bara til að spara mér skrif. Svo er víst í tísku núna að rifja upp gömul bloggskrif. Aðallega samt hrunskrif og kannski er þetta það einmitt.
Mig minnir að það hafi verið Gíslína í Dal sem sagði frá því á blogginu sínu að hún hefði keypt eða fengið bókina um Thorsarana nýlega og það minnir mig á dálítið úr þeirri bók sem ég las einmitt fyrir þónokkrum mánuðum. Þar segir frá því þegar Thor Jensen lét byggja fyrir sig Fríkirkjuveg 11. Þetta var eitt af fyrstu húsunum í Reykjavík þar sem rafmagnsljós voru í hverju horni. Húsið var byggt fyrir um það bil hundrað árum. Sumir hneyksluðust á því að rafmagnsljós væri meira að segja á klósettunum.
Ég kom á skrifstofur Straums-Burðaráss í Borgartúninu um líkt leyti og ég las bókina um Thorsarana og þar kvikna ljós allsstaðar af sjálfu sér þegar komið er inn í herbergin. Það eru semsagt einhverjir skynjarar sem kveikja ljósið fyrir mann. Svona er þetta meira að segja á klósettunum. Eru þetta í hnotskurn þær framfarir sem orðið hafa á hundrað árum? Ég bara spyr. Kannski eru þessi skynjaraljós fyrir löngu orðin algeng og bara ég sem fylgist svona illa með.
Minn aðalspádómur fyrir bæjar- , sveitar- og borgarstjórnarkosninarnar næsta vor er sá að Sjálfstæðisflokkurinn ríði ekki eins feitum hesti frá þeim kosningum og flestir halda. Þeir sem þann flokk kjósa munu margir kenna framsóknarflokknum (sem þurrkast væntanlega næstum út) um þann ósigur. Víst er að margir verða á þeim tímapunkti orðnir ansi þreyttir að bíða eftir að loforð framsóknarmanna verði að veruleika. Ekki er samt víst að hægt verði að kenna framsóknarflokknum um allt sem miður fer í þeim kosningum. Þó er það svo að vinstri sveiflan í íslenskum stjórnmálum verður greinilegri á eftir en áður. Bakslagið sem varð í þingkosningunum síðstu mun þurrkast út og vel það. Ríkisstjórninni verður líklega hægt að kenna um það.
Annars eru svona spádómar lítils virði. Kosningabaráttan er öll eftir. Mesta athygli um þessar mundir vekur baráttan um sæti á lista Sjálfstæðisflokksins fyrir borgarstjórnarkosningarnar. Einnig eru margir hissa á Jóni Gnarr og að fylgi Besta Flokksins skuli að mestu færast yfir á Bjarta Framtíð. Hvernig fylgið skiptist á milli BF flokkanna verður líklega mesta spurningin. Þ.e.a.s ef þeir bjóða báðir fram. Kosningarnar næsta vor geta semsagt orðið ansi spennandi.
Ríkisstjórnin aldrei óvinsælli | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
1.11.2013 | 19:23
2067 - DV
DV fækkar útgáfudögum úr 3 í 2, segir Mogginn og ekki lýgur hann. Ég sem hélt endilega að DV væri dagblað og kæmi út svona 5 til 7 sinnum í viku. Ekki vissi ég að það kæmi bara út þrisvar. Og nú á enn að fækka útgáfudögum. Dinósárar dagsins eru prentuð dagblöð. Lesa virkilega einhverjir svoleiðis ennþá? Enn sætti ég mig við ofbeldi sjónvarpsins og horfi oft á fréttir þar. Fréttir jafnóðum eru þó betri. Engin ástæða til að geyma þær og voka yfir þeim í allt upp í sólarhring. Mikil endemis vitleysa að lúra á þeim bara til að koma þeim að í einhverjum fyrirfram ákveðnum fréttatíma. Fornaldarhugsun.
Sá um daginn að nöfn barnaníðinga (dæmdra?) voru birt á fésbókinni. Kom verulega á óvart hve margir þeir voru. Hélt að hérna í fámenninu væru þeir miklu færri en þetta. Lagði ekki nöfn þeirra á minnið og er ekki sannfærður um að nákvæmlega þetta sé rétta aðferðin. Hinsvegar er ég sannfærður um að þeir sem hagsmuna eiga að gæta þurfa að geta fengið upplýsingar um heimili dæmdra barnaníðinga fyrirfram. En fjölyrðum ekki meira um þetta. Mál af þessu tagi er ég tilbúinn til að fela lögreglunni að sjá um. Hún er líklegri en flestir aðrir til að feta hinn mjóa veg sanngirni í þessu efni. Ég vantreysti henni mun meira í öðrum málum, sérstaklega fíkniefnamálum.
Sigmundur Davíð forsætisráðherra er sívælandi. Það sæmir ekki manni í hans stöðu að vera sífellt að kveinka sér undan umfjöllun fjölmiðla. Þeir eiga að gagnrýna hans gerðir og gera það. Sífelld jákvæðni þeirra og eilíft meinleysi gagnvart stjórvöldum er hættulegt. Það hefur sýnt sig. Annars ætla ég ekki að gagnrýna ríkisstjórnina sérstaklega. Þessi mánuður (nóvember) getur orðið tími vatnaskila. Kannski efna ríkisstjórnin og Sigmundur sín helstu loforð einmitt í þessum mánuði og þá verður þeim margt fyrirgefið. Verði svo ekki er hætt við að hveitibrauðsdögum stjórnarinnar ljúki fljótlega.
Það kemur mér á óvart (margt kemur mér á óvart) hvað Hallgrímur Helgason, þrátt fyrir alla sína rithöfundarfrægð, er óhræddur við að láta ljós sitt skína á fésbókinni. Af einhverjum ástæðum er ég fésbókarvinur hans og fæ alltaf að vita, ef hann sendir eitthvað frá sér þar. Ekki er Eiríkur Örn svona. Hann er meiri bloggari en fésbókari. Margt sem hann skrifar er þó mjög athyglisvert finnst mér. Kannski er það samt ekki mikið að marka. Skelfilegt tuð er þetta í mér. Ég virðist ekki geta um annað hugsað en fésbók og blogg. Skelfing er það fáfengilegt.
Þó bloggið mitt sé talsvert lesið (segir Moggabloggsteljarinn) eru afar fáir sem kommenta á það. Ekki veit ég hvort ég á að taka það sem last eða lof en hallast helst að því að það skipti litlu máli í þessu sambandi. En sennilega held ég áfram að blogga eins lengi og nefndur teljari hreyfist. Það er nefnilega skemmtilegast ef einhverjir lesa bullið úr manni. Kannski er það það eina sem ég get. Að bulla endalaust semsagt.
Af hverju er alltaf fjallað um neyðarkall björgunarsveitanna? Mér hefur þó skilist að um kellingu sé að ræða að þessu sinni. Annars minnir þetta mig á Tinnu. Hún var nýbúin að læra að segja bless við alla við brottför. Ætli hún hafi ekki verið svona að verða tveggja ára þá. Þegar hún var eitt sinn að fara þar sem hún þekkti ekki alla með nafni sagði hún bara: Bless, kall.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)