2080 - Er fólk fífl?

Auðvitað er það hvers og eins að ákveða hvort honum finnst að fólk sé fífl eða ekki. Einna best er að finnast svo ekki vera, en ákveða samt, með sjálfum sér, að maður sé bestur í heimi (eða einhverjum öðrum hópi) í sem allra flestu. Bæði er það vissast og svo kemur það auðvitað í veg fyrir vanmat. Heimspekilega spurningin um það hvort fólk sé fífl eða ekki og sú spurning, sem snýr innávið og fjallar um það hvort í gangi sé gagnvart sjálfum sér vanmat eða ofmat og á hvaða sviðum þá helst, eru þær spurningar sem mér þykja á margan hátt vera merkilegastar alls. Allir þurfa sífellt að velta þeim fyrir sér og gera áreiðanlega á sinn hátt.

Auðvitað er hægt að koma hugsun sem þessari að á margan hátt. Minn háttur er bara svona. A.m.k. að þessu sinni. Samband fólks við aðra er það sem mestu máli skiptir, því maðurinn er félagsvera. Fjölskylduböndin eru hjá flestum eitt það sterkasta afl sem til er. Fjölskyldur í dag eru reyndar oft svo flókin og margbrotin fyrirbrigði að fyrir ókunnuga getur verið mjög erfitt að átta sig á þeim. Fordæming á öðrum sem hugsa á ólíkan hátt er einnig mjög algeng. Þjóðernisofstopi og útlendingahatur getur sem hægast verið sprottið af slíkum rótum. Einmanakennd og að finnast maður ekki tilheyra neinum hópi, getur verið grunnur margrar sálfræðilegrar truflunar.

Trúmál geta sem hægast blandast inn í þetta allt og gera mjög oft. Þessvegana eru þau næstum alltaf afar vandmeðfarin og stutt getur verið í fordæminguna og þar með illvilja og afskiptasemi. Nútímatækni hefur líka gert margskonar samskipti mun auðveldari og fyrirhafnarminni en áður var. Auðvitað eru þessi samskipti oft yfirborðskennd, en samskipti eru það engu að síður. Nú er ég orðinn svo hátiðlegur að líklega er best að hætta.

Sérstakt „app“ eða forrit eins og við gamla fólkið köllum fyrirbrigðið, hefur verið fundið upp til að fólk geti ekki séð athugasemdirnar (kommentin á nútímaíslensku) sem settar eru við greinar í vinsælum fjölmiðlum. „Pöpulinn“ mætti kannski kalla þetta venjulega fólk, sem „kommentin“ skrifar. Ég er þó ekki vel að mér í þeirri tungumálalegu endurskoðun og enskuást sem nú á sér stað. Auðvitað vill „elítan“ ekki að „pöpullinn“ sé að skipta sér af málum. Nógu slæmt er að þurfa að lyfta með atvinnusköpun undir rétta og slétta blaðamenn.

Pólitík ruglar fólk oft í ríminu. Hún verður stundum að nokkurs konar trúarbrögðum eða kreddufestu og getur þá orðið hættuleg. Áhrif hennar er erfitt að mæla. Bæði er hætta á ofmati og vanmati. Sama má segja um mörg þau stjórnmálalegu atriði sem hæst ber á hverjum tíma. Oftast er hægt að tala sig niður á skynsamlega niðurstöðu. Þó ekki alltaf. Ef trúmál og pólitík blandast of mikið saman er veruleg hætta á ferðum. Kaldhæðni verður svarið hjá mörgum, en hún leysir engin vandamál. Ekki er hægt að skemmta sér til ólífis og geðveiki er ekki eftirsóknarverð. Allt sem ekki samræmist þeim þjóðfélagslegu normum sem í gildi eru virðist gjarnan fá geðveikistimpil.

Já, pólitíkin er á margan hátt mannskemmandi. Vissulega ljúga pólitíkusar manna mest. Það vita allir. Mér finnst það nú samt langt gengið þegar SDG sakar menn um það fyrirfram að ætla að ljúga. Kannski er hann bara að breiða fyrirfram yfir það sem hann ætlar að ljúga. Hingað til hef ég ekki orðið var við að hann ljúgi minna en aðrir. Björt framtíð er að stela Pírataflokknum, segir annar Davíð. Vitanlega er það lygi líka.

IMG 4748Ekki fyrir túrista.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Mig minnir að skólastjórinn okkar gamli hafi kennt okkur orðið "demagog" yfir þá manngerð, sem SDG tilheyrir. Nú til dags er venjulega talað um populista. Merkir að ég held nokkurnveginn það sama. Hvað sem þeirri hvimleiðu manngerð viðvíkur, þá er maður farinn að velta því fyrir sér í alvöru, hvort þetta fulltrúalýðræði, sem við notumst við, sé það heppilegasta fyrir réttlátt þjóðfélag. Þessir svokölluðu "kjörnu fulltrúar þjóðarinnar" eru langflestir ekki fulltrúar annarra en þeirra sem borga fyrir þá reikningana, hvort sem það eru nú LÍÚ eða einhverjir aðrir, plús það að gæta sinna einkahagsmuna, sem oft fara saman við þá fyrrnefndu. Nú eru auðvitað undantekningar frá þessu, en þeir eru því miður í minnihluta. Mér sýnist að þegar Evrópusambandið og stjórnkerfi þess er skoðað, þá sé það að gera tilraun með að láta embættismenn í raun sjá um framkvæmd stjórnunar sambandsins, en hinir "kjörnu fulltrúar" hafi það hlutverk að vera einhverskonar eftirlitsaðili með embættismönnunum. Nú kann þetta að vera misskilningur minn, en ég er ekki að setja þetta á blað vegna þess að ég sé að fordæma stjórnkerfi EU, alls ekki. Miðað við það hvernig það hefur virkað hér að láta misvitra pólitíkusa vasast í öllu kerfinu og brjóta niður það sem vel er gert en hygla því óeðlilega, þá gæti það alveg verið full ástæða til fyrir okkur sem almenning og kjósendur að velta því fyrir okkur, hvort hlutum yrði hér ekki betur fyrir komið ef fagfólk sæi um framkvæmd stjórnsýslunnar, en "kjörnir fulltrúar" - þá miklu færri en við erum með í dag - hefðu það hlutverk að hafa eftirlit með öllu spilverkinu en íhlutun þeirra yrði að hafa mjög þung rök á bak við sig.

Ellismellur 24.11.2013 kl. 20:46

2 Smámynd: Jóhannes Laxdal Baldvinsson

Ef þú vilt ekki, að hver sem er sé að kortleggja þína internet sögu, Sæmundur, ættirðu að nota Firefox vafrann og viðbót sem heitir Ghostery.  Með því geturðu blokkerað öll njósnaforrit sem vilja skrá hvaðan þú kemur og hvert þú ferð auk þess hvað þú skoðar á hverri síðu. Það er ótrúlegt hvað sum vefsvæði eru óskammfeilin hvað þetta varðar. Ég nota FF+Ghostery og ég sé aldrei neinar facebook tengingar og þar af leiðandi aldrei þessi komment á Eyjunni/Pressunni, DV eða Vísi. Þetta er dæmi af Eyjunni yfir trackera sem ég blokka

<img src="http://johanneslaxdal.blog.is/tn/350/users/97/johanneslaxdal/img/eyjan_1222412.jpg" />

Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 24.11.2013 kl. 21:14

3 Smámynd: Jóhannes Laxdal Baldvinsson

Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 24.11.2013 kl. 21:16

4 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Hef engan sérstakan áhuga á SDG. Bíð bara eftir að Hriflu-Jónas gangi niður af honum.

Þetta með fulltrúalýðræðið er aftur á móti merkilegt. Gallar þess eru vissulega margir, en mér er samt til efs að margt taki því fram. Anarkía kemur þó til greina.

Sæmundur Bjarnason, 25.11.2013 kl. 01:09

5 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Jóhannes, ég er eiginlega hættur að spekúlera í tölvum og hvernig þær tala saman. Þegar svona margir eru orðnir tengdir internetinu breytast viðhorfin talsvert. Fyrir löngu er ég hættur að trúa tölvunni fyrir nokkru merkilegu um sjálfan mig. Kannski er það heldur ekki til.

Sæmundur Bjarnason, 25.11.2013 kl. 01:15

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband