1844 - Tölvuleikir forðum daga

Alveg er það dæmigert og ekki til fyrirmyndar að alþingi skuli ætla sér að vera í jólafríi fram í miðjan janúar. Venjulega getur vinnandi fólk ekki leyft sér slíkt.

Eflaust má kenna ríkisstjórninni og stjórnarliðum um þessi ósköp. Ekki er að sjá annað en talsvert sé af málum sem koma þarf í gegn, en stjórnarandstaðan mun standa grá fyrir járnum og reyna að koma í veg fyrir að nokkuð verði af því. Hóta málþófi og fara kannski í einhverjar aðgerðir varðandi það.

Málþóf þekkist óvíða, en þar sem því er beitt, beinist það gegn einstökum málum. Hér er það aftur á móti almennt og beinist ekki að neinu sérstöku. Bara að valda sem mestum skaða og koma ef hægt er í veg fyrir allar breytingar.

Einkennilegt hve tölvuleikir geta haft sterk áhrif á mann. Man vel eftir fyrsta tölvuleiknum sem ég eignaðist. Ég var þá útibússtjóri á Vegamótum á Snæfellsnesi og keypti sérútbúinn kassa á 40 þúsund krónur (gamlar). Hægt var að tengja kassann við sjónvarp og spila borðtennis við tölvuna með mismunandi stórum spöðum. Einnig fylgdi einskonar byssa sem hægt var að skjóta með á punkt sem hreyfðist á sjónvarpsskjánum. Fleiri leiki var hugsanlega hægt að fara í á tæki þessu en ég man bara eftir þessum.

Seinna komu svo Space Invaders, Pacman og fleiri leikir þegar heimilistölvurnar fóru að koma. Þegar Wolfenstein kom og seinna meir Doom breyttust leikirnir töluvert. Tetris var líka alveg sér á part og ævintýraleikir allskonar, t.d. Civilisation og fleiri. Man vel eftir þeim sigri sem vannst þegar okkur tókst að spila Doom yfir Internetið og koma aftan að andstæðingnum. Þá átti ég heima á Vífilsgötunni hér í Reykjavík.

Langt mál mætti skrifa um þessa gömlu tölvuleiki en ég er varla besti maðurinn til þess. Margir hljóta að þekkja þá. Einhversstaðar á netinu er líka hægt að fara í eftirlíkingar af þessum leikjum. Þær eru samt ekkert sérlega spennandi.  

Skelfing leiðist mér margt á fésbókinni. Þó get ég ekki stillt mig um að fara þangað oft á dag. Er það sjálfspíningarhvöt eða hvað? Ég held ekki. Þrátt fyrir alla sína galla er fésbókin aðferð til þess að gleyma ranglæti heimsins. Með því að lesa sumt af því sem þar er að finna má sjá að fólk er ákaflega líkt. Allir, eða flestallir, þykjast vera mun betri en þeir eru. Netandlit flestra er nokkuð gott. Sumir gera þó í því að sýnast ónæmir fyrir öllu. Kannski verður maður það með því að skrifa þar sem allra minnst. Það reyni ég að gera. Blogga frekar eins og hér má sjá. Reyni sífellt að telja mér trú um að bloggið sé æðra fésbókinni. Hversvegna er það? Aðallega er það vegna þess að mér fellur betur að blogga. Þangað koma ekki aðrir en þeir sem hafa á því áhuga. Ekki er um það að ræða að henda einhverju framan í fólk eins og blautri tusku. Þetta er annars hugmynd sem ég þyrfi að rannsaka nánar og fjölyrða kannski um seinna meir.

IMG 2328Meira púður

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ég er að spila nokkra leiki eins og er: Hitman Absolution; XCOM Enemy Unknown; FarCry 3; Portal 2.

Good times :)

DoctorE 7.1.2013 kl. 14:08

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband