Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2012
20.8.2012 | 12:08
1742 - Spassky Riot
Með þessu sískrifelsi mínu finnst mér ég stundum þurfa að taka afstöðu til mála án þess að hafa sérstakan áhuga á þeim. Þetta er þó ekki mikið vandamál því venjulega minnist ég einfaldlega ekkert á þá hlutu sem ég hef ekki áhuga á. Svo getur alveg eins verið að ég hafi áhuga á t.d. fréttatengdum málum en minnist ekki á þau af því aðrir hafi gert það eða ég hafi ekki tíma til þess. Já, það eru ýmsir gallar við að skrifa svona mikið. En þetta er auðvitað sjálfskaparvíti og engin ástæða til að vorkenna sjálfum sér það. Meira máli skiptir hvernig klausurnar raðast.
Nú er sumarið að verða búið. Hlýindin halda samt áfram. Veit ekki hvernig þetta endar. Kvarta samt ekki. Bændur gera það þó og aðrir ESB-andstæðingar. Nenni varla að fara að fjölyrða um þau mál núna. Finnst samt eins og málstaður ESB-sinna sé heldur að vinna á. Alls ekki er þó hægt að gera ráð fyrir að einhver sérstök breyting verði á afstöðu fólks til þess máls á næstunni. Ríkisstjórnin, lífdagar hennar, alþingiskosningar og stjórnmálin yfirleitt munu eiga hug manna allan á næstunni. ESB-málin munu samt hafa áhrif.
Meinlaust rabb um daginn og veginn er minn stíll. Ef stíl skyldi kalla. Því skyldi ég vera að reyna að segja fréttir í þessu bloggi mínu. Alveg ástæðulaust.Fylgist ekki einu sinni vel með slíku. Til hvers eru fjölmiðlarnir eiginlega?
Líklega ber það þess vott að ég sé að gamlast nokkuð að fara að sofa við sprengidrunur á menningarnótt, (sem stendur reyndar allan daginn). Það kemur í staðinn að gaman er að vakna snemma á sunnudeginum eftir slíka nótt.
Hvað á best við þig? Einvera, kjaftavaðall eða Internetið (fésbók og allt draslið)? Einveran heillar mig mest. Þar er allt mögulegt og hægt að vera mikilvæastur í heimi alveg fyrirhafnarlaust.
Huffarnir lifa í alltöðru tímalífi en við. Svipuðu og flugurnar. Gróðurinn í enn öðru. Þar eru tíuþúsundár einn lítill andardráttur. Svipað og Matthías segir í þjóðsöngnum.
Munurinn á Panorama-stígunum á Tenerife (eða Gran Canary) og samskonar stígum í Fossvoginum fyrir neðan krikjugarðinn er að stígarnir á Tenerife eru troðnir af fólki en fámennt mjög í Fossvoginum. Þar er hægt að sitja einn á bekk alveg truflunarlaust. Mannfjöldinn á Tenerife þarf heldur ekki að trufla mann, ef maður er innstilltur á að láta hann ekki gera það.
Pussy Riot og Spassky Riot er aðalmálin núna. http://www.mbl.is/frettir/erlent/2012/08/20/g_var_smam_saman_ad_deyja/ Gaman að Rússland skuli vera komið í fréttirnar aftur. Sagan á mbl.is um Spassky er heldur ótrúleg. Get samt ekki hrakið hana enda þekki ég ekki málið. Finnst vera gefið í skyn þar að hin franska eiginkona hans hafi staðið fyrir einhvers konar árás á hann. Af hverju mbl.is hefur tekið þetta mál uppá sína arma skil ég ekki. Varðandi Pussy Riot vil ég bara ítreka það að mér finnst helvíti hart ef nú á bara að láta þær sitja inni í tvö ár og ekki að gera neitt.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
19.8.2012 | 07:08
1741 - Bless Ólafur
Formleg skipti milli valds forsetans og handhafa forsetavalds sem deilt er svolítið um þessa dagana get ég ekki séð að sé neitt vandamál. Forsetinn og fylgismenn hans halda því fram að vald forsetans sé mikið, aðrir að það sé lítið, hefur mér skilist. Er eitthvað í veginum með að forsetinn ráði því bara einfaldlega sjálfur hvort hann felur handhöfunum vald sitt eða ekki. Utanferð eða ekki utanferð. Skiptir sáralitlu máli. Gæti eins farið í frí hér innanlands og gleymt farsímanum. Ef mönnum kemur ekki saman um þetta er vel hægt að leysa það á ódýrari hátt en gert er. Tómt prump hjá báðum.
Að Ólafur skuli nenna að standa í þessari vitleysu. Held að hann sé að verða sjötugur eins og ég. Gæti reyndar alveg hugsað mér að fara utan öðru hvoru, jafnvel fylgarlaust. Allavega Jóhönnulaust, ef því væri að skipta. Samt væri nú gott að hafa hana með. Færi létt með að panta far heim aftur. Með reynslu í faginu. En auðvitað er ekki það sama séra Ólafur og séra Jón. Það hélt ég að hvert mannsbarn sæi.
Ég er sammála Kasparov um að eftir öll þau læti sem búin eru að vera útaf meðlimum pussy riot hljómsveitarinnar rússnesku væri ákaflega heimskulegt að láta núna staðar numið. Fangelsisdómur fyrir afbrot af þessu tagi er einfaldlega fáránlegur. Handtaka er e.t.v. eðlileg, sekt kemur til greina en fangelsi í tvö ár er afskræming á réttarfari.
Um flest mál er hæg að halda langar tölur án þess að segja nokkuð. Það sem mestu máli skiptir er hverjar eru megináherslur mótaðilans og að miða sinn málflutning við það. Þ.e.a.s. ef ætlunin er að hafa áhrif á og hugsanlega breyta skoðunum hans.
Ómarkvissar upplýsingar og að benda sífellt á atriði sem styðja ýmist þetta eða hitt sjónarhorið er til þess fallið að drepa málinu á dreif eða í besta falli að undirstrika áhugaleysi viðkomandi á því. Sum mál eru svo flókin og margslungin að auðvelt er að finna einhver hliðaratriði og hengja sig í þau.
Marsbrandarar ríða nú húsum. Gallinn við flesta er sá að þeir eru ekkert fyndnir. Í mesta lagi er sá fyrsti sem maður sér það. Þeir sem á eftir koma eru ófyndnir með öllu. Hvernig á vesalings fólkið sem póstar þessa brandara á fésbókina að vita það? Áhugaverð spurning.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
17.8.2012 | 05:38
1740 - Hermann, Hannes og Reynir
Við Reynir Unnsteinsson létum eitt sinn Trygg á Reykjum, sem að sjálfsögðu var hundur, hlaupa hundrað metra og tókum af honum tímann með skeiðklukku. Aðalvandamálið var að láta hann sjá Reyni í svona mikilli fjarlægð. Hann var um 7 sekúndur að hlaupa þennan spotta. Bílar, sem eru einskonar tölvur, eru líka fljótari en menn að leggja að baki hundrað metra. Deep Blue vann Kasparov á sínum tíma í skák og skákforrit eru núorðið yfirleitt sterkari í skák en menn.
Mynd sá ég um daginn af sérsmíðaðri vél sem raðaði Rúbik-kubbi á fáeinum sekúndum. Hún setti kannski einhvers konar met með því, en mestu máli skiptir samt hver stjórnar hverjum þegar verið er að tala um að tölvurnar taki yfir.
Gerð þessarar sérsmíðuðu vélar, sem var öskufljót að raða Rúbik-kubbnum rétt, hefur sennilega fremur kallað á ýmis verkfræðileg vandamál en tölvufræðileg. Grunar að það séu ekki mörg önnur vandamál sem hún ræður vel við.
Björt framtíð Guðmundar Steingrímssonar og píratapartýið hennar Birgittu eru kannski þeir nýju flokkar sem þarf að athuga vel fyrir næstu kosningar. Já, og ég er alveg að gleyma Lilju Mósesar. Man ekki hvað flokkurinn heitir hjá henni. Jú, Samstaða segir Gúgli.
Get svosem tekið undir það með Jónasi Kristjánssyni (þó mér sýndist hann fyrst vera að tala um Hannes Smárason) að ekki hefur Hermann Guðmundsson verið ráðinn forstjóri Neins á sínum tíma sakir greindar og gáfna. Slíkir eiginleikar eru bara alls ekki allt. Kannski hefur Jónas sjálfur slíkt í ríkum mæli en að ætla útrásarforstjórum slíkt er að nefna snöru í hengds manns húsi. Að öðru leyti finnst mér skrif Jónasar um Hermann ekki merkileg og Hermann enn síður. Hann hætti þó forstjórastarfinu að ég held og það ber vitni um einhverjar gáfur.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.8.2012 | 13:44
1739 - Að ruglast í ríminu
Sagt er að einhverju sinni hafi Hólamenn ruglast svo eftirminnilega í ríminu (rím=dagatalsfræði) að þeir hafi ekki getað fundið út hvenær páskarnir væru. Þá hafi maður verið sendur yfir Kjöl til að spyrja að þessu í Skálholti. Þaðan á orðtakið að vera komið. Kannski er þetta bara þjóðsaga. Hugsanlega hét þessi maður Ólafur og þá kann hann að hafa orðið á vegi tröllskessunnar í Bláfelli, sem hafi þá sagt:
Ólafur muður
ætlarðu suður?
Þó ég sé orðinn aldraður þá man ég ekki eftir þessu.
Alveg er samt merkilegt að ég skuli vera svona endingargóður við að skrifa á Moggabloggið. Er eiginlega farinn að líta á mig sem The Grand Old Man þess. Ómar Ragnarsson stendur mér þó greinilega mun framar þar eins og í flestu öðru. Eflaust eru þeir samt miklu fleiri sem gera það. Hef bara ekki athugað það svo grannt. Sérstaklega ekki þetta með aldurinn.
Þó ég hafi skoðanir á flestu, jafnvel öllu, ber mér ekkert að upplýsa lesendur mína um það. Blogglög eru engin á landinu. Eitthvað eru fjölmiðlar (vefmiðlar?) að kvarta undan nýjum fjömiðlalögum en ég tek ekki þátt í því. Ég er ekki eins staðreyndafróður og sumir sem hafa atvinnu af því að skrifa. Ef mann vantar staðreyndir er netið (eða Gúgli) rétti staðurinn til að leita að þeim.
Julian Assange, andlit WikiLeaks, treystir Ekvadorbúum betur en Bretum. Það geri ég ekki. Hef lítið álit á Bretum og stóð sjálfan mig að því við horf á sjónvarútsendingar frá Ólympíuleikunum nýsálugu að halda ævinlega fremur með andstæðingum þeirra. Samt hef ég tilhneigingu til að treysta þeim vel í svona málum. Ríkisstjórnin breska segir ekki dómstólum fyrir verkum, álít ég. Svipað er að segja um Svía.
Að dæma eftir vefmiðlunum og fésbókinni eru selebin orðin svo mörg að ég er alveg lúsheppinn að þurfa ekki að fylgjast með þeim. Þeir eru ekki öfundsverðir sem taka það að sér. Vita þarf hjá hverjum þau sváfu síðast, með hverjum þau borðuðu í gærkvöldi og á hvaða veitingastað o.s.frv o.s.frv. Að auki þarf helst að skoða 18 myndir af hverju stykki á dag. Fyrir nú utan allar hinar myndirnar sem flestar eru nýkomnar úr photoshop.
Lesendum mínum virðist hafa fjölgað eftir að ég tók upp þann sið að gleyma aldrei að deila upplýsingum um bloggið mitt á fésbókina. Vinsældir fésbókarinnar hér á landi eru sífellt að aukast finnst mér og gott ef Moggabloggið er ekki að styrkjast líka.
Mér finnst lúpínan falleg. Víða er hún þó með frekasta móti. Það er nokkuð langt síðan ég sá lúpínuakra fyrst. Það var í Skorradalnum. Talsvert vatn hefur til sjávar runnið síðan og mönnum kemur ekki saman um lúpínugreyið. Mér finnst stærsti gallinn við hana hvað hún verður ljót á litinn snemma sumars. Við því er auðvitað ekkert að gera. Víða meðfram vegum landsins hefur hún tekið völdin. Að áliti margra hörfar hún þegar jarðvegur hefur myndast. Það held ég að sé yfirleitt rétt. Þorlákshöfn og umhverfi hefur gjörbreytt um svip frá því að ég man fyrst eftir. Þar er það að vísu melgresið sem ég held að sé í aðalhlutverki en gróður allur á láglendi, a.m.k. þar sem ég þekki til, hefur tekið vel við sér frá því sem áður var. Vonandi heldur sú þróun áfram. Gróið land er mun fallegra en örfoka.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.8.2012 | 02:59
1738 - Hatursáróður kirkjunnar
Eftirfarandi klausu setti ég á fésbókina í gær. Held að ég hafi aldrei skrifað jafnlangt innlegg þar. Endurtek það hér á blogginu mínu, en þeir sem þegar hafa lesið það geta auðvitað sleppt því. Aðallega er ég að hugsa um að bjarga þessari snilld frá glatkistunni gaflalausu, sem mér finnst fésbókin vera:
Svokallaðar rökræður eru oft lítils virði. Hver og einn talar einkum um það sem hann (eða hún) hefur áhuga á. Spurningum er ekki svarað og áhersla lögð á það sem viðmælanda finnst ekki skipta máli. Oft er leitað í stjórnmálaskoðanir til að finna rök og þvæla viðmælandanum út í eitthvað annað en hann vill ræða.
Í bloggi mínu í gær ræddi ég m.a. um hina biblíulegu auglýsingu í Fréttablaðinu og taldi hana meinlitla. Jóhann Páll Jóhannsson blaðamaður á DV skrifar um þetta mál og kallar auglýsinguna hatursauglýsingu. Ég tel hana ekki vera það og málfrelsið mikilvægara, en vil samt benda á eitt sem styður málflutning Jóhanns á vissan hátt.
Þeir sem telja ekki vera um hatursskrif hjá Jóhanni eða andstæðingum hans að ræða geta varla talið málflutning æstustu múhameðstrúarmanna (islamista) vera hatursskrif. Hugsanlega er hægt að ganga of langt í stuðningi sínum við málfrelsi, en mér finnst ekki að Jóhann eða hans líkar eigi að ákveða það. Hver á þá að skera úr? Þar liggur vandinn einmitt. Ef úrskurður einstakra aðila skiptir jafnmiklu máli og mér finnst Jóhann telja í þessu máli er varla um annað að ræða en spyrja almenning.
Þannig er lýðræðið. En auðvitað er ekki hægt að hafa þjóðaratkvæðagreiðslur um öll mál og skoðanakannanir geta e.t.v. komið í staðinn. Fyrirfram þurfa aðilar þá að fallast á þá aðferðafræði sem notuð er og það getur orðið þrautin þyngri.
Svolitlar umræður þó undarlegar væru spunnust um þetta innlegg þar og þeir sem mikinn áhuga hafa á þessu efni geta séð þær á fésbókinni.
Annars skila deilur um trúarbrögð, (sama er reyndar að segja um mannréttindi) hvort sem er á bloggi eða fésbók, afar litlu. Fyrir því er löng reynsla. Ég ætla rétt að vona að ofurlangur svarhali myndist ekki við þessa færslu.
Örvhendi. Samkvæmt frétt á RUV er dagur örvhendra í dag 13. ágúst. Skv. fréttinni er hlutfall örvhendra barna um 10 prósent. Þetta leyfi ég mér að efast um. Held að hlutfallið sé hærra. Í fréttini var líka sagt að álitið sé að örvhendi stafi aðallega af áfalli á meðgöngu. Er alls ekki sammála því. Annars finnst mér örvhendi og örvhendi alls ekki vera það sama. Oft er um mismunandi sterka tilhneygingu til örvhendis að ræða og það sem einn kallar örvhendi kallar annar eitthvað allt annað. Einhversstaðar hef ég lesið að ef fólk hefur svotil alveg jafna tilhneygingu til örvhendis og rétthendis sé það ávísum á andlega erfiðleika.
Það er ekkert til sem heitir matarskattur og hefur aldrei verið. Á sínum tíma var samt mikið talað um slíkan skatt. Söluskatturinn sálugi var misjafn og sumt var undanþegið honum. Einn af kostunum við virðisaukaskattinn þegar hann var tekinn upp var að hann átti að leggjast á allt jafnt. Ekki leið samt á mjög löngu áður en farið var að mismuna með honum. Flest matvæli bera nú lágan virðisaukaskatt og ferðaþjónustan einnig. Forystufólk þeirrar þjóustu er nú komið í grenjuflokkinn með LÍÚ og hefur hátt um vonsku ríkisstjórnarinnar. Best væri auðvitað að allir borguðu jafnháan virðisaukaskatt, þá mætti jafnvel lækka hann eitthvað.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
13.8.2012 | 04:21
1737 - Tintron
Ætli það hafi ekki verið öðru hvoru megin við 1990 sem ég fékk, ásamt Bjarna Harðarsyni frænda mínum og fyrrum þingmanni og fleirum (man t.d. eftir Benedikt syni mínum) að fljóta með í æfingaferðalag sem Björgunarsveitin í Hveragerði fór í hellinn Tintron. Auðvitað var það Bjössi bróðir sem stóð fyrir því að bjóða okkur með. Aðra í ferðinni þekkti ég lítið sem ekkert. Líklega hafa þeir verið svona sex eða sjö.
Nei, annars. Nú man ég að ég er búinn að skrifa um þetta áður. Sé að ég hef gert það 27. júlí 2008. Mynd hef ég líka birt úr þessari frægu ferð og var það 19. október 2010. Upplýsingar þessar set ég hér vegna þeirra sem hugsanlega hafa áhuga á gömlum bloggum. Sleppi linkum. Linkar í eigin skrif finnst mér hvimleiðir.
Heitustu málin í dag snúast um kvennahljómsveit austur í Rússíá og biblíulega auglýsingu í Fréttablaðinu hér uppi á Íslandi. Bæði þessi mál snerta málfrelsi með vissum hætti og margir eru fljótir að taka afstöðu í þeim og miða þá e.t.v. við pólitískar skoðanir sínar að öðru leyti og hvað aðrir gera. Mér finnst aftur á móti að bæði þessi mál séu nokkuð erfið viðfangs og að samsláttur verði oft á milli stjórnmálaskoðana og málfrelsis og mannréttindamála yfirleitt við mál af þessu tagi.
Sjálfum finnst mér málfrelsið eigi að njóta sín í báðum þessum tilfellum. Eða með öðrum orðum að sleppa eigi hljómsveitinni úr haldi og að Fréttablaðið sé í fullum rétti með birtingu auglýsingarinnar. Hef enga trú á að rétt sé að hún hafi farið óvart í gegn.
Grundvallarspurningin í allri pólitík er sú hvort fólk sé fífl eða ekki. Ég held að svo sé ekki. Margir halda þó hinu gagnstæða fram. Þeim finnst stjórnmálin raða fólki eftir vitsmunum og telja alla vera fífl sem ekki skrifa uppá sínar skoðanir með atkvæði sínu a.m.k. Staðreyndin er bara sú að fólk á misauðvelt með að orða hugsanir sína. Hugsanirnar sem slíkar þurfa ekkert að vera verri þó þær séu illa orðaðar.
Upplýsingakerfi það sem netið býður uppá getur nýst öllum. Upplýsingar eru gull nútímans. Tækni og vísindi eru að verða almenningseign. Samt eru hæfileikar fólks auðvitað ákaflega mismunanndi. Sem betur fer. Gáfnapróf mæla einkum hæfileikann til að svara spurningum af ákveðinni gerð. Gagnlegt getur verið að vita það.
Það er nokkuð rétt skilgreining hjá Jónasi Kristjánssyni að líkja blogginu við ræðupúlt en fésbókinni við kaffispjall. Breytingin sem orðið hefur síðustu árin er þó ekki einungis sú að bloggurum hafi fækkað og kaffispjöllurum fjölgað. Meðal þeirra sem einbeita sér að fésbókinni eru margir sem ættu frekar að sinna blogginu. Margir reyna auðvitað að stunda hvorttveggja og getur gengið það ágætlega.
Með blogginu og fésbókinni er óhætt að segja að landslag fjölmiðlunar hafi breyst verulega. Þeir sem atvinnu hafa af því að skrifa í fjölmiðla hafa ekki allir gert sér grein fyrir þessu. Pólitíkusar eru ráðþrota og vita ekki hvernig bregðast skal við. Áður fyrr nægði ágætlega að hafa sæmilega stjórn á fjölmiðlunum, en nú er sú tíð liðin.
Helvítis hársbreiddin. Hlustaði áðan á einhverja samantekt í sjónvarpinu um þátttöku Íslendinga á Ólympíuleikunum sem nú er að ljúka í London. Svo var að skilja að ávallt hefði munað hársbreidd að þeir hefðu staðið sig miklu betur en þeir gerðu. Samt er alls ekki hægt að segja að Íslendingar hafi staðið sig illa. Karlalandsliðið í handknattleik hefur samt áreiðanlega valdið einhverjum vonbrigðum.
Er Moggabloggið að rísa úr öskustónni? Þegar ég leit á vinsældalistann þar í gær sá ég mér til nokkurrar furðu að sá sem var neðstur á 400 listanum var með 50 vikuheimsóknir. Þetta finnst mér hraustleikamerki því undanfarið hefur þegar ég hef kíkt hefur talan verið um 30.
Eitt get ég fullyrt. Ég skoða rauðu tölurnar í vinstra horninu á fésbókinni miklu oftar en póstinn sem settur er á netfangið mitt á Snerpu. Ætti samt ekki að gera það. Að allt eða sem flest sé fljólegt og þægilegt eru einkunnarorð fésbókarfólksins. Bæði neytenda og skaffara. Sá póstur sem kemur í pósthólfið mitt á Snerpu er oft hálfleiðinlegur. Aðallega ruslpóstu svo sem Nígeríubréf, auglýsingar og þess háttar. Stór hluti er framsendur póstur frá netut.is, en alltaf öðru hvoru samt póstur sem maður vill ekki missa af.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.8.2012 | 22:59
1736 - RAAM (Race Across America)
Á Íslandi koma að meðaltali út einar fjórar til fimm bækur á dag. Vissulega er það mikið en hvað ætli megi þá segja um heiminn allan? Mig sundlar við tilhugsunina. Hef ekki hugmynd um hve margar bækur koma út á ensku á hverjum degi. Kyndillinn minn gæti þó kannski komist að því vegna þess að hann er í beinu sambandi við Amazon sem dreifir ansi miklu af bókum. Svo gæti ég auðvitað spurt Gúgla eða Wikipedíu.
Nýjasta bókin sem ég hef verið að skoða þar (Á kyndlinum, ekki Amazon) er frásögn af árlegri hjólreiðakeppni sem á margar hátt er ekki síður athyglisverð en Tour de France. Bókin heitir Hell on two wheels og er eftir Amy Snyder. Keppnin nefnist RAAM (Race Across America) http://www.raceacrossamerica.org/raam/raam.php?N_webcat_id=1 og þó hún sé yfir þver Bandaríkin vekur hún alls enga athygli fjölmiðla eða áhorfenda. Framkvæmd hennar er líka gjörólík þeirri frönsku einkum vegna þess að hjólreiðakapparnir stoppa ekki á kvöldin heldur halda stöðugt áfram og tíma jafnvel ekki að sofa að neinu ráði.
Þó keppnin sé ekki nema 3000 mílur (Tour de France er lengri) er hún á margan hátt einhver erfiðasta keppni sem um getur og tekur flesta a.m.k. svona 10 til 11 daga. Amy Snyder (höfundur bókarinnar) hefur sjálf t.d. margoft tekið þátt í járnkarlskeppni (Ironman triathlon) http://ironman.com/events/ironman/#axzz23EYefWf1 og þykir ekkert sérstaklega mikið til slíkrar keppni koma hvað þol og erfiði snertir.
Fyrir nokkrum árum gerði sjónvarpsstöð keppninni einhver skil og áhugi vaknaði þá fyrir henni en hann er svotil alveg horfinn núna.
Að lesa í láréttri stöðu. Langmest af mínum lestri þessa dagana fer fram í Kindle Fire tölvunni minni. Mér þykir líka langbest að lesa í láréttri stöðu. Þ.e.a.s. liggjandi í bælinu. Fullklæddur er ég þó oftast við það og ligg ofan á sænginni og rúmteppinu. Að halda á tölvunni þó hún sé ekki nema hálft kíló er það erfiðasta við lesturinn. Auðvitað má sem hægast hafa handaskipti eða breyta takinu á tölvunni en samt má búast við örlitlum þreytuverk nálægt olnboganum. Oftast ligg ég á bakinu við lesturinn og vitanlega mætti lýsa lestraraðferðinni í meiri smáatriðum. Læt þetta þó nægja í bili.
Stjórnarmyndun eftir næstu kosningar kann að snúast einkum um það hvort Sjálfstæðisflokknum tekst að innbyrða framsóknarflokkinn eða ekki. Þegar ég segi innbyrða á ég við það hvort þeim takist að fá framsóknarflokkinn til að mynda ríkisstjórn með sér. Þá geri ég semsagt ráð fyrir að úrslitin verði á þann veg að núverandi stjórnarandstaða (Sjálfstæðisflokkur og framsóknarflokkur) fá meirihluta þingsæta.
Það er þó enganvegin víst. Aftur á móti er nokkuð víst að Sjálfstæðisflokkurinn fær ekki hreinan meirihluta. Þeir flokkar sem nú standa að ríkisstjórninni fá líklega heldur ekki meirihluta. Framsóknarflokkurinn og smáflokkar sem kunna að verða myndaðir áður en kemur að kosningum kunna því að verða í lykilstöðu.
Já, nú er ég greinilega kominn langt framúr sjálfum mér. Kosningabaráttan er öll eftir. Svo er ekki einu sinni vitað hvenær kosningarnar verða. Nýir flokkar kunna að verða stofnaðir og gætu e.t.v. sópað til sín fylgi. Svo eru öll prófkjörin eftir. Já, pólitíkin er leiðinda tík.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.8.2012 | 01:54
1735 - Flippaðar fullyrðingar
Allt orkar tvímælis þá gert er. Þetta er mjög áberandi varðandi byggingar. Nefna má Perluna, Ráðhús Reykjavíkur, Óseyrarbrúna, Þjóðarbókhlöðuna, Hringbrautarvitleysuna o.s.frv. Þegar frá líður þykja þessar byggingar mjög góðar og í mesta lagi er hægt að halda því fram að ráðist hafi verið í þær á röngum tíma. Svipað verður vafalaust með tímanum hægt að segja um Hörpuna, Hátæknisjúkrahúsið og Vaðlaheiðargöngin. Sagt er að allir vildu Lilju kveðið hafa.
Óspart er nú vitnað til Einars Þveræings og Grímseyjar þegar Núpó málið ber á góma, þó ekki sé hægt að segja að málin séu sambærileg. Smám saman snýst þetta svo yfir í venjulega þjóðrembu og verður að lokum að röksemd í ESB-deilunni. Sú deila verður áberandi og kann að skipta verulegu máli í næstu alþingiskosningum. Getur jafnvel haft mikil áhrif innan flokkanna og á prófkjörin sem e.t.v. hefjast strax í haust eða vetur. Ekkert bendir samt til að af inngöngu verði að þessu sinni.
Hættið að blogga og komið á fésbókina, þar er fjörið, sagði rithöfundurinn Sigurður Þór Guðjónsson fyrir nokkru á Moggablogginu, en nú virðist hann vera á fésbókinni öllum stundum og setja þar fram flippaðar eða fréttatengdar fullyrðingar á statusinn sinn. Einhver hirð er þar sem mjög oft svarar honum. Mér finnst líka eins og ég þekki hann, þó ég hafi aldrei hitt hann, en skrifa ekki oft á fésbókina hans. Hann er eiginlega jafnmikill holdgervingur Meistara Þórbergs og Davíð Oddsson er eftirmynd De Gaulles sáluga.
Ofgnótt fjölmiðlunar. Það er engum ætlandi að fylgjast með öllu þvi netblaðri, blöðum, bókum, ljósvakamiðlum o.s.frv. sem á boðstólum er. Það er ekki einu sinni möguleiki að fylgjast sæmilega með því sem áhugi manns beinist að hvað þá öðru. Svo koma Ólympíuleikarnir ofaná allt þetta og vinnan einnig hjá þeim sem á þeim aldri eru. Það er eins gott að ég skuli vera hættur að vinna. Samt næ ég ekki að fylgjast með nærri því öllu sem ég gjarnan vildi.
Jarðbundinn og fúll. Já, það er ég. Hvernig á eiginlega að vera öðruvísi og er það æskilegt? Eiginlega er allt öðruvísi en það ætti að vera. Ekki mundi ég hafa heiminn svona ef ég væri Guð. Samt er flest í einhverju undarlegu samræmi við allt annað.
Verð líklega að fara að lesa dánarfréttir enda ætti ég að vera orðinn nógu gamall til þess. Las um það á bloggi Önnu Kristjánsdóttur að Gaggi Mikk væri dáinn. Um daginn var líka jörðuð hér í Reykjavík dóttir Erlendar Magnússonar frá Eldborg í Hveragerði, en hann kannaðist ég dálítið við frá æskuárum mínum og dóttir mín þekkti vel þessa dóttur hans. Yfirleitt frétti ég seinastur manna um svona lagað og reyni eftir mætti að forðast jarðarfarir. Kemst þó líklega ekki hjá að mæta í mína eigin þegar þar að kemur.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.8.2012 | 15:29
1734 - Víst er kú í Keflavík
Þessi setning er um einkennisstafi bifreiða (Q) og féll fyrir margt löngu, en er mér af einhverjum ástæðum ákaflega minnisstæð. Já, já. Þetta gæti verið öðruvísi skrifað. Beygingaflóttinn er búinn að breyta ám og kúm í rollur og beljur.
Eitt er það nafn sem er mikið notað í umræðum og allskyns greinaskrifum. Erfitt er að stafsetja það rétt. (Finnst mér a.m.k.) Þar er um alþjóðlegu samtökin al-Qaeda að ræða. Það er erfitt að muna þetta og svo virðist sem stór stafur eigi helst að vera í miðju orðinu, á eftir bandstriki. Þeir sem þurfa mikið að nota þetta orð (þ.e. fjalla um alþjóðamál og ýmislegt sem þeim tengist) þurfa að vita hvernig það er skrifað. Mér finnst best að muna það með því að reyna að sjá fyrir mér kúahóp þar sem allar kýrnar eru að éta. Í byrjun er þetta: alkúaðéta. Með styttingum og lagfæringum verður þetta síðan al-Qaeda. Um að gera að láta framburðinn ekki rugla sig. Hann er alveg sér kapítuli.
Mér hefur reynst vel að hafa þær myndir sem ég geymi í huganum sem fáránlegastar ef ég vil muna eitthvað sérstaklega. Auðvitað gleymir maður með tímanum (nema sannir besservisserar) öllu því sem maður á að vita. Gott ef ég lærði þessa reglu um fáránleikann ekki einhverntíma á ofurminnisnámskeiði. (Sko, þetta man ég) Svo festist fátt í langtímaminninu nema maður rifji það upp. (Taki það semsagt upp úr skammtímaminninu og hristi það pínulítið.)
Fésbókarnotkunin er orðin slík meðal blogglesenda minna að það er mjög til bóta að taka Jónasinn á það sem ég skrifa. Deila semsagt á fésbókina öllum mínum bloggum. Það gerir Jónas Kristjánsson og líklega margir fleiri. Margir (af mínum fésbókarvinum a.m.k.) deila öllu athyglisverðu sem þeir finna á netinu til allra sinna fésbókarvina. Úr þessu verður hið mesta kraðak og er kannski að ganga af fésbókinni dauðri. Með þessu móti er hægt að sleppa því að mestu að lesa vefrit eða vefritsútgáfur því allt athyglisvert kemur á fésbókina. (Annars er það ekki til.) Sumir hafa hana (fésbókina) líka opna allan liðlangan daginn. (Geri ég ráð fyrir.) (Skelfing er ég farinn að nota svigana mikið)
Blogg-gáttin http://blogg.gattin.is/ er líka ágætis uppfinning og þangað fer ég þegar ég man. Á fésbókina fer ég aftur á móti oft á dag. Því ég nálgast hluta af bréfskákunum mínum í gegnum hana. Hinn hlutann nálgast ég í gegnum bloggið mitt svo ég skoða það oft líka. Pósthólfið mitt á Snerpu.is geldur þess.
Oft er það svo að ég er í bestu stuði til að blogga snemma á morgnana. Ef eitthvað af því sem ég blogga um er þess eðlis að mér finnist það e.t.v. vera tímabundið set ég það kannski fljótlega á bloggið. Annars geymi ég það bara, því ef ég les það yfir batnar það venjulega.
Blogga bara um það sem mér dettur í hug. Stundum dettur mér í hug að blogga um eitthvað en þá eru gjarnan aðrir búnir að blogga um það sama og hafa svipaðar skoðanir á því og ég. Sleppi því þá nema ég hafi þeim mun meiri tíma til þess. Af þessu leiðir að ég blogga sjaldan um fréttatengt efni.
Oft finnst mér bloggin mín nokkuð góð. Það finnst mörgum öðrum líka, sýnist mér. Núorðið er ég oftast í kringum 50. sætið (eða ofar) á vinsældalista Moggabloggsins. Hugsa að ég gæti haldið mér á 400 listanum þó ég bloggaði ekki neitt. Það er samt ekki mikil hætta á því að ég hætti að blogga, því mér finnst það svo gaman. Ef ég færi svo t.d. að endursegja eitthvað af því sem ég les yrði ég óstöðvandi.
Nú er Toyota-umboðið loksins farið úr nágrenninu. Hálf er samt ruslaralegt eftir þá. Kannski taka þeir einhvern tíma til. Hvað skyldi koma í staðinn? Hugsanlega stórmarkaður.
Hva, er búið að stela vélinni?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.8.2012 | 00:17
1733 - Harpa
Hjörleifur Stefánsson skrifar grein um Hörpuna á Vísi.is. http://www.visir.is/tviskinnungur-i-ogongum-horpu/article/2012708089921 Allir hefðu gott af að lesa þá grein. Niðurlag hennar er þannig:
Harpa er þrátt fyrir alla glópskuna gott tónlistarhús og mjög mikilvæg fyrir menningarlíf okkar en hún er afsprengi tímaskeiðs þegar dómgreind ráðamanna var mjög brengluð og hún er vitnisburður um óráðvendni útrásartímabilsins margumtalaða. Nú þurfum við að horfast í augu við staðreyndirnar og hætta meðvirkni með þeim sem fífluðu okkur. Auðvitað eiga stjórnirnar allar að víkja og hæft fólk að koma í þeirra stað.
Hef engu við þetta að bæta og er sammála greininni í einu og öllu. (Að mig minnir.)
Að einhverju leyti ertu það sem þú bendir á. En þá máttu ekki benda of mikið. Þetta ættu fésbókarneytendur sumir hverjir að taka til sín.
Eyþór Árnason póstaði á fésbókina link á gamla grein sem var mjög góð hjá honum eins og hans var von og vísa. Grein þessa hafði hann skrifað á Moggabloggið á sínum tíma og sendi þá sem lesa vildu fjögur ár aftur í tímann (tímavél?) Afleiðingin varð einkum sú að athugasemdirnar voru svolítið útúr kú.
Sennilega er óvild mín í garð fésbókarinnar sprottin af því að ég vil alltaf vita nokkurn vegin hvað ég er að gera. Ef ég geri vitleysu (sem er ansi oft) vil ég helst vita af hverju það er vitlaust. Fésbókin er orðin svo flókin að fæstir hafa nokkra hugmynd um hvað gerist þegar þeir ýta á þennan takkann eða hinn. Þetta er orðið eins og með bílana. Bílstjórar þurftu áður fyrr helst að vera bifvélavirkjar líka. Þarf að venja mig af þeirri hugsun að vilja endilega skilja tölvur, það er nóg að þær virki.
Það er eins gott að allir viti þetta.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)