Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2012
8.8.2012 | 00:43
1732 - Geitungar
Já, geitungar virðast vera talsvert áberandi þetta sumarið. Hélt að stofninn hefði næstum dáið út. Ekki sáust þeir hér á landi í mínu umgdæmi en jötunuxar voru þeim mun algengari. Þegar þeir tóku uppá því að fljúga tók út yfir allan þjófabálk.
Svo virðist sem margir Íslendingar séu dauðhræddir við geitunga. Samt eru þetta sauðmeinlaus kvikindi. Mikið hefur verið gert úr hættunni af þeim í fjölmiðlum og margir trúa því sem þar er sagt. Get alveg viðurkennt að lengi vel var ég hálfhræddur við geitunga. Er samt ekki viss um að hægt sé að kenna fjölmiðlum um það. Er minnisstætt að ég reyndi eitt sinn að útskýra fyrir útlending hræðslu þessa og hann sagði loks: Já, þú meinar flugurnar þarna, og stuggaði alls óhræddur í burtu hópi af geitungum sem var á sveimi rétt hjá okkur. Þó ég hafi verið hálfhræddur við geitunga hefur mér alltaf þótt venjulegar maðkaflugur, hrossaflugur og húsflugur vera fremur vinaleg fyrirbrigði.
Hef Illuga Jökulsson grunaðan um að hafa komið hræðslunni við geitungana inn hjá mörlandanum og finnst hann oft ganga ansi langt í því að skreyta fagurlega frásagnir sínar.
Las veitingahúsaumsögn hjá Jens Guði um Fjöruborðið á Stokkseyri. Sammála honum að mestu leyti. Þó hefði ég haft stjörnurnar færri. Hef einu sinni fengið mér humarsúpu þar og fannst hún nokkuð góð, en ekkert sérstök. Þjónustan var samt fín og kannski hefur kokkurinn bara ekki verið í stuði.
Munurinn á fésbókinni og blogginu er töluverður. Fésbókin er kjaftavettvangur og þangað fer fólk til að finna líkt hugsandi fólk til að rabba við. Deilingar, gegnumsendingar, lækanir allskonar og sendingar fram og aftur á fótósjoppuðum myndum og allskonar fjölskyldumyndum ríða þar húsum og gera vettvanginn heldur lítið sniðugan fyrir þá sem vilja láta ljós sitt skína.
Fyrir mér er Moggabloggið blogg blogganna og bloggvini mínum einum sem kvartaði undan því að erfitt væri orðið að nálgast bloggið mitt vil ég benda á að setja það bara í feivoríts. Ég er nefnilega ekkert að hugsa um að hætta að blogga og mun líklega halda áfram á Moggblogginu nema ég verði rekinn þaðan.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
6.8.2012 | 18:27
1731 - Lygimál
Í blogginu mínu í gær (eða s.l. nótt) var m.a. talað um Vestmannaeyjar. Þar hefði ég auðvitað átt að setja eitthvert greinilegt lygamerki því auðvitað var allt sem þar kom fram argasti uppspuni og tilbúningur. Flestir hafa eflaust séð það strax en kannski ekki allir. Þarna féll ég semsagt í þann pytt sem margir gera að halda að það sem maður skrifar sé svo lygilegt að enginn trúi því. Sannleikurinn er samt oft lygilegur mjög.
Legg svolítinn metnað í að fá eigin hugmyndir að skrifum í þetta blogg. Vissulega fást oft hugmyndir um ýmislegt með því að lesa fésbók og blogg annarra. Stundum er maður hjartanlega sammála síðasta ræðumanni, en hvern varðar um það? Á þá að ýta á einhvern læk-eða deilitakka? Nenni því yfirleitt ekki. Veit heldur ekki hvaða afleiðingar það getur haft. Frekar skrifa ég athugasemd. Það er bara svo erfitt. Fésbókar- og twittermerki og allskonar nýmóðins drasl út um allt að biðja mann að ýta á sig. Eins gott að vara sig.
Kannski er ég sérvitur. Það er gaman að því. Flestir sem sérvitrir eru láta lítið fyrir sér fara. Ekki ég þó. Bloggið er samt orðið úrelt og í rauninni ekki fyrirferðarmikið. Helst vil ég ekki hljóma eins og einhver besservisser. Gúgli gamli getur átt þann titil fyrir mér.
Man að HKL (Halldór Kiljan Laxness) lét persónu í einni skáldsögu sinni segja að pólitík væri leiðindatík. Þá væri rjómatíkin nú betri. Þar átti hann við rómantíkina. Hún er bara ekkert betri, sannleikstíkin ekki heldur. Hvað þá ímyndunartíkin eða bloggtíkin.
Þegar Bauhaus var opnað í vor hitti ég Óla Sig. þar. Held svei mér að ég hafi ekki hitt hann síðan við útskrifuðumst af Bifröst. Semsagt fyrir meira en 50 árum. Skelfing er tíminn fljótur að líða og þó lengi. Ósköp líður mér alltaf illa í stórum verslunarhúsum. Verð alveg ruglaður og veit ekki hvort ég er að koma eða fara. Langskást er að versla ekki neitt. Flýta sér bara í gegn, en það er ekki alltaf hægt. Með tímanum lagast þetta og maður fer að þekkja húsin. Í IKEA er ég kominn uppá lag með að stytta mér leið. Ekkert svoleiðis er ennþá um að ræða í Bauhaus og kannski verður það aldrei.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.8.2012 | 05:16
1730 - Róleg nótt í Eyjum
Í samtali við lögregluna í Vestmannaeyjum kom fram að nóttin í nótt var afskaplega róleg. Svo róleg að elst muna ekki annað eins og eru þeir þó ekki gamlir, Að vísu komu upp fimm nauðgunarmál og eiturlyf af fjölbreyttu tagi fundust á allmörgum mönnum. Svo voru það líkamárásarmálin ætli þau séu ekki svona sex eða sjö. En ég ítreka að það það hefur enginn látist svo vitað sé þó menn séu dauðir áfengisdauða hér útum allt. Nóttin fór mjög friðsamlega fram. Svona er þetta bara og við erum með nægilegt löreglulið til að fást við svona fá mál. Þetta er þó allt ókannað ennþá og talan getur breyst.
Nú eru blogg lítið lesin, enda stendur lengsta og mesta ferðahelgi sumarsins yfir hjá flestum og ágætt að vera í bænum. Þar að auki fara ólympíleikarnir víða og beint sjónvarp frá þeim getur verið ansi spennandi. Fór uppá Akranes og í Melahverfi sem varla getur talist langferð og á föstudaginn fórum við í Heiðmörk í nágrenni Vífilsstaða, einkum til að svipast um eftir sveppum. Fundum svolítið af þeim og einnig eru bláberin og hrútaberin orðin vel þroskuð. Var sérlega hrifinn af því hve mikið er af hrútaberjum. Bláberin eru samt betri þegar tínt er uppí sig eins og ég gerði.
Jónas Kristjánsson hamrar á hatursáróðri á bloggsíðu sinni. Hann vill gjarnan hneppa sem flesta menn (einkum útrásarvíkinga) í langt fangelsi. Vissulega eru margir sekir um ýmis afbrot sem hann nefnir en áróður af því tagi sem hann rekur fyrir vinstri sinnuðum skoðunum og Páll Vilhjálmsson rekur fyrir Sjálfstæðisflokkinn er ekki líklegur til árangurs. Fólk er ekki fífl. Morgunblaðið stendur sig ágætlega fréttalega séð, en pólitísku skrifin þar eru ekki beysin. DV leitar að öllu sem miður fer og stendur sig ágætlega í því, en er afar neikvætt í öllum sínum skrifum. Fréttablaðið setur sig á háan hest og þykist yfir aðra hafið en er samt óttalega lélegt. Hef reyndar bara reynslu af þessum sneplum á netinu. Finnst ekki taka því að henda peningum út um gluggann. Á Eyjuna og Pressuna er óþarfi að minnast. Samt slæðist þar inn ein og ein sæmileg grein. Hlýtur að vera óvart.
Þægilegur myndmiðill er fésbókin eflaust. En mikið afskaplega eru sumar myndirnar þar lélegar. Sumir virðast ekki einu sinni velja það skásta úr til að setja þangað, heldur hrúga bara öllu þar inn. Sem betur fer þarf maður ekki að skoða þær allar og getur hætt þegar maður vill.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 05:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.8.2012 | 22:51
1729 - Hnitað í hringi
Innlegg mitt á bloggið um hnit, riðlaskiptingu o.þ.h. á Ólympíuleikunum vakti ekki mikla athygli enda ekki í samræmi við fyrirskipanir. Svo var ég víst með einhverjar andsjálfstæðisflokkslegar athugasemdir þar fyrir utan. Það þykir sjálfsagt að leggja sig lítið fram í öllum (eða flestum) íþróttagreinum nema í hniti (badminton.) Áhrifamiklir fjölmiðlar hafa ákveðið að svo skuli vera og þá þarf að hlýða því.
En það er sigurinn á Svíum í handboltanum sem á hug manna allan og það er eðlilegt. Hann var sætur. Því miður er vel hugsanlegt að leikurinn við Frakka tapist og svo byrjar ballið fyrir alvöru þegar í átta liða úrslitin kemur. Hugsanlega er samt að skapast góð stemmning í hópnum og hver veit hve langt verður hægt að komast?
Ég er búinn að vera með sama netfangið nokkuð lengi (síðan 1996 eða svo) og fæ oft mikið af skrítnum bréfum. Í Nígeríubréfum hefur mér verið lofað ýmsu. Sjálfsagt samtals nokkur hundruð milljónum bandaríkjadollara. Bréf af því tagi sem sýnt er hér fyrir neðan hef ég og oft fengið. Merkilegast við þetta bréf sem mér barst í gær eða fyrradag er að bréfritarinn hefur haft fyrir því að leita aðstoðar Google við að snúa því á Íslensku.
Halló,
Ég vona að þessi póstur minn mun finna þig í hljóði og við góða heilsu, ég
var að vafra á Netinu í dag og ég sá tengiliður þinn, svo ég ákvað að velja
þér, ég er hér að leita að langtíma og satt vináttu við þig i trúa
þjóðernis eða trúarbragða verður ekki lengur vera hindrun til karlkyns /
kvenkyns sambönd og ég tel einnig að aldur hefur ekkert að gera með réttu
og raunverulegur ástarsambandi það sem ég tel er ást og heiðarleika, þó við
vitum ekki hvor aðra vel, en ég mun í raun eins og að hafa þig sem góðan
vin eða meira en það í lífi mínu, ef þú vilt leyfa mér Inn, ég er einn,
vinsamlegast ég mun vera mjög leitt ef skilaboðin hljóð minn slæmt fyrir
þig, svo vinsamlegast ef þú ert ekki huga ég mun eins og þú til email mig
aftur þannig að ég mun gefa þér meira af myndinni minni og einnig segja þér
meira um upplýsingar mínar um sjálfan mig
svo er að bíða eftir yndislega svarið
Kveðja frá
Jessica
Ómar Ragnarsson sem bloggar mikið og á mörgum stöðum þessa dagana segir að margir muni búnir að gleyma Ingólfi Óskarssyni. Ekki er ég þar á meðal. Hann dvaldi eitt sinn um skeið í Hveragerði og vakti mikla hrifningu hjá okkur guttunum vegna þess hve hrikalega skotfastur hann var. Það átti ekkert síður við um fæturna en hendurnar og seinna meir stofsetti hann svo sportvöruverslun sem kennd var við hann.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.8.2012 | 17:47
1728 - Að vinna með því að tapa
Tvíliðaleikur í badminton eða hniti eins og þessi íþróttagrein á víst að heita á íslensku hefur hingað til ekki vakið mikla athygli. Riðlakeppni af því tagi sem notuð er í þessari grein á ólympíuleikunum hefur bæði kosti og galla. Að lið vilji komast hjá því að vinna er einn af göllunum. Að missa ekki af hugsanlegum sigri þrátt fyrir eitt tap er meðal kostanna. Þegar ekki er um jafntefli að ræða getur komið upp staða eins og nú er mjög rætt um. Í knattspyrnu eru til fræg dæmi um að lið hafi umfram allt kosið jafntefli. Sjálfsagt ætti að vera að leyfa liðum að tapa ef hugur þeirra stendur til þess. Þegar fjögur lið vilja umfram allt tapa er verið að snuða áhorfendur og gölluðu fyrirkomulagi er einkum um að kenna. Kínverjar eru álitnir bestir í tvíliðaleik í hniti, en töpuðu óvænt fyrir Dönum í fyrstu umferð. Þetta er afleiðingin.
Pólitísk útgeislun Morgunblaðsins er ekki aðlaðandi og hefur aldrei verið. Til dæmis er þar grein núna sem sennilega er ritstjórnargrein, staksteinar eða eitthvað þessháttar og heitir Er þetta pólitísk útgeislun? Hún fjallar um geislatæki Landsspítalans og sitthvað því tengt, sýnist mér eftir byrjuninni að dæma. Mjög líklegt er að þar sé tekið undir kæk stjórnarandstöðufjölmiðilsins sem kallaður er Ríkissjónvarp. Um þessi mál er fjallað daglega þar og hefur verið vikum saman. Nú, nú. Ég ætlaði að klikka á þessa merku grein um pólitísku útgeislunina, en þá er mér tjáð (af tölvunni) að það geti ég allsekki nema sverja einhverja hollustueiða við fyrirbrigði sem ég fyrirlít. Aðrir bloggarar á Moggablogginu geta í nafni mannréttinda (býst ég við) lokað bloggum sínum, en verða þó að sæta því að upphaf blogga þeirra eru alltaf aðgengilegt öllum bloggvinum þeirra a.m.k.
Þjónustan hjá Moggablogginu er góð. Bloggið er að vísu ekki svipur hjá sjón miðað við það sem einu sinni var. Nú virðist þurfa svona 30 vikuheimsóknir til að komast á 400 listann. Svo virðist sem það tölvufólk sem áður sinnti bloggurum sé annað hvort hætt eða farið að sinna öðrum störfum
Þær fræðigreinar sem ég hef hingað til haft einna mestan áhuga á eru sagnfræði, alheimsfræði og heimspeki. Undanfarið hef ég verið að lesa bókina The Selfish Gene eftir Richard Dawkins og ég veit svei mér ekki nema ég ætti að bæta líffræði við þessa upptalningu.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.8.2012 | 00:48
1727 - Aðalhelgi sumarsins nálgast
Já, ég horfði svosem á fyrri hlutann af Stellu í orlofi um daginn. Mikið hefur myndin elst illa. Man að mér þótti hún að mörgu leyti ágæt á sínum tíma. Eiginlega bara tímaeyðsla að vera að horfa núna.
Þegar maður er andvaka er engin bót að því að hægt sé að fara á fésbókina og skrifa einhvern fjárann þar. Jú, annars. Gallinn er bara sá að í fyrsta lagi þarf að ákveða hvað það eigi að vera, svo þarf að velta því fyrir sér hverjir komi til með að sjá það. Allt getur það komið í hausinn á manni seinna. Á endanum er kannski hampaminnst að sleppa því alveg. Hvers vegna ætti maður þá að vera að skrifa á statusinn sinn?
Nær væri að blogga sjaldnar og vanda sig meira. Athuga það. Þó Davíð sé vondur er ókeypis, vandalaust og þægilegt að blogga á Moggablogginu. Já, og ég er ekkert að styrkja hann með því, þó hann sé frændi minn. (Eða ég frændi hans.) Gæti meira að segja vanið mig á að linka á fréttir á mbl.is ef mig langaði að gefa teljaranum svolítið trukk undir taglið. Mbl.is-fréttir eru um margt góðar og þó íslenskan og landafræðikunnáttan hjá þeim sem þær skrifa sé ansi gloppótt á fréttamatið um margt sæmilega við mig. Þeir gera jafnvel grín að sjálfum sér og Árna Johnsen. (Sbr. vídeóið um frestun þjóðhátíðarinnar í Eyjum) Ætli það verði ekki bara sett brekkusniglamet.
Skelfing held ég að bloggið mitt yrði leiðinlegt ef ég skrifaði bara um stjórnmál. Margir bloggarar gera það samt. Einkum hér á Moggablogginu. Aðalgallinn er sá að þeir sem það gera taka aldrei sjálfstæðar ákvarðanir. Þeir taka jafnan þá afstöðu sem kemur flokknum þeirra best. Að þeir taki stundum afstöðu gegn flokkshagsmunum er af og frá.
Ekki get ég gert að því þó allmargir virðist lesa bloggið mitt (samkvæmt Davíðska teljaranum.) Reyni samt að passa mig á að linka aldrei í fréttir og kommenta sjaldan á það sem skrifað er á mbl.is. Nóg er um að skrifa þó ekki sé verið að bergmála hugsanir annarra. Háfleygur er ég stundum en aldrei óskiljanlegur. (Held ég.)
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)