Bloggfærslur mánaðarins, júní 2012

1689 - Umfangsmikil bloggskrif

x28Gamla myndin.
Pabbi og Bjössi.

Ég er orðinn svo iðinn við bloggskrif að til vandræða horfir. Helst vil ég ekki blogga oft á dag, en stundum verður ekki hjá því komist. Mér finnst skárra að gera það en að hafa bloggin of löng. Ein word-síða eða rúmlega það (með fonti nr. 12 og línubili 1,15) er hæfilegt að mínum dómi. Mér finnst ég líka vera að dragast inn í umræðuna sem tengist forsetakosningum þó ég vilji það helst ekki.

Mér þykir samt gaman að reyna að sjá fyrir pólitíska þróun í landinu og er enginn aðdáandi fjórflokksins og finnst pólitík öll hafa breyst mikið eftir Hrunið. Margt finnst mér benda til þess að Ólafur Ragnar Grímsson sigri í forsetakosningunum í lok þessa mánaðar. Mér finnst hann þó ekki hafa hagað sér fosetalega undanfarið og ekki eiga skilið að sitja áfram.

Aðalástæðan fyrir því að ég er skyndilega orðinn svona duglegur að blogga er sennilega sú að ég er ekki nógu gagnrýninn á það sem ég sendi frá mér.

Ég er búinn að venja mig á að birta tvær myndir með hverju bloggi. (Og enginn hefur kvartað) Aðra myndina hef ég jafnan gamla og hina nýlega og undantekningalaust tekna af mér sjálfum. Það er samt sífellt að verða erfiðara og erfiðara að finna myndir til að setja í eldri flokkinn en betra að eiga við hinn. Á næstunni mun ég birta rúmlega tuttugu myndir sem Bjössi bróðir minn hefur tekið við 17. júní hátíðahöld í Hveragerði einhverntíma á áttunda áratug síðustu aldar.

Það er lítill vandi að skrifa svona hugleiðingar um allt mögulegt og kalla það blogg. Líklega er það blogg, en þá er blogg (eða weblog) eins og það heitir upphaflega á ensku, lýsing á forminu miklu fremur en innihaldinu. Af hverju blogga þá ekki miklu fleiri? Nú, það þurfa einhverjir að lesa öll þessi blogg. Ekki get ég kvartað í þeirri deild því með mikilli og langri ástundum hefur mér greinilega tekist að koma mér upp kjarna sem finnur sig í að lesa það sem frá mér kemur.

Einn af þeim sem skrifar í bókina sem ég var að minnast á um daginn heitir Darrell Bain og er greinilega vinsæll í rafbókaheiminum. Ég get fengið í kyndilinn minn einar 60 bækur eftir hann.

Stjórnarandstaðan virðist ætla að þusa, þjarka og þófast enn um sinn og reyna að hafa áhrif með því. Málþófið hvílir þó á tiltölulega fáum einstaklingum og getur lokið hvenær sem er. Boltinn er í rauninni hjá þingforseta og hún getur bundið enda á þetta ef hún vill. Samkomulag er þó vanalegra á þessum tímapunkti og á margan hátt æskilegra.

Því er ekki að neita að rithöfundargrillurnar hjá mér hafa nokkrum sinnum leitt til þess að ég hef reynt að koma saman bók. Einkum hefur mér dottið í hug að skrifa einskonar endurminningabók og notast þá við þau endurminningabrot sem er að finna í bloggskrifum mínum. Fljótlega hef ég þó séð að til þess þarf gríðarlega yfirsýn og vinnu og þegar á hólminn er komið er ég alls ekki tilbúinn til þess að leggja hana fram gegn alveg óvissu endurgjaldi. Nei, þá er nú meira gaman að fimbulfamba bara á blogginu og þurfa ekki að passa sig á neinu öðru en að skrifa hæfilega mikið og oft. Þannig er það eiginlega orðið núna. Skrifin sjálf valda mér engum vandræðum.

IMG 0264Bráðum tilbúinn.


1688 - Óþarft embætti

x25Gamla myndin.
Frá Reykjavíkurhöfn.

Auðvitað er forsetaembættið óþarft með öllu. Ólafur Ragnar Grímsson forseti Íslands hefur, ásamt núverandi stjórnarandstöðu, samt sem áður komið því inn hjá allmörgum að nauðsynlegt sé að hann (ÓRG) sé áfram forseti til að hægt sé að komast hjá aðild að hinu illa Evrópusambandi. Það er alveg sama hve óskynsamleg slík skoðun er, það er hún sem að líkindum mun fleyta honum í forsetaembættið komist hann þangað einu sinni enn.

Það vill svo til að ég er fyrirfram hlynntur því að við göngum í ESB, en vil samt að slíkt verði aðeins gert ef samningar þeir sem að líkindum nást við sambandið verða nægilega hagstæðir Íslendingum í þeim málum þar sem raunverulega er hægt að búast við að samið verði um frávik frá venjulegri stefnu bandalagsins vegna sérstöðu landsins og þjóðarinnar.

Engar áhyggjur hef ég af því að stjórnmálamenn (Samfylking og aðrir) reyni að koma okkur í ESB án þjóðaratkvæðagreiðslu. Líklegast er að inngangan verði felld. Það öryggi gegn aðild sem sumir virðast finna í stuðningi við ÓRG er augljós blekking. Hann kemur ekki til með að hafa nein áhrif á úrslit þess máls. Þjóðaratkvæðagreiðsla sem fram færi samkvæmt núgildandi stjórnarskrá væri þó aðeins ráðgefandi. Þannig er stjórnarskráin bara.

Í beinu framhaldi af þessari skoðun minni finnst mér forsetaembættið vera algjör tímaskekkja ef sæmilega er frá því gengið í stjórnarskrá að þjóðin sjálf geti krafist bindandi atkvæðagreiðslu um þau mál sem miklu skipta.   

Er um þessar mundir að lesa bók um tilurð fyrstu bókar ýmissa amerískra rithöfunda. Einkum er þar rætt um skáldsögur. Flestar eru þær óskaplega langar enda hafa amerískir höfundar mikið dálæti á slíku. Bókin sem ég er að lesa heitir „How I wrote my first book – The Story behind the Story“ Ég fékk hana ókeypis á kyndlinum mínum.

Þar kemur margt fróðlegt fram. Eiginlega dregur sá lestur talsvert úr mínum rithöfundardraumum. Svo virðist sem það sé mjög átakamikið að skrifa bók og bloggið sé miklu þægilegra. Þar er hægt að einbeita sér að því að skrifa ekki meira en hæfilegt er. Engin þörf semsagt að sitja við og ná ákveðnum orðafjölda á hverjum degi eins og margir Bandarískir rithöfundar virðast gera. Einnig er hægt að losna strax við það sem skrifað er og gleyma því síðan. Þannig getur bloggið verið sem einskonar skrifborðsskúffa. Samt geta aðrir lesið það sem skrifað er og stundum fær maður viðbrögð strax.

Hvort sem þau viðbrögð eru jákvæð eða neikvæð geta þau gert mikið gagn. Þau sannfæra mig um að það sem ég skrifa hreyfir við einhverjum. Er það ekki draumur allra sem eru með rithöfundarbakteríuna? Svo er líka hægt að gera þetta að einskonar vísnasafni því ég hef oft gaman af því að setja saman vísur. Líka hef ég stundað það að setja vísur í kommentaplássið hjá öðrum bloggurum. T.d. man ég eftir einni sem ég setti eitt sinn í kommentakerfið hjá Baldri Kristjánssyni. Man að hún byrjaði svona: Séra Baldur segir að..... Þegar ég var á Akranesi um daginn setti ég líka saman eftirfarandi vísu:

Í lazybojnum ligg ég
löðrandi í sól.
Arka þannig einn veg
eins þó komi jól.

Nei, það er ekki til Lazyboy-stóll hér á heimilinu þó latur ég sé. Legg mig í staðinní í hjónarúmið hvenær sem því verður viðkomið. Bý þó um fyrst.

IMG 0262Graffiti, eða hvað?


1687 - Stjórnarskráin gallaða og mótsagnakennda

x21Gamla myndin.
Á flugsýningu. Mér er minnisstætt að Þorsteinn Hannesson (12 eða 13 ára) reiknaði í snatri út í huganum afsmellihraðann á myndavélinni miðað við hreyfinguna á hreyflunum, þegar hann sá þessa mynd.

Það sem mér þótti athyglisverðast við kappræðuþáttinn á Stöð 2 um daginn en ég hef þó ekki skrifað um áður svo ég muni er það sem Ólafur Ragnar og Þóra sögðu um þingrofsréttinn. Ólafur sagði hann vera hjá forsetanum en Þóra að hann væri hjá forsætisráðherranum.

Svo einkennilegt sem það er hafa þau eiginlega bæði rétt fyrir sér. Almennt séð er hann tvímælalaust hjá forsætisráðherra (nema um annað sé samið) Hægt er þó að hugsa sér að forseti geti neitað sitjandi forsætisráðherra um að rjúfa þing (formlega séð þarf nefnilega atbeina hans) við sérstakar aðstæður. T.d. ef öruggt er að meirihluti þings er því andsnúinn.

Sú staða gæti komið upp að á þetta reyndi. Forsetaefnin ættu e.t.v. að ræða um sýn sína á bæði málskotsréttinn og þingrofsréttinn. Minni hætta er á ágreiningi um önnur atriði þó formlega séð sé stjórnarskráin sem nú er farið eftir óttalegur bastarður að þessu leyti.

Þó vissulega séu margar hliðar á stjórnarskránni og forsetaembættinu fell ég ekki frá því að mér finnast forsetakosningarnar litlu máli skipta miðað við margt annað. T.d. er núna óljóst hvernig kvótamálið fer þó trú mín sé sú að um það verði samið og LÍÚ muni gefa talsvert eftir. Stjórnarskrárkosningarnar verða að líkindum í haust og trú mín er sú að þar muni þjóðin samþykkja að nota stjórnarskrárfrumvarpið sem grundvöll að nýrri stjórnarskrá. Hinsvegar er ekki líklegt að í þessari atrennu verði innganga í  ESB samþykkt.

Með upptöku nýrrar stjórnarskrár sem vel gæti orðið á næsta eða þarnæsta ári má segja að embætti forsetans breytist töluvert. Það er þó ekki rétt hjá Ólafi Ragnari að þau auki völd hans og a.m.k. mundi aðkoma hans að stjórnarmyndunum hverfa með öllu.

Embættið ómerkilega
allir nú tala um.
Forsetinn ætti að vera
á skítugum stígvélum.

Þegar deilan um fjölmiðlalögin stóð sem hæst árið 2004 orti einhver eftirfarandi vísu um Ólaf Ragnar Grímsson. (Ég man ekki hver það var en get komist að því)

Vanhæfur kom hann að verkinu.
Vigdís plantaði lerkinu.
Hvert barn má sjá
að Bónus hann á.
Það er mynd af honum í merkinu.

Betur hefur ekki verið ort um þá atburði sem urðu það sumarið.

Þó bókarhöfundar séu miklu fleiri meðal minna nánustu (2) er ekki laust við að ég sé farinn að líta á mig sem rithöfund. Bækurnar eru að vísu núll ennþá og ég hef bara bloggið til að stæra mig af. Það er samt þónokkuð og það góða við það er að hægt er að senda hvaða vitleysu sem manni dettur í hug samstundis út í eterinn. Hann (eterinn) er samt ekki til en áður trúðu menn því að ljósvaki væri efni sem til væri þó engin leið væri að finna það.

Orðið lifir samt góðu lífi og margur maðurinn talar um ljósvakamiðla án þess að skammast sín. Sjálfur skammast ég mín samt dálítið þegar útlendingar halda því fram að Íslendingar trúi allir á álfa og drauga.

Eini maðurinn sem ég veit til að skrifi af skynsemi um næstum yfirskilvitleg efni er Stephen Hawking. Að hugsa sér að hann skuli vera orðinn sjötugur þrátt fyrir alla sína fötlun er líka ástæða til að skammast sín töluvert.

IMG 8356Kanínubúr.


1686 - Náðarvald

x20Gamla myndin.
Háskólabíó. Sennilega nýbyggt.

Mikil dásemd er að vera orðinn svo gamall að maður geti eiginlega ekkert unnið. Verst að sú dýrð getur víst, eðli málsins samkvæmt, ekki staðið endalaust. Þegar maður var yngri hlakkaði maður mest til þess að geta sofið út á hverjum morgni þegar maður væri orðinn löggilt gamalmenni. Slík bælislega varð fljótlega leiðigjörn og lítið varið í hana. Freistingin er fremur að fara snemma að sofa og snemma á fætur. Allt verður seinlegra með aldrinum og það sem áður var lítið mál getur allt í einu orðið óyfirstíganlegt eða tímafrekt með afbrigðum.

Ég finn það t.d. alveg sjálfur að göngulagið er orðið miklu hægara og ómarkvissara en áður var. Stundum finnst mér ég jafnvel vera að því kominn að detta en aldrei hefur samt orðið úr því. Heilmikið puð er líka að fara í sokka og reima á sig skó.

Nú er ég samt búinn að æfa mig heilmikið í að skrifa blogg og þó ég segi sjálfur frá er ég bara orðinn nokkuð sleipur í því. A.m.k. eru þónokkrir sem fylgjast með þessum skrifum mínum og er ég auðvitað þakklátur fyrir það.

Fólk virðist enn vera með hugann við misheppnaða tilraun Stöðvar 2 til kappræðna en ég held að margt merkilegra sé á seyði í heiminum í dag. Jafnvel forsetakosningarnar sjálfar. Hugsanlega hefur fyrirbrigðið á Stöð 2 í gær (sunnudag) einhver áhrif á þær. Margt fleira gæti þó átt eftir að gerast í undirbúningi þeirra. Óþarfi er samt að láta það glepja sig í að njóta góða veðursins. Svona eindregin blíða er ekki algeng á Íslandi.

Eftir á séð er nokkuð ljóst að hvert þeirra þriggja sem eftir voru í kappræðunum hefði getað gert endanlega útaf við þennan þátt (og hugsanlega Stöð 2 með öllu) ef vilji hefði staðið til þess. Hversvegna vildi ekkert þeirra það? Því finnst mér þurfa að svara.

Rætt er um að þrennskonar vald sé til. Hefðarvald, regluvald og náðarvald (sjá grein Guðmundar Andra Thorssonar: http://www.visir.is/valid-vald/article/2012706049995 ) Hafi ÓRG einhverntíma haft náðarvald er hann búinn að fyrirgera því núna. Hinsvegar er enginn vafi á því að Vigdís Finnbogadóttir hafði þetta vald og reyndar Kristján Eldjárn líka. Kannski eru kosningarnar 30. júní n.k. einkum um það hverskonar vald við viljum að forsetaembættið hafi.

Sóleyjar hafa nú tekið yfir við að leggja til gula litinn í náttúruna,
en fíflarnir eru flestir orðnir að biðukollum.
Lúpínan sér um bláa litinn.

IMG 8352Lúxusbíll.


1685 - Snubbóttar kappræður

x19Gamla myndin.
Við Reykjavíkurtjörn. Þarna gengur heilmikið á.

Þessar svokölluðu kappræður forsetaefnanna hjá Stöð 2 voru einn samfelldur vitleysisgangur. Ekki var nóg með að helmingur þátttakendanna hætti áður en þær hófust heldur var í miðju kafi tekið til við að trufla dagskrána.

Þetta var auglýst sem kappræður og kappræður voru það. Keppendur kepptust við að ljúga sem allra mest og stóðu sig vel í því. Mest laug forsetinn sjálfur. Með hliðsjón af þættinum ætti að leggja þetta fjárans embætti niður. Hallast að því að það sé rétt sem segir í Parkinsons lögmálinu að því lítilsverðara sem umræðuefnið sé því sterkari og útbreiddari séu skoðanir fólks á því.

Enginn fær mig til að trúa því að þetta embætti sé mikilvægt þó menn hafi auðvitað gaman af að kjósa. Að mörgu leyti er líka auðveldara að kjósa í svona einfaldri og áhrifalausri fegurðarsamkeppni en þingkosningum, þar sem varla er hægt að komast hjá því að vega og meta hlutina.

Auðvitað vita allir sem vilja vita að ÓRG var og er útrásardólgur Íslands númer eitt. Númer tvö og þrjú voru náttúrlega Geir og Ingibjörg. Nú er hann búinn að snúa við blaðinu frá því sem var fyrst eftir hrun. Þá kannaðist hann jafnvel við að hann hefði kannski farið offari í lofsöng sínum um útrásina. Nú er aftur á móti á honum að heyra að hann sé mesti bjargvættur Íslands fyrr og síðar. Ja, svei.

Annars var það greinilega Herdís Þorgeirsdóttir sem komst skást frá þessum kappræðum. Þóra var mjög hikandi og hrædd. Gætti þess vel að styggja ekki hugsanlega kjósendur og Ólafur var eins og stjórnmálamenn eru vanir að vera. Óstöðvandi kranastraumur með meiningarlausu blaðri.

Eitt má Ólafur þó eiga. Hann hefur breytt eðli forsetaembættisins og núorðið efast enginn um að vald forsetans til að setja mál í þjóðaratkvæðagreiðslu getur skipt máli við vissar aðstæður. Oftast nær er þetta samt rútínuvinna og óþarfi að vera að stofna sérstakt embætti utan um það sem vel er hægt að sinna með öðru.

IMG 8318Götótt laufblað.


1684 - Kappræður forsetaefna

x18Gamla myndin.
Við Reykjavíkurtjörn. Líklega snemma á sjöunda áratugnum.

Jæja, nú er kominn Sunnudagur og Akranesdvölinni lokið. Eiginlega var þetta eins og sumarleyfisdvöl. Einkum ber að þakka veðrinu fyrir það. Vonandi helst þessi blíða og auðvitað geri ég ráð fyrir að sumarið verði gott. Slatta af myndum tók ég og það skásta af afrakstrinum mun líklega birtast smám saman á blogginu mínu.

Efst á baugi eru auðvitað kappræðurnar á Stöð 2 í kvöld. Þetta er líklega eitt besta tækifæri Þóru og kannski það síðasta. Nái hún ekki til þjóðarinnar að þessu sinni er framboðið hugsanlega vonlaust. Samt geri ég ráð fyrir að kjósa hana. Sigur eða tap skiptir mig engu máli. Verð samt að viðurkenna að ég er meira að kjósa á móti ÓRG en með Þóru með þessu móti. Kannski á það við um fleiri.

Finnst sjávarútvegs- og kvótamálin vera komin út í tóma vitleysu. Það er alls ekki eðlilegt að LÍÚ stjórni ríkisstjórninni. Þar með er ég ekki að segja að tillögur stjórnarinna séu allra meina bót. Mér finnst þær samt skárri og held að þær njóti meiri stuðnings almennings, en að láta allt lufsast áfram eins og verið hefur.

Hið nýja Ísland er á leiðinni. Gömlu stjórnendurnir reyna að þvælast fyrir eins og þeir geta. Það gengur samt ekki til lengdar. Nútíminn mun sópa enn meiru í burtu þegar hann loks kemst til valda ef reynt verður að sporna sem mest við honum. Náttúruverndarhugsunin er að verða ofaná. Hvorki vinstri menn eða hægri hafa einkarétt á þeirri hugsun. Sú skoðun að náttúra Íslands sé viðkvæm og þarfnist umhyggju vinnur sífellt á.

Kannski er best að vera ekkert að teygja lopann lengur en setja þetta bara á bloggið. Engin ástæða er til að hafa þetta sem lengst. Myndirnar sem ég er búinn að uplóda endast kannski svolítið betur með því, en þær eru hvort eð er ekkert sérstakar.

Díana mun hafa farið að Úlfljótsvatni um helgina og skátamótið þar hefur eflaust tekist vel. Man eftir að hafa sjálfur verið á skátamóti við Hagavík (sem er skammt frá Úlfljótsvatni) fyrir margt löngu. Einnig var eftirminnilegt að starfa í þýðendahópnum hjá BÍS fyrir nokkrum misserum.

IMG 831540 (ekki 42).


1683 - Ástþór

x17Gamla myndin.
Veit ekki hvaða kirkja þetta er.

Með miklum hávaða og látum var efnt til undirskriftasöfnunar um daginn (kjosendur.is) þar sem til stóð að skora á Ólaf Ragnar Grímsson að rjúfa þing, Jóhönnu Sigurðar að segja af sér o.s.frv. Fór áðan á þessa síðu og það eru hvorki meira né minna en 9338 búnir að skrifa undir þetta. (Athugað í gær föstudaginn 1. júní). Varla er þó hægt að álíta að allir þeir sem ekki hafa séð ástæðu til að skrifa undir þetta séu fylgjandi því að stjórnin sitji áfram. Eða er það? Eigum við ekki bara að bíða eftir næstu þingkosningum? Svo er hægt að skemmta sér við forsetakosningar í millitíðinni.

Þetta vísukorn varð til um daginn þegar ég þurfti að fara út á snúru að athuga með sængurföt sem þar voru.

Það var Krónborgar kastalaskítur
sem kúrði á snúrinni þar.
Varla til nokkurs nýtur
nefnilega hann var.

Samkvæmt Morgunblaðsfréttum (minnir mig) var mesta tjónið í jarðskjálftanum á Ítalíu um daginn að einhverjum Parmesan-ostum var illa raðað upp svo þeir duttu og skemmdust. Birtar voru myndir af ósköpunum. Einhverjir fórust líka í þessum jarðskjálfta, en það var mun minna mál.

Sviplegt með Ástþór. Vorkenni honum að lenda í svona löguðu: http://eirikurjonsson.is/madurinn-sem-felldi-astthor-mynd/ Annars er hann orðinn svo reyndur í forsetaframboðum að hann hefði átt að vara sig á þessu. Vitanlega hefði hann ekki átt möguleika nú frekar en endranær, en það er samt sjónarsviptir að honum.

IMG 8310Upprennandi kanttspyrnuvöllur!!


1682 - Forsetakosningar á næstu grösum

x14Gamla myndin.
Merkileg mynd. Svona var mjólkin flutt í gamla daga.

Þeir sem telja aðrar þjóðir sitja á svikráðum við okkur og leita að tækifærum til að ná sér niðri á okkur hljóta að kjósa Ólaf Ragnar Grímsson í næstu forsetakosningum. Þær kosningar eru í þessum mánuði svo ekki er seinna vænna að fara að gera sér grein fyrir því hversu stórhættulegir allir þessir útlendingar eru. Eins og vitað er hefur okkur alltaf vegnað best þegar við sjáum um okkur sjálf og erum ótrufluð af ólukkans útlendingunum. EKKI

Íslendingar eru Íslendingum verstir. Þannig hefur það alltaf verið. Þegar samskipti okkar við umheiminn eru í sem bestu lagi vegnar okkur best. Helst þarf einhver þjóð sem er stærri en við sjálfir að halda yfir okkur verndarhendi. Danir gerðu það sæmilega um aldir en voru þó varla nógu stórir sjálfir. Íslenskir stórbændur kúguðu almenning eins og viðurkennt er. Svo kom blessað stríðið og verndarar okkar urðu stærri og stærri. Þegar Kaninn fór lenti svo allt í vitleysu. Segi ekki meir.

Já, ég býst við að ég kjósi Þóru. Hún virðist vera sú sem helst getur losað okkur við varginn sjálfan. Hann mælir allt upp í einangrunarsinnum og er langþjóðremdasti frambjóðandinn. Ef Doddsson færi fram (sem hann gerir ekki) gætu margir lent í vandræðum. Þó alþingi sé lítils metið eins og er má hiklaust gera ráð fyrir að fulltrúalýðræðið henti okkur ágætlega. Við ráðum því sjálf hverja við kjósum á alþingi. Ef fulltrúar okkar þar eru misheppnaðir er það okkur að kenna. Vöndum okkur í næstu þingkosningum. Það er ekki minnst um vert hverjir komast í framboð. Þessvegna eru prófkjörin mikilvæg. 

Ef kynna á forsetaframbjóðendur á að kynna þá alla. Ekki bara þá sem mest fylgi hafa í einhverjum skoðanakönnunum. Þetta ættu fjölmiðlar að athuga. Ekki síst Stöð 2. Lítt lesin blogg eru ekki fjölmiðlar. Þess vegna má ég segja hvern ég ætla að kjósa. Þó er ekki víst að ég muni á endanum kjósa þannig. Auðvitað er líklegast að ég fari að einhverju leyti eftir skoðanakönnunum. Ekki stuðlar Stöð 2 að öðru. En hvað gera aðrir fjölmiðlar og aðrir bloggarar. Ég bíð eftir því.

IMG 8308Hvað er þetta?


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband