Bloggfærslur mánaðarins, júní 2012
Gamla myndin.
Nú er trúðurinn kominn til sögunnar og staddur á pallinum í sundlauginni.
Þó skoðanakanninir sýni annað um þessar mundir geta forsetakosningarnar í lok mánaðarins orðið spennandi. Hætt er við að einhverjir hægri sinnaðir stuðningsmenn Ólafs Ragnars Grímssonar muni yfirgefa hann á síðustu metrunum og kjósa einhvern annan. Frá sjónarmiði andstæðinga ÓRG er eitt af því hættulegasta sem honum hefur tekist það að valda óróa og flokkadráttum milli andstæðinga sinna. Þóra Arnórsdóttir hefur enn vinninginn og er langlíklegust til að sigra hann ef hann verður sigraður. Ari Trausti Guðmundsson og Herdís Þorgeirsdóttir gætu hæglega bætt við sig undir lokin. Stuðingsmönnum Ólafs hefur tekist að bendla Þóru við Samfylkinguna og ESB. Þar með eru forsetakosningarnar orðnar flokkspólitískar og voru það kannski alltaf. Einnig hefur Þóra varla verið nógu skelegg sjálf og ekki er víst að það fylgi sem hugsanlega hrynur af Ólafi fari í eins ríkum mæli til hennar og Herdísar og Ara Trausta. Af því leiðir að líkurnar fara vaxandi fyrir því að Ólafur verði kjörinn en fái samt innan við helming atkvæða
Framsóknarmenn og sjálfstæðismenn hafa hingað til ekki riðið feitum hesti frá forsetakosningum. En það er lítið gagn í því fyrir þá að styðja mann sem eflaust mun svíkja þá við fyrsta tækifæri. Það mun Ólafur áreiðanlega gera enda er hann vanur að haga sér eins og vindurinn blæs hverju sinni.
Barátta forsetaframbjóðendanna er orðin nokkuð illvíg og fer aðallega fram í fjölmiðlunum og á netinu. Eiginlega er þetta líka mælikvarði á skoðanakannanirnar. Með hruninu hafa stjórnmálaskoðanir almennings breyst svo mikið að ekki er víst að kannanirnar séu eins sannspáar og þær hafa verið hingað til.
Guðbergur er dóni og hefur alltaf verið það, segir Sigurður Þór Guðjónsson. Rithöfundar eru það yfirleitt. Þórbergur var líka óttalegur dóni og margir fleiri. Dónaskapurinn er bara svo lítill hluti af þeirra höfundarverki að hann skiptir ekki máli. Dónaskapurinn hjá Guðbergi fer þó vaxandi í blaðagreinum hans. Einnig ofstækið og mannfyrirlitningin. Auðvitað svíður sumum hvernig hann skrifar núna. Á yngri árum mínum voru Guðbergur og Klaus Rifbjerg hinn danski talsverðir uppáhaldshöfundar hjá mér og alls ekki síst vegna þess hve miklir dónar þeir gátu verið. Fátt var þeim heilagt, ef nokkuð.
Umræðan á netinu er hræðilega fyrirsjáanleg. Illkvittin líka. Það er afar fátt sem má segja og mjög tíðkast þar fordómar allskonar. Allir eru tilbúnir að dæma aðra hart með litlum eða engum rökstuðningi og oft samkvæmt lituðum fréttum einum saman. Sum orð (t.d. feminisma) má alls ekki nota nema í réttu samhengi. Fésbókin er sífellt að verða illskiljanlegri og einhæfari. Sá fjöldi fólks sem áreiðanlega vinnur við breytingar á fésbókinni reynir að halda öllum sem mest þar og að þeir þurfi aldrei að fara annað á netinu. Eiginlega er ég alveg að gefast upp á bókarfjandanum. Hef samt enn svolítinn tíma fyrir bloggið. Moggabloggið er best.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
18.6.2012 | 09:00
1698 - Kindle-bækur á íslensku
Gamla myndin.
Stökkpallurinn í Laugaskarði enn og aftur.
Á kyndlinum mínum þykir mér einna mest gaman að leita að bókum og lesa umsagnir um þær. Stundum bið ég líka um sýnishorn (sample) af þeim því þau eru alltaf ókeypis. Þá leita ég líka eftir allskyns orðum, en verð auðvitað að gæta þess að hafa þau á ensku. Útgáfa öll er að verða svo einföld að það er líklega mikið viðskiptatækifæri að henda sér útí þá sundlaug. (Jafnvel djúpu laugina.) Rafbókaútgáfa er þó enn einfaldari því þar er ekki þörf á neinum efnislegum hlutum. Eins og flestir vita er Kindle afkvæmi Amazon og þeir stefna að heimsyfirráðum eins og fleiri.
Ekki er enn gott að sjá hvaða format verður ofaná við rafbókaútgáfu. Líklegt er samt að það verði Kindle. Ég geng að minnsta kosti út frá því í bili.
Gefnar hafa verið út rafbækur um ótrúlegustu hluti og hægt er að leita á kyndlinum að þeim. Ef leitað er þar að bókum sem skrifaðar hafa verið um hvernig nota megi forritið Wordpress þá eru þær á fjórða hundrað. Leiti ég hinsvegar að orðinu Dropbox þá eru aðeins 7 bækur sem hafa verið skrifaðar um það. Sé leitað að orðunum Kindle og publish saman skilar sú leit á fimmtándahundrað niðurstöðum. Kindle eitt og sér skilar milljónum.
Eitt virðist vera sameiginlegt með öllum þessum bókum. Þær kosta aðeins fáeina dollara. Ef nógu margar seljast er samt áreiðanlega hægt að græða vel á þessu. Yfirleitt virðast þær samt ekki vera ókeypis en hægt er að fá fullt af bókum, sem formattaðar hafa verið fyrir Kindle lesvélar, fyrir ekki neitt. Oftast er þá um að ræða bækur sem eru komnar úr höfundarrétti og sem aðeins hefur verið breytt úr PDF-skjali eða hreinni textaskrá í kindle-format.
Með Internetinu, fésbók og þ.h., farsímum, rafbókum, bloggi og ýmsu öðru er heimurinn að breytast með síauknum hraða. Til að fylgjast sæmilega með þurfa flestir á öllu sínu að halda. Mikill fjöldi dregst þó afturúr eða festist í einhverju ákveðnu (eins og ég er fastur í blogginu) og þeim þarf líka að sinna. Mín hugsjón er að allar þær sjálfshjálparbækur (eða þær skástu þeirra) verði ókeypis og öllum aðgengilegar. Það gerist samt ekki samstundis og á einhverju þurfa þeir að lifa sem eru sífellt að finna uppá einhverju nýju og spennandi til að gera veröldina skemmtilegri og einfaldari.
Það er að líkindum útkljáð mál að ÓRG vinnur forsetakosningarnar sem haldnar verða í lok þessa mánaðar. Við því er ekkert að gera. Varla getur það talist til stórtíðinda. Ekki er ég nú samt svo langt leiddur að ég fari að kjósa hann útaf því einu. Hættan sem stafað getur af því að hann sópi í sífellu til sín öllum þeim völdum sem hann mögulega getur er kannski einhver en varla stórkostleg. Ekki er að sjá að Þóra Arnórsdóttir veiti honum þá keppni sem vonast var eftir. Sú áætlun að tengja hana sem mest við Samfylkinguna, ríkisstjórnina, ESB o.fl. virðist hafa tekist.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.6.2012 | 06:20
1697 - Sólskin
Gamla myndin.
Stökkpallurinn enn.
Þó hitinn sé ekki mjög mikill þessa dagana er rétt að njóta sumarsins. Ekki er víst að veðrið verði neitt betra í júlí eða ágúst. Svo er bara komið haust aftur áður en maður veit af. Sumarið er að mörgu leyti besti tími ársins. Sólskin dag eftir dag býðst ekki oft hér á Íslandi svo rétt er að nota sér slíka gjöf. Ef sólarleysið er frátalið er alls ekki sem verst að búa hér á Íslandi. Maður er a.m.k. orðinn svo vanur því að manni finnst allt annað vera útlönd. Sem það náttúrulega er. Einhvers staðar las ég að á síðasta ári hafi 60 eða 70 af hundraði Íslendinga farið til útlanda. Ekki held ég að það hlutfall eigi eftir að hækka mjög mikið. Sjálfur fer ég ekki nærri því árlega til útlanda.
Staðreyndaskrif eru úrelt. Það á ekki að vera að troða slíku í fólk. Nær er segja hvar staðreyndirnar er að finna. Ég gúgla allan fjandann þó ég kunni ekki mikið á það eðla forrit. Hvernig hagstæðast er að gúgla er miklu gagnlegri vísdómur en einhver eldgömul staðreyndasúpa.
Þó það sé að vísu rétt að bloggskrifin séu mér ekki sérlega erfið, eins og mig minnir að ég hafi skrifað um daginn, er líka á það að líta að þau koma ekki alveg af sjálfu sér. Ég er samt svolítið farinn að haga mér þannig. Skrifin eru orðin stopulli en áður og ég legg enga áherslu á að skrifa á ákveðnum tímum. Kannski væri það samt ágæt regla.
Horfði um daginn á kvikmyndina Okkar eigin Ósló, sem sýnd var í sjónvarpinu og fannst hún fremur vel heppnuð. Engir áberandi gallar á henni og persónusköpunin alveg í lagi. Kannski helst að systirin væri dálítið ýkt. Haraldur Þorsteins var ágætur og sannfærandi. Íkveikjan í lokin þó dálítið illa undirbyggð.
Höfum tvívegis fengið okkur mat frá Palestínska veitingastaðnum Al Amir sem kominn er í Hamraborgina. http://alamir.is/ Maturinn þar er ágætur og vel útilátinn auk þess að vera alls ekki dýr. Þú getur valið um hvort þú tekur það sem þú kaupir með þér eða borðar á staðnum.
Þú ert það sem þú bloggar. A.m.k. í augum þeirra sem lesa bloggið þitt. Þessvegna er eins gott að vanda sig. Vonandi bara að það sé nóg. Annars er best að hætta að blogga. Voðaleg bloggspeki er þetta!!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.6.2012 | 09:16
1696 - 17. júní
Gamla myndin.
Æfingar (sýningar) á stökkpallinum í Laugaskarði.
Þremur nóttum fyrir nóttina helgu, var okkur kennt í gamla daga. Þá hætti sólin við að hverfa alveg og sneri aftur. Síðan lengdist dagurinn sífellt allar götur fram að Jónsmessu. Þá tók daginn að stytta aftur. Nú er ekki langt til Jónsmessu og næturnar eru bjartar. Já, bjartar og skínandi enda er Jónmessumótið í golfi haldið um þetta leyti. Keppendur ræstir af stað um ellefuleytið um kvöldið. Hvað er hægt að hafa það betra?
Svo endum við Júnímánuð með því að kjósa okkur nýjan forseta. Eða endurkjósum þann gamla. Slíkt hefur aldrei boðist í alvöru fyrr. Hingað til hafa forsetar alltaf horfið þegjandi og hljóðalaust af vettvengi en Ólafur ætlar víst að fara kicking and screaming.
Svo kemur sautjándinn. Í gamla daga voru sölutjöld um allt í Lækjagötu og Austurstræti og þar mátti fá fá blöðrur, candyfloss og allskonar sælgæti. Líka var haldið uppá sautjándann í Hveragerði og hátíðahöldin oft í Laugaskarði og auðvitað var mest gaman að sjá fullklætt fólk fara á bólakaf í sundlaugina. Einhverntíma á sautjándanum var ég í bíl í Reykjavík þar sem umferðin var svo þétt að hurðarhúnn á bílnum sem ég var í kræktist í hurðarhún á öðrum bíl (reyndar kyrrstæðum) og slitnaði af. Þar lá við árekstri, en varð ekki af.
Að vera skáldlegur er að komast frumlega að orði. Eða trúa því a.m.k. sjálfur. Skáldskapur er þó venjulega ófrumlegur. Þessvegna leitast höfundar oft við að skrifa sem mest. Ófrumleikinn týnist þá eða hverfur. Þeir sem ekki geta verið skáldlegir sjálfir en hafa samt gaman af að skrifa gerast oft bókmenntafræðingar. Þá geta þeir látið gamminn geysa og þóst vita allt. Gengur nefnilega oft illa að sannfæra sjálfa sig um að þeir séu frumlegir.
Mér finnst ég vera supergáfaður og frumlegur. Hugsanir mínar vera mun fremri hugsunum flestra annarra. Það er ekki aðallega vegna þess að ég sé vanari skriftum og lestri tormeltra fræðirita en flestir aðrir. Nei ég hygg að það stafi einkum af því að ég þekki alls ekki til hlítar hugsanir neinna annarra.
Sumum kann að finnast þetta bull hið mesta en það gerir mér ekkert til. Ekki get ég farið að segja að ég álíti mig heimskari flestum öðrum bara til að þóknast þeim og tileinka mér e.t.v. hugsanir þeirra að einhverju leyti. Nei, mér finnst í sannleika sagt að gáfur mínar þoli samjöfnuð við flesta aðra. Auðvitað eru sumir betur lesnir en ég, jafnvel gáfaðri á einhverjum afmörkuðum sviðum en mínar gáfur henta mér samt ákaflega vel. Ég hef gott vit á öllu því sem ég þarf að vita.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.6.2012 | 09:46
1695 - Bílaheilun (eða heilabílun)
Gamla myndin.
Líklega áhorfendur á knattspyrnuleiknum. Íþróttahúsið, gamli (elsti) barnaskólinn og Reykir í baksýn.
Sennilega var ég að hugsa eitthvað um forsetakosningarnar í morgun þegar ég fór að lesa bloggið hans Svans Sigurbjörnssonar. Þar var eitt innlegg sem vakti mikla forvitni mína. Hann kallaði það: Vigga hugar að bílaheilun. Sú frásögn er verulega skemmtileg og er hér: http://vigga.blog.is/blog/vigga/entry/1238429/ Hún er að vísu ekki alveg ný en ekkert verri fyrir það. Þessi frásögn fjallar um bílaheilun sem ég vissi ekki einu sinni að væri til. Auðvitað dettur manni í hug heilabilun ekki síður en bílaheilun þegar maður les þessa frásögn en ég set hana í flokk með áruhreinsuninni sem mig minnir endilega að ég hafi einhverntíma skrifað um.
Það er ekkert skemmtilegt að vera alltaf svona neikvæður þegar maður fjallar um yfirskilvitlega hluti en fólk er bara stundum svo óþægilega trúgjarnt. Margir vilja helst trúa því að þeir sem eru dálítið gagnrýnir á margt af nýaldarhisminu afneiti öllu sem yfirskilvitlegt er. Svo er bara alls ekki. Oft er það samt svo að skoðanir fólks á sönnunum (tala nú ekki um vísindalegar sannanir) eru ótrúlega ólíkar.
Ég kynntist Internetinu fyrst uppúr 1990. Áður en vafrarnir (t.d. Mosaic, Netscape og Explorerinn) komu var Gopherinn og seinna Lynxinn það nýjasta nýtt og ég sá Internetið fyrir mér sem einskonar risastórt bókasafn. Eiginlega hef ég ekki losnað við þá hugsun síðan. Hin auðvelda og risavaxna dreifing á hljóði og mynd sem síðan hefur tekið við var á þeim tíma alls ekki sjálfsögð. Geymsluplássið og bandbreiddin hefur síðan aukist svo gríðarlega og lækkað í verði að hið skrifaða orð er á miklu undanhaldi. Myndhugsun ungs fólks í dag er ótrúlega góð og þráðlaus og fyrirhafnarlaus dreifing á hverskonar efni (jafnvel efnislegum hlutum) er örugglega framtíðin. Þeir sem eru á svipuðum aldri og ég halda þó enn dauðahaldi í þá forngripi sem bókstafirnir eru.
Þráðlaus og fyrirhafnarlaus dreifing á efnislegum hlutum er þó talsvert fjarlæg ennþá. Þráðlausa dreifingin á hverskyns rafbylgjum á hinsvegar eftir að verða mjög auðveld og útbreidd á næstu árum. Farsímar, spjaldtölvur og allskyns dót sem dreifist hratt um hinn vestræana heim núna er bara blábyrjunin.
Hryllileg er sú tilhugsun að sitja uppi með ÓRG næstu 20 árin. Vona að svo fari ekki. Samt er veruleg hætta á að hann verði endurkjörinn núna vegna þess að enginn hinna frambjóðendanna er nógu góður. Það er ekki nógu góð ástæða til að kjósa einhvern annan að vera sannfærður um að hann sé skárri en ÓRG. Með því móti er hætt við að atkvæðin sem greidd verða öðrum frambjóðendum dreifist of mikið.
Ég ætla að kjósa Þóru þó mér finnist hún einkum hafa aldurinn með sér og ég sé ekki sannfærður um forsetahæfileika hennar.
Forsetakosningarnar og undirbúningur þeirra falla alvega í skuggann hjá fréttamiðlunum vegna fótboltans og er það skaði. Eins og það getur verið skemmtileg og gefandi lífsreynsla að kjósa góðan forseta í góðu veðri. Minnist þess alltaf hve gaman var að kljósa Vigdísi. Þó stóð hún sig ekkert sérlega vel sem forseti. Lét karlpungana ráðskast með sig eins og þeir vildu og var alls ekki nógu ákveðin. Vinsæl var hún þó og eftirá finnst mér einhvern vegin að forsetaembættið eigi að vera eins og það var þá. Völdin þurfa ekkert að vera þar en þjóðaratkvæðagreiðslur þurfum við.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
11.6.2012 | 08:18
1694 - Hunger games
Gamla myndin.
Knattspyrna á barnaskólatúninu (fyrrverandi). Barnaskólinn nýi (gamli) og Fagrihvammur í baksýn.
Ég er að mestu hættur að vanda mig við bloggið. Það gengur ekki. Henti áðan þangað einhverju sem ég hafði skrifað í fyrrinótt eða gærmorgun. Nei, ég verð að reyna að gera betur. Verð líka að fara að raða myndunum sem ég hef verið að setja á bloggið undanfarna mánuði.
Allar þrjár hungurleikabækurnar eru í kyndlinum mínum. Svo virðist sem bækur þessar séu afar vinsælar um þessar mundir. Fyrstu bókina las ég spjaldanna á milli og þótti hún mjög spennandi. Bók nr. tvö las ég einnig alla og hún var talsvert spennandi þó hún líktist fyrstu bókinni greinilega mikið. Sama sögusvið, lík atburðarás og á margan hátt má segja að hún hafi verið endurtekning á því sama. Spennuna vantaði alls ekki þó höfundurinn væri greinilega mjög á slóðum amerísku hefðarinnar hvað varðar áhersluna á kynferðismálin og kvikmyndavænleikann.
Í þriðju bókinni er áherslan talsvert breytt. Nú er mikið sótt í venjubundnu amerísku hefðina hvað snertir stjórnmál, kvikmyndahugsun, kynferðismál og leikfléttu alla. Sögusviðið er samt að mestu óbreytt enda gafst það vel í fyrstu bókunum. Af einhverjum ástæðum hef ég ekki komist yfir að lesa bókina nema til hálfs eða svo og á varla von á að ég klári hana nokkurntíma. Mér hugnast hún ekki vel, en vel kann samt að vera að margir njóti þess að sjá kunnuglegt umhverfi springa í loft um með miklum látum og ameríska drauminn verða að veruleika. Ég efast ekkert um að höfundinum takist að koma hinum ómissandi happy ending að og bókin er skrifuð af miklu fjöri og höfundurinn hugsar mjög til þarfa bandarísks almennings og kvikmyndaiðnaðar.
Síðan ég byrjaði að lesa þriðju hungurleikabókina hef ég lesið margar áhugaverða bækur. Mest þykir mér þó gama að blaða í bókakostinum á Amazon og skoða káputeiningarnar þar. Lítist manni sæmilega vel á bókina má alltaf fá nánari kynningu á henni og nokkra fyrstu kaflana eða svo. Ekki veit ég um neinar takmarkanir á þessu og úrþví maður er búinn að fá sé þráðlausan aðgang að netinu er ekki slæmt að geta legið í rúminu og blaðað í Amazon-bókum endalaus og reynt að finna allt mögulegt, því auðvitað er hægt að láta tölvuna raða bókunum eftir ýmsum atriðum og leita að hverju sem er. Mikill fjöldi bóka er þar með öllu ókeypis en það eru einkum gamlar bækur sem gerðar hafa verið að rafbókum. Sú stefna hefur verið rekin lengi að breyta bókum sem dottnar eru úr höfundarvernd í textaskrár og nægir þar að benda á Gutenberg safnið. http://www.gutenberg.org/ Netúgáfan íslenska http://snerpa.is/net/ byggir líka mjög á sömu hugmynd. Textaskránum er síðan auðvelt að breyta í skrár sem henta hvaða lesara sem vera skal.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
10.6.2012 | 11:59
1693 - Duglaust alþingi
Gamla myndin.
Ávörpin enn á pallinum í lauginni. Nú hefur ljósmyndarinn flutt sig aðeins.
Ekki get ég alltaf skrifað. Nú er ég t.d. andvaka og klukkan að verða fjögur. Ekki get ég skrifað neitt við svona ömurlegar aðstæður. Það er samt bót í máli að bjart er úti. Hnattstaðan lætur ekki að sér hæða.
Einhverntíma ætla ég að yrkja kvæði.
Fái ég bara bæði
brennivín og næði.
Einhverntím í fyrndinni setti ég þetta saman. Þetta get ég en á í miklum vandræðum með að setja saman venjulega limru.
Förum til Hveragerðis á eftir og kannski á Selfoss. Bjarni og Tinna koma líklega hingað og fara trúlega með okkur austur.
Það er bæði hægt að stela öllu steini léttara og svo er líka hægt að stela steinum.
Horfði á útsendingu frá alþingi á miðvikudagskvöldið. Held a.m.k. að það hafi verið þá. Sá meðal annars þegar Björn Valur Gíslason bar drykkjuskap uppá þingmann. Hélt satt að segja að hann ætti við Árna Johnsen því hann var sá eini sem hafði hagað sér eins og fyllibytta í ræðustól. M.a. yfirgefið ræðustólinn seint og illa þegar þingforseti (Ragnheiður Ríkharðsdóttir) hafði vísað honum þaðan. En Árni er víst bara vanur að haga sér svona og enginn sem kippir sér neitt upp við það. Auðvitað var óþarfi hjá Birni að koma með svona ásakanir úr ræðustól og eðlilegt að misvirða það við hann. Einhverjir tóku þetta samt til sín og skömmu seinna varð talsverður hávaði í salnum þó ekki væri því sjónvarpað. Forseti getur líklega sagt til um hvað gerðist þarna.
Annars er alþingi að verða skrípastofnun. Það er eins og alþingismenn vilji endilega að virðingin, sem sumir hafa hugsanlega borið hingað til fyrir þessari stofnum, hverfi alveg. Eflaust fara þeir næst að slást þarna.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
8.6.2012 | 22:16
1692 - Umræðurnar á RUV o.fl.
Gamla myndin.
Lúðrasveitin enn. Dettur í hug gamli brandarinn þar sem spurt er um í hvaða sveit kálfarnir séu helmingi fleiri en mannfólkið.
Hlustaði og horfði á forsetaframbjóðendurna áðan. Skelfingar japl var þetta og sjálfshól. Sjálfshólið er kannski eðlilegt. Varla verða aðrir til þess að hrósa þeim. Stjórnendurnir höfðu fremur litla stjórn á hlutunum. Nema þau hafi kannski fyrst og fremst ætlað að tala um sagnfræði og lögfræði. Eigum við kannski einkum að taka ákvörðun um hvern við kjósum á grundvelli þess hve klár þau eru í áðurnefndum greinum? Ég segi nei. Legg sjálfur reglurnar um hvernig ég ákveð mig í þessum kosningum. RUV stóð sig aðeins betur en Stöð 2, en alls ekki nógu vel samt.
Já, en hvernig stóðu þau sig? Í mínum augum einhvern vegin svona:
Ólafur langorður og ekki sem trúverðugastur.
Herdís Of upptekin af eigin ágæti og titlum.
Ari Trausti Ágætlega máli farinn, en gerði fullmikið af því að pota í Ólaf.
Þóra Hrædd og svolítið óákveðin.
Andrea Of höll undir Ólaf og flokkspólitísk, en nokkuð vel að sér.
Hannes Norskur hreimur og kannski stjórnmálamaður eins og hefur vantað hér.
Ætli Ólafur taki þetta ekki. Mun samt ekki kjósa hann aftur.
Læt svo útrætt um þetta í bili. Finnst of mikið fjallað um málið. Embættið er nánast valdalaust nema einstöku sinnum.
Kannski eru kommentin best fyrir það að þá gefst manni tækifæri til að skrifa ennþá meira. Svo er ágæt aðferð sem ég er farinn að beita svolítið, (auk þess að linka á bloggið mitt á fésbókinni) en hún er sú að ég birti kannski sömu klausuna á fésbók og bloggi ef mér finnst hún þurfa/eiga að koma fyrir margra sjónir strax. Biðst afsökunar á því.
Auðvitað skiptir fyrirsögnin máli í bloggi. Um þessar mundir er réttast að hafa fyrirsögnina eitthvað tengda forsetakosningunum því flestir eru að hugsa um þær. Annars er líka gott að hafa eitthvert þekkt nafn í fyrirsögninni því þá eiga margir von á að rifrildi sé í uppsiglingu. Ekkert er nefnilega eins spennandi og hávaðamikið rifrildi sem maður tekur ekki þátt í sjálfur.
Líka er gott að fullyrða eitthvað í fyrirsögninni sem engin leið er að standa við. Auðvitað er svo best að hengja þetta við vinsælustu greinina sem hægt er að finna á mbl.is. Til öryggis má skrifa eitthvað smá um það sem þar er sagt frá. Sé þetta haft í huga er ekki erfitt að komast hátt á vinsældalista Moggabloggsins sé það markmiðið. Sérstaklega ef maður er á stórhausalistanum. Hvort maður nennir svo að vera ofarlega þar til lengdar er annað mál.
Rétti tíminn til að baktala Ólaf Ragnar Grímsson hlýtur að vera núna. Minnist þess að hafa blöskrað a.m.k. einu sinni þjóðremban í honum þegar ég hlustaði á hann flytja ræðu um Pocahontas og teiknimyndir. Auðvitað var Snorri Þorfinnsson mun merkilegri en stelpuræfillinn. Held samt ekki að hann hafi sjálfur ætlað að gera miklu betri kvikmynd um hann en a.m.k. fullyrti hann að það væri enginn vandi. Ekki meiri vandi en að kveða niður eiturlyfjafaraldurinn, en eins og allir vita er það afar auðvelt. Segir Ólafur eins og sönnum framsóknarmanni sæmir.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
7.6.2012 | 19:37
1691 - Sjónvarpsbull
Gamla myndin.
Hér er lúðrasveit að störfum.
Og málþófið heldur áfram. Um það er ekkert sérstakt að segja. Þetta er einfaldlega háttur háttvirtra og hæstvirtra. Ljótastur finnst mér sá leikur andstæðinga þeirra frumvarpa sem verið er að ræða um að gera ítrekaðar tilraunir til að etja saman landsbyggð og höfuðborgarsvæði. Flestir þeirra sem í málþófinu standa reyna það. Segja fullum fetum að höfuðborgarsvæðið sé að níðast á landsbyggðinni með þessum frumvörpum. Vita þó betur.
Greinilegt er að kvótinn er það dýrmæti sem hugur stjórnmálamanna og LÍÚ-forkólfa er bundinn við. Nær öruggt er að þjóðin er sammála því að óveiddur fiskurinn í hafinu sé þjóðareign en ekki eign örfárra einstaklinga. Líklegt er að deilur um gjald fyrir að fá að veiða þennan fisk endist nokkuð enn. LÍÚ-menn munu þó verða að beygja sig að lokum.
Les oft bloggið hennar Hörpu. Bloggarnir þar eru stundum full-langir. Jafnvel svo langir að mér tekst ekki að klára þá nema með svindli. Svindlaði t.d. þónokkuð í sambandi við athugunina á sögunni um sögu Akraness og samantektinni sleppti ég alveg að mig minnir. Svipað var svo með bloggin um Guðfræðideildina í Háskólanum nema hvað þar sleppti ég kannski ennþá meiru. Kannski hef ég fengið þaðan hugmyndina um að blogg megi helst ekki vera meira en ein Word-blaðsíða. Það er nú ekki mikið og lengri eru krimmarnir og skáldsögurnar sem allir keppast við að lesa. Líklega er það mjög einstaklingsbundið hve margar blaðsíður hver og einn á hægt með að lesa í einu. Eflaust fer það líka eftir því hvað lesið er og með hve mikilli athygli.
Af hverju skyldi mér þykja svona gaman að blogga? Ætli það sé ekki vegna þess að ég þykist svo góður í því. Man eftir að kennari einn hrósaði mér eitt sinn mikið fyrir ritgerð nokkra. Man ekkert hver kennarinn var, en eitthvað svolítið eftir ritgerðinni. Síðan hef ég svosem alltaf verið sískrifandi, en það er ekki fyrr en núna nýlega eftir að ég er með öllu hættur að vinna sem skrifnáttúran hellist yfir mig eins og vatn úr skúringarfötu. Ég geri mér alls ekki neinar hugmyndir um að fá peninga fyrir skrifin. Þau eru mér bara nauðsyn. Get ekki án þeirra verið.
Sú freisting að skrifa sem allra mest helst dálítið í skefjum með því að hafa bloggin ekki óralöng. En það er oft erfitt að hætta. Gæti trúað að ég sé núna að verða búinn með það sambland af sóknarmarki og árskvóta sem ég á. Þ.e.a.s. þá blaðsíðu sem ég má skrifa í dag.
Mistök. Afsakið. Búið að leiðrétta.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
6.6.2012 | 22:37
1690 - Forsetakosningarnar enn
Gamla myndin.
Hér kemur fyrsta myndin úr seríunni frá 17. júní-hátíðahöldum í Hveragerði. Þarna er verið að ávarpa fólkið af palli úti í lauginni í Laugaskarði.
Ólafur Ragnar Grímsson er ekki tvævetur í stjórnmálum. Það sem hann hefur gert sér grein fyrir frá upphafi er að í forsetakosningum er ávallt nauðsynlegt að vera andstæðingur sitjandi ríkisstjórnar til að eiga raunhæfa möguleika á sigri. Snilld hans er fólgin í því að vera nú orðinn andstæðingur ríkisstjórnarinnar þó pólitísk fortíð hans bendi alls ekki til þess. Að fá meirihluta sjálfstæðismanna og framsóknarmanna til að kjósa sig eftir að hafa upphaflega komist í embættið með stuðningi vinstri aflanna er vel af sér vikið. Með réttu eða röngu er Þóra Arnórsdóttir bendluð við Samfylkinguna og þar með ríkisstjórnina og hætt er við að sú staðreynd verði henni að falli.
Ég hef tilhneigingu (þetta er eitt þeirra orða sem ég er ekki viss um hvernig á að stafsetja) til að halda að viðmiðunarreglan hjá mér um að hvert blogg eigi helst að vera u.þ.b. ein blaðsíða hafi verið í gildi frá upphafi. Þessar word-blaðsíður eru líklega mun minni en flestar bókarblaðsíður. Varla meira en tvöfalt minni samt. Það sem ég hef bloggað frá upphafi (2006) er þannig kannski einar þúsund bókarblaðsíður. Væru þær samankomnar í eina bók væri hún ansi sundurlaus að efni, en stór samt. Svona leika rithöfundargrillurnar mig.
Fór á bókasafnið í dag og fékk samtals 13 stykki að láni þar. Er steinhættur að taka þar stórar bækur. Einbeiti mér að litlum bókum og hljóðbókum. Er nefnilega að spara bensín og fer gangandi á bókasafnið. Síðustu stórbækurnar sem ég fékk þar og bar heim voru 2. bindi af sögu Akraness (risastór) og Ævisaga Gunnars Thoroddsen (alltof stór). Þær fengu mig til að stræka algjörlega á stórar bækur. Eiginlega á hreint ekki að láta stærð og þyngd ráða því hvort bækur eru lesnar eða ekki. Kindle fire sannar það.
Veit ekki hvað er verið að gera þarna.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)