1687 - Stjórnarskráin gallaða og mótsagnakennda

x21Gamla myndin.
Á flugsýningu. Mér er minnisstætt að Þorsteinn Hannesson (12 eða 13 ára) reiknaði í snatri út í huganum afsmellihraðann á myndavélinni miðað við hreyfinguna á hreyflunum, þegar hann sá þessa mynd.

Það sem mér þótti athyglisverðast við kappræðuþáttinn á Stöð 2 um daginn en ég hef þó ekki skrifað um áður svo ég muni er það sem Ólafur Ragnar og Þóra sögðu um þingrofsréttinn. Ólafur sagði hann vera hjá forsetanum en Þóra að hann væri hjá forsætisráðherranum.

Svo einkennilegt sem það er hafa þau eiginlega bæði rétt fyrir sér. Almennt séð er hann tvímælalaust hjá forsætisráðherra (nema um annað sé samið) Hægt er þó að hugsa sér að forseti geti neitað sitjandi forsætisráðherra um að rjúfa þing (formlega séð þarf nefnilega atbeina hans) við sérstakar aðstæður. T.d. ef öruggt er að meirihluti þings er því andsnúinn.

Sú staða gæti komið upp að á þetta reyndi. Forsetaefnin ættu e.t.v. að ræða um sýn sína á bæði málskotsréttinn og þingrofsréttinn. Minni hætta er á ágreiningi um önnur atriði þó formlega séð sé stjórnarskráin sem nú er farið eftir óttalegur bastarður að þessu leyti.

Þó vissulega séu margar hliðar á stjórnarskránni og forsetaembættinu fell ég ekki frá því að mér finnast forsetakosningarnar litlu máli skipta miðað við margt annað. T.d. er núna óljóst hvernig kvótamálið fer þó trú mín sé sú að um það verði samið og LÍÚ muni gefa talsvert eftir. Stjórnarskrárkosningarnar verða að líkindum í haust og trú mín er sú að þar muni þjóðin samþykkja að nota stjórnarskrárfrumvarpið sem grundvöll að nýrri stjórnarskrá. Hinsvegar er ekki líklegt að í þessari atrennu verði innganga í  ESB samþykkt.

Með upptöku nýrrar stjórnarskrár sem vel gæti orðið á næsta eða þarnæsta ári má segja að embætti forsetans breytist töluvert. Það er þó ekki rétt hjá Ólafi Ragnari að þau auki völd hans og a.m.k. mundi aðkoma hans að stjórnarmyndunum hverfa með öllu.

Embættið ómerkilega
allir nú tala um.
Forsetinn ætti að vera
á skítugum stígvélum.

Þegar deilan um fjölmiðlalögin stóð sem hæst árið 2004 orti einhver eftirfarandi vísu um Ólaf Ragnar Grímsson. (Ég man ekki hver það var en get komist að því)

Vanhæfur kom hann að verkinu.
Vigdís plantaði lerkinu.
Hvert barn má sjá
að Bónus hann á.
Það er mynd af honum í merkinu.

Betur hefur ekki verið ort um þá atburði sem urðu það sumarið.

Þó bókarhöfundar séu miklu fleiri meðal minna nánustu (2) er ekki laust við að ég sé farinn að líta á mig sem rithöfund. Bækurnar eru að vísu núll ennþá og ég hef bara bloggið til að stæra mig af. Það er samt þónokkuð og það góða við það er að hægt er að senda hvaða vitleysu sem manni dettur í hug samstundis út í eterinn. Hann (eterinn) er samt ekki til en áður trúðu menn því að ljósvaki væri efni sem til væri þó engin leið væri að finna það.

Orðið lifir samt góðu lífi og margur maðurinn talar um ljósvakamiðla án þess að skammast sín. Sjálfur skammast ég mín samt dálítið þegar útlendingar halda því fram að Íslendingar trúi allir á álfa og drauga.

Eini maðurinn sem ég veit til að skrifi af skynsemi um næstum yfirskilvitleg efni er Stephen Hawking. Að hugsa sér að hann skuli vera orðinn sjötugur þrátt fyrir alla sína fötlun er líka ástæða til að skammast sín töluvert.

IMG 8356Kanínubúr.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband