Bloggfærslur mánaðarins, júní 2012
29.6.2012 | 17:07
1709 - Sólskinsdagur
Gamla myndin.
Fjallkonan á pallinum.
Jú jú, það er búið að henda hingað tveimur bláum ruslatunnum. Sögusagnir herma að í þær eigi bara að setja pappír. Ekki hefur tilvist þeirra verið útskýrð fyrir okkur á neinn hátt og við erum að eigin frumkvæði tekin til við að skola mjólkurfernur baki brotnu allan liðlangan daginn. Lærðum það nefnilega á Akranesi um daginn og það virðist vera allra meina bót. Hvernig annar pappír verður aðgengilegri til endurvinnslu við það er mér reyndar hulin ráðgáta, en það hlýtur samt að vera.
Nú eru forsetakosningarnar alveg að bresta á. Samkvæmt fréttum virðast allir gera ráð fyrir að ÓRG vinni sigur í þeim og mér er svosem sama. Ekki ætla ég samt að kjósa hann. Þó finnst mér leiðinlegt að þurfa á gamals aldri að hætta að kjósa sigurvegara. Reyni bara að telja sjálfum mér trú um mikilvægisleysi þessara kosninga og að Grímsson grís fái minna en helming greiddra atkvæða.
Það getur vel verið að Ríkharður Vakur sé vakur. Mér finnst samt óþarfi hjá honum að vera sífellt að flækjast á fésbókarsíðunni minni. Reyndar er það kannski óvinurinn sjálfur sem stendur fyrir þessu. Ég á við að fésbókin geri þetta að eigin frumkvæði. Hún er eiginlega farin að taka á sig mynd undirheimakóngsins sjálfs í huga mínum og væri vís til að fara að halda fram allskyns vitleysu um mig. Öppin vilja gjarnan fá að senda póst út um víðan völl í mínu nafni. Hvað veit ég nema í þeim pósti sé tómur óhróður um mig.
Sennilega ímyndum við okkur öll að við eigum bók einhversstaðar inni í höfðinu á okkur. Ég er eiginlega búinn að gefast upp á að leita að henni. Verð líklega að láta bloggið duga. Það getur vel verið að það sé nóg. Byrjar a.m.k. á bé-i. Þó ég fyndi helvítið er ekki víst að mér ynnist tími til að koma henni á blað. Gott ef blöð eru líka ekki að verða úrelt í þessu sambandi.
Er að hugsa um að stofna Kindle fire félagið en þori ekki að minnast á slíkt á fésbókinni. Þar gætu mín vegna verið 18 slík félög fyrir án þess að ég vissi. Áreiðanlega eru engin slík á Moggablogginu og ég hef ekki orðið var við að neinn af mínum bloggvinum þar skrifi um slíkt apparat. Ég geri það nú samt og skammast mín ekkert fyrir. Þessi litla og yfirlæsislausa vél hefur gjörbreytt lestrarvenjum mínum. Og þó það sé kannski ekki til batnaðar þá held ég að lestur allur sé óðum að breytast þessa mánuðina og árin og hugsanlega er Bókin með stóru bé-i (búin til úr dauðum trjám) um það bil að missa tök sín á Íslendingum.
Hani. Mynd eftir Tinnu Alexöndru Sóleyju Bjarnadóttur.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
28.6.2012 | 10:14
1708 - Um forsetakjörið (í síðasta sinn - væntanlega)
Gamla myndin.
Áhorfendur við sundlaugina í Laugaskarði.
Setti umfjöllun um SEO á bloggið fyrir nokkru og einhverjar hugleiðingar um það sem ekki má nefna hér. Áslaug var að brenna gler í leirofninum í gærkvöldi (fyrrakvöld), en ég gat ekki beðið eftir að sjá það og nú er hún sofandi. Fæ samt áreiðanlega að sjá það á eftir. Já, já. Það tókst bara bærilega. Sumir bakkarnir eru alveg ágætir.
Held ég hafi sagt það áður, en mér finnst íslensku forsetakosningarnar skipta afskaplega litlu máli. Hins vegar eru forsetakosningar í haust sem skipta verulegu máli. Þar á ég við forsetakosningarnar í Bandaríkjunum. Sennilega er Obama samt öruggur með að sigra Romney þar. Man að ég hneykslaði einhvern mikið með því að segja á sínum tíma að ég sæi margt líkt með kosningabaráttu Obama og JFK forðum daga. Mörgum vinstri manninum finnst Obama hafa brugðist, en mér finnst það ekki. Hugsunarhætti Bandaríkjamanna verður bara ekki breytt á svipstundu.
Mér finnst að þeir sem skrifa langlokur (eða stuttlokur) um forsetakosningarnar þurfi að upplýsa lesendur sína í lokin um hvern þeir ætli að kjósa. Oftast fer þetta ekki milli mála en sumar greinarnar eru þannig að kostur og löstur er sagður á hverjum einasta forsetaframbjóðanda. Kjósendur (og greinarhöfundar líka) hafa bara um þrjá kosti að velja: Kjósa einhvern frambjóðendanna, gera atkvæði sitt ógilt eða sitja heima. Ef fólk leggur sig niður við að lesa greinar um þessi mál finnst mér það eiga heimtingu á að vita afstöðu greinarhöfundar.
Óþarfi er að rífast fram og aftur um Icesave núna. Það mál er frá og engin hætta á að það komi aftur. Er samt ekki að fullu lokið. Skiptir ekki máli varðandi þær kosningar sem nú standa fyrir dyrum. Íslendingar munu standa saman í því máli. Engin hætta er á öðru. Sumir virðast þó gera ráð fyrir að það mál hjálpi sínu forsetaefni. Svo er ekki. Hættan á öðru eins máli er nánast engin. Afskiptasemi eða afskiptaleysi forsetans um stjórn landsins er nánast það eina sem skiptir einhverju máli.
Eitt enn varðandi forsetakosningarnar. Ég þekki Eirík Jónsson svolítið. Les jafnvel stundum bloggið hans, þó ég sé hættur að nenna því nema endrum og eins núorðið. Það hvernig hann lætur útí Þóru Arnórsdóttur herðir mig í þeirri fyrirætlun að kjósa hana. Forsetakjörsumfjöllun lokið. Punktur.
Þau eru súr, sagði refurinn og lallaði í burt þó hann næði ekki til vínberjanna sem hann langaði samt svo mikið í. Minnir að þessi saga sé úr Dæmisögum Esóps (Aesop´s fables). Man vel eftir þeirri bók frá því ég var lítill. Sennilega eru margar siðferðisviðmiðanir manns þaðan komnar.
Þegar maður var með timburmenn eftir fyllirí í gamla daga var manni sagt að besta ráðið til að losna við þá væri að drekka brennivín ofan í þá. Þegar svo stóð á var áfengi það síðasta sem mann langaði í og þessvegna þurfti karlmennsku til að koma þeim fjára ofan í sig. Þetta var samt sagt fullum fetum en ekki látið fylgja, það sem flestir þóttust þó vita, að með slíku væru mörg skrif stigin á væntanlegri drykkjumannsbraut. Annað sem gjarnan var rifist um var hvort menn væru betri bílstjórar aðeins hífaðir eða ekki. Ég man að ég aðhylltist þá skoðun að á vissu stigi drykkjuskapar væri maður betri bílstjóri en ella en hefði tæpast sjálfur andlega burði til að ákveða hve lengi maður væri mátulega fullur fyrir slíkt.
Fór á bókasafnið í gær og fékk fullt af bókum. Get kannski um þær hérna seinna meir. Þarf að lesa þær fyrst. Les samt lítið af íslenskum bókum þessa dagana, kyndillinn á hug minn allan.
Þarna er Evrópufanturinn sjálfur á ferð.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.6.2012 | 04:58
1707 - SEO
Gamla myndin.
Við íþróttavöllinn á barnaskólatúninu. Hótelið, Gamla ullarþvottastöðin og íþróttahúsið í baksýn.
Á kyndlinum mínum (Amazon) eru vel yfir sex hundruð bækur sem fjalla um SEO. En hvað þýðir SEO eiginlega? Enska merkingin með þessari skammstöfun er Search Engine Optimization. Á íslensku gæti það verið þýtt með leitarvélaaðlögun. Leitarvélar á netinu eru margskonar eins og kunnugt er. Frægust er auðvitað Google og af nafni hennar er dregin sögnin að gúgla, sem jafnvel má finna í óvandaðri íslensku og allir kannast við.
En er einhver ástæða til að vera að skrifa yfir 600 bækur um þetta fyrirbrigði. Já, hugsanlega. Sjálfur hef ég oft undrast hvað sumt fólk hefur verið fljótt að finna það á Google.com sem það hefur leitað að. Hvort sem það hefur lesið einhverja góða bók um SEO þar eða ekki er það greinilega leikið í að aðlaga Google sínum þörfum. SEO fjallar auðvitað líka og kannski aðallega um það hvernig eigi að koma vefsetri sínu sem efst á niðurstöðusíður leitarvélanna. Það er mjög gagnlegt fyrir auglýsendur að vita það.
En 600 bækur, er það ekki fullmikið í lagt? Jú kannski, en ég er ekkert viss um að allar þessar bækur séu um SEO eins og ég skil það. Lét tölvuna einfaldlega leita að SEO-bókum en nennti ekki að skoða þær allar. Líka er á það að líta að sennilega úreldast bækur af þessu tagi mjög fljótt.
Það er varla farandi eða verandi á Íslenska Internetinu þessa dagana fyrir forsetagreinum. (Sumir er jafnvel farnir að spekúlera í hvað orðið fossseti merki og að Ljósvetningagoðinn hafi verið fyrsti foss-setinn) Ef ég vel að sleppa því að lesa þessar greinar eins og mér er efst í huga þá er bara afar fátt annað þar til að lesa. Auðvitað freistast maður til að lesa eitthvað af öllu þessu skrifelsi, en af hverju ætli allir þurfi endilega að tjá sig einmitt um þetta mál? Skil það ekki og hef eiginlega meira gaman af fótboltanum. Verst að RUV hefur orðið svo illilega fyrir barðinu á fótboltasýkinni að ómögulegt er að finna fréttirnar þar þó enginn sé fótboltinn.
Svei mér þá ég held ég hafi ekkert bölsótast út í fésbókina í þessu bloggi. Batnandi manni er best að lifa, segir máltækið. Fésbókin er samt skelfileg uppfinning og er búin að ná hættulegum tökum á fólki, sem það heldur að það geti losað sig úr þegar því dettur í hug. En svo er ekki.
Sé ekki betur en íslenski fáninn sé á haus þarna.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
26.6.2012 | 10:09
1706 - Hvaða frambjóðendur má bjóða þér?
Gamla myndin.
Áhorfendur við sundlaugina. Þakið á húsi Hjartar frá Núpum í baksýn fyrir miðju og svo Laugaskarð.
Hannes: Vonlaus, en ágætt að fá hann inn í íslenska pólitík.
Ari Trausti: Kannski traustur en hefur ekki mikla von.
Andrea: Þekki hana ekki og veit lítið um hana. Vonlausust allra.
Herdís: Forsetaleg og hætt við að hún líkist Ólafi með tímanum.
Ólafur: Kominn á síðasta söludag.
Þóra: Landsmóðurleg og vill vera það.
Ertu ekki búin(n) að velja? Þá verður þú að flýta þér. Þeir gætu farið að verða uppseldir. Nei, þessar kosningar eru ekkert spennandi. Snilldin hjá Ólafi var að fá Davíð til að styðja sig. Kannski vinnur hann útá það. Þóra gæti samt látið hann finna fyrir sér.
Þóra er ekki kristinnar trúar segir í fyrirsögn í einum fjölmiðlinum. Allt í einu er það farið að skipta mestu máli. Ætli hinir frambjóðendurnir séu allir kristnir? Ef áróðurinn breytist í hefðbundnar trúarbragðadeilur ætti Þóra ekki að þurf að örvænta. Íslendingar eru nefnilega alls ekki kristnir. Eftir því sem líður á þessa undarlegu kosningabaráttu er ég farinn að vorkenna Þóru meira en öðrum að þurfa að standa í þessu skítkasti. Í upphafi baráttunnar fékk maður á tilfinninguna að henni væri í meira mæli en hinum frambjóðendunum att út í þetta. Andstæðingar hennar túlka þetta eflaust þannig að stjórnmálaflokkarnir (Samfylkingin) hafi gert það, en ég held að það hafi verið stuðningmennirnrir (fésbókin) sem gerði það.
Maður verður víst að fylgja straumnum og skrifa aðallega um forsetakosningarnar. Mér leiðast þær og þær eru ásamt með fótboltanum búar að setja allt sem venjulegt er úr skorðum. Eiginlega ætti maður að stuðla að því að fók gleymi sér í smástund og hætti að hugsa um þessa vitleysu alla saman. Þessvegna er ég að hugsa um að setja hérna í lok bloggsins gamla sögu sem ég fann hjá mér. Sennilega er ég búinn að birta hana áður, en góð vísa er aldrei of oft kveðin. Mýs og kisur eru líka alltaf í tísku.
Einu sinni var lítil músarstelpa sem hafði komið undir í þvottahúsinu hjá Indriða G. Þorsteinssyni við Borgarhraun í Hveragerði. En förum ekki nánar úti það.
Nú var hún semsagt stödd úti á túni að leika sér og leita að einhverju til að borða. Mamma hennar hafði sagt henni að hún væri orðin svo stór að hún gæti séð um sig sjálf. Sumir bræður hennar og systur höfðu þegar yfirgefið hreiðrið og ekki komið aftur. Mýsla hafði ekki hugmynd um hvernig þeim hafði reitt af.
Allt í einu var stór og ljótur köttur kominn alveg að henni. Jæja, kettir eru svosem aldrei ljótir nema þeir séu eyralaus og örótt gömul fress. Þetta var grönn og myndarleg þrílit læða sem greip hana í kjaftinn og hljóp með hana inn í næsta hús. Þar setti hún hana frá sér og fór að leika sér að henni. Mýsla litla var stjörf af hræðslu og ef hún ætlaði að koma sér í burtu var loppan á kettinum óðar komin í veg fyrir hana.
Loksins tókst henni þó að komast undir kommóðu sem þarna var. Kötturinn nennti ekki að gá að henni og fór að hugsa um eitthvað annað enda saddur vel.
Eftir nokkra stund ákvað Mýsla að gá að undankomuleið og reyna að komast út. Þegar hún var nýkomin undan kommóðunni varð hún vör við fólk. Það sá hana víst líka því nú hófst mikill eltingaleikur. Mýsla endasentist undir allskyns húsgögn en þar var enginn friður og hún var hrakin þaðan jafnóðum.
Á endanum kom mannkertið sem þarna var með pappahólk einn mikinn og langan og setti á gólfið upp við vegg. Mýsla hljóp að honum og skaust inn í hann. Þá tók ekki betra við því hann tókst á loft og var samstundis lokað beggja megin. Eftir drykklanga stund var annar endinn opnaður og hinn settur í háaloft. Mýsla átti því ekki annars kost en að fara út úr hólkinum þeim megin sem opið var.
Þá tók ekki betra við. Hún lenti ofan í flösku sem var rétt nægilega víð að ofan til þess að hún kæmist þar niður. Á botninum var flaskan samt rúmbetri og þar gat mýsla litast um. Forvitin augu störðu á hana úr öllum áttum. Fólkið var samt ekkert ákaflega margt og innan tíðar kom ostbiti fljúgandi niður í flöskuna. Mýsla nartaði aðeins í hann fyrir siðasakir en hún var satt að segja of skelfingu lostin til að geta borðað.
Allt í einu segir mannkertið sem þarna var við litlu manneskjuna sem líka var þarna:
Viltu ekki bara fara með hana með þér í skólann og sýna krökkunum hana?"
Jú, jú."
Ekki er að orðlengja það að flöskunni var nú skutlað í skólatösku og litla manneskjan valhoppaði af stað í skólann.
Þegar þangað kom störðu allir á Mýslu. Nú voru miklu fleiri viðstaddir sýninguna. Heill krakkahópur sem starði á þetta furðudýr. Síðan kom þvílík skæðadrífa af ostbitum, káli, gulrótum og allskyns dóti að Mýsla litla varð logandi hrædd. Reyndi samt að narta í eitthvað af því sem til hennar kom því henni skildist að hún ætti að gera það.
Kennarinn kom nú á vettvang og var sömuleiðis stórhrifinn af Mýslu litlu. Allir störðu opinmynntir á hana og fylgdust með þegar hún reyndi að fá sér að borða.
Svo urðu krakkarnir leiðir á þessu og einhver stakk uppá því að sleppa músinni. Það var strax samþykkt og krakkaskarinn marséraði útí móa og sturtaði músinni þar úr flöskunni. Mýsla var svolitla stund að átta sig á frelsinu en tók svo undir sig stökk og svo annað og annað og annað.
Krakkarnir sem höfðu ætlað að fylgjast vel með því hvað músin tæki sér fyrir hendur misstu fljótlega af henni. Mýsla þorði samt ekki annað en halda áfram að stökkva fram og aftur milli þúfnanna þangað til hún fór að þreytast.
Allt í einu sá hún yndislega holu milli nokkurra steina og skaust þangað. Þegar inn var komið varð hún fljótlega vör við að einhver átti heima þarna. Þrátt fyrir myrkrið varð hún nefnilega vör við þrusk þar inni.
Hver er þarna?" Tísti Mýsla litla.
Það er bara ég," var tíst á móti.
Mýsla heyrði að þetta var líka mús og varð allshugar fegin. Hljóp inn eftir holunni, hitti músina og fann strax að þetta var músastrákur. (Hann var nefnilega svo illa rakaður.) Þau fóru svo strax að fást við að búa til músarunga og í fyllingu tímans fæddust í holunni sex músarungar en þessi saga fjallar ekkert um þá.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.6.2012 | 11:32
1705 - Þrælahald nútímans
Gamla myndin.
Áhorfendurnir, Fagrihvammur, Þráinshús og barnaskólinn í baksýn.
Þrælahald nútímans er talsvert öðruvísi en áður var. Það er og verður ætíð þannig í því kerfi sem við búum við, að einungis mjög lítill hundraðshluti fólks getur orðið yfirstétt. Lífskjör hér á Vesturlöndum hafa batnað svo mikið (á kostnað annarra heimshluta) að þrælarnir í dag hafa það eins gott og jafnvel betra efnalega séð en þrælaeigendurnir eða yfirstéttin hafði það áður.
Eðli kerfisins breytist þó ekkert. Þrælagreyin ráða ósköp litlu þó stöðugt sé reynt að láta þá halda að þeir ráði öllu. Það er ennþá hægt að reka þá úr vinnu og ráðskast á fjölbreyttan hátt með líf þeirra. Já, og gera næstum hvað sem er við þá. Auðvitað er samt ekki lengur hægt að drepa þá og pína nema sérstök ástæða sé til.
Ef yfirstéttin eða þrælahaldararnir halda t.d. að veldi sínu sé ógnað skirrast þeir ekki við að finna einhverjar tylliástæður til að láta lögin sín gera kleyft og leyfa að drepa og pína eða gera óskaðlega þá sem þörf er á. Uppljóstrun um raunverulega hegðun þrælahaldarann er t.d. afar illa séð.
Engu máli skiptir hvað kerfið er kallað sem notað er. Þrælarnir hafa fundið upp kerfi sem byggist ekki á jafnflóknum umbununaraðferðum og jafnvel reynt að láta það taka við af hinu. Það hefur samt ekki tekist vel og ófullkomleiki mannkynsins er slíkur að frumskógarlögmálið þar sem hver reynir að drepa annan, sem mildilegast þó, virðist á margan hátt henta betur.
Í örstuttu bloggi er auðvitað ekki hægt að minnast á öll heimsins vandamál en vandamál þrælahaldarana koma líka öðru hvoru í ljós. Umbununarkerfi þeirra, sem byggist á peningum, hagvexti, stórfyrirtækjum, blokkamyndun, náttúrueyðingu og þess háttar er ekkert sérstaklega traust og kreppur hrjá það reglulega. Þá geta komið tímabil þar sem þrælahaldararnir neyðast til að hafa hægt um sig um sinn, en þeir halda jafnan völdunum og gæta þeirra mjög vel. Fyrr eða seinna ná þeir svo tökum á umbununarkerfinu aftur og geta þá haldið leiknum áfram.
En er nokkuð verra að vera þræll en þrælahaldari? Um það má deila. Þrælahaldararnir hafa sínar þyrlur og þotur en þurfa líka að sjá um að viðhalda kerfinu. Ef lífskjör þrælanna eru nógu góð þurfa þeir litlar áhyggjur að hafa af þrælahöldurunum. En hvenær eru þau nógu góð? Þar liggur efinn. Og hver túlkar og skilgreinir það? Eiga sem jöfnust lífskjör allra eitthvað betur við mannkynið? Hægt er að hræra endalaust í fólki með trúarkenningum og hverskyns hindurvitnum og fá það jafnvel til að trúa því að jöfnuður sé óæskilegur.
Fésbókin er verkfæri andskotans. Það hef ég reyndar alltaf sagt en það er sífellt að renna betur og betur upp fyrir mér. Nú er t.d. næstum ómögulegt að komast útúr henni aftur ef maður hefur álpast þangað einu sinni. Tölvukerfið hangir bara og gerir ekki neitt ef valin er þar skipun sem segir tölvunni að fara útúr fésbókarkerfinu og gera eitthvað annað. Auðvitað er engin nauðsyn að fara útúr kerfinu nema manni sé eitthvað illa við fésbókina. Eins og mér. Ennþá er lítill vandi að loka öllum gluggum og byrja bara uppá nýtt. En það er ekki aðferð sem hugnast fésbókarliðinu. Helst á hanga þar öllum stundum. Heimsyfirráð eða dauði er mottó þeirra sem þar ráða.
Stórfyrirtækin vilja ráða tölvuhugsun fólks ekki síður en öðru. Þar er barist um stærðina fyrst og fremst. Þegar tölvufyrirtæki, eða svosem hvaða fyrirtæki sem vera skal, er orðið nógu stórt (samkvæmt eigin skilgreiningu) reynir það að stækka enn meir með því að hætta að borga skuldir sínar. Sé það orðið mun stærra og öflugra en sá sem lánar því, getur það látið hann sitja og standa eins og því sýnist.
Núna einhverntíma á næstunni, eða a.m.k. á næstu árum eða áratugum, mun þessi frumuhópur sem ég hef vanist að kalla mig gefast upp á streðinu og hætta að virka. Hvað tekur þá við? Hvað verður þá um sjálfið sjálft? Það er milljón dollara spurningin. Er nokkur leið að komast að því? Það virðist ekki vera. Samt vilja allir fá sem gleggstar upplýsingar um þetta atriði. Um það hverfist næstum allt. Trú, trúleysi, himnaríki, helvíti o.s.frv. Einu sinni héldu menn að vísindin mundu skera úr um þetta. Sú trú virðist á undanhaldi. Sennilega fáum við aldrei að vita það.
Forsetakosningarnar snerta mig undarlega lítið. Mér finnst litlu máli skipta hver verður forseti. Finnst þetta eins og hver annar leikur. Forsetinn ræður engu. Að hafa Ólaf áfram gerir leikinn kannski pínulítið auðveldari hjá útrásarvíkingunum, en er það nokkuð verra? Er ekki bara ágætt að láta þá halda að þeir geti eitthvað?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.6.2012 | 00:20
1704 - ÓRG, ESB og margt annað
Gamla myndin.
Pallurinn aftur.
Trúlega væri betra fyrir mig að minnka bloggskrifin talsvert. Ég verð eins og einhver Eiður Guðnason ef ég held svona áfram. Það er lítill vandi að raða orðum þannig að eftir sé tekið. Þá mega þau reyndar ekki vera alltof mörg og betra er að þeir sem lesa þau hafi vanið sig á að lesa hratt og bítandi. En skáldleg tilþrif fara gamalmennum illa.
Feginn er ég að ég skuli ekki vera skáld. Hef verið að skoða myndir á fésbókinni af slíkum himpigimpum. Þau eru alltaf útsett fyrir það að listaspírur með enga hæfileika þykist vera að taka af þeim listrænar myndir.
Að eyða tímanum í tölvustúss og að læra á ný og ný forrit er fánýt iðja og styttir lífið umtalsvert. Nær er að éta á sig gott holdafar eða hristast um víðan völl í aflóga bíltík, er það ekki?
Margir misnota fésbókina með því að skrifa þar allskyns innihaldslaust þvaður. Það er samt álitamál hvort hægt er að líta á það sem skemmdarverk. Menn geta sjálfum sér um kennt ef þeir hafa álpast til að fésbókarvingast við slíkt fólk. Það ku vera afar auðvelt að skrúfa fyrir það sem aðrir segja. Hef samt ekki notað mér það sjálfur en læt í þess stað bullið fljóta framhjá mér. Dettur samt stöku sinnum í hug að ansa þar einhverju.
Ólafur Ragnar Grímsson hefur alltaf á móti Evrópu verið. Stuðningsmaður USA er hann heldur ekki. Hann hefur verið sífjasandi um Indland og Kína í meira en 20 ár. Hverju hefur það skilað okkur? Engu. Sennilega er hann enn sömu skoðunar um þessi lönd. Eigum við að bíða eftir þeim í önnur 20 ár? Mér finnst að það megi alveg íhuga Evrópu á meðan.
Menn detta gjarnan í þá fésbókarvitleysu að birta þar allar þær myndir sem þeir taka. Það er óþarfi. Nær væri að velja svolítið úr, því misgóðar eru myndirnar alltaf, þó allar séu þær kannski góðar.
Þetta minnir mig á söguna um eina fjöður sem varð að 5 hænum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.6.2012 | 16:30
1703 - Bessastaðir
Gamla myndin.
Áhorfendur í blíðunni.
Ég sé fyrir mér að afstaða Sjálfstæðisflokksins muni breytast varðandi ESB og opinber afstaða flokksins verði sú að Íslendingum beri að ganga í sambandið. Ólíklegt er samt að þetta gerist fyrir næstu kosningar. Ástæðan fyrir þessu er einfaldlega sú að mikill meirihluti sjálfstæðismenna er í rauninni fylgjandi samvinnu Evrópuþjóða. Kannski halda þeir að Bandaríkjamönnum sé einhver greiði gerður með andstöðunni við aðild, en svo er ekki.
Nú styttist óðfluga (hvað snarvitlaus fluguskratti er að fækjast þarna skil ég ekki en íslesnk orðtök eru oft illskiljanleg) í forsetakosningarnar og spárnar um úrslitin eru talsvert skrautlegar. Flestar eiga það þó sameiginlegt að Ólafur muni vinna. Stuðningsmenn hans gætu með þessu orðið svo værukærir að þeir nenni ekki að kjósa og tapað þess í stað
Kannski er það alveg rétt að allir sem ekki kjósa Ólaf Ragnar í komandi forsetakosningum séu á móti því að hann haldi áfram sem forseti. Á hvern hátt meirihluti kjósenda er á móti honum fer svo auðvitað eftir því hvern annan en hann þeir kjósa eða hvort þeir kjósa yfirleitt. Það er jafnvel hugsanlegt að einhverjir sem ekki kjósa Ólaf séu ekkert sérstaklega á móti honum þó æstustu stuðningsmönnum hans finnist það.
Vissulega er það mjög svo þakkarvert að hér á Íslandi skuli hvorki þrífast maurar eða moskítóflugur og megum við íbúarnir sannarlega prísa okkur sæla fyrir að vera laus við slíkan ófögnuð. Það er einkennilegt að með aldrinum hefur ógeð mitt á skorkvikindum hverskonar farið vaxandi. Ekki veit ég af hverju það stafar en engum vandræðum veldur það. Einu flugurnar sem gera mér gramt í geði og hér á landi þrífast eru árans geitungarnir og er það einkum vegna sögusagna um eiturbrodda sem litlum sögum fer samt af að þeir noti. Erlendis eru það samt einkum kakkalakkar sem mér er illa við.
Hvað er mold? Vonandi að sem mestu leyti rotnandi jurtaleifar með sem minnstu af dauðum skordýrum saman við. Kannski gera þau samt sitt gagn og moldina kraftmeiri. Hér áður fyrr var oft sagt að á Íslandi væri ómölegt að rækta tré. Man vel eftir útlendum krakkahópum sem hingað komu og fannst skógleysið eitt þar merkilegast sem hér var að sjá (eða ekki sjá.) Nú hefur þessi bágbilja verið afsönnuð og skógar hér á landi er býsna ræktarlegir. Kyrkingslegir geta þeir þó orðið ef þeir eru látnir afskiptalausir.
Eiginlega ætlaði ég ekkert að skrifa um þessi má núna þó ástæða sé til. Hugmyndin var fremur að fjalla um ísleskt mál en það getur þá bara beðið. Mér finnst skólarnir bíða of lengi með að kenna nemendum að umgangast tungumálið með hæfilegri virðingu. Það höfum við Íslendingar ávallt gert og engin ástæða er til að hætta því nú. Að setja alla okkar virðingu á fótboltaspark er fáránlegt í alla staði.
Nú er lengstur sólargangur og skellibjart allan sólarhringinn. Svona mætti ástandið alltaf vera. Ekki vantar það. Næstum aldrei verður samt of heitt en veðrið þessa dagana er til mikillar fyrirmyndar. Því miður er samt ekki hægt að treysta þessu ástandi og kannski er ástæðulaust að fagna því ef það er bara vegna almennrar hnatthlýnunar því hún mun í heildina koma mjög illa við mannkynið og valda miklum skaða.
Fórum út á Álftanes í blíðunni í dag. Bessastaðir eru þarna ennþá og meira að segja er varðturninn frá í stríðinu (skammt frá Jörfa) uppstandandi enn. Verður það þó líklega ekki lengi. Seltjarnarnesið var lítið og lágt frá Álftanesinu að sjá, en Gróttuvitinn talsvert hár.
Ekki veit ég hver er heygður hér.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
22.6.2012 | 15:45
1702 - Ólafur og Þóra
Gamla myndin.
Pallurinn í sundlauginni.
Auðvitað meina ég það sem ég skrifa. A.m.k. á þeirri stundu sem ég skrifa það. Stjórnmálaskoðanir mínar eru samt sífelldum breytingum undirorpnar. Það sem lá í augum uppi í gær er kannski að engu hafandi í dag. Við þessu er ekkert að gera og enginn vandi að skrifa sig frá vafasömum fullyrðingum.
Eins er því farið með forsetakosningarnar. Ég get því miður ekki talið sjálfan mig einlægan stuðningsmann neins frambjóðanda. Helst að ég vilji losna við Ólaf Ragnar Grímsson af forsetastóli.
Aðallega finnst mér hann vera búinn að vera forseti alltof lengi. Einnig er ekki annað að sjá en hann sé of ákafur í að taka ákveðna stefnu í sem flestum viðkvæmum deilumálum og þá gjarnan í sem mestum ágreiningi við ríkjandi stjórnvöld.
Þetta hefur reynst þjóðinni sæmilega undanfarið en þó hef ég heyrt því haldið fram (af einum hópi útrásarvíkinga) að neitun hans á að skrifa undir fjölmiðlafrumvarpið á sínum tíma hafi valdið Hruninu mikla að vissu leyti, því þar með hafi annar hópur slíkra orðið alltof valdamikill.
Hvað sem rétt er í þessu er alls ekki víst að andstaða hans við þing og löglega kjörin stjórnvöld verði alltaf til blessunar. Flokkspólitísk afstaða gæti farið að skipta hann of miklu máli. Með þessu móti er og lítill möguleiki á að honum takist að verða forseti allrar þjóðarinnar eins og mér finnst hann eiga að vera.
Um ÓRG hefur ávallt staðið nokkur styrr og á margan hátt hefur mér fundist hann hugsa meira um hvað forsetaembættið gæti gert fyrir hann sjálfan en hvað hann og embættið gætu gert fyrir þjóðina.
Svo segir hann mjög oft: Við Dorritt, ætlum að gera þetta og hitt. Ekki hef ég heyrt aðra frambjóðendur tala um maka sína á þann sama hátt enda veit ég ekki til að þeir séu í framboði.
Flest alla hina frambjóðendurnarn get ég vel sætt mig við sem forseta. Kannski síst Andreu og það er bæði vegna þess að ég kannast minnst við störf hennar og ég kann heldur ekki við hennar skilning á embættinu. Öll hin fjögur finnst mér mjög frambærileg.
Fram að þessu hefur Þóra Arnórsdóttir verið langfremst meðal þessara frambjóðenda og er vissulega þess vegna ástæða til að kjósa hana fremur en hina. Síðasta marktakandi skoðanakönnun sem ég hef séð spáir ÓRG reyndar sigri en hann er ekki svo stór að ómögulegt sé að brúa hann. Eins og fjölmiðlar hafa stefnt að allan tímann er útlit fyrir tvísýna keppni milli Þóru og Ólafs a.mk. ef saman dregur með þeim núna þessa síðusutu daga.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
21.6.2012 | 09:09
1701 - ESB o.fl.
Gamla myndin.
Sama myndefni og síðast.
Ólafur vill ekki ganga í ESB. Hvað vill han þá? Deila og drottna? Líklega. Held að það ráði ekki úrslitum í þessu máli hvað Ólafur vill. Ólíklegt verður að teljast að við göngum í Evrópusambandið á næstunni. Reyndar er nokkuð óljóst hvaða aðrir kostir bjóðast. Trúi ekki að andstaða við ESB sé það sama og fylgi við einhvers konar einangrunarstefnu. Ekki er fýsilegt að ganga í Evrópusambandið eins og ástandið þar er núna. Ekki hefur verið sýnt framá að varhugavert sé fyrir okkur Íslendinga að bíða með aðild. Alþingiskosningar verða áreiðanlega áður en samningum lýkur við ESB.
Án þess að fyrir liggi eitthvað ákveðið varðandi aðildarsamningana er nokkuð ljóst að þær kosningar munu einkum snúast um ESB. Það er engin furða. Ákvörðun um það er mikilvæg og næstum örugglega óafturkræf. Þær þjóðir sem gengið hafa í ESB að undanförnu hafa talið sér ávinning að því. Noregur gerir það ekki. Íslendingar verða að gera það upp við sig sjálfir hvort þeir ganga í sambandið. Ómögulegt er að ákveða nokkuð um það fyrr en fyrir liggur hvernig helstu vandamál verða leyst.
Röð kosninga á næstunni virðist ætla að verða sú að forsetakosningar verða hér í lok þessa mánaðar. Þjóðaratkvæðagreiðsla um stjórnarskrána í haust og alþingiskosningar síðan næsta vor o.s.frv. Prófkjör flokkanna munu e.t.v. hefjast næsta vetur. Miklu máli skiptir hvernig þau fara. Nýir flokkar munu rísa upp og hvernig þeim gengur mun að mestu ráðast af prófkjörunum. Mikil stemning virðist vera fyrir því hjá þjóðinni að endurnýja mjög mikið í þingliðinu. Hvernig til tekst er alls ekki gott að sjá. Ástandið er að mörgu leyti fremur óljóst. Hugsanlega verður forystubreyting hjá einhverjum fjórflokkanna, jafnvel öllum.
Auðvitað ætti ég ekki að segja þetta, en mér finnst ÓRG vera kominn framyfir síðasta söludag sem forseti. Hann er nefnilega um það bil jafngamall og ég og Jóhanna Sigurðardóttir. Annars finnst mér að aldurinn eigi ekki að skipta neinu höfuðmáli en Ólafur hefur breyst með aldrinum eins og margir aðrir. Er nú orðinn frekari og stjórnsamari en áður. Vill fá öllu að ráða, en flækist bara fyrir. Þóra lenti í því að vera ekki alveg samstíga helstu stuðningsmönnum sínum og þar að auki eru margir sem trúa áróðrinum um að hún sé sérstakur fulltrúi núverandi ríkisstjórnar og Samfylkingar.
Afleiðingin af öllu þessu er sú að Þóra hefur dregist aftur úr í skoðanakönnunum og verður nú að spýta í lófana og láta á sér bera ef hún vill komast hjá niðurlægjandi ósigri. Held reyndar að það mundi fara henni mjög vel að sigra. Einhverjir stuðningsmenn (kannski Þóru) telja sig þurfa að rifja upp gömul ummæli Herdísar Þorgeirsdóttur, en ég held að þau skipti engu máli. Sumir eru líka öskureiðir út í skoðanakannanirnar fyrir að spá Ólafi sigri. Það finnst mér óþarfi.
Hef undanfarið kynnt mér nokkuð í kyndlinum mínum bækur sem skrifaðar hafa verið um rafbókaútgáfu. Sameiginlegt með þeim flestum er að þær eru fremur dýrar. (Kosta svona 5 10 dollara) Ég er mest fyrir að sækja mér ókeypis bækur þar og fá mér sýnishorn af þeim bókum sem vekja áhuga minn. Nú er ég búinn að finna nokkrar ókeypis bækur fyrir væntanlega rafbókaútgefendur og er að kynna mér þær. Svo er ég líka að lesa í kyndlinum um þessar mundir spennubækur eftir John Grisham og það er áreynslulítill og þægilegur lestur.
Skagamenn skoruðu mörkin. (Og tóku þau með sér).
Bloggar | Breytt 22.6.2012 kl. 00:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
20.6.2012 | 10:09
1700 - Enn um forsetakosningarnar
Gamla myndin.
Hér sjást lúðrasveitin og heitu pottarnir.
1700 blogg. Iðni er þetta. Ekki vissi ég að ég ætti þetta til. Enginn veit sína æfina fyrr en öll er. Sennilega hætti ég ekki þessum númeringum fyrr en tíuþúsundasta bloggið sér dagsins ljós. Þá get ég svosem byrjað á einum aftur. Strax farinn að hlakka til. Djöfull er hætt við að ég verði orðinn gamall þá. Kannski heldur það að lokum betur en annað í mér lífinu.
Allt er nú orðið ESB að kenna. Það nýjasta er að það sé ESB að kenna að 17. júní hátíðahöldin eru orðin öðruvísi en þau voru áður fyrr. Svei mér þá. Mogginn segir þetta og ekki lýgur hann.
Jú, jú. Ólafur verður áfram forseti. Skoðanakannanir benda til þess. Á margan hátt verður það gott á Sjálfstæðismenn (sem væntanlega verða í ríkisstjórn eftir næstu þingkosningar) að fá Ólaf yfir sig. Hver veit nema hann verði þeim verulega óþægur ljár í þúfu þegar kemur að stjórn ríkisins. Ekki mun hann hika við það. Sjaldan launar kálfur ofbeldið. (Eða ofeldið). Nú kemur líklega að því í fyrsta sinn að ég kjósi frambjóðanda sem ekki verður forseti. Hingð til hef ég alltaf kosið RÉTT. Hvað mig snertir verður það sennilega helsta breytingin.
Hálflélegt er það hjá Jóhönnu og Co. að lúffa fyrir frekjunni í málþófsliðinu. En svona gerast víst kaupin á eyrinni og það þýðir ekkert að setja sig upp á móti því. Vona bara að fiskurinn í sjónum frétti ekki af þessu.
Eiginlega finnst mér að menn eigi að lesa bloggin mín þó þeir séu gersamlega á móti þeim pólitíska boðskap sem stundum má finna í þeim. Mér finnst sjálfstæðis og framsóknarmenn yfirleitt ekkert óalandi og óferjandi, nema þá helst Árni Johnsen. En jafnvel menn af hans sauðahúsi eiga sér einhverjar góðar hliðar.
1700 blogg, ESB, Ólafur forseti, Sjálfstæðismenn, Framsóknarmenn, ríkisstjórnin og Árni Johnsen. Ég hélt endilega að mér mundi takast að skrifa um eitthvað skemmtilegra að þessu sinni. Það verður þá bara að bíða morguns, ef mér tekst að finna eitthvað þá.
Vinstri elítan og feministastóðið ræðst nú með miklu offorsi á Guðberg greyið Bergsson. Kannski verður hann bara að flýja á hótelið sem hann erfði á Spáni og Gillzenegger getur nú farið að skrifa sinn femínistaóhróður óhræddur því Guðbergur stóri mun vernda hann. Svona er þetta bara.
Undarlegt með bölvaða bókstafina að tolla svona illa á síðunni. Mér finnst þeir alltaf vera við það að detta aftur fyrir sig. Kannski er það svefntaflan sem veldur þessu. Ég er nefnilega orðinn svolítið syfjaður.
Hva, er enginn í heiðursstúkunni?
Bloggar | Breytt s.d. kl. 10:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)