1701 - ESB o.fl.

Untitled Scanned 12Gamla myndin.
Sama myndefni og síðast.

Ólafur vill ekki ganga í ESB. Hvað vill han þá? Deila og drottna? Líklega. Held að það ráði ekki úrslitum í þessu máli hvað Ólafur vill. Ólíklegt verður að teljast að við göngum í Evrópusambandið á næstunni. Reyndar er nokkuð óljóst hvaða aðrir kostir bjóðast. Trúi ekki að andstaða við ESB sé það sama og fylgi við einhvers konar einangrunarstefnu. Ekki er fýsilegt að ganga í Evrópusambandið eins og ástandið þar er núna. Ekki hefur verið sýnt framá að varhugavert sé fyrir okkur Íslendinga að bíða með aðild. Alþingiskosningar verða áreiðanlega áður en samningum lýkur við ESB.

Án þess að fyrir liggi eitthvað ákveðið varðandi aðildarsamningana er nokkuð ljóst að þær kosningar munu einkum snúast um ESB. Það er engin furða. Ákvörðun um það er mikilvæg og næstum örugglega óafturkræf. Þær þjóðir sem gengið hafa í ESB að undanförnu hafa talið sér ávinning að því. Noregur gerir það ekki. Íslendingar verða að gera það upp við sig sjálfir hvort þeir ganga í sambandið. Ómögulegt er að ákveða nokkuð um það fyrr en fyrir liggur hvernig helstu vandamál verða leyst.

Röð kosninga á næstunni virðist ætla að verða sú að forsetakosningar verða hér í lok þessa mánaðar. Þjóðaratkvæðagreiðsla um stjórnarskrána í haust og alþingiskosningar síðan næsta vor o.s.frv. Prófkjör flokkanna munu e.t.v. hefjast næsta vetur. Miklu máli skiptir hvernig þau fara. Nýir flokkar munu rísa upp og hvernig þeim gengur mun að mestu ráðast af prófkjörunum. Mikil stemning virðist vera fyrir því hjá þjóðinni að endurnýja mjög mikið í þingliðinu. Hvernig til tekst er alls ekki gott að sjá. Ástandið er að mörgu leyti fremur óljóst. Hugsanlega verður forystubreyting hjá einhverjum fjórflokkanna, jafnvel öllum.

Auðvitað ætti ég ekki að segja þetta, en mér finnst ÓRG vera kominn framyfir síðasta söludag sem forseti. Hann er nefnilega um það bil jafngamall og ég og Jóhanna Sigurðardóttir. Annars finnst mér að aldurinn eigi ekki að skipta neinu höfuðmáli en Ólafur hefur breyst með aldrinum eins og margir aðrir. Er nú orðinn frekari og stjórnsamari en áður. Vill fá öllu að ráða, en flækist bara fyrir. Þóra lenti í því að vera ekki alveg samstíga helstu stuðningsmönnum sínum og þar að auki eru margir sem trúa áróðrinum um að hún sé sérstakur fulltrúi núverandi ríkisstjórnar og Samfylkingar.

Afleiðingin af öllu þessu er sú að Þóra hefur dregist aftur úr í skoðanakönnunum og verður nú að spýta í lófana og láta á sér bera ef hún vill komast hjá niðurlægjandi ósigri. Held reyndar að það mundi fara henni mjög vel að sigra. Einhverjir stuðningsmenn (kannski Þóru) telja sig þurfa að rifja upp gömul ummæli Herdísar Þorgeirsdóttur, en ég held að þau skipti engu máli. Sumir eru líka öskureiðir út í skoðanakannanirnar fyrir að spá Ólafi sigri. Það finnst mér óþarfi.

Hef undanfarið kynnt mér nokkuð í kyndlinum mínum bækur sem skrifaðar hafa verið um rafbókaútgáfu. Sameiginlegt með þeim flestum er að þær eru fremur dýrar. (Kosta svona 5 – 10 dollara) Ég er mest fyrir að sækja mér ókeypis bækur þar og fá mér sýnishorn af þeim bókum sem vekja áhuga minn. Nú er ég búinn að finna nokkrar ókeypis bækur fyrir væntanlega rafbókaútgefendur og er að kynna mér þær. Svo er ég líka að lesa í kyndlinum um þessar mundir spennubækur eftir John Grisham og það er áreynslulítill og þægilegur lestur.

IMG 0436Skagamenn skoruðu mörkin. (Og tóku þau með sér).


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Valdimar Samúelsson

Ég skil þig ekki. Ertu ESB sinnaður eða ekki. Hvað þurfum við að vita hvað kemur út úr samningum vegna ESB umsóknarinnar. Er verið að selja okkur einhvað í skiptum fyrir lög okkar og föðurlandið. Nei ESB en þið megið versla við okkur að vild eða við seljum öðrum þjóðum okkar afurðir sem svo geta selt ykkur þær aftur.

Valdimar Samúelsson, 21.6.2012 kl. 12:40

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Já, að óreyndu er ég fremur fylgjandi ESB. Hvers vegna á að hætta við samninga sem byrjað er á? Er von á einhverju hættulegu þaðan?

Sæmundur Bjarnason, 21.6.2012 kl. 13:05

3 Smámynd: Valdimar Samúelsson

Éins og ég sagði. Ég skil ekki hvað þessir samningar skipta máli. Spurning mín er vilt þú gangast undir lög annarra þjóða og missa fullveldi. Þú svarar að við munum halda fullveldi okkar. Þá spyr ég aftur. Ef þjóð fer eftir lögum og skilmálum í öllu annarra þjóða er það ekki að missa fullveldið. 

Valdimar Samúelsson, 21.6.2012 kl. 14:08

4 Smámynd: Valdimar Samúelsson

Fræddu mig á þessu.

Valdimar Samúelsson, 21.6.2012 kl. 14:09

5 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Þetta með fullveldismissinn er furðuleg ímyndun hjá þér.

Sæmundur Bjarnason, 22.6.2012 kl. 00:48

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband