Bloggfærslur mánaðarins, október 2012
31.10.2012 | 06:58
1794 - Kosningar og blogg
Akkurru er ég alltaf að þessu? Skil það ekki. Sum bloggin mín eru svo ómerkileg að ég hálfskammast mín fyrir að gera Moggatetrið ábyrgt fyrir ósköpunum. En svo batnar mér ósegjanlega mikið ef ég fer að skoða b2.is og ég tala nú ekki um ef ég lít á flickmylife.com
Jú, annars ég veit af hverju þetta er. Það er útaf teljaranum. Ef ég skrifa ekkert hreyfist hann varla. Ef ég aftur á móti skrifa einhverja vitleysu og sendi út í eterinn þá er hann vís til að fara alla leið uppá háa séið. Verst að ég veit aldrei hvað hann gerir.
Margir gamlingjar eru þannig gerðir að þeir eru hættir að hafa ánægju af nokkrum hlut. Það er helst að þeir geti fundið til hennar með því að borða góðan mat. Eða eins og segir í vísunni frægu, sem NOTA BENE er ekki eftir mig:
Ég áður hafði áform glæst
engin þó að hafi ræst.
En nú er það mín hugsjón hæst.
Hvenær verður étið næst?
En það er illa komið fyrir þeim sem enga ánægju hafa af neinu nema að éta. Sumir eru alltaf að reyna að finna ástæður til að halda uppá eitthvað með matarveislu. Helst vilja þeir auðvitað að aðrir sjái um þær. Bæði er það hampaminnst og þar að auki langódýrast. Best er samt að hafa eitthvað fyrir stafni.
Auðvitað eru það engin ný sannindi. Þetta hefur lengi verið vitað, en eftir að bloggið kom til sögunnar er vel hægt að snúa stefninu í bloggáttina og hafa það sífellt fyrir stafni. Bloggið er mun skárra en skrifborðsskúffan í þessu tilliti. Svo losnar maður alveg við leiðréttingar og endurskriftir. Vorkenndi alltaf Auði greyinu að þurfa að vera að skrifa upp aftur og aftur bullið í Dóra. Æ, nú er ég farinn að bulla sjálfur.
Fór í dag niður í Ráðhús Reykjavíkur með konunni minni til að sækja myndina sem hún átti á sýningu Félags frístundamálara þar. Kalt var og hvasst en slysalaust gekk að koma myndinni í bílinn.
Ég sé framá að talsverður ófriður verður á fésbók vegna kosninganna. Sífellt er verið að bjóða manni á fundi og þess háttar. Ekkert einkennilegt við það. Einhvernvegin verður fólk að koma sér á framfæri og bókin kostar þó ekki neitt ennþá. Verst hvað allir eru að flýta sér mikið. Mér finnst ekkert liggja á. Margt bendir til að prófkjörin verði sum jafnspennandi og kosningarnar sjálfar. Gamla settið er alls ekki á því að gefast upp.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.10.2012 | 22:30
1793 - Dropbox
Í sumar held ég að það hafi verið sem Benni sonur minn benti mér á að nota Dropbox ef ég vildi geta nálgast myndir á netinu. Hann skráði mig þar og fékk að ég held pláss í staðinn sem nam hálfu gígabæti. Ókeypis fékk ég tvö gígabæt en ef ég vildi meira sagði hann að ég þyrfti að borga fyrir það.
Það er semsagt dropbox- directory á tölvunni hjá mér og ef ég set eitthvað þangað (t.d. myndir) þá fara þær smám saman (á einum eða tveimur klukkutímum, held ég) á dropbox svæðið mitt á netinu. Þar er svo hægt að nálgast þær ef maður veit lykilorðið. Myndavélina er svo hægt að stilla þannig að hún setji alltaf myndirnar bæði í dropbox-directoryið og þar sem maður vill hafa þær. Þannig er hægt að nálgast myndirnar sínar á netinu án þess að þurfa að vera að vesenast með USB-kubba og þessháttar. Farið bara á dropbox.com og tölvan leiðir ykkur áfram.
Auðvitað er svo hægt að nota dropbox fyrir ýmislegt annað. Vefsetrið leiðbeinir ykkur með það og Salvör Gissurardóttir held á að hafi verið að skrifa eitthvað um dropbox á fésbókina.
Ég fer ekki ofan af því að það er sérstakur heiður að fá fésbókarsíðu sinni lokað. Ekki geri ég mér neinar vonir um að síðunni minni þar verði lokað. Auðvitað gæti ég reynt að skrifa eitthvað krassandi þar en að gera tilraun til að fá henni lokað en mistakast er líklega einhver mesta skömm sem hægt er að upplifa, ímynda ég mér.
Mig langar að verða svona skoðanakúgari en veit ekki almennilega hvernig á að fara að því. Eftir upphrópunum þeirra að dæma sem segjast ekki vilja láta skoðanakúga sig virðast þeir vera nokkuð margir. Ég vil komast í samband við einhvern sem er að hætta og getur kennt mér aðferðirnar. Þingmenn koma ekki til greina því þeir hafa víst svo mikið að gera. Þetta þarf ekkert að vera ritstjóri, bankastjóri eða tískulögga. Þetta má alveg vera lágtsettur kúgari sem kúgar ekkert sérlega marga þó hann noti viðurkenndar aðferðir.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.10.2012 | 23:11
1792 - Um mig fitlar ununin
Eitruðu peðin eru bara étin, hjá mér í skákinni núna. Sennilega hef ég ekki haft netið nógu þéttriðið sem ég kastaði utanum drottninguna sem send var í ránsleiðangurinn. Passa sig á því framvegis. Tvö peð í mínus bóka það.
Einhverja skoðanakönnun sá ég minnst á nýlega þar sem því var haldið fram að meirihluti landsmanna hefði stutt búsáhaldabyltinguna. Feginn er ég, því ég var satt að segja farinn að halda að ég hefði verið sá eini sem það gerði. Mest finnst mér talað um svokallað Hrun sem einhvern sýndarveruleika og ímyndun. Kannski ímyndaði ég mér þetta alltsaman. Stjórnmálin eru svotil búin að éta Hrunið. Svona líkt og andstæðingar mínir í skákinni éta eitruðu peðin.
Ætli ég geti eitthvað snúið veruleikanum við að þessu leyti? Ekki þýðir að kjósa rétt. Þeir sem heima sitja og kjósa ekki eru miklu öflugri. Í næstu kosningum er ég að hugsa um að gera eins og Óli Andrésar. Kjósa bara sjálfstæðisflokkinn beint. Völdin enda hvort eð er alltaf þar.
Merkilegt hvað hendurnar og handleggirnir eru mátulega langir til að fitla við kynfærin þegar legið er á bakinu. Kannski er það ekkert merkilegt, kannski eru hendurnar einmitt svona næmar og sterkar þess vegna.
Um mig fitlar ununin
ástin kitlar sinnið.
Haltu um tittling mjúkan minn
með henni litlu þinni.
Þarna er innrímið í lagi og þessvegna er þetta hringhenda. Nei, hún er ekki eftir mig. Enda get ég ekki ort svona góðar vísur.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.10.2012 | 13:09
1791 - Hoppólín og múðlur
Hoppólín og múðlur (en ekki trampólín og núðlur) benda til þess að ungum börnum sé betur treystandi fyrir íslenskri tungu en þeim sem iðka sín ratatorsk-fræði af sem mestri margfeldni og reyna að líkja eftir útlendum mállýskum og setja allt í illskiljanleg kerfi.
Það getur vel verið að molar Eiðs Guðnasona hafi mikil áhrif á suma, en ég er skíthræddur um að þeir sem mest þurfa á þeim leiðbeiningum að halda, sem þar er að finna, lesi ekki þau merku fræði. Þessvegna er það sem ég forðast eins og ég get að minnast á málfar annarra. Get þó illa stillt mig stundum og reyni að vanda mig sjálfur.
Segja má að netið hafi opnað allar flóðgáttir til afbökunar á íslensku máli og margir farið að skrifa sem ekki höfðu skrifað áður. Jafnframt hefur prófarkalestur verið að mestu lagður niður og eiginlega er bannað að finna að því málfars- eða réttritunarlega sem sett er að netið. Allir eiga að tjá sig sem allra mest. Ekki bara einhver guðs útvalin hjörð.
Að mörgu leyti er þetta alveg rétt stefna. Reynt hefur verið að halda þeim niðri sem ekki eru þeim mun betur að sér í íslenskri réttritun og setningafræði. Eiginlega er þetta kunnátta sem á alls ekki að vera sett skör hærra en önnur. Sumir eru vel máli farnir munnlega, aðrir skriflega. Sumir eru flinkir í höndunum, sumir góðir í fótbolta, sumir fljótir að læra, sumir gefnir fyrir vísindi og tækni og þannig ættu sem flestir að geta skarað framúr í einhverju. Nenni ekki að fjölyrða meira um þetta.
Þegar ég var unglingur var það mikið yndi okkar að snúa útúr vinsælum sönglagatextum. T.d. man ég aldrei eftir að við segðum Nú blika við sólarlag sædjúpin köld, heldur alltaf Nú blikar við sólarlag sætsúpan köld.
Man vel eftir einum teksta sem mikið var sunginn. Hann er svona í fullkomnum útúrsnúningi.:
Hvað er svo glatt sem góðtemplarafundur
er gleðin skín á hverri mellubrá.
Eins og á vori er hittast tík og hundur
og hanga saman kynfærunum á.
Við þóttumst líka afburðagáfuð ef við gátum hnikað orðum til þannig til að það virtist að mestu óviljandi. Minnisstætt er mér t.d. af einhverjum ástæðum að eitt sinn þegar við fórum framhjá Hvanneyri í skólaferðalagi þótti sérlega gott hjá einhverjum sem sagði: Nú skaltu grípa færitækið (tækifærið) og gerast fræbúðingur (búfræðingur) frá Eyrarhvönn (Hvanneyri).
Teigir hún og togar á sér tyggjóið, sungum við líka með mikilli tilfinningu án þess að meina nokkuð sérstakt með því. Man að séra Gunar Ben. heyrði einhverntíma í okkur við að syngja þetta og misskildi það og var greinilega að hugsa um að verða reiður, en hætti við.
A: Hvað er að leika á reiðiskjálfi?
B: Ætli það sé ekki svipaður skjálfti og maður fær við reið.
A: Hvernig reið? Ekki útaf reiði eða neinu svoleiðis?
B: Ætli það, annars veit ég það ekki.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
24.10.2012 | 21:57
1790 - Skoðanakannanir
Af hverju var það svo að engar skoðanakannanir varðandi þjóðaratkvæðagreiðsluna voru birtar í prentuðum fjölmiðlum landsins. Kannski voru þær engar en það hlýtur þá að vera vegna þess að stjórnendur skoðanakannanafyrirtækjanna hafi tekið þá pólitísku ákvörðun að þær færu ekki fram. Í raun og veru eru það jafnmikil svik við almenning að svíkja hann um skoðanakannanir og að reyna að hafa áhrif á hann með fölsuðum könnunum.
Samræmis þarf að gæta þegar skoðanakannanir eru annars vegar. Ekki er nóg að birta bara úrslit skoðanakannana þegar flokkshestar ákveða að slíkt skuli gert. A.m.k. verða þessir hestar þá að vera úr mismunandi stjórnmálaflokkum.
Áberandi er að ekki er vitnað í neinar marktækar skoðanakannanir þegar því er haldið fram að útlit sé fyrir að kosningarnar í Bandaríkjunum verði afar tvísýnar. Þær eru það alls ekki. Obama hefur örugga forystu og næsta víst er að hann mun sigra. Reynt er samt að selja blöðin og þau íslensku spila með.
Fjölmiðlar allir eru svotil hættir að fjalla um skoðanakannanir í aðdraganda kosninga vegna þess að með því minnka þeir eigin tekjur. Þetta var mjög áberandi í aðdraganda þjóðaratkvæðagreiðslunnar um daginn hér á Íslandi og er einnig mjög áberandi í Bandaríkjunum um þessar mundir.
Bloggar | Breytt 25.10.2012 kl. 11:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
22.10.2012 | 09:58
1789 - Þjóðaratkvæðagreiðsla
Á laugardaginn vorum við í afmælisveislu. Í tilefni dagsins var haldin einskonar þjóðaratkvæðagreiðsla í veislunni. Kjörsókn var 87,5% og úrslit urðu þannig:
1. Spurning nr. 1: Vilt þú að norðurljósin verði lýst þjóðareign? Já sögðu 86%, en nei 14%.
2. Spurning nr. 2: Vilt þú að í símaskránni séu ákvæði um afmælisdaga? Já sögðu 60%, en nei 40%.
3. Spurning nr. 3: Vilt þú að fyrir afmælisboð verði persónuleg boð heimiluð í meira mæli en nú er? Já sögðu 92%, en nei 8%.
4. Spurning nr. 4: Vilt þú að vegalengdir á landinu vegi jafnt? Já sögðu 92%, en nei 8%.
5. Spurning nr. 5: Vilt þú að tiltekið hlutfall gesta geti krafist nýrrar afmælisveislu? Já sögðu 93%, en nei 7%.
6. Vilt þú að þessar tillögur verði lagðar til grundvallar nýjum lögum um afmælisveislur? Já sögðu 84 %, en nei 16%.
Langmestu tíðindin úr þessari þjóðaratkvæðagreiðslu sem haldin var á laugardaginn (og þá er ég ekki að tala um afmælisveislur) finnst mér vera að kjörsóknin skuli hafa nálgast 50 prósent. Auðvitað má þakka það Bjarna Benedikssyni formanni sjálfstæðisflokksins að einhverju leyti, en þátttakan er samt furðu góð. Að öðru leyti eru svörin nokkuð eftir bókinni nema þá helst við fyrstu og þriðju spurningunni (um grundvöllinn og þjóðkirkjuna.)
Bloggar | Breytt s.d. kl. 09:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.10.2012 | 23:35
1788 - Æ, þetta er eintómt fúsk
Sem betur fer er talsvert að styttast í þjóðaratkvæðagreiðsluna enda er ég orðinn hundleiður á að skrifa um hana.
Finnst sjálfstæðisflokkurinn hafa farið svolítið flatt á þessu máli öllu. Vissulega hafa þeir reynt að gera þetta flokkspólitískt eins og aðrir. Það hefur bara ekki gengið. Jú jú, hæstiréttur dæmdi svosem eins og hann átti að gera, en síðan hefur allt gengið á afturfótunum hjá þeim. Stjórnlagaráðið eða hvað það var kallað skilaði samhljóða frumvarpi, erfiðlega hefur gengið að sjóða saman ákveðna stefnu og nú bendir allt til þess að talsverður meirihluti þeirra sem þátt ætlar að taka í þjóðaratkvæðagreiðslunni samþykki frumvarp stjórnlagaráðsins í aðalatriðum.
Það var snjallt hjá J&S að hafa þessa atkvæðagreiðslu núna. Flokkurinn (með stóru effi) búinn að eyða öllu púðrinu í Icesave og ÓRG og þá kemur þetta. Hann er bara eins og vindlaus blaðra. Stynur upp einhverju ESB þrugli.
Þetta er ákaflega stutt blogg og svo er ekki að vita nema ég taki mér frí frá bloggskrifum alveg fram yfir helgi. Tók líka ekkert frí í vetur eins og ég er vanur að gera.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
16.10.2012 | 16:13
1787 - Svanir og álftir
Helvítis álftirnar gera bændum stundum lífið leitt með því að eyðileggja fyrir þeim nýræktir. Blessaðir svanirnir gera aldrei neitt slíkt. Þó eru þetta sömu fuglarnir. Sumir fuglar eru lofsungnir í bak og fyrir hér á Íslandi en veiddir í net og borðaðir með bestu lyst annars staðar. Það eru ekki bara hundarnir sem eru öðruvísi í Kína en hér heima.
Herdís kindaóvinur númer eitt kostaði ein og sjálf alla vinnu við kvikmyndina sem sýnd var í sjónvarpinu í gær (sunnudag) að ég held. Eflaust hafa samt einhverjir gefið vinnu sína. Margt sem fram kom hjá henni er vafalaust alveg rétt. Áhrif bænda á allskyns kerfi eru orðin ansi mikil. Ekki er samt víst að þau hafi alltaf verið það. Vel getur verið að þessi minnihlutahópur ráði alltof miklu og íhaldssemin er alveg að drepa þá.
Með tímanum er það orðið mér næsta léttur leikur að skrifa blogg. Þó ég skrifi eins og fleiri einkum mér til hugarhægðar ber manni eiginlega skyldi til að reyna að bæta heiminn þó í litlu sé. Það er auðvitað ekki hægt að halda því fram að kosningarnar á laugardaginn séu stórviðburður í kosmópólitísku samhengi en það er þó það sem við getum hæglega dundað okkur við og engum ætti að vera ofraun að koma sér á kjörstað og kjósa rétt. Þessvegna skora ég á alla sem kosningarétt hafa til að bla bla bla bla.
Jæja þá er ég búinn að kjósa. Kaus utan kjörfundar í fyrsta skipti á ævinni. Gekk ágætlega enda voru leiðbeiningarnar í góðu lagi. A.m.k. tvö umslög eru notuð og svo þarf fólk til að vinna við þetta. Það er greinilega talsvert meiri fyrirhöfn að sýsla með utankjörfundaratkvæði en þau sem greidd eru á kjörstað. Gott ef utankjörfundarkosning er ekki alltaf að aukast.
Lífinu má líkja við ferðalag. Helst viljum við auðvitað fara um slóðir sem við þekkjum. A.m.k. að einhverju leyti. Samt erum við alltaf að rekast á eitthvað nýtt. Með því að horfa á það nýja lærum við. Svo lengi lærir sem lifir. Vitanlega er líka hægt að fara á slóðir sem maður hefur aldrei farið á. Það er samt meiri áhætta. E.t.v. lærum við ekkert þar en verðum bara hrædd. Svo lýkur ferðalaginu snögglega. Kannski erum við þá komin á endastöð en kannski vorum við á leiðinni á einhvern afar mikilvægan stað.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.10.2012 | 17:52
1786 - 50 þúsund kall, nei takk
Samkvæmt fréttum er ekki mikil breyting fyrirsjáanleg hjá fjórflokknum í framboðsmálum svona yfirleitt. Það er mikil áhætta samfara því. Litlu flokkarnir gætu grætt verulega á þessu. Stóru flokkarnir telja sig eiga svo og svo mörg atkvæði hér og þar en ekki er víst að þau skili sér í hús allsstaðar. Spakmælið segir að það sé of seint að iðrast eftir dauðann og þeir fjórflokksmenn gætu vaknað upp við vondan draum eftir að prófkjörum lýkur. Fésbókin gæti fengið fimmtíu og eitt þingsæti.
Það var fyrir fisk að þessi garður var ull. Þetta er gáta og ráðingin er sú að í staðinn fyrir fisk kemur langa og fyrir ullina lagður.
Þráinn Bertelsson gefur bókum svona 5 síðna séns og kvikmyndum sennilega 5 mínútur. Ég gef aftur á móti kvikmyndum engan séns eða a.m.k. langt innan við eina mínútu. Með bækur er þessu öðruvísi farið. Íslenskar bækur fá 10 blaðsíðna séns eða jafnvel meira. Bækur á ensku fá aftur á móti í mesta lagi formálaséns. Enginn hörgull er á bókum samt, en lestrartími fer minnkandi og leshraðinn eykst ekkert. Mest gaman þykir mér að glugga í bækur hér og hvar. Bækur henta að sjálfsögðu misvel fyrir slíkt. Skáldsögur illa. Asnalegastur er samt einn vani sem hefur ágerst hjá mér að undanförnu, en það er að lesa u.þ.b. helming af bók og hætta svo.
Rakst á eftirfarandi einhversstaðar á netinu. Líklega á Mbl.is.
Flokksvalið sem verður rafrænt fer fram 16. 17. nóvember nk. og rennur framboðsfrestur út laugardaginn 27. október nk. kl. 19.00. Þátttökugjald í flokksvalinu er 50.000 kr., en fyrir námsmenn 20.000 kr. eins og kveðið er á um í skuldbindandi reglum um aðferðir við val á framboðslista, segir í fréttatilkynningu frá Samfylkingunni.
Verð nú að segja eins og er að ekki er furða þó mannvalið sé lítið á alþingi ef greiða þarf fyrir það eitt að fá að koma til greina í prófkjöri. Andskotinn hafi það.
Er það kannski svo að eftir að ég er dauður verði bloggskrifin hjá mér það helsta og auðfundnasta sem ég hef skilið eftir mig.
Deyr fé,
deyja frændur,
deyr sjálfur ið sama.
En orðstír
deyr aldregi
hveim er sér góðan getur.
Segir í hávamálum. Sennilega er það alveg rétt. Eftir dauðann heldur maður sennilega helst áfram sem einhverskonar minning. Fyrst hjá frændum en svo hjá öðrum, en er nokkuð unnið við það? Væri ekki alveg eins gott að vera bara í himnaríki og hundleiðast þar. Annars geta draumar verið bráðskemmtilegir og kannski er dauðinn það líka. Enginn nennir a.m.k. að koma aftur.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
13.10.2012 | 05:35
1785 - Ísland 14 - Albanía 2 (Albanskir glæpamenn 0)
Þjóðaratkvæðagreiðslur eru ólýðræðislegar. Þjóðaratkvæðagreiðslur eru ólýðræðislegar. Þjóðaratkvæðagreiðslur eru ólýðræðislegar. Þetta er mantran sem Bjarni Benediktsson fer með á hverjum morgni, strax og hann vaknar. Það er gert til að hann ruglist ekki og fari jafnvel að halda að þjóðaratkvæðagreiðslur séu lýðræðislegar.
Félagar hans í sjálfstæðisflokknum eiga helst að trúa þessu líka. Sumir þurfa ef til vill að fara með möntruna svona til örgyggis. Samt eiga þeir að muna eftir að kjósa. Ekki af því að þeir séu ólýðræðislegir. Nei fjarri því, en hugsanlega er það betra fyrir flokkinn að þeir styrki svolítið kjörsóknina. Þegar þeir eru búnir að setja krossinn sinn við nei-ið er ágætt að þeir standi svolitla stund fyrir utan kjörstaðinn og híi á þá sem líta út fyrir að vera ólýðræðislegir.
Jóhönnu og Steingrími hefur tekist það sem þau stefndu að allan tímann. Það er að fá einskonar kosningu, eða a.m.k. mælingu án þess að verk ríkisstjórnarinnar eða aðildin að ESB væri undir. Þetta hefur þeim tekist með þjóðaratkvæðagreiðslunni um stjórnarskrárfrumvarpið. Þannig hefur þeim tekist að leika svolítið á stjórnarandstöðuna. Auðvitað tapa þau svo alþingiskosningunum með yfirburðum en vonast til að smáflokkarnir standi sig. Gott ef Marshallnum fylgja ekki góðar óskir frá Jóhönnu. Steingrímur er hinsvegar í vandræðum. Trúlegt er að hann missi formannsstólinn og þá líklega til Kötu litlu.
En látum nú stjórnmálin eiga sig. Þau sjá um sig sjálf og engin vandræði eru með það.
Íslendingar unnu Albani á útivelli í fótbolta og það var gott hjá þeim. Aukaspyrnur sem tryggja alvörusigur seint í leik eru heimsklassaspyrnur, jafnvel þó þær sé ekki heimsklassaspyrnur. Þurftu reyndar að ergja þá svolítið áður en leikurinn hófst með því að kalla alla Albani glæpamenn. En það er grafið og gleymt. Það hefði svosem mátt þvo treyjuna fyrirliðans illa eða eitthvað svoleiðis í eitt eða tvö skipti ef leikurinn hefði tapast.
Atli skólameistari á Akranesi linkaði í grein á andríki.is. Sú grein er léleg og ekki honum sæmandi að linka í hana. Gerði líka þau mistök Internetlega um daginn að vísa á grein eftir Davíð Oddsson í Reykjavíkurbréfi Moggans án þess að geta linkað í hana. Þegar þannig stendur á er föst venja á netinu að endursegja efni greinarinnar að einhverju leyti fyrir þá sem nenna ekki að standa upp frá tölvunni. Það láðist honum alveg.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)