Bloggfærslur mánaðarins, október 2012
12.10.2012 | 08:40
1784 - Bónus
Það er talsvert dugnaðarlegt hjá mér að blogga næstum daglega. Oftast hef ég svosem ekki frá neinu að segja, en blogga samt. Þykist vera voða gáfaður, sem ég er þó alls ekki. Þannig er hægt að teygja mál og toga á ýmsa vegu.
Dýrt og ódýrt er afar afstætt. (Er ekki allt afstætt?) Að kaupa sér súpugutl á 5 evrur finnst mér dýrt. Jónasi finnst það ekki. Sama er mér. Held áfram að versla við Jóa í Iceland.
Finnst margir þeirra sem kommenta við fréttaskrif vera alltof orðhvatir. Kannski reyna þeir þegar á hólminn er komið að samræma kommentin skoðunum sínum. En fylgist einhver með öllum þessum kommentum? Varla held ég að það geti verið. Þessvegna verða þau sífellt yfirgengilegri. Kannski er best að sleppa þeim alveg. En eru ekki svona þvínær dagleg bloggskrif í rauninni samsafn kommenta?
Voðalega á ég samt gott að þurfa ekki að halda mig við eitt ákveðið efni í þessum skrifum mínum. Get semsagt vaðið úr einu í annað án allra málalenginga. Og fólk les þetta. Segir Moggabloggsteljarinn. Blaðamannsgreyin þurfa sum að sæta því að skrifa heilu síðurnar um sama efni og fá ekki einu sinni að velja það sjálf. Óþolandi með öllu. Þeir sem skrifa fréttir eða greinar í blöð (netmiðla eða pappírs-) virðast þurfa að halda sig við eitt málefni í gegnum alla greinina. Það er ofbeldi af versta tagi.
Andskoti hefur rignt undanfarið. Svo eru haustlitirnir óðum að koma á allan gróður. Vona bara að veðrið verð bærilegt þann tuttugasta. Bæði ætla ég að skreppa svolítið afbæ þá og svo er ég að vona að kjörsóknin í þjóðaratkvæðagreiðslunni verði góð. Þar getur veðrið skipt máli.
Bónus búðirnar eru sem óðast að breytast í Hagkaupsbúðir. Vöruúrvalið er sífellt að aukast og búðirnar að verða fínni og fínni. Hvar endar þetta? Fara krakkarnir kannski bráðum að syngja á götuhornum afbrigði af Steindórsvísunni frægu?:
Allir hjá Icelandi. (Eða Geraldi, Nettói eða Krónunni)
Allir hjá Icelandi.
Enginn hjá Bónusi.
Því hann er svoddan svindlari.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
10.10.2012 | 22:00
1783 - Stjórnarskráin o.fl.
Kannski líta einhverjir á þjóðaratkvæðagreiðsluna í þessum mánuði sem nokkurs konar æfingu fyrir alþingiskosningarnar sem haldnar verða áður en mjög langt um líður. Sjálfstæðismenn munu líta á það sem sinn sigur ef kjörsókn verður lítil. Sömuleiðis munu þeir líta á það sem mikinn sigur ef nei-in við fyrstu spurningunni verða mörg. Tala nú ekki um ef þau verða fleiri en já-in.
Annars er ekki hægt annað en að álíta að Jóhanna og Steingrímur hafi platað stjórnarandstöðuna pínulítið í sambandi við þetta stjórnarskrármál. Bjarna Benediktsson hefur eflaust langað til að skora á menn að kjósa ekki. Slíkt hefði þó jafnvel getað orðið flokknum hættulegra en sú stefna sem ofaná varð.
Dagskipun sjálfstæðismanna (og e.t.v. framsóknarmanna einnig) er að mæta á kjörstað og segja nei við fyrstu spurningunni. Hætt er við að hæstiréttur forðist að hafa afskipti af þessu máli þó einhverjir ætlist áreiðanlega til þess. Sjálfsagt finnst þeim þó að bíða með allar kærur og þessháttar þar til úrslitin eru ljós. Þeir sem vilja kjósa leikfléttulega bíða nú með öndina í hálsinum eftir marktækri skoðanakönnum.
Þór Saari var dæmdur í 300 þúsund króna sekt fyrir að hafa haldið því fram að prófessor einhver væri á launum hjá LÍÚ. Mér finnst að orðin séu nokkuð dýr þarna, einkum ef miðað er við bætur þær sem þolendur ofbeldis fá jafnan frá dómstólum. Kannski er alls ekki réttmætt að bera þetta saman en mér finnst að dómstólar þurfi að velta fyrir sér samanburði af þessu tagi. Það er alls ekki eðlilegt að fólk sem verður fyrir miklu ofbeldi og sleppur kannski lifandi fyrir algera tilviljun fái aðeins smánarbætur frá hendi dómstóla, en ímynduð æra prófessors í útlöndum sé metin miklu hærra. Þarna er gott dæmi um muninn á Jóni og séra Jóni.
Gunnar Thoroddsen skrifaði eitt sinn bók (gott ef hann fékk ekki doktorstitil útá hana) sem hann kallaði Fjölmæli. Hef ekki lesið þá bók en skilst að hún fjalli um meiðyrðamál fyrir íslenskum dómstólum. Í seinni tíð hafa Íslenskir dómstólar hvað eftir annað verið gerðir afturreka með dóma sína í meiðyrðamálum af Evrópudómstólum. Dómar í allskyns meiðyrðamálum og málum sem snerta Internetið og málfrelsi eru sífellt að verða algengari. Íslendingar neyðast til að haga sér svipað og aðrar þjóðir í þessum efnum.
Ég lýsi hér með frati á þá sem þykjast vera öðrum betri með því að kaupa ekki shell-bensín hvað sem á dynur. Þeir sem segjast ekki versla við þá Bónus feðga af því þeir sé ótíndir glæpamenn eru í mínum augum ekkert betri en þeir sem gera það. Mér dettur ekki í hug að eyða þúsundum króna í það eitt að þykjast vera pólitískt rétthugsandi. Þeir sem lýsa því yfir að þeir láti stjórnmál ráða matvöruinnkaupum sínum eru aumingjar.
Bloggar | Breytt 12.10.2012 kl. 08:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
10.10.2012 | 08:30
1782 - Já, já og nei, nei
Ég hef áður skrifað um stjórnarskrármálið og hef eiginlega litlu við það að bæta. Nýja stjórnarskráin tekur valdið til breytinga á stjórnarskránni af alþingi. Það er langmikilvægasta breytingin. Líklega er hún líka til bóta. Svolítil áhætta er samt fólgin í þeirri breytingu. Hvað það þýðir nákvæmlega að leggja skuli frumvarpið til grundvallar við gerð nýrrar stjórnarskrár er miklu þýðingarminna. Alþingi ræður því einfaldlega hvað það þýðir. Að leggja það sífellt til að ekki megi afgreiða jafnmikilvægt mál í ágreiningi er einfaldlega tilraun til að komast hjá breytingum. Breytingin mun samt verða. Ágreiningur er eðlilegur. Óvinsældir alþingis munu valda því að mikill meirihluti landsmanna mun samþykkja að taka valdið til breytinga á stjórnarskránni frá alþingi og færa það landsmönnum öllum.
Sá Þorvaldi Gylfasyni og einhverjum öðrum manni bregða fyrir í sjónvarpinu og auðvitað voru þeir að ræða um stjórnarskrána. Þorvaldur þjáðist af einhverjum yfirdrepsskap sem hinn maðurinn var alveg laus við. Þorvaldur hefur samt kynnt nýju stjórnarskrána vel að undanförnu en nauðsynlegt er að fá sem flesta til að kynna hana nú síðustu dagana. Lady Gaga er jafnvel hægt að nota í því efni.
Sennilegt er að úrslit þjóðaratkvæðagreiðslunnar þann tuttugasta október næstkomandi ráði einhverju um úrslit þingkosninganna að ári. Mikil breyting virðist vera að eiga sér stað í íslenskum stjórnmálum um þessar mundir. Óvinsældir ríkisstjórnarinnar eru engin tilviljun. Spilling sú sem grasserar í stjórnkerfinu verður að minnka. Flokkakerfið þarf nauðsynlega að stokka upp áður en það vex okkur yfir höfuð. Þó svo virðist sem nýjir flokkar njóti lítils trausts í skoðanakönnunum er ekki þar með sagt að úrslit næstu þingkosninga verði á þann veg.
Tók mig til í gærkvöldi (þriðjudagskvöld) og skrifaði villt og galið á fésbókina og það er bara nokkuð gaman að því. Verst ef einhverjir taka þetta rövl alvarlega. Líklega er eins gott að passa sig. Ögmundur gæti komið í heimsókn.
Á sínum tíma var mikil andstaða við veru ameríska hersins hér á landi. Aldrei fór samt fram nein þjóðaratkvæðagreiðsla um það mál. Ekki er heldur víst að slík atkvæðagreiðsla hefði leyst málið. Að lokum leystu Bandaríkjamenn það sjálfir með því að fara bara.
Inngangan í ESB er mál af sama toga. Ekki er hægt að vera bæði með og á móti í því máli og örðugt er að tala sig niður á einhverja málamiðlun þar. Þjóðaratkvæðagreiðsla kann að leysa málið að einhverju leyti, en ekki er víst að samkomulag náist nokkurntíma um hvenær hún eigi að fara fram.
Nú er fellibyljatímabilið hafið á Karíbahafinu og stundum koma leifar af TRS (tropical revolving storm) hingað til lands sem djúpar haust- eða vetrarlægðir. Orðanotkun er nokkuð einkennileg í þessu sambandi, jafnvel ruglandi. Sjálfur hef ég álitið að ensku orðin hurricane, typhoon og cyclone þýddu það sama og væru best þýdd á íslensku með orðinu fellibylur. Aftur á móti er tornado eða skýstrokkur allt annað og afmarkaðra fyrirbrigði. Gríðarlega öflugt samt og verður til vegna þess að heitt og kalt loft mætist með miklum látum og breytist frá því að vera lárétt hreyfing í lóðrétta og þyrlar upp öllu lauslegu á litlu svæði. Ég er ekki veðurfróður maður og kannski er þetta allt á misskilningi byggt hjá mér.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
9.10.2012 | 08:50
1781 - Bókasafnið í Alexandríu
Okkur er sagt að bókasafnið mikla í Alexandríu í Egyptalandi hafi verið það stærsta í heimi í fornöld. Þar er talið að allar bækur heimsins hafi verið samankomnar. Nú eru rúm 2000 ár síðan það leið undir lok og fyrst núna er hægt að gera sér raunhæfar væntingar um að heimsbókasafn rísi.
Það safn verður að sjálfsögðu safn af rafbókum sem vel er hugsanlegt að verði að því leyti mun betur úr garði gert, en það sem forðum var í Alexandríu, að allir íbúar heimsins ættu að geta skoðað samtímis þær bækur sem þar eru. Það er stórfyrirtækið Google sem stendur fyrir þessu og nú þegar er búið að skanna einar 20 milljónir bóka. Auðvitað þarf samninga við heimssamtök útgefanda og höfunda en unnið er að því að koma þeim á.
Allt frá því að ég kynntist Internetinu fyrst um 1990 hef ég séð fyrir mér þann möguleika að gera það að einu allsherjar bókasafni. Sú hefur ekki orðið raunin því þeir sem þar hafa ráðið hafa með réttu talið aðra hluti mikilvægari.
Samt hyllir undir þessa þróun nú um þessar mundir. Vel getur verið að auk bókanna verði á þessu heimsbókasafni einnig hægt að nálgast allar kvikmyndir heimsins og dagblöð öll. Látum okkur dreyma.
Sú hugmynd að þannig sé hægt að safna saman öllum þeim bókum sem gefnar hafa verið út í heiminum frá upphafi vega er alls ekkert frumleg eða nýstárleg. Tæknilega er þetta heldur ekkert stórmál. Auðvitað er þetta mikil fyrirhöfn og ekki nema á fárra færi að gera svonalagað. En hvers vegna í ósköpunum ætti að vera áhugi fyrir þessu?
Það er aðeins núna og verður um fremur stutt skeið sem þetta er hægt. Útgáfa rafbóka mun aukast svo mikið á næstu árum að hlægilegt verður að láta sér detta í hug að nokkrum tilgangi þjóni að koma þeim á einn stað.
Bækur hafa fylgt manninum nokkuð lengi. Þar hefur hann skrásett alla mikilvægustu reynslu sína og þar er að finna allan merkilegasta skáldskap sem saminn hefur verið. Með öðrum orðum öll þekking mannsandans hefur verið skráð á skinn og pappír síðustu árþúsundin en nú má búast við að því verði hætt.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.10.2012 | 11:21
1780 - Davíð Oddsson
Margir sjálfstæðismenn virðast halda að Davíð Oddsson sé einhver lausnari flokksins. Það er hann ekki frekar en Jón Baldvin Hannibalsson er það fyrir Samfylkinguna. Í mínum augum eru þeir báðir útbrunnir pólitíkusar sem komnir eru langt framyfir síðasta söludag.
Atli Thor Fanndal sagði nýlega á fésbók Láru Hönnu Einarsdóttur:
Fréttabörnin er skyndibitafrasi fyrir skyndibitaþjóð. Það vill svo til að fréttabörnin vinna öll við ómanneskjulegar aðstæður í landi þar sem fólk er ekki tilbúið að greiða fyrir fréttir og upplýsingar. Vandi fjölmiðla á Íslandi er ríkur en hann er meiri og dýpri en að starfsmenn á plani beri þar sök. Þessi umræða um slappleika íslenskra fjölmiðla er á villigötum ef hún á endalaust að vera á þeim nótum að blaðamenn séu latir, heimskir og hlutdrægir. Blaðamannabörnin eru einkenni vandans en ekki vandinn sjálfur. Góðar fréttir kosta og þær kosta mikið. Þjóð sem kaupir ekki áskriftir, tekur ekki þátt og nennir ekki að setja sig inn í mál fær ekki annað en blaðamannabörn á auglýsingamiðlum með ásýnd fjölmiðils. Vandinn hér á landi er mikill og kerfislægur. Hann hefur minnst með lægst launuðu starfsmenn fjölmiðla að gera.
Vissulega er þessi tilvitnun í lengra lagi. Ég ætti þó að ráða því og ef fréttabarninu Atla Thor finnst að sér vegið með þessu hlýtur hann að gera athugasemd. Atla finnst niðurlæging prentmiðlanna liggja í því að þjóðin kaupi ekki nógu margar áskriftir. Áskriftir eru úrelt þing og hafa verið það lengi. Vel er hægt að fá í hendurnar góðan texta og fylgjast með fréttum án þess að það þurfi að kosta heil ósköp. Lestur þjóðarinnar og stjórnmálaáhugi hefur aukist mikið að undanförnu meðal annars með tilkomu Internetsins og ef borga ætti fyrir allan þann texta sem þörf er á til að hafa úrvalið sæmilegt færi óþarflega stór hluti kökunnar í það hjá blankri þjóð.
Eftir því sem RUV.is segir ætlar einhver Pavel (seinna nafið er Bart- eitthvað en ég nenni ekki að gá að því) sem kosinn var á Stjórnlagaþing og síðan skipaður í stjórnlagaráð og stóð með ýmsum fleirum að því að samþykkja stjórnarskrárfrumvarpið að greiða atkvæði gegn innihaldi þess núna. Kannski er það af því að honum hefur verið sagt að gera það, en kannski hefur hann bara skipt um skoðun. Mér finnst þetta samt svolítið merkilegt. Af hverju situr hann ekki bara heima og er í fýlu út í sjálfan sig? Af hverju þarf að auglýsa þetta? Kannski sér hann eftir því að hafa smþykkt frumvarpsdrögin upphaflega.
Blóm.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
6.10.2012 | 11:59
1779 - Veiðar
Einu sinni fór ég á skytterí. Þá var ég útibússtjóri í kaupfélaginu í Hveragerði. Ég var nýbúinn að verða mér úti um 22 calibera riffil. Gott ef ég keypti hann ekki alveg nýjan og ætlaði svo sannarlega að sanna málsháttinn um að ný vopn bíti best. Síðan fórum við uppí Reykjafjall. Ætli ég hafi ekki platað Jóa á Grund eða Atla Stefáns með mér. Gamlan haglabyssufrethólk hafði honum tekist að komast yfir. Við kunnum svosem lítið fyrir okkur í veiðimennsku og þegar mér hafði tekist að særa rjúpuræfil og náð henni hafði ég engin ráð önnur til að drepa greyið en að setja hana framan við hlaupið á rifflinum og hleypa af. Jú, jú. Hausinn fór af henni og hún drapst, en ég missti áhugann á rjúpnaveiðum og eiginlega á öllum veiðum við þetta.
Sjálfstæðismenn eru ævareiðir yfir því að Bónusfeðgar skuli (með hjálp einhverra) vera að koma undir sig fótunum á ný. Auðvitað er það ekki eðlilegt að Jói í Bónus skuli vera farinn af stað aftur með Iceland-verslanir sínar af miklum krafti og bjóði lágt verð (kannski það lægsta á landinu) en sú venja fólks að láta stjórnmálaskoðanir sínar ráða hvar verslað sé, hélt ég að hefði dáið út með kaupfélögunum. Sú saga er e.t.v. sönn sem gekk mjög á milli manna í eina tíð um kaupfélagstrúarmanninn sem sagðist frekar keyra bílinn sinn bensínlausan en fara að setja eitthvert helvítis Shell-bensín á hann.
Oft ratast kjöftugum satt á munn. Trúi því eins og nýju neti sem Jónas Kristjánsson segir um feitt fólk. Því er alls ekki sjálfrátt. Gott ef fíknir af ýmsu tagi stjórna ekki lífi flestra. Sjálfur stjórnast ég líklega af einhvers konar skriffíkn og tekst að halda sykurfíkninni nokkurn vegin í skefjum. Ef dæma skal eftir skrifum Jónasar stjórnast hann af hestafíkn. Svo getur vel verið að hestarnir (þeir sem látnir eru lifa) stjórnist af eigin fíknum. Hvar endar þetta eiginlega?
Sagt er að frjálslyndir vinstrimenn stjórni hinni pólitísku umræðu bæði hér á landi og annars staðar. Sé svo þá er það fyrst og fremst aumingjaskap stjórnlyndra hægrimann um kenna. Það er fullkomlega eðlilegt að þeir sem hafa mest að segja og gera það best stjórni umræðunni. Það er að vísu næstum alltaf til bölvunar þegar peningaöflin fara að ráðskast með hina margumræddu umræðuhefð og við sem höfum eitthvað að segja ættum að taka höndum saman og reyna að krækja í þá peninga sem í boði eru. Ég hugsa að við gætum öll skrifað lengri greinar og merkilegri ef við fengjum sæmilega borgað fyrir það.
Hætti að kaupa lottómiða þegar ég komst að því að það voru meiri líkur til að ég yrði fyrir bíl á leiðinni til að kaupa hann en að fá hæsta vinning. Held að það sé frekar erfitt að finna Moggabloggið orðið (þ.e.a.s. sé það ekki í bookmarks eða eitthvað). Þarf að athuga með að linka kannski í fréttir hjá þeim. Verst hvað ég les þær sjaldan. Facebook virðist bjarga ýmsu hvað þetta snertir. Einu sinni var það blogg-gáttin, kannski MySpace. Allt er breytingum undirorpið.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.10.2012 | 23:47
1778 - Fimm prósentin
Bloggið hjá mér í gær var mjög stuttaralegt. Lesendur voru samt óvenjumargir segir Moggabloggsteljarinn. Ekki veit ég hvort samband er þarna á milli en satt að segja þá forðast ég málalengingar eins og pestina. Kannski eru vinsældirnar vegna nafnsins sem ég setti í fyrirsögnina.
Til eru þeir sem álíta fótbolta mikilvægari en flest annað. Samanlagðar íþróttir allar slaga kannski uppí það að vera nokkurs virði enda bendir fjölmiðlafyrirferðin til þess. Að sumu leyti er þessi yfirdrifni íþróttaáhugi auðvitað flótti frá raunveruleikanum. Einskonar sýndarveruleiki semsagt. En af hverju eru karlmann svona yfir sig áhugasamir um þetta? Satt best að segja finnst mér munurinn á íþróttaáhuganum vera aðalmunurinn á kynjunum. Karlmenn eru líka að jafnaði sterkari líkamlega og þarmeð finnst mér sá munur sem einhverju skiptir vera upptalinn.
Fimm prósent reglan er eitt af því sem verður talsvert fyrirferðarmikið í næstu þingkosningum. Þegar henni var komið á var ágæt samstaða um hana. Sú samstaða var kannski einkum milli þingmanna fjórflokksins. Nú gæti vel verið ástæða fyrir þá til að óttast þessa reglu. Ef mörg framboð verða rétt undir fimm prósent markinu (á landsvísu) en fá ekki kjördæmakjörinn þingmann gæti það vel haft áhrif á stjórnarmyndun eftir kosningar.
Hvað gerist ef framboð fær yfir fimm prósent á landsvísu en engan kjördæmakjörinn þingmann. Held að fimm prósentin hjálpi þá ekki mikið. Upphaflega grunar mig að þetta ákvæði hafi verið sett útaf uppbótarþingmönnunum og eigi bara við um þá. Held að enginn geti orðið kjördæmakjörinn nema hafa vel yfir fimm prósent atkvæða í því kjördæmi. Annars eru þingkosningar orðnar svo flóknar (og sérstaklega úthlutun uppbótarsætanna) að erfitt er að skilja þær. Þyrftu að einfaldast.
Árni Páll Árnason vill verða formaður. Kannski leyfa félagar hans honum það. Ég mundi samt sennilega ekki kjósa hann. Finnst skeggið ekki fara honum nógu vel. Nei annars, í alvöru finnst mér hann of hægri sinnaður. Margir samfylkingarmenn eru það. Veit svosem ekkert hverjir koma til með að keppa við hann um formannstitilinn.
Oft er talað um auðlindir landsins. Orkuna í fallvötnunum, víðerni hálendisins og fiskinn í sjónum. En höfum við nokkuð við auðlindirnar að gera? Ekki eiga Danir auðlindir á borð við okkur í sínu flata landi. Þurfa þeir ekki að treysta á hugvitið og menntunina? Vanrækjum við ekki allt slíkt meðan við getum skítnýtt svokallaðar auðlindir? Já, ég blæs bara á þetta sífellda auðlindatal. Finnst ekki nema eðlilegt að Slartibartfast hafi fengið verðlaun fyrir firðina í Noregi.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.10.2012 | 09:06
1777 - Egill Helgason
Mér gekk hálfilla að setja upp mitt síðasta blogg með Chrome-vafra. Einkum voru það greinaskilin sem vöfðust fyrir mér. Vonandi kemst þetta samt upp í vana. Reikna með að hafa tvö bil næst. Sjá hvernig það kemur út.
Reynir Traustason skrifar á DV um reynslu sína af fjallgöngum og er það oft ágætur lestur. Um daginn skrifaði hann um það sem hann kallaði fórnarbrók. Sá pistill fjallaði um það hve vandræðalegt það getur verið að verða skyndilega mál að skíta í fjallgöngu. Þetta er mikið mál fyrir marga og alls ekki þýðingarlaust. Það er heldur ekki einskorðað við fjallgöngur og getur haft mikil áhrif á fólk á margan hátt. Um það verður ekki fjallað sérstaklega hér en vissulega er þetta verðugt viðfangsefni eins og svo mörg önnur.
Egill Helgason er stundum gagnrýndur fyrir val sitt á viðmælendum í Silfri Egils. Það finnst mér óréttmætt. Án þess að ég hafi gert nokkra sérstaka athugum á málinu sýnist mér það vera sterkasti hluti Silfursins. Spurningar Egils eru yfirleitt alltof langdregnar og skoðanir hans sjálfs koma oft berlega í ljós. En meðan ekki kemur fram pólitískur þáttur í sjónvarpi sem einhver veigur er í er þýðingarlítið að gagnrýna hann. Þetta er einfaldlega langbesti sjónvarpsþátturinn um pólitík. Hann er hinsvegar enginn yfirburðabloggari. Sigurjón Egilsson (bróðir Gunnars Smára) skilst mér að haldi úti ágætum pólitískum útvarpsþætti á Bylgjunni á laugardagsmorgnum. Hef samt sjaldan heyrt í honum. Sá í gærkvöldi (þriðjudagskvöld) King Kong auglýsinguna með Agli í fyrsta skipti og fannst hún nokkuð fyndin.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
2.10.2012 | 15:02
1776 - Þjóðaratkvæðagreiðslan 20. október n.k.
Stóri gallinn við rafbækur sem aðrar bækur er sá að maður kemst aldrei yfir að lesa nema hluta þess sem maður vildi gjarnan lesa. Bloggið tefur vissulega fyrir og sennilega gæti ég lesið mun meira ef ég væri ekki að þessum sífelldu bloggskrifum. Mér finnst bara að ég þurfi að halda mér í þjálfun (hvers vegna veit ég ekki) og meðan Moggabloggsteljarinn telur mér trú um (sennilega með réttu) að einhverjir lesi jafnan það sem ég skrifa held ég því eflaust áfram.
Helsta breytingin sem felst í stjórnarskrárdrögum þeim sem greidd verða atkvæði um þann 20. október n.k. er líklega sú að valdið til að breyta stjórnarskránni (eða semja nýja) flyst frá alþingi til fólksins í landinu enda er það illskiljanlegt að alþingi eitt eigi að ráða hvernig stjórnarskráin er. Færa má rök fyrir því að þingmönnum komi það minna við en öðrum og svo eru þeir alltaf að gera einhverjar vitleysur svo réttast er að taka þetta vald af þeim. Oftast nær er líka kosið um eitthvað allt annað í þingkosningum en stjórnarskrárbreytingar. Síðast var það þó gert árið 1959 en þá voru einmennings og tvímenningskjördæmin afnumin og tekin upp stærri kjördæmi. Alþingi hefur ætíð staðið á móti þjóðaratkvæðagreiðslum.
Það athyglisverðasta í aðdraganda þjóðaratkvæðagreiðslunnar nú er að Sjálfstæðisflokkurinn er ekki mótfallinn því að fólk taki þátt í henni. (Þorir það ekki.) Einstakir aðilar innan þess flokks og hugsanlega fleiri stjórnmálaflokka eru því samt mótfallnir. Hætt er við að sú mótstaða verði til lítils og vel getur verið að frumvarpið verði lagt fram og mögulega samþykkt án allra breytinga nema þeirra sem leiða beint af þjóðaratkvæðagreiðslunni. Hvort stjórnarskrárfrumvarpið verður síðan samþykkt óbreytt af næsta þingi er ómögulegt að spá um. Útilokað er samt að mínu álitið að skipta um stjórnarskrá nema í samræmi við kröfur þeirrar gömlu. Þ.e.a.s að nýja stjórnarskráin, sem hugsanlega verður samþykkt af þingi því sem nú situr verði einnig samþykkt óbreytt af nýju alþingi. Breytingar á þeirri stjórnarskrá sem nú er notast við hafa alltaf verið fyrirhugaðar og Guðni Th. Jóhannesson sagnfræðingur og rithöfundur talaði um það í silfri Egils um daginn að svo væri. Óvíst er hvort breytingar í þjóðlífinu og stjórnarfarinu fylgja í kjölfar hugsanlegrar stjórnarskrárbreytingar. Hún getur líka mistekist með öllu, en e.t.v. er það ásættanleg áhætta að taka upp nýja stjórnarskrá.
Þetta með Fordlandiamálið sem ég tæpti aðeins á í gær er á margan hátt miklu merkilegra en ég hélt. Einkum snerist það um gúmmíræktun og á þessum tíma var gúmmíið olía heimsins. Eða reyndar miklu mikilvægara en hún. Allir áttu yfirfljótanlega olíu og fóru illa með hana. Náttúruleg heimkynni gúmmítrésins voru í Brazilíu, Einkum á Amazon svæðinu. Þar tókst þó aldrei að rækta það á plantekrum því það auðveldaði leikinn svo skordýrum og myglusveppum sem sóttu á trén. Það voru því einkum innfæddir sem gengu um og söfnuðu gúmmíi. Maður einn stal fræum af gúmmítré og fór með til London. Þar voru ræktaðir græðlingar sem seinna var farið með til Suðaustur-Asíu og gúmmírækt hafin þar. Þar gekk ræktunin vel á plantekrum því skordýr og sveppir herjuðu ekki á trén í sama mæli þar og í Brazilíu. Innan skamms fór ræktunin í Asíu framúr þeirri í Brazilíu og efnahagsleg niðurlæging Amzonsvæðisins hófst og uppgangur Suðaustur-Asíu.
Svo virðist vera að Ásta Ragnheiður forseti alþingis hafi gefið Sveini Arasyni einhverskonar heilbrigðisvottorð. Eða svo virðist hann a.m.k. álíta og þar með er málið orðið svo pólitískt að óskiljanlegt er. Mér finnst þetta með traustið ekki vera neitt sem hægt er að bíða með eða semja um einhverntíma seinna, en auðvitað er það ekki ég sem ræð þessu.
Nú er ég endanlega búinn að gefast upp á Explorernum held ég. Hann var sífellt að einhverju kvarti og kveini og vildi ekki gera það sem ég bað hann upp svo nú er ég farinn að nota Crome. Kannski gengur það betur.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)