Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2012
6.1.2012 | 10:26
1580 - Um trú og myndir
Gamla myndin.
Líklega er þessi mynd tekin í Lækjargötu á afmælisdegi Reykjavíkur (200 ára). Langt og eyðilegt grill.
Gaman er að éta. Einkum góðan mat. Þessvegna eru jólin svona vinsæl bæði hjá ungum og öldnum. Þegar fólk fer að eldast finnst því lítið til jólagjafanna koma þó börnin elski þær. Með aldrinum fækkar jólagjöfunum. Litlir krakkar fá stundum fleiri jólagjafir en þau hafa nokkur not fyrir. Hafa jafnvel ekki áhuga fyrir þeim öllum. Gera sér kannski ekki grein fyrir af hverju þær koma svona margar í einu.
Matarveisla um jólin er engin nýjung. Menn hafa lengi gert sér dagamun um þetta leyti. Enda er daginn núna farið að lengja. Nú er alveg áreiðanlegt að vorið kemur. Það tekur dálítinn tíma en endirinn verður sá.
Norðausturleiðin er að opnast eftir því sem sagt er á mbl.is. Ef t.d. er farið frá Noregi til Japan fyrir norðan Rússland er Norðausturleiðin farin. Norðvesturleiðin er aftur á móti fyrir norðan Kanada og ég held að hún sé erfiðari. Ef þetta með hnatthlýnunina er rétt ættu þessar leiðir að opnast áður en langt um líður. Ekki er sjálfgefið að Íslandi skíni eitthvað gott af þessu. Það þarf að bera sig eftir björginni. Viðkoma á Íslandi gæti samt verið góður kostur og við Íslendingar ættum að búa okkur undir að taka þátt í þessu kapphlaupi, því kapphlaup verður það um hver býður besta þjónustu á svæðinu.
Ætti ég að fara að skrifa pólitískar bollaleggingar á fésbókina jafnóðum og þeim lýstur niður í huga minn. Mér hefur svosem dottið það í hug, en það hefur hvarflað frá mér aftur. Skyldi nokkur nenna að lesa það? Allavega eru nokkrir sem lesa þessi daglegu blogg mín. Kannski eru þau samt full-löng. Kannski væri betra fyrir mig að stytta þetta svolítið. En ég hef bara svo margt að segja.
Einhverjir skoða bloggið mitt aðallega vegna myndanna. Þeim má benda á að þegar ég er búinn að færa þær úr óflokkaða albúminu, eins og ég er önnum kafinn við núna, má skoða þær hér á Moggablogginu því ég hendi yfirleitt aldrei neinu.
Ég hef undanfarna daga tekið svolítinn þátt í trúarlegum pælingum á bloggi Hrannars Baldurssonar http://don.blog.is/blog/don/ Ég get að vísu ekki tekið til orða með samskonar heimspekilegu yfirlæti og hann en hann má þó eiga að hann svarar öllum og reiðist ekki þó að honum sé sótt.
Það er a.m.k. hlýrra í undirgöngunum en úti.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.1.2012 | 09:47
1579 - Trúmál o.fl.
Gamla myndin.
Benni og ég að horfa á sjónvarpið að Þorsteinsgötu 15, Borgarnesi.
Leikfangið sem heldur fyrir mér vöku um þessar mundir er Kindle fire spjaldtölvan sem kostaði þó ekki nema 199 dollara. Ég á enn eftir að skrifa meira um þennan afburðagrip en er núna strax búinn að finna það út að rúmlestur er hin besta og þægilegasta iðja með þessu tæki. Ekkert um það að ræða að sumar bækur (eins og t.d. Sögu Akraness) er engin leið að fara með í rúmið vegna stærðar. Það er líka hægt að hafa með sér verulegan fjölda bóka án þess að þyngdin aukist nokkuð. Vil einfaldlega fullyrða að framtíð bóka liggi í lesvélum. Einkennilegt að þær skuli ekki hafa hlotið almenna hylli fyrr en núna.
Þó ég tjái mig á bloggi mínu um trúarleg málefni þá kallar það yfirleitt sem betur fer ekki á óralanga svarhala. Sennilega eru þessir lesendur mínir ekki mikið fyrir að kommenta eða skrifa stutt innlegg á fésbók og það er bara ágætt. Ég er sjálfur ekki mikið fyrir það þó ég geri það stundum. Mér finnst erfitt að koma öllu sem ég vildi sagt hafa frá mér á núll komma fimm. Þessvegna finnst mér betra að blogga um hlutina. Kannski eru færri sem lesa þær spekúlasjónir en það er í lagi. Maður veit samt aldrei hvort margir lesa það sem maður setur í komment, en eigandi bloggsins hlýtur þó oftast að sjá það.
Eru bækur of dýrar? Á sama tíma og bókatitlum fjölgar mjög eru margir að gefast upp á því að kaupa bækur til gjafa í jólabókaflóðinu.
Enginn vafi er á því að rafbækur hér á Íslandi eru alltof dýrar. Þær eru í flestum tilfellum jafndýrar prentuðum bókum eða jafnvel dýrari. Því hefur verið haldið fram af mörgum og ekki einu sinni mótmælt að það verð sé alltof hátt.
Útgefendur geta eflaust haldið því fram að venjulegt bókaverð hafi ekki hækkað meira en annað að undanförnu. Það er þó ekki nóg. Ekki er nokkur vafi á því að útgáfukostnaður allur hefur farið mjög lækkandi undanfarið.
Líklega eru bókaútgefendur að gera útaf við sjálfa sig með því að halda bókaverði svona háu. Eflaust veitir þeim samt ekki af peningunum. Verslanakeðjur hafa farið illa með þá að undanförnu.
Bókaútgáfa mun breytast mikið á næstunni og eru þegar komin mörg dæmi um það. Í flestum tilfellum er mun hagstæðara fyrir höfunda að gefa bækur sínar út sjálfir. Dreifingin er það eina sem er höfuðverkur. Allt annað er auðvelt og ódýrt.
Í ár eru 40 ár liðin frá einvíginu fræga sem haldið var í Reykjavík 1972 milli Borisar Spassky og Bobby Fischer. Það fer vel á að minnast þess með því að halda opið Reykjavíkurskákmót í Hörpunni. Í fréttum er sagt að það verði gert í mars næstkomanndi.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
3.1.2012 | 23:23
1578 - Trú og von
Við blokkina að Hrafnakletti 6 og 8 í Borgarnesi.
Það vill svo til að mér er alvara með þetta varðandi fuglana sem ég talaði um í gær og lýsi því hérmeð yfir að hávaða og sprengju-unnendur þessa lands hafa sennilega myrt þúsundir fugla síðastliðið gamlárskvöld. Mér finnst þeir ekki hafa neitt sér til afsökunar og ekki vera hótinu betri en minkar og refir.
Getur nokkur manneskja lifað án trúar? spyr Hrannar Baldursson heimspekingur með þjósti miklu og gerir í framhaldinu lítið úr öllum sem hann kallar ekki menn. Semsagt dýrum merkurinnar (og fleirum) sem hann þekkir ekki neitt nema af afspurn. Ég er oft sammála Hrannari en get ekki verið það þarna. Að halda því fram að allir hljóti að trúa er bara hundalógik með merkingu orða.
Ef ég rannsaka hug minn varðandi trúmál verð ég að viðurkenna að gagnrýnendur á borð við DoktorE hafa sennilega haft of mikil áhrif á mig. Mig langar vissulega til að trúa á einhverskonar guðdóm og einhverskonar framhaldslíf en er ákaflega hræddur um að vísindin (ef hægt er kalla þau það) hafi rétt fyrir sér um tilgangsleysi lífsins. Finnst allur þessi tilgangur sem menn sjá í hverju horni vera tómar mannasetningar og ekki eiga við neitt að styðjast. Get ekki með nokkru móti séð að maðurinn með alla sína heimspeki og allan sinn skáldskap standi neitt nær guðdómnum en dýrin. Geri hann það er það óréttlæti hið mesta. Það getur vel verið að það sé grundvallarmunur á hugsun manna og dýra en að taka frá dýrunum guðdóminn bara vegna þess er alls ekki sanngjarnt. Sanngirni og réttlæti finnst mér standa öllum guðshugmyndum ofar. Ef hugmynd um framhaldslíf felur í sér á einhvern hátt sameiginlegt framhaldslíf alls lífmassa á jörðinni get ég fallist á hana en á annars afar erfitt með það.
Ég get fallist á að umræða um trúmál skipti verulegu máli. Sú umræða á það þó til að fara út um víðan völl því áherslur fólks í þessu efni eru mjög mismunandi. Sjálfum finnst mér aðskilnaður manna og dýra vera ágæt aðferð við að einangra og takmarka umræðuna og beina henni á tiltölulega einfalda braut. Munur manna og dýra er oft svo lítill að markalínuna er afar erfitt að draga. Geimfarar sem kæmu til jarðarinnar mundu þó líklega ekki eiga í neinum vandræðum með það og hiklaust telja okkur mennina til dýra.
Fékk í dag fésbókarbréf frá Ásþóri Ragnarssyni varðandi Borgarnesmyndir. Hægt er að skoða þessar myndir á fésbókarsíðu Ásþórs og margar þeirra eru mjög góðar. Linkurinn er svona, held ég: http://www.facebook.com/#!/photo.php?fbid=10150489991573346&set=a.10150489978938346.386869.717778345&type=1&theater
Mikið er að sjálfsögðu bollalagt um næsta forseta landsins. Þeir sem eru mótfallnir því að bollaleggja vilja auðvitað hafa ÓRG bara áfram. Hann hefur ekki alveg útilokað það. Er líklega að vona að einhverjir skori á sig að halda áfram. Kannski eru þeir til sem taka það að sér. Ef ekki verða aðrir en Jón Gnarr, Jón Bjarnason og Ástþór Magnússon (af gömlum vana) í framboði gæti vel farið svo að ég kysi Jón Gnarr. Ekki er þó víst að bollaleggingarnar verði það skemmtilegasta í þessum kosningum. Framboðin sjálf gætu orðið ljómandi skemmtun líka. Hugsanlegt er að Dabbi, Styrmir, Bíbí og jafnvel fleiri leyfi ÓRG að fara í framboð fyrir Sjálfstæðisflokkinn í næstu þingkosningum. Eins og Eiður Guðnason segir þá á Ólafur bara eftir að verða forsætis til að slá Gunnari Thoroddsen við. Sennilega dreymir hann um það.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
2.1.2012 | 21:36
1577 - ÓRG og ESB
Gamla myndin.
Úr Alþýðubandalagsferð. Júlíus (oft kallaður Júlli Bakk), Sigurður Guðbrandsson og Skúli Alexandersson.
Sú hugsun mín að helst ekki megi henda mat hefur ekkert með sparsemi að gera. Það finnst mér a.m.k. ekki. Hún hefur ekkert með svöngu börnin í Kongó að gera heldur. Þetta er bara eitthvað sem hefur stimplast fast í undirmeðvitundina. Mér líður illa ef ég sé illa farið með mat. Samt er það mér huggun að vita að ormar, skordýr og fuglar munu líklega í fyllingu tímans gera sér gott af honum. Nú, eða þá að hann verði einhverntíma að gasi sem hægt er að knýja bílvélar með. Það er líka betra að sætta sig við að maturinn skemmist og ekki náist að borða hann ef hann er ódýr. Nei, annars. Verðið skiptir engu máli. Það sem skiptir máli er hvort mér finnst maturinn góður. Það er miklu erfiðara að sjá á eftir góðum mat í hundskjaft en vondum. Þýðir þetta að þessi veikleiki minn er áunninn og ekkert að marka hann? Ég viðurkenni að þetta hefur versnað með aldrinum. Hugsa að ég hafi jafnvel leikið mér að mat þegar ég var lítill. Þetta er mjög skrýtið.
Rithöfundar verða alltaf að hafa marga þræði í hendi sér samtímis. Ég er ekki rithöfundur því ég missi alltaf aðalþráðinn. Einmitt þráðinn sem ekki má missa. Aumingja höfundurinn má ekki gleyma neinu því alltaf eru einhverjir sem taka eftir því. Verst af öllu er að skrifa krimma sem jafnframt hefur þjóðfélagsleg markmið og ég meina ekki neina kommúníska sósíólógíu þar sem Stakhanov vesalingurinn framleiðir jarðýtur eins og hundrað manns. Svo vita aumingja rithöfundarnir aldrei hvort þeir fái borgað fyrir sína þrotlausu vinnu. Þá er nú betra að fá borgað fyrir skrifin í uppmælingu. Eða þýða ferðabæklinga o.þ.h. En nú er ég búinn að missa þráðinn eins og venjulega. Ég er samt alveg viss um þetta átti að verða óvenju snjallt hjá mér.
Oftast nær finnst mér ekki kominn tími til að gera það sem ég skrifa að bloggi fyrr en komin eru þrjú atriði eða svo. Auðvitað er þetta spandans og eitt væri alveg nóg. Stundum hætti ég líka við að gera það að bloggi sem ég skrifa. M.a. þessvegna finnst mér óþarfi að flýta mér að setja það upp sem mér dettur í hug. Ef efnið er fréttatengt getur það samt skipt máli en annars ekki.
Nú er ég farinn að sakna fuglanna sem vanir voru að koma hingað öðru hvoru og athuga með matargjafir og að fá sér eitthvað í gogginn ef þannig lá á þeim. Þetta er alveg satt. Þeir hafa ekki látið sjá sig frá því á gamlársdag. Ekki finnst mér að snjórinn hafi minnkað síðan þá svo líklegast er að þeir hafi hræðst sprengignýinn og rati ekki til baka. Sagt er að hundar og kettir hræðist gamlárskvöldslætin og hversvegna þá ekki fuglar líka?
Kannski ætlar Ólafur Ragnar Grímsson sér forystu fyrir nei-sinnum í baráttunni gegn ESB-aðild til að geta eignað sér sigurinn sem þar blasir við. Sá sigur verður kannski dýrkeyptur með tímanum og bara tímabundinn. Samt kann að vera að hann stefni á það. Þjóðernissinnuð sjónarmið er auðvelt að rökstyðja og glíma nei-sinna er hartnær unnin. A.m.k. í þessari lotu. Ein besta tillagan sem ég hef séð um ÓRG er sú sem Jónas Kristjánsson kom með á bloggi sínu: Hvers vegna ekki að gera Ólaf að biskupi?
Ég veit ósköp vel að ég er innbilskur og ímynda mér að það sem ég skrifa hér sé einhvers virði. Þeir sem skilja þetta gera það samt fyrir mig að lesa það og jafnvel að kommenta öðru hvoru. Með þessu eru þeir að lengja í snörunni og tryggja að ég haldi þessari vitleysu áfram. Kannski er þeim alveg sama. Kannski vilja þeir stuðla að því að ég skrifi sem allra mest. Ég reyni a.m.k. að telja mér trú um það. Með öðrum orðum. Ef allur lestur og öll komment mundu hverfa þá mundi ég kannski hætta. Já, gott ef þetta er ekki einmitt þannig.
Stundum fæ ég hugljómun með því að lesa annarra manna blogg. Reyni samt að forðast að það sjáist að ég er að vinna með hugmyndir sem ég hef fengið þaðan. Oftast er það auðvelt því engin líkindi er til þess að ég fái frekar hugmyndir frá þeim sem ég er sammála. Kannski les ég samt frekar blogg þeirra sem ég er vanur að vera sammála. Getur verið að með þessum hætti stjórnist umræðuhefðin sem svo oft er nefnd. Mér hefur dottið það í hug. En ég get lítið gert að því hvað ég les. Ekki er það meðvitað hjá mér að lesa fremur eitthvað eftir þá sem eru sammála mér. Samt getur verið að ég geri það.
Ef verið er að flækjast um á traktor er gott að fylgjast með svona skiltum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.1.2012 | 21:08
1576 - Nýársblogg - og þó
Gamla myndin.
Skúli Alexandersson tekur á honum stóra sínum.
Nú byrja ég semsagt að blogga á nýju ári, Ekki á ég samt von á að bloggið mitt breytist mikið. Það er mér talsverð auðveldun að spekúlera lítið sem ekkert lengur í dögum og klukkustundum. Ég bara skrifa mitt blogg og hendi því upp á Moggabloggið þegar mér finnst vera tími til þess kominn. Gæti þess líka að eiga jafnan svolítið af myndum á lager til að setja fremst og aftast í bloggið. Svona er þetta bara. Ég er íhaldssamur eins og sjá má og breyti helst aldrei neinu. Er ekki einu sinni viss um að ég yrði neitt betri bloggari þó vinsældir mínar ykjust mikið.
En af hverju er ég eiginlega að þessu. Það fatta ég ekki sjálfur. Mér finnst ég bara skrifa um sjálfsagða hluti. Jafnvel mínar umdeildustu skoðanir (sem ekki eru margar) finnst mér vera sjálfsagðar. Er ég meira down to earth, en margir aðrir? Er ég ekki eins illvígur og orðljótur og sumir eru? Kannski, en þá er það bara eðlilegt og sjálfsagt.
Skelfileg fáviska eru þessar áramótasprengingar. Þeim er aðeins að linna núna eftir að hafa náð hámarki rétt áðan. Gestir komu en voru farnir fyrir miðnætti og ég nennti ekki út til á horfa á raketturnar, aldrei þessu vant. Það var líka nóg að gera við að ganga frá og taka til. Veit ekki hvenær ég set þessi ósköp upp á Moggabloggið. Sennilega ekki fyrr en annað kvöld.
Strákarnir voru báðir hérna í kvöld og sögðu mér ýmislegt um Kindle tölvuna og Windows 7 sem ég gleymi vafalaust mjög fljótlega. Þá er bara að spyrja þá næst þegar þeir koma eða hringja.
Andskotinn hvað það er orðið vandlifað. Eftir nýjustu mjólkurfréttum að dæma er ég náttúrulega kominn með bullandi blöðruhálskrabbamein, þó ég hafi fyrir nokkrum árum hætt að drekka bláa mjólk (3,9%) og farið að drekka þá gulu (1,5%). Nú vantar mig bara rannsóknarniðurstöðu um samanburð á þessu tvennu. Kannski erum við að tala um mismun á fitusprendri mjólk og ófitusprengri. (Hryllilegt.) Bíð frétta af þessu mikilsveraða máli með aðra hönd á (nei, sleppum því annars).
Ég kýs að líta á gulu blettina í landslaginu (snjólaginu) sem hundamerkingar frekar en eitthvað annað. Auðvitað er þetta annað mögulegt en mér finnst það ekki sennilegt. Örugglega er það þó eftir piss en hvaðan það kemur er hugsanlega spursmál.
Lagði það á mig að hlusta á áramótaávarp Ólafs Ragnars og auðvitað var það mestmegnis óttalegt froðusnakk, en hann svaraði þó þeirri spurningu sem flestir vildu fá svar við. Hann ætlar ekki að bjóða sig fram einu sinni enn. Óttast sennilega að niðurstaða EFTA-dómstólsins geri sig að áhrifalausum þjóðhöfðingja. Nú geta menn farið að spá og spekúlera í hvern eigi að senda næst á Bessastaði. Ég mun þó hamast við að gleyma Ólafi Ragnari. Ég kaus hann á sínum tíma og hann hefur valdið mér nokkrum vonbrigðum. Ekki þó með Icesave ákvörðunum sínum heldur konungsstælum.
Held ég hafi skrifað um það áður að allar götur frá því að einvígið var haldið hér í Reykjavík árið 1972 sællar minningar hefur heimsmeistaratitillinn í skák verið nokkuð umdeildur. Ég ætla að setja hér á blað þá sem mér finnst að hafi eiginlega borðið hann síðan. Af þeim hafa Kasparov og Karpov verið minnst umdeildir. Mér finnst listinn líta svona út:
Fischer
Karpov
Kasparov
Kramnik
Anand
Carlsen
Aðrir kunna að hafa gjörólíkar skoðanir á þessu og vilja bæta ýmsum við á þennan lista og jafnvel fella einhverja út af honum.
Mér dettur í hug að það ætti að koma upp ritrýndri bókmenntasíðu. Internetið er kjörinn vettvangur fyrir slíkt. Jafnvel má gera ráð fyrir að síðan geti með tímanum skilað tekjum í formi auglýsinga. Ritstjórn síðunnar skiptir mestu máli. Einnig hvernig til tekst með ritrýnina. Efnisyfirlit og flokkun skiptir líka talsverðu máli. Mér finnst að hún eigi einkum að beinast að því að greinafjöldinn verði hæfilegur. Sé framboðið af frambærilegum greinum lítið ættu ritrýnar að reyna að leiðbeina þeim sem þó senda greinar til birtingar. Ef hægt er að halda úti bókmenntaþætti í sjónvarpinu ætti að vera auðvelt að halda úti bókmenntasíðu á Internetinu. Bókmenntaumfjöllun þar virðist nokkuð tilviljanakennd.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)