Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2011

1434 - Lygasaga

12Gamla myndin.
Starfslið úr eldhúsinu að Bifröst. Veit því miður ekki nöfnin á kvenfólkinu en sennilega er þetta Beggi kokkur lengst til vinstri.

Nú er ég búinn að setja blogg nr. 1433 á sinn stað og get því byrjað strax á bloggi nr. 1434. Skelfing held ég að sumum leiðist að lesa svona bull. Ætti ég ekki frekar að segja frá einhverju bitastæðara.

Lauk í dag við að lesa bókina „Lygasaga“ eftir Lindu Vilhjálmsdóttur. Sjálfsævisögulegar bækur eru ekki margar á íslensku og þær vekja jafnan áhuga minn. Þessi bók var víst gefin út fyrst árið 2004 og hefur sjálfsagt þótt ágæt þá. Sem betur fer er hún ekki löng og fremur fljótlesin. Svo er að skilja á Lindu að hún hafi verið baldinn unglingur og stundað drykkjuskap og fíkniefnafikt þegar hún eltist. Kannski hefur hún skrifað sig frá demónum sínum með þessari bók. Mér finnst bókin ekki verulega góð, en hún er það kannski fyrir þá sem þekkja Lindu. Líklega hefur bókin líka elst illa.

Nú er verslunarmannhelgin að ná hámarki sínu. Og enn rignir. Veðrið er samt alveg ágætt. Mikið er friðsælt í borginni. Engin læti eða neitt. Vildi að það væri alltaf svona. Rigningunni mætti þó sleppa.

Menn eru enn að fjargviðrast útaf atburðunum í Noregi og reyna eins og þeir geta að mjólka það útúr þeim sem þeim finnst styðja sín sjónarmið í pólitík. Hryðjuverk hafa afar lítið með stjórnmál að gera þó óvandaðir stjórnmálamenn reyni eins og þeir geta að notfæra sér þau og ótta almennings við þau.

Þó svo vilji til að fjöldamorðinginn norski hafi ýmis hægrisinnuð viðhorf, er ekki þar með sagt að vinstri menn séu eitthvað lausari við hryðjuverk úr sínum ranni. Það segir samt afar lítið um stefnurnar sem slíkar. Menn reyna t.d. að afsaka áhuga sinn með því að gera ráð fyrir að stefnur flokkanna sem slíkar hafi eitthvað með þann hugsanagang að gera sem fjöldamorðingjarnir básúna. Til þess fá þeir aðstoð fjölmiðla og er lítið er því að gera. Mér finnst sú þörf fólks að vera sammála síðasta ræðumanni vera of almenn.

Ástæðulaust er að blogga í sem lengstu máli ef maður hefur lítið að segja. Ég verð samt dálítið var við þessa tilhneygingu og reyni oft að stytta bloggin mín sem mest þó oft sé erfitt að hemja sig.

Jónas Kristjánsson segist ætla að greiða atkvæði á móti stjórnarskrárdrögunum. Það er hans mál. Samkvæmt því gerir hann ráð fyrir að stjórnarskrárdrögin komi óbreytt að mestu til þjóðaratkvæðagreiðlsu. Ég held líka að svo verði og að þau verði samþykkt.

IMG 6222Þetta minnir á íslenska fánann, en er ekki mjög vel gert.


1433 - Stjórnlagaráð

11Gamla myndin.
Gunnar Hallgrímsson. (sennilega á toppi Baulu.)

Þegar við vitum betur hvernig alþingi tekur nýju stjórnarskrártillögunum er hægt að fara að velta fyrir sér framhaldinu. Sé ekki betur en þessar tillögur séu markviss gagnrýni á alþingi og störf þess.

Heigulsháttur þess og þjónkun við sérhagsmunina mun fljótlega koma í ljós. T.d. eru þónokkrir þingmenn sem þrýstihópar eiga. Engin hætta er á öðru en að þeir muni reyna að gæta hagsmuna sinna eigenda. Hvernig þeir hyggjast gera það er síður vitað. Allt snýst þetta á endanum um atkvæði í næstu alþingiskosningum.

Með því að samþykkja stjórnarskrádrögin 25:0 setti ráðsfólkið talsverða pressu á alþingi.

Jón Valur Jensson segir að Pétri Gunnlaugssyni hafi tekist á síðustu metrunum að halda málskotsrétti forsetans inni. Það er sennilega sú leið sem ESB-andstæðingar ætla að nota ef á þarf að halda til að koma ESB-málinu í þjóðaratkvæði. Gott hjá Pétri. Kannski er þó ekki þörf á þessu. 10 % ákvæði er ansi rúmt. Gæti dregið úr stuðningi við stjórnarskrárdrögin.

Sigurður Hreiðar og DoctorE deila einu sinni enn í athugasemdum hjá mér um nafnbirtingar. Mér finnst það góð tilfinning að menn með svo gjörólíkar skoðanir á þessu máli geti deilt um efnið hjá mér án þess að missa sig í persónulegar blammeringar.

Þetta er vandmeðfarið efni. Nafnleynd er nauðsynleg í einstöku tilfellum. Hún er samt alltof mikið notuð hér á landi og skemmir fyrir þeim sem kunna að hafa eðlilegar ástæður fyrir leyndinni. Margir nota nafnleyndina til persónulegra árása á hina og þessa. Mér finnst ábyrgð þeirra vinsælu fjölmiðla sem leyfa slíkt vera mikil. Hótunum um málaferli vegna óviðurkvæmilegra skrifa fer fjölgandi. Sem betur fer verður sjaldnast mikið úr slíku. Þó mér finnist þeir sem stjórna Moggablogginu hafa farið offari þegar þeir útilokuðu DoctorE frá því að blogga hér er ekki þar með sagt að ég sé á móti öllu sem þeir gera.

Nú síðast skilst mér að þeir hafi beðið Jóhannes Ragnarsson frá Ólafsvík að fjarlægja skrif um  Heimdall og SUS. Skrif sem Jóhannes áleit fyndin en Heimdellingar ekki.

Eva Hauksdóttir sem vill kalla sig „norn“ bloggar um það að konur séu ekki eins vinsælir bloggarar og karlar. Mér finnst feministaþefur að þessu. Konur skrifa ekkert verr en karlar. Þær skrifa kannski minna og hafa lengi gert. Ég veit ekki til þess að neinsstaðar sé reynt að halda þeim niðri sem bloggurum. Kannski eru þær stundum dómharðari. Líta margar niður á bloggið og finnst það fyrir neðan sína virðingu að fást við svo fáfengilega iðju, sem að blogga. Þegar farið er að aðgreina kynin með þessum hætti er alltaf stutt í fordómana. Líklega lesa þær samt ekki síður blogg en karlar. Veit ekki til að slíkt hafi verið rannsakað.

Kleinur og skrautlegar muffins-kökur eru mikið í fréttum núna. AMX-menn virðast sannfærðir um að það sé ESB að kenna að farið er að amast við góðgerðasölu á heimalöguðum mat af ýmsu tagi. Ekki er ég sannfærður um að það sé rétt. Trúi AMX helst ekki. Geri ráð fyrir að þetta sé hluti af baráttunni gegn ESB. Gott að það skuli gert svona klaufalega.

Nú er farið að fyrnast svolítið yfir ódæðisverkin í Noregi. A.m.k. hér heim á Fróni. Norðmenn eru eflaust enn að hugsa mikið um þetta. Langtímaáhrifin held ég að verði einkum þau að eftirlit með sölu á tilbúnum áburði verði stórlega aukið. Sprengimáttur hans hefur þó lengi verið kunnur. Máttur skotvopna einnig. Aðgengileiki þessara hluta ræður nokkru um það hve auðvelt menn á borð við þann norska eiga með að dylja fyrirætlanir sínar.

IMG 6216Svona fer fyrir sumum.


1432 - Túkall á tímann

10Gamla myndin.
Gunnar Hallgrímsson og Kristinn Jón Kristjánsson.

Eiginlega líður mér ekkert vel nema mér líði illa. Það er auðvitað viss mótsögn í þessu, en þó er það satt. Ég er orðinn því svo vanur að mér líði illa að þá fyrst þegar mér fer að líða svolítið almennilega illa get ég farið að gera það sem mér sýnist og líða þar af leiðandi nokkuð vel. Auðvitað er þetta flókið en er lífið það ekki yfirleitt? Ekki er það ég sem bað um að verða til og mér dettur ekki í hug að halda að maður eigi einhvern RÉTT á því að láta sér líða vel.

Einu sinni þegar Mummi Bjarna kom í heimsókn höfðum við Ingibjörg (eða aðallega hún auðvitað) ákveðið að stríða honum duglega. Til þess notuðum við pólitík með lúalegasta hætti. Mummi greyið byrjaði með því að spyrja hvort við vildum vera með honum. Jú, það kom til greina ef hann segði okkur hvar hann stæði pólitískt. „Nasisti“ sagði Mummi hróðugur. Nú, við viljum ekkert hafa með svoleiðis fólk að gera. Við erum kommúnistar. „Já, en ég er sósíalisti“ sagði Mummi greyið með grátstafinn í kverkunum. „Nashyrningur og sósa. Hvurslags er þetta með þig, geturðu ekki ákveðið þig.“ Mummi var nú orðinn örvæntingarfullur og hótaði að kalla á pabba sinn, en við létum okkur ekki og skelltum á hann hurðinni.

Nú eru sósíalistar allt í einu orðnir nasistar og öfugt. Ekki hefðum við látið villa um fyrir okkur með þetta í gamla daga. Vissum líka lítið um útlendar nafngiftir. Nú láta sumir eins og nafngiftir segi eitthvað um stefnu flokka. Nafngiftir eru bara nafngiftir.

Svo héldum við stundum framboðsfundi eða fundi á alþingi og varð þá tíðrætt um landfestar fiskiskipaflotans, Hæring og ýmislegt annað sem við höfðum heyrt alvörustjórnmálamenn tala um. Já, það var bara gaman að lifa í þá daga. Maður þurfti ekki að taka ábyrgð á neinu. Gat látið eins og fífl og vissi að manni yrði alltaf bjargað. Ég fór að vinna snemma hjá Gísla á Elliheimilinu og fékk túkall á tímann. Ætli verkamannakaup hafi ekki verið svona 15 krónur þá. 

Þegar ég tala um Gísla á Elliheimilinu á ég að sjálfsögðu við Gísla Sigurbjörnsson. Annars var það Líney mamma hans Kidda Antons sem var ráðskona í eldhúsinu og réði flestu á Ási. Man að hún var lítt hrifin þegar ég gerði mér ferð úr grjóttínslunni til að segja henni að forsetinn ætti afmæli og það væri lögskipaður fánadagur. Já, besservisserahátturinn byrjaði snemma.

Annars man ég ekkert ofboðslega vel eftir mínum fyrstu árum. Kannski bruninn sem varð þegar ég var níu ára hafi haft meiri áhrif á mig en ég vildi vera láta. Allavega fékk ég enga áfallahjálp!!

Ég man lítið eftir að tónlist hafi skipt miklu máli í mínu ungdæmi. Man þó að seinni partinn á sjötta áratugnum reið mikil rokkalda yfir heiminn. Okkur snerti hún einkum á þann hátt að skyndilega varð skylda að allir klæddust svörtum gallabuxum (með hvítum saumum) og hvítri peysu. Aðskorinni og ermalangri. Þetta var látið eftir okkur og mikil var gleðin.

Það er margt sem ég minnist frá þessum árum. Fátt af því finnst mér merkilegt. Lífið í heildina var kannski það merkilegasta. Eiginlega var allt sem við gerðum bara undibúningur fyrir eitthvað stórkostlegt sem kom svo aldrei.

Í stjórnmálum trúðu menn því í alvöru að heimsstryjöld væri yfirvofandi. Við töldum okkur að sjálfsögðu vera réttu megin og vinninginn tryggðan, því liðið okkar væri mun sterkara. Ætluðum samt að vera svolítið göfuglynd við Rússagreyin.

Líklega eru stjórnarskrárdrögin sem stjórnlagaráðið mun í dag afhenda fulltrúa alþingis það mál sem mest verður rætt á næstunni. Ennþá hafa fáir þorað að lýsa því yfir að þeir séu á móti þessum drögum. Það gæti þó átt eftir að breytast. Stjórnmálaflokkarnir leita áreiðanlega að einhverju til að festa sig við. Það gæti tekist. Trúmál og ESB-mál eiga eflaust eftir að blandast í umræðuna og hún gæti orðið mikil. Þjóðaratkvæðagreiðsla er yfirvofandi.

Alþingismenn standa nú frammi fyrir því vandamáli að þeir geta varla krukkað mikið í stjórnarskrárdrögin því það treystir þeim enginn. Það besta sem þeir gætu gert er að senda frumvarpið beint í þjóðaratkvæðagreiðslu. Þá yrði fjör.

Að hóta málaferlum ef umfjöllum á bloggsíðum eða fjölmiðlum hugnast ekki viðkomandi er að komast í tísku. Heimdellingar hóta Jóhannesi Ragnarssyni í Ólafsvík málaferlum ef hann biður þá ekki afsökunar og tekur orð sín um þá aftur. Frægð Jóhannesar hefur aukist mjög við þessa misheppnuðu fyndni. Auðvitað mest vegna Heimdallarhótunarinnar.

IMG 6208Hátt hreykir heimskur sér.


1431 - Flakkað um fésbókarlendur

9Gamla myndin.
Bifrastarmynd - Svanhildur Skaptadóttir.

Þegar flakkað er um fésbókarlendur sést að eitt helsta vandamál samtímans er hvar koma skuli bensínljónunum fyrir meðan skoðaður er fótaburður fagurjóna. Þarna á ég að sjálfsögðu við bílastæðavanda knattspyrnuunnenda og einnig hef ég heyrt að áhorfendafjöldi á knattspyrnuleikjum, sé ekki sama vandamál og hann ætti að vera, af þessum sökum.

Hef sjálfur lent í svo mögnuðum bílastæðavanda að ég neyddist til að skipta um hárskera. Í trausti þess að aðrir hafi áhuga á þessu mikla vandamáli læt ég söguna flakka hér með.

Þegar ég fluttist frá Borgarnesi til Reykjavíkur gat ég semsagt ekki lengur látið Hauk rakara sjá um hausinn á mér. Á Njálsgötu fann ég þó fremur fornlega rakarastofu og vandi komur mínar þangað. Bílastæði voru sjaldan vandamál þá.

Svo kom að því að rakarastofa Leifs og Kára var lögð niður. Nú voru góð ráð dýr. Rándýr. Ég var orðinn svo vanur því að leggja bílnum mínum á Njálsgötunni eða þar í grennd að ég leitaði að rakarastofu í nágrenninu. Fann eina á Klapparstígnum og fór að venja komur mínar þangað. Svo fyrir einu eða tveimur árum fóru að birtast undarleg skilti við Njálsgötuna og víðar. Á endanum fékk ég svo sekt fyrir að leggja í gjaldskylt stæði. Skipti þá engu þó ég hefði reynt eftir megni að sjá ekki skiltin og merkingarnar.

Þetta varð til þess að ég neyddist til að finna mér hárskera í göngufæri við heimili mitt að Auðbrekku í Kópavogi. Skemmst er frá því að segja að það tókst þrátt fyrir kalt vor og miklar rigningar.

Eftir að hafa barist hetjulega við mjólkurleysi allan morguninn ákvað ég klukkan að ganga níu að skokka út í búð og kaupa mjólk. Hafið þið drukkið mjólkurlaust kaffi? Jú, ég hef gert það líka, en það er ekki nógu gott. Hafið þið borðað mjólkurlausan hafragraut? Nei, mér datt það í hug. Eftir að hafa loksins brotið tóbakshungrið á bak aftur er komið nýtt hungur. Mjólkurhungur. Ég býð ekki í það hvernig ástandið verður ef kaffið fer að verða af skornum skammti.

Hvaða æsingur er þetta? Eins og það sé ekki nóg að skrifa bara eitthvað. Koma ekki hvort eð er flestir hingað bara vegna myndanna? Ég er að meina gömlu myndanna. Það er samt svolítið gaman að fylgjast með teljaranum. Ef ég á að fílósófera um lífið og tilveruna þá verður það aðallega um blogg. Allskonar blogg. Jafnvel matarblogg og veðurblogg. Það eru svosem margir hættir að lesa blessuð bloggin og flestir hættir að skrifa þau. Samanborið við fésbókina og ýmsa fleiri netstaði sem ég kann ekki að nefna er nefnilega orðið hræðilega úrelt að blogga. Þó gera þetta sumir.

Afar interessant er að skoða gömul Moggablogg. Hef það fyrir sið að skoða listann yfir 400 vinsælustu Moggabloggin öðru hvoru og velja til skoðunar eitthvert þeirra blogga sem eru alveg að fara yfir móðuna miklu. Hvert fara eiginlega bloggin sem ekki komast inn á 400 listann? Hef lengi spekúlerað í því. Skilin eru núna við 40 eða 50. Einu sinni voru sömu skil við 360 eða 400. Langar mig til að þeir tímar komi aftur? Veit það ekki en áhugavert væri það. Ég er orðinn svo reynslumikill bloggari að ég hugsa að ég gæti forðað mér þaðan þó allt stefndi í augnalaust blogg.

Ligga ligga lí
ég er að fara í sumarfrí.
Ég er eins og jólatré
Ég er eins og Eiríkur.

En ég er ekki kominn á twitter. Á ég eitthvert erindi þangað? Sennilega ekki fyrr en það verður orðið alveg úrelt. Bið ykkur að athuga það. Fésbókin þolir samt merkilega vel að ég sé þar. 

Vorkenni næstum því Íslendingunum sem fóru til Noregs. Þó ekki. Gæti trúað að þeir hafi það á margan hátt betra þó hryðjuverkin séu komin þangað. Mér finnst að stór hluti af því sem sagt hefur verið um atburðina þar hefði betur verið ósagt. En auðvitað er líka hægt að þegja sér til skaða.

Stjórnlagaráð hefur nú lokið störfum. Verk þess eru komin í gin stjórnmálamanna og geta orðið pólitíkinni að bráð. Án þess að hafa gáð að því sérstaklega, hvort ég gæti rekið hornin í eitthvað sem þar er að finna, er ég fremur á því að drögin þurfi að fara í þjóðaratkvæðagreiðslu áður en alþingi er búið að fjalla um þau.

Sú atkvæðagreiðsla yrði að sjálfsögðu ekki bindandi en gæfi til kynna hvort stuðningur er við þær breytingar sem þar eru lagðar til. Alþingi mun síðan fjalla um stjórnarskrárdrögin og endanleg  atkvæðagreiðsla um þau verða í kjölfarið.  Síðan gætu orðið alþingiskosningar og ESB-atkvæðagreiðsla svo búast má við að mikið gangi á. Með öllu er þó óljóst hver framvindan verður.

Alls ekki er víst að ný stjórnarskrá komi neinu sérstöku til leiðar. Stjórnarfar ætti þó að batna og lýðræði að aukast. Þó er ekki víst að allir mundu una glaðir við sitt frekar en verða mundi við ESB-aðild. Einhverja áhættu verður að taka.

Bæjarstjórinn á Akranesi virðist ekki ætla að standa á neinn hátt við stóru orðin sem hann lét falla í viðtali við Skessuhorn fyrir nokkru. Reyndar virðist hann hafa Skessuhorn í vasanum og svo virðist sem þeir sem þar ráða ætli að styðja hann í þöggunartilraunum sínum.

Til upplýsingar fyrir þá sem búnir eru að gleyma öllu um Sögu Akraness er rétt að rifja það upp að bæjarstjórinn hótaði að kæra Pál Baldvin Baldvinsson fyrir ritdóminn um Sögu Akraness sem birtist í Fréttatímanum. Áreiðanlega verður ekkert úr því. Einnig lítilsvirti hann og talaði illa um Hörpu Hreinsdóttur og hefur ekki fengist til að biðjast afsökunar á því né reynt á neinn hátt að finna orðum sínum stað.

IMG 6199Húsgagn.


1430 - Hinir einu og sönnu "hinir"

8Gamla myndin.
Bifrastarmynd. - Már Hallgrímsson.

Var að enda við að lesa grein Guðmundar Andra Thorssonar á Vísi.is, sem Baldur Kristjánsson benti á í fésbókarinnleggi. Lokaorð Guðmundar eru eitthvað um hina einu og sönnu „hina“. Það er alveg rétt hjá Guðmundi að í grunninn snýst öll pólitík um þetta „við og hinir“. Spurningin er bara hvernig við skilgreinum „okkur“ og „hina“ , hverjum við samsömum okkur og hvaða eiginleika við gefum „hinum“.

Annars eru bloggin hjá mér farin að lengjast dálítið. Ég verð að gera eitthvað í þessu. Hvað er nærtækast að gera? Nú, auðvitað að skrifa minna.

Ég er alltaf að bíða eftir því að einhver hafi orð á því hvað ég sé góður bloggari. Kannski er það eina ráðið til að bremsa mig af. En svo gæti það virkað þveröfugt. Ég gæti færst allur í aukana.

Eins og ég hef áður sagt þá skrifa ég best á morgnana. Snemma á morgnana. Læt það sem mér dettur í hug síðan gerjast allan daginn og venjulega finnst mér mest af því harla gott þegar miðnættið kemur og minn tími.

Eftir því sem Jóhannes Laxdal Baldvinsson segir þá skortir mig hæversku. Það er líklega rétt hjá honum. Blogghæversku skortir mig alveg. Enda er ekki víst að aðrir sæu hve ógeðslega góður bloggari ég er ef ég benti ekki á það sjálfur.

Til að vera almennilega marktækur þarf ég að hafa stjórnmálaskoðanirnar í lagi. Verst hvað ég er vinstri-sinnaður. Slíkir menn eru ekki vel séðir á Moggablogginu. Til að bæta svolítið úr því fór ég á bókasafnið í dag. Bókasafn Kópavogs vel að merkja. Bókin sem ég er að byrja á núna og fékk lánaða þar heitir „Runukrossar“. Hún gerist árið 2141 og þá eru Múhameðstrúarmenn að sjálfsögðu búnir að ná völdum hér á landi. Höfuðborgin heitir Hella og íbúarnir eru um 40 þúsund.

Kannski er ekki viðeigandi að lesa svona bók núna á þessum síðustu og verstu tímum. Hugsanlega fæ ég samt eitthvað af hægri-sinnuðum viðhorfum í blóðið ef mér tekst að klára hana.

Samkvæmt fréttum dugar sumum ekki að rífast á netinu. Í Grindavík fór víst maður í heimsókn um miðja nótt af því að hann gat ekki lamið mann í gegnum fésbókina. Þetta er ískyggilegt. Líklega er best að gæta sín vel.

Kannski eru örsögur minn stíll. Passa líka ágætlega í bloggið. Er með eina núna. Hún er svona:

Jón stóra í Krókshjáleigu hafði lengi langað til að míga utaní rabbarbarann hennar Hönnu. Nú var rétta tækifærið. Honum var mátulega mál og myrkrið var hæfilegt. Helst var það að hundspottið var eitthvað að dandalast niður með heimreiðinni.

Ekki verður þó á allt kosið þegar svona tækifæri bjóðast. Jón gekk hægum skrefum niður að rabbarbaranum, tók hann út á sér og lét byrja að buna sæll á svip.

Hundspottið trompaðist.

Já, hann kom beinlínis eins og byssubrenndur, stökk á Jón og reyndi að bíta í besefann á honum.

Eðlilega brá Jóni og bunan fór útum allt. Sumt á hundspottið (sem betur fór), sumt á skóna og sumt á buxurnar.

Tennur hundsins fóru aðallega í hendina á Jóni. Handarbakið og þumalinn. Af einhverjum ástæðum missti hundurinn takið í lok árásarinnar og Jón var ekki seinn á sér að sparka duglega í kviðinn á honum.

Hundurinn kveinkaði sér. Vældi ámátlega og bar sig illa.

„Já, þér var nær að láta svona,“ sagði Jón og hélt áfram að pissa. Það blæddi lítið eitt úr hendinni en Jón var ekki vanur að láta smámuni á sig fá. Rabbarbarinn fékk sitt steypibað.

Öll árásargirni var nú horfin úr kjölturakkanum. Hann kom skríðandi til Jóns í leit að uppörvun og huggun.

Jón lauk við að míga í rólegheitum. Setti hann inn, lokaði buxnaklaufinni og hossaði sér svolítið í hnjánum um leið. Leit á seppa og síðan á hendina á sér.

„Bölvuð læti eru alltaf í þér, hundfjandi. Maður getur ekki migið í friði. Ekki veit ég hvað hún Hanna gerir ef ég segi henni hvernig þú lætur.“

Hugsaði sig svo aðeins um og bætti við. „Annars segi ég henni kannski ekkert frá þessu.“

Jón fór nú inn í fjós og opnaði sjúkrakassann sem þar var. Hundurinn elti. Jón tók úr kassanum skæri, plástur og sáravatn. Hreinsaði sárið á hendinni og setti plástur á það. Lallaði svo heim á leið.

Um leið og hann opnaði útidyrnar kallaði konan hans til hans: „Jón minn, náðu í svolítið af rabbarbara. Ég er að hugsa um að gera graut úr honum.“

„Ha?“

IMG 6185Já, það er best að brosa bara að þessu öllu saman.


1429 - Skák og blogg

7Gamla myndin.
Hér er Kristinn Jón Kristjánsson svolítið hátt uppi.

Af hverju les fólk blogg. Eftir áralanga umhugsun hef ég komist að þeirri niðurstöðu að fólk lesi blogg einkum til að fá viðbótarsjónarhorn á fréttir. Það er engin tilviljun að fréttablogg ýmisskonar eru vinsælust. Fyrirsagnir skipta líka talsverðu máli. Ef fólk heldur að hatrammar deilur séu í uppsiglingu á viðkomandi bloggi eykst áhuginn á því að mun. Mikill fjöldi athugasemda veldur líka auknum áhuga. Þannig má lengi telja.

Bloggarar þurfa líka helst að vera þekktir fyrir eða hafa áunnið sér einhverjar vinsældir í bloggheimum til að vert sé að fylgjast með þeim. Blogg voru í mikilli tísku fyrir nokkrum árum en eru ekki lengur eins áhugaverð frá sjónarmiði lesenda. Af einhverjum ástæðum vill fólk yfirleitt ekki viðurkenna að það lesi blogg og lítur svolítið niður á þau. Fésbókin er meira svona tæki sem allir geta notað til að fylgjast svolítið með. Þar er gott að vingast við einhvern sem er duglegur að „læka“ og flakkar mikið um íslenskar netlendur.

Að tefla skák og að blogga er tvennt af því sem mér finnst hvað mest gaman að gera á netinu. Ég hef líka vanið mig á að láta netið og sjónvarpsfréttirnar duga til að fylgjast með fréttum dagsins, en get ekki sagt að mér sé yfirleitt skemmt við það. Ég hef hér á blogginu mínu oft fjölyrt um bloggunina. Nú ætla ég að reyna að skilgreina skáknáttúruna aðeins.

Að mestu leyti tefli ég núorðið bara bréfskákir. Það er afar þægilegt að gera á netinu og eftir að maður er búinn að venja sig af að fylgjast mikið með stigunum sínum getur það orðið mjög skemmtilegt. Hæfilegur fjöldi skáka skiptir mestu máli.

Bréfskákir eru talsvert frábrugðnar öðrum skákum. Mest er það af því að tímafaktorinn er alfarið á þinni hendi og andstæðingurinn hefur ekki hugmynd um hvernig hann er. Það hve miklum tíma þú getur eytt á hverja skák fer alls ekki eftir skákinni sjálfri. Heldur ýmsu öðru. Einkum þeim fjölda af skákum sem þú ert með í gangi á hverjum tíma.

Nauðsynlegt er að venja sig af því að taka bréfskákirnar mjög alvarlega. Þær geta að vísu vel haft áhrif á hvernig manni líður, en það er þýðingarlaust að reyna að útskýra það fyrir öðrum.

Langstærsti gallinn við bréfskákirnar er sá að þú hefur enga hugmynd um hvað andstæðingurinn leggur hart að sér. Auðvitað er það líka einn af kostunum við bréfskákirnar hve auðvelt er að útiloka allt sem minnir á andstæðinginn. Þá er bara skákin eftir. Það er enginn að horfa á og heykslast á því hvað þú ert vitlaus, þó þú leikir af þér. Þú tapar í versta falli fáeinum stigum.

Sem sá fésbókarandstæðingur sem ég er, (er nefnilega séfellt að jagast út í hana) finnst mér jákvætt hve vel hún grisjar bloggarahópinn. Eftir því sem fækkar í þeim hópi lítur mitt blogg betur út. Eðlilega. En það dugar ekki að leggjast bara í híði og halda að nú sé allt orðið harla gott. Nei, þetta er stöðug vinna. Nú er ég kannski um það bil að verða bestur í hópi vinstri sinnaðra Moggabloggara. Ehemm, þetta hljómar nú ekki nógu vel. Eru þeir Moggabloggarar sem eftir eru flestir hægrisinnaðir? Mér finnst það, já. En nú er ég óvart kominn út í það sem margir vilja einkum eigna blogginu. Þ.e.a.s. blessaða pólitíkina. -Það sem helst hann varast vann, varð þó að koma yfir hann.- Þetta er annaðhvort tilvitnun í málshátt eða ljóðlínur.

Mjög er nú umtalað hjá pólitískum bloggurum hvaða skoðanir „Breiðvíkingurinn“ norski hafi á hinu og þessu. Hef ekki lesið neitt eftir hann eða séð myndband það frá honum á youtube sem ku orðið mjög vinsælt. Einhver sagði að „manifesto“ hans væri að mestu komið úr „Unabomber“ þvættingi sem birtur var einhversstaðar um árið.

Pólitískir bloggarar hamast nú sem mest þeir mega við allskyns skilgreiningar. Reyna samt að forðast að lenda uppí hjá „Breiðvíkingnum“ en annars er þeim fátt heilagt. Nasismi, fasismi, kommúnismi, hægriöfgar, vinstriöfgar, amx, alþýðubandalag og allskyns stefnur eru skilgreinar út og suður án þess að nokkur niðurstaða fáist. Pólitísk áhrif til langs tíma af ódæðum Norðmannsins geta samt orðið einhver. Sjáum til.

Ég er stundum að gera tilraunir við að gúgla á sem fjölbreyttastan hátt. Núna áðan datt mér í hug að gúgla „bloggið hans Sæmundar“. Þá datt ég inná langa færslu eftir Jóhannes Laxdal Baldvinsson sem hann kallar: „Kveðið við Sæma“ og ég hef ekki séð áður. Færslan byrjar þannig:

2009 fór ég að venja komur mínar á bloggið hans Sæmundar Bjarnasonar.
þar var einnig velþekktur bloggari, Steini Briem. Einhvern veginn æxlaðist þannig að við fórum að yrkjast á. Til að halda mínum hlut til haga birti ég hérna það helsta sem ég orti
Allt eru þetta tækifærisvísur og ber að dæma sem slíkar. Flest skýrir sig sjálft en upprunann má lesa á blogginu hans Sæma
hér tímabilið var 2009 til apríl 2010

p.s Sæmundarháttur í bloggi er að skrifa um blogg af lítilli hæversku


Vekur oss til vitundar
á viskunni er ekkert lát
Heimsspekin hans Sæmundar
heimaskíts mig gerði mát

Og áfram heldur hann með vísurnar. Þetta blogg er hvorki meira né minna en heilt vísnasafn. Jóhannes hefur haldið til haga flestöllum þeim vísum sem hann orti og birti á mínu bloggi. Þið sem hafið áhuga, vinsamlega lesið þessa færslu. Þið sjáið ekki eftir því. Urlið er svona: http://johanneslaxdal.blog.is/blog/johanneslaxdal/entry/1108317/ Vissi ekki að ég væri svona frægur.

Jóhannes segir hikstalaust að það sé Sæmundarháttur í bloggi að skrifa um blogg af lítilli hæversku. Þessu er ég ekki alveg sammála. Hef með sjálfum mér talið að það væri að blogga mikið um blogg. Það getur svosem líka verið að einhverjir séu hæverskari en ég.

Þó ekki Stefán Pálsson vinstrigræni. Ég las bloggið hans einu sinni mjög reglulega og hef kannski lært eitthvað af honum. Hann var vanur að halda því fram fullum fetum að hann væri besti bloggari landsins. Svo var honum óskaplega uppsigað við Moggabloggið þegar það hóf sína tilveru (skemmdarstarfsemi) og tilkynnti hátíðlega að það væri dautt eftir að hann hafði flutt því reglulegar bölbænir lengi og nennti því ekki lengur. 

IMG 6180Hluti af furutré.


1428 - Er blogg bókmenntir?

006Gamla myndin.
Þetta er knattspyrnulið antisportista að Bifröst veturinn 1959-60, sýnist mér. Aftari röð frá vinstri: Sigurjón Bragason, Þórir Gunnarsson, Gunnar Hallgrímsson, Guðmundur Jóhannsson, Hermann Hansson og Gunnar Sigurðsson. Fremri röð frá vinstri: Jónas Jónasson, Gunnar Magnússon, Guðvarður Kjartansson, Jón Alfreðsson og Arngrímur Arngrímsson.

Færa má fyrir því nokkur rök að blogg sé á sinn hátt bókmenntir. Þeir bloggarar sem ég les einkum eru þannig. Ég geri mér þó grein fyrir að greinilega hugsa ekki allir bloggarar á þann hátt. Sumir virðast líta á sig sem einhverskonar fréttamenn. Éta það upp sem þeir hafa lesið og bæta síðan við einhverjum hugleiðingum frá eigin brjósti. Með því finnst mér bloggin verða að einhvers konar kommentum. Í eðli sínu má vel halda því fram að hefðbundin Moggablogg séu bara komment.

Auk þess að vera bókmenntagrein geta blogg sem best verið einskonar æfingavöllur fyrir hverskonar skrif. Lesendur geta vel orðið aukaatriði þegar svo er komið. Fésbókin hentar ágætlega sem samskiptavettvangur fyrir allskyns kaffibollaspjall. Mér finnst hún ekki veita blogginu neina sérstaka samkeppni. Bloggurum hefur fækkað mjög eftir að vinsældir fésbókarinnar fóru að aukast að marki. Sérstaklega held ég að þeim hafi fækkað sem eru síbloggandi eins og ég.

Þykist ég þá vera einskonar bókmenntalegur bloggpáfi? Ja, mér finnst miklu meira gaman að blogga en fésbókast. Mér finnst það (bloggið) skilja meira eftir en fésbókarstaglið. Af hverju er ég sífellt að bera þetta saman? Eru ekki þeir sem yfirgáfu bloggið fyrir fésbókina einmitt leitandi? Leitandi að því eina rétta samskiptaformi sem hlýtur að vera handan við hornið? Hins vegar hef ég og mínir líkar (kannski) staðnað og fest mig í því sem er úrelt og hallærislegt. (Bloggið).

En hvernig skyldi það þá vera sem allir eru að leita að? Vídeó send á netið með snertiskjám frá snjallsímanum þunna sem er orðinn besti vinur eigandans og stýrir honum í gegnum allar lífsins krísur, eða hvað? Já, tækjagleði fólks er orðin með ólíkindum. Það er eins og þeir sem lengst ganga haldi að hægt sé að redda öllu bara með því að kunna á réttu tólin.

Kannski er bloggið vel til þess fallið að miðla hugmyndum. Enn er þó haldið í stefnuna frá bloggaranum til lesandans. Nýjungarnar rugla þessa stefnu. Hin hefðbundna stefna bókmenntanna er í eina og aðeins eina átt. Bloggið hefur með athugasemdum sínum (og kannski fésbókin og aðrar nýjungar enn frekar) ruglað þessa stefnu. Af hverju á lesandinn að sitja á sér og vera bara þiggjandi? Hann er í mörgum tilfellum a.m.k. jafnvel til predikunar fallinn og hinn.

Varð andvaka í nótt. Setti þá m.a. eftirfarandi saman:

Það er fátt sem er eins og það á að vera.
Ferðalagið hófst þó með einu skrefi
og lýkur ekki fyrr en seint í kvöld.
Eldhjörtun sprungu á leiðinni til borgarinnar
og lentu á forugum þökunum.
Verða hughrifin eins
þegar ég les þetta næst?

Mér fannst þetta vera ljóð þá, en er ekki eins viss núna. Les stundum það sem aðrir kalla ljóð. Nútímaljóð, án ríms, stuðla og hrynjandi. Stundum ná þau einhverjum endurómi við mína hugsun. Það er þó ekkert sem hægt er að reiða sig á. Samt er það besta skilgreiningin á ljóði sem ég get fundið. 

Bloggið hentar vel fyrir bull sem þetta. Þá er maður laus við það og þarf ekki að burðast við að setja það á blað og koma fyrir í geymslu til að týna síðan þegar verst gegnir. Sama er að segja um myndir o.þ.h.. Best að koma því á netið til að losna við það úr sýsteminu. Sumir nota netið eins og nokkurs konar ruslafötu. Ég líka.

Einu sinni tók Jón á Þverá sig til og eyðilagði sévrann hans Ingólfs í Strympu með því að keyra yfir hann hvað eftir annað á jarðýtunni sinni. Hann bað samt um leyfi fyrst. Man að ég horfði hissa á þetta. Bíllinn var á planinu skammt frá Holti og þetta var Chevrolet sem núna þætti mjög flottur fornbíll. Ætli hann hafi ekki verið model 1952 eða eitthvað. 1958 kannski. Hann var samt ekki merkilegur á þessum tíma. Ekki gangfær og illseljanlegur og þegar Jón var búinn að ljúka sér af var hann bara svolítið þykk járnplata í vegarkantinum. Veit ekki hvað varð svo um hann.

Trúr þeirri kenningu minni að aldrei skuli geyma það sem á annað borð er hæft til þess að fara á bloggið er ég að hugsa um að láta fljóta hér með smá tilbúning sem ég var að ljúka við. Með þessu móti verður bloggið í lengra lagi en við því er ekkert að gera.

Þegar geimfararnir komu var enginn til að taka á móti þeim. Samt hafði verið búist við þeim. Þeir höfðu tilkynnt stjörnufræðingnum, sem bjó í þorpinu, að þeirra væri von. Hann hafði nú ekki alveg trúað þessari sögu en lét hana samt ganga. Merkilegast var kannski að enginn skyldi hlaupa með þetta í blöðin eða reyna að sannreyna söguna á nokkurn hátt.

Eins og aðrir hafði þorpspresturinn heyrt um þetta. Það var konan á bókasafninu sem sagði honum frá því. Sagan var svo ótrúleg að honum fannst ekki vert að eyðileggja grínið. Svo hann hafði ekki orð á neinu.

Sagan var svona:

Þegar verið var að skapa jörðina vildi ekki betur til en svo að sá sem fyrir því stóð gleymdi úrinu sínu sem var mikið dýrmæti og það uppgötvaðist ekki fyrr en löngu seinna þegar verið var að búa til tungl einhversstaðar í Andrómedu.

Þetta var jafnvel ekki það ótrúlegasta við söguna. Heldur miklu frekar hitt að sagt var að úrið væri undir tveggja metra þykku moldarlagi á miðjum akrinum hans Sveitta-Villa.

Og þetta var ekki einu sinni það ótrúlegasta við söguna. Frekar hitt að sagt var að geimverur myndu koma kvöldið eftir um elleftu-leytið til að sækja úrið. 

Svona var sagan og auðvitað trúði henni ekki nokkur maður. Samt sem áður höfðu margir auga á akrinum hans Sveitta-Villa kvöldið eftir.

Geimfararnir höfðu samt alveg meint þetta. Ástæðan fyrir því að þeir höfðu bara samband við stjörnufræðinginn var sú að þeir þóttust vissir um að hann mundi tékka á þessu öllu. Það gerði hann hinsvegar ekki, því hann trúði ekki sögunni.

Geimfararnir höfðu semsagt búist við að fjölmiðlar hefðu fjölmennt á staðinn og allskyns húllumhæ yrði í tilefni af komu þeirra. Það yrðu tekin viðtöl við þá og allskonar.

Þegar feðgarnir stukku útúr geimfarinu var hinsvegar ekki nokkra mannveru að sjá. Þorpspresturinn var að vísu á útkíkki í kirkjuturninum en það sá hann enginn.

„Manstu hvar þú skildir úrið eftir?“ spurði sá yngri.

„Já, ég held að það hafi verið þarna.“ sagði sá eldri og benti.

„Þá verðum við víst að ná í skóflurnar og grafa eftir því. Ekki virðast líkur á að íbúarnir hjálpi okkur mikið.“

Nú gat þorpsprestuinn ekki á sér setið lengur. Þetta voru greinilega utansveitarmenn, höfuðstórir og grænleitir. Birtan var samt ekki upp á marga fiska og hugsanlegt að þeir væru ekki eins grænir og þeir sýndust vera.

„Hæ, halló þarna. Á ég ekki að hjálpa ykkur?“ hrópaði pressi út um opinn glugga á kirkjuturninum.

„Nei, ætli það. Við verðum ekki lengi að þessu með nýju megaskóflunum okkar.“

Presturinn var ekki á því að láta þá sleppa svo billega og þaut niður tröppurnar í turningum og útá hlað. Þaðan var örstutt yfir á akurinn hans Sveitta-Villa en samt sem áður voru geimfararnir búnir að ná í úrið og moka ofan í holuna aftur þegar presturinn kom þjótandi.

Feðgarnir fóru þá aftur inn í geimfarið og flýttu sér í burtu.

Presturinn kom hins vegar ekki upp nokkru orði í lengri tíma, en flýtti sér svo inn í kirkju og hringdi í sjónvarpið. Vitanlega kannaðist svo enginn við neitt og presturinn varð að athlægi um allt land og að lokum var hann svipur kjóli og kalli af biskupnum stranga.

IMG 6162Gömul borhola í Hveragerði.


1427 - Noregur og rykmaurarnir

005Gamla myndin.
Á þessari Bifrastarmynd eru þeir kennararnir Hróar Björnsson og Hörður Haraldsson.

Noregur breyttist í gær. Tuttugasta og annan júlí tvöþúsundogellefu. Það sem gerðist áður var áður en hryðjuverkin komu til Noregs. Það sem nú er að byrja er tímabilið eftir að hryðjuverkin komu.

Það sem gerðist í Noregi í gær er eitt af þeim atvikum sem maður man lengi eftir. Ég var einn heima og lauk við að horfa á íslenska bíómynd af flakkaranum (segi ekki hvaða mynd) þegar klukkan var að verða þrjú. Þegar ég stöðvaði sýningu myndarinnar datt ég beint inn í beina útsendingu frá norska ríkissjónvarpinu. Ég gerði mér strax ferð að tölvunni og byrjaði að skoða frásagnir á netinu af þessum atburði. Því hefur lítið linnt síðan og ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða um atburðarásina.

Minnist þess samt hve undrandi ég varð þegar ég heyrði fyrst sagt frá Estonina-slysinu. Það var í september 1994 sem ferjan Estonia fórst á Eystrasalti og meira en 800 manns með henni. Mér er minnisstætt að þegar þulurinn í útvarpinu sagði snemma morguninn eftir að óttast væri að meira en 800 manns hefðu farist með ferjunni að ég trúði honum alls ekki og hélt að hann hlyti að hafa mismælt sig eitthvað. Slys á ferjum og farþegaskipum af þessari stærðargráðu ættu sér alls ekki stað í þessum heimshluta. Hugsanlega kannski í þriðja heiminum, en ekki hér næstum því við strendur Íslands. Jú, jú. Titanic fórst að vísu, en það var árið 1912. Andrea Doria og Stockholm lentu í árekstri og einhver fjöldi fórst, en það var fyrir ævalöngu síðan.

Að slys af þessari stærðargráðu hefði átt sér stað rétt hjá okkur var með öllu óhugsandi. Þulurinn hlaut að hafa mismælt sig. En þó „bara“ hefðu farist kannski áttatíu manns var þetta samt hræðilegt sjóslys. Seinna kom auðvitað í ljós að yfir 800 fórust með Estonia.

Þá er Eden ekki lengur til. Eden hjá Braga Einarssyni var auðvitað í útjaðri þorpsins þegar ég var að alast upp. Samt fórum við stundum þangað. Það var þó allavega nýjung að þurfa ekki að hanga allt kvöldið í Litla salnum á Hótelinu. Annars fórum við ekki oft niður í Eden. Vorum heldur ekkert sérlega velkomin þar og eyddum alls ekki miklu. Eiríkur og Sigga voru orðin vön okkur hugsa ég. Það sást líka vel frá Hótelinu hvort eitthvað var um að vera á Barnaskólatúninu.

Klámið og kirkjan interessar mig ekkert sérstaklega. En með leyfi að spyrja. Hvað eru sanngirnisbætur? Hvaða munur er á þeim og öðrum bótum? Eru það ekki skaðabætur? Ekki tjónabætur? Eru þær eitthvað sanngjarnari en aðra bætur? Spyr sá sem ekki veit. Og hver borgar þessar bætur? Ég og þú? Af hverju má ekki gera samkomulagið opinbert? Er ekki Kalli bara að lengja svolítið í hengingarólinni? Svo verður hann voða mystískur og heilagur á svipinn þegar hann er spurður að því hvort hann ætli að fara að hætta. Svarar bara í véfréttarstíl. Mér finnst skítalykt af þessu öllu. Ég verð að segja það. Og hvar er biskupsdóttirin? Af hverju er hún ekki með?

Fyrir nokkrum árum voru rykmaurar og rykmaurafræði allskonar mjög í tísku hér á Íslandi. Áreiðanlega muna fleiri en ég eftir þessum tíma. Rykmaurum var lýst nákvæmlega og stækkaðar myndir af þeim sýndar víða. Þessi óféti væru að vísu hættulítil en að finna í nær öllum rúmdýnum og sængurfatnaði allskonar. Lifðu á húðflögum af fólki og öllu mögulegu sem til félli. Ómögulegt væri að losna með öllu við þennan ófögnuð en halda mætti honum e.t.v. eitthvað í skefjum með ítrasta hreinlæti.

Ákveðið var að gera ítarlega og nákvæma könnun á útbreiðslu rykmaura á Íslendi. Ákveðið var einnig hvernig staðið skyldi að þessari rannsókn og nauðsynlegir starfsmenn ráðnir. Útreikningsaðferðir kannaðar og fljótlega hafist handa.

Ekki hefur frést mikið af rannsókninni en sögusagnir herma að tveir rykmaurar hafi fundist og sérfræðingar hafi talið eftir víðtækar athuganir að ekki væri hægt að draga nógu mikilvægar ályktanir af þessum tveimur vesalingum. Rannsóknin hafi því koðnað niður.

Einu sinni var töff að blogga. Nú er það bara hallærislegt. Töffheitin eru öll hjá fésbókinni. Finnst þeim að minnsta kosti sem hanga þar lon og don. Venjulegir farsímar með tökkum og þessháttar eru alls ekki töff lengur. Nú á bara að strjúka þá mjúklega og þá eiga þeir að gera flest sem manni dettur í hug. Þó ekki drekka bjór.

Einu sinni átti ég farsíma sem var svo gamaldags að hann var orðinn eins og þeir allra nýjustu. Þó var hann ekki með skjá. Þar skildi á milli. Sumum brá þegar ég dró hann upp og byrjaði að ýta á takkana.

IMG 6158Bláhver. Einu sinni var miklu meira vatn í honum og fjöldi af rörum sem dýft hafði verið í hann.


1426 - Hallgrímur Helgason

004Gamla myndin er frá Bifröst.
Þetta eru þau Ingþór Ólafsson og Rósa Gísladóttir.

Mér finnst ég hafa lesið of margar bækur eftir Hallgrím Helgason. Fyrsta bókin sem ég las eftir hann heitir „Hella“ og fjallar um hestamannamót að Hellu á Rangárvöllum og nauðgun sem þar á sér stað. Sú bók fannst mér nokkuð góð. Þegar ég las hana var höfundurinn óþekktur.

Næsta bók sem ég gerði tilraun til að lesa eftir Hallgrím var bókin „101 Reykjavík“, en ég kláraði hana aldrei því mér þótti hún svo leiðinleg.

Bókina Rokland las ég alla en þótti hún ekki sérstaklega góð. Sumt í henni fannst mér svo fáránlegt að engu tali tók. Eins og t.d. ferðalag aðalsöguhetjunnar frá Sauðárkróki til Reykjavíkur. Samt las ég hana alla því ég hafði ekkert annað að lesa. Komst ekki á netið eða neitt ef ég man rétt.

Nýjasta bókin sem ég hef lesið eftir Hallgrím er bókin sem ber nafnið „10 ráð til að hætta að drepa fólk og byrja að vaska upp.“ Titillinn er frámunanlega asnalegur en bókin er samt það besta sem ég hef lesið eftir Hallgrím. Fáránlegir atburðirnir í bókinni gera sig einfaldlega betur af því að það er útlendingur sem lendir í þeim. Ég er samt ekki vanur að lesa skáldsögur spaldanna á milli en á einhvern undarlegan hátt heldur þessi bók manni alveg. Byrjunin er samt heldur léleg en bókin vinnur á. Í lokin er maður orðinn nokkuð spenntur en endirinn er þó að mínum smekk of amerískur til að vera sannfærandi.

„Höfund Íslands“ hef ég ekki lesið og langar ekkert sérstaklega til að lesa. Hinsvegar finnst mér Hallgrímur góður málari og hugmyndaríkur. Fígúrurnar sem hann skapar eru bæði eftirminnilegar og frumlegar.

Mér finnst að rithöfundar verði að sæta því að allir sem áhuga hafa á segi sína skoðun á verkum þeirra. Hallgrímur er orðhagur nokkuð en oft afar orðmargur. Hefur gaman af að skrifa og skrifar yfirleitt vel. Hefur yndi af orðaleikjum og notar þá mikið. Er gefinn fyrir fáránlegan og ótrúlegan söguþráð og tekst ekki alltaf að gera hann sennilegan. Heldur þó öllum þráðum í hendi sér og gleymir þeim ekki. Hans verk standa talsvert fyrir ofan hina dæmigerðu íslensku krimma.

Auðvitað væri hægt að skrifa mun meira um Hallgrím Helgason. Til dæmis um pólitísk afskipti hans og greinar um dægurmál. Þar er hann líkur sínum merkasta fyrirrennara HKL sjálfum. Andúð hans á séríslenskum smáborgarahætti og alþjóðleg viðhorf valda því að áhrif hans eru að líkindum meiri en hann og flestir aðdáendur hans gera sér grein fyrir.

Mér finnst ég vera ágætis bloggari. Það er ekkert öllum gefið að blogga svona viðstöðulaust eða –lítið á hverjum einasta degi. Stundum finnst mér jafnvel að ég hafi áhrif. Núna þykist ég t.d. vera að hjálpa Hörpu skólameistarafrú á Akranesi við að svæla bæjarstjóramelrakkann úr greninu og standa fyrir máli sínu varðandi Sögu Akraness. Gunnlaugur greyið varð fyrir Páli Baldvini, sem er eins og jarðýta þegar hann nær sér á strik. Hann (Gunnlaugur) er samt ekkert aumkunnarverður því hann er búinn að moka til sín fé úr bæjarsjóði Akraness árum og áratugum saman.

Hvenær yfirheyrir lögreglan Lilju? Spyr Hannes Hólmsteinn Gissurarson með þjósti miklu í fyrirsögn að grein sem hann ritar á Pressuna. Þarna mun hann eiga við Lilju nokkra Skaptadóttur sem hann segir að eigi DV. Hann er að leggja út af „News of the World“ málinu og á ekki í neinum vandræðum með að komast að því að DV sé sekt um miklu alvarlegri brot en urðu einhverju bresku blaði að falli. Fjölyrði ekki meira um þetta, en Hannes er engum líkur. Það vita allir.

Þorsteinn Joð sendir stjórn ríkisútvarpsins tóninn og segir meðal annars: Stjórnunin á þessu fyrirtæki hefur alltaf verið og er hrein hörmung. Orðið metnaður er bara ekki til í orðabók hússins. Þetta er einsog héraðsmót í frjálsum íþróttum þar sem hástökksráin er skrúfuð föst í einum metra og keppendur verðlaunaðir fyrir að klára fjögur hundruð metra hlaupið innan vinnudagsins.

Þetta er alveg rétt hjá Þorsteini og við þetta mætti bæta mörgu. Ég hef nokkrum sinnum bloggað um dagskrá ríkissjónvarpsins, sem íþróttadeildin virðist reyndar ráða alfarið. En það þýðir ekkert. Þýðir áreiðanlega ekkert heldur fyrir Þorstein að vera að ybba sig. Þetta er eins og að skvetta vatni á gæs. Það eina sem hugsanlegt er að stjórnendur þarna mundu skilja er ef þeir hættu að fá launin sín. Fyrir hvað fá þeir annars þessi andskotans laun? Fyrir að segja nei við öllum tillögum um úrbætur? Sennilega. Eflaust finnst þeim ágætt að vera áskrifendur að laununum sínum en þeir sem þurfa að horfa á þessi ósköp eru ekki ánægðir.

IMG 6123Api í Hveragerði.


1425 - Verðtrygging og þessháttar

003Gamla myndin.
Þetta er víst ég sjálfur. Ósköp hef ég verið mjór þarna!

Ekki er ástæða til að taka mjög alvarlega hótanir Bandaríkjamanna varðandi hvalveiðar. Þeir veiða sjálfir mikið af hval og ályktanir af þessu tagi hafa heyrst fyrr. Einkum virðist þetta gert til að ganga í augun á umhverfisverndarsamtökum.

Hinsvegar finnst mér áþarfi að eyða miklum fjármunum til hvalveiða ef tilgangurinn er einkum eða eingöngu að geta sagt „Við veiðum sko hvali ef okkur sýnist.“ Ekki borðum við hunda en mér er þó sagt að þeir séu vel ætir.

Ef hægri sinnaðir ofstopamenn vilja endilega gera Ísrael og ástandið á Gaza að einhverju sérstöku máli í íslenskum stjórnmálum sýnir það bara málefnafátækt þeirra og mér er alveg sama.

Ég hef áður minnst á Össur Skarphéðinsson og finnst ekki sérstök ástæða til að setja mig upp á móti öllu sem hann gerir. Hegðun hans er samt ekki alltaf heppileg fyrir ríkisstjórnina sem ég styð ennþá þrátt fyrir að mjög sé að henni sótt.

Ekki er að sjá að Skessuhorn ætli að birta áskorun Hörpu Hreinsdóttur til bæjarstjórans á Akranesi. Bíð samt eftir að það verði gert en auðvitað geta verið gildar ástæður fyrir því að það dragist.

Er að hlusta með öðru eyranu á útvarp Sögu. Þar er mikið rætt um verðtryggingu og alveg með ólíkindum hve einfeldningsleg sú umræða er. Í mínum huga er ekkert athugavert við verðtrygginguna sem slíka. Hún er til að tryggja þeim sem lána að þeir fái sambærilegt verðmæti endurgreitt. Það sem mestu máli skiptir er hvernig hún er reiknuð og hve háir vextirnir eru. Auðvitað er hægt að hræra í þessum málum fram og aftur og Arnþrúður reynir það svikalaust.

Galdurinn við að flyja erindi í útvarp um eitthvað hundómerkilegt efni er að tala um það eins og allt sem snertir það sé óskaplega merkilegt. Gæta þarf vel að rödd og hljómfalli. Þannig má komast langt. Upplagt er líka að spila tónlist öðru hvoru bæði til hvíla sig, fá meira borgað og gera efnið áhugaverðara. Mjög gott er að lagið eða textinn sem fluttur er snerti á einhvern hátt efnið sem fjallað er um. Það er þó ekki nauðsynlegt. Oft hef ég hlustað á útvarpsþátt og heyrt talað um hvað allt sé frábært sem snerti það sem talað er um. Maður hrífst með af sannfæringarkrafti flytjandans og fer sjálfur að halda að þetta sé allt stórkostlega merkilegt. Gallinn er sá að eftir hálftíma er maður alveg búinn að gleyma því efni sem fjallað var um. Var það þá ekki merkilegra en það eftir allt saman?

Kannski er því svipað varið með blogg. Mér finnst þetta stórmerkilegt sem ég var að enda við að skrifa en kannski gleymist það lesandanum afar fljótt. Get ég eitthvað gert að því? Myndirnar sem ég set með til skrauts snerta efnið líka yfirleitt lítið. Þá er bara eftir þetta með greiðsluna. Getur ekki einhver borgað mér fyrir að blogga svona viðstöðulaust?

IMG 6107Þuríðarbúð á Stokkseyri.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband