Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2011
21.7.2011 | 00:13
1424 - Pressan og Sævar Ciesielski
Þetta er Ólafur Sigurðsson. Myndin er eflaust tekin að Bifröst. Þrátt fyrir innlifunina held ég að hann hafi ekki spilað mikið á gítar.
Harpa Hreinsdóttir óskapast yfir því á fésbókinni að blaðamannsræfill á Pressunni ruglar saman Akranesi og Akureyri. Vel getur samt verið að flest sé rétt í fréttinni að öðru leyti. Blaðamenn upp til hópa eru afar illa að sér í landafræði og réttritum þó þeir haldi stundum annnað. Að rugla saman Akranesi og Akureyri er auðvitað svolítið gróft, en í huga blaðamannsins líklega ekkert verra en að rugla saman Ólafsvík og Ólafsfirði eða láta Hellisheiðina ná niður að Rauðavatni.
Þegar ég stjórnaði Videókerfinu í Borganesi og það varð nokkuð frægt rak ég mig oft á það hve blaðamenn eru illa að sér um ýmsa algenga hluti. Rugla því saman sem hægt er og manni finnst eðlilegt að allir viti og búa til staðreyndir út og suður. Mér fannst þetta batna um tíma en er að versna aftur. Aðallega held ég að þetta sé vegna þess að yfirlestur annarra aðila á fréttum er að mestu að leggjast af á fjölmiðlum.
Harpa er einnig búin að birta grein á blogginu sínu sem hún hefur sent Skessuhorni til birtingar. Hún ætlar ekki að láta bæjarstjórann eiga neitt inni hjá sér og biður hann að standa við orð sín eða biðja sig opinberlega afsökunar. Hann hafði í frammi meiðandi ummæli um hana í viðtali við Skessuhorn. Fróðlegt verður að sjá hvernig bæjarstjórinn reynir að snúa sig útúr þessu. Hann hefði betur haldið sér saman.
Nokkru eftir að Sævar Ciesielski gaf út bók sína árið 1997 sem var í raun greinargerð hans með beiðninni um endurupptöku Geirfinnsmálsins hafði hann samband við mig útaf því að hann var að hugsa um að gera bókina líka aðgengilega öllum á netinu. Ég var þá nýbyrjaður á Netútgáfunni ásamt börnum mínum og hafði auðvitað hug á að gera veg hennar sem allra mestan. Sævar hafði engan áhuga á að græða á bókarskrifunum og við hittumst nokkrum sinnum til að ræða þetta mál. Ekkert varð þó úr þessu og var helst að skilja á Sævari að hann ætlaði sjálfur að setja bókina á netið.
Mér kom þetta í hug núna þegar Guðmundar og Geirfinnsmálin eru komin til umræðu einu sinni enn. Ég reyndi um daginn að skrifa undir áskorun um endurupptökju Geirfinnsmálsins á fésbókinni, en ég held að það hafi mistekist hjá mér.
Veðrið er nú eiginlega þannig að ekki tekur því að vera að blogga mikið. Hver nennir að vera að lesa blogg þegar sólin skín og svona heitt er í veðri?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
20.7.2011 | 01:01
1423 - Jóhann Jónsson
Hér eru þeir Guðmundur Vésteinsson, Logi Runólfsson og Þórir Gunnarsson. Bifrastarmynd. E.t.v tekin á toppi Baulu.
Ísraelsmenn eru eitthvað óhressir með Össur Skarphéðinsson og Hallgrím Pétursson. Mér er nú sama um það. Sjálfur er ég stundum óhress með Vilhjálm Örn Vilhjálmsson en hann heldur víst að hann eigi að gelta að öllum sem minnast í gagnrýnistón á Ísrael eða Gyðinga.
Ég hef að vísu ekkert sérstakt álit á Össuri en hann vex heldur í áliti hjá mér eftir því sem Ísraelsmenn og Vilhjálmur hallmæla honum meira. Þarf ekki einu sinni að líta á bloggið um ísskápinn til að vita að þar er að finna einhverja skrípamynd af Össuri.
Ég er ekkert viss um að Össur sé heppilegasti maðurinn til að sannfæra Íslendinga um að ganga í ESB, en hann er víst utanríkisráðherra og ekki völ á neinum öðrum. Hann var talsvert órólegur hér áður og fyrr en nú er hann farinn að stillast svolítið.
Finnst einkennilegt hvernig sjálfstæðismenn eru búnir að koma því inn hjá talsvert mörgu fólki að þeir séu manna heppilegastir til að leiða okkur Íslendinga útúr kreppunni. Gerði ágæta vísu um Geir Haarde og landsdóminn um daginn en er því miður búinn að steingleyma henni og skrifaði hana ekki hjá mér.
Er um þessar mundir að lesa Tímarit Máls og Menningar, 2. hefti 2011. Þar er að finna talsverða umfjöllun um Jóhann Jónsson. Hann er skáld sem mörgum er að mestu gleymdur. HKL hefur samt fjallað talsvert um hann í ævisöguritum sínum og hann orti hið fræga kvæði Söknuður sem hefst svona: Hvar hafa dagar lífs þíns lit sínum glatað?
Eftirfarandi umfjöllun er um Jóhann Jónsson á Wikipediu:
Jóhann Jónsson (fæddur 12. september 1896 á Staðastað á Snæfellsnesi, dáinn 1. september 1932) var íslenskur rithöfundur og skáld.
Jóhann ólst upp í Ólafsvík. Hann lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 1920 og fór árið 1921 til Leipzig og kom aldrei aftur til Íslands.
Á barnsaldri fékk Jóhann berkla í annan fótinn og hafði staurfót og gekk haltur. Hann veiktist seinna af lungnaberklum og lést 1. september 1932, aðeins 35 ára gamall. Jóhann ætlaði sér að verða rithöfundur. Halldór Laxness vinur hans safnaði ljóðum hans og ritgerðum saman og gaf út árið 1952 í bókinni Kvæði og ritgerðir.
Eitt ljóð, ljóðið Söknuður er talið hafa sérstöðu meðal ritverka Jóhanns og það er út af því ljóði sem Jóhann er talinn brautryðjandi í íslenskri ljóðagerð. Ljóðin Söknuður eftir Jóhann Jónsson og ljóðið Sorg eftir Jóhann Sigurjónsson eru talin marka upphaf íslenskrar nútímaljóðlistar.
Ég er að hugsa um að hætta að klikka á allan fjandann á fésbókinni. Maður veit ekkert hvað maður er að samþykkja. Klikkaði á eitthvað þar um daginn og hélt að ég væri með því að samþykkja beiðni um endurupptöku Guðmundar og Geirfinnsmálanna en er ekki lengur viss um að svo hafi verið. Endalausar leiðréttingar og athugasemdir um þau mál berast mér nú á vængjum andlitsbókarinnar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
19.7.2011 | 00:06
1422 - Bryndís Schram
Líklega er þessi mynd frá Glaumbæ í Skagafirði.
Nú er illt í efni
hann varð óðamála í svefni.
Nú er farið að síga á seinni hluta dagsins og ég ekki búinn að skrifa neitt. Svona er þetta. Mér finnst ég verða að blogga, þó ég hafi ekkert að segja.
Þeir sem áhuga hafa ættu auðvitað að lesa greinina sem Bryndís Schram skrifar á Eyjuna um ESB. Hún var skólasystir Styrmis Gunnarssonar og stílar þessa grein sína sem bréf til hans. Linkurinn er hér: http://lugan.eyjan.is/2011/06/22/ad-vera-eda-vera-ekki-%e2%80%93-thad-er-spurningin/
Mér finnst þessi grein hjá Bryndísi vera ágæt. Mikið af þeirri umræðu sem fram fer um ESB er samt heldur lítils virði. Oftast nær í hinum séríslenska upphrópunarstíl og kemst lítt að kjarna málsins. Eins og áður hefur komið fram finnst mér kjarni málsins vera aðildin sjálf og hvernig við sjáum hana fyrir okkur í framtíðinni. Ekki einhverjar krónur og aurar (eða evrur) og styrkir, útgjöld, aðlögun og annað þess háttar.
Tvennt athyglisvert hef ég samt rekist á í greinum sem ég hef lesið um málið undanfarna daga. Einhver sagði að starfsmenn ESB væru 35 þúsund en starfsmenn opinberra aðila á Íslandi 37 þúsund. Annar sagði að útgjöld ríkja til ESB séu í mesta lagi um 1 % af samanlögðum útgjöldum þeirra.
Ef menn hafa áhyggjur af því að stóru ríkin í ESB muni kúga þau minni er rökréttast að skoða söguna. Ég held að þau hafi ekki gert það hingað til. Hvers vegna ættu þau þá að taka upp á því núna?
Er bloggið hjá mér að breytast í ESB-blogg. Það var ekki ætlunin. Auk þess legg ég til að tillögur stjórnlagaráðsins verði samþykktar. Mun jafnvel mæla ennþá sterkar með því þegar þær koma fram í endanlegri mynd.
Ein af mínum uppáhalds Íslendingasögum er Eyrbyggja. Þar má finna allt. Þar er m.a. þessi klausa:
Egill hafði skúfaða skóþvengi, sem þá var siður til, og hafði losnað annar þvengurinn og dragnaði skúfurinn. Gekk þrællinn þá inn í forhúsið. En er hann gekk í aðalskálann vildi hann fara hljóðlega því að hann sá að þeir Björn og Þórður sátu við eld og ætlaði Egill nú á lítilli stundu að vinna sér til ævinlegs frelsis. Og er hann vildi stíga yfir þröskuldinn þá sté hann á þvengjarskúfinn þann er dragnaði. Og er hann vildi hinum fætinum fram stíga þá var skúfurinn fastur og af því reiddi hann til falls og féll hann innar á gólfið. Varð það svo mikill dynkur sem nautsbúk flegnum væri kastað niður á gólfið.
Þessu er vel lýst. Hvernig höfundur hefur komist að þeirri niðurstöðu, að nautsbúkurinn þyrfti að vera fleginn, til að samlíkingin væri marktæk, er mér samt hulin ráðgáta. Það var dóttir mín Hafdís Rósa sem vakti athygli mína á þessu og varð það ekki til að minnka aðdáun mína á sögunni.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
18.7.2011 | 00:16
1421 - ESB-ið áfram
Bebba og Ingibjörg sitjandi á tröppum gamla garðyrkjuskólans.
Lagt er til að fólk sniðgangi lambakjöt. Ekki hef ég hugsað mér að gera það. Kannski kaupi ég minna af því næstu dagana, en ég sniðgeng ekki lambakjöt ef það er á boðstólum. A.m.k. ét ég það ekki síður en annað kjöt. Frekar að ég sniðgangi það sem sniðugt er. Fúllyndi er flestu betra. Gott skap er engin leið að bæta.
Af hverju ætti ég að vera að þessu sífellda bloggi. Það taka fáir mark á því hvort eð er. Nær væri að sleikja sólskinið og reyna að njóta útiverunnar þessa örfáu daga með sæmilegum hita, sem gefast árlega hér á landinu.
Svo leggjast menn bara í híði ef andað er á þá. Bæjarstjórinn á Akranesi er t.d. skriðinn undir rúm og svarar ekki þegar yrt er á hann. Páll Baldvin svarar engu og Harpa er í úttlandinu. Ekkert fjör. Ég sem var búinn að hlakka svo til að fylgjast með Akranesbardaganum mikla. Bíð eftir að Páll Baldvin láti heyra frá sér.
Er eitthvað fánýtara en fésbókarþruglið? Jú, ég veit um eitt. Það er að vera sífellt að ergja sig á ruglinu. Af hverju er ég þá alltaf að því? Veit það ekki.
Sumir ESB-andstæðingar láta svo lítið að svara því sem ég skrifa um ESB. Held að þeim þyki lakara að ég er ekki eins orðljótur og sumir aðrir. Finnst út í hött að gera ráð fyrir að ESB-andstæðingar séu eitthvað verr gefnir en aðrir. Þegar umræðan er komin á það stig að farið er að ræða andlegt atgervi einstaklinga þá eru málefnin týnd og tröllum gefin.
Nú er komið sunnudagskvöld og búið að vera mikið að gera hér í allan dag svo þetta blogg er í styttra lagi. En það gerir ekkert til.
Já, og útsýnið er til sölu líka.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 00:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
17.7.2011 | 00:08
1420 - ESB, NATO, stjórnarskárdrög og þessháttar
Þessi mynd er sennilega tekin uppi á Reykjum.
Sé að ég hef ekki fengið Fréttatímann um þessa helgi. Þarf eiginlega að kvarta. Þetta er að verða ágætisblað. Auðvitað má samt skoða það á netinu ef vilji er fyrir hendi.
Vel getur svo farið að þetta blogg verði í styttra lagi. Þó er allsekki víst að svo verði þó mér finnist það núna.
Bragð er að þá barnið finnur, segir máltækið. Arnþór Helgason bloggaði svo fyrir nokkru:
Bilið vex millum alþýðu og yfirvalda
Herra Karl Sigurbjörnsson, biskup, er mikill ræðuskörungur og hefur einwstakt lag á að finna réttum orðum stað á réttum tíma. Við hjónin ætluðum að hlýða prédíkun hans í morgun, en svo varð ekki.
Undanfarin ár höfum við verið viðstödd athöfn á Austurvelli þann 17. júní og haldið þaðan í Dómkirkjuna í Reykjavík að hlýða messu. Í morgun brá svo við, að lögregluþjónar stöðvuðu okkur og greindu frá því að kirkjan væri einungis opin öðrum en almenningi.
Þegar svo er komið að höfuðkirkja landsins er einungis opin boðsgestum á þjóðhátíðardegi landsins, er hæpið að hægt sé að tala um þjóðkirkju. Skiptir þá engu hvort þeir, sem ætla sér að hlýða messu séu utan eður innan þjóðkirkjunnar. Kirkja, sem hýsir einungis valda boðsgesti, er ekki framar kirkja almennings heldur yfirvaldanna.
Þannig endar klausan sem ég tók frá Arnþóri Helgasyni.
Biskupinn hefur sætt nokkru ámæli að undanförnu, en nú virðist hann vera að bíða eftir að öldurnar lægi. Kannski tekst honum að hanga í embættinu eitthvað áfram.
Stjórnarskrárráðsmönnum hefur verið legið á hálsi fyrir að gefa eftir í þjóðkirkjulegum efnum samkvæmt þeim drögum sem þeir virðast ætla að leggja fram. Ekki vilja þeir viðurkenna það, en svo virðist sem samkomulag sé um að deila ekki um það innan stjórnarskárráðsins.
Ég hef áður sagt að nokkrum af heitustu ágreiningsatriðunum varðandi nýja stjórnarskrá þurfi að vísa sérstaklega í þjóðaratkvæðagreiðslu. Með hvaða hætti það er gert þarf ekki að skipta neinu höfuðmáli.
Illugi Jökulsson birtir á sínu bloggi allan stjórnarskrártexta þann sem ráðið er núna að velta fyrir sér. Ég pældi í gegnum hann mestallan og finnst hann of langur og undantekningasamur. Stjórnlagaráðið hefur gengið ansi langt í því að verða sammála. Endanleg gerð textans kann þó að verða þannig að greinileg bót sé að. Um áhrif nýrrar stjórnarskár má deila. Hætt er við að þau verði ekki mikil. Aðskilnaður ríkis og kirkju, þjóðaratkvæðagreiðslur og skiljanlegt kosningafyrirkomulag, sem tryggir sæmilega jafnan kosningarétt, held ég að sé það sem flestir vonast eftir. Ef uppkastið verður ekki samþykkt með verulegum meirihluta mun Alþingi reyna að koma umfangsmiklum breytingum að og þar með er hætt við endalausum pólitískum deilum um málið og alls ekki víst að því ljúki nokkurntíma.
Það sem mér sýnist geta orðið heitasta deilumálið í sambandi við stjórnarskrána er hvort ráðinu muni takast að koma uppkastinu í þjóðaratkvæðagreiðslu án þess að Alþingi krukki í það fyrst.
Ekki heyrist mikið um Sögu Akraness um þessar mundir. Það eru eðlileg viðbrögð hjá bæjarstjóranum að reyna að þegja málið í hel. Óþarfi er hinsvegar að láta hann komast upp með það. Ég á heldur ekki von á að þeir sem hann hefur ráðist á taki því þegjandi hvernig hann hefur látið.
ESB-málin þvælast fyrir mörgum og er það að vonum. Andstæðingar aðildar beita þjóðernislegum rökum og er lítið við því að segja. Það er litlum vanda bundið að halda því fram að betra sé að vera sjálfstæður í kröm og aumingjaskap en að auðgast á því að viðurkenna aðra og eiga samstarf við þá.
Það er samt þreytandi að lesa sífelldar ýkjur og rangfærslur andstæðinga ESB um eignarhald á auðlindum, hernaðaranda og stórríkistilhneigingar, en þeim finnst greinilega þörf á slíku. Á sínum tíma var töluverð andstaða meðal Íslendinga við inngönguna í hernaðarbandalagið NATO og svo er eftilvill ennþá. Sjálfur set ég mörkin við sameiginlegan her og sameiginlega lögreglu ESB-ríkja. Ef í raun og veru stefnir í slíkt innan Efnahagsbandalagsins er mínum stuðningi við aðild lokið.
Já, en þá kynni það að vera orðið of seint, gæti margur sagt. Það er auðvitað alveg rétt, en án áhættu af einhverju tagi er ekkert líf. Stuðningsmenn NATO hafa áreiðanlega ekki reiknað með lögregluhlutverki bandalagsins í fjarlægum heimsálfum, á sínum tíma, eins og nú er orðin raunin. Samt virðist engin hreyfing vera í áttina til sjálfstæðrar fordæmingar á morðæði þess.
Ásmundi dalakút virðist líða svo vel í framsóknarflokknum að ekki heyrist múkk frá honum. Hann er þó vafalaust enn á móti aðild Íslands að ESB. Munurinn er einkum sá að ekki er víst að bændur treysti honum lengur. Aðrir virðast vera farnir að stjórna Heimssýn þó Ásmundur sé formaður að nafninu til ennþá.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
16.7.2011 | 00:08
1419 - Áfram Akranes
Gamla myndin.
Plantað út salati uppi á Reykjum. Ábyggilega er myndin tekin fyrir 1960. Gæti verið ég sem er að henda plöntunum á sinn stað og Gústi langi sem er að bogra við að planta þeim.
Sá eini sem andmælt hefur því sem ég hef skrifað um Sögu Akraness er Jón Valur Jensson og hann vísar allsekki neitt í bókina heldur eingöngu í kynni sín af höfundinum. Gagnrýni mín hefur ekki beinst að höfundinum heldur einkum að bæjarstjórninni og ritnefndinni. Harpa Hreinsdóttir hefur aftur á móti í umfjöllun sinni um verkið gagnrýnt höfundinn fyrir skort á fagmennsku m.a.
Samkvæmt Pressunni eru Gunnlaugur Haraldsson og Páll Baldvin Baldvinsson víst báðir sannir vesturbæingar. Hættir að berjast með trésverðum og farnir að segja urrdan bíttann við lögguna. Hvar endar þetta eiginlega? Verður slagur?
Í Skessuhorni er nú nýlega birt bréf frá tveimur kennurum við Brekkubæjarskóla og Sveinn Kristinsson gagnrýndur sérstaklega. Svo vill til að ég þekki Svein persónulega síðan hann var skólastjóri við Laugargerðisskóla á Snæfellsnesi. Í pólitík veit ég að hann er talsvert vinstrisinnaður og ef til vill hefur það áhrif á skoðanir mínar á bréfi kennaranna. Ég get nefnilega ekki að því gert að mér finnst gagnrýni þeirra á Svein heldur lítilvæg og bréfið alls ekki nógu vel skrifað og fullt af allskyns getsökum. Ég veit ekki hvernig þetta mál fer en reikna með að Sveinn hafi sitt fram.
Það var Harpa Hreinsdóttir sem vísaði mér á bréf kennaranna (á fésbókinni að sjálfsögðu) og ég held að hún sé þeim sammála og hefur e.t.v. meiri þekkingu á því sem þarna er um rætt en ég. Það er alls ekki svo að eðlilegt sé að launþegar hafi ávallt allan rétt sín megin, en vinnuveitendur engan. Þarna þarf að vera jafnvægi á og á endanum er það almenningsálitið sem ræður og ákveður hvað er eðlilegt og sanngjarnt.
Það mál sem kennararnir tveir ræða í bréfinu í Skessuhorni þekki ég alls ekki nógu vel. Er þó hræddur um að pólitík spili þarna inn í og spilli málum ásamt ýmsu sem ekki er sagt frá.
Lögreglan á fésbókinni. DV segir að lögreglan hafi keypt ellefu ipad tölvur og sendi upplýsingar sem óðast á fésbókina. DV hneykslast svolítið á þessu en vel getur þetta orðið til þess að upplýsingar komist hraðar og betur til almennings. Eflaust er líka hægt að misnota þetta og vonandi fylgist DV vel með því.
Í bloggi er oft rætt um tjáningarfrelsi, þöggun, dómsmorð, þrælahald og margt fleira. Þarna eru álitamálin mörg og flestir kjósa að einbeita sér að ákveðnum málum. Fjölmiðlar gera það sama og reyna einkum að hafa áhrif á hugsanir fólks. Almennar skoðanakannanir eru yfirleitt besta ráðið til að komast að því hvernig almenningur hugsar. Margt má að sjálfsögðu um skoðanakannanir segja. Þó er undarlegt hve oft þær dæma hlutina rétt. Í stjórnmálum er þetta afar viðkvæmt mál og flokkarnir reyna eftir mætti að hafa áhrif á hugsanir fólks í stjórnmálalegum efnum.
Nú er Sævar Ciesielski farinn yfir móðuna miklu og Geirfinnsmálið verður eflaust rifjað upp í öllu sínu veldi. Um það má fræðast nokkuð á síðunni mal214.com og krafan um endurupptöku er komin fram og verður jafnvel fylgt eftir. Yfirvöld bæði þá og nú hafa mikla tilhneigingu til að sópa óþægilegum málum undir teppið sé þess nokkur kostur.
Kommur eru leiðinlegar. Sigurður Hreiðar ráðlagði mér einu sinni að setja frekar punkt ef í vafa. Það geri ég nú orðið. Svikalaust.
Margir eru fréttasjúkir og horfa sér til óbóta á fréttatíma ljósvakamiðlanna. Oftast má gera ráð fyrir að þar sé sagt satt. Samt er þagað yfir mörgu.
Gaman er að afbaka málshætti og talvenjur ýmiss konar. Hér eru nokkur sýnishorn sem ég fann í gömlu bloggskjali. Kannski hef ég birt þetta allt áður.
Hann kom eins og þjófur úr heiðskíru lofti.
Hann lenti milli steins og steggja.
Róm var ekki byggð á einni nóttu.
Það er ekki hundur í hættunni.
Betra er að hafa vaðið fyrir ofan sig.
Þar kom horn úr hljóði.
Þegar í harðfennið slær.
Þetta er nú ekkert til að hlaupa húrra yfir.
Þið eruð eitthvað svo spænskir á svipinn.
Ekki fyrr en eftir djúpan disk.
Láttu ekki slá um þig. Þú gætir forskalast.
Hann steig ekki feilnótu í leiknum.
Það þýðir ekkert að efna og efna, en lofa svo aldrei neinu.
Að hellast úr lestinni.
Svo lengist lærið sem lífið.
Að bera í blindfullan lækinn.
Að slá tvö högg með einni flugu.
Hann sendi mér augnatotur.
Sjaldan launar kálfur ofbeldið.
Að slá sjö flugur í sama höfuðið.
Fyrir neðan allan þjófabálk.
Illt er að kenna gömlum hundi að skíta.
Punktur og pasta.
Fátt er svo með öllu illt að ekki geti versnað.
Að hafa vaðið fyrir neðan nefið.
Það verður að taka þetta með almennilegum vettlingatökum.
Það er ekki hægt að koma þessum ketti í nös.
Staður konunnar er á bak við eldavélina.
Að láta ekki deigið síga.
Oft má saltkjöt liggja.
Nú er komið annað hljóð í skrokkinn.
Öl er annar maður.
Gera býflugu úr úlvalda.
Ég er ekkert að tvítóla við þetta.
Að hlaupa upp milli handa og fóta
Hann birtist eins og skrattinn úr sauðalæknum.
Samvinnuháskólinn hefur ætið verið í takt við tímas tönn.
Jakki er ekki frakki nema síður sé.
Stúlka bað mann að vera sér innan fótar.
Sjá sína sæng útbreidda.
Mjúkt er meyjarbróstið, nema harðbrjósta sé.
Eftir limnum dansa karlarnir
Þetta er alveg út í Hróa Hött.
Þegar ein báran rís er önnur stök.
Hríðin var svo dimm að það sást ekki milli augna.
Talaðu við mig milli tveggja augna.
Hann gekk á milli Pontíusar og Pílatusar
Að berjast í bönkum.
Að skjóta stelk í bringu.
Árunni kennir illur ræðari.
Fyrr má nú rota en skjóta.
Margir fara yfir strikið í Kaupmannahöfn.
Oft slettist uppá vínskápinn,
Konur geta verið ísmeygilegar árennilegar og áferðarfallegar.
Já, ég var að taka til og læt margt flakka, en nú er ég hættur.
Tvö ljón gæta mikilfenglegrar byggingar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
15.7.2011 | 00:19
1418 - Páll Baldvin kærður?
Þetta sýnist mér vera minnisvarðinn um Stephan G.
Fjölmiðlar hafa mikið yndi af alls konar könnunum og rannsóknum. Sumt er þar ákaflega óvísindalegt og oft hlægilegt mjög. T.d. man ég eftir að í frétt um nýlega rannsókn sem ég af einhverjum ástæðum las, aldrei slíku vant, kom fram að konur tali 28% meira en karlar. Þetta finnst mér mjög trúlegt. Þær hljóta þá að koma frá sér a.m.k. 28% meiri speki en aðrir.
Heldur virðist vera að hitna í kolunum varðandi Sögu Akraness. Sagt er að bæjarstjórinn á Akranesi ætli fyrir hönd Gunnlaugs Haraldssonar, höfundar verksins, að kæra ritdóm Páls Baldvins Baldvinssonar í Fréttatímanum um síðustu helgi. Ég hef bloggað um þetta mál nokkrum sinnum og ætla ekki að endurtaka það, sem ég hef áður sagt. Ég fylgdist vel með skrifum Hörpu Hreinsdóttur um bókina á sínum tíma, fékk lánað eintak af öðru bindinu hér á bókasafninu og er af ýmsum ástæðum e.t.v. vilhallur í þessu máli. Oft hafa menn verið ósáttir við bókadóma en ekki man ég eftir kærumálum út af slíku. Páll er vissulega orðhákur hinn mesti, en ég á ekki von á að hann verði í neinum vandræðum með að verja sig í þessu máli.
Í Skessuhorni á vefnum er eftirfarandi klausa höfð eftir bæjarstjóranum á Akranesi:
Í þessum skrifum Páls er nefnilega ekki snefill af fræðimennsku en hellingur af fúlmennsku og dágóður slatti af lítilmennsku líka. Mér sýnist Páll af einhverjum óskýrðum ástæðum hafa ákveðið að éta gagnrýnislaust upp þruglið sem bloggari einn hér í kaupstaðnum hefur staðið fyrir linnulítið undanfarnar vikur. Þetta er því alls ekki ritdómur heldur skítkast sem lýsir mjög litlum metnaði en allt of mikilli sjálfsánægju og mjög miklum hroka, yfirlæti og lítilsvirðingu og ekki aðeins gagnvart höfundi sögunnar, ritnefnd og útgefanda, heldur gagnvart öllum Akurnesingum,
Þetta finnst mér vera ærumeiðingar sem Harpa Hreinsdóttir á greinilega að taka til sín. Ég get ekki séð að þessu máli sé lokið.
Grunar samt fastlega að Páll hafi lesið umfjöllun Hörpu Hreinsdóttur um verkið og hyggist styðjast við margt af því sem hún hefur kannað vandlega. Hversvegna er ekki Harpa kærð? Bæjarstjórnin virðist hafa gert ráð fyrir að geta hundsað blogg, en ekki prentað mál. Er greinilega haldin sömu fordómum gagnvart bloggi og margir aðrir.
Dómstólar landsins (og dómarar þar með) eru greinilega líka fordómafullir mjög. Halda greinilega að allt hljóti að vera í lagi ef lagatæknin og útúrsnúningarnir eru það. Dæma t.d. Erlu Hlynsdóttur hiklaust í sekt þó hún hafi einungis sem blaðamaður haft orðrétt eftir öðrum. Til hvers eru ritstjórar eiginlega og hvers eiga prentuð blöð að gjalda þegar allt virðist vera leyfilegt ef um rafræna dreifingu er að ræða? Þetta eru greinilega fordómar hinir verstu þó hægt sé líklega að vefja um þá lagarökum.
Héðan koma víst ORA-baunirnar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
14.7.2011 | 00:12
1417 - Siglufjörður
Ætli þetta sé ekki frá Glaumbæ í Skagafirði.
Ferðalagið um síðustu helgi og Internet-hléið var ágætt. Á Siglufjörð fórum við og gistum þar á tjaldstæðinu. Þar gerði ég eina vísu.
Við mávagarg og mótorskelli
magnast Siglufjarðarspil.
Þar að fá sér hvíld í hvelli
hvet ég þá sem ferðast til
(alsvo hvet til, en ekki ferðast til)
Nei, í alvöru talað, Siglufjörður er staður með sál. Mikið skil ég þá vel sem fæddir eru þar og uppaldir og finnst ekkert annað vera neins virði.
Fyrir þá sem hafa gaman af ferðasögum get ég svosem sagt í stuttu máli hvernig við vörðum þessu mini-sumarfríi.
Fyrst fórum við að mestu rakleiðis til Akureyrar og vorum komin þangað seint á föstudagskvöld. Áttræðisafmælisveislu fórum við svo í á laugardagskvöldið. Sunnudagurin og mánudagurinn fóru að mestu í hringferð um Tröllaskaga. Fyrst fórum við í gegnum Dalvík og svo um Múlagöngin (þann einbreiða andskota) til Ólafsfjarðar og þaðan um Héðinsfjarðargöngin nýju. Stoppuðum smástund í Héðinsfirði þó þar sé fátt við að vera og stutt á milli gangnamunnanna. Náttúrufegurð er þar mikil og ekki minnkar hún þegar búið er að fara um seinni hluta ganganna og komið til Siglufjarðar.
Þar tjölduðum við á tjaldstæðinu og vorum um nóttina. Fórum svo áfram um Strákagöng og komum við á Hofsósi og Sauðárkróki og fórum síðan aftur á Akureyri og gistum þar. Þriðjudagurinn fór svo í heimferðina.
Eitthvað voru menn óhressir hér á Moggablogginu um daginn með stuðning minn við ESB-aðild. Finnst ekki ástæða til að endurtaka það sem áður var sagt né svara kommentum frá því í síðustu viku. Fitja má þó að sjálfsögðu uppá ýmsu aftur, sem áður var komið fram.
Ég forðast yfirleitt fréttablogg. Útlendingar sem við hittum á Siglufirði höfðu nokkrar áhyggjur af því hvernig komast skyldi yfir Múlakvísl, en ekkert voðalega miklar. Eftir fréttum þaðan að dæma er ástandið eintómur og endalaus fíflagangur. Þegar brúin sem upphaflega átti að taka a.m.k. þrjár vikur að gera verður komin í gagnið hættir þetta kannski. Þangað til fá erlendir ferðalangar ævintýrin ókeypis og drepast kannski í ofanálag.
Hvenær verður texti nægilega góður til að maður hætti að reyna að lagfæra hann. Kannski aldrei. Kannski þegar maður er við það að hætta að skilja hann sjálfur. Auðveldastur er texti sem lýsir einhverju áþreifanlegu. Þá reynir maður að lesa textann og skilja eins og ómálga barn mundi skilja hann. Eyðir þeim atriðum sem hægt er að misskilja og styttir hann síðan eins og hægt er.
Talið er að um 30 kynslóðir hafi lifað í landinu frá því það byggðist. Einhverntíma sá ég listaverk sem sýndi þetta með grafískum hætti. Þá voru 30 staurar reknir ofan í jörðina með vissu millibili og enduðu úti í sjó.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
13.7.2011 | 00:09
1416 - Saga Akraness
Guðmundur Bjarnason, Örn Jóhannsson og Kristinn Antonsson. Engir smá töffarar.
Páll Baldvin Baldvinsson dæmir bókina Sögu Akraness hart. Mjög hart. Ég hef á tilfinningunni að hann hafi a.m.k. litið yfir það sem Harpa Hreinsdóttir hefur skrifað um bókina og tilurð hennar. Kannski treystir hann á alla þá rýnivinnu sem hún hefur framkvæmt. Fyrir mér er þetta alltsaman nokkuð dæmigert fyrir það að óhæf nefnd (í skjóli bæjarstjórnar) sér eftir þeim peningum sem búið er að henda í ákveðið verk og ákveður að henda meiri peningum í það í þeirri von að vanhæfi þeirra blasi ekki eins við. Bókin er misheppnuð mjög og dýr þar að auki.
Las dóm Páls Baldvins og fyrir utan öll stóryrðin tók ég eftir því að hann fullyrti að enginn ritstjóri hafi verið að verkinu. Það er kannski helsti gallinn. Úr kenningum Gunnlaugs og efni því sem hann virðist hafa haft undir höndum hefði verið hægt að gera eina snotra bók í skikkanlegu bandi. Stór hluti bókarinnar held ég að eigi ekkert erindi á prent. Sú ákvörðun að hafa bókina svona stóra og þunga og prentaða á svona vandaðan pappír er líklega til þess að geta afsakað betur allt það fé sem hent hefur verið í þessa hít.
Sko, á föstudaginn fór ég að vinna eftir hádegið og síðan beint til Akureyrar og hef verið í algjöru netfríi síðan þangað til núna rétt áðan. Þ.e.a.s. um klukkan 22 á þriðjudagskvöldi. Ýmislegt hefur á mína daga drifið á þeim tíma og ekki síður á daga bloggsins míns. Ég er víst búinn að tapa flestum bréfskákunum mínum á tíma en það gerir lítið til. Sé að ég hef verið byrjaður á bloggi á föstudaginn og það fer hér með á Moggabloggið, en ekki mikið annað.
Athugasemdirnar við mitt síðasta blogg, sem ég setti upp eftir miðnætti á fimmtudagskvöldið síðasta, eru nokkuð góðar og ég var að burðast við svara einhverjum þeirra áðan.
Af því fésbókin var ekki nærri nógu flókin er nú búið að finna upp eitthvað sem heitir Netlog. Ég er mestu hættur að botna nokkuð í fésbókinni svo ég reikna ekki með að fara þangað nema öðru hvoru framvegis og þá aðallega til að tékka ég bréfskákunum. Hinsvegar á ég von á að halda áfram að blogga á Moggablogginu, fái ég það.
Háskólinn í Reykjavík, einu sinni enn.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
8.7.2011 | 00:15
1415 - Meira um ESB
Hún er líklega tekin í skólaferðalagi fyrir 1960. Þetta var nýjasta tækni þess tíma. (Fyrir norðan). Ég hafði séð hesta teymda fram og aftur til að snúa hrærivélum en aldrei þessa aðferð. Mikil framför frá því að hræra í höndunum greinilega.
Það eru ekki vitrænar rökræður um ESB-aðild ef annar aðilinn setur reglurnar (og feitletrar) til að koma sinni predikun að. Haraldur Hansson sagðist vilja rökræða aðild að ESB en vildi svo (að mínu áliti) bara tala um það sem hann áleit vera óskert sjálfstæði. Það er samt rétt hjá Haraldi að aðildarumræður eru á villigötum ef aðeins er rætt um styrki og undanþágur. Slík umræða snertir alls ekki kjarna málsins. Kjarni málsins er aðildin sjálf. Hver þróunin verður í framtíðinni skiptir mestu máli. Ekki hvernig hlutirnir líta út akkúrat núna. Það er samt ekkert einkennilegt við það þó margir líti fyrst og fremst til veskisins og hvaða áhrif líklegt sé að aðild hafi peningalega séð í nánustu framtíð.
Í mínum huga hafa styrkirnir það markmið að jafna sem mest aðstöðu einstaklinga og auðvitað er líklegra þegar til lengdar lætur að jöfnunin verði í átt til miðjunnar en til toppsins. Við Íslendingar erum vanir að álíta okkur okkur fast við toppinn á öllum sviðum. Ég tel þó svo ekki vera.
Undanþágurnar eru til að milda áhrif þess á þjóðir að taka upp reglugerðir ESB í stað sinna eigin sem oft miða einkum að því að festa í sessi landlæga spillingu og vanþróun til að fá viðkomandi almenning til að sætta sig betur við ofurvald yfirstéttarinnar. Það er ekkert einkennilegt við það að ráðandi stétt líti hornauga allar tilraunir til að taka þetta vald af henni. Að því leyti má auðvitað segja að ESB sé fulltrúi vissrar tegundar af sósíalíseringu.
Ef því er raunverulega trúað að allar þjóðir sambandsins hafi (kannski án þess að vita það) með öllu glatað framtíðarsjálfstæði sínu og hafi enga möguleika á að endurheimta það, þá er það auðvitað rétt að skert eða óskert sjálfstæði skiptir miklu máli. Jafnvel mestu. Svo er þó alls ekki og auðvelt er að sannfærast um slíkt. Rökræður um aðild geta því aðeins haft eitthvert gildi að hægt sé að ræða allt sem hana snertir. Annar aðilinn getur ekki sett fyrirframreglur um að umræðan fari bara fram á sínum forsendum.
Nú er ég að predika og nota mér það að ég á þetta blogg. Umræður í athugasemdadálkum geta einungis farið fram í símskeytastíl. Alls ekki er hægt að koma mörgu að. Nauðsynlegt er að takmarka umræðuna þar sem mest með því að hafa athugasemdirnar stuttar. Læt ég svo útrætt um þetta mál að sinni en viðurkenni að ég var ansi stuttaralegur í svörum við Harald um daginn.
Ef ég á að halda áfram að fabúlera um ESB þá er vel hægt að líta á þá pólitísku þróun sem hefur átt sér stað. Evrópuþjóðirnar væru alls ekki það mótvægi við yfirburðaáhrif USA í heiminum sem þær þó eru ef ekki væri vegna ESB. Samvinna þjóðanna í Evrópubandalaginu hefur á öllum sviðum aukið styrk þeirra á heimsvísu.
Sú gagnrýni að ESB sé klúbbur þeirra ríku til þess að halda þeim fátæku (þróunarlöndunum) í burtu og utan við allar framfarir finnst mér miklu alvarlegri gagnrýni en að ESB leggi undir sig náttúrauðævi aðilarríkjanna og vilji öllu ráða. Auðvitað koma smáríki eins og Ísland ekki til með að ráða eins miklu og stóru ríkin í einstökum málum. Það er auðvitað fáránlegt að gera ráð fyrir því. Smáríkin geta samt á ýmsan hátt ráðið miklu um þróun bandalagsins.
Um daginn birti ég mynd af því sem ég kallaði Stonehenge hið nýja og líka mynd af leirplatta með tveimur fánum. Þetta hvorttveggja er hluti af listaverkum sem skólarnir í Kópavogi standa að og er að finna víða við göngustígana í Fífuhvammi. Fræðsla um ýmislegt sem þar er gæti vel verið hluti af þessu bloggi.
Klassiska aðferðin við að þagga niður í þeim sem eru að jagast útaf spillingu er að bjóða þeim að kjötkötlunum líka. Ekki virðist vera hægt að notast við þessa einföldu aðferð gagnvart DV og þessvegna eru menn svolítið viðkvæmir fyrir því sem þar birtist. Reyna jafnvel að réttlæta sig. Svo má líka kæra blaðamennina og sjá hvort ekki er hægt að hræða þá svolítið. Sjálfsritskoðun er nefnilega best allra ritskoðana frá sjónarmiði þeirra sem telja sig þurfa ritskoðunar við. Sumum finnst svo kannski vera farið að þrengjast við kjötkatlana eða að jagið sé ekki af réttri gerð og þá má prófa að hella sér yfir viðkomandi og skammast svolítið. Þetta þekkja allir og ég ætla ekkert að leggja meira útaf þessu.
Veðrið er svo gott núna að ekki er hægt að ætlast til að fólk lesi blogg í stórum stíll. Nóg er nú samt og blíðudagarnir hér á Íslandi eru sjaldan margir á sama sumrinu.
Hef ekki hugmynd um hversvegna þetta er gert.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (25)