1425 - Verðtrygging og þessháttar

003Gamla myndin.
Þetta er víst ég sjálfur. Ósköp hef ég verið mjór þarna!

Ekki er ástæða til að taka mjög alvarlega hótanir Bandaríkjamanna varðandi hvalveiðar. Þeir veiða sjálfir mikið af hval og ályktanir af þessu tagi hafa heyrst fyrr. Einkum virðist þetta gert til að ganga í augun á umhverfisverndarsamtökum.

Hinsvegar finnst mér áþarfi að eyða miklum fjármunum til hvalveiða ef tilgangurinn er einkum eða eingöngu að geta sagt „Við veiðum sko hvali ef okkur sýnist.“ Ekki borðum við hunda en mér er þó sagt að þeir séu vel ætir.

Ef hægri sinnaðir ofstopamenn vilja endilega gera Ísrael og ástandið á Gaza að einhverju sérstöku máli í íslenskum stjórnmálum sýnir það bara málefnafátækt þeirra og mér er alveg sama.

Ég hef áður minnst á Össur Skarphéðinsson og finnst ekki sérstök ástæða til að setja mig upp á móti öllu sem hann gerir. Hegðun hans er samt ekki alltaf heppileg fyrir ríkisstjórnina sem ég styð ennþá þrátt fyrir að mjög sé að henni sótt.

Ekki er að sjá að Skessuhorn ætli að birta áskorun Hörpu Hreinsdóttur til bæjarstjórans á Akranesi. Bíð samt eftir að það verði gert en auðvitað geta verið gildar ástæður fyrir því að það dragist.

Er að hlusta með öðru eyranu á útvarp Sögu. Þar er mikið rætt um verðtryggingu og alveg með ólíkindum hve einfeldningsleg sú umræða er. Í mínum huga er ekkert athugavert við verðtrygginguna sem slíka. Hún er til að tryggja þeim sem lána að þeir fái sambærilegt verðmæti endurgreitt. Það sem mestu máli skiptir er hvernig hún er reiknuð og hve háir vextirnir eru. Auðvitað er hægt að hræra í þessum málum fram og aftur og Arnþrúður reynir það svikalaust.

Galdurinn við að flyja erindi í útvarp um eitthvað hundómerkilegt efni er að tala um það eins og allt sem snertir það sé óskaplega merkilegt. Gæta þarf vel að rödd og hljómfalli. Þannig má komast langt. Upplagt er líka að spila tónlist öðru hvoru bæði til hvíla sig, fá meira borgað og gera efnið áhugaverðara. Mjög gott er að lagið eða textinn sem fluttur er snerti á einhvern hátt efnið sem fjallað er um. Það er þó ekki nauðsynlegt. Oft hef ég hlustað á útvarpsþátt og heyrt talað um hvað allt sé frábært sem snerti það sem talað er um. Maður hrífst með af sannfæringarkrafti flytjandans og fer sjálfur að halda að þetta sé allt stórkostlega merkilegt. Gallinn er sá að eftir hálftíma er maður alveg búinn að gleyma því efni sem fjallað var um. Var það þá ekki merkilegra en það eftir allt saman?

Kannski er því svipað varið með blogg. Mér finnst þetta stórmerkilegt sem ég var að enda við að skrifa en kannski gleymist það lesandanum afar fljótt. Get ég eitthvað gert að því? Myndirnar sem ég set með til skrauts snerta efnið líka yfirleitt lítið. Þá er bara eftir þetta með greiðsluna. Getur ekki einhver borgað mér fyrir að blogga svona viðstöðulaust?

IMG 6107Þuríðarbúð á Stokkseyri.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Skessuhorn slengir oft aðsendum greinum í kippu á vefinn, sumum talsvert löngu eftir að þær birtust í blaðinu. Í mínu tilviki skiptir dráttur engu máli því ég birti hvort sem er greinina sjálf á blogginu mínu.

Harpa Hreinsdóttir 22.7.2011 kl. 10:14

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband