1429 - Skák og blogg

7Gamla myndin.
Hér er Kristinn Jón Kristjánsson svolítið hátt uppi.

Af hverju les fólk blogg. Eftir áralanga umhugsun hef ég komist að þeirri niðurstöðu að fólk lesi blogg einkum til að fá viðbótarsjónarhorn á fréttir. Það er engin tilviljun að fréttablogg ýmisskonar eru vinsælust. Fyrirsagnir skipta líka talsverðu máli. Ef fólk heldur að hatrammar deilur séu í uppsiglingu á viðkomandi bloggi eykst áhuginn á því að mun. Mikill fjöldi athugasemda veldur líka auknum áhuga. Þannig má lengi telja.

Bloggarar þurfa líka helst að vera þekktir fyrir eða hafa áunnið sér einhverjar vinsældir í bloggheimum til að vert sé að fylgjast með þeim. Blogg voru í mikilli tísku fyrir nokkrum árum en eru ekki lengur eins áhugaverð frá sjónarmiði lesenda. Af einhverjum ástæðum vill fólk yfirleitt ekki viðurkenna að það lesi blogg og lítur svolítið niður á þau. Fésbókin er meira svona tæki sem allir geta notað til að fylgjast svolítið með. Þar er gott að vingast við einhvern sem er duglegur að „læka“ og flakkar mikið um íslenskar netlendur.

Að tefla skák og að blogga er tvennt af því sem mér finnst hvað mest gaman að gera á netinu. Ég hef líka vanið mig á að láta netið og sjónvarpsfréttirnar duga til að fylgjast með fréttum dagsins, en get ekki sagt að mér sé yfirleitt skemmt við það. Ég hef hér á blogginu mínu oft fjölyrt um bloggunina. Nú ætla ég að reyna að skilgreina skáknáttúruna aðeins.

Að mestu leyti tefli ég núorðið bara bréfskákir. Það er afar þægilegt að gera á netinu og eftir að maður er búinn að venja sig af að fylgjast mikið með stigunum sínum getur það orðið mjög skemmtilegt. Hæfilegur fjöldi skáka skiptir mestu máli.

Bréfskákir eru talsvert frábrugðnar öðrum skákum. Mest er það af því að tímafaktorinn er alfarið á þinni hendi og andstæðingurinn hefur ekki hugmynd um hvernig hann er. Það hve miklum tíma þú getur eytt á hverja skák fer alls ekki eftir skákinni sjálfri. Heldur ýmsu öðru. Einkum þeim fjölda af skákum sem þú ert með í gangi á hverjum tíma.

Nauðsynlegt er að venja sig af því að taka bréfskákirnar mjög alvarlega. Þær geta að vísu vel haft áhrif á hvernig manni líður, en það er þýðingarlaust að reyna að útskýra það fyrir öðrum.

Langstærsti gallinn við bréfskákirnar er sá að þú hefur enga hugmynd um hvað andstæðingurinn leggur hart að sér. Auðvitað er það líka einn af kostunum við bréfskákirnar hve auðvelt er að útiloka allt sem minnir á andstæðinginn. Þá er bara skákin eftir. Það er enginn að horfa á og heykslast á því hvað þú ert vitlaus, þó þú leikir af þér. Þú tapar í versta falli fáeinum stigum.

Sem sá fésbókarandstæðingur sem ég er, (er nefnilega séfellt að jagast út í hana) finnst mér jákvætt hve vel hún grisjar bloggarahópinn. Eftir því sem fækkar í þeim hópi lítur mitt blogg betur út. Eðlilega. En það dugar ekki að leggjast bara í híði og halda að nú sé allt orðið harla gott. Nei, þetta er stöðug vinna. Nú er ég kannski um það bil að verða bestur í hópi vinstri sinnaðra Moggabloggara. Ehemm, þetta hljómar nú ekki nógu vel. Eru þeir Moggabloggarar sem eftir eru flestir hægrisinnaðir? Mér finnst það, já. En nú er ég óvart kominn út í það sem margir vilja einkum eigna blogginu. Þ.e.a.s. blessaða pólitíkina. -Það sem helst hann varast vann, varð þó að koma yfir hann.- Þetta er annaðhvort tilvitnun í málshátt eða ljóðlínur.

Mjög er nú umtalað hjá pólitískum bloggurum hvaða skoðanir „Breiðvíkingurinn“ norski hafi á hinu og þessu. Hef ekki lesið neitt eftir hann eða séð myndband það frá honum á youtube sem ku orðið mjög vinsælt. Einhver sagði að „manifesto“ hans væri að mestu komið úr „Unabomber“ þvættingi sem birtur var einhversstaðar um árið.

Pólitískir bloggarar hamast nú sem mest þeir mega við allskyns skilgreiningar. Reyna samt að forðast að lenda uppí hjá „Breiðvíkingnum“ en annars er þeim fátt heilagt. Nasismi, fasismi, kommúnismi, hægriöfgar, vinstriöfgar, amx, alþýðubandalag og allskyns stefnur eru skilgreinar út og suður án þess að nokkur niðurstaða fáist. Pólitísk áhrif til langs tíma af ódæðum Norðmannsins geta samt orðið einhver. Sjáum til.

Ég er stundum að gera tilraunir við að gúgla á sem fjölbreyttastan hátt. Núna áðan datt mér í hug að gúgla „bloggið hans Sæmundar“. Þá datt ég inná langa færslu eftir Jóhannes Laxdal Baldvinsson sem hann kallar: „Kveðið við Sæma“ og ég hef ekki séð áður. Færslan byrjar þannig:

2009 fór ég að venja komur mínar á bloggið hans Sæmundar Bjarnasonar.
þar var einnig velþekktur bloggari, Steini Briem. Einhvern veginn æxlaðist þannig að við fórum að yrkjast á. Til að halda mínum hlut til haga birti ég hérna það helsta sem ég orti
Allt eru þetta tækifærisvísur og ber að dæma sem slíkar. Flest skýrir sig sjálft en upprunann má lesa á blogginu hans Sæma
hér tímabilið var 2009 til apríl 2010

p.s Sæmundarháttur í bloggi er að skrifa um blogg af lítilli hæversku


Vekur oss til vitundar
á viskunni er ekkert lát
Heimsspekin hans Sæmundar
heimaskíts mig gerði mát

Og áfram heldur hann með vísurnar. Þetta blogg er hvorki meira né minna en heilt vísnasafn. Jóhannes hefur haldið til haga flestöllum þeim vísum sem hann orti og birti á mínu bloggi. Þið sem hafið áhuga, vinsamlega lesið þessa færslu. Þið sjáið ekki eftir því. Urlið er svona: http://johanneslaxdal.blog.is/blog/johanneslaxdal/entry/1108317/ Vissi ekki að ég væri svona frægur.

Jóhannes segir hikstalaust að það sé Sæmundarháttur í bloggi að skrifa um blogg af lítilli hæversku. Þessu er ég ekki alveg sammála. Hef með sjálfum mér talið að það væri að blogga mikið um blogg. Það getur svosem líka verið að einhverjir séu hæverskari en ég.

Þó ekki Stefán Pálsson vinstrigræni. Ég las bloggið hans einu sinni mjög reglulega og hef kannski lært eitthvað af honum. Hann var vanur að halda því fram fullum fetum að hann væri besti bloggari landsins. Svo var honum óskaplega uppsigað við Moggabloggið þegar það hóf sína tilveru (skemmdarstarfsemi) og tilkynnti hátíðlega að það væri dautt eftir að hann hafði flutt því reglulegar bölbænir lengi og nennti því ekki lengur. 

IMG 6180Hluti af furutré.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

"Það sem að helst hann varast vann, varð þó að koma yfir hann" er úr Passíusálmum séra Hallgríms Péturssonar, um afneitun Péturs nokkurs postula á meistara sínum. Nú mun séra Hallgrímur hafa orðið einn af helstu gyðingahöturum sögunnar eftir að meistari okkar sósíaldemókreta heimsótti Gaza.

Ellismellur 26.7.2011 kl. 09:14

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Já og Zion-meistarinn okkar mikli í Köben lét ljós sitt skína. Hefur hann annars ekki látið ljós sitt skína að undanförnu? Hef bara ekki tékkað á því.

Sæmundur Bjarnason, 26.7.2011 kl. 10:36

3 Smámynd: Sigurður Hreiðar

Það er orðinn ávani hjá mér að gá hvað Sæmi er að blogga þennan daginn. Og hvaða fornmyndir hann sýnir. Fengur þótti mér að myndinni af Hróari og Herði, ætla að reyna að bísa henni til mín. Og margt skólasystkina sem þú sýnir voru líka skólasystkini mín og kunningjar, ekki öll lengur á meðal vor.

Ekki er ég alltaf jafn hrifinn af bloggi þínu. Og pælingar um hvað sé gott blogg og hvað ekki og hverjir séu góðir bloggarar eru eins og flugnasuð í höfði mínu. Jafnvel skárra þegar þú lofsyngur ESB sem mér þykir þó tvíbent sælgæti. Best þegar þú fílósóferar um lífið og tilveruna almennt og hvað á daga þína hefur drifið og hver urðu viðbrögð þín við því.

Best held ég að mér þyki þau blogg og bloggarar sem gefa af sjálfum sér, bregðast við atburðum líðandi stundar og hvernig þeim sjálfum líður gagnvart þeim, segja frá einhverju sem er þeim minnisstætt og jafnvel fabúlera um hvað þeir ætla nú að gera í framtíðinni.

Sástu minningarorðin um Eden? Ekki veit ég hver orti: Bruninn hrelldi margan mann mjúkan ís sem sleikti. Eden brann því apinn fann eldspýtur og kveikti.

Sigurður Hreiðar, 26.7.2011 kl. 10:49

4 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Vísan um Eden er ágæt, en við Hvergerðingar tengjum apa heldur við gróðurskála Palla Mikk sem var aðalsamkeppnisaðili Eden í eina tíð. Lifandi api held ég að aldrei hafi verið í Eden.

Ég er ekkert hissa á því að gömlu myndirnar skuli draga þig að blogginu. Fleirum er e.t.v. eins farið.

Almenna gagnrýni þín á bloggið mitt er ég feginn að fá. Það eru ekki margir sem láta svo lítið. Ekki er ég endilega samþykkur öllu sem þú segir en mun a.m.k. taka tillit til þess.

Mér finnst lífið og tilveran vera m.a. blogg og tengd atriði svo ég sé ekki misræmið í því. Sumum finnst bloggið samt vera afar ómerkilegt og ekki get ég gert við því.

Sæmundur Bjarnason, 26.7.2011 kl. 18:46

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband