Bloggfærslur mánaðarins, maí 2011
21.5.2011 | 00:16
1367 - Skyldublogg
Gamla myndin.
Sé ekki betur en þetta séu Siggi í Fagrahvammi og Lárus Kristjánsson. Sennilega höfum við verið í gönguferð þegar þessi mynd var tekin. Hún er að vísu pínulítið óskýr en ekki sem verst samt.
Nokkur hópur fólks, sem hugsanlega eru í um 3 til 4 hundruð manns (næstum áreiðanlega samt ekki færri en svona tvöhundruð), les eða kíkir á bloggið mitt nokkuð reglulega. Hvernig þessi hópur er samsettur veit ég lítið um en örugglega er ekki eingöngu um að ræða ættingja og skólafélaga, þó margir séu það eflaust. Hversvegna þetta fólk er að kíkja á bloggið mitt veit ég ekki, en geri mér í hugarlund að það sé vegna þess að því líkar sæmilega vel að lesa það sem ég skrifa þó auðvitað sé það enganveginn sammála öllu sem ég festi á blað.
Þó ég viti lítið um þennan hóp veit ég að svona 30 til 50 af honum eru ekki verulega handgengnir tölvum. Flestir virðast skoða bloggið mitt seinni part dags eða snemma kvölds. Ég gæti líklega að einhverju leyti komist að því hvaðan þetta fólk kemur (þ.e.a.s. frá hvaða IP-tölum það nálgast mitt blogg) en hef ekki mikinn áhuga á því. Langflestir koma eflaust frá Íslandi en þó ekki allir.
Mér finnst ég vera á einhvern óútskýranlegan hátt skuldbundinn þessum hópi. Skuldbundinn til að skrifa oft og einkum á þann hátt sem mér er eiginlegastur. Þ.e.a.s. vaða úr einu í annað og skrifa svolítið öðruvísi en flestir aðrir. (Eins og gamalmenni sæmir, mundu einhverjir segja) Líka þarf það sem skrifað er að fljóta sæmilega sem ég kalla. Þ.e.a.s. það þarf að vera án áberandi hnökra og að sem mestu leyti án möguleika á misskilningi. Til þess þarf að lesa sæmilega yfir. Það er engin von til þess að maður skrifi langt mál í fyrstu tilraun án þess að einhverjir hnökrar séu á því.
Horfði á landsleik í knattspyrnu í sjónvarpinu í gærkvöldi og hafði gaman af. Þetta var landsleikur í kvennafótbolta við landslið Búlgaríu. Íslendingar unnu 6:0. Samt var talað um að íslenska liðið hefði ekki leikið neitt sérstaklega vel og mér fannst eiginlega að menn hefðu viljað meira. Þetta sýnir ágætlega stöðu kvennafótboltans á Íslandi. Verst að það verða líklega ekki jólin í þessu efni endalaust.
Sagt er að bæði Birgitta Jónsdóttir og Birna Þórðardóttir hafi verið á snobbsamkomunni sem markaði opnun tónlistarhússins Hörpunnar. Ekki er ég hissa á því. Þeim hefur sjálfsagt verið boðið og enginn hefði grætt neitt á því þó þær hefðu ekki mætt. Þó menn eins og ég hafi einhverja ánægju af þvi að kalla þær snobbhænsni fyrir vikið er ekki þar með sagt að nein ástæða hafi verið til að neita að mæta. Alveg væri ég hugsanlega til með að þiggja boð á eitthvað sem mig langaði að sjá gegn því að vera kallaður snobbhænsni.
Sagt er að ESB íhugi plastpokabann eða a.m.k. að setja á þá mengunarskatt. Mér líst ágætlega á það. Plastpokarnir sem notaðir eru hér í verslunum eru bæði afskaplega ónýtir og alltof stórir. Þar að auki eru þeir áreiðanlega margfalt dýrari en þeir þyrftu að vera. Verslanir hækka þá í verði að vild og segja að sala þeirra sé í þágu góðs málefnis. Sem er mestanpart lygi. Kannski skila samt sumar verslanir gróðanum af pokasölunni eftir dúk og disk þegar búið er að hafa hann lengi í veltunni.
Út er komin bókin um Akranes sem Harpa Hreinsdóttir hefur verið að blogga um að undanförnu og gagnrýna. Bæjarstjórinn gumar af því hve ódýr bókin hafi verið. Ekki er ég viss um að allir séu því samþykkir. Hugsanlega hefði hann ekki átt að tala um verðið. Það gæti orðið honum dýrt spaug.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
20.5.2011 | 00:13
1366 - Heimsendir
Gamla myndin.
Þetta er húsið okkar að Hveramörk 6. Ég man að ég var nokkuð ánægður með þessa mynd þó skugginn af mér sæist á henni.
Búið er víst að spá heimsendi n.k. laugardag. Held að þessi heimsendaspá sé ósköp lík þeim venjulegu sem sífellt eru að koma frá sértrúarsöfnuðum allskonar. Það sem er einkum frábrugðið núna er að í þetta sinn er það auglýst í sjónvarpi. Einhverjir gera ráð fyrir að krakkar og óharðnaðir unglingar kunni að trúa þessu og því sé varasamt að leyfa auglýsingar af þessu tagi. Tek ekki afstöðu í því efni en ósmekklegt er þetta.
Er að hita mér hafragraut. Því miður kemur hann ekki sjálfur. Jafnvel þó ég gæti gripið skeiðina er ég ekki viss um að hann gerði það. Hann er reyndar ágætur þegar búið er að bæta í hann hunangi, kanel, döðlum, mjólk og fleiru. En afleitt er og alltof dýrt að nota Sólgrjón í hann.
Hef svolítið verið að hlusta og horfa á útsendingu frá Alþingi undanfarið og finnst atkvæðagreiðslur þar um afbrigði vegna þess að svo háttar til" vera með þeim algengustu.
Það er óttalegur ósiður að láta svona og réttast væri auðvitað að neita slíku alltaf. Að þetta skuli yfirleitt þurfa um ný mál bendir til þess að þingsköp séu mjög gölluð. Enginn reki virðist samt vera gerður að því að laga þetta. Þeim sem á forsetastóli sitja hverju sinni finnst greinilega sjálfsagt að þetta sé samþykkt. Mér finnst þetta samt vera eitt af þeim atriðum sem dregur úr virðingu alþingis.
Sumir þingmenn virðast misskilja það sem sagt er um hálftíma hálfvitanna og halda að það eigi að láta eins og hálfvitar þá. Finnst annars ekki rétt að blanda alþingi mjög í hugleiðingar þær sem hér eru fram bornar.
Þó mér leiðist pólitík get ég ekki að því gert að mér finnst sjálfstæðisþingmenn ganga of langt í LÍÚ-þjónkun sinni.
LÍÚ-menn töpuðu einfaldlega í kvótamálinu. Þeir létu Gylfa og hina Alþýðusambandsmennina snúa á sig áróðurslega. Þar að auki snerust síðustu kosningar ekki bara um Hrunið heldur jafnframt um kvótamálin. Þau eru lengi búin að krauma í þjóðfélaginu en með hruninu varð augljóst hver hugur þáverandi ríkisstjórnar var í því efni.
Mín skoðun er sú að þeir sem eiga 10-11 búðirnar séu þjófar og ræningjar. Fyrir nokkrum vikum keypti ég þar einn lítra af mjólk. Hann kostaði 154 krónur. Það finnst mér of mikið. Ef ég mögulega get reyni ég að komast hjá því að versla við slíka okurbúllu. Núna áðan (um kl 11 í kvöld) keypti ég mjólkurfernu í Nóatúni (sem er líka opið alla nóttina) á 112 krónur. Samskonar fernur er hægt að fá hjá bakaríum á landsbyggðinni fyrir 120 krónur. Ég vorkenni þessum þjófum ekki að hafa verðið svipað.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
19.5.2011 | 00:19
1365 - Steinn Steinarr
Gamla myndin.
Hér er Bjössi við taflið mitt. Þessi mynd þótti nokkuð góð. Gott ef hún var ekki stækkuð og sett í ramma á sínum tíma.
Þann 18. dag janúarmánaðar árið 1957 skrifaði Steinn Steinarr eftirfarandi bréf fyrir sína hönd og konu sinnar til Gunnars Thoroddsen sem þá var borgarstjóri í Reykjavík:
Það er upphaf þessa máls, að við undirrituð eldri hjón, til heimilis að Fossvogsbletti 45 við Sléttuveg í Reykjavík, höfum undanfarin 2 ár haldið hundtík eina, mórauða og gamla nokkuð. Vel er okkur ljóst, að slíkt uppátæki stríðir í móti lögum og rétti þess bæjarfélags, hverju við tilheyrum. En allt um það höfum við, svo sem oft vill verða bundið nokkurn kunningsskap og jafnvel vináttu við þetta fátæklega kvikindi, svo og það við okkur, eftir því sem næst verður komist.
Nú höfum við síðustu daga orðið þess greinilega vör, að æðri máttarvöld hyggjast láta til skarar skríða gegn hundtík þessari, og sjáum við ekki betur en að í nokkurt óefni sé komið. Þess vegna spyrjum við yður, herra borgarstjóri, hvort þér getið í krafti embættis yðar og þó einkum af yðar snorta hjartalagi veitt okkur nokkra slíka undanþágu frá laganna bókstaf, að við megum herbergja skepnu þessa, svo lengi henni endist aldur og heilsa. Við viljum taka það skýrt fram, að tíkin er hógvær og heimakær, svo að einstakt má kalla nú á tímum. Hún er og sérlega meinlaus af sér, og köllum við það helsta ljóð á hennar ráði, hvílík vinahót hún auðsýnir öllum, kunnugum sem ókunnugum. En kannski veit hún betur en við, hvað við á í slíkum efnum, og skal ekki um það sakast.
Þetta bréf er auðvitað fyrir löngu orðið sígilt. Betur verður varla að orði komist. Sjálfur minnist ég þessa bréfs næstum alltaf þegar samskipti hunda og manna verða að fréttaefni í fjölmiðlum landsins. Eins og oftast áður hygg ég að þetta bréf vekji einkum athygli fyrir það að vera lipurlega og skemmtilega orðað auk þess að vera skrifað af einu ástsælasta skáldi landsins á síðustu öld.
Þegar nánar er að gætt finnst mér þetta ekki síður bera vitni um landlæga óskammfeilni Íslendinga. Sífellt er ætlast til undanlátssemi og spillingar. Spillingin þykir ekki aðeins afsakanleg heldur beinlínis falleg. Þannig hefur það löngum verið og þannig mun það áfram verða. Þó setjum við jafnan upp hundshaus ef einhverjum lítilsigldum og afturhaldssömum útlendingi verður það á að telja spillingu grassera hér á landi.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
18.5.2011 | 00:38
1364 - Frímerki
Gamla myndin
Hér er Bjössi spariklæddur inni í stofu.
Horfði á King´s speech" í gærkvöldi. Ágæt mynd. Karlfuglinn hann Georg fimmti safnaði bara frímerkjum en hafði áhuga á fáu öðru. Sem minnir mig á hve mögnuð frímerkjadellan hjá mér var einu sinni. Sem betur fer jafnaði ég mig smám saman á þeim sjúkdómi. Skákin var verri. Ég er svolítið illa haldinn af þeirri dellu ennþá.
Það var Kalli Jóhanns sem var félagi minn í andanum varðandi frímerkin. Annars var hann fyrst og fremst frímerkjakaupmaður. Var í sambandi við slíka út um allt. Líklega hjálpaði pabbi hans honum við það. Við stofnuðum samt frímerkjaklúbb nokkrir saman og mig minnir að ég hafi eitthvað sagt frá honum hér í blogginu um daginn. Mári Mikk var svo að selja frímerki fyrir Gísla Sigurbjörnsson a.m.k. stundum. Svo fór maður í bæinn öðru hvoru einkum til að kíkja í frímerkjaverslanir, sem voru nokkrar.
Svo var lýðveldið Ghana stofnað og ég man að ég keypti öll frímerki þaðan. Þau kostuðu ef ég man rétt heilar 900 krónur. Gæti best trúað að ég ætti þau enn einhvers staðar í drasli. Annars voru mestu vandræðin fólgin í því að takmarka sig á réttan hátt. Man að á þeim tíma sem ég var að byrja frímerkjasöfnun var gefið út svarta og græna stálstungumerkið með myndinni af Jónasi Hallgrímssyni en á þeim tíma var haldið uppá eitthvert afmæli hans. Keypti þónokkur stykki af því merki stimpluð á útgáfudegi en slík söfnun var í tísku þá.
Ég minnist þess að ég safnaði á tímabili frímerkjum sem gefin voru út eftir 1950 á öllum Norðurlöndunum. Átti það næstum komplett. Íslandi þó frá lýðveldisstofnun og það átti ég komplett bæði stimplað og óstimplað. Man að óstimpluðu merkin með myndinni af Jóni Sigurðssyni sem gefin voru út 1944 voru talsvert verðmikil. Svo gerði ég mörg tilhlaup að mótívsöfnun en var alltaf að skipta um skoðun á því hverju ég ætti að safna.
Annars gæti ég skrifað endalaust um frímerki en áhugi fyrir slíkri vitleysu er ekki mikill. Nú er búið að einkavæða þetta allt saman og ég er hættur að fylgjast með. Gerði það samt lengi vel. Var m.a. áskrifandi að nýjum merkjum á tímabili.
Sýnist að Google sé að reyna að yfirtaka allt cyber". Það er að mínum skilningi það sama og Microsoft hefur verið að reyna undanfarið. Apple hefur gert þetta og Yahoo sömuleiðis. Í rauninni er ég alltaf svolítið á verði gagnvart þessum stóru fyrirtækjum og ég veit að fleiri eru það. Þau skiptast ekkert í góð og vond fyrirtæki heldur vilja þau bara öllu ráða. Drepa jafnan þau minni ef þau mögulega geta og stunda það að kaupa hvort annað og fyrirtæki sem þeim finnst ógna sér. Það er það sama og við höfum séð vasaútgáfu af hér á landi. Fyrirtækin sinna samt sínum kúnnum ágætlega ef þau geta.
Fimmtíuogsex vikuinnlit virðist þurfa núna til að komast á lista yfir 400 vinsælustu bloggin hér á Moggablogginu. Minnist þess ekki að hafa séð lægri tölu þar. Moggabloggin eru greinilega ekki eins vinsæl og einu sinni var. Ég er samt ekkert á förum þaðan. A.m.k. ekki sjálfviljugur.
Mbl.is er þó talsvert lesinn fréttavefur ennþá sýnist mér. Veit ekkert um Morgunblaðið sjálft annað en að þeir eru að ég held enn að reyna að selja á netinu afurðir sínar. Ekki held ég að þeim takist það vel frekar en öðrum.
Netverjar virðast vera með þeim ósköpum gerðir að vilja fá allt ókeypis enda eru þeir vanastir því. Netaðganginn sjálfan þarf þó að borga fyrir en þeim finnst að þær upplýsingar sem þeim tekst að grafa uppúr ruslafrumskóginum þar eigi að vera ókeypis. Ég er alveg sammála þeim um það.
Sá prjónaskapur sem ég er bestur í er að prjóna við hendingar sem veltast um í hugskoti mínu. Fyrstu tvær ljóðlínurnar í eftirfarandi vísu hef ég áreiðanlega heyrt áður. Botninn er kannski ekkert afleitur. Ég læt vísuna allavega flakka:
Það ku vera fallegt í Kína.
Keisarns hallir þar skína.
En kvöl er það kannski og pína
að kveða burt sjálfsvitund sína.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
17.5.2011 | 00:12
1363 - Bíttu í brallið á þér
Gamla myndin.
Hér er Bjössi með teikniprik. Kannski hefur einhver annar teiknað myndina t.d. Ingibjörg.
Þú ert að mörgu leyti summan af því sem þú hefur gert um ævina. Aðrir hafa litla hugmynd um hvað þú getur. Hugsa mest um sjálfa sig eins og eðlilegt er. Þess vegna þarftu að auglýsa þig. Vekja athygli annarra á því hvað þú getur gert vel. Tækifærin koma yfirleitt ekki af sjálfu sér. Það þarf jafnvel að leita að þeim.
Kannski er ég af fyrstu kynslóðinni á Íslandi sem að miklum meirihluta ólst upp í þéttbýli. Fásinnið sem eldra fólk en við þurfti sumt að alast upp við er ógnvekjandi og yfirþyrmandi. Kannski finnst ungdómnum í dag að við sem nú erum að eldast höfum alist upp í fásinni miklu. Ekki fannst mér það. Alltaf var eitthvað að gerast. Veröld fullorðna fólksins var hinsvegar ekkert sérstök í okkar augum svo við bjuggum okkur bara til okkar eigin.
Allskyns orðaleikir og vitleysa er yndi barna á vissum aldrei. Sumt af því man maður alla tíð. Einhverntíma var það í skólaferðalagi sem við söngluðum: Teygir hún og togar á sér tyggjóið." Að sjálfsögðu meintum við ekki neitt sérstakt með þessu. Eða réttara sagt hver og einn gat lagt þá merkingu í þetta sem honum sýndist. Þannig var um margt af því sem við krakkarnir tuldruðum fyrir munni okkar.
Í skólaferðalaginu sem áður er getið hlýddi Gunnar Benediktsson á þetta söngl í okkur og Heiðdís dóttir hans var ein af þeim sem þátt tók í þessu. Gunnari hnykkti við, sá ég, en lét kyrrt liggja. Hefur sjálfsagt dottið eitthvað ósæmilegt í hug. Bíttu í brallið á þér." (tvöfalda ellið er raddað eins og í sögninni að bralla) sögðum við krakkarnir líka oft án þess að meina eitthvað sérstakt með því.
Þú veist ekki hundaskít um það." (Hundaskítur var reyndar talsvert notað orð sem allsherjar blótsyrði) Hver og hver og vill."Pant vera fyrstur." Viltu vera memmér?" (ekki var þá búið að stytta memmér í memm) Eru orðatiltæki sem samstundis koma upp í hugann. Sumu man maður vel eftir þegar maður heyrir það, fyrr ekki.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
16.5.2011 | 00:33
1362 - Eurovision og fleira
Gamla myndin.
Hér er Bjössi að flýta sér.
Það mildaði útivistina sem Toyota olli með árlegu brambolti sínu að ég lenti í Eurovisonpartíi á Akranesi í gærkvöldi. Maturinn var fínn og snakkið líka en ekki voru allir viðstaddir jafnaáhugasamir um tónlistina sem flutt var. Truflun var þónokkur af þeim en mér var nokk sama.
Skemmtilegasti hluti útsendingarnar var stigagjöfin í lokin eins og venjulega en af einhverjum ástæðum er hún ekki nærri eins spennandi núorðið eins og var forðum daga.
Nenni ekki að fara í ítarlega greiningu á ástæðum þess enda ekki merkilegasta sjónvarpsefni sem til er þrátt fyrir allar vinsældirnar auk þess sem sem aðrir munu eflaust skrifa um þennan menningarviðburð og útskýra stigagjöfina út í hörgul.
Atyrtur var ég í athugasemdakerfinu í gær og þótti mér vænt um það. Ég skildi þær aðfinnslur þannig að einhverjum þætti ég taka full mikið upp í mig með því að kalla þá sem mættu á opinbera vígslu tónlistarhússins snobbhænsni.
Ég stend samt við þá fullyrðingu þó auðvitað sé svolítill súrberjakeimur af henni. Hef nefnilega ekki hugmynd um hvernig ég mundi bregðast við ef ég fengi boð af þessu tagi. Sem betur fer er víst lítil hætta á því.
Nú er ég búinn að festa þann sið í sessi að birta tvær myndir (eða fleiri) með hverri færslu. Í upphafi færslunnar er gömul mynd og í endann ein nýleg. Ekki ætti mér að verða þetta mjög erfitt þó fyrirhafnarsamt verði það eflaust.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
15.5.2011 | 00:10
1361 - Toyota
Gamla myndin.
Hér eru þeir bræðurnir Bjössi og Björgvin.
Nú er svo komið að myndirnar (gamlar og nýjar) eru að verða mér auðveldari viðfangs en bloggið sjálft. Þetta er þó eflaust tímabundið og stafar eingöngu af því að þar er lagerinn orðinn stærri og ég geymi aldrei skrif. Svo er líka að skaðlausu hægt að stytta skrifin næstum endalaust.
Til þess gæti hæglega komið undireins því mér skilst að í dag sé Toyota-dagurinn og mikið komi til með að ganga á hér rétt fyrir utan gluggann minn. Ætli ég flýji ekki eins og venjulega.
Jú, það fór svo. Graðhestamúsíkin sem glymur hér um allt á planinu fyrir utan gluggann var mér um megn. Er nýkominn heim aftur og því er þetta í styttra lagi að þessu sinni.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 00:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.5.2011 | 00:55
1360 - Dagur Snobbhænsnanna
Gamla myndin.
Hér er Bjössi að nudda á sér annað augað. Óskýr mynd en samt nokkuð góð.
Nú er sumarið komið til að vera. Sennilega verður þetta gott sumar eins og verið hefur undanfarið. Kannski verður samt rigningarsamara en venjulega. Annars veit ég lítið um veður og mínir spádómar eru ekkert betri en annarra.
Hugsa sér að einn góðan veðurdag sé lífi manns bara lokið. En svona er þetta bara og eins gott að sætta sig við það.
Gæti best trúað að í eftirmælum um mig þegar sá tími kemur verði klausa sem líkist þeirri sem hér fer á eftir en svona lagað hefur lengi vantað í íslensk eftirmæli. Það er merkilegt hvað allir eru góðir og syndlausir þegar að þeim kemur.
Hugsið ykkur allt það bull og alla þá vitleysu sem við hefðum losnað við frá hans hendi ef hann hefði séð sóma sinn í því að deyja svolítið fyrr. Eða bara hætt að skrifa svona mikið. Það voru allir búnir að fá leið á skrifum hans fyrir löngu þó enginn hafi viljað segja honum það. Þetta get ég alveg sagt núna vegna þess að hann er dauður en meðan hann var og hét vildi enginn segja honum frá þessu því menn óttuðust að hann tæki það svo nærri sér."
Það er undarleg árátta að geta aldrei haldið sér saman. Þurfa alltaf að vera að blogga þetta. Hugga mig einkum við að ég geti ekki annað. En auðvitað gæti ég hætt og farið að gera eitthvað annað. T.d. að spila minigolf. Kannski er ég enn betri í því!! Svo gæti ég látið heilmikinn tíma fara í að raða og rúmsterast með myndirnar mínar gömlu. En hvað ætti ég þá að gera við þær? Birta þær á fésbókinni. Ég ætti nú ekki annað eftir.
Myndablogg ég myndast við að gera
og margur verður þannig býsna glaður.
Hugmyndirnar heim mig vilja bera
því Hveragerði er allra besti staður.
Ætlaði í kvöld að hlusta á fréttir í útvarpinu. En nei, þar voru menn uppteknir við aðra hluti. Bein útsending úr Hörpunni eða eitthvað þessháttar. Snobbhænsnin ættu að rövla meira þegar knattspyrnan tekur völdin hjá RUVinu.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
13.5.2011 | 06:25
1359 - Leikmannsþanki um gengismál
Gamla myndin.
Mest af þeim myndum sem ég tók á mína fyrstu vél voru að sjálfsögðu myndir af Bjössa. Hér er hann að klifra upp á tröppurnar við Hveramörk 6.
Því er jafnan haldið fram af þeim sem ættu að hafa vit á gjaldeyrismálum að krónan sé afar sterk. Án þess að hafa nokkra sérfræðiþekkingu á þessu máli held ég aftur á móti að krónan sé afar veik.
Gengi hennar er haldið uppi með gjaldeyrishöftum. Margir gerðu sér í hugarlund að þau höft yrðu ekki langvarandi. Nú virðist svo komið að flestir séu farnir að sætta sig við að þau verði það samt.
Gjaldeyrishöftunum verður einhverntíma að aflétta. Ég sé ekki hvernig það getur gerst án þess að gengið falli. Jafnvel heilmikið. Hvar er þá hraustleiki krónunnar?
Ég óttast að styrkur hennar (verði hann einhver) og sveigjanleiki verði notaður á sama hátt og áður tíðkaðist. Þ.e.a.s. til þess að láta almenning borga fyrir óráðssíu yfirstéttarinnar. Gengisfelling veldur kauplækkun. Það vita næstum allir. Rauðu strikin og uppsagnarákvæðin bjarga kannski einhverjum en til lengdar tapar almenningur á víxlhækkunum með gamla laginu.
Horfði í gærkvöldi á kvikmyndina sem nefnd er Valkyrja". Þetta er óhrifamikil mynd og fjallar um tilræðið við Hitler árið 1944 sem von Stauffenberg og fleiri gerðu en tókst ekki eins og til var ætlast.
Þessi kvikmynd er mjög nýleg og á flesan hátt betri en þær myndir sem áður hafa verið gerðar um þetta efni. Mér finnst ótrúlegt að þeir séu til sem aldrei hafa heyrt á von Stauffenberg minnst eða Operation Valkyrie. Svo mun þó vera.
Einu atriði tók ég eftir að sagt var frá í lok myndarinnar. Þó von Stauffenberg sjálfur og aðrir sem stóðu að tilræðinu væru teknir af lífi fljótlega eftir það dó frú Stauffenberg ekki fyrr en árið 2006. Svona nálægt okkur eru þessir atburðir þó hræðilegir séu. Síðari heimsstyrjöldin er það mesta brjálæði sem yfir veröldina hefur gengið.
Kemur ekki mjög á óvart þó rætt sé um að fésbókin dreifi vírusum. Hefur alla tíð verið fremur lítið um hana gefið. Vilji menn halda góðu sambandi við sem flesta og taka þátt í öllu sem fésbókin býður upp á verður að búast við svo og svo miklu af tölvuvírusum. Tortryggni er besta vírusvörnin.
Nú er Ísland komið áfram í söngvakeppninni og það gæti þýtt að maður þurfi að hlusta á þá vitleysu alla saman. Annars hef ég oft skemmt mér ágætlega við að fylgjast með atkvæðagreiðslunni. Það er tvímælalaust langskemmtilegast hluti keppninnar.
Bloggar | Breytt 14.5.2011 kl. 00:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
12.5.2011 | 00:15
1358 - Nígería
Gamla myndin
er frá Kalla Jóhanns. Þetta er Björgvin Gunnarsson eða Venni eins og hann var jafnan kallaður.
Það var þann 12. janúar árið 1830 sem síðasta aftakan fór fram hér á Íslandi. Þá voru þau Agnes Magnúsdóttir og Friðrik Sigurðsson tekin af lífi fyrir að hafa myrt þá Nathan Ketilsson og Pétur Jónsson. Upphaflega var Sigríður Guðmundsdóttir dæmd til dauða ásamt þeim fyrir meðsekt í sama máli. Konungur náðaði hana þó.
Árið 1834 var Sigurður Gottsveinsson tekinn af lífi í Kaupmannahöfn fyrir að ráðast að fangaverði með hnífi en hann sat þar inni fyrir aðild sína að svokölluðu Kambránsmáli og mun hann vera síðasti Íslendingurinn sem af lífi hefur verið tekinn.
Sjöundármorðin áttu sér stað nokkru fyrr en þetta var eða árið 1802. Fyrir þátt sinn í þeim var Bjarni Bjarnason tekinn af lífi í Noregi árið 1805. Ekki er lengur heimild til dauðarefsinga í íslenskum lögum og bannað er samkvæmt stjórnarskrá þeirri sem í gildi er að taka upp dauðarefsingar á Íslandi.
Margir mundu segja að þetta allt saman sé nokkuð fjarlægt í tíma en mér finnst það samt óþægilega nálægt. En látum það liggja á milli hluta.
Enn eru aftökur stundaðar víða um heim. Ráðamenn stæra sig jafnvel af því að hafa staðið að morðtilræðum. Mér finnst enginn glæpur geta réttlætt opinbera aftöku. Að ríkisvaldið sjálft skuli leggjast svo lágt að fara eftir gömlu reglunni: Auga fyrir auga, tönn fyrir tönn er afskræming á valdi þess þegar önnur og mildari úrræði eru vissulega til og fyrir hendi svo hægt sé að ná þeim markmiðum sem jafnan eru látin í veðri vaka.
Að éta eða vera étinn er vissulega sú regla sem gildir hjá flestum dýrategundum. En við mennirnir þykjumst vera komnir lengra á þróunarbrautinni a.m.k. þegar við viljum rökstyðja yfirráð okkar yfir öðrum dýrategundum.
Eitt sinn skrifaði ég blogg-grein sem ég kallaði Sportveiðar eru morð og ekkert annað." Þessi grein er númer 591 og birtist 2. febrúar 2009. Ég er enn sömu skoðunar en tek auðvitað fram eins og þá að þessi fordæming mín beinist alls ekki gegn sportveiðimönnum. Heldur er hún einungis heimspekileg fullyrðing.
Margir eru mjög andvígir þessari skoðun hjá mér og kom það vel fram í athugasemdum við nefnda blogg-grein. Hún er mér samt svo inngróin að mér finnst rétt að minnast á hana þegar rætt er um aftökur.
Til að sýna ykkur að þessir Nígeríuandskotar svífast einskis birti ég hér nýjasta Nígeríubréfið sem ég fékk um daginn. Þessi Rowland hefur skrifað mér áður og ef ég man rétt snýst þetta að hans sögn um nokkrar milljónir punda. Ég trúi honum samt ekki og mun aldrei ansa þessu rausi í honum. Það lengir umtalsvert bloggið að birta þetta bréf. En er það jákvætt? Það má efast um það. Sennilega ætti lögreglan að fást við þetta.
Hello,
I have emailed you earlier without a response. In my first email i mentioned about my late client a nationale of your country whose reatives i cannot get in touch withbut both of you have the same surname so it will be very easy to make you his official next of kin. I am compelled to do this because i would not want the bank to push my clients funds into the bank treasury as unclaimed inheritance.This mail is written and intended to solicit your assistance to be presented as NEXT OF KIN to my late client since you are a foreigner and only you can lay claims on this inheritance. The Governing body of the Bank has contacted me on this matter and I am yet to provide the next of kin to lay claims to the fund. Under a clear and legitimate agreement with you, I seek your consent to be presented as the next of kin so that my late client's fund will not be confiscated by the Bank and pushed into the Bank treasury as unclaimed bills.
For the sake of transperency on this matter, you are free to make immediate contact for further clarification and explanation on this matter. I will need you also to reconfirmyour full names and contact telephone number to ascertain the fact that I am dealing with the right person.
Thank you very much for your anticipated acceptance while I expect your prompt response to this matter as the urgency demand.
Yours Faithfully,
Robin F. Rowland
London-United kingdom
Það er á mörgum sem um Hrunið skrifa að skilja að helsta ráðið til að koma hér á réttlátara og betra þjóðfélagi sé að stinga sem flestum í fangelsi. Þetta hafa margir reynt. Yfirleitt tekst það ekki. Hin gamla kenning um að bjóða eigi hinn vangann ef maður er sleginn utanundir er enn í fullu gildi. Því aðeins má búast við að þjóðfélagið batni að hefndarhugurinn minnki töluvert. Auðvitað eru sumir sekari en aðrir. Það má þó ekki tefja vinnuna við nýtt og betra þjóðfélag að eltast við þá. Satt að segja bind ég talsverðar vonir við að Stjórnlagaráðið sem nú situr á rökstólum skili okkur framá við í þessu efni.
Þjóðernishyggja fer vaxandi í Evrópu. A.m.k. er margt sem bendir til þess. Fremur en að fagna því finnst mér ástæða til að hafa af því áhyggjur. Leita þarf úrbóta og reyna að halda áfram því samrunaferli sem staðið hefur þar yfir linnulítið undanfarna áratugi. Á Íslandi getur þessi þróun valdið því að innganga okkar í ESB frestist enn um sinn.
Margir fjölyrða jafnan mikið um fótbolta og aðra einskisverða hluti. Það er þeirra val. Þessa dagana eru margir uppteknir af Evrópsku söngvakeppninni. Það er líka þeirra val. Því skyldu menn ekki reyna að einbeita sér að einhverju sem litlu máli skiptir í staðinn fyrir að hugsa sífellt um það sem miður fer?
Allmargir virðast vera þeirrar skoðunar að Alþingi Íslendinga hafi á undanförnum árum glatað virðingu. Það kann vel að vera rétt. Hverjum er það þá að kenna? Mér finnst blasa við að það sé fyrst og fremst þingmönnunum sjálfum að kenna.
Hvort er um það að ræða að alþingismenn hafi með orðum sínum og gjörðum grafið undan virðingunni eða að þangað veljist fyrst og fremst undirmálsmenn?
Líklega er um blöndu af báðum ástæðum að ræða. Eitt leiðir af öðru. Útkoman virðist vera sú að þingið setur stöðugt ofan. Hvar endar þetta? Hlýtur þetta ekki að enda? Getur virðingin minnkað endalaust?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)