Bloggfærslur mánaðarins, maí 2011

1357 - The Last Hangman

Siggi ÞorsteinsGamla myndin
er greinilega af Sigurði Þorsteinssyni frá Ljósalandi. Hún er frá Kalla Jóhanns. 

Eru menn aggressívari og orðljótari fyrir framan tölvuna en augliti til auglitis við þann sem hallmæla skal? Já, þannig held ég að því sé varið með marga. Eftir því sem lengra líður og menn verða tölvuvanari lagast þetta að líkindum.

Mér finnst menn ekki vera eins orðljótir og skömmóttir nú eins og var í upphafi hruns. Það er kannski vegna þess að tilfinngarnar eru ekki eins sterkar og þá en líka er það e.t.v. vegna þess að menn eru farnir að venjast þessum miðli svolítið. Netið á þó áreiðanlega eftir að verða enn meira ráðandi afl í lífi manna en nú er.

Málfrelsi er það sem máli skiptir. Ekki það að vera sammála síðasta ræðumanni. Heldur ekki að vera ósammála honum. Helst það að hafa eitthvað að segja sjálfur. Eða a.m.k. að vera trúr sínum tilfinningum. Láta ekki aðra hræra í því sem manni finnst. Jafnvel að finnast bæði Honey Nut Cheerios og venjulegt vera best.

Horfði í gærkvöldi á myndina „The Last Hangman." Það er að mörgu leyti athyglisverð mynd. Hef eiginlega lengi haft morbid áhuga á aftökum. Veit ekki af hverju.

Í eina tíð las ég næstum allt sem ég gat fundið á netinu um aftökur í Bandaríkjunum. Þeir skammast sín nefnilega heil ósköp fyrir þá villimennsku, en geta samt ekki hætt.

Meðal siðaðra þjóða er þessu nánast allsstaðar lokið en Bandaríkjamenn þora ekki að hætta. Sennilega eru þeir hræddir við skyldmenni fórnarlamba og atkvæði þeirra.

Öfgamenn vaða gjarnan uppi í þjóðfélögum sem elska frelsið og hata ríkisafskiptin jafnmikið og Bandaríkjamenn. Blanda af þessu er best. Frelsishatrið er líklega verra. A.m.k. liðu Sovétríkin fyrr undir lok en Bandaríkin.

Ég er með þeim ósköpum gerður að ég ímynda mér að margir þeirra sem á  bloggið mitt kíkja (reglulega eða ekki) séu áhugamenn um Hveragerði liðins tíma eins og ég óneitanlega er.

Einn link uppgötvaði ég fyrir ekki mjög löngu síðan og með því að fara ýmsar leiðir um hann og útfrá honum má fræðast heilmikið um Hveragerði áður fyrr. Hann er kallaður „Listamenn í Hveragerði 1940 -1965" og er hér. Ég sé sjálfan mig svolítið í anda sem miðlara slíkra upplýsinga og mundi gjarnan vilja að þeir sem búa yfir viðbótarupplýsingum um þessi mál geti þess í athugasemdum hjá mér.

Ég fæ nokkuð oft komment á bloggið mitt. Ástæðurnar held ég að séu einkum tvær. Þeir sem oft koma hingað eru orðnir vissir um það að komment (a.m.k. þau jákvæðu) eru vel séð. Hin ástæðan er sú að ég hef lagt mig eftir því að svara kommentum ef ég mögulega get. Kannski er þetta sama ástæðan. Hvað veit ég?

IMG 5460Mörg hús.


1356 - Fleira er matur en feitt kjöt

SiggiRun ÞrastarskogiGamla myndin.
Hér er Sigurður Runólfsson í Þrastarskógi. Þessi mynd er frá Kalla Jóhanns.

Eiður Guðnason er iðinn við að safna allskyns bögumælum úr fjölmiðlum landsins. Stundum finnst mér hann full smámunasamur, stundum er ég annarrar skoðunar en hann, en langoftast er ég alveg sammála honum.

Nýlega ræddi hann um frétt úr mbl.is þar sem sagt var að samningamenn væru að týnast inn í hús sáttasemjara. Þetta þýðir beinlínis að samningamennirnir hafi týnst í húsinu. Að segja að þeir hafi verið að tínast í húsið hefði verið rétt. Svipað má segja um fleiri ypsilon tengd atriði. T.d. leyti og leiti.

Nú fer að hitna undir kolunum var sagt hvað eftir annað í dagskrárkynningu á Stöð 2. Þarna er um að ræða einhvern samslátt á talsháttum. Talað er um að hitni í kolunum og að undir einhverjum sé að hitna (oftast notað um knattspyrnuþjálfara sem á að fara að reka) Svona vitleysur leiðast mér. Ef menn þurfa að nota talshætti eiga þeir að vera réttir. Annars er betra að sleppa þeim.

Við Reykjafoss var BP bensíntankur. Einn daginn tók ég eftir að búið var að breyta um nafn á honum og í stað BP hét hann allt í einu NAFTA. Þetta skildi ég ekki þá og skil ekki enn. Nafngiftir olíufélaga eru langt fyrir ofan minn skilning. Til dæmis fæ ég með engu móti séð hvernig á að skilja nafnið EXXON. Eitt sinn taldi ég að kalla bæri Essó þrír-ess-ess-núll. Það var þegar E-ið á öllum kaupfélagstönkum var eins og öfugir þrír. Nú heitir olíufélag nokkurt NEINN skilst mér en þori helst ekki að festa mér það í minni.

Þegar ég var strákur þótti ekkert matur nema helvítis fjallalambið. Sumum þótti það samt nokkuð dýrt þrátt fyrir allar niðurgreiðslurnar og þá var fangaráðið að kaupa fjórða flokks rolluhakk sem gert var úr gamalám sem ekki var lengur hægt að kreista dilka úr.

Um það leyti sem ég fluttist frá Snæfellsnesi til Borgarness minnir mig að sauðfé á landinu hafi verið rúm milljón. Fátt var étið af kjötmeti annað en rolluket. Reiknað var með áframhaldandi siðvenju að þessu leyti og að áfram mundi mörgum dilkum vera slátrað í sláturhúsinu í Brákarey. Nú er að ég held búið að leggja það sláturhús niður og Íslendingar farnir að éta fleiri tegundir kjötmetis. Dilkakjötsframleiðslan hefur minnkað en þjóðremban ekki mikið.

Að áliti flestra voru það bara villimenn og vafagemlingar sem lögðu sér svín og fugla til munns hér áður fyrr. Kristilegir víkingasynir borðuðu heilsteikt lambalæri með rabbarbarasultu og feitri sósu á sunnudögum.

Matreiðslubók Helgu Sigurðardóttur var eina matreiðslubókin sem þörf var fyrir. Þetta útlenda nýmóðinsdrasl var beinlínis hættulegt. Á sunnudögum voru kartöflurnar þvegnar og jafnvel brúnaðar en á virkum dögum var moldin soðin með. Þá var ýsan líka skorin í bita og soðin í fjóra klukkutíma eins og kartöflurnar.

Á laugardögum var gamall saltfiskur sóttur út í skúr, hrist af honum mesta saltið, hann útvatnaður í nokkra klukkutím og hent svo í pott. Gott þótti að bræða mör og hafa með.

Þegar ég afgreiddi í kaupfélaginu í Hveragerði byrjuðum við alltaf á því á laugardögum að saga niður kjötskrokka. Læri, lærissneiðar, kótilettur og hryggir var það langvinsælasta. Þess vegna hrökk ég í kút þegar mamma hans Sigga Þráins sagði flóttalega: „Ég ætla að fá slag." Slög voru nefnilega alltaf í fleirtölu hjá okkur og gengu yfirleitt af. Sendum þau á Selfoss í kjötvinnsluna þar. Frampartarnir fóru að sjálfsögðu í súpukjöt en það seldist ekki mikið á laugardögum.

Ef ég kemst að því um kvöldmatarleytið að ég hef lítið undirbúið næsta blogg líður mér illa. Mér finnst eins og ég sé að bregðast einhverjum. Fer jafnvel að hamast við að hugsa. Sem ég reyni annars að gera sem minnst af. Það er nefnilega þannig með mig að ég er í besta stuðinu til að blogga að morgni dags. Þurfi ég að blogga seint gríp ég oft til fréttabloggs og er yfirleitt því vinstrisinnaðri sem lengra er liðið á kvöldið. Ekki veit ég af hverju þetta er en einhvern vegin hentar hægri stefnan betur á morgnana.

Í gamla daga voru húsflugur beinlínis heimilislegar. Stundum tók maður sig til og reyndi að drepa þær með því að slá til þeirra með upprúlluðum Mogga. Það tókst yfirleitt ekki. Nú er maður orðinn svo afvanur hverskyns skordýrum og pöddum að maður hrekkur við ef maður sér svoleiðis. Það kom mér á margan hátt á óvart að ekki er til neinna muna meira af slíkum kvikindum í hitabeltinu (Kanaríeyjum) en hér á Fróni. Einhverra hluta vegna finnst mér býflugnadrottningarnar feitu og stóru sem hér eru á ferð og flugi þessa dagana stórum vinalegri en útlenskir kakkalakkar. Þó fljúga þeir ekki.

Heimsóknir hafa verið með meira móti á bloggsíðuna mína í dag. Nærri 300 við síðustu talninu. Kannski er það vegna fyrirsagnarinnar. Kannski hafa einhverjir búist við að skrif mín væru pólitískari en þau eru. Sé svo biðst ég afsökunar á því að hafa valdið vonbrigðum. Ég á oft í vandræðum með að finna hæfilegar fyrirsagnir á bloggið mitt.

IMG 5458Stytta.


1355 - Fasistabeljan

SiggiJons TommiTGamla myndin
er frá Kalla Jóhanns. Hér eru þeir Siggi Jóns (Guðmundssonar smiðs) og Tómas Tómasson (Tommi á Kvennaskólanum) staddir við verslunina Reykjafoss.

Það er ekki mikill vandi að spinna upp svona sögur einsog ég gerði í gær. Það er samt ekki þar með sagt að sama sé hvernig þær eru. Þrennt þarf að hafa í huga. Í fyrsta lagi að sagan fljóti og sé trú mínum stíl. Í öðru lagi að bygging sögunnar sé í lagi og hún sé um eitthvað. Í þriðja og síðasta lagi þarf ég svo að vera sæmilega sáttur við söguþráðinn. Ekki er sama hvað gerist í sögunni því fáránleikinn og vitleysan verður að hafa einhvern tilgang.

Þegar ég spinn upp svona sögur (og set í bloggið - kannski held ég því áfram) reyni ég umfram allt að hafa þær ekki of langar. Þá er ég nefnilega svo hræddur um að fólk hætti að lesa. Ég er nefnilega þannig sjáflur að ef mér finnst eitthvað of langt missi ég allan áhuga á því.

Allt í einu helltist yfir mig vitneskjan um það hvers vegna ég er eins skrýtinn og ég er. Ég er nefnilega ekki nógu vel kolefnisjafnaður. Þessi mál voru heilmikið í fréttum fyrir skemmstu og ég man að ég sá á öllu að ég var ekki nærri því nógu kolefnisjafnaður. Man líka að ég ætlaði að bæta úr þessu hið bráðasta en nú man ég bara ekki hvernig átti að gera það. Minnir hálft í hvoru að það hafi átt að fara austur á Rangárvelli og planta tré þar. Það gæti samt verið vitleysa hjá mér og að planta tré án þess að þurfa þess gæti verið hættulegt svo ég held bara að ég bíði með að ráða bót á þessu.

Aðrir virðast geta fengið blogghugmyndir án þess að hafa nokkuð fyrir því. Hversvegna þá ekki ég líka? Sannleikurinn er sá að ég þarf nefnilega svo margar. Það er líklega svarið. Ég fer svo illa með þær. Til dæmis hefði verið leikur einn að gera meira úr þessu með kolefnisjöfnunina. Jafnvel allt uppí heilt blogg.

Las áðan pistil Jóns Daníelssonar um fasistabeljuna og allt það. Er ekki sammála honum um að það þurfi að óttast eitthvað um peninga þeirra Björns Vals og Þráins. Það er ágætt að þeir taki svolítið uppí sig. Vekur bara meiri athygli á ummælunum. Ekki er hætta á að Gulli og Þorgerður geti svarað fyrir sig og hvað er þá að óttast? Dómstólaræflana eða hvað? Ég held ekki. Þeir dæma menn kannski til einhverrar málamyndarefsingar en hvaða máli skiptir það? Auglýsingagildið er miklu meira.

Nú er ég beinlínis farinn að vona að vinstri menn haldi völdum til loka kjörtímabilsins. Bogaragerpin eru því miður ónýt en samt er líklegt að völdin haldist til vinstri. Kannski með hjálp frá þjóðlegum Gnarristum.

Hvað er maður svosem annað en efnafræðilega tilraunastofa. Tekur allskyns pillur úr hinum og þessum efnum í þeirri von að þau verði skynsamlega notuð af tilraunastofunni. Svo þegar öllu er lokið þá er þessu hrært saman við moldina aftur eða brennt til ösku. Iss bara.

Ekki veit ég hvað Íslandspóstur ætlar að gera við bréfin sem hugsanlega verða stíluð á mig á næstunni því ekki hef ég hugsað mér að merkja dyrabjöllina. Kannski ég prófi að skrifa sjálfum mér. Er jafnvel að hugsa um að moka ruslpóstinum aftur út sem þvælt er innum bréfarifuna okkar hér í Auðbrekkunni.

„Hvað ætli bókasöfnin í landinu séu mörg?"

„Það hef ég ekki hugmynd um."

„Ætli þau séu skyldug til að kaupa allar bækur sem út eru gefnar?"

„Kannski sum. Áreiðnalega ekki öll. Af hverju spyrðu?"

„Bara að spögúlera. Ætli það sé hægt að gefa út bók og treysta á söluna til bókasafnanna. Hafa bókina bara nógu dýra?"

„Varla. Svo er líka til eitthvað sem heitir skylduskil. Þú gafst einu sinni út blað. Þurftuð þið ekki að senda Landsbókasafninu og einhverjum öðrum eintök af því?"

„Jú, líklega. Annars held ég að prentsmiðjustjórinn hafi séð um það."

„Þetta er nú samt ágæt hugmynd. Ég held að það sé alltaf að verða ódýrara og ódýrara að gefa út bækur."

„Já, það er best að athuga þetta einhvern tíma. Kannski maður geti orðið ríkur á því að finna gat á kerfinu."

„Þá drífur einhver í því að loka því. En það getur tekið tíma. Þetta er kannski verkefni fyrir lögfræðing. Þeir eru vanir að sjá um sig."

Eftir því sem Ömmi segir þá eru ESB-andstæðingar langt komnir með að hrekja ríkisstjórnina frá ESB-stefnu sinni. Það er skaði því hætt er við að sú andstaða auki mjög útlendinga-andúð og þjóðrembing allan. Við því er samt lítið að gera og fjarri fer því að allir ESB-andstæðingar séu á móti aðildinni af misskilningi einum saman. Hjá því verður ekki komist að sumir græða minna á aðild en aðrir og gróðinn verður alls ekki allur í peningum mældur.

Heildarhagsmuni þjóðarinnar ber þó að hafa í huga. En ef ekki er hægt að sannfæra nema lítinn hluta þeirra sem til þarf um ágæti aðildarinnar er betra að draga úrslitin ekki óhóflega. Þjóðaratkvæðagreiðsla er nauðsyn og líklega er best að hún fari fram áður en næstu alþingiskosningar verða. Að ætla sér að hlaupa frá öllu saman akkúrat núna er þó augljós heimska.

IMG 5454Fín brú í Kópavogi.


1354 - Lygasaga

kalli johanns56Gamla myndin
er frá Kalla Jóhanns og er af honum við veiðar. Ekki er að fullu upplýst hvar þetta er.

Þetta er óviðunandi. Það er langt liðið á laugardaginn og ég er hvorki búinn að né byrjaður á að semja blogg morgundagsins.

Mér finnst helvíti hart að ég skuli ekki geta skrifað smá sögukorn til að setja á bloggið mitt. Reyni aftur. Í þetta skipti er ég að hugsa um að fara í ferðalag til Vestfjarða. Nánar tiltekið á Hornstrandir. Þangað hef ég tvisvar komið. Þessi frásögn á samt ekki að vera um það. Heldur er um fullkomlega ímyndað ferðalag að ræða.

Mér hefur alltaf þótt mikið til fáránleikans koma. Þess vegna verður þessi frásögn svolítið fáránleg.

Það var komið fram desember og við biðum kvölds til að geta notið myrkursins á leiðinni. Við vorum staddir á Ísafirði að kaupa gull. En eins og allir vita hefur mikið fundist af gulli þar um slóðir. Búið var að loka öllum helstu gullbúðunum og ekki hægt að gera ráð fyrir að þær yrðu opnaðar aftur fyrr en að nokkrum dögum liðnum. Þess vegna ákváðum við að skreppa til Hornvíkur því frést hafði að þar hefðu sést fljúgandi kanínur.

Talið var víst að kanínur þessar væru með gervitennur úr gulli. Auðvitað hefðum við getað látið flugvél flytja okkur í Hornvíkina en okkur þótti meiri stæll á því að fara þangað á galdraprikum.

Þess vegna var það sem við brenndum niður að höfn því þar var galdraprikasala ríkisins til húsa. Gústi var eilítið á undan mér á loft en ekki munaði miklu og þrátt fyrir snjókomuna sá ég alltaf til hans. Við flýttum okkur nú sem mest við máttum til Hornvíkur.

Þegar þangað kom voru kanínurnar farnar að sofa sem eðlilegt var. Við urðum því að bíða birtingar því kanínurnar vildu ekki láta vekja sig og voru ákveðnar í að sofa framundir hádegi.

Þegar til kom vildu þær svo ekki láta gullið. Við fórum þess vegna áfram til Furufjarðar því þar hafði frést af silfri hafsins sem eins og allir vita er útbíað í silfri. Þegar við komum þangað hafði síldin öll gengið á land svo við þurftum ekki annað en að skafa silfrið af hreistrinu.

Settum það svo í poka sem við höfðum meðferðis og snerum aftur til Ísafjarðar. En af því að silfrið sem við þurftum að taka með okkur til að græða nóg á ferðinni var svo þungt urðum við að skríða með jörð næstum alla leiðina til baka. Rétt gátum lyft okkur yfir Skorarheiðina og fórum svo út allt djúpið fáeina metra yfir sjó. Þannig varð þessi ferð eftirminnilegri en annars hefði orðið.

IMG 5446Sumardagurinn fyrsti.


1353 - Stöð 2

SiggÞ IsidorHerm BiggiTraust LappiGamla myndin.
Hér eru þeir Sigurður Þorsteinsson, Ísidór Hermannsson og Birgir Traustason ásamt hundinum Lappa sem Birgir átti. Þessi mynd er frá Kalla Jóhanns.

Einhverju sinni þegar ég vann á Stöð 2 fórum við í dagskrárdeildinni eina dagstund í sumarbústaðinn hans Ragnars í Smára og dvöldum þar. Þessi bústaður er í Þrastaskógi við Álftavatn og trjágróðurinn þar er með ólíkindum gróskumikill. Bústaðurinn er líka gamall og virðulegur. Þar var ágætt að vera og ég var með myndavél með mér. Rakst í gær á myndirnar sem ég tók þar. Sumar eru ágætar og ég er að hugsa um að láta nokkrar hér. Því skyldi ég ekki setja nokkrar milligamlar myndir á mitt Moggablogg. Það getur vel verið að ég setji fleiri myndir hingað upp seinna. Einkum ef ég get skrifað eitthvað um þær.

132Þessi mynd er af Elvu Gísla. Auðvitað var það mest fyrir hennar tilverknað sem okkur bauðst að fara í þennan sumarbústað.

128Hér eru svo Guðrún Snæbjörnsdóttir og Lovísa Óladóttir.

129Þetta er Hildur Guðnadóttir.

130Hér er mynd af Goða Sveinssyni sem var dagskrárstjóri á þessum tíma.

131Þetta er Páll Baldvin Baldvinsson aðstoðardagskrárstjóri.

Ekki veit ég hvort framhald verður á þessum sið. Ég meina að setja myndir í miðjuna á blogginu. Það er líklega ekkert sniðugt og svo blöskra mér daglegar skannanir. Sennilega hefur mér líka einhvern tíma þótt mikið að skrifa daglega blogg.

Mörður Árnason kallaði nokkra sjálfstæðisþingmenn grátkonur og fékk bágt fyrir. Mér þykir hann hafa komist vel að orði enda er Mörður einhver besti íslenskumaðurinn á þingi. Það er sannkölluð hörmung að heyra hvernig sumir þingmenn tala. Bæði vitlaust og illa. Hugga mig ævinlega við að útilokað sé að mennirnir séu svona ómögulegir í öllu. Eitthvað hljóti þeir að geta. Veit samt ekki með grátkonurnar.

Ef ekki má kalla Gulla mútuþega á bloggi má þá kalla Þorgerði Katrínu íhaldsbelju? Það gerði Þráinn Bertelsson á fésbókinni. Kannski er annað dómsmál í uppsiglingu þarna. Það er eiginlega sama hvort Þráinn verður kærður fyrir ærumeiðingar eða ekki það verður athyglisvert að fylgjast með framhaldinu.

Mér hættir til að fá nokkurskonar exem ofanvert á fingurna. Fyrir nokkrum árum fann ég uppá því að bera daglega á hendurnar á mér bæði Ibaril eða Elocon krem (ósköp lítið) og svo Atrix. Þetta hefur dugað mér ágætlega til að halda þessu í skefjum. Hef síðan ekki þorað annað en nota bæði þessi krem daglega. Vel getur verið að ég hafi með þessu fundið ágæta blöndu en líka getur verið að þetta sé tóm tilviljun og kremin (jafnvel öll) vitagagnslaus. Líka getur hugsast að einhverjum komi vel að vita af þessu.

Ég get ekki gert að því þó „úranauðgun" (þ.e.a.s að úran sé auðgað) sé skrifað nákvæmlega eins og „úra nauðgun". Samt má snúa útúr þessu á ýmsan hátt og finna fleiri dæmi um svona lagað. Ég nenni því bara ekki.

Það er meiri blessuð blíðan úti núna. Vel getur samt verið að þetta sé bara gluggaveður og hálfkalt. En fallegt er veðrið að sjá. Trén hamast líka við að taka við sér.

IMG 5432Svo má saga timbur að passi.


1352 - Myndir og fleira

kiddiGamla myndin.
Hér er Kiddi Antons í öllum herklæðum. Myndina tók ég sennilega árið 1957 og það er barnaskólinn sem er í baksýn.

Eins og flestir sem lesa bloggið mitt hafa eflaust tekið eftir þá leiðist mér fésbókin skelfilega. Mest hugsa ég að það sé vegna frekjunnar í henni. Allan fjandann vill hún vita og er sífellt að spyrja um leyfi til að gera þetta eða hitt. (Samþykki aldrei neitt) Svo skil ég hana ósköp illa. Fatta ekki einusinni hvernig einföldustu aðgerðir koma út. Það getur verið að fleiri séu líkir mér að þessu leyti því flest þarna virðist vera afskaplega tilviljanakennt. Þar að auki virðist hún dreifa vírusum alveg villivekk.

Gallinn við mína bloggstarfsemi er að fréttbloggsáráttan er aldrei langt undan. Mér finnst að bæði Bin Laden og Bangsi Bangsason séu að trufla mig núna. Gaddafi hefur að vísu næstum þagnað en það er sennilega blessuðum fréttamiðlunum að þakka. Svo er meira að segja verið að reyna að vekja áhuga minn á kjaraviðræðum og jafnvel pólitík. Svei því öllu saman.

Þegar ég skoða gamlar myndir sé ég að ævi mín hefur verið ansi kaflaskipt. Eftir að náminu lauk við Miðskólann í Hveragerði var ég í litlu sambandi við skólafélaga mína þar. Þá var líka ekkert blogg og engin fésbók. Hvað sem segja má um þessi nútímafyrirbrigði þá auðvelda þau mjög öll samskipti. Síðan rofnuðu samskiptin við alla (eða flesta) sem ég hafði kynnst á Bifröst. Svo hætti ég að heyra nokkuð frá þeim sem ég kynntist á Snæfellsnesi, svo í Borgarnesi o.s.frv. Líklega er þetta bara eðlilegt og ber engan vott um að ég sé eitthvað skrýtinn.

Fékk eitt sinn ljósmyndadellu þegar ég var unglingur. Þessvegna er dálítið einkennilegt að ég skuli ekki eiga fleiri myndir frá þessum tíma. Man að ég keypti mér græjur til að geta framkallað og kopierað sjálfur. Paterson var tegundin og ég keypti þetta dót hjá Hans Petersen. Meira að segja stækkara líka seinna meir og vel getur verið að ég eigi einhvers staðar í drasli eitthvað frá þessum tíma.

Eins og sjá má af athugasemdum með síðasta eða næstsíðasta bloggi mínu eru sumir (sem ekki eru Moggabloggarar) í vandræðum með að athugasemdast hjá yfirstéttinni. Þetta er ekki nógu gott og þyrfti að athuga betur. Sumir komast reyndar yfir þessa fötlun með tímanum en samt sem áður er þetta vandamál.

Sumir (jafnvel Moggabloggarar líka) nærast nefnilega á því að fá sem flestar athugasemdir. Auðvitað er ég ekki svona, en samt...

Betra er að setja vísurnar sínar í blogg en týna þeim alveg. Sérstaklega ef manni finnst þær sæmilegar.

Bældur er bíllaus maður
og brotið hans sjálfsálit.
Aldrei hann gerist glaður
því gamanið hans er strit.

Þetta vísukorn setti ég saman í morgun af engu sérstöku tilefni. Spakmælið „Blindur er bóklaus maður" kom bara til mín svona óforvarendis og ég sneri því svolítið á haus og prjónaði við það.

IMG 5410Vorboði.


1351 - Mútur eða ekki mútur

vsbGamla myndin.
Þetta eru bræður mínir þeir Vignir, Bjössi og Björgvin. Myndin er tekin í ganginum heima á Hveramörk 6. Rafmagnsmælirinn efst til hægri.

Ekki mundi ég vilja heita Axel Jóhann Hallgrímsson og eiga á hættu að vera ruglað saman við Axel Jóhann Axelsson. Mér finnst nógu slæmt að eiga frænda sem heitir Jón Valur Jónsson.

Afskipti dómstóla og stjórnvalda af málfrelsi fólks eru alltaf viðkvæm. Flestum sem skrifa líkar illa við þau. Það er líka greinilega ekki sama hver segir hvað um hvern, á hvern hátt og hvar og hvenær.

Sjálfum finnst mér ekki mestu máli skipta hvað sagt er eða skrifað heldur hvernig því er dreift og hvaða merking er lögð í ummælin af þeim sem þau heyra eða lesa. Þetta finnst mér að dómstólar ættu að athuga en ekki finna sér bara einhvern bókstaf til fela sig á bakvið. Með þessu móti verður sakfelling kannski erfiðari en ella. Það er allt í lagi. Hún á að vera það en má ekki vera alveg útilokuð.

Af málum af þessu tagi er málshöfðun Guðlaugs Þórs Guðlaugssonar úr Sjálfstæðisflokki á hendur Birni Vali Gíslasyni úr Vinstri Grænum sú sem langmesta athygli vekur. Björn Valur hélt því fram í bloggi sínu að Gulli hefði þegið mútur í prófkjörsbaráttunni 2006.

Gulli hótaði málsókn og gaf Birni frest til að draga ummæli sín til baka. Hann sinnti því ekki og nú segist Gulli ætla að lögsækja hann.

Björn Valur dregið örlítið í land í bréfi til lögfræðings Gulla og segir m.a. : „hafði ég því tilefni til að álykta að skjólstæðingur þinn væri síður en svo viðkvæmur fyrir því orðalagi, sem ég kaus að nota."

Dómarar í þessu máli eru vissulega í vanda. Menn leggja misjafnan skilning í það hvað orðið „mútur" þýðir nákvæmlega og margt annað þarf að athuga. Víst er að Gulli hlaut háa styrki frá ýmsum fyrirtækjum og hvernig hann notaði peningana og hvað honum sjálfum fannst um þessa styrki kann að skipta máli og samanburður við aðra einnig. Víst er að málarekstur þessi verður fróðlegur.

Alveg burtséð frá úrslitum dómsmálsins er enginn vafi að málshöfðun þessi mun hafa mikið áróðursgildi. Ekki er samt líklegt að hún breyti pólitísku landslagi mikið en margir munu fá tækifæri til að láta ljós sitt skína.

Skilst að katólska vanti kraftavert til að gera Jón Pál (ekki kraftajötunn) að dýrlingi. Það ætti nú ekki að vefjast fyrir mönnum að finna eitt smákraftaverk. Ég gæti jafnvel hjálpað þeim um það ef vandræðin halda áfram. (Fyrir sanngjarna greiðslu auðvitað).

Að enn skuli vera deilt um hvernig dráp Osama bin Ladens bar að höndum í smáatriðum sýnir mér einungis að það skiptir talsverðu máli. Einkum held ég að það skipti máli varðandi stríðið í Afghanistan og sömuleiðis einnig að einhverju leyti fyrir heimsmálin öll.

Í dag er Evrópudagurinn og þjóðaratkvæðagreiðsla hjá Bretum um endurbætur á kosningalöggjöfinni, en hvað kemur það okkur við?

IMG 5398Flækja.


1350 - Sumarið er komið

GudmundurBjarna KiddiAntonsGamla myndin
er frá Kalla Jóhanns. Mér er sagt að hér séu á ferðinni Guðmundur Bjarnason og Kristinn Antonsson. Það getur vel passað. Kalli Jóhanns telur að myndin sé líklega tekin við skálann í Reykjadal. Það finnst mér ótrúlegt. Líklegra er að hér sé um að ræða skála við Skarðsmýrarfjall í eigu Skátafélags Reykjavíkur.

Nú er sumarið loksins komið. Snjórinn sem kom um daginn flýtir sér burtu. Vormenn Íslands flýta sér líka eins og þeir geta að drepa þá ísbirni sem flækjast hingað. Aumingjaskap okkar Íslendinga verður allt að vopni. Ekki hefði ísbjarnarræfillinn getað tekið land á afskekktari stað. Auðvelt hefði verið að fylgjast með honum og koma honum í burtu en útgjöld hefði það þýtt og ef lögregla og stjórnvöld gæta ekki peninganna vel þá verður ekki betur séð en þau álíti sig óþörf með öllu. Megi reiði allra góðra vætta einbeita sér að því ólánsfólki sem ákvörðun tók um þetta dráp.

Almennt séð hafa ísbjarnadráp, hvalveiðar og hundaát ekkert með skynsemi að gera. Þar eru það tilfinningar sem mestu ráða. Það er engin minnkun fólgin í því að hræðast þá neikvæðu auglýsingu sem nýjasta ísbjarnardrápið færir okkur Íslendingum.

Mér er enn í fersku minni sú sturlun sem virtist grípa um sig meðal allrar þjóðarinnar þegar varðskipið íslenska hóf skothríð sína á togarann Everton eitt sinn í einhverju af þeim þorskastríðum sem við háðum við Breta á síðustu öld. Man vel þann hrylling sem greip mig. Ég sá í hendi mér hve auðvelt er að æsa heilu þjóðirnar til óhæfuverka og efna til styrjalda við saklaust fólk. Sem betur fór voru bresk stjórnvöld í það skipti viti bornari en þau íslensku og óhæfuverkum  tókst að komast hjá.

Margir hafa orð á því hve illa landinu sé stjórnað. Það má til sanns vegar færa að sé rétt. Landinu er afar illa stjórnað ef aðeins er horft til ákveðinna einstaklinga hverju sinni. Ef stjórn landsins væri miðuð við einn einstakling í senn væri einfalt að bæta stjórnunina. Gallinn er bara sá að nauðsynlegt er að stjórna landinu í  samræmi við þarfir og óskir sem flestra. Þetta er erfitt og alls ekki alltaf gott að sjá hverra hagsmuni ber að hafa að leiðarljósi. Svo má auðvitað oft velta fyrir sér hvaða öðruvísi stjórnarfar er í boði. Þá erum við að vísu undireins komin að pólitísku mati sem öllu mati verra.

Auðvitað er það svo að þeir sem oft kommenta hér á bloggið verða manni kærari en aðrir. Mér finnst stundum að ég sé einkum að skrifa fyrir Óskar Þorkelsson og Sigurð Hreiðar. Ekki má heldur gleyma Ellismelli eða Hörpu Hreins sem að vísu er næstum skyld mér. Þau hafa bæði lengi kommentað hér. Sumir ættingjar mínir, bekkjarfélagar og jafnvel fleiri veit ég að lesa bloggið mitt reglulega og yfirleitt án þess að kommenta. Mér finnst oft að ég sé að skrifa fyrir þá líka. Suma gleymi ég að nefna enda er alltaf tvíbent að nefna nöfn. Ólafur Sveinsson og Jóhannes Finnur koma mér t.d. í hug.

Ekki er fésbókinni alls varnað. Gegnum hana komst ég í kynni við Kalla Jóhanns á ný. Það er nokkuð eftirminnilegur kafli úr mínu lífi þegar ég kynntist honum sem best. Það var þegar ég var með frímerkjadelluna og hún heltók mig af sem mestum krafti. Þá stofnuðum við frímerkjaklúbbinn Sjöstirnið. Ég man auðvitað best eftir Kalla í því sambandi en eflaust höfum við verið fleiri. T.d. gæti Jósef Skafta sem best hafa verið þarna líka og e.t.v. sömuleiðis Siggi í Fagrahvammi og Mári Mikk.

Söfnunaráráttan heltók okkur á þessum tíma og ég er ekki frá því að ég hafi annaðhvort verið formaður eða ritari þessa ágæta félags. A.m.k. man ég eftir að í mínum fórum voru árum saman heilmörg bréf sem við fengum frá Svíþjóð. Þau voru stíluð á Sjöstirninö (Svíarnir skildu ekki og áttu ekki ð) og báru með sér að minnst hefði verið á klúbbinn í sænsku frímerkjablaði (líklega fyrir tilverknað Kalla). Ekkert var gert með þessi bréf og klúbburinn dó drottni sínum fljótlega.

Mér finnst ég þurfa að koma mínum mjög svo alþjóðlegu (finnst mér sjálfum) stjórnmálasjónarmiðum að í mínu bloggi. Það er samt mun meira gaman að einbeita sér að gamla tímanum og minningum þaðan. Kannski er ég líka betur til þess fallinn þó sumir séu hissa á því að ég skuli einn hafa gengið fram fyrir bloggsköldinn af mínum bekkjarfélögum (eða jafnvel skólafélögum flestum eða öllum) Sjálfum finnst mér það samfélag sem ég ólst upp við í Hveragerði í upphafi kaldastríðsáranna vera það merkilegasta sem um getur.

Mogginn gerir grín að Söru Palin. Hún vildi víst þakka Bush forseta drápið á Ósómanum. Hvar endar þetta eiginlega. Obama gerir grín að Trump og Mogginn gerir grín að Palin. Ætli Obama verði ekki bara endurkjörinn á næsta ári. Endurkjör er eiginlega reglan í Bandaríkjunum. Jafnvel Bush var endurkjörinn.

Það eru eiginlega tvö pólitísk dogmu sem ég er áskrifandi að. Annað er það að allir séu í rauninni annaðhvort opingáttarmenn eða einangrunarsinnar. Hitt er það að fólk sé fífl. Um bæði má skrifa langt mál. Mig minnir að ég sé nýbúinn að minnast eitthvað á einangrunarsinnana, sem ég þykist ekki tilheyra. Lengra er hugsanlega síðan ég hef skrifað um hitt. Ég styð ekki þá skoðun að fólk sé fífl. Margir stjórnmálamenn virðast samt gera ráð fyrir því að almennt séu kjósendur afskaplega heimskir og fáfróðir. Miklu nær finnst mér að gera ráð fyrir að almenningur sé a.m.k. jafngáfaður manni sjálfum. Erfitt er það vissulega en margt verður ljósara ef ráð er gert fyrir þessu.

IMG 5388Rætur vorsins.


1349 - ESB og þjóðarvitund Íslendinga

JonaSiggaA TeddiKjartansGamla myndin.
Enn leita ég í smiðju Kalla Jóhanns. Hann sendi mér þessa mynd. Hún er frá balli sem haldið hefur verið að Hótel Hveragerði um 1960 býst ég við. Jóna Sigurðardóttir og Theodór Kjartansson dansa þarna fremst á myndinni. Þekkja nokkrir fleiri? 

Hún situr talsvert í mér sú mynd sem Eiríkur Bergmann dró upp af okkur Íslendingum í þætti Egils Helgasonar síðastliðinn sunnudag.

Sú mynd að fullveldið og sjálfstæðið sé mikilvægast fyrir okkur Íslendinga og við séum á flestan hátt mjög sérstakir og vel gerðir er hægt að segja að sé ríkjandi umræðuhefð hér á landi. Árangri í stjórnmálum er ekki hægt að ná nema ganga þessari hefð á hönd. Á þessu hefur verið hamrað frá því snemma á nítjándu öld. Það er varla fyrr en nú síðustu áratugina sem alvarlegir brestir hafa komið í þessa heimsmynd.

Háskólamenn hafa í vaxandi mæli bent á að aðrar þjóðir standi okkur oft og einatt miklu framar og Danir hafi síður en svo kúgað okkur og féflett á niðurlægingarskeiði okkar. Sumum finnst þetta niðurlægingarskeið hafa staðið allt frá því að við lögðum niður þjóðveldið á seinni hluta þrettándu aldar og til þess að við hlutum sjálfstæði í byrjun þeirrar tuttugustu.

Setja með öðrum orðum samasemmerki á milli þess að við ráðum sjálf öllum eða allflestum okkar málum og að hér gangi hlutirnir vel og velmegun sé mikil. Svo er þó alls ekki. Það voru innlendir aðilar sem héldu aftur af öllum framförum hér í aldaraðir. Mér er í fersku minni hve mikil reiði greip um sig í þjóðfélginu þegar sjónvarpsþættirnir sem nefndust „Þjóð í hlekkjum hugarfarsins" voru sýndir hér.

Sannleikanum verður hver sárreiðastur er spakmæli sem sannaðist þá eftirminnilega. Auðvitað gerði Baldur sá Hermannsson sem þessa þætti setti saman of mikið úr hlutunum. Með því olli hann svo heifarlegum viðbrögðum að mér brá. Mér ofbauð líka sú sögufölsun og heilaþvottur sem átti sér stað hér á Íslandi þegar þorskastríðin stóðu sem hæst.

Nú vilja samningamenn ESB fara að ræða alvarlega við okkur Íslendinga um aðildina að ESB sem við höfum sótt um. Ef umræðuhefðin hér á Íslandi breytist ekki þeim mun meira er hætt við að nei-sinnar muni ná undirtökunum í kosningum um aðild.

Sú trú virðist útbreidd að okkur vegni best ef við stöndum sem mest á eigin fótum. Fullveldið og sjálfstæðið sé það sem umfram allt beri að vernda. Líklegast er að sú skoðun  verði ofaná einfaldlega vegna þess að búið er að ala á henni síðan löngu fyrir sjálfstæðið sem fékkst 1918. Semsagt í meira en hundrað ár. Sú skoðun sem þannig hefur síast inní íslenska þjóðarvitund verður ekki numin í burtu í einu vetfangi. Engu máli skiptir hvort hún er réttmæt eða ekki.

Þó Bandaríkskir hermenn losi okkur smám sama við óværu á borð við Ósama bin Laden og Saddam Hússein (jafnvel Gaddafi bráðlega) er ekki þar með sagt að heimsvaldastefna Bandaríkjastjórnar verði vinsælli meðal hinna sigruðu. Á margan hátt líkist Bandaríska heimsveldið æ meira hinu Rómverska. Slík heimsveldi líða á endanum undir lok en ekki er víst að það Bandaríska geri það fljótlega.

Davíðar þessa heims reyna vitanlega eftir mætti að hafa áhrif á stefnu heimsveldisins en ekki er við því að búast að ímyndaðir hagsmunir örríkis eins og þess íslenska hafi áhrif á stefnu risaveldisins. Þess vegna hvarflaði það áreiðanlega aldrei að bandarískum ráðamönnum að hafa hér her lengur en það þjónaði hagsmunum þeirra sjálfra.

IMG 5231Hér sýnist mér Tinna vera að undirbúa ólöglegan biskupsleik.


1348 - Snjór og aftur snjór

BirgirH SkuliMaggGamla myndin.
Hér kemur strax fyrsta myndin frá Kalla Jóhanns (sjá seinna í blogginu). Á þessari mynd eru þeir Birgir Helgason og Skúli Magnússon. Góð mynd.

Jæja, nú er allt komið á kaf í snjó. Ég sem hélt að loksins væri sumarið að koma. Fyrsti maí er reyndar um allt land en sumarið víst ekki.

Það eru handónýt rök að segja að fangar verði of sterkir á því að hafa aðgang að lóðum til lyftinga. Stjórn fangelsismála verður að reyna að finna einhver skárri rök en þau. Fangelsismálastjóri varð sér til eftirtektarverðrar minnkunnar með því að halda fram opinberlega annarri eins fjarstæðu.

Ég hef oft verið að andskotast út í fésbókina. Hún er samt ekki alslæm. Fyrir utan allt hitt finnst mér hún duga ágætlega til að vekja athygli á málum sem maður er hálfbúinn að gleyma. Það breytir því ekki að mér finnst hún misnotuð af mörgum og margt í henni vera fjarskalega lítils virði. Hún er greinilega mikið notuð líka til að birta myndir. Mér finnst hún ekki henta mér sérlega vel. Kannski er ég langorðari en þar tíðkast. Mér finnst ég samt ekki langorður. Það er líka erfitt að endurskoða og lagfæra það sem skrifað er ef sífellt er verið að skrifa nokkur orð.

Karl Eggert Jóhannsson sendi mér nokkrar myndir (9) frá Hveragerði í gamla daga. Við að skoða þær vakna ýmsar spurningar. Líklega mylgra ég þeim smám saman á bloggið mitt og kannski þurfa sumar af spurningunum að fylgja með. Látið ykkur hlakka til. Á þessum myndum eru t.d. Siggi Þorsteins, Mummi Bjarna, Kiddi Antons, Skúli Magg, Siggi Jóns, Teddi Kjartans, Jóna Sigga Árna, Ísidór Hermannsson, Venni og að sjálfsögðu Kalli sjálfur.

Það eru alltaf hinir og þessir að boða til mótmæla á Austurvelli vegna ýmissa málefna. Áhrif þess gjörnings að boða til mótmælastöðu við Alþingishúsið fara síminnkandi. Þessi aðferð hefur verið misnotið. Eitthvað ögn frumlegra þarf að sjá dagsins ljós. Annars held ég að núverandi ríkisstjórn sé vinsælli en þeir vilja vera láta sem hæst hafa.

Hef verið að birta talsvert af gömlum myndum hér á mínu bloggi undanfarið. Ljósmyndadellu meðfram öllum hinum dellunum hef ég lengi verið með. Tók eitthvað af myndum í Hveragerði í gamla daga. Þær eru þó miklu færri en ætla mætti. Svo fór ég á Bifröst og tók eitthvað af myndum þar. Tók mikið af myndum þegar við áttum heima á Snæfellsnesi, talsvert í Borgarnesi líka minnir mig.

Hef sennilega tekið fremur lítið af myndum eftir að við fluttum til Reykjavíkur 1986 fyrr en þá síðustu árin. Fékk stafræna myndavél í jólagjöf árið 2007 og hef síðan tekið talsvert af myndum. Mannamyndir og dýramyndir hafa þó lent svolítið utangarðs hjá mér enda óhemju vandasamar ef vel á að vera. Landslagsmyndir reyndar líka.

Margir jesúsa sig heil ósköp yfir því að konur og börn skuli notuð í sjálfsmorðsárásum. Það er samt ekki mjög skrítið. Árásir af þessu tagi eru baráttuaðferð sem oft er gripið til. Í fersku minni flestra eru kamikaze flugmennirnir Japönsku. Þetta er aðferð í stríði sem sá veikari beitir ef honum finnst hann fara halloka og ekki eiga á öðru völ. Bretar og Bandaríkjamenn mundu beita þessu sjálfir ef þeir teldu sig þurfa. Heilaþvotturinn sem til þarf væri þeim ekki erfiður.

Eiríkur Bergmann var í silfri Egils í dag að segja frá nýrri bók eftir sig. Mér fannst það sem hann sagði vera afbrigði af því sem oft er sagt. Allir menn eru hvað pólitík snertir í grunninn annaðhvort opingáttarmenn eða einangrunarsinnar (og framsóknarmenn eða kratar ef svo vill verkast). Ef menn afneita með öllu ríkjandi orðræðuhefð, sem á Íslandi snýst um fullveldið og vonda útlendinga, þá þurfa þeir að vara sig. Það er erfitt að ná langt í pólitík á Íslandi nema láta orðræðuhefðina og sérstöðu landsins vísa sér veginn. Það er alls ekkert skrítið að hörðustu þjóðrembumenn skuli ýmist vera lengst til hægri eða lengst til vinstri í ýmsum öðrum málum.IMG 5219

Jú, ég hef heyrt að það gangi hálfilla hjá Viðskiptablaðinu.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband