Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2011

1284 - Að jónasast og hannesa

Hvað sem ákafir Icesave-andstæðingar segja er það að verða ljóst að flestir sem nálægt þessum málum hafa komið og eytt miklum tíma í að kynna sér samninginn sem allra best (alþingismenn meðtaldir), virðast vera þeirrar skoðunar, að affarasælast sé að samþykkja þau samningsdrög sem fyrir liggja. Auðvitað er einhver áhætta því fylgjandi en einnig fylgir því talsverð áhætta að segja nei í þjóðaratkvæðagreiðslunni 9. mars.

Sagnir eru stundum kenndar við ákveðna menn. Þannig talaði ég um daginn um að jónasast. Varla hefur það farið framhjá mörgum hvaða Jónas ég átti við. Sögnin að hannesa var líka talsvert kunn fyrir nokkru en sennilega eru flestir hættir að nota hana. Sagnir sem svona eru myndaðar held ég að eigi yfirleitt ekki langt líf fyrir höndum. Þó gæti ég trúað að sögnin að jesúsast eða jesúa sig sé alls ekki nýtilkomin.

Sverrir Agnarsson sem eitt sinn vann með mér á Stöð 2 sagði í silfri Egils í dag að enn væri á lífi Líbýumaðurinn sem sleppt var úr skosku fangelsi vegna þess að hann var sagður eiga mjög fáar vikur eftir ólifaðar. Þetta var eini maðurinn að ég held sem nokkru sinni hefur setið inni fyrir Lockerbie-hryðjuverkið. Annars var margt af því sem Sverrir sagði um Gaddafi og Líbýu athyglisvert í meira lagi.

Tvennt finnst mér mest einkennandi eftir að aldurinn fór svolítið að færast yfir mig. Annað er það hve hlutirnir ganga hægt allir saman. Ég hreyfi mig hægar, hugsa jafnvel svolítið hægar og svo mætti lengi telja. Hitt er að ég er áberandi lengur að jafna mig á byltum og hvers kyns skrokkskjóðum en áður fyrr. Þetta veldur því að maður hlífir sér fremur, við allt mögulegt, því ef illa fer geta afleiðingarnar orðið miklu verri en áður var.

IMG 4647Hvað sem sagt verður um húsið sjálft þá eru hurðirnar fínar og það er númer tuttugu.


1283 - Skák og mát

Þjóðfundurinn 1851 er frægur í sögunni. Til hans var stofnað á svipaðan hátt og stjórnlagaþingsins nú. Vel getur verið að í framtíðinni verði stjórnlagaráð það sem saman kemur innan skamms frægt að öðru en endemum. Víst er að mikið er búið að ráðslaga fram og aftur um stjórnarskrá fyrir landið þó Alþingi hafi ekki getað lokið því máli. Kannski getur stjórnlagaráðið gert það og hugsanlega verða allir kátir að lokum.

Mestur hluti þess sem eftir er af þessu bloggi er afar vísindalegt enda fjallar það eingöngu um skák. Ég geri ráð fyrir að nánast allir kunni mannganginn svo ég er ekkert að þreyta mig á útskýringum á honum. Þegar ég var að læra að tefla voru það einkum tvö atriði sem erfiðleikum ollu. Það voru framhjáhlaupið og hrókunin, einkum langhrókun. Segja má að það þriðja sem snertir mannganginn séu undantekningarnar frá 50 leikja reglunni. Ég hef aldrei skilið þær og samt komist ágætlega af. Með öðrum orðum. Þær eru svo sjaldgæfar að það er óhætt að gleyma þeim.

Uppröðunin getur vissulega vafist fyrir sumum en þar eru það afar fáar og skýrar reglur sem ráða. Allir þekkja taflmennina og vita hvernig raðað er upp. Tvennt þarf þó að hafa í huga. Annars vegar er það hvernig taflborðið á að snúa og svo hvernig hjónunum tignu skuli komið fyrir.

Tvær örstuttar setningar ráða fram úr þessu. „Hvítur reitur í hægra horni" er önnur en hin er „Drottningar ráða reitum". Sú fyrri er auðskilin og fjallar um hvernig borðið á að snúa. Þá seinni ber að skilja þannig að drottningunum skuli komið fyrir á reitum samlitum þeim. Ekki meira um uppröðunina. Hún ætti nú að vera öllum ljós.

Framhjáhlaupið er eitt það skemmtilegasta í skákinni. Fyrst þegar ég var að læra að tefla kom sér oft vel að kunna skil á því. Öðrum kom það stundum mjög á óvart og svo var það lengi vel fyrir hendi að menn gleymdu þeim möguleika með öllu. Í sem stystu máli er framhjáhlaupið þannig að þegar peði er leikið fram um tvo reiti og lendir við það við hliðina á óvinapeði má drepa það eins og því hefði aðeins verið leikið fram um einn reit. Þetta verður þó að gera strax í næsta leik annars fellur rétturinn niður.

Hrókun fer þannig fram að fyrst er kónginum leikið til hliðar um tvo reiti og síðan er hróknum lyft yfir kónginn og hafður við hlið hans. Nokkur atriði þurfa að vera á hreinu. Hvorki kóngnum né hróknum má hafa verðið leikið fyrr í skákinni. Ekki má hróka yfir menn. Hvorki reiturinn sem kóngurinn fer af, yfir eða lendir á má liggja undir árás fjandmanns. Þetta þýðir t.d. að ekki má hróka úr skák.

Nú er rafmagnslaust hér í hluta af Auðbrekkunni og hluta af Nýbýlaveginum en ekki annars staðar sýnist mér. Vasaljós er innan seilingar og sprittkerti finnanleg. Ferðatölvan þessi hefur battery sem væntanlega endist í svona rúman klukkutíma. Samt er það nú ansi fátt sem maður getur gert. Getur ekki einu sinni fengið sér kaffisopa.

IMG 4634Sjóræningjaskipið „Jolly Roger".


1282 - Krumminn á skjánum

Svo virðist sem reynt verði að fá þá sem ekki vilja kafa of djúpt í Icesave-málið til að trúa því að í raun snúist þjóðaratkvæðagreiðslan sem framundan er um aðild að ESB. Líka á að reyna að virkja alla þá andstöðu við stjórnina sem finnanleg er, á hvern hátt sem hún er tilkomin. Þó er alls ekki víst að andstæðingum Icesave takist að fá almenning til að fallast á sínar skýringar, einkum vegna sinnaskipta allmargra sjálfstæðisþingmanna. Svo eru öfgamennirnir þegar búnir að tapa í stjórnlagaþingsmálinu og þannig er ekki útilokað að Jóhanna hafi sitt fram að lokum. Ekki meira um stjórnmál að sinni.

Nú væri upplagt að snúa sér að Colonel Gaddafi ef ekki væri búið að segja flest sem segja þarf um hann. Hann hefur það umfram Hitler að þurfa ekki að láta hermenn sína drepa eigin landsmenn. Málaliðarnir sjá um það. En ég hef þá trú að valt sé að treysta þeim.

Nú er sagt að lóan sé komin. Ég heyrði bara í krumma á morgungöngunni í morgun.

Krumminn á skjánum
kallar hann inn:
„Gef mér bita af borði þínu
bóndi góður minn."
Bóndi svarar býsna reiður:
„Burtu farðu krummi leiður.
Ljótur ertu á tánum.
Krumminn á skjánum."

Þessi þula kom mér þá í hug. Kannski er hún í raun allt öðruvísi en svona man ég hana. Man að mér fannst alltaf simpilt hjá bóndanum að vera að hallmæla krumma vegna tánna.

Já, Sigurður þetta er þunnur þrettándi, en eitthvað verður undan að láta þegar markmiðið er að blogga daglega hvort sem maður hefur eitthvað að segja eða ekki.

IMG 4590Aldan kemur og tekur fólkið.


1281 - Eystri-Garðsauki

Sigurður Þór segist vera Gadda-fisk-api. Er ekki sjúr. Kannsi er hann bara í Gaddafi-skapi og gæti þessvegna dottið í hug að drepa mig. Líklega eins gott að vera ekki nálægt honum. Ef hægt væri að drepa í gegnum blogg eða fésbók held ég að allmargir væru dauðir. 

Annars er þetta ástand í Líbýu ekki til að gera grín að. Ekki var djöfulgangurinn svona mikill í Egyptó. Bandaríkjamenn kunna á almenningsálitið. Nú þykjast þeir ekkert vilja fremur en að bjarga mannslífum. Stuðningsmönnum þeirra meðal einræðisherra í arabaheiminum fer þó fækkandi. Nei, ég held ég vilji frekar vera fiskapi en í Gaddafi-skapi. Hvernig eru fiskapar annars? Hljóta þeir ekki að vera supergáfaðir?

Skelfingar þrugl er þetta. Svona er að vera andvaka um miðjar nætur. Manni dettur allur andskotinn í hug. Ekkert af því er samt uppbyggjandi og fallegt.

Í bókinni „Söguþættir landpóstanna" stendur eftirfarandi á blaðsíðu 23:

„Þegar Hans póstur hætti ferðum sínum 1919, urðu bæði pósthestar og póstvagnar óþarfir á sumrum á þessari leið, því að þá tóku bílarnir við. Fóru þeir fyrst að Garðsvika, en nú orðið austur í Vík, síðan brúin kom á Markarfljót (1933) og alla leið austur á Síðu, eftir því sem fjölgar brúm á þeirri leið. - Hefir bæði Kaupfélag Árnesinga, áætlunarbílar frá Steindóri Einarssyni í Reykjavík o.fl. annazt um slíkan flutning frá Reykjavík síðan."

Undir þetta skrifar svo Vigfús Guðmundsson sem vel gæti verið sá frægi Fúsi vert sem kunnur var fyrir störf sín í Hreðavatnsskála.

Þar sem talað er um Garðsvika í þessari klausu er líklega átt við Eystri-Garðsauka hjá Hvolsvelli þar sem afi minn var eitt sinn póstmeistari og símstöðvarstjóri þegar síminn náði ekki lengra austur en þangað á sunnanverðu landinu.

Allir eru vinir á fésbókinni. Sjálfur á ég hátt á fjórða hundrað slíka. Er engin leið á eiga fésbókaróvini eða hvað? Vinalætin eru slík að maður fær engan frið. Manni er tilkynnt um öll möguleg og ómöguleg vináttutildragelsi. Sennilega þeim mun fleiri sem maður á fleiri fésbókarvini. Hvernig á ég að frábiðja mér svona tilkynningar? Er það hægt? Mér finnst ekki að mér komi þetta neitt við. Ef maður hefur asnast til að taka þátt í einhverjum umræðum fær maður líka bréf um áframhaldandi þátttöku þar þó maður hafi engan áhuga á að vita af því. Veit að mér væri kannski fyrir bestu að hætta að fara inn á fésbókina en hún er vanabindandi eins og svo margt á netinu.

Og úr því að ekki þótti fært að kjósa til stjórnlagaþings um leið og kosið er um Icesave er kannski skást að skipa bara þetta stjórnlagaráð. Fer samt ekki ofan af því að eðlilegast hefði verið að kjósa aftur.

IMG 4563Beðið eftir bárunni.


1280 - Blogg og bókasöfn

Scan77Svo haldið sé áfram með óveðurssögur frá Vegamótum, þá var aðkoman stundum á þessa leið á morgnana. 

Einhver fjöldi fólks er það sem les bloggið mitt að staðaldri. Að hluta til eru það eflaust ættingjar. Þó vafalaust ekki allir. Margir af þeim sem oft lesa bloggið mitt hljóta að vera farir að venjast því hvernig ég hugsa. Þó vita þeir kannski ekki neitt eða hérumbil ekki neitt um mig persónulega. Einkennilegt það. Finnst mér a.m.k. Kannski ættingjum líka og þeim sem þekkja mig vel.

Nú er allt að verða vitlaust í Líbýu. Áður í Egyptalandi og víðar. Hvar endar þetta? Ég get sagt ykkur það. Bensínverð mun rjúka upp (5 - 600 kr. pr. líter) og jafnvel í Bandaríkjunum mun bensínverð fara að nálgast verð annars staðar. Lýðræðið mun sigra. Lífskjör á Vesturlöndum verða lakari. Síðan mun allt fara í svipað far og var. Náttúruhamfarir munu taka fyrsta sæti sem fréttaefni og svo mun röðin koma að svörtu Afríku. Þá verð ég dauður.

Ég er með þeim ósköpum gerður að ég get ekki án bókasafna verið. Fyrrum átti ég erfitt með að muna eftir að skila bókum en það er liðin tíð. Takist mér ekki að lesa þær bækur sem ég fæ lánaðar tek ég þær bara að láni aftur. Og enn aftur ef með þarf.

Mér er ráðlagt að blogga sjaldnar og hætta þessu væli. Það er að vonum. Þó ég þurfi að lesa þessi ósköp og það jafnvel oft til að ganga úr skugga um að þetta sé sæmilega gert þá er ekki þar með sagt að aðrir þurfi að gera það. Hér með er þeim gefið frí sem eru hálfleiðir á þessu jukki.

Sé að Tenerife-myndirnar ætla að endast mér eitthvað. Það er gott. Grámyglan hér er ekki vinveitt ljósmyndum. Rigningarsúldin ekki heldur. Þegar vorið fer að bæra á sér er samt fátt sem jafnast á við ástandið hér, ljósmyndalega séð.

„Eru ALLIR svona vitlausir nema öfgamenn Heimssýnar og Páll Vilhjálmsson?" Páll Blöndal ræðir ESB og spyr svona. Ég held að málið sé aðeins flóknara en þetta og þeir séu fleiri sem andvígir eru inngöngu í ESB. Kannski er andstaða þeirra tómur misskilningur en áreiðanlega er það ekki vegna þess að þeir séu vitlausari en aðrir. Það er einfaldlega ekki hægt að ræða þessi mál á þvílíkum nótum sem hér er gert. Yfirleitt finnst mér andstæðingar ESB eiga fleiri svona hjákátlegar fullyrðingar en ef til vill finnst öðrum það ekki. Að tengja saman Icesave málið og aðild að ESB á þann hátt sem hollenskur þingmaður nokkur og einhverjir aðrir virðast gera er og fásinna hin mesta.

IMG 4557Don Quixote á verði.


1279 - Vegamót á Snæfellsnesi

Scan71Uppgötvaði áðan að leikur einn er að skoða og sýna myndir með flakkaranum sem hér er staddur. Þannig fann ég þessa mynd. Hún er frá Vegamótum á Snæfellsnesi. Svona var oft umhorfs á hlaðinu þar vikum saman að vetrinum. Á morgnana þurfti oftast að byrja á því að moka snjó. Það komst upp í vana.

Líklega á ég fullt af myndum frá Vegamótum. Bæði snjómyndum og öðrum. Hvort einhverjir hafa ánægju af að skoða slíkar myndir er aftur annað mál.

Mér gengur illa að einbeita mér að einhverju einu hér á blogginu mínu. Ætli það sé ekki hluti af Sæmundarhættinum margfræga að skrifa um allt mögulegt. Festa sig aldrei við neitt sérstakt. Ná heldur ekki árangri í neinu. Það er mín saga. Ég næ aldrei árangri í neinu, því ég fæ alltaf dellu fyrir einhverju nýju. Einu sinni var það skák, einu sinni frímerki, einu sinni ljósmyndun, einu sinni fjallgöngur o.s.frv. Núna hef ég mesta dellu fyrir gönguferðum og bloggi.

Þær fréttir að Icesave-samningurinn njóti stuðnings nær fimmtíu og átta af hundraði kjósenda komu mér satt að segja á óvart. Ekki hefur umræðan verið þannig. Kannski ber einkum að túlka þetta sem stuðning við ríkisstjórnina og pólitíkusa yfirleitt. Annars vil ég gjarnan fá að heyra af fleiri skoðanakönnunum um þetta og ég mun einkum taka mark á Gallup í því efni.

Að láta sér detta eitthvað í hug til að skrifa um daglega á blogginu er talsverður handleggur. Annað skrifa ég yfirleitt ekki þann daginn. Sem er hugsanlega skaði. Skyldi ég ekki geta skrifað eitthvað gáfulegra ef ég einhenti mér í það? Stundum finnst mér svo vera. Annars dettur mér sífellt oftar í hug vísan þekkta sem ég veit ekki eftir hvern er en er einhvern vegin svona:

Áður hafði áform glæst.
Engin þó að hafi ræst.
Nú er það mín hugsjón hæst
hvenær verður étið næst.

Og satt að segja held ég að ég sé að fitna. Best að fara að gera eitthvað í þessu. T.d. að lengja gönguferðirnar og gera þær reglulegri. Þ.e. að sleppa engum dögum úr.

IMG 4532Myndarlegt tré.


1278 - Moggabloggið sem geymslustaður

Að mörgu leyti nota ég Moggabloggið sem geymslustað fyrir skrif mín og myndir. Málið er nefnilega þannig vaxið að þó ég hafi gaman af að skrifa (og yrkja vísur jafnvel líka) hef ég ekki nærri eins gaman af að halda þessu til haga. Einn aðalkosturinn við Moggabloggið finnst mér vera að þar get ég væntanlega gengið að þessum skrifum mínum vísum síðar meir (eða þar til Davíð ákveður annað). Og ekki veitir af, því megnið af þeim er hvergi til annars staðar. Ég er samt alltaf að hugsa um að velja það skásta úr þessum skrifum og geyma einhvers staðar annarsstaðar. Auðvitað verður svo aldrei neitt úr því. Líka skrifaði ég heil ósköp á Tenerife og hafði hugsað mér að nota eitthvað af því hér og hef kannski gert. Á þó eftir að yfirfara þau skrif ef ég finn þau.

Mikið er skrifað og skrafað um ákvörðun Ólafs forseta. Það er auðvitað að vonum. Hann hefur pólitískt PR-nef segja margir og sú er trú mín að hann sé núna einkum að velta fyrir sér hvort hann eigi að fara í framboð einu sinni enn. Icesave ákvörðun hans veldur líklega minnkandi líkum á marktæku mótframboði ef hann ákveður að fara fram. Ég er ekki að segja að það hafi ráðið mestu um ákvörðun hans varðandi Icesave en það var áreiðanlega einn af þeim þáttum sem taka þurfti með í reikninginn.

Segja má að kosningabaráttan hafi hafist í gær. Nei-sinnar er að af fullum krafti en já-sinnar eru varla komnir í startholurnar. Útlit er fyrir að þessi þjóðaratkvæðagreiðsla verði mun tvísýnni en síðast. Þá var ekki hægt að segja að það væri valkostur að velja jáið. Ýmislegt á eftir að ganga á þar til kosið verður að þessu sinni. Ekki er gott að sjá hvernig mál þróast. Margir hafa hátt um að ríkisstjórnin þurfi að segja af sér ef lögin verða felld. Eins og ég skil málið fer það allt eftir því hvað ríkisstjórnin segir og gerir fram að kosningadegi hvort hún þurfi að segja af sér ef málið tapast.

Ég hlusta talsvert oft á innhringiþættina á Útvarpi Sögu og skammast mín ekkert fyrir það. Það er stundum gaman að hlusta á fólk sem hringir inn en mestan part er það svo æst að það sést ekki fyrir. Orðbragðið er oft með ólíkindum. Oft er ég mjög ósammála bæði þeim sem hringja inn og þáttastjórnendunum sem ótrúlega oft eru alveg sammála innhringjendum. (Eða öfugt). Svo er gaman að hlusta á skoðanakannanirnar hjá þeim. Arnþrúður og Pétur tala oft um þessar skoðanakannanir eins og eitthvað sé að marka þær. Ég er alls ekki viss um að fleirum en þeim detti það í hug.

Margir segja að Icesave atkvæðagreiðslan sé undanfari atkvæðagreiðslu um ESB-aðild. Það kann að vera rétt að því leyti að talsverðar líkur eru á að úrslit þeirra atkvæðagreiðslna beggja verði á sama veg. Það er að segja að ef Icesave-lögin verða felld þá verði ESB-aðild einnig hafnað og ef þau verði samþykkt þá aukist líkurnar á því að ESB-aðild verði einnig samþykkt. Áhrifin þarna á milli eru þó mjög óbein þó reynt sé að gera sem mest úr þeim. Þeir sem það gera vita það líka mætavel en hamra samt sem mest á þessum tengslum.

IMG 4482Köttur skoðar veröldina.


1277 - Pöddur og lofthræðsla

Heyrði aðeins í „Gettu betur" meðan ég var að vaska upp í gærkvöldi. Af einhverjum ástæðum höfðaði þátturinn ekki til mín þó ég sé yfirleitt hrifinn af spurningaþáttum. Edduvitleysan fór alveg framhjá mér og ég sé ekki eftir henni. Það var auðvitað eins og hver önnur yfirsjón að koma ekki að svarinu: „Nákvæmlega" í gærblogginu mínu eins tískuþrungið og það svar er.

Sjálfum finnst mér ég ekki vera að endurtaka mig í sífellu. Öðrum kann þó að finnast það. Og kannski er ég að því. Tala t.d. óeðlilega oft um blogg og fésbók. Ætti sennilega að hætta því. Kött á ég engan og get því ekki frægðarsögur af honum sagt. Hund ekki heldur og hvað er þá til ráða. Myndavélin er mitt uppáhaldshúsdýr og fær oft að fara með mér í gönguferðir. Verst hvað hún er gráðug í batteríisrafurmagn. Er annars kominn á þá skoðun að hleðslutækið mitt sé eitthvað gallað.

Sagt er að ímynda megi sér heiminn sem 100 fjölskyldna þorp. Af þeim eru þá allir ólæsir í 65 fjölskyldum. Tíu þeirra tala ensku eða kunna eitthvað í henni. 70 þurfa að sækja sér vatn í brunn. 80 hafa aldrei í flugvél komið. Sjö fjölskyldur eiga næstum allt landið og nota 80 prósent af þeirri orku sem til staðar er. Háskólamenntun þekkist aðeins hjá einni fjölskyldu. Sífellt gengur á gæði landsins sem fólkið lifir á. Lífskjörin versna. Á að reyna að ráða bót á þessu? Hver á að gera það?

Pödduhræðsla mín vex með aldrinum. Vil samt ekki mikið tala um kakkalakka og þess háttar. Frekar um hnjámáttleysið sem lofthræðslunni fylgir. Hún eykst líka með aldrinum. Áður fyrr gat ég með léttum leik staðið á mörghundruð metra hárri klettabrún með tærnar framaf. Mundi ekki reyna slíkt núna. Jafnvel svalir á fjórðu eða fimmtu hæð geta valdið máttleysi í hnjánum ef ekki er varlega farið og handriðið nógu hátt. Veit ekki hvar í ósköpunum þetta endar. Líklega uppi í sveit. Þar eru ekki háhýsin og klettana má varast. Hef aldrei skilið veðurhræðslu. Ef of hvasst er til að standa má alltaf skríða. Bylur getur vissulega orðið svartur en þarflaust er ferðast um í slíku veðri nútildags.

Merkilegur hlutur gerðist eitt sinn þegar verið var að leggja veg yfir Hellisheiði. Þetta hefur sennilega verið svona um 1920 eða 30. A.m.k. voru bílar komnir til sögunnar þegar þetta var. Handmokað var á bílana enda voru þeir ekki stórir. Gryfjurnar voru rétt við veginn. Vikurinn var léttur og mokstursmennirnir duglegir. Þar kom að þeir urðu fljótari að moka á bílana en bílarnir að keyra vikurinn í burtu. Fengu þeir þannig smáhvíld eftir að hafa mokað á hvern bíl. Þetta leist verkstjóra Vegagerðarinnar illa á og vildi láta þá moka vikri fram og aftur fremur en að sitja iðjulausir. Á endanum náðist samkomulag um að þeir mættu ekki hvíla sig í sjónmáli við veginn!!

IMG 4393Varnargarðar við amerísku ströndina á Tenerife.


1276 - Hundrað ár í sögu þjóðar

Óhætt er að segja að byrjun tuttugustu aldarinnar hafi ekki síður verið vettvangur mikillar stjórnmálalegrar ólgu hér á Íslandi en nú er í byrjun hinnar tuttugustu og fyrstu. Ekki var kannski eins miklum peningum stolið þá og nú og auðvitað þekkja engir þennan tíma af eigin raun. Um það sem þá gekk á hefur margt verið skrifað og ekki er hægt annað en reyna að heimfæra nútímann upp á það sem þá var.

Rangt sýnist mér þó að ganga of langt í því. Sjálfstæði þjóðarinnar sem þá var greinilega í augsýn og stuðningur fólks við það er ekki það sama og nú er kallað einangrunarstefna af þeim sem vilja veg samvinnu við aðrar þjóðir sem mestan.

Heimurinn er einfaldlega svo gjörbreyttur að það sem áður virtist vera framfarahugur hinn mesti er nú orðið hið rammasta afturhald. Mér sýnist a.m.k. svo. Einangrun og þjóðremba er ekki sá bjargvættur þjóðarinnar sem haldið var fyrir hundrað árum.

Þá vorum við Evrópuþjóð sem greinilega hafði misst af þeim framförum sem orðið höfðu í álfunni á undanförnum öldum. Nú erum við sú þjóð í hugum flestra sem hampar þeim skúrkum sem svindlað hafa á almenningi um mestalla álfuna og neitar að greiða skuldir sínar.

Þeir sem afneita þessu með öllu eru þeir sem umfram allt vilja að hér verði allt aftur eins og var og vilja halda áfram að ræna aðra jafnvel þó það geti kostað útskúfun og einangrun.

Þeir sem hæst hafa um versnandi heim og segja allt á niðurleið telja að öllum líkindum sína kynslóð vera þá bestu. Þeir sem trú hafa á að veröldin fari batnandi hljóta að álíta ungu kynslóðina í dag vera betri en þær sem á undan hafa gengið. Það getur ekki verið að kerfið sjálft sé svona gott, fólkinu hlýtur að fara fram líka.

Þegar allir verða hættir að nýta fjölmiðla (tala nú ekki um prentuð dagblöð - er nokkuð eins úrelt?) og hættir að treysta skoðanakönnunum, allflestir hættir að lesa blogg, og flestir hættir að nota rafpóst hvernig berast þá fréttir milli manna?

Nú, auðvitað með fésbókinni.

Já, en er ekki búið að banna fésbókina eins og tyggjóið á flestum vinnustöðum?

Jú, en um leið og fólk kemur heim fær það að frétta hvað fésbókin hefur að segja um allt sem skiptir máli.

Nú??

Já, fésbókin rúlar.

Er þá sá valdamestur sem best kann á fésbókina?

Auðvitað.

Það er þá nóg fyrir Óla að spyrja fésbókina þegar hann fer að velta því fyrir sér hvort hann eigi að skrifa undir.

Einmitt.

Já, svoleiðis. Ég hafði bara ekki velt þessu fyrir mér.

IMG 4377Inngangurinn að Síams Park.


1275 - Mér heyrðist svartur ullarlagður detta

Maður kom á bæ og þóttist vera blindur. Þessu hafði hann fundið uppá til að þurfa ekki að starfa neitt á vökunni. Þetta var þegar tíðkaðist að láta gestkomandi hjálpa til við vinnuna sem heimilisfólkið hamaðist við. Auðvitað datt heldur engum í hug að fara fram á greiðslu fyrir mat og næturgreiða.   

Sá blindi varð var við að ein prjónakonan missti ull á gólfið og sagði þá þessa ódauðlegu setningu: „Mér heyrðist svartur ullarlagður detta."

Ólafur forseti heyrir vel. Sennilega heyrir hann núna vel til þjóðarinnar yfir gjána miklu milli þings og þjóðar. Hvorum megin er Ólafur annars? Er hann kannski á botni gjárinnar?

Þetta eru spennandi tímar. Enginn vafi er á að sjónvarpað verður beint frá þeim merka atburði þegar Ólafur skýrir frá því hvað hann hefur heyrt.

Sá tími sem liðið hefur síðan Ólafur byrjaði að láta að sér kveða með því að neita að skrifa undir fjölmiðlalögin sællar minningar árið 2004 hefur verið viðburðaríkur í íslenskum stjórnmálum.

Stjórnskipunin er gjörbreytt. Þó veit engin hvernig hún er. Alþingi, einstakir þingmenn, stjórnmálaflokkar, kjördæmapotarar af öllum stærðum og gerðum, ríkisstjórn, seðlabankastjóri, hæstiréttur, forseti landsins og hver og einn sem því getur við komið hrifsar til sín þau völd sem hann mögulega getur.

Eru þá allir Íslendingar sem í embætti komast svona valdasjúkir? Það hlýtur að vera. Það er jafnvel reynt að kenna krökkum að vera svona. Eða var kannski. Hugsanlega er þetta að breytast. Unga kynslóðin hugsar kannski ekki svona. Hefur bara ekki enn fengið tækifæri til að sýna það.

IMG 4337Heimsókn í perluverksmiðju. Hægt var að kaupa skeljar sem yfirleitt innihéldu perlur, stundum tvær.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband