1277 - Pöddur og lofthræðsla

Heyrði aðeins í „Gettu betur" meðan ég var að vaska upp í gærkvöldi. Af einhverjum ástæðum höfðaði þátturinn ekki til mín þó ég sé yfirleitt hrifinn af spurningaþáttum. Edduvitleysan fór alveg framhjá mér og ég sé ekki eftir henni. Það var auðvitað eins og hver önnur yfirsjón að koma ekki að svarinu: „Nákvæmlega" í gærblogginu mínu eins tískuþrungið og það svar er.

Sjálfum finnst mér ég ekki vera að endurtaka mig í sífellu. Öðrum kann þó að finnast það. Og kannski er ég að því. Tala t.d. óeðlilega oft um blogg og fésbók. Ætti sennilega að hætta því. Kött á ég engan og get því ekki frægðarsögur af honum sagt. Hund ekki heldur og hvað er þá til ráða. Myndavélin er mitt uppáhaldshúsdýr og fær oft að fara með mér í gönguferðir. Verst hvað hún er gráðug í batteríisrafurmagn. Er annars kominn á þá skoðun að hleðslutækið mitt sé eitthvað gallað.

Sagt er að ímynda megi sér heiminn sem 100 fjölskyldna þorp. Af þeim eru þá allir ólæsir í 65 fjölskyldum. Tíu þeirra tala ensku eða kunna eitthvað í henni. 70 þurfa að sækja sér vatn í brunn. 80 hafa aldrei í flugvél komið. Sjö fjölskyldur eiga næstum allt landið og nota 80 prósent af þeirri orku sem til staðar er. Háskólamenntun þekkist aðeins hjá einni fjölskyldu. Sífellt gengur á gæði landsins sem fólkið lifir á. Lífskjörin versna. Á að reyna að ráða bót á þessu? Hver á að gera það?

Pödduhræðsla mín vex með aldrinum. Vil samt ekki mikið tala um kakkalakka og þess háttar. Frekar um hnjámáttleysið sem lofthræðslunni fylgir. Hún eykst líka með aldrinum. Áður fyrr gat ég með léttum leik staðið á mörghundruð metra hárri klettabrún með tærnar framaf. Mundi ekki reyna slíkt núna. Jafnvel svalir á fjórðu eða fimmtu hæð geta valdið máttleysi í hnjánum ef ekki er varlega farið og handriðið nógu hátt. Veit ekki hvar í ósköpunum þetta endar. Líklega uppi í sveit. Þar eru ekki háhýsin og klettana má varast. Hef aldrei skilið veðurhræðslu. Ef of hvasst er til að standa má alltaf skríða. Bylur getur vissulega orðið svartur en þarflaust er ferðast um í slíku veðri nútildags.

Merkilegur hlutur gerðist eitt sinn þegar verið var að leggja veg yfir Hellisheiði. Þetta hefur sennilega verið svona um 1920 eða 30. A.m.k. voru bílar komnir til sögunnar þegar þetta var. Handmokað var á bílana enda voru þeir ekki stórir. Gryfjurnar voru rétt við veginn. Vikurinn var léttur og mokstursmennirnir duglegir. Þar kom að þeir urðu fljótari að moka á bílana en bílarnir að keyra vikurinn í burtu. Fengu þeir þannig smáhvíld eftir að hafa mokað á hvern bíl. Þetta leist verkstjóra Vegagerðarinnar illa á og vildi láta þá moka vikri fram og aftur fremur en að sitja iðjulausir. Á endanum náðist samkomulag um að þeir mættu ekki hvíla sig í sjónmáli við veginn!!

IMG 4393Varnargarðar við amerísku ströndina á Tenerife.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband