1279 - Vegamót á Snæfellsnesi

Scan71Uppgötvaði áðan að leikur einn er að skoða og sýna myndir með flakkaranum sem hér er staddur. Þannig fann ég þessa mynd. Hún er frá Vegamótum á Snæfellsnesi. Svona var oft umhorfs á hlaðinu þar vikum saman að vetrinum. Á morgnana þurfti oftast að byrja á því að moka snjó. Það komst upp í vana.

Líklega á ég fullt af myndum frá Vegamótum. Bæði snjómyndum og öðrum. Hvort einhverjir hafa ánægju af að skoða slíkar myndir er aftur annað mál.

Mér gengur illa að einbeita mér að einhverju einu hér á blogginu mínu. Ætli það sé ekki hluti af Sæmundarhættinum margfræga að skrifa um allt mögulegt. Festa sig aldrei við neitt sérstakt. Ná heldur ekki árangri í neinu. Það er mín saga. Ég næ aldrei árangri í neinu, því ég fæ alltaf dellu fyrir einhverju nýju. Einu sinni var það skák, einu sinni frímerki, einu sinni ljósmyndun, einu sinni fjallgöngur o.s.frv. Núna hef ég mesta dellu fyrir gönguferðum og bloggi.

Þær fréttir að Icesave-samningurinn njóti stuðnings nær fimmtíu og átta af hundraði kjósenda komu mér satt að segja á óvart. Ekki hefur umræðan verið þannig. Kannski ber einkum að túlka þetta sem stuðning við ríkisstjórnina og pólitíkusa yfirleitt. Annars vil ég gjarnan fá að heyra af fleiri skoðanakönnunum um þetta og ég mun einkum taka mark á Gallup í því efni.

Að láta sér detta eitthvað í hug til að skrifa um daglega á blogginu er talsverður handleggur. Annað skrifa ég yfirleitt ekki þann daginn. Sem er hugsanlega skaði. Skyldi ég ekki geta skrifað eitthvað gáfulegra ef ég einhenti mér í það? Stundum finnst mér svo vera. Annars dettur mér sífellt oftar í hug vísan þekkta sem ég veit ekki eftir hvern er en er einhvern vegin svona:

Áður hafði áform glæst.
Engin þó að hafi ræst.
Nú er það mín hugsjón hæst
hvenær verður étið næst.

Og satt að segja held ég að ég sé að fitna. Best að fara að gera eitthvað í þessu. T.d. að lengja gönguferðirnar og gera þær reglulegri. Þ.e. að sleppa engum dögum úr.

IMG 4532Myndarlegt tré.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Vendetta

Má ég koma með uppástungu, Bjarni? Láttu af þeirri áráttu að blogga á hverjum degi. Bíddu þangað til þér finnst þú hafa nægt efni, þótt það líði kannski vika á milli. Þá verður þetta auðveldara fyrir þig (þarft þá ekki að skrifa blogg um blogg) og líka skemmtilegra fyrir aðra. 

Vendetta, 23.2.2011 kl. 00:14

2 identicon

Moskowichinn í hlaði. Láttu bara hugann reika. Þetta á ekkert að vera auðvelt fyrir þig. Sæmundarháttur á. Stuttar ahugasemdir um allt og ekkert.

Ólafur Sveinsson 23.2.2011 kl. 00:50

3 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Já, Vendetta. Ég hef heyrt þetta fyrr. Er alltaf að reyna þetta en gengur illa.

Sæmundur Bjarnason, 23.2.2011 kl. 09:08

4 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Já, Moskinn Ólafur. Hann var nú alltaf góður í gang þó kaaalt væri. Sé ekki betur en Anna, Þorgeir og strákarnir séu mætt líka.

Sæmundur Bjarnason, 23.2.2011 kl. 09:09

5 Smámynd: Vendetta

Ég biðst afsökunar á að hafa kallað þig Bjarna, Sæmundur.

Vendetta, 23.2.2011 kl. 11:55

6 identicon

Einu sinni vorum við víkingar.. núna erum við veimiltítur sem borga skuldir útrásarvitleysinga

DoctorE 23.2.2011 kl. 17:46

7 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Ég fékk alveg nýja sýn á víkinga og víkingseðli þegar ég var einu sinni á ferð í Glendalough á Írlandi.

Sæmundur Bjarnason, 23.2.2011 kl. 18:58

8 identicon

Gaman að sjá þessa mynd frá Vegamótum. Þarna er maður búin að koma við í tuga,tuga skipta. Þú minnist þarna á systkinin frá Holti þaug Önnu og Þorgeir(togga)

Ég þekki Þorgeir vel unnum saman fyrir sunnan í nokkur ár og betri mann er varla hægt að finna til að vinna með ,hann er einn mesti öðlingur sem ég hef á ævi minni kynnst. 

Númi 24.2.2011 kl. 11:57

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband