Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2010
28.2.2010 | 00:13
945 - Heard they stole all your money
En af hverju legg ég svona mikla áherslu á að blogga á hverjum degi? Skil það ekki sjálfur. Alltaf eru samt einhverjir sem lesa þetta og þónokkrir sem kommenta. (Hirðin??) . Sennilega yrðu bloggin hjá mér bara betri ef ég skrifaði sjaldnar.
Fingraæfing er þetta fyrst og fremst. Æfing í því að koma hugsunum sínum í orð. Svo er á það að líta að sumir lesenda minna koma einmitt vegna hinna reglulegu skrifa. (Kannski).
Hef tekið eftir því að fréttablogg og stjórnmálaskrif eru hvað vinsælust á blogginu. Að minnsta kosti hér á Moggablogginu.
Alheimsfrægð munum við Íslendingar öðlast ef við fellum Icesave-lögin með tilþrifum. En varla verður hún langvinn og hvers virði er hún eiginlega?
Er alltaf að sjá betur og betur að Spánverjinn sem ég hitti á Kanarí um daginn og sagði: Heard they stole all your money!!" er dæmigerður fyrir þá útlendinga sem fylgjast með fréttum.
Við erum ekkert ofarlega í þeirra huga. Þeir munu ekkert gera fyrir okkur. Meðaumkun umheimsins er einskis virði. Með því að fella Icesave-lögin getum við verið að stuðla að því að málið dragist von úr viti og verði okkur Íslendingum afar dýrt að lokum.
Völd forseta Íslands eru líka að aukast með þessu og alls ekki er víst að það sé til bóta. Stjórnlagaþing er nauðsyn og Alþingismenn ættu allir að fara í frí. (Launalaust).
Varðandi Icesave er ég enn þeirrar skoðunar að okkur beri bæði lagaleg og siðferðileg skylda til að borga. Samt finnst mér vel koma til greina að segja nei í væntanlegri þjóðaratkvæðagreiðslu. Það er einfaldlega ekkert réttlæti í því að við borgum þessi ósköp og allra síst á þann hátt sem segir í þessu frumvarpi.
Ömurlegt er að heyra menn hlakka yfir því að hugsanlega fari þá þessi vitleysa öll fyrir dómstóla. Í fyrsta lagi dregst málið þá úr hömlu (líklega svona 5 - 10 ár a.m.k.) án bata á nokkru einasta sviði fyrir okkur Íslendinga. Auk þess mundum við nær örugglega tapa málinu fyrir hvaða dómstóli sem er.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
27.2.2010 | 00:15
944 - Hekla
Eins og kunnugt er gýs Hekla á 10 ára fresti núorðið. Í Skjólkvíagosinu svokallaða árið 1970 komst ég í nánari kynni við eldgos en nokkru sinni fyrr eða síðar. Í janúar árið 1991 fór ég uppí Landssveit til að fylgjast með gosinu sem þá var. Um það leyti gerðist einnig ýmislegt annað sem frásagnarvert er. Missti alveg af gosinu árið 2000 en kannski munu leiðir okkar Heklu skarast í næsta gosi. Veit samt ekki hvenær það verður og bíð ekkert í ofvæni. Man vel eftir að einu sinni var tilkynnt í útvarpi að gos myndi hefjast í Heklu eftir 15 mínútur. Ætli það hafi ekki verið árið 2000.
Á sínum tíma álpaðist ég til að ganga í framsóknarflokkinn til að hjálpa Bjarna frænda í prófkjöri. Síðan hef ég lítinn frið haft fyrir framsóknarmönnum. Nú dynja á mér SMS skilaboð og símtöl en hingað til hef ég bara fengið einhver tölvupóstskilaboð frá þeim og reikninga fyrir félagsgjaldi.
Svo er það framhald af sögunni sem sögð var í næstsíðasta bloggi.
Varla var hann kominn út þegar hann mundi allt í einu eftir því að hann hafði gleymt símanum sínum. Hann stoppaði samstundis og sneri við. Dró síðan hægt úr ferðinni og sneri aftur við.
Nei, það hringir hvort eð er enginn í mig. Svo mundi mömmu þykja skrítið hvað ég er orðinn gleyminn. Sú held ég að færi í flækju ef síminn færi allt í einu að hringja."
Hann greikkaði sporið og talaði í hálfum hljóðum við sjálfan sig: Nei, þetta gengur ekki. Nú er ég búinn að vera atvinnulaus í tvo mánuði og bráðum fara atvinnuleysisbæturnar að minnka. Hvað á ég þá að gera. Ekki get ég lifað á berstrípuðum bótunum."
Djöfuls læti alltaf í kellingunni. Maður hefur bara engan frið. Næst gæti henni dottið í hug að æða inn í herbergið mitt."
Jakob snarstansaði. Nú datt honum svolítið í hug.
Hvað ef hún njósnar nú um mig og fer alltaf inn í herbergið mitt þegar ég er ekki heima. Best væri náttúrulega að snúa við strax og athuga það."
Hann snarsneri við einu sinni enn og stikaði heim á leið.
Þegar að húsinu kom fór hann eins hljóðlega og hann gat og reif svo allt í einu upp hurðina og fór rakleiðis inn í herbergið sitt.
Auðvitað var enginn þar. Asni gat ég verið. Nú passar hún sig áreiðanlega ennþá betur næst því þó hún segi ekki neitt þá veit hún áreiðanlega að ég var að reyna að ná henni í herberginu mínu. Fjandinn sjálfur."
-------
Maturinn er tilbúinn."
Ég vil engan helvítis mat."
Nú, en klukkan er alveg að verða sjö."
Það var ágætt. Þá eru sennilega komnar fréttir. Gott að þú minntir mig á það. Ég ætla ekkert að éta."
Hvað á ég þá að gera við allar þessar pulsur?"
Nú, eru pulsur? Kannski ég fái mér eina eða tvær."
Á, var það ekki?"
(Jakob hámar í sig 10 pulsur á notime)
Jæja, ætli fréttahelstið sé þá ekki búið."
Jakob notaði þetta orð alltaf í tíma og ótíma. Kunningi hans sagði honum nefnilega einu sinni að þetta orð væri notað yfir fyrirbrigðið hjá þeim sem ynnu við sjónvarpsstöðina.
Ætli þetta dugi ekki sem örsaga. Nenni þessu ekki lengur.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
26.2.2010 | 00:49
943 - Þjóðaratkvæðagreiðslan og fleira
Nú er rúm vika þangað til þjóðaratkvæðagreiðsla á að fara fram um Icesave frumvarp það sem Ólafur Ragnar Grímsson forseti Íslands neitaði að skrifa undir. Ekki verður annað séð en stjórnmálamenn keppist við það, hver um annan þveran, að koma í veg fyrir að þessi atkvæðagreiðsla fari fram.
Sú framkoma er alls ekki boðleg. Atkvæðagreiðslan verður að fara fram. Jafnvel stjórnarsinnar gera ráð fyrir að mun fleiri séu sammála forsetanum en andvígir honum í þessu máli. Úr því sem komið er virðist sjálfsagt að veita ríkisstjórninni og stjórnmálamönnum yfirleitt þá ráðningu að tryggja sem mesta þátttöku í atkvæðagreiðslunni. Efast má um að stjórnmálamenn þori að standa fyrir því að hætt verði við hana.
Stjórnmálamenn munu reyna að túlka þjóðaratkvæðagreiðsluna öðruvísi en sem vantraust á sig en það skiptir ekki máli. Sem tæki til að ráða einhverju varðandi ákvarðanir ríkisstjórnarinnar er atkvæðagreiðslan fyrirfram ónýt. Ef hún verður til þess að ríkisstjórnin hrökklist frá verður bara að hafa það.
Einu má gilda hvort atkvæði er greitt með eða á móti frumvarpinu. Með því að hafa allt sem óljósast eru stjórnmálamenn og þá einkum ríkisstjórnin að vona að sem fæstir greiði atkvæði. Ekki hefur enn verið skorað á fólk að greiða ekki atkvæði en að því mun koma.
Nú er nýhafið Reykjavíkurskákmót. Hið tuttugasta og fimmta í röðinni. Ég man vel eftir því fyrsta sem haldið var árið 1964. Það fór fram í Lídó sem er sama húsið og Fréttablaðið hefur aðsetur sitt í núna.
Mikael Tal var þar á meðal keppenda og varð að sjálfsögðu efstur. Friðrik Ólafsson tók þátt líka og stóð sig ágætlega þó ekki yrði hann efstur.
Aðrir keppendur sem eru mér minnisstæðir eru Nona Gaprindasvili þáverandi heimsmeistari kvenna og Norðmaðurinn Sven Johansen. Ég var áhorfandi þarna nokkrum sinnum og skákskýringar fóru fram í herbergi í austurenda hússins. Teflt var í aðalsalnum og tæknin við flutning leikja í skákskýringarsalinn var ekki mikil.
Treyst var á að þeir sem leið áttu þangað úr aðalsalnum segðu frá nýjustu leikjunum. Ég gerði að minnsta kosti í einni umferðinni talsvert af því að segja í skákskýringarherberginu frá nýjustu leikjunum.
Í eitt skiptið mistókst mér herfilega. Á sýningarborðið í skáksalnum kom leikur sem ég fór snimmhendis með í skákskýringarsalinn. Þar vildu menn (meðal annarra Ingvar Ásmundsson) alls ekki trúa því að þessum leik hefði verið leikið og gerðu mann útaf örkinni til að kanna málið. Þá var búið að skipta um leik á sýningarborðinu og ég hætti þessum flutningi með öllu.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
25.2.2010 | 00:07
942 - Hverjir stjórna Íslandi?
Hverjir eru það eiginlega sem stjórna á Íslandi? Ekki er það ríkisstjórnin. Ekki er það stjórnarandstaðan. Ekki er það Alþingi. Ekki er það forsetinn. Ekki er það Baugur. Ekki eru það slitastjórnir bankanna. Ekki er það pressan. Ekki eru það bloggarar og stjórnmálaskribentar. Kannski það séu bara Bretar og Hollendingar núna eftir að Amríkanar nenna þessari vitleysu ekki lengur. Nú, eða útrásarvíkingarnir. Þeir eru allavega að reyna að hrifsa til sín stjórnartaumana. Almenningur ræður engu frekar en venjulega.
Einn er sá maður sem gjarnan vill verða frelsari fósturjarðarinnar í De Gaulle stíl. Það er að segja ef honum tekst að hræra nógu mikið í kjósendum og koma í veg fyrir að margboðuð hrunskýrsla sjái nokkurntíma dagsins ljós.
Gæti trúað að ríkisstjórnin ætli sér að ráða því að þjóðaratkvæðagreiðslan fari ekki fram. Það gæti vel orðið það síðasta sem hún réði. Almenningur lætur ekki bjóða sér hvað sem er.
Létt bank á klósetthurðina.
Ekki sturta niður þegar þú ert búinn."
Andskotinn, hugsaði Jakob. Ekki fær maður einu sinni að skíta í friði.
Nú. Af hverju ekki?"
Ég þarf að skoða hvað er eiginlega að þér", svaraði mamma hans.
Alt í lagi", sagði Jakob og reyndi að vera ekki mjög reiðilegur í röddinni. Skeindi sig svo og þveitti pappírnum í klósettið. Stóð upp og sturtaði niður með tilþrifum.
Æ, af hverju gerðirðu þetta?"
Ég steingleymdi þessu bara." sagði Jakob og skaust útaf klósettinu. Fór í úlpuna sína og snaraðist út án þess að kveðja.
Þetta á að verða annaðhvort örsaga, smásaga, skáldsaga eða kvikmyndahandrit. Einhvern vegin verður að byrja . Er ekki frá því að þessi hugmynd um að sturta ekki niður sé frá Philip Roth komin. Man að ég las einhverntíma hrafl úr Portnoys Complaint" og gott ef það var ekki einhver svona sena þar.
Auðvitað á maður samt ekki að vera að koma með svona yfirlýsingar ef maður ætlar í alvöru að skrifa eitthvað bitastætt. Betra að láta það bara koma.
Mín hugmynd er sú að Jakob sé bankamaður og undir hælnum á mömmu sinni sem hann býr hjá. Annars á þetta bara eftir að koma í ljós.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
24.2.2010 | 00:05
941 - Milestone
Ef það sem kom fram í Kastljósi í gær (22. febrúar) er rétt og þá er ég að tala um frásögnina af yfirheyrslunum yfir Milestone-mönnum þá er veruleikinn í kringum hrunið líklega miklu verri en ég hef hingað til haldið. Þessir menn voru greinilega komnir langt útfyrir það sem þeir réðu við. Hvernig í ósköpunum komust þeir þangað?
Ég skil vel þá sem hrópa á byltingu núna. Get bara ekki fallist á að hún mundi breyta neinu. Óhæfir menn geta alveg eins komist til valda með byltingu eins og með kosningum. Að kosningahegðun manna virðist ekki ætla að breytast meira en útlit er fyrir er óskiljanlegt. Ég sé ekki að flokkarnir sjálfir geti breyst svo mikið að stjórnmál hér á landi komist í námunda við almennt siðgæði.
Mig hefur lengi langað til að gera örsögur eins og hann Jens Guð. Hef bara ekki hugmyndaflug til þess. En drauma dreymir mig stundum og auðvitað er hægt að gera skrýtnar sögur úr þeim. Kannski Jens geri það einmitt. Fyrir nokkru tilkynnti hann að hann væri nánast hættur að blogga. Auðvitað getur hann ekkert hætt. Það geta engir sem blogga af einhverju viti. Sjáið bara Sigurð Þór. Alltaf er hann að reyna að hætta. Og svo er öðlingurinn hann Svanur Gísli kominn aftur á Moggabloggið, sveimérþá.
Sagt er að núverandi ríkisstjórn hér á Íslandi sé í rauninni minnihlutastjórn. Þetta má hæglega til sanns vegar færa. Icesave-andstaðan er svo megn að stjórn á flestu er í skötulíki. Svo er forsetinn á öndverðum meiði við stjórnina og þeir sem vanir eru að vera á móti honum styðja hann með því meiri krafti sem hann stríðir ríkisstjórninni meira. Samt er ástæðulaust að vorkenna stjórninni. Það á ekkert að vera auðvelt að stjórna.
Umræða um ofurhraðalinn í Sviss sem ég skrifaði svolítið um í gær hefur verið talsverð í dag. Ágúst H. Bjarnason er minn helsti guru í vísindalegum efnum meðal moggabloggara. Hann hefur samt ekkert skrifað um þetta efni nýlega svo mér sé kunnugt. Heimsendaspádómar af þessu tilefni eru að mínu viti með öllu óraunhæfir. Skil ekki með nokkru móti hvernig skynsamir menn geta fengið sig til að trúa slíku.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
23.2.2010 | 00:17
940 Ofurhraðallinn í Sviss
Nú fer ofurhraðallinn í Sviss fljótlega í gang aftur eftir að hafa verið bilaður síðan í desember að ég held. Margir fylgjast spenntir með því sem þar gerist. Sumir hálfhræddir. Ekki get ég tekið alvarlega heimsendaspárnar í þessu sambandi frekar en aðrar. Las einu sinni bók um svipaðan hraðal sem myndaði fyrir einhverja slysni nýjan alheim sem ekki var mjög stór. Eiginlega bara allstór kúla úr einhverju ókunnu efni sem erfitt var að rannsaka.
Golfáhugamönnum hefur fundist heimurinn snúast um Tiger Woods undanfarnar vikur. Mörgum finnst allt snúast um Ólympíuleikana í Vancouver þessa dagana. Vissulega er betra að detta inní lýsingar þaðan í sjónvarpinu en ýmislegt annað. Haiti er að mestu gleymt.
Er að verða svolítið háður þessum yrkingum í kommentum við flest mín blogg. Hef reglulega gaman af því. Ætti kannski að fara að yrkja aftur á vísur7.blog.is. Hef ekki gert það lengi. Fréttatengi alltaf þar.
Margt má finna í bókum. Einu sinni las ég um strák sem stundaði það að veiða feitar og pattaralegar maðkaflugur áður en hann fór í bað. Slíta svo af þeim vængina og láta þær skríða fram og aftur á typpinu á sér sem stóð þá hæfilega mikið uppúr vatninu.
Og í lokin fáeinar myndir frá Kanarí
Sandöldurnar frægu á Maspalomas-ströndinni
Kanaríköttur
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (28)
22.2.2010 | 00:04
939 - Blogglestur
Minn aðallestur er blogg. Kíki auðvitað í bækur líka (aðallega uppi í rúmi áður en ég fer að sofa) en dagblöð og tímarit les ég yfirleitt ekki. Finnst hart að þurfa að borga fyrir lesefni. Fréttablaðið kemur aldrei hingað og eiginlega er ég feginn. Stunda bókasöfnin grimmt enda hefðum við hjónin ekki mikið að lesa ef svo væri ekki. Bloggin endast þó oft vel en eru sum svo illa skrifuð að ekki er annað hægt en gefast upp á þeim.
Þegar ég les fræðandi og vel skrifuð blogg hellist oft yfir mig tilfinningin um að ég hafi í rauninni ekkert að segja. Ég sé ekki nógu fróður til að skrifa fræðandi blogg, ekki nógu innviklaður í stjórnmál til að skrifa af þekkingu um þau og ekki nógu gáfaður til að vera merkilegur. Svo rjátlast þetta af mér og ég fer að skrifa eitthvað.
Kannski hef ég minn eigin stíl. Stundum finnst mér þó að ég skrifi um alltof margt. Hef alls ekki nógu mikið vit á sumu sem ég skrifa um. Alltaf fæ ég samt heimsóknir og komment. Ef ég fengi engin slík mundi ég sennilega skrá mig á Facebook. Það hef ég þó forðast hingað til. Les samt oft það sem aðrir skrifa um fyrirbrigðið þannig að ég hef í raun heilmikinn Fésbókaráhuga.
Skemmtileg lætin í Hannesi og Hreini. Hver grét og hver ekki? Skyldi Hreinn ætla að fara að opna sig?
Þetta er í styttra lagi. Þarf að bæta einhverju við.
Bjarni Harðar frændi minn sagði einhverntíma á sínu bloggi að Atli bróðir sinn væri sá maður sem hann héldi að kæmist næst því að vita allt. Aldrei hefði ég viðurkennt þetta. Held því blákalt fram að mér finnist ég sjálfur standa fremst í þessu.
Svo er ég stöðugt að hugsa um hvernig ég eigi að kjósa í þjóðaratkvæðagreiðslunni þegar þar að kemur. Þetta er erfitt mál.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
21.2.2010 | 00:22
938 - Valgerður Bjarnadóttir
Las ágæta grein Valgerðar Bjarnadóttur (systur Björns Bjarnasonar fyrrverandi ráðherra og dóttur Bjarna Benediktssonar sem eitt sinn var forsætisráðherra Íslands og beið bana í eldsvoða á Þingvöllum árið 1970) um þöggunina í þjóðfélaginu í netritinu Herðubreið. (Gegnum blogg.gáttina að sjálfsögðu) Auðvitað fjallar hún þar einkum um Davíð Oddsson og kallar grein sína Af góðum skoðunum og vondum". Sá svo blogg eftir Arnljót Arnarson sem hann kallar: Frábært blogg Valgerðar". Þar er minnst á athugasemdir við bloggið og sérstaklega eina sem sögð er eftir Hrein Loftsson.
Við greinina í Herðubreið er engin athugasemd svo ég fór að athuga málið betur. Sama grein er einnig í bloggi Valgerðar á Eyjunni og þar eru athugasemdir og greinin heitir reyndar þar Góðar skoðanir og vondar". Meðal annars er þar ein athugasemd sem sögð er vera eftir Hrein Loftsson. Þar er lýst gráti Hannesar Hólmsteins Gissurarsonar vegna svika við Davíð Oddsson (að því er Hreinn segir) og er öll athugasemdin athyglisverð í meira lagi.
Valgerður virðist ekki hafa skráð eyjublogg sitt á blogg.gáttina og ef til vill valdið því að einhverjir hafi ekki séð athugasemdirnar við bloggið. Þannig kann þetta að vera með fleiri og kannski uppgötvaði ég þetta einungis vegna þess að athugasemdin er fréttnæm.
Ekki veit ég hvort Eiður Guðnason tók eftir því en Ingólfur Bjarni sagði í fréttum sjónvarpsins í kvöld að ríki Evrópusambandsins þyrðu ekki öðru en að hjálpa Grikkjum. Efnislega kann hann að hafa rétt fyrir sér en ekki hefði hann fengið hátt á prófi fyrir svona þágufallssýki í mínu ungdæmi. Þora annað" hefði átt að segja samkvæmt þeim reglum sem þá giltu en auðvitað verður það á endanum rétt sem allir segja.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (19)
20.2.2010 | 08:38
937 - Google streetview
Á sínum tíma var ég ákaflega hrifinn af Google-earth forritinu þar sem maður gat skoðað loftmyndir af nánast öllum heiminum og virt fyrir sér gatnakerfi og ýmislegt annað.
Nú er ég nýbúinn að kynnast öðru svipuðu forriti frá Google sem heitir Google streetview og hægt er að nálgast í gegnum Google maps. Þar getur maður til dæmis ferðast eftir götum í tilteknum bæjarhlutum víða um heim og skoðað húsin þar og annað, snúið sér á alla kanta og dregið að sér. Bílar og fólk er þar eins og frosið en vel hægt að skoða það. Ekki er þarna um allan heiminn að ræða, t.d. ekkert frá Íslandi.
Mikið er frá Bandaríkjunum og talsvert frá Norðurlöndunum.Víða hafa þeir Goole-menn farið og margt er hægt að skoða. Myndirnar eru teknar með fiskiauga"-linsu af bílþaki, sýnist mér. Ég gat T.d. skroppið til Kanarí og skoðað þar hótelið sem ég dvaldi á í janúar.
Ég er sammála Sigurði Þór um að sýn Jónasar Kristjánssonar á blogg er afar þröng. Líka sýn margra annarra. Blogg sem eru nær eingöngu fréttakomment og stjórnmálaskrif virðast njóta mikilla vinsælda. Blogg geta bara verið svo margt annað. Næstum hvað sem er. Sjálfum finnst mér ágætt að blanda öllu saman. Fréttakommentum og allskyns hugleiðingum. Svo virðist sem einhver fjöldi fólks hafi áhuga á slíku.
Margir setja stjórnmál svo mikið fyrir sig að þeir hafa hætt á Moggablogginu. Svo virðist sem sumir þeirra hafi þurrkað út allt sitt. Kommentin líka. Sé að sum gömul komment hjá mér eru horfin. Þetta er svolítið slæmt því stundum er einskonar þráður í kommentunum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
19.2.2010 | 00:50
936 - Ruddaleg skrif
Jónas Kristjánsson heldur því fram að bloggskrif séu ruddaleg af nauðsyn og eigi að vera það. Þessi skrif hafa breytt þjóðfélaginu mikið. Fólk vill sjá markviss og beitt skrif um bankahrunið og margt fleira.
Annars er ég að hugsa um að hætta alveg að skrifa um Icesave, bankahrun og þessháttar leiðindi. Að minnsta kosti þangað til eitthvað afdrifaríkt gerist. Áður var sagt að loksins væri tími Jóhönnu kominn. Kannski er hann farinn núna.
Í yrkingum finnst mér gaman að prjóna við eitthvað sem aðrir hafa gert. Áðan var ég til dæmis að hugsa mikið um setninguna Ein ég sit og sauma." Þá varð þetta til:
Ein ég sit og sauma
svipur beisli og tauma.
Lipri hendi lauma
læra milli á fund.
Best að halda ekkert áfram með þetta.
Ég get líka sett saman eitthvert bull sjálfur hjálparlaust. Til dæmis þetta:
Í Bretavinnunni byrjaði sviksemi landans
brauðið hann fékk án þess að leggja sig fram.
Öll okkar eymd er frá Tjallanum komin
með aðstoð og hjálp frá amríska draumnum.
Hann fjallaði um endalaust peningamagn.
Reddingar margar og reykingar stórar.
Útrásarvíkingar fóru með eld
umhverfis allt sem öðrum var heilagt.
Himininn hrynur í hausinn á oss.
Var að enda við að lesa bókina Læknir í þrem löndum." Endurminningar Dr. Friðriks Einarssonar færðar í letur af Gylfa Gröndal. Ágætis bók og útgefin árið 1979. Hvernig ætli standi á því að ég er farinn að verða því hrifnari af bókum sem þær eru eldri? Einu sinni var þessu alveg öfugt farið. Þá vildi ég alltaf hafa bækurnar sem nýjastar.
Oft er sagt að bloggarar séu upp til hópa kverúlantar og uppfullir af gagnrýni. Þetta er ekki allskostar rétt. Hugsanlegt er að þeir séu jákvæðir gagnvart öllu sem þeir minnast ekki á.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)