Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2010
18.2.2010 | 01:08
935 - Framtíðarmúsík
Einhverntíma þegar ég verð kominn á elliheimili ætla ég að segja við matráðskonuna þar:
Áður hafði áform glæst,
aldrei þó sem gátu ræst.
Nú er það mín hugsjón hæst
Hvenær verður étið næst?"
Ég gæti látist hafa gert þessa vísu sjálfur. Svo er þó auðvitað ekki. En góð er hún. Matráðskonan gæti fundið uppá að skammta mér ríflega fyrir vikið. Væru það þá skáldalaun þó vísast færu þau í vitlausan maga.
Það er svo margt sem ég ætla að gera þegar ég verð eldri. Kannski verð ég samt ekki mikið eldri. Svo það er líklega best að fara að drífa í þessu.
Til dæmis gæti ég kennt gamalmennum á tölvur. Þau eru flest logandi hrædd við þær. Verst að ég kann ekkert fyrir mér í kennslumálum. Hefur samt alltaf fundist ég vera mun gáfaðri en aðrir. Unga fólkið heldur það stundum líka um sig. Verði ég umkringdur ellilífeyrisþegum get ég kannski látið ljós mitt skína og komist betur að með mína speki.
Svo gæti ég leitt fullorðna fólkið í réttindabaráttu þess. Höfum við ekki alltaf verið sívinnandi frá blautu barnsbeini og eigum við ekki skilið að fara á hverju ári til Kanaríeyja? Mér finnst það.
Líka gæti ég kennt gamla fólkinu að tefla. Ég er svo ári snjall í því ef andstæðingarnir kunna lítið. Sumum gæti ég jafnvel kennt að setja saman vísu eða blogga svo eitthvað sé nefnt.
Svo eru það stjórnmálin. Ég gæti þóst hafa mikið vit á þeim. Til dæmis eru einu góðu fréttirnar varðandi þau núna að líklega vilja Bretar og Hollendingar alls ekki að lögin sem samþykkt voru á Alþingi verði felld í þjóðaratkvæðagreiðslu.
En hvernig ætla þeir að koma í veg fyrir það? Kannski með því að ná samkomulagi við nefndina sem er hjá þeim núna? Verða þá stjórn og stjórnarandstaða sammála um að draga lögin til baka? Og samþykkir Ólafur það? Lifir þá stjórnin? Er þá Ólafur að ná sínu fram? Verður hann eins vinsæll og hann var áður óvinsæll? Nei, spurningum fer frekar fjölgandi en hitt. Ætli sé ekki bara best að steinþegja.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
17.2.2010 | 00:08
934 - Hrafn Gunnlaugsson
Einu sinni var ungur maður. Hann hafði gaman af að skrifa. Þegar Menntaskólanáminu lauk gáfu foreldrar hans honum kvikmyndatökuvél. Þau héldu nefnilega að hugur hans stæði til frama á því svið. Svo var þó ekki. Ungi maðurinn vildi nefnilega frekar skrifa. Ákvað að fara til Svíþjóðar og skrifa þar. En hann átti enga ritvél. Ekki lét hann það þó stöðva sig heldur setti auglýsingu í Morgunblaðið um að hann vildi láta kvikmyndatökuvél í skiptum fyrir ritvél. Þessi ungi maður hét Hrafn Gunnlaugsson og heitir enn.
Hér er það sem ég kem til sögunnar. Þegar þetta var þá var ég nýútskrifaður af Samvinnuskólanum og átti ritvél (vandaða Erica ferðaritvél) sem ég hafði orðið að kaupa mér. Á Samvinnuskólanum var nefnilega kennd vélritun. Ég hafði talsverðan áhuga á ljósmyndun allskonar og hafði fiktað við að framkalla sjálfur. Ég svaraði því auglýsingunni og skipti (að mig minnir á sléttu) við Hrafn.
Hér eru myndir af þessari kvikmyndatökuvél. Ég á hana nefnilega ennþá og Hrafn hefur engan áhuga á henni. Ég hef spurt hann að því. Samt er þetta hugsanlega fyrsta kvikmyndatökuvélin sem hann eignaðist og hann er miklu þekktari fyrir kvikmyndagerð en bókmenntaskrif. Veit samt að hann hefur fengist við slíkt. Er jafnvel ekki grunlaus um að hann hafi bloggað. Örugglega samt ekki mikið og ekki oft. Nenni ekki að gúgla nafnið hans. Aðrir geta gert það ef þeir vilja.
Var um daginn að taka til í drasli hjá mér og rakst þá á þessa vél og eins og hendi væri veifað rifjaðist þessi saga upp fyrir mér.
Vélin er hér með auglýst til sölu.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 00:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
16.2.2010 | 00:03
933 - Um pöddur og fleira
Mörgum eru pöddur hugleiknar. Séra Svavar Alfreð Jónsson skrifar á sitt blogg um daginn af mikilli innlifun um skordýralíf á Ítalíu. Í janúar dvaldi ég í fjórar vikur á Kanaríeyjum. Einna mest kom mér á óvart að þrátt fyrir allan hitann þarna var pöddulíf allt fremur fátæklegt. Pínulitlir maurar voru að vísu nokkuð algengir en aðar pöddur vart finnanlegar og flugur fáar.
Þar sem við dvöldum fyrstu tvo dagana voru maurarnir nokkuð aðgangsharðir og einn kakkalakki sást þar. Ekkert slíkt var á staðnum sem við fórum síðan á. Ég er einfaldlega þeirrar skoðunar að á Gran Canary séu skorkvikindi afar fá en túristar aftur á móti algengir. Marga slíka sáum við og flesta berleggjaða ef ekki berari en það.
Margt er forvitnilegt um náttúrufar á Kanarí-eyjum. Ég get þó bara um Gran Canary talað því öðrum eyjum þar kynntist ég sáralítið. Millilent var að vísu á Tenerife bæði á niðureftirleið og heimleið en stoppið var stutt og ekki farið einu sinni útúr flugvélinni.
Talsvert er ræktað þarna af allskyns ávöxtum. Tómatarækt er mikil og bananarækt talsverð. Gróðurhús eru þarna oftast nær eingöngu úr plastyfirbreiðslum sem hrófað er upp með spýtum. Hef fyrir satt að það sé einkum til að verjast morgundögginni sem setur gjarnan bletti á tómatana þegar hún þornar og af einhverjum ástæðum virðast bananaplöntur þrífast betur undir plasti en án þess.
Fjöll eru þarna mörg tilkomumikil og brött. Víða eru hrjóstrug svæði og ekki mikið gróin sunnantil á eyjunni vegna þurrka. Kaktusar vaxa víða og pálmatré eru útum allt. Þar sem skilyrði eru góð er allt umvafið gróðri og fiðrildi bæði stór og litfögur víða á sveimi. Fuglalíf er talsvert og þeir skrautlegir mjög. Mávar fáir og aðeins nýlega búnir að nema þarna land að sagt er.
Ekki er vitað með vissu hvenær menn komu fyrst til eyjanna. Löngu fyrir Krists burð hefur það samt verið og líklega voru þeir ættaðir frá Egyptalandi. Hafa eflaust komið á bátum eða flekum en siglingar stunduðu þeir þó alls ekki. Spánverjar lögðu eyjarnar undir sig seinni hluta fimmtándu aldar og sagt er að Kólumbus hafi lagt þaðan af stað í hina frægu Ameríkuferð sína. Einnig þjónaði Franco hershöfðingi þar áður en hann gerðist einvaldur á Spáni.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
15.2.2010 | 00:11
932 - Þegar ég fór í rörið
Nei, ég á ekki við Hvalfjarðargöngin. Rörið sem ég er að tala um hafa víst færri farið í. Ég á við maskínuskrímsli eitt á Borgarspítalanum í Reykjavík. En byrjum á byrjuninni.
Árið 2007 fór ég í rannsókn á Borgarspítalanum og hluti af henni var tilboð um að fara í samanburðarrannsókn sem Íslensk Erfðagreining stóð fyrir. Þetta þáði ég og á því kannski einhvern þátt í gjaldþroti þess fyrirtækis - en er sléttsama. Partur af samanburðarrannsókninni var að fara í vélaróvættina áðurnefndu.
Þessi magnaða vél er einkum eitt stórt og mikið rör. Þessi vél hefur eitthvert íslenskt nafn og jafnvel deild sem nefnd er eftir henni. Man það bara ekki og finnst það ekki skipta miklu máli. Út úr vélinni rann fjöl ein sem líktist legubekk. Þar var ég látinn leggjast . Fyrst var ég reyndar spurður að því hvort mér hætti við innilokunarkennd. Ekki vildi ég viðurkenna það svo ég lagðist á bekkinn. Eina kúlu fékk ég í hendina og var sagt að kreista hana ef ég þyrfti nauðsynlega að komast út.
Konan sem aðstoðaði mig við að koma mér fyrir á bekknum fór síðan út úr herberginu og lokaði á eftir sér. Líklega til að koma sér fyrir við tölvuna sem var í herbergi skammt frá og ég hafði séð fólk sitja við þegar ég kom fyrst inn í herbergið. Þetta var svolítið ógnvekjandi því ég sá strax að ég mundi ekki geta risið upp né lyft höndunum eftir að ég væri kominn inn.
Áður en konan fór sagði hún mér að ég þyrfti að vera þarna í svona 10 til 15 mínútur og mætti ekki hreyfa mig og helst ekki kyngja. Síðan rann bekkurinn eins og fyrir einhverja töfra rakleiðis inn í maskínuna. Ekki var mér bannað að hugsa svo fyrir utan að anda var það eiginlega það eina sem ég gat gert. Komst þó ekki hjá því að kyngja munnvatni öðru hvoru en reyndi að vera fljótur að því.
Leið svo og beið. Engin hljóð bárust til mín frá umheiminum og ég vissi ekkert hvað tímanum leið. Gat næstum ekkert hreyft mig og mátti það ekki. Fæturnir stóðu þó útúr vélinni að ég held. Að lokum var ég orðinn sannfærður um að mun meira en 15 mínútur væru liðnar og starfsfólkið hefði bara gleymt mér. Stillti mig samt um að kreista kúluna og ákvað að gera það ekki fyrr en í síðustu lög. Auðvitað gat kúlan svosem verið biluð og ekki margt sem ég gæti gert við því. Efaðist stórlega um að ég kæmist einsamall og hjálparlaust útúr vélarferlíkinu ef til þess kæmi.
Þegar ég var orðinn endanlega sannfærður um að ég hefði gleymst og allir væru farnir varð ég var við umgang í herberginu og bekkurinn rann út úr vélinni. Þar var þá komin konan sem hafði aðstoðað mig í upphafi. Varð ég nú allshugar feginn og taldi allt vera búið. Svo var þó ekki og átti sér nú stað samtal sem var einhvern vegin svona:
Konan: Þetta gengur ekki nógu vel hjá okkur. Við fáum myndina ekki skýra. Ertu nokkuð með gervitennur?"
Ég: Jú, einmitt."
Konan: Þá verð ég biðja þig að setja þær hér."
Ég: Sjálfsagt."
Síðan setti ég gervitennurnar á bakkann eða hvað það nú var sem hún rétti í áttina til mín.
Svo rann sleðinn aftur inn í vélina og allt endurtók sig nema hvað nú var ég ennþá sannfærðari en áður um að ég hefði gleymst. Kannski var ég ögn lengur í þetta skipti en veru minni í rörinu lauk þó stóráfallalaust.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
14.2.2010 | 00:04
931 - Lýðurinn vill blóð
Þónokkur komment fékk ég við Sólon-grein mína í gær. Hef lengi haft það á tilfinningunni að verið sé að spila með almenningsálitið. Alltaf koma nýjar og nýjar hrunfréttir. Fólk fær varla ráðrúm til að hneykslast. Finnst ekkert skrýtið þó margir haldi að margboðuð þjóðaratkvæðagreiðsla verði aldrei haldin og skýrsla sannleiksnefndarinnar verði aldrei birt.
Um áramótin 2008 og 2009 og fyrst eftir það var ég í raun aldrei hræddur um að uppúr syði og raunveruleg bylting yrði hér á Íslandi. Tók jafnvel sjálfur þátt í mótmælum án nokkurs ótta. Þrennt var það sem mér finnst eftirá markverðast í sambandi við það sem gerðist.
Greinargerð Eyþórs Árnasonar um það sem gerðist í raun og veru þegar útsending á þættinum Kryddsíldinni" var stöðvuð. Um þetta má lesa á blogginu hans.
Lýsing Kristjönu Bjarnadóttur frá Stakkhamri á andrúmsloftinu sem ríkti á Austurvelli þegar kveikt var í jólatrénu sem þar var. Þessa lýsingu sá ég ekki fyrr en talsvert löngu eftir atburðina sem þar er lýst. Greinargerð Eyþórs sá ég hins vegar mjög fljótt og hún hjálpaði mér við að gera mér grein fyrir ástandi mála.
Þriðja atriðið og það sem ég held að hafi skipt algerum sköpum varðandi þróun mála var þegar mótmælendur grýttu lögregluþjóna við stjórnarráðshúsið og nokkrir mótmælendanna stilltu sér upp milli grjótkastaranna og lögreglunnar.
Úr því ekki varð blóðug stjórnarbylting fyrir ári held ég að hún verði ekki. Þó er það svo að valdastofnanir þjóðfélagsins njóta afar lítils trausts. Án þess að einhverju sé hægt að treysta er lítil von til þess að hægt verði að ná þjóðinni uppúr þeim öldudal sem bankahrunið hefur óneitanlega valdið. Ef útrásarvíkingarnir eiga aftur að fá öll völd og geta haldið áfram sínum leik er engin von til þess að vel fari.
Fyrir nokkru vorum við hjónin stödd á bensínstöð einni við Ártúnsbrekkuna. Einhverra hluta vegna datt okkur í hug að fá okkur pínulítið nammi. Afgreiðslukonan var greinilega hálfhneyksluð á okkur og lét þess getið að á laugardögum væri nammið selt á hálfvirði. Mig langaði auðvitað mest til að skila namminu aftur en af því varð ekki.
Nú sé ég í fréttum sjónvarpsins að sama aðferð er notuð í Hagkaupum í Skeifunni og trúlega víðar.
Þeir kaupmenn sem hafa vörur sínar tvöfalt dýrari en þörf er á sex daga vikunnar eiga alls ekki skilið að verslað sé við þá. Fyrirlitningin sem þeir sýna viðskiptavinum sínum með þessu er meiri en hægt er að sætta sig við.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
13.2.2010 | 00:04
930 - Sólon spilar sóló
Viðtalið við Sólon Sigurðsson fyrrum bankastjóra í Búnaðarbankanum í útvarpi um daginn hefur vakið talsverða athygli. Hann segir að Halldór J. Kristjánsson sem þá var bankastjóri í Landsbankanum hafi beitt sig miklum þrýstingi til að lána Björgúlfunum fáeina milljarða svo þeir gætu keypt Landsbankann. Sjálfur hefði hann lánað S-hópnum til að þeir gætu keypt Búnaðarbankann. Þetta sýnir í hnotskurn hugsunarhátt útrásarvíkingana.
Gátu Bjöggarnir ekki sjálfir betlað sín lán? Máttu þeir ekki vera að því? Sólon lætur eins og nokkrir milljarðar séu bara smápeningar. Gerði Búnaðarbankinn mikið af því á sínum tíma að lána mönnum milljarða? Ekki veit ég það. Hefði ekki einu sinni haft hugmyndaflug til að prófa að fá slíkt lán.
Er nóg fyrir útrásinga að benda bara hver á annan? Er Sólon orðinn einhver hvítþveginn engill bara af því að hann getur kennt öðrum um sín eigin afglöp? Segist hafa verið beittur þrýstingi. Hvers konar þrýstingi? Hótaði Halldór að segja frá einhverju misjöfnu um Sólon ef hann makkaði ekki rétt?
Einhvers staðar verður að byrja. Væri ekki bara upplagt að byrja á að stinga Sóloni í fangelsi? Kannski hann færi þá að syngja. Segði jafnvel frá einhverju misjöfnu um Halldór Jón eða aðra.
Því amríski herinn svo réttsýnn og rogginn.
Réttir oss sjálfsagt eitthvað í gogginn.
Þetta er vel sagt. Því miður var það ekki ég sem sagði þetta fyrst. Lýsir hugsunarhætti Íslendinga vel. Eftir að þeir höfðu með Bretavinnunni lært að svíkjast um var þeim oft efst í huga að vera mataðir af þeim sem meira áttu undir sér. Þegar kanadátarnir fóru tók eintómt vesen við.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 00:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
12.2.2010 | 00:05
929 - Kosningabaráttan hófst í dag
Svo segir í Icesave-tengdri frétt í Mogganum. Þegar ég klikkaði á þessa frétt í tölvunni minni fór vídeó af stað án þess að ég bæði um það. Einhverra hluta vegna var ekkert hljóð með myndinni. Það gerði svosem ekki mikið til. Ég skynjaði strax að þarna var verið að tala um kosningabaráttu vegna þjóðaratkvæðagreiðslunnar sem fara á fram 6. mars n.k. Hins vegar skynjaði ég ekki nógu vel af hverju þeir menn sem þarna birtust á sakamannabekk með nafnspjöld og allt voru þar.
Sennilega skiptir það ekki miklu máli því með öllu er óljóst um hvað verður kosið. Vel getur samt verið að það skýrist þegar nær dregur. Nýjustu fregnir af Icesave benda samt ekki til þess að málin séu að skýrast. Sennilega er mikill meirihluti fyrir því að samþykkja ekki lögin. Ríkisstjórnin virðist leggja mikla áherslu á að ná samkomulagi við sem flesta um eitthvað annað en það sem stendur í lögunum sem Ólafur Ragnar neitaði að skrifa undir. Þá þarf hún sennilega ekki að segja af sér. Svo er líka hægt að hætta við þjóðaratkvæðagreiðsluna með því að draga til baka lögin sem um er deilt. Fyrir því er fordæmi.
Nú er rifist um það hvort 170 þúsund eða 230 þúsund manns hafi farist í jarðskjálftanum mikla á Haiti 12. janúar. Mér finnst það litlu skipta. Þetta er með allra mestu hamförum sem dunið hafa yfir heimsbyggðina. Icesave-aumingjaskapurinn verður næstum hlægilegur í samanburðinum. Afleiðingar skjálftans eru miklu verri en þurft hefði að vera. Haiti-búum hefur verið haldið lengi í fátæktargildru og stjórnvöld eru óhæf til alls. Ábyrgð á öllu þessu bera margir. Ekki síst þau fyrirtæki sem makað hafa krókinn á þessu svæði.
Hver er tilgangur lífsins?
Er einhver tilgangur með því ?
Ég efast um það.
Efast um allt.
Jafnvel efann sjálfan.
Ég kann ekki við þetta. Síðasta blogg mitt var í lélegra lagi. Fannst mér sjálfum að minnsta kosti. Samt eru gestir mun fleiri nú en verið hefur að undanförnu. Þá er ég ekki bara að tala um það næstum mánaðarfrí sem ég tók mér í janúar heldur er ég að miða við mun lengra tímabil. Þetta sýnir mér bara að það sem ég held að sé til vinsælda fallið er það líklega alls ekki. Ekki mín fyrsta vitleysa.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
11.2.2010 | 00:17
928 - Á hvaða takka á ég að ýta til að bora?
Þegar við komum heim frá Kanarí var maður í sætaröðinni fyrir aftan okkur í flugvélinni með fartölvu með sér. Hann náði í hana í handfarangurinn eftir að vélin var komin á loft og skömmu seinna heyrði ég sagt: Á hvaða takka á ég að ýta til að bora?" Það var dóttir hans að spyrja hann úti einhvern tölvuleik býst ég við. Honum vafðist eitthvað tunga um tönn við að svara þessu svo spurningin var endurtekin nokkrum sinnum. Þess vegna man ég svona vel eftir henni. Sjálfur var ég með fartölvu í handfarangrinum mínum en nennti ekki að Indriðast neitt með henni á heimleiðinni.
Lengi vel eftir að sólin settist hélt ég svo að ljósið á vængendanum væri tunglið. Skildi ekkert í því hvað það var að flækjast þarna og hve það breytti lítið stöðu sinni. Var sífellt rétt ofan við sjóndeildarhringinn og haggaðist ekki þaðan.
Auðlærð er ill danska," segir máltækið. Mér finnst þessi samsetningur hjá mér samt vera sæmilega vel heppnuð prentsmiðjudanska.
Du skal ikke bruge paafænge under disse rundtomstæder sagde manden da jeg sagde ham fra mine vandringer om den engelske kystens krogotte gader i min sögen for det billigeste röde-paafænge i supermarkederne.
Þetta er semsagt prentsmiðjudanska eins og ég sé hana fyrir mér. Aðrir sjá hana kannski allt öðruvísi. En af hverju heitir þetta prentsmiðjudanska? Þessu mega lesendur gjarnan svara ef þeir geta. Verðlaun eru engin.
Mín vegna má einhver segja þeim það Spaugstofumönnum að tilbúin out-takes eru ekki fyndin. Skil ekki hvers vegna þeir halda það.
Silju Báru málið vekur nokkra athygli núna. Mér finnst að háskólakennari og algengur álitsgjafi í ríkisfjölmiðlunum varðandi stjórnmál megi ekki haga sér svona. Mál þetta getur vel orðið vinstri grænum til mikilla trafala í komandi borgarstjórnarkosningum og ferli Silju Báru sem áhrifamikils álitsgjafa er örugglega lokið.
Leit á bloggið hennar á eyjunni og þar vakti það athygli mína að dagsetning með pistlunum er engin. Furðulegt.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
10.2.2010 | 00:05
927 - Vísa leitar höfundar
Var að enda við að lesa bókina Þjóðtrú og þjóðfræði" eftir Jón Hnefil Aðalsteinsson." Þetta er áhugaverð bók og skemmtileg. Ég las hana spjaldanna á milli nema lista um heimildarrit og nafnaskrá í lokin. Þessi bók er gefin út af Iðunni árið 1985.
Jón kannast ég ekki við þó oft hafi ég heyrt nafnið. Held að hann hafi verið eða sé bróðir fræðaþulsins, hagyrðingsins og skógarbóndans Hákonar Aðalsteinssonar og fæddur og uppalinn á Jökuldal.
Markverðust finnst mér umfjöllun Jóns um vísuna alkunnu sem er svona:
Nú er hlátur nývakinn
nú er grátur tregur.
Nú er ég kátur nafni minn
nú er ég mátulegur.
Jón fjallar reyndar lítið um vísuna sem slíka heldur um það hver eða hverjir kunni að vera höfundar hennar. Einnig um aðdraganda vísunnar, hvenær hún sé gerð og hvar. Öll umfjöllunin er nærri tuttugu blaðsíður og samt virðist mér ekki vera sannað endanlega hver eða hverjir séu höfundar hennar.
Sjálfur hef ég gaman að vel kveðnum vísum og hef nokkrum sinnum birt vísur hér í mínu bloggi. Lengi hef ég samt verið þeirrar skoðunar að til lítils sé oftast nær að geta höfundar eða reyna að leiða líkum að því hver hann sé. Hef þó stundum látið þess getið að vísur séu eftir sjálfan mig. Einnig hef ég það fyrir reglu að ef ég tilfæri vísu annaðhvort í bloggi eða athugasemd án þess að minnast á höfund þá sé vísan eftir mig.
Þetta gera alls ekki allir. Sumir tilfæra vísur eftir aðra án nokkurrar athugasemdar um höfund og þá tel ég að þeir séu að gefa í skyn að þeir hafi ort vísuna sjálfir þó svo þurfi alls ekki að vera. Oft eru vísur líka ortar undir áhrifum annarrar vísu eða vísna, jafnvel án þess að höfundur geri sér nokkra grein fyrir því.
Tilefni vísna og höfundar þeirra geta þó án efa oft skipt máli. Ein er sú vísa sem áreiðanlega er fremur auðvelt að staðsetja í tíma þó ekki viti ég um höfundinn. Sú vísa er svona:
Fallega Þorsteinn flugið tók.
Fór um himna kliður.
En Lykla-Pétur lífsins bók
læsti í skyndi niður.
Þessi vísa er sögð ort skömmu eftir dauða Þorsteins Dalasýslumann og víst er að skömmu eftir þann atburð heyrði ég hana fyrst. Ástæða þess að hún varð strax mjög fleyg er sagt að sé sú að bækur í hinu þekkta bókasafni Þorsteins séu ekki allar heiðarlega fengnar. Þessi vísa og útbreiðsla hennar lýsir einnig vel þeirri illkvittni sem algeng er í alþýðumenningu Íslendinga.
Nú er ég enginn Jón Hnefill Aðalsteinsson og þetta blogg enginn pistill sem flestallir lesa, en nú er svo langt um liðið frá dauða Þorsteins sýslumanns að engan ætti að særa þó fjallað væri um höfund þessarar vísu.
Því bið ég þá sem þessar línur lesa og einhverja hugmynd hafa um höfund vísunnar um Þorstein að láta þess getið í athugasemd hér við þessa blogg-grein. Það er nefnilega svo gaman að fá athugasemdir en ég hef fengið þær fremur fáar að undanförnu.
Til gamans læt ég svo fljóta með söguna um það að þeir Haraldur J. Hamar (eða klaufhamar) og Jón Hefill Aðalsteinsson hafi verið bræður og mamma þeirra verið Jósefína Sög. Man ekkert hvar ég heyrði þetta fyrst og þetta er áreiðanlega tóm vitleysa.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
9.2.2010 | 00:24
926 - Icesave-æsingurinn
Þegar æsingurinn varðandi Icesave verður um garð genginn verður ljósara hver hefur rétt fyrir sér í hrunsmálum. Hægri sinnaði hluti lýðsins eða sá vinstri sinnaði. Mér finnst endilega að hægri og vinstri hafi ennþá merkingu. Sú merking sem ég legg í þau orð er einkum sú að þeir sem vinstri sinnaðir eru vilji sem mesta velferð fyrir sem flesta þó hún kosti ef til vill minni auð og minni þjóðartekjur. Þeir hægri sinnuðu vilja umfram allt auka þjóðartekjur og skapa sem mestan auð. Stækka kökuna eins og þeir segja oft. Svo getur hún líka minnkað fyrirvaralaust eins og við Íslendingar urðum óþyrmilega varir við fyrir nokkru.
Líklega er þetta afar vinstri sinnað viðhorf og á þessu öllu eru fjöldamargar undantekningar. Alls ekki er alltaf gott að sjá hvað eru vinstri sinnuð viðhorf og hver eru hægri sinnuð þó fylgismenn flokka séu oft naskir á slíkar skilgreiningar. Margir sveiflast þó á milli þess að vera hægri eða vinstri sinnaðir. Eins og ég.
Var að horfa á Silfur Egils" áðan. Menn geta hæglega haldið því fram að Egill Helgason sé vinstri sinnaður. Hann er samt eins og sakir standa einn af allra áhrifamestu fjölmiðlamönnum landsins. Það dugar engan vegin að vera með upphrópanir um hann. Nauðsynlegt er að koma með rök og allra best væri fyrir hægrisinna að koma með mótvægi ef þeir geta. AMX er það ekki þó þar hafi því verið haldið fram, frá því áður en stafkrókur var skrifaður á þann vef, að um væri að ræða fremsta fréttaskýringarvef landsins.
Örugglega er langt þangað til íslenskum bönkum verður aftur treyst. Samt þarf atvinnulífið á þeim og stöðugleika að halda. Það er jafnvel hægt að ganga svo langt að halda því fram að þeir séu nauðsynlegir.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)