Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2010

1196 - Jón Gnarr

Allir eru að gera á sig útaf Jóni Gnarr. Mér fannst hann standa sig ágætlega í Kastljósviðtalinu í gær. Sagt er að skíðamenn séu æfir útaf hugsanlegri lokun skíðasvæðisins í Bláfjöllum. Ef hafa þarf einhvern fjölda fólks á launum vegna svæðisins hvort sem opið er marga daga eða fáa finnst mér alveg koma til greina að spara þar. Skíðamenn geta sjálfir tekið einhverja áhættu. Rekstur skíðasvæðisins er verulega áhættusamur eins og tíðarfarið hefur verið að undanförnu. 

Sama hvað illt er hægt að segja um Jón greyið þá er hann þó alla vega skárri en flestir aðrir. Reikna fastlega með að hann verði endurkjörinn ef hann gefur kost á sér áfram og verður ekki farinn í landsmálin þegar þar að kemur. Hann er miklu fremur mikilhæfur en vanhæfur eins og hann benti sjálfur á.

Ég er kominn með 280 fésbókarvini og er bæði að safna þeim og þó ekki. Eins og í flestu öðru er ég þarna beggja blands og á erfitt með að ákveða hvar ég stend. Til hvers eru allir þessir fésbókarvinir? Hef ekki hugmynd um það.

Saga Sjónvarpsins er saga popphljómsveita. Þetta er nokkuð sem Árni Bergmann bendir á í sinni fésbók og ég er alveg sammála því. Tvennt veldur þessu einkum. Mikið af svona efni er geymt og tiltækt og þar að auki auðvelt fyrir umsjónarmenn þátta að lengja þá fyrirhafnarlítið með því að spila heilu lögin. En ósköp er þetta þreytandi og leiðinlegt.

Bloggáherslur mínar eru einkum tvennskonar. Annarsvegar að blogga á hverjum einasta degi og hinsvegar reyni ég að blogga ekki alltof mikið í senn. Ef mér tekst óvenju vel upp einn daginn þá læt ég það helst ekki allt frá mér allt í einu. Geymi sumt. Með þessu móti verða bloggin mín stundum, ef fréttatengd eru, svolítið úrelt og seint fram komin. Ég finn ekki svo mikið fyrir þessu sjálfur en lesendur finna þetta og undan því hefur verið kvartað við mig.

Eftir því sem nær dregur stjórnlagaþingskosningunum magnast ótti minn um að þær fari ekki vel. Kosningaþátttakan verði annað hvort allt of lítil eða framkvæmdin fari að einhverju leyti í handaskolum. Það er óþarfi að fara strax að kvíða þinginu sjálfu og væntanlegu ósamkomulagi þar, en ég er viss um að sá kvíði tekur fljótlega við ef kosningin gengur bærilega.

IMG 3677Bygging á Reykjavíkurflugvelli.


1195 - Inngangur að öðru meira

A: Þetta er náttúrulega bilun.

B: Já, auðvitað er þetta bilun. (Löng þögn). Hvað er það annars sem er bilun?

A: Að vera að blogga svona á hverjum einasta degi.

B: Já, það já. Já, það er alveg satt. Ekki er ég svona.

A: Nei, auðvitað ekki. Það eru fáir sem láta svona. En auðvitað er þetta bilun.

B: Já, það má segja það.

A: Ég var einmitt að segja það. (Þögn). Á ég kannski að segja það aftur.

B: Ha? Segja hvað?

A: Að það sé bilun að vera að blogga svona.

B: Já, einmitt já.

A: Og svo halda allir að maður hugsi ekki um annað en blogg.

B: Það er heilmikið að gera á fésbókinni líka.

A: Tala nú ekki um það.

Og áfram og áfram og áfram.

Þegar ég les gömul blogg eftir sjálfan mig finnst mér oft eins og ég sé hálfskoðanalaus. Þó fer ég stundum markvisst yfir bloggin mín og útrými öllum fyrirvörum og hikorðum. Verð að vona að öðrum finnist þetta ekki. Það versta sem ég veit eru þeir sem aldrei geta ákveðið sig. Ég er samt dálítið þannig sjálfur. Reyni alltaf að fresta ákvörðunum ef þess er nokkur kostur. Það er auðvelt að vera ákveðinn í orðum. Verra getur það verið þegar til alvörunnar kemur.

Mikið frelsi er að lesa svona fá blogg eins og ég geri yfirleitt núorðið. Þetta hefði ég ekki átt að segja. Einhverjir gætu tekið þetta bókstaflega og hætt að lesa bloggin mín. Sem væri skaði því þau eru svo vel skrifuð og skemmtileg. (Segja sumir) . Hugsa að ég myndi kjósa einhvern líkan Múmínálfinum sem er í stól borgarstjórans í Reykjavík um þessar mundir ef mér byðist það. Ekki er útilokað að Gnarrlegt framboð komi fram við næstu alþingiskosningar.

Já, það er ekki meiri vandi en þetta að blogga daglega. Tekur 10 mínútur eða svo. Svo eru það bréfskákirnar. Þær gengur mér ágætlega með eftir að ég hætti að stritast við að halda stigunum. Og síðan út að ganga. Það er víst farið að birta á Austurlandi (segir Fési sjálfur) svo mér er ekki til setunnar boðið.

Ekki erfi ég það við þá Sigurð Þór og Pál Bergþórsson þó þeir kalli fésbókina fasbók. Svona er ég liberal.

Sólin grúfði sig niður bak við Kópavogsturninn þegar þyrlan kom blaðskellandi og rauf morgunkyrrðina. Þetta skeði í Fífuhvamminum klukkan að ganga tíu í morgun og það er meira að segja til mynd af þessu.

Í sívaxandi mæli er ég farinn að heyra aðra minnast á bloggin mín. Af hverju veit ég ekki. Ætli Davíð sé ekki að fikta við teljarann og skrúfa hann niður. Ég ætti náttúrulega að hafa mun fleiri lesendur. Þetta er stóreinkennilegt.

IMG 3669Jónas feiti ítr-ekaður.


1194 - Þjóðfundur

Hlustaði á fréttafrásagnir af þjóðfundinum svonefnda. Hugnast ekki aukin völd forseta og að setja á stofn embætti varaforseta (a la Cheney, eða hvað?). Nóg finnst mér hafa verið apað eftir Bandaríkjamönnum undanfarið þó við förum ekki að stefna að því líka að hafa stjórnarfarið eins. Að öllu öðru leyti sýnist mér þjóðfundurinn hafa tekist mjög bærilega. 

Neitunarvaldið (sem í raun ætti að vera hjá þjóðinni en ekki forsetanum) er svo allt annað mál. Þjóðaratkvæðagreiðslur og reglur um þær geta tæpast að öllu leyti komið í staðinn. Þó er það möguleiki. 

Læt mér detta í hug að þeir sem ótengdir eru mér fjölskylduböndum og lesa samt bloggið mitt reglulega (já, ég held að þeir séu til) séu þeirrar skoðunar að ég sé með betri bloggurum í mínum aldursflokki. Auðvitað er ég ekki nógu fréttatengdur né hrunfróður til að slá í gegn en við það verður að una. Betur get ég ekki gert.

Fór að sjá Enron-sýninguna í Borgarleikhúsinu í gærkvöldi. Boðskapur verksins kom mér svosem ekki á óvart. Snareðlurnar komu mér hinsvegar þægilega á óvart. Gervi þeirra heppnaðist á allan hátt mjög vel. Hjalti Rögnvaldsson impóneraði mig líka. Hvílík rödd, og hvílíkt vald sem hann hefur á henni. Hann lætur hana smjúga um allt í stærðarsal án þess að séð verði að hann hafi nokkuð fyrir því.

Einhverntíma heyrði ég að líklega væri Kínamúrinn eina mannvirkið á jörðinni sem sjáanlegt væri frá öðrum hnöttum. Gæti vel hugsað mér að skreppa og gá að því. Kannski væri samt framkvæmanlegra að berja hann bara augum svona prívat og persónulega. Öthugum það.

Skil eiginlega ekkert í Eiði Smára Guðjohnsen að hafa farið til Stoke. Vel kunn er andúð knattspyrnustjórans þar á öllu sem íslenskt er. Ef Eiður vill bara hirða kaupið sitt án þess að hafa mikið fyrir því, þá er þetta sennilega rétt ákvörðun en annars ekki. Kannski er hann kominn á þann aldur að metnaður hans er farinn að dala.

Ugla sat á kvisti.
Átti börn og missti.
Ól hún eitt.
Ól hún tvö.
Ól hún þrjú og það varst þú.

Þessi klausa var mest notuð í mínu ungdæmi til að velja krakka úr hópi. Oft var það til að komast að því hver ætti að ver‘ann í næsta leik. Þá var þessi samsetningur gjarnan notaður aftur og aftur þangað til einn var eftir og hann fékk að ver‘ann.

IMG 3616Í Svartaskógi.


1193 - Stjórnlagaþing IV

Fyrsta snjóhelgi vetrarins er nú runnin upp. Það er að segja hér í Reykjavíkinni. Aðrir landsmenn hafa svosem séð snjó fyrr. Veðrið er samt fallegt og jólalegt. Jólalegra en verður seinna meir þegar skrautið og auglýsingarnar hellast yfir mann.

Á stjórnlagastuttlistanum mínum eru núna 39 nöfn. Þau eru: Jónas Kristjánsson fyrrverandi ritstjóri Svanur Sigurbjörnsson læknir. 4096 Eiríkur Bergmann Einarsson stjórnmálafræðingur. 2193 Friðrik Þór Guðmundsson fjölmiðlafræðingur. Sigþrúður Þorkelsdóttir lögfræðingur. Baldur Óskarsson framhaldsskólakennari. 5361Birna Þórðardóttir ferðaskipuleggjandi, skáld. 4921 Gísli Tryggvason talsmaður neytenda. 3249 Guðjón Ingvi Stefánsson verkfræðingur 8386 Guðmundur Gunnarsson formaður Rafiðnaðarsambands Íslands 7825 Hlín Agnarsdóttir rithöfundur, leikstjóri 6109 Katrín Fjeldsted læknir 7715 Magnea Jóhanna Matthíasdóttir, þýðandi 7682 Óli Gneisti Sóleyjarson þjóðfræðingur 4283 Sigurður Guðmundur Tómasson útvarpsmaður 6208 Stefán Pálsson sagnfræðingur 4954 Þorkell Helgason stærðfræðingur 2853Þorvaldur Gylfason prófessor 3403 Þórhildur Þorleifsdóttir leikstjóri 5196 Kjartan Ragnarsson forstöðumaður 3667 Ólafur Proppé rektor 6351 Axel Þór Kolbeinsson tölvutæknir 2336 Ágúst Valfells verkfræðingur 6164 Illugi Jökulsson blaðamaður 9948Anna Kristín Kristjánsdóttir vélfræðingur 9068 Anna Benkovic Mikaelsdóttir kennari 4382 Bragi Straumfjörð Jósepsson prófessor Erlingur Sigurðarson kennari  9431 Gunnar Hersveinn Sigursteinsson rithöfundur 6527 Íris Erlingsdóttir fjölmiðlafræðingur 7968 Jón Ólafsson prófessor 7671Kristófer Már Kristinsson kennari 2941Lýður Árnason læknir 3876 Ólafur Sigurðsson fv. varafréttastjóri 8848 Ómar Þorfinnur Ragnarsson fjölmiðlamaður 9365  Sigríður Dögg Auðunsdóttir forstöðumaður kynningarmála 6153 Sigurður Grétar Guðmundsson pípulagningameistari 4976 Sigursteinn Róbert Másson sjálfstætt starfandi 7858

Þar fór ég illa með ykkur. Þetta nennir enginn að lesa. Ekki einu sinni ég sjálfur. En fljótlegt var að peista þetta hér. Stundum fylgja númer og stundum ekki. Röðin er tóm tilviljun eins og annað og þarfnast mikillar endurskoðunar. Einnig eiga einhverjir eftir að detta út. Varla bætast margir við.

Mér finnst þessi listi alveg jafnmerkilegur og aðrir svipaðir. Sumir vilja sortera frambjóðendur eftir stjórnmálaflokkum og þessháttar. Ég sortera þá bara eftir því hvort ég kannast við þá og hvort mér líka bærilega þeirra skoðanir. Má það ekki annars?

Mikið afskaplega er þetta streð hjá mér stefnulaust. Hér rembist ég við að skrifa eitthvað á hverjum degi. Samt er það fremur lítils virði. Ef þetta væru nú endurminningar eða eitthvað slíkt. Það væri munur. Líklega er Jónas Kristjánsson sá maður sem ég stæli hvað mest. Þó les ég hann ekki nema öðru hvoru. Dæmigerður besservisser og stóryrtur að auki. Stóryrði kann ég ekki að meta. Vil helst geta staðið við það sem ég segi.

Það er misjafnt hve vel ég pússa til þá texta sem hér birtast. Oft fer það auðvitað eftir því hve mikinn tíma ég hef. Svo er ég líka í mismiklu pússunarstuði. Birtingarstuðið er einnig mismunandi. Stundum veltast klausur um í bloggskjalinu mínu vikum saman án þess að hljóta þá náð fyrir mínum augum að komast í bloggið og fyrir rest hendi ég þeim svo kannski. Stundum birti ég allt. Svona er þetta bara.

Undir frýjunarorðum heilagrar Jóhönnu verða stjórnarandstöðufurstarnir nú að sitja því ekkert bendir til að vantrauststillaga á ríkisstjórnina komi fram. Moggabloggarinn Sigurður Kári Kristjánsson gerir að vísu tilhlaup til þess á bloggi sínu að mæla með slíku en heykist svo á öllu saman og birtir þar gamla ræðu eftir Steingrím Jóhann með fáeinum athugasemdum.

Skilst að ungar konur snyrti jafnan og klippi til (jafnvel raki í burtu) neðri hárin á sér núorðið. Slíkt var ekki vani áður fyrr. Flestar píkur sem ég sá í þann tíð (aðallega á myndum þó) voru a.m.k. að nokkru leyti huldar hárum. Samt fannst mér þetta með merkilegustu fyrirbrigðum sem til voru og þreyttist aldrei á að skoða þær sem nákvæmlegast. Nú er öldin önnur og mér finnst margt merkilegra en píkur. Þó eru þær áhugaverðar og það sem í kringum þær er. Best af öllu var samt og er að stinga tittlingnum inní þær. En tölum ekki meira um það því úr gæti orðið argasta klám. Man að ég dáðist alltaf að Dönum sem fengu klámbylgjuna yfir sig um og fyrir 1970.

IMG 3612Sveppafjölskylda.


1192 - Tunnuslagur

Almenn mótmæli og tunnusláttur kemur því aðeins að tilætluðum notum fyrir mótmælendur að þeir sameinist um eitthvert eitt málefni. Vissulega hefur hópur manna sem hefur í frammi mikinn hávaða talsverð áhrif. Ef kröfurnar dreifast þá dreifast áhrifin einnig. Að deilt skuli um það hvort mótmælin á Austurvelli í gær beindust gegn ríkisstjórninni eða alþingi er bara vottur um það að þau voru misheppnuð.

Ef menn vilja endilega setja það sem er að gerast í íslenskum stjórnmálum um þessar mundir í hægri-vinstri samhengi þá er greinilegt að vinstrisveiflan við hrunið er það mikil, hvað sem skoðanakannanir segja, að núverandi ríkisstjórn mun að líkindum verða við völd allar götur fram til 2012 eða 2013. Samt er hætt við að ESB-málið verði henni á endanum svo þungt í skauti að hún springi án þess að ljúka kjörtímabilinu.

Dilkadráttur vegna stjórnlagaþingskosninganna þann 27. nóvember er nú hafinn af fullum krafti. Sé að Friðrik Þór Guðmundsson er önnum kafinn við að hengja flokksmiða á sem flesta. Þeir virðast taka því misjafnlega. Engir þó sérlega illa enda eru þetta yfirleitt ekki neinar leynilegar upplýsingar. Margir þeirra kynna sig á Smugunni sýnist mér og það er í góðu lagi mín vegna. Stuttlistinn minn er að lengjast töluvert. Síðast þegar ég vissi var ég kominn í nærri 40.

Auðvitað skiptir miklu máli hverjir veljast á þetta blessað stjórnlagaþing. Ég ætla mér þó ekki þá dul að ráða neinu um það. Kjósa mun ég þó en fráleitt ætlast til að aðrir kjósi eins.

„Olía lak af mótmælatunnu". Þannig hljóðaði fyrirsögnin á Moggafrétt einni í gær. Litlu verður Vöggur feginn. Dæmigerð anti-frétt. Hverju var tunnan að mótmæla? Og hvaðan koma þessar tunnur? Er hugsanlega olía á fleirum? Blaðamaðurinn er alls ekki að standa sig. Um þetta hefði verið hægt að skrifa laaaanga frétt og jafnvel koma Bjarna Benediktssyni að.

Ein var sú „saying" í Formúlu eitt-fræðum forðum daga, sem hljóðaði þannig á ensku: „To win a race you have to finish." Já, einu sinni bilað bíllinn hjá Mansell þegar hann var í forystu og nokkra metra frá endamarkslínu. Fyrir nokkrum árum, þegar ég fylgdist vel með formúlunni var þessu breytt lítilsháttar og hljóðaði þá þannig: „To win a race you have to be finnish."

Upplifanir fólks af sama atburðinum geta verið furðulega mismunandi. Hef oft gert mér það að leik að rifja upp atburði úr grárri fjölskylduforneskju og komist að raun um þetta. Ekki aðeins geta áherslur verið mismunandi heldur geta minningarnar beinlínis stangast á.

IMG 3600Visnuð laufblöð.


1191 - Stjórnlagaþing og fleira

Undarlegt með þessi orð. Alltaf skulu þau koma þegar maður sest við tölvuna og kallar á þau. Þessvegna get ég bloggað svona á hverjum degi. Ef þau færu nú skyndilega í fýlu og neituðu að koma þá gæti ég ekkert bloggað. 

Stundum finnst mér ég ekki geta sagt neitt, en alltaf kemur eitthvað á blaðið (eða í skrána væri líklega réttara að segja). Sem betur fer hefur mér tekist að hemja þetta að því leyti að ég hef þessar hugleiðingar ekki alltof langar hverju sinni.

Bíð svolítið með að kynna mér betur frambjóðendur til stjórnlagaþings. Það eru eiginlega þeir sem eiga að koma til mín en ég á ekki að þurfa að leita þá uppi. Auðvitað er takmarkað sem þeir mega eyða í auglýsingar en ef þeir vilja ekki atkvæðið mitt þá þeir um það.

Gerður Kristný er sá rithöfundur sem vekur mesta athygli mína um þessar mundir. Man enn eftir frásögn Thelmu Ásdísardóttur í bókinni „Myndin af pabba." Þá bók las ég reyndar ekki fyrr en allnokkru eftir að hún kom út.

Ég man semsagt eftir þessari bók sem Gerður Kristný skrifaði eftir frásögn Thelmu Ásdísardóttur eins og frægt varð á sínum tíma. Einna mest áhrif á mig hafði lýsingin, í upphafi bókarinnar, þar sem faðir Thelmu lá banaleguna og bað hana fyrirgefningar á því sem hann hefði gert á hlut hennar. Sú lýsing stendur mér ljóslifandi fyrir hugskotssjónum og var óhemju sterk. Í mínum huga vildi Thelma ekki gera það nema á sínum forsendum.

Mér fannst þá langt gengið að láta hatur sitt ná út yfir líf og dauða. Vissulega hafði Thelma samt eftir öllum sólarmerkjum að dæma fyllstu ástæðu til þess haturs en ég man að þessi lýsing hafði áhrif á allan minn lestur á bókinni.

„Það gerist ekki neitt. Þessi ríkisstjórn gerir ekki nokkurn skapaðan hlut." Segir Sigmundur Davíð. Sigmundur og fleiri hafa reynt mikið með tunnum og tilheyrandi að koma ríkisstjórninni frá. Nú held ég að það hafi mistekist endanlega. Ekki er víst að næsta tækifæri komi nærri strax.

IMG 3579Laufblöð og vatnsdropar.


1190 - Forsendubrestur

Er allt að fara til fjandans? Einhvern vegin finnst mér sumir haga sér eins og þeim finnist best sé að svo fari, úr því viðkomandi geta ekki fengið allar sínar óskir uppfylltar. Ég tók þátt í búsáhaldabyltingunni hans Harðar um áramótin 2008 og 2009 en nenni ekki á vettvang núna. Er samt ekki hræddur um að verða fyrir meiðingum en sýnist að of margir séu að sinna of mörgum málum að þessu sinni. Finnst að menn séu meira og minna bara að sýnast fyrir fjölmiðla og myndatökumenn en þegar á skal herða koðnar allt niður. 

Ármann Jakobsson, sem helst ekki má segja að sé bróðir Kötu menntamála, kallar Heiðu B. Heiðars og fleiri tunnuterrorista. Er ekki frá því að ég sé svolítið sammála Ármanni. Nasistafánarnir ollu mér hryllingi. Veit ekki af hverju. Sennilega eru þeir sem á þeim halda bara ágætisfólk. Fjölmiðlar hafa þó dregið upp svarta mynd af þeim.

Fjölyrt um forsendubrest. Forsendubrestur er ekki forsendubrestur nema brestur sé. Dómstólar virðast ekki viðurkenna svoleiðis skrautblóm. Ekki er samt fullreynt með Hæstarétt. Eru dómstólarnir ekki best færir um að ákveða hvað er forsendubrestur og hvað ekki?

Biðraðirnar hjá mæðrastyrksnefnd, fjölskylduhjálp og fleirum eru bara fyrirkomulagsatriði. Sú hefð sem komist hefur á varðandi matarúthlutanir lítillækkar fólk mjög. En einhverjum hlýtur að vera í hag að hafa þetta svona. Tiltölulega einfalt væri að hafa fyrirkomulagið öðruvísi, en þá hyrfu biðraðirnar og ekkert væri til að mynda. Kannski mundi það líka kosta eitthvað. Gefendur matarins vilja ráða hvað gefið er. Með því að halda ríkinu frá þessu (sem ætti þó skilyrðislaust að bera ábyrgðina) stjórna gefendur málinu alfarið.

Hvað er það sem skilar okkur fram á við? Er það viska hinna eldri eða kraftur og áræði ungdómsins? Ég er nefnilega ekki í neinum vafa um að við erum á framfaraleið. Úrtölumenn sem misst hafa kjarkinn segja að allt sé á hraðri niðurleið. Ég reyni að standa með ungdómnum. Hans er framtíðin. Skelfingar klisjur eru þetta. Hættur og farinn að sofa.

IMG 3578Kál á öðru ári.


1189 - Hagfræði er hundalogik okkar tíma

Eru hagfræðiformúlur og fjárhagsútreikningar það mikilvægasta í veröldinni? Ég held ekki. Margir virðast samt halda það. Varðandi blessað hrunið er enn deilt um það, a.m.k. hér á landi, hvort hægt hefði verið að koma í veg fyrir það með meiri hagfræðiþekkingu almennings. Nær væri að beina vitsmunaþroskanum í aðrar áttir. Til dæmis væri alveg gráupplagt að fara að taka í þá sem settu okkur á hausinn. Það er víst aftur á móti hagfræðilegt vandamál hvernig á að fá atvinnulífshjólin af stað aftur en samt mætti alveg athuga það.

Á þriðjudaginn fyrir viku skutlaðist ég upp í Stangarhyl í Ártúnsholtinu. Að vísu í seinna lagi, en mikið rétt;  þarna sátu yfir tuttugu gamlir kallar og tefldu eins og unglingar. Svo fór ég aftur í dag og enn var teflt. Og jafnvel fleiri nú en síðast. Gott ef þeir voru ekki næstum þrjátíu. Ég bættist í hópinn og gekk bara ágætlega. Klukkurnar eru stórfínar og töflin sömuleiðis. Kaffið ágætt og kökurnar líka. Gott ef ég fer bara ekki að stunda þetta.

Byltingartilraunin nálgast segir Jónas Kristjánsson á sínum vef. Hann hefur fátt fyrir sér eins og venjulega. Þó er því ekki að neita að verulega mikið er reynt til að gera mótmælin sem boðuð hafa verið á fimmtudaginn kemur sem öflugust. Sú stjórn sem út úr slíku kæmi er ég hræddur um að yrði hrein fasistastjórn. Jóhanna og Company munu ekki fara frá sjálfviljug. Þá er fátt annað eftir en bylting og aðstæður fyrir slíkt eru ekki fyrir hendi hér á Íslandi í dag.

Nú ætla ég í afneitun. Ég neita að trúa því að ástandið hérlendis sé eins slæmt og af er látið. Hvernig er annars af því látið? Mér finnst annar hver maður halda því fram að hér sé allt á vonarvöl. Fátækt og hungur meira en í manna minnum. Verið sé að selja á nauðungaruppboðum stóran hluta heimila landsmanna og atvinnuleysi og volæði hverskonar svo algengt að við slíkt verði ekki unað. Byltingu þurfi til. Stjórnlagaþingið sé húmbúkk. ESB ætli að leggja landið undir sig. Úlendingar (hugsa sér) séu á góðri leið með að sölsa undir sig allar náttúruauðlindir landsins.

Ég held bara að þetta sé ekki svona. Pólitískir loddarar eru langt komnir með að afvegaleiða stóran hluta þjóðarinnar. Fjölmiðlar klifa sí og æ á því að stjórnkerfið sé vonlaust og pólitíkin enn vonlausari. Það er ábyrgðarhluti að láta svona. Auðvitað lentum við í slæmum hremmingum í hruninu en erum langt komin með að ná okkur aftur á strik. Bara ef menn létu ekki svona. Öll dýrin í skóginum eiga að vera vinir. Þetta vita væntanlegir fulltrúar á stjórnlagaþinginu.

Mótmælatunnurnar sem transportað er fram og aftur um miðbæinn, eftir því hvernig kaupin gerast á eyrinni, eru sumar farnar að láta á sjá. Er ekki hægt að endurnýja þær? Er hægt að ætlast til að fólk dangli í gamlar og slitnar tunnur?  Maður, maður, maður,... skilur þetta bara ekki.

Þó ég láti svona er ég í hjarta mínu sammála mótmælendum um flest. Mín vegna má berja tunnurnar svo fast að ekki heyrist mannsins mál í næstu húsum. Revolution is fun.

IMG 3440Ber eða eitthvað svoleiðis.


1188 - Myndir og gönguferðir

Nú er ég búinn að stunda það alllengi að setja eina mynd með hverju bloggi. Daglega semsagt. Það er ekki vandasamt eða tefjandi og líklegt er að ég haldi því áfram. Enginn hörgull ætti að vera á myndum. 

Þegar ég fer í gönguferðir á morgnana leyfi ég myndavélinni oft að fljóta með og tek myndir af því sem ég rekst á. Í hverri mynd felst alltaf ákveðin hugsun. Hvernig sú hugsun kemst til skila og hvort hún kemst til skila er auðvitað undir hælinn lagt. Til hjálpar mínum skilningi set ég oft einhver orð undir myndina. Sá sem skoðar hana er samt á engan hátt bundinn af því og getur auðvitað skilið hana sínum skilningi eða misskilið hana.

Það sem sagt er með myndum er á engan hátt óraunverulegra en það sem sagt er með orðum. Mér finnst ég hafa meira vald yfir orðunum en kannski er það misskilningur. Hreyfimyndir eru miðill dagsins en ég treysti mér ekki til að keppa við hann. Auðvitað eru hin skrifuðu orð afdankaður miðill en ég er orðinn svo vanur þeim að ég finn það ekki.

Saumað er nú að Heimssýn úr öllum áttum. Bændasamtökin veita samt stuðning með beinum fjárframlögum og þiggja jafnframt styrk frá ríkinu. Ekki trúi ég að Heimssýnarmönnum líði vel á ríkisjötunni og vel gæti hugsast að hætt yrði að þiggja þennan styrk.

Skuggalegt er hve sumir andstæðingar ESB-aðildar vilja ganga langt í því sem þeir álíta rétt. Engu er líkara en þeir viðurkenni ekki einu sinni með sjálfum sér að andstæðingar þeirra geti haft rétt fyrir sér. Aukin umræða og fræðsla um Evrópumál mun kannski leiða til markvissari og kurteislegri skoðanaskipta um þessi mál en hingað til hefur verið algengast.

IMG 3395Nei, þetta er ekki spegill.


1187 - Heimssýn og stjórnlagaþing

Á sama tíma og átök harðna hvað snertir inngöngu í ESB eru landsmenn að undirbúa sig undir stjórnlagaþing. Satt að segja er ekki ólíklegt að þessi tvö mál eyðileggi nokkuð hvort fyrir öðru og hrunsmálin spila að sjálfsögðu inn í allt saman. Gera verður þá kröfu til þeirra sem á stjórnlagaþing veljast að þeir láti af öllum einstrengingshætti varðandi þessi mál. Ef þokkaleg sátt á að nást um stjórnarskrána verður að sætta sig við að hún verði loðin og óákveðin hvað snertir afstöðu til þessara mála.

Heimssýnarmenn eru dálítið með böggum hildar þessa dagana. Ástæðan er sú að strategía þeirra er öll farin út um þúfur og fylgið við Evrópusambandsandstöðuna að hverfa. Eins og veröldin virtist blasa við þeim fyrir nokkrum vikum síðan.

Sú hugmynd þeirra að fá alþingi til að samþykkja þingsályktun um að hætta viðræðunum við ESB gekk ekki. Þá var brugðið á það ráð að reyna að fá fram þjóðaratkvæðagreiðslu um málið. Það var heldur vafasöm aðgerð því líklega hefði verið samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslunni að halda viðræðunum áfram. Heimssýnarmönnum til happs þá klúðraði Vigdís Hauksdóttir því máli öllu.

Nú sjá þeir helstu möguleika felast í því að reyna að kljúfa vinstri græna og fá þá til þess að hætta stuðningi við ríkisstjórnina ef ekki verður.... Ja, ef ekki verður hvað? Veit ekki hvers þeir krefjast núna en hátt hafa þeir um mútur, segja að nú fari fram aðlögunarviðræður við Sambandið og að aldrei verði nein þjóðaratkvæðagreiðsla um málið.

Jólin eru um það bil að halda innreið sína í verslanir og glugga þeirra. Mörgum finnst þetta með fyrra móti en verslunareigendur segja auðvitað að markaðurinn krefjist þessa. Merkilegur guð þessi markaður. Trúin á hann og gullkálfinn virðist sterkari en nokkur önnur trú. Segi ekki meira um trú og trúleysi því það er ávísun á endalausar flækjur. Nóg er nú samt.

Kunna bankamenn ekki að reikna eða er Marínó sjálfur eitthvað tæpur?

IMG 3561Ofneysla á ís getur verið hættuleg.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband