Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2010
20.11.2010 | 00:07
1206 - 1234 5678 9010
Hvað ætti ég að taka mér fyrir hendur ef ekki væri bloggið? Það er nánast allra meina bót að skrifa blogg. Þú ættir bara að prófa. Já, ég er að meina þig sem hefur álpast til að lesa þetta. Jú, jú ég er kominn með svolitla æfingu en það geta þetta samt allir. Fyrst er þetta ekkert sérlega gaman. Maður er sífellt með hugann við hvað sé óhætt að skrifa um. Hvort þeir sem lesa bloggið fái ekki einhverjar ranghugmyndir um mann eða misskilji allt sem maður skrifar.
Þegar maður er orðinn laus við þá hræðslu eru manni allir vegir færir. Aðallega þarf maður að athuga að vera ekki alltaf að skrifa um það sama. Eða það finnst mér. Verst hvað ég veit lítið. En mér er alltaf að fara fram við gúglið.
Nú er ég búinn að setja 25 nöfn á listann sem er á kosning.is". Ætla samt ekkert að segja hverjir það eru. Þarf líka eitthvað að endurskoða röðunina. Þessi persónukosning er annars ári sniðug. Og líka það að vera laus við pólitíkusana sem maður er vanastur við allar kosningar. Kannski borgar sig bara best að kjósa utan kjörfundar. Hræddur um að sumsstaðar gangi nokkuð hægt á kjördag. En búast ekki allir við því?
Nú er ég búinn að sjá að ég get helst ekki opinberað hverjir eru á listanum mínum. Með einhverjum aðferðum er þá kannski hægt að reikna út hve vinstri eða hægrisinnaður ég er. Það er vandlifað í henni verslu. Ég gæti svosem haldið því fram að menn séu þarna mest útaf tilviljunum. Svo gæti ég bara birt númerin. Þá væri veruleg fyrirhöfn að komast að einhverju um mig.
9365 3403 5361 2193 2336 4096 6351 9915 6208 9024 2325 3249 7682 4261 4921 8386 7715 4954 5196 9068 7814 6527 7968 2941 4976.
Það er alveg óviðunandi að hafa ekkert val um neitt annað en þessa úreltu og afdönkuðu stjórnmálaflokka við kosningar. Ef ný öfl bregðast svo líka er eflaust hægt að finna enn önnur.
A: Samkvæmt íslensku óánægjuvoginni er betra að fara í langt bað en stutt.
B: Hvað er íslenska óánægjuvogin?
A: Það er eitthvað forrit sem ég fann uppog allir eiga að trúa.
B: Af hverju?
A: Af því að þar eru hlutirnir mældir og vegnir með vísindalegum aðferðum.
B: Segir þú. Eru aðrir sammála um vísindalega nákvæmni vogarinnar?
A: Auðvitað. Annars verða þeir bara vegnir og léttvægir fundnir.
B: Já, einmitt.
A: Hvað er þetta? Trúirðu mér ekki?
B: Jú jú.
A: Þér finnst kannski eins og ég sé að gera grín að auglýsingum annarra?
B: Nei, alls ekki.
A: Við getum talað meira um íslensku óánægjuvogina ef þú vilt.
B: Endilega.
A: Finnst þér ekki sniðugt hjá mér að hafa fundið þetta upp?
B: Jú, jú. Ég þori ekki að segja annað.
A: Eru þá hræddur við mig?
B: Nei, nei.
A: Það er nú samt alveg eins og svo sé.
B: Kannski óánægjuvogin gleypi mig og mali.
A: Já, passaðu þig bara. Annars er ég að hugsa um að fara og finna upp eitthvað fleira.
B: Já gerðu það. Hafðu það bara ekki eins hættulegt. Og passaðu þig á myrkrinu.
Sá áðan Fréttatímann og þar stendur á blaðsíðu tvö: Verslunin hyggst bjóða bókina á hálfvirði frá og með deginum í dag og með skilarétti þar til birgðir endast." Gafst upp við að lesa blaðið eftir þessa reynslu. Kíki samt kannski á það seinna. Dettur ekki í hug að halda að blaðamaðurinnn sem skrifaði þetta sé svona vitlaus. Hefur bara ekki nennt að lesa fréttina yfir.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
19.11.2010 | 00:09
1205 - Ýmislegt annað en stjórnlagaþingið
Hvers vegna eru flestir svona uppteknir af útliti sínu og því hvað aðrir hugsa og segja um þá? Jú, þeir vita innst inni hve andstyggilegir þeir sjálfir eru í garð annarra og reikna eðlilega með því að aðrir séu eins. Vel er hægt að álíta sem svo að með því að hugsa vel um útlit sitt sé verið að sýna öðrum virðingu. Í raun er samt auðvitað um tilraun til sjálfsupphafningar að ræða.
Þó útlitið sé mikilvægt er innrætið þó mikilvægara. Allir vilja sýnast góðir. Það ræður jafnvel stjórnmálaskoðunum fólks. Þá finnst fólki það vera meira gott en þeir sem öðrum stjórnmálaflokkum tilheyra.
Viska heimsins býr í bókum. Þess vegna fer ég mánaðarlega á tvö bókasöfn og fæ lánaðar bækur þar og hef gert í mörg ár. Internetið er ágætis viðbót og þeir sem góðir eru að gúgla geta verið fljótir að fletta upp ýmsum hlutum þar. Samt fer ég ekki ofan af þessu með viskuna. Hins vegar er lítil viska í vesalings þingmönnunum okkar. Þeir eru langt komnir með að kjafta frá sér allt vit núna heyrist mér. Þeir eru nefnilega útsettir með að glenna sig hér á heimilinu í kapp við Arnþrúði og Pétur á Útvarpi Sögu.
Eins og Jónatan Swift sagði forðum í gervi Gullivers: Ekkert er stórt og ekkert er smátt án samanburðar við annað," þá má eins segja að ekkert sé gott og ekkert vont án samaburðar við annað. Á þessu þrífast stjórnmálin.
Endalaust má bollaleggja um mannlega hegðun og skýra hana á ýmsa vegu. Auðvitað skýrir hver og einn hana á þann hátt sem honum kemur best. Þetta læra menn smátt og smátt. Sumir fljótt, sumir seint og fáeinir alls ekki. Þeir eru kallaðir einhverfir.
Endalaus speki er þetta alla tíð. Þegar fólk les þessi ósköp kinka sumir kolli en aðrir hrista hausinn. Það er eðlilegt. Enginn skrifar svo öllum líki. Já, auðvitað er þetta afbökun á frægum talshætti. Eru ekki öll skrif og ræðuhöld samsetning á talsháttum og frösum hverskonar? Er hægt fyrir dauðlega menn að vera frumlegir í hugsun?
Eigi má sköpum renna.
Að færa sig uppá skaftið.
Svo lengist lærið sem lífið. (O.K. Þessi er svolítið aflagaður.)
Það er uppi á þér typpið núna.
Að koma einhverju á koppinn.
Eitthvað er í burðarliðnum.
Andskotans dónaskapur er þetta alltsaman. En svona eru talshættir oft. Ekkert nema dónaskapurinn eða getur verið að mín hugsun sé eitthvað úr lagi færð. Varla. Þó ég sé aðeins byrjaður að eldast er ég ekki svo skyni skroppinn að ég sjái ekki svonalagað.
Frumlegasta hugsunin sem ég varð var við í gær var sú sem Stefán Pálsson sagði frá á sínu bloggi. Einhver sem hann þekkti og tiltók kom á fésbókarræflinum með þá tillögu að í stað kjördæmaskiptingar eftir landfræðilegum línum skyldi skipta landinu í kjördæmi eftir aldri kjósenda. Þetta er dálítið frumlegt en trúlega afar heimskulegt. Með því væri verið að viðurkenna að kjördæmaskiptingin sé einhver nauðsyn sem hún er alls ekki. Hvað ætti að taka við er svo endalaust hægt að deila um.
Er ég orðinn ofurbloggari? Sennilega ekki. En kannski er ég farinn að nálgast það. Það er næstum ofurmannlegt hjá mér að blogga svona uppá hvern dag. Ofurbloggari verð ég samt varla útá það. Hvernig eru ofurbloggarar skilgreindir nútildags? Þetta var minni spurning áður fyrr þegar bloggið var að byrja. Sennilega hefði ég átt að byrja fyrr. Þá hefði mér líklega ekki orðið skotaskuld úr því að verða ofurbloggari. Skotaskuld?? Hvað þýðir svoleiðis orðaleppur í raun. Eða þá ofurbloggari?? Nei, nú er ég hættur.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
18.11.2010 | 00:55
1204 - Talning atkvæða í stjórnlagaþingskosningum o.fl.
Mér er alls ekki með öllu ljóst hvernig talið verður í komandi stjórnlagaþingskosningum og alls ekki frá því að svo sé ástatt um fleiri. Ég ætla því að reyna að útskýra hvernig þessi mál öll sömul horfa við mér. Verið getur að einhverjir hugsi á svipaðan hátt og hafi gagn af þessu. Ég held semsagt að talningin fari svona fram:
Fyrst eru samanlögð gild atkvæði talin og deilt í þá tölu með 25. Sú tala sem þá kemur út er sú tala sem þarf til að vera kjörinn.
Sá sem fær flest atkvæði í fyrsta sæti er þá kjörinn í fyrsta sætið. Aðeins er notað það brot af hverju atkvæði sem þarf til að ná kjöri. Semsagt þó hann fái fleiri atkvæði í fyrsta sæti en útkoman úr deilingunni segir til um þá ónýtast atkvæðin ekki því afgangur atkvæðisins fer á þann sem er í öðru sæti á viðkomandi atkvæðaseðli. Ef enginn er þar er ekki unnt að gera neitt við afganginn af atkvæðinu. Þeir sem atkvæði hlutu í fyrsta sætið en náðu ekki kosningu fá í staðinn atkvæði í eitthvert annað sæti. Þeir sem voru í öðru sæti á þeim seðlum sem tekinn var hluti af til að kjósa þann sem var í fyrsta sæti eiga þann hluta sem eftir er til góða í eitthvert annað sæti síðar meir við úthlutun þeirra sæta sem eftir eru. Næst eru talin atkvæði allra aftur nema þess sem er búið að kjósa í fyrsta sæti. Einhver er þar í efsta sæti og hann er því kjörinn einnig. Þannig er haldið áfram þar til 25 sætum hefur verið úthlutað.
Mér skilst að þessi aðferð sé kölluð STV en það skiptir vitanlega engu máli. Þetta virðist vera flókið og illskiljanlegt en tölvur hafa bara gaman af að reikna svona lagað.
Til viðbótar eru svo ákvæði sem tryggja báðum kynjum visst hlutfall sæta. Ef annað kynið er neðan við markið þegar búið er að úthluta 25 sætum er allt reiknað uppá nýtt og sætin höfð 26 en eftir 25 er því kyni sleppt sem er ofan við markið. Síðan er einu sæti bætt við í hvert sinn ef ekki næst sá jöfnuður sem sóst er eftir en þó mega sætin ekki verða fleiri en 31.
Vel getur svo verið að þetta sé allt misskilningur hjá mér og þá kemur vonandi einhver með leiðréttingu.
Hvað eftir annað hrekk ég upp við það að ég hef ekki athugað google-readerinn minn í marga daga. Þegar ég svo kíki á hann eru blogginnleggin þar gjarnan mörg hundruð. Þá er ekki annað að gera en eyða þeim snimmhendis og lofa sjálfum sér bót og betrun. Hún kemur samt sjaldast því mér finnst ég alltaf þurfa að gera svo margt annað en að lesa annarra manna blogg. Sem betur fer hugsa lesendur mínir ekki svona því þá mundu þeir líklega aldrei lesa mitt blogg. Eins og ég vanda mig samt. En tölum ekki meir um það.
Samtök sem nefna sig Sterkara Ísland", hafa hvað eftir annað reynt að fá mig til að ganga í sig en ég hef þrjóskast við. Mér skilst að þetta séu samtök sem berjast fyrir inngöngu Íslands í ESB og ég hef nokkrum sinnum fengið bréf frá þeim og er eflaust á einhverjum póstlista þar. Mér líkar það ágætlega því bréfin frá þeim eru allfróðleg og ég tel mig hafa gagn af þeim. Annars mundi ég klikka á tengil sem ávallt er neðst í bréfunum til að ég geti hætt að fá bréf af þessu tagi.
Baggalútur er með þetta. Þetta er þaðan:
Heyrði á tal ungra drengja áðan. Annar sagðist vera með tvær fætur. Í framhaldi sagðist hinn bara vera með einan heila.
Svona er þetta. Ástæðulaust að vera að þessu streði.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 00:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
17.11.2010 | 00:18
1203 - Þeir drápu hann og myrtu síðan
Já, áður fyrr þýddi það að myrða einhvern að drepa hann og leyna drápinu. Andstæðan við það var auðvitað að lýsa víginu á hendur sér. Vitanlega gat slíkt haft eftirmál af öllu tagi í för með sér. Hefndir tóku oft ekki enda áratugum saman og fæðardeilur svokallaðar voru algengar meðan ríkisvald á Íslandi var veikt. Það var ekki fyrr en Þjóðveldið leið undir lok að deilur og mannvíg af þessum sökum tóku enda. En því miður tók ýmislegt annað enda líka.
Þrennt er það þó í íslenskri afbrotasögu seinni tíma sem mér finnst ekki hafa fengið þá umfjöllun sem vert væri og alls ekki vera eins kunnugt almenningi og maður gæti haldið. Öll þessi mál ættu skilið að um þau væru skrifaðar bækur og reynt að útskýra hvers vegna þau fóru eins og þau fóru.
Fyrst ber ef til vill að telja drápið á Jóni Gerrekssyni árið 1433. Hvernig í ósköpunum þorðu óbreyttir íslenskir bændur að hópast að Skálholti, taka biskupinn þar, sem jafnframt var hirðstjóri (forsætisráðherra) og sérstakur vinur konungsins, (Eiríks af Pommern) stinga honum í poka og skutla svo út í Brúará og drekkja honum þannig? Og hversvegna var þessa athæfis aldrei hefnt svo orð væri á gerandi?
Frásögnin af Bjarna-Dísu og örlögum hennar er hrikalegri en orð fái lýst. Margir kannast þó lítt við málið. Ég hef tvívegis bloggað nokkuð um það. Fyrst 16. September 2008 og aftur 8. október á þessu ári og ætla ekki að endurtaka það sem þar var sagt. Sú draugatrú sem tröllreið öllu hér á Íslandi í byrjun nítjándu aldar hefur án efa valdið þessu og ef til vill ýmsu fleiru.
Þriðja atriðið sem kemur mér í hug er morð það í grennd við Kolviðarhól sem ég skrifaði stuttlega um fyrir fáeinum dögum. Í eftirmála þeirrar sögu kemur vel í ljós hvernig fordómar og klíkuskapur komu í veg fyrir að dæmigert og hroðalegt morðmál væri nokkru sinni rannsakað í alvöru. Almenningsálitið kom ekki að gagni þar og er nokkur vissa fyrir því að það sé virkara í dag?
Eitt verst varðveitta leyndarmálið á Íslandi í dag er væntanlegt stjórnlagaþing. Hvernig fjölmiðlar flestir koma sér hjá því að minnast á það er ótrúlegt svo ekki sé meira sagt. RUV lætur til dæmis þannig að engu er líkara en að aldrei hafi verið gert ráð fyrir stjórnlagaþingi. Að minnsta kosti er reynt með öllum ráðum að koma því inn hjá sem flestum að um algjöran minniháttar atburð sé að ræða. Einskonar framhaldsþjóðfund sem engu máli skipti.
Síðan eru flestir með öllu hættir að tala um Icesave. Líklega á það mál bara að hverfa. En tilvera okkar Íslendinga sem þjóð meðal þjóða er líka á hraðri leið með að hverfa. Mér finnst sorglegt að sjá hvernig það eina sem við Íslendingar virðumst geta sameinast um er að fyrirgefa útrásarvíkingunum sem allra fyrst og hraða okkur í sama far og við vorum í áður. Höfum við ekkert lært? Er græðgin, sjálfhverfan og þjóðremban það eina sem við kunnum?
Ef ekki koma sæmileg stjórnarskrárdrög útúr stjórnlagaþinginu og alþingi þjóskast við að samþykkja þau eða allt lendir í flækju og rifrildi þar eða á stjórnlagaþinginu er vissulega vafamál hvort betur var af stað farið en heima setið. Tilraunina er samt sjálfsagt að gera fyrst svona langt er komið. Sumir sem áður studdu stjórnlagaþing eru nú hættir að tala um það. Ekki er að sjá að nein samtök ætli að gera nokkuð í sambandi við þingið. Allmörgum virðist alveg sama þó þessi hugmynd koðni niður og hafa einsett sér að stuðla að því að svo verði.
Áhyggjur mínar um þessar mundir snúast einkum um það að allt þetta verði til þess að kjörsókn í stjórnlagaþingskosningunum verði svo lítil að þingið verði hálfómarktækt. Úr því getur þó ræst.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
16.11.2010 | 00:19
1202 - Stjórnlagaþing og ESB
Svo virðist sem ESB-deilan sé að komast á nýtt stig. Andstæðingar inngöngu eru margir orðnir hálförvæntingarfullir og úthúða öllum þeim sem ekki taka undir kröfu um þjóðaratkvæðagreiðslu strax. Flestir bíða þó eftir marktækri skoðanakönnun og víst er að viðsjár milli manna fara vaxandi frekar en hitt. Ég hef áður skrifað um að slæmt sé að ESB-deilan hafi áhrif á fulltrúa á komandi stjórnlagaþingi. Sú hætta er samt fyrir hendi. Ég get ekki annað en endurtekið það sem ég hef áður sagt. Það mál má á engan hátt skemma þar fyrir og þarf ekki að gera það.
Í bloggum mínum að undanförnu hef ég skrifað heldur illa um fésbókina sem margir stunda grimmt um þessar mundir. Viðurkenni þó alveg að þegar fésbókarvinum tekst hvað best upp er það sem þar fer fram á við ágætt samtal. Aldrei getur það samt orðið eins og blogg-grein, hvað þá blaðagrein.
Kannski eru stærstu gallar þess sem þar er skrifað hve fljótt það hverfur og stuttaralegt það er jafnan. Ef menn hafa komið sér upp sæmilega mörgum fésbókarvinum skrunar allt svo hratt í burtu að maður missir af flestu eða hefur það að minnsta kosti á tilfinningunni. Vonlaust er að ætla sér að skoða gömul fésbókarinnlegg. Það finnst mér þó hægt að gera varðandi bloggið. Athugasemdirnar þar geta orðið eins og nokkurs konar fésbókarumræða.
Mér þykir langmerkilegast varðandi komandi stjórnlagaþing hve lítið er um það talað. Fjölmiðlar minnast varla á það og það eru þá helst einstaka frambjóðendur sem virðast með lífsmarki. Það er alls ekki langt þangað til kosningin á að fara fram og ekki hef ég orðið var við marktækan áhuga stjórnvalda á því að kosningarétturinn verði notaður.
Þetta er einkennilegt. Stjórnlagaþingið er einhver markverðasti atburður í samanlagðri stjórnmálasögu landsins og fáum finnst ástæða til að minnast á það. Hvar endar þetta áhugaleysi? Tekst þeim öflum sem af einhverjum ástæðum eru mótfallnir þinginu að drepa það áður en kosið er? Verði kjörsókn lítil mun þingið örugglega ekki öðlast þann sess í þjóðarsálinni sem það á skilið.
Það er ansi hart að fjölmiðill eins og RUV sem við erum öll neydd til að borga fyrir skuli ekki sjá sóma sitt í að gera eitthvað svipað og þegar aðrar kosningar eru. Aðra miðla má kannski afsaka að einhverju leyti.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
15.11.2010 | 00:26
1201 - Kolviðarhóll
Nýlega hafði samband við mig í tölvupósti maður að nafni Bjarni Ásmundsson. Ekki veit ég hvort honum er nein þægð í því að ég segi frá honum hér. Hann sagði mér að afi sinn hefði verið bróðir Kristmanns þess Jónssonar sem myrtur var við Kolviðarhól sunnudaginn í 16. viku sumars árið 1881.
Kristmann þessi var gullsmíðanemi eða ef til vill útlærður gullsmiður og hafði farið í útreiðartúr þennan dag ásamt fleirum, en var myrtur skammt frá Kolviðarhóli. Frá þessu er sagt í bókinni Saga Kolviðarhóls" eftir Skúla Helgason sem gefin var út á Selfossi árið 1959. Ég hafði bloggað um þá bók þann 7. mars 2008.
Kristmann Guðmundsson rithöfundur skrifaði í Lesbók Morgunblaðsins 14. júlí árið 1957 langa og ítarlega grein um mál þetta. Sú grein heitir Nafni minn vitjar nafns," og er ekki annað að sjá en Kristmann hafi haft í huga að skrifa bók um þetta.
Bjarni Ásmundsson hafði einhvers staðar rekist á klausu úr blogg-grein minni um þetta og hafði þessvegna samband við mig. Mér finnst þetta mál allt hið forvitnilegasta og ekki síst er áhugaverð sú mannfyrirlitning og klíkuskapur sem fram kemur við rannsókn morðsins.
Skúli Helgason getur að nokkru um þá hlið málsins í bók sinni sem áður er getið en flest í frásögn hans virðist vera haft eftir Kristmanni Guðmundssyni rithöfundi. Ekki er samt fráleitt að gera megi rannsókn málsins og eftirmálum öllum betri skil nú þó langt sé um liðið síðan atburðir þessir gerðust.
Í frásögn rithöfundarins kemur fram að Kristmann Jónsson hafi vitjað nafns hjá móður hans þegar hún gekk með hann og að þaðan sé nafn hans komið.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
14.11.2010 | 00:11
1200 - Ýmislegt og fleira
Birti um daginn lista yfir þá sem ég var (og er) að hugsa um að kjósa til stjórnlagaþings. Eflaust hafa fáir lesið þann lista en svona eftir á að hyggja held ég að flestir á honum hafi verið þekktir fyrir í íslensku þjóðlífi. Það er að segja fyrir eitthvað annað en það eitt að vera í framboði til stjórnlagaþings. Þannig held ég að þetta verði. Sé ekki að það þurfi að vera á neinn hátt ókostur. Aðalatriðið er að fólk sé sem ótengdast fjórflokknum.
En hvernig á að ganga úr skugga um það? Það sem ég hef aðallega sem mark og mið í þessu (auk halds míns um stjórnmálaskoðanir fólks í víðum skilningi) er hvað mér sýnist viðkomandi eyða í auglýsingar. Því minni eyðsla þar því meiri líkur eru fyrir mínum stuðningi. Afleiðing af þessu (ef aðrir taka mig til fyrirmyndar) gæti orðið sú að þekkt fólk ætti auðveldari leið á þingið.
Nýlega heyrði ég Jóni Gnarr líkt við Þórberg Þórðarson. Sú samlíking er ef til vill ekki eins mikið út í hött og virðast kann við fyrstu sýn. Að minnsta kosti er því líkast sem báðum sé og hafi verið sama þó öðrum finnist þeir sérkennilegir.
Sjálfur man ég best eftir Jóni Gnarr í gerfi Georgs Bjarnfreðarsonar þar sem hann á sinni eigin bensínstöð tókst á við Hannes Hólmstein Gissurarson sjálfan í eigin persónu. Þar held ég að Jón hafi verið í essinu sínu.
Geri mér grein fyrir að sumir dæma mig einkum fyrir hvað ég skrifa á mitt blogg. (Hafa ekki annað). Auðvitað er ég ekkert frábrugðinn öðrum í því að mér er ekkert sama hvað aðrir hugsa um mig geri þeir það á annað borð. Þessvegna vanda ég mig við skrifin hér sem mest ég má.
Skrítið hvað skrif hérna verða auðveldari eftir því sem maður skrifar meira. Yfirleitt eyðist það sem af er tekið. Það á þó ekki við um skrif sem þessi. Þýðir það að skrifin séu lítilsverð? Það held ég ekki. Líklega er ég bara að verða æfðari og æfðari í að skrifa.
Ef ég skrifa til dæmis um ákveðið efni svosem minningar mætti halda að fækkaði þeim minningum sem ég get skrifað um. Svo er þó ekki. Ég held að þeim fjölgi bara eftir því sem meira er um þær skrifað. Verður þá minna að marka þær? Ekki endilega. Það kemur bara fleira upp í hugann og þar að auki verður með aukinni æfingu auðveldara að skrifa um sumt sem maður hélt að yrði svakalega erfitt að skrifa um.
Varðandi minningar á bloggi er erfiðast að muna hvað maður er búinn að skrifa um áður. Finnst asnalegt að skrifa oft um það sama. Kannski er lítil hætta á því. Kannski eru þeir afar fáir sem taka eftir slíku. Svo má alltaf gúgla. Hef oft orðið hissa á því hvað Gúgli er fljótur til. Kemur hann í heimsókn á hverjum degi? Eru kannski aðsóknartölurnar fyrst og fremst merki um athafnasemi leitarvéla-róbóta?
Af hverju eru allir að fara á fésbókarfjandann? Hvað á þetta að þýða? Það er miklu skemmtilegara að vera á Moggablogginu. Nú eða Eyjunni. Það eru nokkrir ágætis bloggarar þar. Byrjuðu reyndar flestir á Moggablogginu. Aftur á móti eru afar fáir almennilegir á vísisblogginu. Sumir bloggarar eru farnir á Wordpress eða búnir að fá sér sitt eigið lén. Ef þeir passa að skrá sig á blogg-gáttina er mér svosem sama um það. Annars er hætta á að maður missi af þeim.
Sumir eru alveg hættir að blogga nokkuð að ráði en skrifa eins og rófulausir hundar á fésbókina. Hvernig stendur á því? Það eru ekki aðrir en fésbókarvinir þeirra sem sjá það, eða hvað? Jú, ef eitthvað stórkostlegt er skrifað (sem er sjaldan) þá getur verið að einhverjir deili því til sinna vina eða athugasemdist við það sem skrifað er.
Kann ekki að meta svona lagað. Betra er að skrifa allskyns snilld sem allir geta séð ef þeir hafa gáfur til þess. Svo er bara verið að styðja eitt risastórt alþjóðafyrirtæki með því að fésbókast. Þá er nú skárra að styðja Davíð og Moggaskinnið.
Hræddur er ég um að glerperlurnar og allt það drasl standi í Ömma og Co. að lokum. Mér sýnast ESB-andstæðingar vera að fara á taugum svo líklega er skást að segja sem minnst um þetta mál.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
13.11.2010 | 00:15
1199 - Samtíningur og sitthvað
Finnst eins og ég hafi notað þessa fyrirsögn áður. Nenni samt hvorki að setja númer aftan við né gúgla það. Stundum finnst mér að helgarbloggin mín eigi að vera öðruvísi en önnur. Það séu aðrir (og hugsanlega fleiri) sem lesi þau, en sennilega er það tóm vitleysa.
Alveg er ég grjóthissa á því hvað ég fæ oft mikil viðbrögð við þessum skrifum mínum. Algengast er að menn bregðist lítt eða ekki við því sem þeir lesa. Viðbrögðin eru sennilega vegna þess að ég er farinn að taka það upp sem meginreglu að svara öllum athugasemdum strax. Það sýnir þó að ég les þær að minnsta kosti. Hvort sem þær hafa einhver áhrif á mig eða ekki.
Gnarrinn er að gera allt vitlaust þessa dagana. Í gær voru það skíðamennirnir sem fengu á baukinn. Í dag er það samgöngumiðstöðin sem er slegin af. Hvað verður það á morgun? Hef samt enga trú á að þetta minnki vinsældir hans. Bíð eftir skoðanakönnun. Eru skoðanakannanir skoðanamyndandi? Verða þær kannski slegnar af næst? Nú er gaman að lifa. Ekki er langt þangað til þessir tímar verða afar forvitnilegir. Verst að þá verð ég líklega kominn undir græna torfu. Svo er Jónína Ben. farin að segja allt. Æ, mér leiðist þetta tuð í henni.
DV.is skilst mér að aðstoði við val á frambjóðendum til stjórnlagaþings með því að gefa kost á að svara einhverju magni af pólitískum spurningum og gefa síðan leiðbeiningar um hvaða frambjóðendur skuli kjósa. Skoðanankannanir og ýmislegt annað í sambandi við komandi stjórnlagaþing á áreiðanlega eftir að valda talsverðum deilum. Ekki er ástæða til að hafa sérstakar áhyggjur af því. Réttast er að kjósa færri en leyfilegt er ef vafi er mikill. Flestir hugsa ég að geti ákveðið strax nokkra frambjóðendur til að kjósa. Þetta er bara tilraun og ekki hægt að ætlast til að allt gangi eins vel og mögulegt er við undirbúning og framkvæmd.
Helgarblaðið Fréttatíminn" hefur nú borist nokkrum sinnum inn á mitt heimili. Aðalkostur hans er sá að hann er ókeypis. Það er samt oft vel þess virði að fletta honum. Jafnvel rekst maður þar á greinar sem maður vill gjarnan lesa. Hvort maður hefur síðan tíma til þess er undir hælinn lagt. Allt það lesefni sem inná meðalheimili berst nútildags þegar auglýsingar og netið sjálft er meðtalið er beinlínis óskaplegt. Enginn getur lesið það allt. Sú var samt tíðin að hægt var að lesa allt sem barst. Man eftir að hafa jafnvel lesið Búnaðarritið í gamla daga.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
12.11.2010 | 00:28
1198 - Stjórnlagaþing V
Það er auðveldara að koma sér upp smálager af myndum en skrifum. Þessvegna geri ég það jafnan. Myndirnar sem birtast hér með bloggunum mínum eru kannski ekki alltaf splunkunýjar en nýlegar allavega.
Mér finnst að myndir eigi að segja svolitla sögu. Ekki bara að vera einhver æfing fyrir aðra ljósmyndara þar sem ljós og skuggar kallast þannig á að enginn skilur nema innvígðir. Með sjálfum mér geri ég enga kröfu um að mínar myndir séu álitnar góðar. Bloggið sjálft er mér allt. Ef einhverjum finnst ég skrifa sæmilega og vera með lítið af hálfum hugsunum þá er ég ánægður. Mestu skiptir samt að textinn fljóti vel. Engir hnökrar séu sem fólk getur hnotið um og að meiningin komist óbrjáluð til skila.
Eitt er það sem stjórnmálamenn virðast undantekningarlaust vera góðir í. Það er að tala mikið án þess að segja nokkuð. Umfram allt forðast þeir að segja nokkuð sem ákveðin meining er í. Seinna meir væri þá nefnilega hægt að ásaka þá um að hafa sagt eitthvað af viti.
Það er alveg rétt hjá Gísla þýðanda að það yrði skrautlega samkoma sem gæti komið útúr stjórnlagaþingskosningunum. Hann nefnir nokkra sem gætu hlotið kosningu (eru a.m.k. í framboði.) Ég sé þá í anda:
Ástþór Magnússon
Hrafn Gunnlaugsson
Jón Val Jensson
Pétur Gunnlaugsson og
Sturlu Jónsson.
Segi ekki meira. Ég er svosem ekkert sérstaklega á móti þessum mönnum en kannski getur þetta opnað augu einhverra fyrir því að vitanlega skiptir máli hverjir kosnir verða á þetta þing.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.11.2010 | 00:08
1197 - Hugleiðingar um hitt og þetta
Greinilegt er að fyrirsagnir hafa áhrif. Heimsóknir á síðuna mína voru með meira móti í gær. Eflaust vegna hennar. Fréttatenging og nafn. Getur ekki orðið betra. Svo er kannski ágætt að hafa fyrirsagnirnar bara nógu langar.
Í sívaxandi mæli eru stjórnlagaþingskosningarnar farnar að skipta máli. Vonandi gengur allt vel þar. Vonum líka að á þinginu sjálfu ríki sú eindrægni sem þörf er á ef árangur á að nást. Best færi á að stjórnmálaflokkarnir létu þingið alveg í friði.
Rifrildisefnin í íslensku þjóðlífi eru nægilega mörg. Ekki síst nú í kreppunni miðri og því er nauðsynlegt að forðast þau á stjórnlagaþinginu. Enginn verður minni af því að hlusta á aðra. Því aðeins getur þingið náð góðum árangri að samkomulagið og eindrægnin verði sem mest.
Fésbókin er ágeng úr hófi. En stjórnendur hennar eru hræddir við það neikvæða umtal sem um hana er og spyrja ætíð um leyfi til að fá að gera hitt og þetta. Það er lítill friður fyrir þeim og ég skil vel það fólk sem sökkvir sér í þetta. Ég reyni að standa svolítið á móti þessu en það er erfitt. Flest sem beðið er um er sárasaklaust ef maður hefur engu að leyna. Sala á öllu því gagnamagni sem þarna safnast er þó alveg möguleg.
Auðvitað er líka hægt að nota og misnota þær upplýsingar sem bloggið gefur. Íslenskar bloggveitur eru samt svo smáar í alþjóðlegu samhengi að lítil ástæða er til að hafa áhyggjur af misnotkun þeirra. Best af öllu er samt að vera meðvitaður um möguleikana sem netið býr yfir og veita aldrei meiri upplýsingar um neitt en manni er alveg sama um þó allir viti.
Fór á bókasöfnin um daginn og tók að láni einar 20 bækur. Veit ekki hvar ég væri staddur ef ekki væru bókasöfn. Get ómögulega sofnað án þess að lesa pínulítið fyrst. Þetta er bara nokkuð sem ég er búinn að venja mig á og mér finnst orðið nauðsynlegt og get ekki án verið.
Það eru blóðpeningar að greiða sektir til bókasafnsins. Þó eru það líklega þær sem þau lifa á. Ef maður gætir þess að skila alltaf á réttum tíma eru það sönn verðmæti sem hægt er að sækja þangað. Með aðgang að ótakmörkuðu magni af bókum og netinu með öllu sínum kostum og göllum eru manni í rauninni allir vegir færir. Erfitt er að skilja hvernig fólk komst af áður fyrr.
Veit vel að hjá flestum er ég í einhverri ákveðinni skúffu. Æ, hann er nú svona og svona kallinn og best að halda bara áfram með sitt." Í þessari skúffu er samt ekkert skemmtilegt að vera.
Stundum reyni ég að brjótast út úr henni og þar hentar bloggið mér best um þessar mundir. Reyni eins og ég get að koma á óvart. En það er erfitt. Ekki skara ég framúr á neinu sviði. Helst í Sæmundarhætti á blogginu. Það er að segja sjálfhverfu án þess að segja eiginlega neitt.
Íslenskt þjóðlíf er að breytast mikið. Um það bera bílastæðaflæmin við Háskólann í Reykjavík glöggt vitni. Veit þetta unga fólk eitthvað meira en við hin? Vonandi. Þannig mun landið þokast áfram. Útrásarvíkingarnir og hrunið er eins og hver önnur loftbóla í hinum þunga straumi tímans.
Finnst Ríkisútvarpið ganga of hart fram stjórnmálalega. Kosningarnar til stjórnlagaþings eru að valda þeim miklum vandræðum. Nú er búið að reka þaðan bæði Láru Hönnu Einarsdóttur og Þórhall Jósefsson. Það kann ekki góðri lukku að stýra. Ástæður Páls eru heldur þunnar og vel getur farið svo að þessar uppsagnir komi illilega í bakið á honum. Ekki vorkenni ég honum það.
Sagt er að allir frambjóðendur til stjórnlagaþings hafi fengið bréf frá þjóðkirkjunni þar sem samband ríkis og kirkju er til umræðu. Kannski hafa fleiri gert þetta eða eiga eftir að gera en mér finnst þetta alls ekki vera til fyrirmyndar. Ekki held ég að uppátækið verði kirkjunni til framdráttar.
Öldruð bygging í Öskjuhlíðinni.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)