1189 - Hagfræði er hundalogik okkar tíma

Eru hagfræðiformúlur og fjárhagsútreikningar það mikilvægasta í veröldinni? Ég held ekki. Margir virðast samt halda það. Varðandi blessað hrunið er enn deilt um það, a.m.k. hér á landi, hvort hægt hefði verið að koma í veg fyrir það með meiri hagfræðiþekkingu almennings. Nær væri að beina vitsmunaþroskanum í aðrar áttir. Til dæmis væri alveg gráupplagt að fara að taka í þá sem settu okkur á hausinn. Það er víst aftur á móti hagfræðilegt vandamál hvernig á að fá atvinnulífshjólin af stað aftur en samt mætti alveg athuga það.

Á þriðjudaginn fyrir viku skutlaðist ég upp í Stangarhyl í Ártúnsholtinu. Að vísu í seinna lagi, en mikið rétt;  þarna sátu yfir tuttugu gamlir kallar og tefldu eins og unglingar. Svo fór ég aftur í dag og enn var teflt. Og jafnvel fleiri nú en síðast. Gott ef þeir voru ekki næstum þrjátíu. Ég bættist í hópinn og gekk bara ágætlega. Klukkurnar eru stórfínar og töflin sömuleiðis. Kaffið ágætt og kökurnar líka. Gott ef ég fer bara ekki að stunda þetta.

Byltingartilraunin nálgast segir Jónas Kristjánsson á sínum vef. Hann hefur fátt fyrir sér eins og venjulega. Þó er því ekki að neita að verulega mikið er reynt til að gera mótmælin sem boðuð hafa verið á fimmtudaginn kemur sem öflugust. Sú stjórn sem út úr slíku kæmi er ég hræddur um að yrði hrein fasistastjórn. Jóhanna og Company munu ekki fara frá sjálfviljug. Þá er fátt annað eftir en bylting og aðstæður fyrir slíkt eru ekki fyrir hendi hér á Íslandi í dag.

Nú ætla ég í afneitun. Ég neita að trúa því að ástandið hérlendis sé eins slæmt og af er látið. Hvernig er annars af því látið? Mér finnst annar hver maður halda því fram að hér sé allt á vonarvöl. Fátækt og hungur meira en í manna minnum. Verið sé að selja á nauðungaruppboðum stóran hluta heimila landsmanna og atvinnuleysi og volæði hverskonar svo algengt að við slíkt verði ekki unað. Byltingu þurfi til. Stjórnlagaþingið sé húmbúkk. ESB ætli að leggja landið undir sig. Úlendingar (hugsa sér) séu á góðri leið með að sölsa undir sig allar náttúruauðlindir landsins.

Ég held bara að þetta sé ekki svona. Pólitískir loddarar eru langt komnir með að afvegaleiða stóran hluta þjóðarinnar. Fjölmiðlar klifa sí og æ á því að stjórnkerfið sé vonlaust og pólitíkin enn vonlausari. Það er ábyrgðarhluti að láta svona. Auðvitað lentum við í slæmum hremmingum í hruninu en erum langt komin með að ná okkur aftur á strik. Bara ef menn létu ekki svona. Öll dýrin í skóginum eiga að vera vinir. Þetta vita væntanlegir fulltrúar á stjórnlagaþinginu.

Mótmælatunnurnar sem transportað er fram og aftur um miðbæinn, eftir því hvernig kaupin gerast á eyrinni, eru sumar farnar að láta á sjá. Er ekki hægt að endurnýja þær? Er hægt að ætlast til að fólk dangli í gamlar og slitnar tunnur?  Maður, maður, maður,... skilur þetta bara ekki.

Þó ég láti svona er ég í hjarta mínu sammála mótmælendum um flest. Mín vegna má berja tunnurnar svo fast að ekki heyrist mannsins mál í næstu húsum. Revolution is fun.

IMG 3440Ber eða eitthvað svoleiðis.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þetta á myndinni, það er nýpa heillin. Hyben á dönsku. Ávöxtur rosa rugosa. Hægt að nota í sultur og súpur. Hef étið hybensuppe. Þótti hún vond en skánaði með tvíbökum.

K.S. 3.11.2010 kl. 00:26

2 Smámynd: Jóhannes Laxdal Baldvinsson

Sæll Sæmundur, það er sannlega erfitt að meta ástandið út frá umræðunni. Hér þarf hagstofan að gera allsherjar eigna og tekjukönnun til að fá hið sanna í ljós. Svona könnun hefur ekki verið gerð síðan á sjöunda áratug síðustu aldar svo það er alveg óhætt að gera nýja. Þangað til verður endalaust þráttað.

Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 3.11.2010 kl. 01:13

3 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Takk fyrir fróðleikinn K.S. Geri ráð fyrir að rosa rugosa sé rósarunni.

Sæmundur Bjarnason, 3.11.2010 kl. 06:59

4 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Já, Jóhannes, skýrslugerð öll er í molum hérna. Hrópum á slíkt þegar illa gengur en þegar allt leikur í lyndi þá nennum við ekki að fást við slíka smámuni.

Sæmundur Bjarnason, 3.11.2010 kl. 07:01

5 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Í tilefni af fyrirsögninni. (Gat bara ekki stillt mig.)

Hundalogisk hagfræði
hefur fest hér rætur.
Birtist nú í bragfræði
og blessað fólkið grætur.

Sæmundur Bjarnason, 3.11.2010 kl. 14:10

6 identicon

My god ! I think its some thing very old kind of classic movie. I use to enjoy these kinda movies with my grand-father.

watch movies online 4.11.2010 kl. 10:44

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband