1191 - Stjórnlagaþing og fleira

Undarlegt með þessi orð. Alltaf skulu þau koma þegar maður sest við tölvuna og kallar á þau. Þessvegna get ég bloggað svona á hverjum degi. Ef þau færu nú skyndilega í fýlu og neituðu að koma þá gæti ég ekkert bloggað. 

Stundum finnst mér ég ekki geta sagt neitt, en alltaf kemur eitthvað á blaðið (eða í skrána væri líklega réttara að segja). Sem betur fer hefur mér tekist að hemja þetta að því leyti að ég hef þessar hugleiðingar ekki alltof langar hverju sinni.

Bíð svolítið með að kynna mér betur frambjóðendur til stjórnlagaþings. Það eru eiginlega þeir sem eiga að koma til mín en ég á ekki að þurfa að leita þá uppi. Auðvitað er takmarkað sem þeir mega eyða í auglýsingar en ef þeir vilja ekki atkvæðið mitt þá þeir um það.

Gerður Kristný er sá rithöfundur sem vekur mesta athygli mína um þessar mundir. Man enn eftir frásögn Thelmu Ásdísardóttur í bókinni „Myndin af pabba." Þá bók las ég reyndar ekki fyrr en allnokkru eftir að hún kom út.

Ég man semsagt eftir þessari bók sem Gerður Kristný skrifaði eftir frásögn Thelmu Ásdísardóttur eins og frægt varð á sínum tíma. Einna mest áhrif á mig hafði lýsingin, í upphafi bókarinnar, þar sem faðir Thelmu lá banaleguna og bað hana fyrirgefningar á því sem hann hefði gert á hlut hennar. Sú lýsing stendur mér ljóslifandi fyrir hugskotssjónum og var óhemju sterk. Í mínum huga vildi Thelma ekki gera það nema á sínum forsendum.

Mér fannst þá langt gengið að láta hatur sitt ná út yfir líf og dauða. Vissulega hafði Thelma samt eftir öllum sólarmerkjum að dæma fyllstu ástæðu til þess haturs en ég man að þessi lýsing hafði áhrif á allan minn lestur á bókinni.

„Það gerist ekki neitt. Þessi ríkisstjórn gerir ekki nokkurn skapaðan hlut." Segir Sigmundur Davíð. Sigmundur og fleiri hafa reynt mikið með tunnum og tilheyrandi að koma ríkisstjórninni frá. Nú held ég að það hafi mistekist endanlega. Ekki er víst að næsta tækifæri komi nærri strax.

IMG 3579Laufblöð og vatnsdropar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóhannes Laxdal Baldvinsson

Þú nefnir Gerði Kristnýju en ég er mun hrifnari af Guðrúnu Evu Mínervudóttir. Keypti meira að segja bókina Yosov eftir hana á forlagsútsölunni. Þarna er næsti Guðbergur kominn

Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 5.11.2010 kl. 15:25

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Man ekki eftir að hafa lesið neitt eftir Guðrúnu Evu, athuga það.

Sæmundur Bjarnason, 5.11.2010 kl. 16:11

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband