1211 - Stjórnlagaþing VII

Hún nálgast, hún nálgast, hún nálgast. Þessi kosning sem allir eru svo spenntir fyrir. A.m.k. ég. Mér finnst hún meira spennandi en nokkrar alþingiskosningar, meira spennandi en venjuleg þjóðaratkvæðagreiðsla getur nokkru sinni orðið, hvað þá prestskosningar. En er nokkuð að marka mig? Ég er einn af þeim sem hef talað Alþingi niður en þessa stjórnlagaþingskosningu upp. Er ég bara ekki þar með orðinn vanhæfur? 

Nú eru blindir og sjónskertir farnir að efast um að stjórnlagaþingskosningin sé lögmæt. Það finnst mér eðlilegt. Það er þetta með aðstoðina við útfyllingu kjörseðilsins sem skiptir mestu máli þar. Númerin koma kannski til hjálpar, en sem betur fer á ég ekki að skera úr um þetta. Svo eru þetta strangt til tekið bara kosningar til ráðgefandi þings og þannig séð ómark. En þetta er áhugavert.

Ef ég yrði kosinn til stjórnlagaþings, sem ég verð náttúrulega ekki því ég er ekki einu sinni í framboði, þá mundi ég taka Kristófer Má mér til fyrirmyndar og leggja ofuráherslu á að stjórnarskránni verði einungis breytt með sérstakri þjóðaratkvæðagreiðslu hverju sinni, en Alþingi sé ekki látið káklast í því, enda eru þeir sem þar sitja vanhæfir til þess.

En þingið verður að fá einhverja dúsu. Kannski væri hægt að leyfa minnihluta þingmanna að krefjast þjóðaratkvæðagreiðslu um ákveðin mál. Það ætti almenningur auðvitað að geta líka og jafnvel forsetinn einnig. Já, þetta er allt vandasamt.

Íslendingar segja: Blindur er bóklaus maður.
Færeyingar segja: Bundinn er bátlaus maður.
Hvorttveggja er rétt. Stuðlarnir ráða samt úrslitum þarna. Spakmæli þurfa helst að vera stuðluð. Þá eru þau meira rammandi og betra að muna þau.

Eitt er ákaflega jákvætt við fésbókina. Enginn er skilinn útundan. Allir fá vitleysuna beint í æð. Mér er nær að halda að það sé það eina jákvæða við fyrirbærið.

Bjarni Harðarson stjórnarmaður í Heimsýn, fyrrverandi þingmaður og núverandi blaðafulltrúi Jóns Bjarnasonar ráðherra gerir á sínu bloggi auglýsingu Heimssýnar til stjórnlagaþingsframbjóðenda að umtalsefni og er ekki nema sjálfsagt fyrir þá sem áhuga hafa á ESB aðild og stjórnlagaþingskosningum að auki að lesa það.

Ég tek eftir því að Axel Þór Kolbeinsson sem ég tel einlægan ESB-andstæðing hefur ekki svarað þeim og er líklega á móti tilraunum Heimssýnar til að hafa áhrif á kosningarnar.

Nú er ég orðinn svo syfjaður að bókstafirnir eru eins og festir uppá þráð og sveiflast fram og aftur og það er erfitt að stöðva þá. Að mestu tekst mér þó að halda mig á réttum stað og þar kemur bendillinn mér til hjálpar því hann er farinn að spekjast svolítið og hættur að flækjast um allt blaðið eins og hann er vanur. Sennilega syfjaður líka.

Hluti af því að verða syfjaður aftur, þegar maður verður andvaka um miðja nótt og drekkur tvo bolla af kaffi sér til sáluhjálpar, er að láta sér verða kalt. Þá er alveg sérstaklega eftirsóknarvert að fara aftur í bælið.

IMG 3804

Fyllibytta.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Óskar Þorkelsson

takk fyrir mig í dag Sæmi :)

Óskar Þorkelsson, 25.11.2010 kl. 05:38

2 identicon

Eflaust sigrar, ef til kæmi

eðalkarlinn Sæmi.

Jólasveinastóðið stríða.

Strákurinn, hann fær að ... bíða.

Hilmar Þór Hafsteinsson 25.11.2010 kl. 06:18

3 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Takk, Óskar. Sé að menn fara snemma á fætur í Útlandinu.

Sæmundur Bjarnason, 25.11.2010 kl. 06:33

4 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Hér er vísna vakurt flím
með voðalegum sprettum.
Allir geta átt hér rím
ort á nótum léttum.

 

Sæmundur Bjarnason, 25.11.2010 kl. 06:36

5 Smámynd: Axel Þór Kolbeinsson

Sælt veri fólkið.

Ég sendi Heimssýn ekki póst þar sem ég ákvað það í upphafi að eltast ekki við hagsmunasamtök, en myndi svara öllu sem til mín væri beint.  Þar sem Heimssýn sendi ekki póst til frambjóðenda þar sem óskað var eftir afstöðu til ákveðins málefnis fengu þau samtök ekkert svar ólíkt öllum öðrum sem hafa sent mér póst.

En eins og ég minntist á hér fyrir einhverju síðan þá er þetta hluti persónukjörs að hagsmunasamtök ýmis óski eftir afstöðu frambjóðenda og eru svo stór hluti kosningabaráttu.  En ég hef ekkert á móti því sérstaklega að hagsmunasamtök geri það ef það hjálpar fólki að velja hvern það kýs.

Axel Þór Kolbeinsson, 25.11.2010 kl. 12:37

6 Smámynd: Eiríkur Mörk Valsson

Sæmundur

Þú nefnir að Alþingi eigi ekki að "vera að káklast í því að breyta stjórnarskránni". Er þér hjartanlega sammála - og leyfi mér að nota þennan vettvang til að benda á að þetta atriði er og hefur verið mjög ofarlega á mínum verkefnalista fyrir stjórnlagaþingið.

Kveðja til Bláfellsbúa frá Múlabúa (en í árdaga hétu Laufskógar 11 víst Múli, man þetta vegna þess að Valur bróðir var áskrifandi að Æskunni og var þar skráður til heimilis í Múla)

Eiríkur Mörk Valsson, 26.11.2010 kl. 00:34

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband