Bloggfærslur mánaðarins, október 2010

1166 - Stjórnlagaþingið enn og aftur

Já, stjórnlagaþingið. Nú fer að styttast í það. Auðvitað vita flestir allt um það. Framboðsfrestur rennur út 18. október (semsagt eftir rúma viku) Þetta er allt hið forvitnilegasta mál og á eftir að vekja mikla og verðskuldaða athygli. Gæti vel trúað að þarna næðist sæmileg samstaða og þá getur Alþingi ekki staðið á móti því sem frá þinginu kemur. Varast þarf þó að kjósa fólk til setu á stjórnlagaþinginu sem reikna má með að sé á vegum stjórnmálaflokkanna eða hagsmunasamtaka.

Kjörið sjálft verður svo 27. nóvember og þingið mun koma saman í febrúar næstkomandi og starfa í nokkra mánuði. Hlakka mikið til að sjá hverjir bjóða sig fram og skoða kynningar á þeim.

Er dálítið hissa á því hve fáir blogga um þetta. Enginn vafi er samt á að kosningabaráttan mun einkum fara fram á Netinu. Hefðbundnum fjölmiðlum verður að mestu gefið frí og þeir eiga það skilið. Fésbókin verður þarna í stóru hlutverki en ekki má gleyma því að allmargir forðast hana. Þeir sem hafa horn í síðu bloggsins munu líka forðast það og leita til vina og kunningja. Það sem slíkir aðilar skrafa sín á milli er það sem úrslitum ræður.

Hverjir bjóða sig fram? Það er spurningin. Í blaði einu sem nefnt er „Fréttatíminn" og dreift er ókeypis á Reykjavíkursvæðinu eru nokkur líkleg nöfn nefnd. Ekki þekki ég marga þar en nokkra þó. Þar á meðal má telja: Jón Ólafsson (veit ekki hvaða - kannast við eina þrjá) Jónas Kristjánsson, Ómar Ragnarsson, Láru Hönnu Einarsdóttur og marga fleiri. Fleiri en þar eru nefndir hafa gefið kost á sér og svo held ég að þetta sé bara ágiskun. Kannski gefa ekki allir þeir sem þar eru nefndir kost á sér. Þar er Vigdís Finnbogadóttir t.d. nefnd. Ætli hún nenni að standa í svonalöguðu?

Í „Fréttatímanum" er talsvert fjallað um stjórnlagaþingið og veitir ekki af. Ótrúlega margir sýna þessu lítinn áhuga. Eitthvað hefur samt verið minnst á þetta í Kastljósi Sjónvarpsins og nefnd sú sem sér um framkvæmd þingsins er undir forystu Guðrúnar Pétursdóttur. Meðal annarra nefndarmanna má nefna Björgu Thorarensen og Njörð P. Njarðvík (sem ég hefði nú gjarnan viljað sjá bæði á þinginu).

Tvo menn gæti ég nefnt sem ég hefði einnig gjarnan viljað hafa haft á þessu stjórnlagaþingi. Báðir eru því miður dánir en voru á margan hátt ótrúlega líkir. Bæði í útliti og í raun. Þetta eru þeir Sigurbjörn Einarsson og Sigurður Greipsson. Fjölyrði ekki meira um það. Margt ágætisfólk býður sig væntanlega fram til setu á þinginu. Áreiðanlega mun fleiri en þar geta verið. Kostar ekki nema þrjátíu meðmælendur. Meðmælendalistar fara eflaust fljótlega á kreik. Hef þó engan séð ennþá.

IMG 3385Hér er stundað strandblak. Íslendingar eru víst ekkert sérlega góðir í því.


1165 - Stjórnlagaþingið gæti breytt ýmsu

Hef fátt að segja og er eiginlega að plata menn hingað inn á fölskum forsendum. Öll skrif eru meira og minna að færast yfir á fésbókina. 

Sem er skaði, því engin leið er að fylgjast með eða flokka þau ósköp sem þar eru skrifuð. Að minnsta kosti kann ég það ekki.

Blogg-gáttin og RSS-straumar eru til mikillar hjálpar en það er að verða svo viðurhlutamikið að fylgjast með því sem gerist að það er varla á nokkurn leggjandi.

Ég er um það bil að missa tökin á tækninni því afgangstími sá sem ég get notað í Net-tengd fyrirbrigði fer einkum í bloggskrif og ýmislegt jafnvel nauðsynlegra en Netflakk (jú, víst er það til)  og þá verður ekki nógu mikill tími eftir í lestur til að geta fylgst almennilega með.

Og hrunið er alla að drepa. Best að láta bara eins og maður viti ekki af því. Kannski er þetta alltsaman einn hrapallegur misskilningur. Best að stinga bara höfðinu í sandinn (eða skákina).

Það er ekki víst að hún takist sú endurtekning búsáhaldabyltingarinnar sem nú er reynd. Það eru aðrir og ómarkvissari hópar sem mótmæla nú hinu og þessu. Ef núverandi stjórn gefst upp og hættir vilja aðrir flokkar ekki sitja uppi með svartapéturinn og hvernig fer þá? Kosningar eru ekki líklegar til að breyta neinu og allir að auki skíthræddir við þær. Prumpið utan í Geir Haarde mun engu skila nema töfum þó það friði kannski einhverja.

Reynum heldur að gera væntanlegt stjórnlagaþing að almennilegum og markverðum atburði. Ríkisstjórnin mun taka mark á því ef samstaða næst. Ekki er langt þangað til fyrir liggur hverjir bjóða sig fram til setu þar og búast má við að umræðan breytist þá.

IMG 3373Eitt stykki tónlistarhús búið til. (Hvernig væri að halda stjórnlagaþingið þar?)


1164 - Skák og mát

Þegar ég ákvað að endurnýta frásögnina af Bjarna-Dísu hugsaði ég sem svo að ég fengi í staðinn tvo daga til að upphugsa og skrifa næsta blogg. Auðvitað fór ekki svo. Nú er komið að því að skrifa nýtt blogg og ég nokkurn veginn tómur.

Ég þarf að taka 5 tegundir af töflum á dag. Það eru talsverð vísindi að fylgjast með að það sé allt með réttum hætti. Ekki síst vegna þess að alltaf er verið að skipta um lyf eða breyta um nöfn á þeim. Þó maður sé með miklum erfiðismunum búinn að læra nöfnin á lyfjunum er björninn ekki þar með unninn því mörg lyfin eru til í mismunandi styrkleikum. Heimilislæknirinn skráir þetta að vísu allt hjá sér en bæði fer hann í sumarfrí og svo er talsverður handleggur að fylgjast með þessu öllu.

Mér skilst að deildarkeppnin í skák hefjist í kvöld og ég eigi að tefla þar svo það er líklega best fyrir mig að vera ekki að hugsa mikið um blogg og þessháttar og hafa þetta bara í styttra lagi.

Núverandi ríkisstjórn Íslands hangir aðeins á því að ekki er sjáanlegt neitt annað stjórnarmunstur. Hún er samt að áliti allmargra og hugsanlega meirihluta landsmanna sá skásti kostur sem við höfum eins og er. Vantrúin á stjórnmálamenn og embættismenn er orðin svo megn í þjóðfélaginu að vandræðum fer að valda.

Ekki er annað að sjá en húseigendur bíði þess eins að stjórnin falli. Von þeirra er sú að við taki stjórn sem gæti hags þeirra betur. Slíkt er slæmt því nokkurnvegin samhangandi stefna þarf að vera í sem flestum málum þó stjórnarskipti verði. Leiðrétting á húsnæðisskuldum sem nær jafnt yfir alla er orðin afar ólíkleg. 

IMG 3336Reisulegur bóndabær. Strandakirkja í baksýn. (Sýnist mér)


1163 - Bjarna-Dísa

Fyrir alllöngu skrifaði ég pistil um Bjarna-Dísu hér á bloggið mitt. Þessi pistill er með því eftirminnilegra sem ég hef látið þar. Er mér að minnsta kosti ofarlega í minni. Nýlega rakst ég á pistil þennan í tölvutæki dóti hjá mér og er að hugsa um að láta hann fljóta hér með. Hæfilega langur er hann og allt það. Ef einhverjir eru svo forstokkaðir að lesa gömul blogg eftir mig er hann náttúrulega eflaust þar að finna líka. Hér með eru þeir sem muna eftir þessum pistli varaðir við. Hér á eftir fer semsagt pistillinn um Bjarna-Dísu og ekkert annað svo þeir sem muna geta hætt hér. 

Frásögnin um Bjarna-Dísu. Ein ógurlegasta draugasaga allra tíma.

Einhver áhrifamesta og átakanlegasta draugasaga sem ég hef lesið er frásögnin af Bjarna-Dísu og örlögum hennar. Í rauninni er þetta sennilega engin draugasaga heldur aðeins frásögn af ógnvekjandi og hrikalegum atburðum sem urðu á Austurlandi undir lok átjándu aldar.

Frásögnin af þessu máli er þó oft flokkuð með draugasögum og sem slík í Þjóðsagnasafni Jóns Árnasonar. Á vef Netútgáfunnar má lesa þessa frásögn orðrétta.

Bjarna-Dísa hét Þórdís og var Þorsteinsdóttir. (Á vefsíðu draugaseturins á Stokkseyri er hún sögð Þorgeirsdóttir)

Hún varð úti á Fjarðarheiði þegar hún var um tvítugt. Bjarni bróðir hennar dó einhverntíma laust eftir 1840.

Eins og fyrr segir er hægt að lesa þessa frásögn alla á vef Netútgáfunnar. Þar er ekki annað að sjá en þetta sé talin draugasaga og ekkert annað. Þó er í miðri frásögninni  eftirfarandi klausa með breyttu letri og er hún örugglega frá öðrum komin en upprunalegum skrásetjara frásagnarinnar. Málsgreinin er þannig:

Aðrar sögur segja, að Þorvaldur hafi brotið Dísu á bak aftur, til þess að hún væri kyrr, og hætti hún þá að orga. Margar eru fleiri ljótar sagnir um viðureign þeirra. Þorvaldur var maður vandaður, en með hjátrú eins og margir á 18. öld, og mun það réttast, sem hann sagði frá sjálfur.

Sögur segja, að þau Bjarni hafi haft brennivínskút. Mun Dísa hafa verið drukkin og lifað, en Þorvaldur gert út af við hana í hjátrúaræði.

Þau systkin Bjarni og Þórdís voru á ferð frá Eskifirði, þar sem Þórdís var í vist, yfir til Seyðisfjarðar en þar átti Bjarni heima.

Þórdís var fremur illa klædd og veður fór versnandi með snjó og fjúki. Loks villtust þau og Bjarni reyndi að grafa þau í fönn en skyndilega sá hann lítið eitt út úr kafaldinu og vildi athuga hvort hann kannaðist við sig. Urðu þau systkin viðskila við þetta og Bjarni fann hana ekki aftur en komst við illan leik til byggða.

Ýmissa orsaka vegna var það síðan ekki fyrr en að fimm dægrum liðnum sem hægt var að fara og vitja um Þórdísi. Allir töldu að hún hlyti að vera dáin en líklega hefur hún ekki verið það því þegar til átti að taka sýndi hún merki um líf. Það var reyndar talið tákn þess að hún mundi í fyllingu tímans ganga aftur og er í þjóðsögunni greint frá því í alllöngu máli hvernig tókst á endanum að ráða niðurlögum hennar.

Það hrikalega við þessa sögu er að Þórdís hefur næstum áreiðanlega verið lifandi þegar komið var til að ná í líkið af henni en sú draugatrú sem tröllreið öllu á þessum tíma varð þess valdandi að í stað þess að reynt væri að bjarga henni var hún drepin.

IMG 3323Vatn á flöskum.


1162 - Kiljan o.fl.

Horfði á Kiljuna í sjónvarpinu í gær miðvikudag. Merkilegast þar þótti mér viðtal Egils Helgasonar við Kristínu Jónsdóttur en hún sendi nýlega frá sér ljóðabókina „Bréf til næturinnar". Ég hef aldrei verið sérstaklega gefinn fyrir ljóð og get því ekki margt sagt um bók þá sem einkum var talað um í þættinum. 

Nokkur ljóð úr bókinni voru lesin þar og Egill hrósaði bókinni mikið. Hún hefur víst fengið óvenju góðar viðtökur af ljóðabók að vera og til skýringar sagði Kristín sjálf og hitti ef til vill naglann á höfuðið:

„Fólki finnst hún kannski bara skemmtilega gamaldags."

Einkenni á þeim ljóðum sem lesin voru í þættinum var að í þeim voru rím og stuðlar. Uppáhaldsskáld Kristínar var Guðmundur Böðvarsson og mig minnir að ljóð hans hafi flest verið rímuð. Það voru ljóð Steins Steinars sömuleiðis og hefur hann þó verið kallaður frumkvöðull nýbylgjunnar í ljóðagerð. Kannski var ljóðabálkurinn „Tíminn og vatnið" ekki uppfullur af rími en ljóðin þar voru afar háttbundin ef ég man rétt.

„Við skulum ekki gleyma því, að.....", segja stjórnmálamenn gjarnan þegar þeir vilja gera sem mest úr Íslenskum vandræðum síðustu ára. Enn virðast þeir halda að þeim sé treyst. Af hverju fara þessir svokölluðu Alþingismenn ekki heim til sín að sofa? Þeir hljóta að sjá að þeim er ekki lengur treyst. Mikilvægasta verkefni núverandi ríkisstjórnar er að leggja grunninn að skárri ríkisstjórn. Lífi hennar er lokið. Að minnsta kosti getur hún ekki leyst nein mál ef allir eru á móti henni. Sjálfur tel ég núverandi ríkisstjórn vera þann skásta kost sem við eigum völ á um þessar mundir.

Sennilega eru þetta afar eftirminnilegir tímar sem við lifum núna. Ekki bara hrunið og eftirmálar þess, heldur miklu fremur sú staðreynd að það er að verða vitundarvakning varðandi náttúrufar og heilsu. Sumir ganga að vísu alltof langt í því efni en það er bara eðlilegt. Þegar sagan er skoðuð kemur það mjög á óvart hve fáir hafa haft skilning á því að mannkynið er komið ótrúlega langt með að tortíma sjálfu sér. Þar er bæði um að ræða óhóflega mannfjölgun, vaxandi misskiptingu á gæðum jarðarinnar og blinda neyslu sem ekkert sér nema hagvöxt.

Enginn þorir að gagnrýna mann þó maður sé með undarlegustu tiktúrur þegar maður fer að eldast því allir vita að svona verða þeir einhverntíma sjálfir. Um þessar mundir er það dellan fyrir löngum gönguferðum sem hrjáir mig og myndavélin fær oftast að koma með. Miðað við aldur og fyrri störf tek ég sennilega ágætar myndir svona innan þess ramma sem ég hef sett mér. Svo er það eiginlega einstök iðni að setja bæði blogg og mynd á hverjum degin inn á Moggabloggið. Davíð frændi ætti að verðlauna mig fyrir að hafa staðið mig svona vel og ekki flúið þegar mest gekk á. Finnst ritstjórn hans á Morgunblaðinu samt fjarska léleg.

IMG 3315Hér dansa engar flöskur núna. Annars er þetta vatnsverksmiðja skammt frá Þorlákshöfn.


1161 - Eitthvað verður þetta að heita

Fyrirbrigði eins og Útvarp Saga, Facebook, Blogg-gáttin og fleira þess háttar koma til með að valda straumhvörfum í næstu Alþingiskosningum. Áhrif hinna hefðbundnu fjölmiðla verða hverfandi. Ríkissjónvarpið mun þó áfram skipta máli.

Fésbókin, Moggabloggið og allskonar fyrirbrigði sem fyrirfinnast á Netinu eru sífellt að verða fyrirferðarmeiri. Hinir gömlu prentuðu fjölmiðlar í formi dagblaða hafa ekki bara týnt tölunni heldur fara áhrif þeirra sífellt minnkandi. Það er erfitt að átta sig á hvaða stefnu atburðir taka á Íslandi um þessar mundir. Stjórnmálaástandið er ótryggara en það hefur nokkru sinni verið.

Bloggarar er sá hópur fólks sem stjórnmálamenn óttast hvað mest. Sá ótti er þó ástæðulaus því þeir eru af mismunandi sauðahúsi og fylgja allskonar stjórnmálastefnum. Eiginlega er það eina sem er sameiginlegt með þeim er að þeir hafa gaman af að skrifa.

Það er ekki alveg öruggt að texti sé réttur þó hann sé á útlensku. Þetta fann ég á Netinu og birti hér í leyfisleysi og með öllu án ábyrgðar:

The inhabitants of Egypt were called mummies. They lived in the Sarah Dessert and traveled by Camelot. The climate of the Sarah is such that the inhabitants have to live elsewhere, so certain areas of the dessert are cultivated by irritation. The Egyptians built the Pyramids in the shape of a huge triangular cube. The Pramids are a range of mountains between France and Spain.

Búinn að breyta tilhögun minni á að fara fram á fésbókarvináttu. Er ekki frá því að það beri talsverðan árangur. Hægra megin á fésbókarsíðunni koma mjög oft upp tillögur um slíka vini og þá er gjarnan sagt hve margir sameiginlegir slíkir finnast. Ef ég kannast við þá sem þar er stungið upp á sendi ég þeim beiðni, ef ég man.

Fremst af öllum Fésbókeð
finnur mína vini.
Enda gjarnan allt mitt streð
á Agli Helgasyni.

Finnst mótmælin á Austurvelli vera orðin fullmikið fjölmiðlasjó en er samt alls ekki frá því að þau hafi áhrif. Í hvaða átt veit ég bara ekki. Vonandi þó til bóta. Þau eru orðin ansi vel skipulögð en ekki verri fyrir það. Tók á sínum tíma svolítinn þátt í búsáhaldabyltingunni en hef ekki nennt niður í bæ að undanförnu.

IMG 3282Hlíðarendi í Ölfusi. Þarna var síðast búið 2001.


1160 - Kvóti og ríkistrú

Bendi áhugamönnum á að lesa athugasemd Kristins Péturssonar við bloggfærslu mína í gær um kvótamálið. Munurinn á okkur Kristni er sá að hann hefur raunverulega vit á þessum málum en ég ekki. Lesið endilega athugasemd Kristins ef þið teljið fiskveiðar skipta okkur Íslendinga máli.

Niðurstaða Alþingis varðandi kærur á ráðherra er eins og hún er. Vitaskuld er hægt að bollaleggja fram og aftur um hvernig niðurstaðan hefði getað orðið. Það var líka hægt og óspart gert þegar Alþingi samþykkti að sækja um aðild að ESB.

Við þessa niðurstöðu verður að una. Annað er lýðræðisfjandskapur. Við kusum þá sem kusu þannig og séum við nægilega óánægð með gerðir þeirra kjósum við þá að sjálfsögðu ekki aftur. Það er eina áhættan sem þeir taka og fá vel borgað fyrir. Við kjósum almennt á fjögurra ára fresti (stundum oftar samt) og þeir þingmenn sem við kjósum þurfa að standa okkur reikningsskap gerða sinna jafnoft.

Til að aðstoða þá við það vandaverk að blekkja kjósendur njóta þeir stuðnings flokkanna (með peningum frá okkur) og ráðast þessvegna ekki á þá. Framað hruni voru öflugustu fyrirtæki landsins í sama báti og flokkarnir að þessu leyti en hugsanlega breytist það eitthvað í næstu kosningum.

Hef þaðfyrir satt að læknanemar séu útsettir fyrir að fá alla þá sjúkdóma sem þeir lesa um. Gott ef ekki er til latneskt heiti fyrir svoddan ónáttúru. Leikmenn eru líka útsettir fyrir þetta og ástæða er til að vara fólk við að kynna sér sjúkdóma of vel.

Frá því var skýrt nýlega að samkvæmt Gallupkönnum væru þrír fjórðu hlutar þjóðarinnar hlynntir aðskilnaði ríkis og kirkju. Veit samt ekki til að verið sé að athuga þetta mál. Þessvegna er óhætt að hafa á því skoðun.

Vísur verða ekki góðar á því einu að vera ortar samkvæmt ströngustu bragfræðilreglum og heldur ekki lélegar ef þeim er ekki fylgt. Í rauninni er bara ein regla um góðar og slæmar vísur. Ef þú lærir hana á því að heyra hana einu sinni er hún góð, annars ekki.

Nú er nóg bloggað. Bloggarar þurfa einkum að kunna að hætta.

IMG 3264Þarna var 30 kílómetra hámarkshraðinn víst jarðaður.


1159 - Hér var 1000000 tonnum týnt

Einhverntíma orti ég í tilefni af fréttum um að hafrannsóknarstofnun hefði beinlínis „tapað" einum 1000000 þorskígildistonnum í útreikningum sínum. (Skrifaði reyndar fyrst óvart um stútreikninga og kannski er það réttara.) 

Hér var milljón tonnum týnt
í torráðinni gátu.
Þjóðinni var svarið sýnt.
Sægreifarnir átu.

Nú þykir mér þetta jafnvel sannara en þegar ég gerði vísuna. Kannski má halda því fram að sægreifafíflin hafi ekki étið þorskinn í bókstaflegri merkingu en allavega hafa þeir eytt honum og útrýmt. Þó bankamannablókirnar hafi sett þjóðfélagið (þjófafélagið) á hausinn er jafnvel grátlegra að sjálf lífsbjörgin hafi verið eyðilögð á altari útvegsmannagræðginnar.

Bjarni í kaupfélginu (mér verður tíðrætt um hann) taldi það eina af sínum merkari uppfinningum að hafa komið fyrir útbúnaði sem hann sýndi mér. Hann hafði lagt slöngu ofan af hálofti úr bruggkútnum sem þar var niður í íbúð sína svo hann þyrfti ekki alltaf að klöngrast þangað upp í hvert skipti sem vökva þurfti lífsblómið.

Svo er hérna tilgáta sem varpað hefur verið fram. Var Jón bensín bara kallaður Jón bensín af því hann var rauðhærður? Held ekki, því ég heyrði nýlega sögu um annað en er bara búinn að gleyma henni.

Í veizlu (með setu sem er hæsta stig) sem ég lenti í um daginn (laugardaginn) ræddi ég lengi við mann um persónur í Njálu og Sturlungu. Já, þetta er óþrjótandi umræðuefni enn í dag og þeir sem ekki hafa ennþá lesið þessi höfuðrit og tileinkað sér þau ættu að gera það sem fyrst. Pant vera fyrstur til að gefa Sturlungu út í Kindle-útgáfu með myndum og tilbehör.

Það er þónokkur fjöldi fólks sem vill ekkert með fésbók hafa þó það tölvist jafnvel allmikið. Því hugnast hún ekki og það skráir sig ekki þar. Sumt af þessu fólki les gjarnan blogg og fyrir það skrifa ég ekki síst. Ég get vel skilið óvilja fólks gaganvart skráningu á fésbókina. Meðal annars er hún flestum tímaþjófur hinn mesti og hættuleg og varasöm að auki, því stórfyrirtækjum er seldur aðgangur að þeim upplýsingum sem þar er að finna. Á fésbókinni er þó hægt að una sér daginn langan við allskyns rísl. Auðvitað er hægt að ráða tölvunotkun sinni þar eins og annars staðar en einhverjir virðast eiga það til að missa sig.

Fékk hristingsborða þar sem mér var á íslensku tilkynnt um vinning o.þ.h. þegar ég var að fésbókast áðan. (Þar var sagt að ég væri gestur númer 16.319.604.708 - hef nefnilega grun um að sama númerið sé á öllum slíkum borðum - léleg forritun.) Þetta er alls ekki í fyrsta sinn sem ég fæ svona borða upp á tölvuskjáinn hjá mér en í þetta sinn ákvað ég að taka þolinmæðisprófið á þennan ófögnuð. Jú, viti menn eftir svolítinn tíma hætti hann að hristast en fór samt ekki neitt.

Skoðaði þennan borða betur og sá að þar var talað um frítt bingó (hvað sem það nú er) Svo mig grunar að þetta standi í sambandi við Nígeríubréfin um alla bingóvinningana.

IMG 3246Er svonalagað ekki harðbannað?


1158 - Bölvuð pólitíkin

Enn og aftur verð ég að skrifa allt frá grunni. Gerir lítið til. Alltaf gott samt að koma að bloggi dagsins hálfskrifuðu eða uppundir það. Er ekki frá því að mótmælin á Austurvelli í gær (fimmtudag) hafi verið harkalegri en ég bjóst við. Úr því að ekki sauð uppúr við þingsetninguna núna eða strax að henni lokinni hef ég ekki mikla trú á að ríkisstjórnin sé í hættu vegna óeirða. Það væri þá miklu fremur vegna væringanna í sambandi við ákæru Geirs Haarde sem búast mætti við slíku. Bjarni Benediktsson segir Sjálfstæðisflokkinn fyrir hvern mun vilja kosningar. Varla trúa því margir. Fjórflokkurinn óttast fátt meira en kosningar nú. Búast má samt við að sú verði raunin eftir svona rúmt ár.

Svanur Gísli Þorkelsson athugasemdast við síðasta blogg mitt og gerir það vel að vanda. Svaraði honum strax og vil nú bæta við nokkru sem ég gleymdi með öllu að minnast á í svarinu. Þessir sem Svanur kallar „fréttabloggara" hafa lengi farið í taugarnar á mér. Mest er það auðvitað vegna þess hve þeir fá margar heimsóknir. Sem betur fer hasast þeir gjarnan upp á þessari vinsældasókn en menn eins og ég halda áfram að blogga og blogga. Mest er það að sjálfsögðu um ekki neitt, en fólk vill fyrir hvern mun lesa slíkt og ég er alltaf jafnhissa á því.

Að einu leyti er ég undir svipaða sök seldur og þeir sem Svanur kallar fréttabloggara (með fyrirlitningu). Ég er afskaplega latur við að gera athugasemdir hjá öðrum. Finnst jafnvel stundum að ekki sé beðið eftir mínu áliti. (hmmm) Hins vegar hef ég reynt að haga mér líkt og Jens Guð og svara sem flestum sem láta svo lítið að skrifa athugasemdir við mitt blogg. Er ekki frá því að það auki vinsældir mínar.

Reiðin og biturleikinn í þjóðfélaginu er engin ímyndun. Auðvitað stafar það af því að ríkisstjórnin hefur ekki staðið sig sem skyldi. Hvers vegna brýst reiðin þá ekki út með ákveðnari hætti? Það er vegna þess að ekki er hægt að búast við skárri ríkisstjórn við núverandi aðstæður. Er þetta þá ekki andstaða við stjórnmálin í heild? Jú, einmitt. Það held ég að sé hin raunverulega ástæða. Og fólk vonast eftir breytingu. Við getum ekki þolað núverandi ástand endalaust.

IMG 3208Reyniber. (held ég)


1157 - Mótmæli mótmælanna vegna

Nú er ég svo illa staddur að ég á engar fyrningar til að pósta upp á Moggabloggið. Venjulega luma ég á einhverjum málsgreinum sem ekki hafa komist að næstu daga á undan. Nú er ekki svo. Þessvegna verð ég að reyna að skrifa og skrifa hvernig sem það gengur. Vonandi vel. Svo er alltaf hægt að hafa þetta í styttra lagi. Kannski ég geri það bara ef mér dettur ekkert í hug.

Var að fésbókast áðan og þar er allt komið í hálfgert rugl. Bið fólk afsökunar fyrirfram á undarlegum hlutum. Held ég nái aldrei að skilja til fulls alla leyndardóma þeirrar bókar.  Leyndardómar bloggsins eru mér samt meira og minna ljósir þó ég fikti sem allra minnst í stjórnborðinu þar.

Í dag á víst að setja nýtt Alþingi enda er kominn október. Einhverjir skilst mér að ætli að nota tækifærið og mótmæla niðri á Austurvelli. En mótmæla hverju? Það er spurning dagsins. Ég mótmæli allur. Hefði alveg verið til í að sofa þar ef þægindin væru aðeins meiri. En í myrkri og vætu. Ómögulega, takk.

Tölum um að vera húkkt á blogg annarra. Er nýbúinn að uppgötva blogg Atla Týs Ægissonar og þar er bloggari sem er allrar athygli verður. Bloggar einfaldlega mjög skemmtilega. Kryddar frásögnina með persónulegum hætti og gerir það óvenju vel. Segi kannski nánar frá honum seinna. Svo er Harpa Hreinsdóttir alltaf hressandi. Sérstaklega þegar hún er með gagnrýnisgleraugun á nefinu.

Sá fyrirsögn í blaði réttáðan. Hún var svona: „Dómsmál gæti þurrkað út Icesave-skuld þjóðarinnar". Þetta er alveg rétt en geta mætti þess að slíkt dómsmál gæti líka margfaldað hana eða hækkað mjög. Verst að það skuli ekki vera sjálfskipaðir sérfræðingar á borð við Sigmund Davíð sem líklegastir eru til að dæma í dómsmáli af þessari gerð.

Já og svo hefði ég getað haldið áfram með hundasöguna. Var alveg búinn að gleyma því. En látum hana hvíla í friði.

IMG 3134Endur og steinar í Kópavogi.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband