Bloggfærslur mánaðarins, október 2010
21.10.2010 | 00:08
1176 - Að linka á bloggin sín
Þeir sem jafnan hafa allt á hornum sér eru búnir að finna ástæðu til að vera á móti stjórnlagaþinginu. Kosningin til þess er ómöguleg af því að það eru alltof margir í framboði!! Þetta er nú heldur léleg ástæða. Væri betra að þeir hefðu verið svona rúmlega 30? Það hefði orðið hálfleiðinlegt fyrir þá sem ekki hefðu komist á þingið ef mjög fáir hefðu gefið kost á sér. Auðvitað verða það einkum þekktir aðilar sem komast á þetta þing. Hefði það orðið eitthvað öðruvísi ef frambjóðendur hefðu verið t.d. 250 eða 300? Ég held ekki. Nei, þetta er bara þessi vanalegi Íslendingasöngur. Mestu skiptir að þeir sem kosnir verða séu starfi sínu vaxnir.
Það er svo margt af minningatagi sem ég hef minnst á í þessum daglegu bloggum mínum að það hefur oft hvarflað að mér að ég gæti svosem alveg notað það sem einhvers konar grunn að æfisögu. Einhverntíma þegar ég hugaði að þessu tók ég mig til og safnaði saman minningabrotum sem ég fann í gömlum bloggum. Var að ég held búinn að fara yfir 50 fyrstu bloggin.
Er ekki frá því að bækur Finnboga Hermannssonar, sem ég hef báðar lesið, hafi kveikt svolítið í mér að þessu leyti. Það hefur verið um svipað leyti eða litlu fyrr sem ég var að alast upp . Ótrúlega margt kannast ég við úr bókum hans en mundi sennilega segja öðru vísi frá.
Nú safna ég fésbókarvinum eins og enginn sé morgundagurinn. Var kominn með 115 síðast þegar ég vissi. Hef líka fundið uppá því að linka þar á bloggin mín. Kannski er það bara ágætishugmynd. Hugsanlega fara þau þá víðar og fleiri kynnu að lesa þau. Er maður ekki alltaf að sækjast eftir að sem flestir lesi það sem maður skrifar? Það geri ég að minnsta kosti. Bráðum verður allt yfirfljótandi af hugsjónagreinum eftir væntanlega stjórnlagaþingmenn. Þeir eru nefnilega svo margir. Sumir þeirra eru líka bloggarar og ekki víst að hægt verði að fá neinn frið fyrir þeim.
Þetta með að fávitaháttur fyrnist á tveimur árum róar mig mjög. Nú get ég haldið árfram að láta eins og fífl. Þeir eru samt til sem taka mig alvarlega. Sá þetta með fávitaháttinn hjá Baggalúti og trúi því eins og nýju neti. Það er fávitaháttur.
Svo er til önnur tegund af fávitahætti og hann kom nýlega fram hjá þingkonu framsóknarflokksins og um hann var fjallað í fjölmiðlum í dag. Auk hans hefur hún afar brenglaða mynd af því hvað hugtakið skammtímaminni þýðir.
Egill hjólar í Hannes af fádæma hörku" segir í fyrirsögn í DV. Það verður gaman að fylgjast með þeirri deilu sem af þessu gæti sprottið. Hannes tekur þessu varla þegjandi.
Öfgahægrihirðin hefur líka alltaf verið að smánarta í Egil greyið. Það er eðlilegt að hann reyni að bíta frá sér. Gallinn er helst sá að ég er að mestu hættur að lesa AMX þó þar séu víst saman komnir afar beittir pennar. Geri ráð fyrir að Skafti þessi Harðarson sem nefndur er til sögunnar skrifi einkum í það frábæra blað sem var orðið best á landinu nokkru áður en það kom fyrst út. Hef samt aldrei lesið neitt eftir Skapta þennan svo ég muni.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
20.10.2010 | 00:03
1175 - Kópavogur og Reykjavík
Ekki er fjarri lagi að álykta að ég sé einn af föstu bloggpunktunum í tilveru nokkurra Íslendinga. Ég blogga orðið á hverjum einasta degi og set bloggið mitt oftast upp rétt eftir miðnætti á hverju kvöldi og fæ yfirleitt alltaf um eitt hundrað lesendur eða fleiri eftir því sem teljarinn segir. Nú eftir að ég missti vinnuna eins og margir aðrir fer ég venjulega að sofa fljótlega eftir það.
Vakna samt oft snemma og byrja að blogga. Best af öllu þykir mér nefnilega að blogga á morgnana. Þá er hugsunin skýrust og fátt sem truflar. Það er líka ágætt að láta sem mest af bloggi næsta dags liggja í gerjun yfir daginn og lesa það svo yfir áður en það er sett upp á Moggabloggið. Þetta er orðin mín venja. Oft prjóna ég samt við og breyti og bæti yfir daginn.
Mér finnst ég vera farinn að verða dálítið ófyrirleitinn í þessum bloggskrifum mínum. Enginn er óhultur fyrir mér. Ég birti gamlar hópmyndir og hvað sem er. Þessvegna stórar og miklar myndir og skrifa svo um allan fjárann sem mér dettur í hug. Sem betur fer dettur mér sífellt sjaldnar í hug blessað hrunið en þeim mun meira segi ég frá einskisverðum hlutum. Mest einhverjum fjáranum sem ég hef áhuga á en oftast nær fáir aðrir. Persónuleg mál læt og þó oftast að mestu eiga sig.
Jæja, hvað um það. Meðan einhverjir nenna að lesa þetta held ég árfram að vaða elginn.
Ég hef lengi verið þeirrar skoðunar að sjálfsögðu að Kópavogur og Reykjavík ættu að vera sama bæjarfélagið. Það er líka dálítið fáránlegt að Seltjarnarnes skuli vera sérstakt bæjarfélag. Nú er Gnarrinn sjálfur búinn að vekja máls á þessu og kannski leiðir umræðan núna til aðgerða. Hún hefur ekki gert það hingað til en oft hefur verið um þetta rætt. Mestöll sameiningarorka fólks hefur farið í að sameina lítil bæjarfélög úti á landi. Það hefur stundum tekist og stundum ekki. Kannski hefur fólk mestan áhuga á því til að forðast að ræða um sjálfsagða hluti.
Bráðum verður hægt að fara að blogga um hverja kjósa skal á væntanlegt stjórnlagaþing og það hyggst ég gera svikalaust. Kastljós sjónvarpsins er farið að beinast að þessum óvenjulega atburði og aðrir fjölmiðlar munu eflaust fylgja í kjölfarið. Ég bíð eftir kynningunni á þessum 500 aðilum sem kæra sig um að vera þarna. Nöfn sumra þeirra kannast ég við en er þó engan veginn búinn að ákveða neitt um hverja ég komi til með að kjósa. Kjósa mun ég þó næstum örugglega. Sennilega eins marga og ég má en það á eftir að koma betur í ljós.
Um helgina var ég í afmælisveislu afastelpunnar Tinnu en hún varð eins árs þann 12. október síðastliðinn. Þetta var mikil og góð veisla og mætti margt um hana skrifa. Sleppi því þó að mestu og geri ráð fyrir að fólkið mitt meti það við mig enda ekki minn stíll að fjölyrða um slíkt. Konan mín átti líka afmæli á laugardaginn var og ekki spillti það.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
19.10.2010 | 00:21
1174 - Tintron
Um þessa mynd má margt segja. Ég fékk hana hjá Bjössa bróður mínum og eflaust mætti laga hana til og gera hana ögn skárri. Þessi mynd er tekin í hellinum Tintron (eða við hann) líklega um 1990 og er af hópi sem fór á vegum Hjálparsveitar skáta í Hveragerði í leiðangur í hellinn. Í þessari ferð gerðist margt sem vel væri við hæfi að rifja upp. Á myndinni er Bjössi í aftari röð lengst til hægri. Ég er sá gráskeggjaði í aftari röð númer þrjú frá hægri. Það er semsagt einn á milli okkar Bjössa. Benni sonur minn er síðan lengst til hægri í fremri röð og Bjarni Harðarson fyrrverandi þingmaður og frændi minn við hliðina á honum.
Aðra þekki ég ekki á myndinni en gæti eflaust komist að því hverjir það eru. Vel gæti hafa verið einn til viðbótar í ferðinni og hann hefur þá líklega tekið myndina. Það hef ég ekki athugað. Heimildir um þessa ferð er kannski að finna hjá Hjálparsveit skáta í Hveragerði. Man að við fórum á einum bíl sem sennilega var í eigu svæðisstjórnar björgunarsveita í Árnessýslu.
Þegar við vorum nokkurn vegin nýkomnir af stað en þó langleiðina að Selfossafleggjaranum (eða jafnvel framhjá honum) pípti síminn hjá Bjössa útaf útkalli vegna veiðimanns í Soginu sem straumurinn hafði hrifið með sér og fært á kaf. Við héldum að sjálfsögðu áfram sem leið lá og komun brátt auga á flugvél sem flaug afar lágt yfir Sogið þegar við nálguðumst Sogsbrúna.
Þegar við höfðum síðan farið spölkorn upp eftir Þingvallaveginum sáum við lögreglubíl hjá sumarbústöðum við Álftavatn. Þangað fórum við og lögreglumennirnir sögðu okkur að þeir hefðu séð þúst úti í vatninu og þeir héldu að það kynni að vera veiðimaðurinn sem leitað væri að. Þeir öflugustu í okkar hópi ösluðu þá út í vatnið og í ljós kom að umrædd þúst var líkið af veiðimanninum. Það var sett í líkpoka sem var um borð í lögreglubílnum og við héldum áfram för okkar. Hjálparsveitin frá Selfossi var þá farin að nálgast staðinn á björgunarbát með utanborðsmótor.
Eftir Lyngdalsheiðarveginum gamla fórum við síðan í átt að Tintron. Á leiðinni æfðum við okkur með því að fara í helli í hrauninu við veginn. Sá hellir lá undir Lyngdalsheiðarveginn og komum við upp úr honum norðan við hann en höfðum farið í hellinn sunnanvert við veginn. Niður í Tintron sigum við síðan og komumst þangað allir án erfiðleika. Hellirinn Tintron er merkileg náttúrusmíð og nánast vasaútgáfa af hellinum fræga og stóra við Þríhjúka.
Þegar upp skyldi fara í sömu böndum og við höfðum notað við niðurferðina vandaðist málið svolítið fyrir mér. Mér tókst bærilega að lesa mig upp eftir kaðlinum fyrst í stað en eftir því sem ofar dró minnkaði kraftur minn og spyrnur mínar í fótlykkjuna urðu smátt og smátt ómarkvissari. Hefðu ekki nokkrir sterkir björgunarsveitarmenn verið komnir upp á undan mér og getað aðstoðað mig síðasta spölinn er ekki víst að ég hefði komist alla leið. Aðrir áttu ekki í erfiðleikum svo ég muni. Eiginlega man ég ekki eftir fleiru úr ferðinni en þetta er líka allnokkuð. Man þó að mér þóttu björgunarsveitarmenn og lögreglan umgangast líkið af veiðimanninum með fullmikilli léttúð.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.10.2010 | 00:25
1173 - Stjórnlagahappdrættið
Síðasta blogg mitt var einum of langt. Svona samtöl eru ekkert sniðug. Ætli sé ekki betra hjá mér að reyna að koma hlutunum frá mér í styttra máli? Þetta hefði getað verið spurning í hundleiðinlegu samtali en er það ekki. Bara fullyrðing útí loftið eins og annað. Já, blogg eru oft einum um of fullyrðingasöm. Besservisserar vaða þar uppi.
Ég sé enga ástæðu til að gefa kost á mér á Stjórnlagaþing þó það sé mjög í tísku meðal bloggara núna. Auðvitað gæti verið að ég skipti um skoðun ef mjög margir skora á mig að gera slíkt en ég á ekki von á því. Auk þess vefst enn fyrir mér hvort kostgefendur megi skora á aðra og mæla með þeim.
Minnir að það sé á Wikipediu sem birtur er listi yfir þá sem þegar hafa gefið kost á sér. Skoðaði þann lista og það olli mér vonbrigðum hve fáa ég kannaðist við. Varla fer ég að kjósa fólk til setu þarna nema ég kannist eitthvað við það.
Um daginn skolaði mér inn á heimasíðu Heimssýnar sem að sjálfsögðu er heimssyn.is. Nei, auðvitað á ég ekki heima þar en heimullega skoðaði ég þar nokkra hluti. Meðal annars komst ég að því sem ég vissi ekki fyrir að í stjórn þessara samtaka eru 40 manns. Eflaust veitir ekki af því. Hugsanlega láta menn þarna illa að stjórn.
Í framhaldinu fór ég svo eðlilega á heimasíðu útibúsins á Suðurlandi og þar rakst ég á þessa gullvægu setningu:
Fram kom í máli Dag Seierstad, sem er norskur sérfræðingur í málefnum Evrópusambandsins, að í samningaviðræðum við Evrópusambandið hafi Norðmenn ekki engar varanlegar undanþágur fengið frá regluverki sambandsins.
Ég er enn að reyna að skilja þessa setningu (réttum skilningi en ekki einhverjum heimabrugguðum ómyndarskilningi) en gengur illa.
Ég hef mestar áhyggjur af því varðandi komandi stjórnlagaþing að öfgaþjóðernisstefnan verði of ráðandi þar. Þjóðerni okkar Íslendinga er samt alls ekki neitt til að leika sér að. Án þess erum við hreint ekki neitt. Áhyggjur mínar af sérhagsmunaklíkum eins og stjórnmálaflokkum og þessháttar eru miklu minni. Vonandi verður sú stjórnarskrá sem útúr stjórnlagaþinginu kemur næstum alveg laus við þá dauðu hönd sem stjórnmálin hafa hingað til lagt á þjóðlífið. Auðvitað kemur þetta allt saman til með að kosta eitthvað en við Íslendingar erum vanir happdrættum og mögulegur ávinningur af þessu uppátæki er verulegur.
Hvaða skepna hefur verið þarna á ferð?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
17.10.2010 | 00:11
1172 - Matur og drykkur
Mér sýnist að ég sé að verða svo forn í hugsun að ég þurfi að hverfa aftur til forn-Grikkja til að koma hugsunum mínum til skila. Þarna á ég við tveggja manna talið en það er kannski ekkert ættað frá forn-Grikkjum. Jæja, nú eru það Heilsufrömuðurinn og efasemdarmaðurinn sem ræðast við:
H: Helsta heilsuvandamálið nútildags er offitan. Þetta verður aldrei of oft brýnt fyrir okkur Vesturlandabúum.
E: Og af hverju er það?
H: Maturinn er svo góður.
E: Já, hann er svo góður nútildags að það er erfitt að verða ekki feitur.
H: Já, það segja fleiri.
E: Og hverjum er um það að kenna.
H: Ekki bara góður heldur líka svo ódýr að erfiðleikum veldur.
E: Er þá ekki bara hægt að hafa hann dýrari?
H: Markaðurinn leyfir það ekki.
E: Og hann stjórnar öllu?
H: Já, því miður.
E: Þetta er hræðilegt. Velmegunin er þá semsagt að drepa okkur.
H: Já, það má segja það.
E: Matur upp og ofan er semsagt einum of góður?
H: Já og oft því betri sem hann er óhollari.
E: Stóra vandamálið er semsagt að matur er of góður og of ódýr.
H: Já, og svo hreyfum við okkur of lítið miðað við allar kalóríurnar sem við innbyrðum.
E: Í þessum góða mat, semsagt?
H: Einmitt.
E: Hollur matur er hrikalega dýr.
H: Já, það er alveg rétt.
E: En ekkert sérstaklega góður.
H: Jú, jú. Hann er ágætur.
E: Er þá ekki hætta á að borða of mikið af honum.
H: Nei, hann er svo dýr.
E: Nú, þá erum við komnir í hring. Eigum við ekki að reyna smáútúrdúr?
H: Jú, gerum það.
E: Einhverntíma var sagt í þekktum húsgangi:
Þar sem enginn þekkir mann
þar er gott að vera.
Því að allan andskotann
er þar hægt að gera.
Af hverju gera menn ekki allan andskotann" í mannmergð milljónaborganna?
H: Það veit ég ekki. Kannski eru þeir búnir að því og finnst það ekkert gaman.
E: En það eru eflaust margir sem hugsa svona. Ekki síður útlendingar. Kannski það sé bara best að vera eins og allir hinir.
H: Já, ætli það ekki. En af hverju fylgja þá ekki allir okkur heilsupostulunum að málum.
E: Það veit ég ekki. Kannski gera þeir það í hjarta sér en vilja bara ekki viðurkenna það.
H: Gæti verið.
E: En þá væru ekki allir að drepast.
H: Nei, auðvitað ekki.
E: Af hverju í fjáranum högum við okkur alltaf svona vel?
H: Veit það ekki. Sumum finnst að við högum okkar frekar illa.
E: En það er alls ekki rétt.
H: Ja, það fer allt eftir því hvaða mælikvarði er notaður.
E: Og svo borga menn stórfé fyrir að fá að hreyfa sig.
H: Ekki er það nú alveg rétt. Hreyfingin er gjarnan kontróleruð af sérfræðingi.
E: Til þess að hreyfa sig sem minnst, en ná þó sem mestum árangri?
H: Einmitt.
E: Er þá hættulegt að hreyfa sig of mikið án leiðbeininga?
H: Nei, alls ekki.
E: Ætti maður ekki að lifa lengi ef maður borðar sem allra minnst og er sífellt að hreyfa sig?
H: Jú, áreiðanlega.
E: En til hvers ætti maður að lifa svo leiðinlegu lífi sem allra lengst.
H: Góð spurning. Er ekki um að gera að borða sem bestan mat og hreyfa sig sem allra minnst?
E: Það er nú eiginlega ég sem hefði átt að taka svona til orða.
H: Nú.
E: Já, ég efast um allt. Líka að nokkuð gagn sé að ykkur heilsufrömuðum.
H: Það varst þú sem varst að spyrja mig. Ekki öfugt.
E: Vorum við ekki bara að tala saman. Það hélt ég.
H: Mér fannst ég vera í einhvers konar prófi.
E: Það er tóm vitleysa hjá þér.
H: Það er mikið um pólitíska rétthugsun í heilsufræðum.
E: Já, þið talið stundum eins og allir eigi að vera eins. Borða það sama, hreyfa sig á sama hátt, og vera á móti því sama.
H: Það er rétt. Við erum skelfilega ófrumlegir.
E: Áður dóu menn úr ófeiti. Nú er fitan helsti óvinurinn.
H: Já, fitan og kolvetnin.
E: Ég hef aldrei skilið þessa skiptingu á öllu sem ofan í sig er látið. Ég vil bara fá nógu mikinn mat. Ef hann er vondur borða ég bara minna.
H: Það er einmitt flísin sem við rís. Fólk borðar alltof mikið af því að maturinn er svo góður.
E: Nú erum við komnir einn hringinn enn. Eigum við ekki að fara að hætta þessu?
H: Jú, það finnst mér.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.10.2010 | 00:09
1171 - Skúlaskeið
Friðrik Þór Guðmundsson er einn þeirra sem bjóða mun sig fram til stjórnlagaþings. Hann fjallar nýlega á sínu bloggi um það að sú stjórnarskrárnefnd sem árið 1983 starfaði undir forystu Gunnars heitins Thoroddsen hafi eiginlega verið sammála um að setja ákvæði um þjóðaratkvæðagreiðslur inn í stjórnarskrána. Aðeins það hlutfall kjósenda sem krafist gæti þjóðaratkvæðis var svolítið óljóst. Sennilega hefði þó vel getað náðst samstaða um 25 prósent kjósenda þó einhverjir hafi þá viljað 20 prósent. Sjálfur leggur Friðrik til 15 prósent. Þarna er efinn gagnvart þjóðaratkvæðagreiðslunum. Líka er spurning hvort ákveðið hlutfall Alþingismanna eigin að geta krafist þess sama, þó prósentutalan yrði eflaust ekki eins.
Eitt af frægustu kvæðum á Íslenskri tungu er Skúlaskeið eftir Grím Thomsen. Nokkrar glefsur úr því ljóði eru frægari en aðrar. Ef menn vilja lesa kvæðið allt er hægurinn á að gúgla einhverja setningu úr því. Snemma var mér bent á af Gunnari Benediktssyni skáldi að í upphafslínu kvæðisins væri raunar um ofstuðlun að ræða:
Þeir eltu hann á átta hófahreinum". Þarna eru tvö H svo höfuðstafurinn í næstu línu ætti að vera H líka. Svo er þó ekki eins og margir muna því næsta lína er svona. og aðra tvenna höfðu þeir til reiðar".
Aldrei hefur enn í manna minni
meira riðið nokkur Íslendingur".
Segir líka í þessu eftirminnilega kvæði. Þetta hafa margir kosið að misskilja og margir klúrir og lélegir brandarar verið sagðir um það.
Það var eins og blessuð skepnan skildi".
Er líka oft sagt og auðvitað er það úr Skúlaskeiði.
Og í Víðikerum var ei nokkur
vel fær nema Jarpur Sveins í Tungu".
Segir í kvæðinu. Hvaða hestur var þetta eiginlega sem er þar með orðinn ódauðlegur og helst við Sörla sjálfan saman að jafna? Ekki kannast ég við aðrar sögur af honum og veit ekkert um hann.
Sörli minn! Þig hef ég ungan alið
og aldrei valið nema bezta fóður.
Nú er líf mitt þínum fótum falið,
forðaðu mér nú undan, klárinn góður."
Er líka fræg og eftirminnileg replikka.
Og í lokin þetta: Sörli er heygður Húsafells í túni" o.s.frv. Ég man að í fyrsta skipti sem ég las þetta kvæði var dramað alveg yfirþyrmandi. Jafnaðist á við Óhræsið eftir Jónas Hallgrímsson. En förum ekki nánar út í það að sinni.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
15.10.2010 | 00:11
1170 - Fésbókin er fáránleg, finnst mér vera stundum
Ég er ekki Biblíufróður maður en einhvern vegin sýnist mér að margt í eftirfarandi texta sé meira en vafasamt. Er ekki Biblían annars öll þannig? Nenni ekki að reyna að þýða þetta. Held að þetta sé úr skólaritgerðum:
The Bible is full of interesting caricatures. In the first book of the Bible, Guinesses, Adam and Eve were created from an apple tree. One of their children, Cain, asked "Am I my brother's son?" God asked Abraham to sacrifice Issac on Mount Montezuma. Jacob, son of Issac, stole his brother's birthmark. Jacob was a partiarch who brought up his twelve sons to be partiarchs, but they did not take to it. One of Jacob's sons, Joseph, gave refuse to the Israelites.
Pharaoh forced the Hebrew slaves to make bread without straw. Moses led them to the Red Sea, where they made unleavened bread, which is bread made without any ingredients. Afterwards, Moses went up on Mount Cyanide to get the ten commandments. David was a Hebrew king skilled at playing the liar. He fougth with the Philatelists, a race of people who lived in Biblical times. Solomon, one of David's sons, had 500 wives and 500 porcupines.
Það er enginn vandi að hætta að reykja. Flestir reykingamenn gera það oft á dag. Það er spurningin um að gera þá hættingu (dæmigerður nafnorðastíll - ættaður úr ensku og menn geta verið á móti honum ef vill - ræðum það betur seinna) varanlega sem vefst fyrir sumu reykingafólki.
Einu sinni var það svo að nikótíntyggjó fékkst aðeins í apótekum gegn lyfseðli. Sú vitleysa var afnumin um áramótin 1990 og ´91. Þá hætti ég að reykja og skömmu seinna braust út styrjöld í Austurlöndum nær og Hekla gamla gaus pínulítið. Áður hafði ég margoft reynt að hætta og meðal annars reynt að virkja vísnagerð í því skyni:
Bindindi ég herlegt hóf
og heilsu minnar gætti.
Föstudaginn níunda nóv.
við nikótínið hætti.
Þetta dugði mjög skamma stund en tyggjóið mun betur.
Já, nú er ég eiginlega farinn að taka alvarlega þátt í fésbókarvitleysunni. Kannski er ég með þessu að leggja mitt lóð á vogarskálarnar um að eyðileggja fyrirbærið. Ég sendi nefnilega vinabeiðnir þar alveg villivekk og fer varla þangað nema bara til að sinna málum sem sérstaklega er til mín beint. Kannski haga aðrir sér svipað. Hvað veit ég. Hef samt ekki séð bloggað um þetta mál.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
14.10.2010 | 00:07
1169 - Kosningaréttur
Að einu leyti verða stjórnlagaþingskosningarnar sem haldnar verða 27. nóvember næstkomandi merkilegar. Þar verða kosnir fulltrúar á þing án innbyggðs misréttis í vægi atkvæða. Semsagt ekkert kjördæmapot. Kannski eru landsmenn samt orðnir svo vanir slíkri vitleysu að nýtt fyrirkomulag þyki ómögulegt. Kannski snýst líka einhverjum hugur sem hingað til hefur verið alfarið á móti jöfnun kosningaréttar án þess að vita af því.
Af hverju ætti kosningaréttur að vera jafn? Þetta er spurning sem fólk ætti að spyrja sig áður en farið er að hugsa um aðra hluti. Lokun sjúkrahúsa, bankahrun, atvinnuleysi og slíkir smámunir skipta í rauninni engu máli. Ef stjórnmálaforingjum tekst einu sinni enn að etja saman strjálbýli og þéttbýli og egna til ófriðar þar, þá geta þeir haldið áfram leik sínumog nálgast nýtt hrun. Hvort sem það verður fljótlega eða ekki.
The global television village" er nú statt í Chile og sent er út beint frá björgun námumannanna þar. Margir þurfa að fylgjast með þessu en ég er fyrirfram sannfærður um að allt fer vel. Margir vona eflaust að eitthvað fari úrskeiðis og horfa þessvegna á ósköpin. Þó beinar sjónvarpsútsendingar geti verið ágætar finnst mér tímasóun að fylgjast með svona löguðu.
Íslendingar vilja yfirleitt taka hlutina í stórum stökkum. Fyrsta stóra stökkið sem ég man eftir var Bretavinnan og hermangið í Keflavík. Jú, eiginlega urðum við rík á svindli og misskilningi og í Bretavinnunni lærðu menn að svíkjast um. Næsta stóra stökk var skuttogaravæðingin. Ekkert sjávarpláss var svo aumt að ekki væri nauðsynlegt að hafa þar nýtísku frystihús og einn eða fleiri skuttogara. Þegar við bættist að laxeldi og loðdýrarækt átti að sjálfsögðu að vera á hverjum sveitabæ var það orðið of mikið.
Svo kom stóra fjármálastökkið og flestir vita hvernig það fór. Nú er stjórnarskrárstökkið næst á dagskrá og kannski verður það ekki eins dýrkeypt og hin.
Er byrjaður að stunda það að setja bloggið mitt líka á fésbókina. (eða upplýsingar um það.) Það er svosem ekkert vitlaust. Í einhverjum tilvikum minnir þetta fésbókarvini mína kannski á að lesa bloggið. Flestir þeirra nýjustu a.m.k. held ég samt að lesi fésbókina ekki mikið.
Einkennilegt hve mikla áherslu menn leggja á almenna niðurfærslu húsnæðisskulda. Mér hefur alltaf fundist sú leið fremur ómarkviss og dýr. Það jákvæðasta við hana hefur mér jafnan fundist að gera mætti ráð fyrir almennri bjartsýni (og jafnvel eyðslusemi) í kjölfar hennar. Finnst vera ansi seint að tala um þetta núna.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 00:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.10.2010 | 00:04
1168 - Bætt heilsa
Stóri gallinn við Netflakk í óhófi er hvað það er fitandi. Haraldur Á. Sigurðsson sagði einhverntíma að allt sem einhvers virði væri í lífinu væri annaðhvort ósiðlegt eða fitandi. Hann var þó ekki að tala um Internet flakk. Útaf þessu tölvueðli er ég að hugsa um að minnka Netflakk og taka upp hollari lífshætti. Gönguferðir eru ágætar. Óþarfi er að borga stórfé fyrir það eitt að fá að reyna á sig. Ég stunda göngur nokkuð. Er ekki erfitt hér í Kópavoginum. Enda er gott að búa hér eins og allir vita. Jæja, bless í bili þá.
Heim er ég kominn og halla undir flatt. Svona byrjar eitthvert vísukorn ef ég man rétt. En nú er gönguferðinni lokið og ég bráðlifandi. Endurnar átu brauðið með bestu lyst. Helga þetta blogg bættri heilsu og næst þegar ég fæ mér kött þá er ég að hugsa um að fá mér hídroxíkött, þeir eru svo mikið auglýstir að þeir hljóta að vera nokkuð góðir.
Engir blogga eins léttilega um skák og þeir Goðamenn. Ráðlegg öllum sem gaman hafa af skák að fylgjast með blogginu godinn.blog.is. Auðvitað er líka rétt að fylgjast með skak.is og skákhorninu en skákpistlar eru næstum alveg hættir að birtast í dagblöðunum eins og einu sinni var. Svo má auðvitað gúgla skák og tengd málefni.
Nú er ég farinn að safna fésbókarvinum og er þegar kominn í 87. Margir eru í hundruðum og þúsundum og nú er ég farinn að elta þá. Hægra megin á fésbókarsíðunni minni eru alltaf einhverjar tillögur um vini og ég klikka jafnan á þá. Fylgist svo ekki vel með hvort þeir samþykkja en það gerir ekki mikið til. Þetta er einskonar hobbý hjá mér að verða. Auðvitað er ég að miklu leyti búinn að eyðileggja fésbókina með þessu og hættur að fylgjast nokkurn skapaðan hlut með því sem þar er skrifað nema því sé sérstaklega beint til mín.
Pennastriksniðurskurður í heilbrigðismálum eins og Guðbjartur Hannesson er að reyna núna er ekki gæfulegur. Á sama hátt og óskynsamlegt var á sínum tíma að reisa fullkomin frystihús í hverju smáþorpi úti á landi er ekki skynsamlegt nú á tímum verulega bættra samgangna að hafa fullkomin og fullmönnuð sjúkrahús mjög víða. Að endurbótum á þessu er hægt að stefna en allt verður það ekki gert í einu kasti. Þessvegna er líklegt að þessi áform verði endurskoðuð.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
12.10.2010 | 00:16
1167 - Um vísur og þessháttar
Er ég að gefast upp fyrir fésbókinni? Nei, aldeilis ekki. Mér finnst skrifin þar bara svo yfirþyrmandi og erfitt að fylgjast með þeim. Öðrum finnst eflaust það sama um bloggskrifin öll. Ég er bara orðinn svo vanur þeim og með því að renna yfir fyrirsagnir og höfunda finnst mér ég fá heilmikla yfirsýn. Yfirsýn sem erfitt er að ná í fésbókinni. Skrifin þar eru samt styttri og hugsanlega hnitmiðaðri ef maður horfir bara á skrif vissra manna. En hvernig finnur maður þessa vissu menn"? Og hvað um öll hin skrifin sem maður missir þá líklega af?
Einu sinni þegar ég var í skóla að Bifröst vorum við Kristinn Kristjánsson, Skúli Guðmundsson og ég eitthvað að ljóða hver á annan. Ekki voru vísurnar merkilegar og ekki man ég eftir þeim. Kiddi gekk samt dálitla stund um gólf (á 205 minnir mig) og kom svo með þessa snilldarlegu oddhendu um Skúla:
Yrkir ljóðin ansi góð
okkar fróði maður.
Gerir fljóðin alveg óð
enda sóðagraður.
Í upphafi trúði ég því alls ekki að Kiddi hefði gert þessa vísu. Svo góð er hún og hann gerði ekkert sérlega mikið af því að yrkja. Með þessu gerði hann okkur auðvitað alveg orðlausa og ég held að ekki hafi verið ort meira þann daginn.
Seinna minntist ég þess auðvitað að þegar Kiddi flutti fyrst að Hjarðarbóli og hóf nám í Miðskóla Hveragerðis (líklega í sama bekk og Ingibjörg systir) orti skáldið og listamaðurinn Séra Helgi Sveinsson sem auk alls annars var kennari við skólann eftirfarandi vísu:
Í andríkinu af öllum ber
okkar kæri skóli.
Kraftaskáld er komið hér,
Kiddi á Hjarðarbóli.
Þó yrkingar hafi ekki verið mikið stundaðar á Bifröst áttu talsvert margir þar auðvelt með að ríma. Eftir veruna þar man ég t.d. eftir að hafa verið í ljóðabréfasambandi við Þóri E. Gunnarsson en ætla samt ekkert að rifja upp vísur úr þeim ljóðabréfum því ég held að Þóri sé það á móti skapi.
Strákurinn er búinn að ná fiskinum en þá spýtir hann útúr sér einhverjum óþverra sem stráknum líkar ekki.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)