810 - Bloggið er æði

Bloggið er mitt rómantíska æði. 

Um þessar mundir er ég að lesa bók Halldórs Guðmundssonar um þá Þórberg Þórðarson og Gunnar Gunnarsson. Skáldalíf minnir mig að hún heiti. Þetta er mjög athyglisverð bók og það er alls ekki útilokað að ég bloggi um hana aftur þegar ég er búinn með hana. Sé að ég hef lesið talsvert eftir Þórberg en minna eftir Gunnar.

Einhverju sinni byrjaði ég á Fjallkirkjunni eftir Gunnar Gunnarsson en gafst upp á henni. Man þó að mér þótti Afi á Knerri litríkur kall. Af einhverjum ástæðum líkaði mér ekki eins vel við söguna að öðru leyti. Svartfugl las ég nokkru seinna og hreifst mjög af þeirri sögu. Finnst enn í dag að varla sé hugsanlegt að hægt sé að segja söguna af Sjöundármálunum betur en Gunnar gerði í þessu verki.

Sé núna að Fjallkirkjan er einkum um ævi Gunnars sjálfs. Sögu Borgarættarinnar las ég aldrei og man ekki eftir að hafa séð nema stutt brot úr kvikmyndinni sem gerð var eftir henni.

Þegar ég hóf nám að Bifröst í Borgarfirði var Birna Torfadóttir meðal efribekkinga þar. Eitt sinn kom Helga nokkur í heimsókn til hennar. Þá var hvíslað í matsalnum að þetta væri „Lilla Hegga" og þurfti ekki að segja meir. Allir þekktu „Sálminn um blómið". Seinna varð ég svo verslunarstjóri í Silla og Valda búð að Hringbraut 49. Hún var í viðbyggingu við blokkina þar sem Þórbergur bjó ásamt Margréti sinni. Þórbergur sjálfur kom stöku sinnum í verslunina. Einkum til að kaupa sér drottningarhunang sem var einskonar allrameinabót þá og er kannski enn. Magga kom mun oftar í búðina og talaði miklu meira en Þórbergur.

Á sinum tíma las ég „Ofvitann" og „Íslenskan aðal" og fannst þær bækur báðar mjög góðar. Seinna las ég svo „Sálminn um blómið" og hef lesið talsvert úr „Bréfi til Láru" og ýmsum öðrum bókum eftir Þórberg. Einnig að sjálfsögðu mikið um hann. Sömuleiðis samtalsbókina „Í kompaníi við allífið".

Í „Silfri Egils" var í dag sunnudag sagt frá einum fimm eða sex bókum um bankahrunið. Enga þeirra hef ég lesið og er ekki viss um að ég eigi það eftir. Þó var ekki minnst á eina bók sem Íslendingur skrifaði um hrunið. Hún var líka á ensku ef ég man rétt og eftir Ásgeir Jónsson (Bjarnasonar ráðherra) áróðursmálaráherra Kaupþings á útrásarárunum. Af hverju ætli hún hafi ekki verið skrifuð á esperanto? Það hefði Þórbergi líkað.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Bjarni Harðarson

Skáldalíf er feyknlega góð. Ég öfunda þig af þeirri minningu að hafa selt Þórbergi hunang!

Bjarni Harðarson, 21.9.2009 kl. 23:50

2 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Skáldalíf er fín bók og að mörgu leyti það besta sem um Þórberg hefur verið skrifað. En hún minnir samt á hve margt í ævi Þórbergs og skáldskap hans er enn ókannað. Það þarf einhver að skrifa ítarlega ævisögu hans.

Sigurður Þór Guðjónsson, 22.9.2009 kl. 00:23

3 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Að setja þá saman í bók Þórberg og Gunnar er dálitið langt gengið. Kiljan fékk heila bók (eða margar) og vissulega verðskulda þeir heila bók hvor Gunnar og Þórbergur. Bókin er samt mjög góð og ég er mun fróðari en áður einkum um Gunnar Gunnarsson.

Sæmundur Bjarnason, 22.9.2009 kl. 01:10

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband