Bloggfærslur mánaðarins, júní 2009

719 - Á hverfanda hveli

Okkur bloggurum hættir til að sýna málum sem tengjast bankahruninu fullmikla léttúð. Dæmið um manninn á Álftanesinu sýnir að þetta er dauðans alvara. Íslenskt þjóðfélag er breytt eftir bankahrunið. Bankar njóta ekki trausts. Stjórnvöld njóta ekki trausts. Stjórnmálaflokkar njóta ekki trausts. Fjölmiðlar njóta ekki trausts. Í stuttu máli sagt þá er traust orðið að sjaldgæfum munaðarvarningi hér á landi. 

Sjálfur fjármálaráðherrann og formaður Vinstri grænna nýtur ekki einu sinni trausts meðal sinna eigin þingmanna. En því miður, alþingismenn njóta ekki trausts frekar en aðrir. Þegar fólk treystir ekki lengur sínum nágrönnum og sinni fjölskyldu þá er stutt í byltinguna. Og hún étur börnin sín. Þeir sem ofaná fljóta eru einkum þeir sem afskiptalausastir eru.

Ég er hræddur um að ástandið hér á landi eigi eftir að versna enn áður en það fer að batna. Dómharka og ábyrgðarleysi vex, stjórnmálastarfsemi er í lamasessi, Lög og regla eru á undanhaldi og margt á fallanda fæti. Grunnstoðir samfélagsins halda þó enn.

Látum ekki etja okkur út í algjört stjórnleysi.

Var að enda við að lesa grein Guðbjörns Guðbjörnssonar sem hann birtir á bloggi sínu í dag (17. Júní) og kallar: Er þjóðin samdauna spillingu, valdhroka, óbilgirni, valdníðslu, siðleysi, kúgun , klíkuveldi og ættdrægni? Þetta er góð grein. Verulega góð og ég hvet alla til að lesa hana.

 

718- Eitt og annað pólitískt og fleiri myndir

Valtýr Sigurðsson kvartar yfir að ekki hafi komið fram lagaleg rök fyrir að hann víki. Sá skortur er ímyndaður. Hann er að tala um sína eigin túlkun á lögunum. Sennilega meinar hann að enginn lögfræðingur hafi beðið sig að hætta. (Nema Eva Joly) Vel er hægt að fá lögfræðinga til að skrifa uppá hvað sem er eins og allir vita. Svo er líka óþarfi að láta lagarök ráða öllum sínum gerðum. Siðferðisrökin duga alveg. Næst gæti hann farið að tala um fordæmi og þessháttar. 

Ragna dómsmála er svolítið að missa tökin á sínum málaflokki enda er ekki auðvelt að standa í þessu. Hún er samt með frumvarp í smíðum segir hún og Valtýr hlýtur að taka mark á því.

Bloggvinur minn og næstum sveitungi í eina tíð Svanur Gísli Þorkelsson segir á sínu bloggi:

Mér virtist nefnilega úr fjarlægðinni sem stefna lögregluyfirvalda væri fyrst og fremst að forða því að að mótmælendur yllu eignaspjöllum og meiðingum, en að öðru leiti ættu þeir að halda sig til hlés og leyfa friðsamleg mótmæli. En nú spyr ég mig hvort  það geti verið að það sem virtust vera mild og yfirveguð vinnubrögð lögreglunnar fram að þessu, hafi aðeins verið taktískar aðgerðir sem beitt var vegna þess að þeir áttu við ofurefli að etja.

Þarna er hann að tala um handtökur lögreglunnar í gær (mánudag). Þetta er alveg rétt hjá honum. Við þurfum ef til vill að gæta okkar svolítið á lögreglunni en þó verðum við að treysta henni í öllum aðalatriðum. Ég sá upptöku af þessari uppákomu og gat ekki séð að mótmælendurnir væru fyrir neinum nema í mesta lagi lögreglunni.

Fjármálaráðherra og formaður Vinstri grænna talar um að það sé Bretum og Hollendinum að kenna að Icesave samningurinn sé ekki opinber. Slíkt hafi hingað til ekki tíðkast. Heyr á endemi. Þetta er svo stórt mál að fordæmi eiga á engan hátt við. Um er að ræða aumlegt yfirklór hjá ráðherra í vandræðum. Það eru einfaldlega miklar líkur á að frumvarpið um ríkisábyrgðina verði fellt. Og hvað gera Danir þá? Ögmundur segir að stjórninni verði ekki meint af því en fara ekki Bretar og Hollendingar í algjöra fýlu? Verður ekki reynt að semja uppá nýtt?

Ómar Ragnarsson er margfróður og bloggar oft um skemmtilega hluti. Eiginlega var ég að vona að hann byði aftur fram í síðustu kosningum og að Lára Hanna yrði ofarlega á lista frá sömu samtökum. Svo fór þó ekki og ég varð að láta Borgarahreyfinguna duga.

Lýsing Evu Joly í fréttum Stöðvar 2 á lagskiptingu þjóðfélaga á Vesturlöndum er athyglisverð. Gallar þeirrar lagskiptingar koma einkum í ljós við alvarlega atburði eins og bankahrunið hér vissulega er. Efsti hluti tertunnar sem þykist yfir lög hafinn hræðist að sjálfsögðu fólk eins og Evu Joly. Oft telur fólk sér trú um að það sé ofar í þjóðfélagsstiganum en það raunverulega er.

Kommur eru leiðinlegar. Sigurður Hreiðar ráðlagði mér fyrir nokkru að setja frekar punkt ef í vafa. Það geri ég nú orðið. Svikalaust.

Ef menn vilja verða sem vinsælastir hér á Moggablogginu þarf margs að gæta. Ekki er nóg að vera forsíðubloggari. (Í áttuklúbbnum eins og sumir segja eða vínarbrauðshópnum) Margt fleira getur gefist vel. til dæmis að linka sem mest í fréttir. Skrifa sem oftast. (Helst oft á dag). Gæta vel að fyrirsögnunum og hafa gjarnan mannsnöfn í þeim. Skrá sig á Blogg-gáttina og kannski víðar. Velja umræðuefni sem líklegt er að fái langa svarhala. JVJ, Jón Frímann og DoctorE reyndust mér vel í því - vona að þeir komi aftur sem fyrst. Eða ekki. Og svo mætti lengi telja.

Hér eru svo fáeinar myndir:

IMG 2973Hús í Kópavogi. (Nei, líklega er ekki búið í því.)

IMG 2976Fjörusteinn á Álftanesi.

IMG 2977Bátur og Bessastaðir.

IMG 2996Já, þessi er svolítið flottur.

IMG 2999Úrvalsbíll af gamla skólanum.

IMG 3002Gamli bærinn.

IMG 3009Fjara á Álftanesi. Álverið í Straumsvík í bakgrunni.IMG 3013

Hundar í sjóbaði.

 

717 - Ýmislegt og myndir

Vil helst ekki ræða um Icesave. Það er svo leiðinlegt mál. Las þó eftir ábendingu Egils Helgasonar Reykjavíkurbréf Ólafs Stephensen á Moggablogginu og fannst það nokkuð sannfærandi. Ólafur er þeirrar skoðunar að óhjákvæmilegt sé að viðurkenna ábyrgð Íslendinga á þessu. Skil vel þá sem líklega munu samþykkja frumvarp um þetta að lokum á Alþingi. Finnst þó vanta meiri upplýsingar um málið allt og samningsferlið. Samninginn sjálfan á að sjálfsögðu að sýna alþingismönnum.

Sigurjón Árnason fyrrum bankastjóri Landsbankans talaði um Icesave á sínum tíma sem tæra viðskiptasnilld. Ómar Ragnarsson ræðir um það á sínu bloggi. Einnig um hve bankamenn hafi verið ánægðir með að lána Landsvirkjun til Kárahnjúkavirkjunar því gróði þeirra yrði því meiri sem verr gengi með virkjunina. Það var vegna ríkisábyrgðarinnar.

Lán Sigurjóns í nóvember síðastliðnum er nú mjög umtalað. Eftir því að dæma sem sagt er um það mál finnst mér líklegt að nákvæmlega það sem Sigurjón gerði með aðstoð Sigurðar G. Guðjónssonar fyrrum forstjóra Stöðvar 2 sé ef til vill ekki bannað með lögum. Löggjafann hafi semsagt skort hugmyndaflug til að banna það sérstaklega. Siðlegt er það þó alls ekki.

Ég held enn að Valtýr Sigurðsson muni segja af sér embætti ríkissaksóknara. Að öðrum kosti mun Eva Joly ekki aðstoða lengur við rannsókn bankahrunsins og það sem meira er pólitískar afleiðingar slíks munu verða miklar.

Árið 1994 fórst ferjan Estonia á Eystrasaltinu. Með henni fórust meira en 800 manns. Ég man að þegar ég heyrði fyrst frá þessu sagt í útvarpinu trúði ég ekki að talan sem nefnd var gæti verið rétt. Ég trúði heldur ekki eigin eyrum þegar ég heyrði fyrst sagt frá eldgosinu í Vestmannaeyjum í útvarpinu og skildi bókstaflega ekki hvað verið var að tala um.

Talað er um að Íslendingar eigi að ferðast um sitt eigið land í kreppunni. Margt er skynsamlegt í því. Til dæmis yfirgefa þeir peningar sem eytt er ekki landið strax. En dýrt er að ferðast um landið og ekki þarf alltaf að fara í langferðir til að sjá eitthvað. Hér fyrir neðan eru nokkar myndir (fleiri seinna) sem ég tók á Álftanesinu á sunnudaginn var.

 
IMG 2980IMG 2986IMG 2993IMG 2994IMG 2995IMG 3007IMG 3016IMG 3018

716- Eva Joly og ýmislegt annað

Fyrst smá hugleiðing um mál málanna.

Eva Joly er ekki bara heilög og ósnertanleg að áliti almennings í landinu heldur er hún orðin táknmynd fyrir baráttuna gegn spillingaröflunum hér á Íslandi. Það eru einkum andstæðingar hennar sem hafa gert þetta og svo auðvitað hún sjálf. Það er erfitt að sjá annað en ríkisstjórn, flestallir framámenn í landinu og svotil allir lögfræðingar vilji torvelda henni starf sitt sem mest. Þeim mun ekki takast það því auk lagakrókanna er réttlætið hennar megin.

Ég er að ganga í barndóm að einu leyti. Orð og setningar sem voru afar vinsæl þegar ég var ungur eru óðum að koma til mín aftur. Mér finnst stórundarlegt þegar aðrir þekkja alls ekki þessar setningar.

„Siggi Sig fór í bjargsig. Fékk pungsig. Fór heim og lagði sig." Þetta þótti afar snjallt einu sinni.

„Nú skaltu grípa færitækið og gerast fræbúðingur frá Eyrarhvönn." Eitt sinn í skólaferðalagi þegar ekið var framhjá Hvanneyri þótti okkur krökkunum þetta ákaflega fyndið. Viðsnúningur orða af þessu tagi er oft tíðkaður.

„Allabaddarí fransí biskví". Þetta þótti alveg nothæf franska í mínu ungdæmi. Golfranska kannski en biskvíið var að minnsta kosti talið gott á bragðið. Man eftir frétt um daginn þar sem sagt var frá því að nú væru Færeyingar farnir að láta Íslendinga baka fyrir sig sitt skipskex eða biskví.

Fyrstu orðin sem ég lærði á ensku voru „one bottle milk". Þá tíðkaðist að mjólkin væri í flöskum. Það var mun fínna að kaupa hana þannig en að láta ausa henni í brúsa. Einu sinni kunni ég líka að telja upp að tíu á finnsku.

Í Hveragerði sem annars staðar vildu Englendingar gjarnan kaupa egg eftir að hafa hernumið landið. Þar var þeim sagt: „Engin egg today. No egg tomorrow." No-ið á að hafa þýtt „nóg" enda líkt í framburði.

Pabbi á að hafa sagt aðspurður um hvað ég ætti að heita að ég skyldi fá sama nafn og fyrsti karlmaðurinn sem kæmi í heimsókn. Sá hét Óli og var ég því snimmhendis nefndur eftir honum. Ekki festist það nafn þó við mig og ég man auðvitað ekkert eftir þessu.


715- Ýmislegt um bókmenntir

Hélt ég væri hættur að lesa skáldsögur. Pældi þó í gegnum traktorsbókina alla. Hún heitir „Ágrip af sögu traktorsins á Úkraínsku". Þýdd af Guðmundi Andra Thorssyni og hefur hann gert það ágætlega. Fann þó bæði þýðingarvillur og prentvillur enda er ég slæmur í þeim sökum. Villurnar eru þó svo sárafáar að þær skipta engu máli. 

Þó bókin sé að flestu leyti vönduð og frágangur hennar ágætur er útlitið afleitt. Kiljan sem ég las var prentuð á lélegan pappír og að flestu leyti virtist vera reynt að fæla fólk frá bókinni. Nafnið er líka fráhrindandi og er þar eingöngu við höfund verksins að sakast. Líklega hefur nafnið haft mikil áhrif á þann sem hannaði útlit bókarinnar.

Þetta er talsvert merkileg bók og vel skrifuð. Fyndin og tragisk í bland og jafnvel dálítið pólitísk.

Þessi færsla verður einkum um bækur og bókmenntir. Ekki ætti það að saka. Nóg er nú bloggað um annað.

Ágúst Borgþór segir á sínu bloggi:

„Mér finnst að EH [Egill Helgason] eigi að hætta," skrifar Hallgrímur á Facebook-síðu sína. „Ég hélt í byrjun að hann gæti orðið Bernard Pivot Íslands en því miður, þá les hann ekki bækurnar sem koma út fyrir jólin á Íslandi, sem gerir hann sjálkrafa óhæfan í þetta mikilvæga starf.

(Já, langt er nú seilst þegar vitnað er í tilvitnun - en svona er bloggið.)Með þessu fæ ég tilefni til að skrifa um Kiljuna. Síðastliðinn vetur var hún sá þáttur í íslensku sjónvarpi sem ég vildi síst missa af.

Mér finnst að Egill eigi að halda áfram með þennan þátt. Þó hann lesi kannski ekki allt sem út kemur eftir Hallgrím (hverjir gera það?) er hann langbestur þeirra sem reynt hafa að halda úti bókmenntaþætti í íslenska sjónvarpinu. Formið er ágætt. Hann mætti íhuga að fá sér aðra fasta viðmælendur en Kollu og Pál Baldvin og viðtölin við Braga eru að verða svolítið þunnildisleg en þátturinn í heild er ágætur.

Rithöfundar komast í tísku á Íslandi. Hallgrímur Helgason er aðaltískuhöfundurinn um þessar mundir. Ég las „Hellu" á sínum tíma og þótti hún góð. Gafst upp á „101 Reykjavík" án þess að klára hana. Las „Rokland" frá upphafi til enda en fannst hún ekki nógu góð. Of mikið málæði á köflum. Aðrar bækur hef ég ekki lagt í eftir Hallgrím. Greinar eftir hann eru samt oft góðar og mörg viðtöl við hann athyglisverð. Greinilega mjög hugmyndaríkur.

Einhverju sinni las ég smásögu eftir Gísla J. Ástþórsson sem hét og heitir eflaust enn: „Eik, spurði maðurinn þurrlega." Í þessari sögu segir Gísli frá húsbyggingu sinni. Þá tíðkaðist mjög að menn byggðu sjálfir. Hann hafði komist að því að í timburverslunum væri yfirleitt alltaf til nóg af mótatimri sem hann vantaði ekki. Eitt sinn vantaði hann tilfinnanlega dálítið af 1x4. (Á þessum tíma var alltaf notað tommumál) Hann spurði því eftir 1x6 og var auðvitað sagt að það væri ekki til en nóg af 1x4. Hann sagðist þá ætla að fá það en svar afgreiðslumannsins var þá eins og nafn sögunnar.

Í þessari sögu var að ég held einnig sagt frá draumi Gísla um að hann væri að byggja og gæti ekki hætt og húsið yrði alltaf hærra og hærra því það væri svo ódýrt að bæta einni hæð ofaná.

Úr því ég er farinn að skrifa um bókmenntir get ég ekki stillt mig um að minnast á þýðingar frænda míns Atla Harðarsonar úr grísku. Einkum á verkum Konstantíns Kavafis. Hér er ein slík en hann birtir þessar þýðingarnar gjarnan á bloggi sínu. Ég hef aldrei verið mikið fyrir ljóð en get ekki betur séð en þetta sé afbragðs þýðing.

„Þú ert það sem þú bloggar."

„Hmm. Er ég það? Er það virkilega?

„Já."

„Því trúi ég helst ekki. Ég vil ekki vera rafeindaorð í tölvu."

„Ég meina þetta ekki bókstaflega."

„Nú, hvernig þá?"

„Bara svona óbeinlínis. Tek svona til orða af því það þykir fínt."

„Nú, svoleiðis."

„Meina svosem ekkert með því. Bara að þú eigir að hugsa þig vel um áður en þú setur eitthvað á blogg."

714 - Icesave einu sinni enn

Varðandi Icesafe-málið er ég næstum því að snúast. Kannski væri best að fella þetta bara og sjá til hvað menn geta gert okkur. Er hægt að hrekkja okkur meira en orðið er? Evrópubandalag hvað?

Ég er svosem fylgjandi því að við göngum í Evrópusambandið en ekki hvað sem það kostar. Í mínum huga eru þessi mál aðskilin og ef einhverjir vilja tengja þau saman þá þeir um það. Einhverjum bráðliggur á að komast í ESB. Ekki mér.

Mér finnst vextirnir á Icesave-láninu of háir, sama hvað hver segir. Það er líka enn verið að halda ýmsu leyndu í sambandi við þetta. Ég trúi því að ýmislegt eigi eftir að koma fram um þetta mál og aðdraganda þess. Að Bretar ætli að vera voða góðir við okkur strax á mánudaginn er bara til að auka á okkur þrýstinginn. Hefur ekki áhrif á mig.

Í Moggatetrinu í dag (föstudag) er mér sagt að sé áskorun til þingmanna um að samþykkja Icesave ríkisábyrgðina ekki. Þessi áskorun er frá tveimur virtum lögfræðingum sem eru sannfærandi. Baldvin Jónsson Borgarahreyfingarmaður skrifar líka ágæta blogg-grein um þetta sem hann kallar „Ellefu firrur um Icesave."

Ögmundur segir að stjórnarsamstarfið sé ekki í neinni hættu þó Icesave-frumvarpið verði fellt. Athyglisvert. Heldur stjórnin áfram líka þó ekki verði samþykkt að sækja um aðild að ESB? Vinstri stjórnir lifa oftast ekki mjög lengi. Kannski það sé lykillinn að langlífi þeirra að koma ekki sínum helstu málum fram.

Neyðarlögin eru bastarður. Sett í alltof miklum flýti. Alþingismenn eiga ekki að láta bjóða sér svona vitleysu. Tímapressa af þessu tagi er elsta trikkið í bókinni. Líkur á að þau verði ógilt minnka samt við samþykkt Icesave-samningsins.

Og Valtýr mun hætta. Ég er sannfærður um það.

Ætti að hætta þessu gaspri um þjóðmál. Hugsa að ég sé betri í að skrifa um eitthvað annað. Mest gaman er að lesa um eitthvað löngu liðið. Málefni dagsins gera mann bara þunglyndan. Það er allt svo ömurlegt nema veðrið.


713 - "Valtýr á grænni treyju"

Það var Jón Björnsson sem skrifaði skáldsöguna „Valtýr á grænni treyju". Hún var um sakamál eitt fornt sem ég man fremur óljóst eftir. Jón skrifaði líka sögu um dráp Jóns Gerrekssonar ef ég man rétt. Hafði einu sinni heilmikinn áhuga á því máli enda merkilegt mjög. Man eftir Jóni sem bókaverði í Þingholtsstrætinu en það er önnur saga. 

Nú er það annar Valtýr sem tengist öðru sakamáli sem allt snýst um. Valtýr Sigurðsson nefnist hann og er ríkissaksóknari. Vill ekki hætta sem slíkur og segist alls ekkert tengjast þessu sakamáli. Ragna dómsmála segist ekki geta rekið hann þó hún fegin vildi. Við aðrar aðstæður væri það hið besta mál. Hugsum okkur bara ef ráðherrarnir færu að reka hvern annan. Jafnvel þó við völd væri ríkisstjórn sem þolir flest gæti það endað með ósköpum.

Ég hef trú á því að Valtýr hætti því Eva vill losna við hann hvað sem það kostar. Eva Joly fer bráðum að ráða öllu hér á landi (eða ekki) og segir ríkisstjórninni hiklaust fyrir verkum. Sennilega er það ágætt því hún sér sjaldan skóginn fyrir trjánum. (ríkisstjórnin altsvo)

Eva segir að mikilvægast sé að góma bastarðana. Sumir segja að mikilvægast sé að samþykkja (eða fella) Icesave-samninginn. Einhverjir segja að það séu hagsmunir heimilanna. Hverju á maður að trúa? Ekki er stjórnlagaþing á þessum lista eða skattahækkanir. Mér finnst mikilvægt að blogga smá á hverjum degi. Varla öðrum.

Hreppsnefndarmaðurinn Jón notaði orðið nefnilega óhóflega mikið. Nefndin ákvað að lagfæra vegarspotta einn sem hafði áður verið þannig eftir því sem Jón sagði að menn:

Nefnilega í náttmyrkri
nefnilega mættu.
Nefnilega nokkurri
nefnilega hættu.


712- Icesave og ríkissaksóknari

Það er vissulega eðlilegt að vera á móti því að samþykkja væntanlegt frumvarp um ríkisábyrgð á Icesave samningnum. Fyrir því eru gild rök. Ég hef hingað til verir hallur undir samþykki en það álit gæti breyst. Helstu rökin fyrir samþykkt frumvarpsins eru að það sé óhjákvæmilegt. Ef þessi ósköp verði ekki samþykkt fari allt til fjandans. Ríkisstjórnin hrökklist frá völdum og alger upplausn verði ofaná. Allir verði á móti okkur Íslendingum og við eigum engan kost annan en að fara aftur í moldarkofana.

Allra best er samt að eiga þann kost að ýta þessu frá sér. Sökin er annarra og ég get bara hætt að hugsa um málið og farið að gera eitthvað annað. Hinir kjörnu alþingismenn hafa boðist til að vera umboðsmenn okkar og taka ábyrgð á þessu. Látum þá gera það. Líklegt er að flestir þeirra finni sér afsakanir fyrir að fylgja sínum formönnum. Guðfríður Lilja Grétarsdóttir skoraði áreiðanlega mörg prik með því að lýsa yfir að hún væri á móti þessu þó formaður flokks hennar hafi staðið að samningnum.

Því hefur verið hreyft að eðlilegt sé að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu um þetta mál. Það er alls ekki fráleitt og mikil spurning hvers vegna lítið er nú rætt um kröfuna um stjórnlagaþing og þjóðaratkvæðagreiðslur.

En hvað tekur við ef frumvarpið verður fellt. Veit það ekki. Eflaust ekkert gott. Þetta mál er bara stærra og afmarkaðra en það sem alþingismenn eru vanir að greiða atkvæði um. Rökin fyrir samþykkt eru alveg gild. Einkum hugnast mörgum frestunin vel og sú staðreynd að nú getum við farið að snúa okkur að öðru án þess að þetta sé hangandi yfir okkur. Óvissan og kyrrstaðan er alla að drepa.

Ekkert gengur að endurheimta eitthvað af þeim peningum sem stolið var frá okkur. Nú er Eva Joly farin að hafa hátt og gera kröfur á stjórnvöld. Kannski hefur það áhrif. Fram kom í Morgunblaðinu í dag að dregist hafi að skipa nýjan ríkissaksóknara vegna lagalegra annmarka. Vegna sleifarlags og aumingjaskapar mundi ég segja.


711- Menningarlegar lundaveiðar

Lundarnir í Vestmannaeyjum eru víst í útrýmingarhættu. Það kom fram í einhverjum fjölmiðli í kvöld að ekki mætti banna lundaveiðar (eða yrði að banna varlega) af því að lundaveiðar væru svo menningarlegar. Sér er hver menningin! Næst verður sennilega leyft að veiða lundann en bara bannað að drepa hann. Það væri eftir öðru. Laxveiðimönnum hefur verið talin trú um að það sé miklu menningarlegra að sleppa laxinum eftir að búið er að veiða hann.

Þessar menningarlegu lundaveiðar munu eiga að laða ferðamenn að. Hvalveiðar víst líka.

Hef lítinn þátt tekið í athugasemdum við færslu 707. Skorað hefur verið á mig að loka þeim þræði og spurt hvort ég taki ábyrgð á því sem þar er sagt. Hef tekið eftir að sumir (t.d. Sigurður Þór Guðjónsson) loka einfaldlega á athugasemdir við sumar færslur. Ég gæti þurft að taka uppá einhverju slíku en vona þó ekki.

Beint sjónvarp frá Alþingi er stundum fróðlegt. Einkum byrjun hvers fundar. Svo var í gær, þriðjudag. Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir stóð sig ágætlega og lét framsóknarmenn ekkert slá sig útaf laginu þó þeir reyndu það. Það athyglisverðasta var þó að nefndaformenn eru farnir að kvarta undan stjórnvöldum. Það er nýlunda held ég. Starfsmenn fjármálaeftirlitsins eiga að hafa neitað nefndum um umbeðnar upplýsingar með tilvísum til einhvers samnings sem þeir hafi gert við stjórnvöld. Þannig skildi ég málið a.m.k.


710- Reynum að hrista af okkur Icesave-óhugnaðinn

Auðvitað er Icesave samningurinn mál málanna í dag. Hugsanlegt er að ríkisstjórnin telji andstöðu við hann jafngilda vantrausti. Sjáum hvað setur. Hvernig væri að sækja um greiðsluaðlögun hjá Gordoni Brúna? Annars er ekki grín gerandi að þessum ósköpum. Brjánn talar samt um Hagkaupssloppinn hennar Björgúlfu Þóru í Cannes eins og góðri tískulöggu sæmir. Betra að hugsa um eitthvað þessháttar en Icesave.

Einu sinni var ég með mikla dellu fyrir John Steinbeck og las allt sem ég kom höndum yfir eftir hann. Fyndnast er í „Þrúgum Reiðinnar" þegar konan var að þvo uppúr klósettinu. Í East of Eden var setningin: „He wooed, wedded, bedded and impregnated her". Og ekki meira um það. Þarna var löng saga sögð í fáum orðum. Eitthvað las ég eftir hann á dönsku. Meðal annars bókina: „Rutebil paa afveje". Ægisgata minnir mig að hafi verið kölluð Dagdriverbanden á dönsku.

Bókin sem ég er að lesa núna áður en ég fer að sofa heitir því fráhrindandi nafni: Ágrip af sögu traktorsins á Úkraínsku. Ágæt skáldsaga reyndar um innflytjendamál og þess háttar í Bretlandi.

Samkvæmt fréttum er Sjóræningjaflokkurinn sænski (styður Torrent-vefsetur) kominn með fulltrúa á Evrópuþingið. Svei mér þá.

Sagt er að Jón biskup Arason hafi ort þetta um sjálfan sig.

Víkur hann sér í Viðeyjarklaustur
víða trúi ég hann svamli
sá gamli.
Við Dani var hann djarfur og hraustur
hrakti hann þá á flæðarflaustur
með brauki og bramli.

Dapurleg voru samt örlög hans. Varla er hægt að fara að Skálholti án þess að skoða minnismerkið um hann. Orðin sem hann sagði síðast áður en hann var hálshöggvinn eru flestum kunn: „Veit ég það Sveinki."

Svo eru það fáeinar myndir:

IMG 2875Lúpínuakur í Kópavoginum.

IMG 2881Fjörusteinn í kvöldsólinni.

IMG 2891Þessi fer víst ekki lengra.

IMG 2902Furutré.

IMG 2920Friðsæld í dag í Heiðmörkinni.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband