716- Eva Joly og ýmislegt annað

Fyrst smá hugleiðing um mál málanna.

Eva Joly er ekki bara heilög og ósnertanleg að áliti almennings í landinu heldur er hún orðin táknmynd fyrir baráttuna gegn spillingaröflunum hér á Íslandi. Það eru einkum andstæðingar hennar sem hafa gert þetta og svo auðvitað hún sjálf. Það er erfitt að sjá annað en ríkisstjórn, flestallir framámenn í landinu og svotil allir lögfræðingar vilji torvelda henni starf sitt sem mest. Þeim mun ekki takast það því auk lagakrókanna er réttlætið hennar megin.

Ég er að ganga í barndóm að einu leyti. Orð og setningar sem voru afar vinsæl þegar ég var ungur eru óðum að koma til mín aftur. Mér finnst stórundarlegt þegar aðrir þekkja alls ekki þessar setningar.

„Siggi Sig fór í bjargsig. Fékk pungsig. Fór heim og lagði sig." Þetta þótti afar snjallt einu sinni.

„Nú skaltu grípa færitækið og gerast fræbúðingur frá Eyrarhvönn." Eitt sinn í skólaferðalagi þegar ekið var framhjá Hvanneyri þótti okkur krökkunum þetta ákaflega fyndið. Viðsnúningur orða af þessu tagi er oft tíðkaður.

„Allabaddarí fransí biskví". Þetta þótti alveg nothæf franska í mínu ungdæmi. Golfranska kannski en biskvíið var að minnsta kosti talið gott á bragðið. Man eftir frétt um daginn þar sem sagt var frá því að nú væru Færeyingar farnir að láta Íslendinga baka fyrir sig sitt skipskex eða biskví.

Fyrstu orðin sem ég lærði á ensku voru „one bottle milk". Þá tíðkaðist að mjólkin væri í flöskum. Það var mun fínna að kaupa hana þannig en að láta ausa henni í brúsa. Einu sinni kunni ég líka að telja upp að tíu á finnsku.

Í Hveragerði sem annars staðar vildu Englendingar gjarnan kaupa egg eftir að hafa hernumið landið. Þar var þeim sagt: „Engin egg today. No egg tomorrow." No-ið á að hafa þýtt „nóg" enda líkt í framburði.

Pabbi á að hafa sagt aðspurður um hvað ég ætti að heita að ég skyldi fá sama nafn og fyrsti karlmaðurinn sem kæmi í heimsókn. Sá hét Óli og var ég því snimmhendis nefndur eftir honum. Ekki festist það nafn þó við mig og ég man auðvitað ekkert eftir þessu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Áður en dóttirin var skýrð fyrir yfir 30 árum síðan, þá kölluðum við foreldrar hennar hana "Sæmund". Við vorum ekki á einu máli um endanlega nafngift og vildum ekki að festist við hana "Lilla". Með því að kalla hana "Sæmund" vorum við viss um að það myndi ekki festast við hana og hún man að sjálfsögðu ekkert eftir því. Ég man ekki af hverju akkúrat Sæmundur varð fyrir valinu.

Rósa 15.6.2009 kl. 08:47

2 Smámynd: Margrét Birna Auðunsdóttir

Þetta minnir mig á söguna af því þegar tveir breskir hermenn komu á sveitabæ fyrir norðan, í stríðinu væntanlega. Konan var ein heima og blandaði saman öllum þeim tungumálum sem hún kunni til að gera sig skiljanlega:

Sidd dán og spík notthing. Min mand kommer snart. Hann spíkar ensku miklu betur en ég

Margrét Birna Auðunsdóttir, 22.6.2009 kl. 11:40

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband