Bloggfærslur mánaðarins, júní 2009

709- Af hverju ber ég ábyrgð á þessum fjára?

Að eiga banka er nokkurs virði. Gefa má út innistæðulausa tékka villt og galið út um allar jarðir. Að minnsta kosti ef þess er gætt að múta stjórnvöldum nægilega mikið til að þau láti allt reka á reiðanum.

Af hverju er ríkið eiginlega að taka þessar Icesave skuldir á sig? Ekki veit ég það en held að búið hafi verið að lofa samningum og hinn kosturinn hafi verið að láta bankana og allt klabbið fara lóðbeint á hausinn og hætta þessu streði. Það væri uppgjöf.

Með því að taka á sig ábyrgð á því eftirliti sem hefði átt að vera og láta allt líta út fyrir að vera sem eðlilegast má kannski vinna traust umheimsins á ný. Þannig hljóta núverandi stjórnvöld að hugsa.

Það væri hægt að sleppa því að borga og reyna að hengja sig á einhverja vafasama lagakróka. Gallinn er bara sá að í samskiptum þjóða gildir hnefarétturinn þegar í harðbakkann slær. Sá sterkasti vinnur.

Með því að kjósa yfir okkur vanhæf stjórnvöld tókum við öll ábyrgð á vitleysunni sem viðgekkst. Líka þeir sem kusu á móti stjórnvöldum. Kosningarétturinn kostar.

Auðvitað er hægt að yfirgefa bara skerið eins og margir hafa gert og fleiri munu líklega gera.

Núverandi stjórnvöld reyna að milda höggið með því að velta vandanum (eða hluta hans að minnsta kosti) á undan sér í sjö ár. Allur er ávinningurinn af þessu óljós og eini vinningurinn sem er í boði í núverandi þjóðarhappdrætti (eins og vel er hægt að kalla þetta allt saman) er að eðlilegt ástand skapist í landinu á sem stystum tíma.

Kannski verður boðað til nýrrar búsáhaldabyltingar fljótlega. Ekki tek ég þátt í henni. Mér finnst bara vera í boði að una við núverandi stjórn (þó slæm sé á margan hátt) eða fá yfir sig aftur samstjórn Framsóknar og Sjálfstæðisflokks. Eða algera upplausn.

 
 

708- Icesave og fleira

Svarhalinn við færslu mína númer 704 er orðinn ógnarlangur og lengist enn. Aðallega snýst hann um mögulega aðild að Efnahagsbandalaginu og andstöðu við hana. Ekki er rétt að ég sé að túlka það sem þar stendur. Frekar að benda áhugasömum á að skoða hann.

Vissulega er ég hundfúll yfir þessu Icesave-dæmi eins og flestir aðrir. Einkum finnst mér vextirnir of háir en að öðru leyti eru skilyrðin ekki langt frá því sem alltaf mátti búast við eins og málið er í pottinn búið.

Mér finnst ekki rétt að kalla þetta verðið á aðgöngumiða að ESB eins og Evrópuandstæðingar vilja gera. Samt eru málin tengd og ekki hægt að slá hausnum við stein og neita því með öllu.

Leyndarhjúpurinn sem verið hefur yfir þessu máli um margra mánaða skeið hlýtur að vera horfinn. Marktæk umræða um þetta getur ekki orðið á Alþingi án þess.

Fróðlegt verður að sjá hvað kemur fram í umræðum um þetta mál á Alþingi. Sennilega verður hart sótt að ríkisstjórninni og á margan hátt verður þetta prófsteinn á styrk hennar. ESB frumvörpin koma víst ekki aftur á almenna þingfundi fyrr en um næstu mánaðamót.

 

 

707- Jón Frímann og ritskoðunartilburðir Morgunblaðsins

Fjúkk. Ég er búinn að missa alla stjórn á kommentakerfinu mínu við færslu númer 704 en það er í lagi. Allir mega kommenta og ég hef ekki í hyggju að setja nein takmörk á það. Svarhalinn þarna lifir sínu eigin lífi og er orðinn óhæfilega langur. 

Jón Frímann sem iðinn hefur verið hér við komment um ESB-málið sýnist mér hafa lent í ritskoðunarhremmingum á Moggablogginu um síðustu áramót. Það gerði ég líka en var endurreistur. Með því að minnast hér á ritskoðun Moggabloggsins er ég kannski að kalla yfir mig annan eins svarhala og um daginn. Icesave-málið gæti þó bjargað mér frá því.

Þó ég vilji helst ekki blogga mikið um stjórnmál því það er svo margt skemmtilegra en þau þá sýnist mér Icesave-málið ætla að verða núverandi ríkisstjórn mjög erfitt og reynir nú verulega á stjórnarsamstarfið.

Einu sinni fór ég í gönguferð með Bjössa og Lísu frá Selvogi til Þorlákshafnar. Á miðri leið rákumst við á bílhræ sem virtist hafa dottið af himnum ofan. Það var úti í miðju hrauni og enginn vegur lá þangað. Meira að segja hundurinn hans Bjössa var steinhissa á þessu.

Sögumenn og skrásetjarar segja ekki alltaf endilega sannleikann. Þeir segja bara frá einhverjum aðburðum eins og þeir koma þeim fyrir sjónir. Sú sýn getur hæglega byggst á einhverjum misskilningi og hinn sagnfræðilegi sannleikur verið talsvert frábrugðinn. Samt er sjálfsagt að reyna að hafa fremur það sem sannara reynist eins og Ari fróði sagði forðum.

Það er engin sérstök ástæða fyrir að ég segi þetta. ESB-svarhalinn langi gefur mér þó tilefni til að halda að fjarri sé því að menn sjái sömu atburði eða sömu skjöl alltaf í sama ljósi. Sú aðferð að láta dómstóla skera úr um ágreining manna er góð og svipuð aðferð þyrfti að vera til varðandi ágreining þjóða.

En nú er ég farinn að nálgast hugleiðingar um Icesave, ESB og allt sem því tengist svo best er að hætta.

 

706- Evrópumál, Bifröst, letigarðar og fleira

„Hann er víst á Letigarðinum" var stundum sagt um menn í mínu ungdæmi. Þá var átt við að viðkomandi væri í fangelsinu á Litla-Hrauni. Nú eru breyttir tímar og verið að stofna til annars konar letigarða í Kópavoginum. Kreppan veldur því að æ fleiri vilja rækta sitt grænmeti sjálfir og sjá auk þess hollustuna í náttúrulegri fæðu. Sé letin í hámarki er boðið uppá garða sem mér skilst að séu uppá borðum. Sannkallaða letigarða.

Mikið fjör og mikil læti hafa verið á mínu athugasemdakerfi af því ég skrifaði í fyrradag færslu um Evrópumál og Jón Val Jensson. Bifrastarfærslu var ég svo með í gær og athugasemdir við hana eru bráðskemmtilegar.

Árni Matthíasson Moggabloggsguð bloggar sjaldan en það sem hann setur þar á þrykk er jafnan áhugavert. Nýlega las ég þar langloku um pappír, bækur, lesvélar og þess háttar. Sakna mest samanburðartalna við bókasöfn. Hefði ég ekki bókasöfnin væri ég illa staddur því ekki hefði ég efni á að kaupa allar þær bækur sem á mitt heimili koma. Lesvélar og allt sem þeim tilheyrir er eitt af mínum alltof mörgu áhugamálum.

Í framhaldi af landráðaumræðu í athugasemdakerfinu mínu um daginn dettur mér í hug að fyrir langalöngu skrifaði ég grein í Moggann um Gísla Sigurbjörnsson og í henni var meðal annars sagt að Þjóðverjar væru frægir fyrir að hafa komið tveimur heimsstyrjöldum af stað. Eykon (Eyjólfur Konráð Jónsson) sjálfur hringdi í mig og vildi sleppa þessu því það gæti verið álitin „óvirðing við erlent ríki" eða eitthvað þessháttar. Þannig störfuðu ritstjórar nú í gamla daga. Man ekki betur en Vikan hafi áður neitað birtingu greinarinnar.

Ég man mjög vel eftir fréttum af blóðbaðinu á Torgi hins himneska friðar fyrir 20 árum. Ég var þá að vinna á Stöð 2 og er minnisstætt að Páll Baldvin Baldvinsson nýkominn frá Ameríku sagði okkur frá því að myndir hefðu birst strax frá þessu í Bandarískum fjölmiðlum. Það var allra nýjasta tækni þá. 

 

705- Bifrastardvöl fyrir næstum fimmtíu árum

Ellismellur sem oft kommentar hér setti athugasemd við nokkurra daga gamla bloggfærslu hjá mér. Sagan sem hann sagði í kommentinu er svo góð að ég hefði helst viljað kopiera hana hingað. Til þess hef ég þó ekki leyfi svo ég læt nægja að vísa á bloggið mitt þar sem myndin er af Logaritmatöflunum.

Úr því að minnst er á Hreðavatn og báta (í athugasemdinni) man ég líka eftir því að einhverju sinni voru nemendur af skólanum skildir eftir á hólma einum í vatninu og varð sá atburður frægur mjög.

Það var líka á Hreðavatni sem ég fór í fyrsta sinn á skauta. Einhver hópur nemenda fór þá í skautaferð þangað í hífandi roki. Ég hafði fengið léða skauta (Hokkískauta reyndar með engum rifflum fremst) og komst í þá með harmkvælum. Steðjaði síðan út á vatnið og komst strax á fleygiferð því rokið var svo mikið. Fór þó fljótlega að hugsa um hvernig best væri að fara til baka. Lét mig þá detta og skreið aftur til lands. Hef ekki á skauta komið síðan.

Við Hreðavatn var glæsilegur sumarbústaður sem aldrei var kallaður annað en Milljón. Haft var fyrir satt að svo mikið hefði bústaðurinn kostað í krónum talið (gömlum) og þótti óheyrilega mikið. Einu sinni gekk ég alla leið út að Milljón og til baka aftur.

Betra er að veifa röngu tré en öngu, segir formaður Framsóknarflokksins eða eitthvað í þá áttina. Ég get ekki að því gert að mér finnast tillögur Sigmundar og fleiri um 20 prósent afslátt af öllum lánum vera svolítið hókus-pókuslegar. Til að hlutirnir virki þurfa flestir að skilja hvað verið er að tala um. Ég viðurkenni að ég skil Sigmund Davíð oft frekar illa.

Annars mátti ég varla vera að því að gera nýja bloggfærslu núna því það var svo mikið fjör í athugasemdakerfinu hjá mér í gær. Það var Evrópusambandsaðild sem þar var til umræðu. Bifröst er ekki nærri eins spennandi.

 

704- Jón Valur Jensson, Walter Scott, Ivanhoe, Sigurður Þór Guðjónsson og fleiri

Heimsókn Dalai Lama er mjög í fréttum nú. Fróðlegt er að fylgjast með bloggskrifum um þau mál og trúarbragðaþrætum sem af þeim spretta. Sigurður Þór Guðjónsson gerir að umtalsefni umfjöllum Jóns Vals Jenssonar um karlinn. Athugasemdir við færslur þeirra Sigurðar og Jóns eru skemmtilegar þó erfitt sé að sjá hvenær rétt sé að hætta athugasemdalestri. 

Jón Valur Jensson hefur staðreyndir oftast á hreinu. Einkum þó staðreyndir sem styðja hans málflutning. Aðrar staðreyndir eru minna virði.  Ég hef áður látið þess getið í bloggi að ég telji Evrópusinnum til framdráttar að Jón Valur Jensson skrifi og tali sem allra mest um Evrópumál. Öfgamenn af hans sauðahúsi fæla menn frá andstöðu við aðild.

Ein af fyrstu alvörubókunum sem ég las í bernsku var Ívar Hlújárn eftir Sir Walter Scott. Hún var að sjálfsögðu á íslensku og mynd sem var nánast hálf blaðsíða á hverri einustu síðu. Þetta hefur áreiðanlega verið einhver úrdráttur úr hinu mikla og fræga verki Scotts og ég minnist þess ekki að hafa séð þessa bók síðar á lífsleiðinni.

Saga þessi og helstu persónur hennar standa mér ljóslifandi fyrir hugskotsstjónum enn í dag. Fyrst var það nú hann Vambi hirðfífl sem sagði ævinlega „Pax vobiscum" þegar hann lauk máli sínu þó hann væri ekki alveg viss um hvað það þýddi. Einnig vísaði hann rangt til vegar manninum sem síðar kom í ljós að var sjálfur Ríkharður ljónshjarta og svarti riddarinn sigursæli.

Svo má auðvitað nefna Sjóðrík og Ívar son hans, gyðinginn ágjarna og Rebekku dóttur hans, ásamt annarri kvenhetju sem ég man ekki nafnið á og ýmsir fleiri komu við sögu.

Áhrifamiklar burtreiðar fóru fram þar sem svarti riddarinn dularfulli vann frækinn sigur. Í lokin var svo mikill bardagi sem lauk með því að kastali Sjóðríks brann.

Ég man ennþá eftir mörgum myndunum í þessari bók og held að í henni sé líka frásögn af Hróa Hetti (Robin Hood), stóra Jóni og sýslumanninum í Nottingham. Margt fleira úr þessari ágætu sögu mundi eflaust rifjast upp fyrir mér ef ég nennti að gúgla hana.

Því nefni ég þetta að í Greppaminni sem ég er að hamast við að lesa um þessar mundir svona um leið og Úkraínsku traktorssöguna er grein á ensku sem heitir „Outlaws in medieval England and Iceland" eftir Anthony Faulkes. Þar gerir höfundur samanburð á enskum útlögum eins og Hróa Hetti og svo íslenskum eins og Gretti sterka, Gísla Súrssyni og Herði Grímkelssyni.

Ekki er hægt að segja að frásagnir þessar séu líkar en ljóst er að höfundur hefur lesið Grettlu, Gísla sögu Súrssonar og Harðar sögu og Hólmverja. Allir kannast við Gretti og Gísla en úr Harðar sögu og Hólmverja er mér langminnisstæðust frásögnin af sundi Helgu jarlsdóttur konu Harðar með syni sína tvo til lands úr hólmanum í Hvalfirði.

Einnig þekkir höfundur greinarinnar vel til sagnanna um Robin Hood sem vel getur hafa verið uppi á dögum Ríkharðar ljónshjarta (Sturlungaöld??) hafi hann verið uppi á annað borð.

Það hryggir mig að tölvumenn RUV skuli ekki geta lært á tækin sín. Held samt að margir vilji fylgjast með fréttaútsendingum RUV á Netinu.

 

703 - Torfhildur Þorsteinsdóttir Hólm

Ég hef aðra sýn á íslenskar bókmenntir en flestir aðrir held ég. Í mínum augum eru Torfhildur Hólm, Guðmundur Magnússon (Jón Trausti) og Ólafur Jóhann Sigurðsson með merkustu rithöfundum á Íslandi síðustu aldirnar. Jú jú, Guðmundur Kamban, Halldór Laxness, Gunnar Gunnarsson og Þórbergur Þórðarson voru vissulega góðir höfundar en stóðu þeim fyrrnefndu ekkert endilega framar miðað við þann tíma sem þeir skrifuðu sín bestu verk á. Jón Thoroddsem var líka ágætur höfundur en í raun eru Piltur og stúlka og Maður og kona dönsk verk.

Bókin Greppaminni er mín aðalfjársjóðskista um þessar mundir. Ein grein er þar um Torfhildi Hólm. Hún er eftir Dagnýju Kristjánsdóttur bókmenntafræðing. Þetta er stórfróðleg grein og í henni kemur glögglega fram að Torfhildur var á margan hátt langt á undan sinni samtíð og ruddi mjög brautina fyrir eftirkomendur.

Fyrir allmörgum árum las ég sögu Torfhildar um Brynjólf biskup Sveinsson í Skálholti. Brynjólfur var faðir Ragnheiðar þeirrar sem eignaðist barn í lausaleik með Daða Halldórssyni sem frægt er. Þetta er fyrsta sögulega skáldsagan á íslensku og Torfhildur var fyrst íslenskra rithöfunda til að lifa alfarið á skáldskap sínum. Í sögunni um Brynjólf Sveinsson fylgir hún raunveruleikanum eins vel og henni er unnt en hikar ekki við að bæta inn í söguna ýmsu sem henni finnst sennilegt. Gerir Brynjólf einfaldlega að mennskum og breyskum manni.

Eftir að hafa lesið bókina um Brynjólf biskup var ég fróðari um sautjándu öldina en margir aðrir. Einhverju sinni tók ég á Netinu eins konar krossapróf í Íslandssögu og fékk þar háa einkunn fyrir kunnáttu mína í sögu Íslands á sautjándu öld. Þá var ég nýbúinn að lesa söguna um Bryjólf biskup og það hjálpaði mér mjög.

Það sem Dagný skrifar um Torfhildi Hólm og bókina um Brynjólf biskup er ágætt. Einkum fannst mér fengur að hugleiðingum hennar um hjúskaparmál Brynjólfs en þar skrifaði Torfhildur einum of mikið í kringum hlutina.

Skilningur bókmenntafræðingsins á meiningu Torfhildar með sögunni er líka athyglisverður þó ekki verði farið út í hann hér. Í sem allra stystu máli túlkar hún söguna sem árás á feðraveldið og má það vissulega til sanns vegar færa að minnsta kosti að einhverju leyti.


702 - Greppaminni og grein eftir Gísla Sigurðsson

Er um þessar mundir að lesa allmerkilega nýútkomna bók. Hún heitir „Greppaminni" og er rit til heiðurs Vésteini Ólasyni sjötugum en það varð hann 14. febrúar í ár. Bókin mun hafa komið út um það leyti.

Sú grein sem ég las fyrst allra í bókinni er eftir Gísla Sigurðsson og hann nefnir hana: „Þögnin um gelísk áhrif á Íslandi." Þar er rætt um efni sem ég hef talsverðan áhuga á. Nefnilega uppruna Íslendinga og landnámið fyrir landnám.

Á sama hátt og það virðist álit flestra að yfirleitt sé hægt að kenna Dönum um flest það sem miður hefur farið hér á Íslandi á undanförnum öldum og allt fram til 1918 virðist það vera skoðun flestra að norrænir menn hafi numið hér land um 874 eða þar um bil og hafi verið að mestu einir um landnámið.

Báðar þessar skoðanir eru rangar og er margt sem styður þá ályktun.

Þetta með Danina er margtugginn sannleikur. Það voru ekki danir sem héldu okkur niðri og komu í veg fyrir verklegar framfarir í landinu og þéttbýlismyndun við sjávarsíðuna heldur vistarbandið og þarmeð sú stétt stórbænda sem flestar jarðirnar átti á landinu og réði því sem hún vildi. Hungursneyðir og hvers kyns óáran var fremur þeim að kenna en Dönum. Einkum var það þó auðvitað veðráttan og tíðarfarið sem olli þessu.

Sú skoðun að norrænt fólk hafi numið hér land undir lok níundu aldar og aðrir átt þar afar lítinn hlut að máli er samkvæmt nýjustu erfðafræðirökum alröng. Keltnesk eða gelísk áhrif hafa alltaf verið mikil hér á landi þó reynt hafi verið að gera sem minnst úr þeim.

Nýjustu erfðafræðilegar rannsóknir og athuganir þær sem Jón Steffensen gerði á sínum tíma á Landnámu sýna að lágstéttarfólk (þrælar og fátæklingar) ásamt kvenfólki hefur að verulegum hluta verið af keltneskum uppruna á landnámsöld. Sú yfirstétt karla sem mestu réði hefur hinsvegar verið að stærstum hluta af norrænum uppruna. Hversu útbreidd byggð var í landinu áður en Norðmenn námu hér land í allstórum stíl á síðari hluta níundu aldar er erfitt að vita. Kannski var sú byggð einkum bundin við ákveðin svæði. Að hér hafi einungis verið örfáir einsetumenn er fráleitt.

Norræn tunga varð ráðandi á Íslandi og útrýmdi að mestu áhrifum gelískunnar Á sumum svæðum landsins, einkum á Vesturlandi og Suðurlandi eru þó áhrif gelísku á örnefni og annað þess háttar augljós.

Áhugaverð er sú kenning Gísla sem birtist í áminnstri grein í Greppatali að sú bókmenntalega og skáldlega æð sem einkum aðgreindi Íslendinga frá öðru norrænu fólki á landnámsöld og fyrstu aldirnar þar á eftir sé aðallega tilkomin vegna gelískra áhrifa.

Skemmtileg er frásögn hans af því að Þorgerður brák hafi líklega verið írskur þræll og kennt Agli Skallagrímssyni að yrkja. Sömuleiðis er frásögn hans af sölunum sem Þorgerður dóttir Egils færði honum til að rífa hann upp úr harmi sínum góð. Þorgerður á að hafa lært af Ólafi Pá manni sínum og Melkorku tengdamóður sinni að meta söl en augljóst er af frásögn Eglu að Egill kannaðist ekki við þann sið.

Kannski eigum við einkum fólki frá Bretlandseyjum að þakka að við erum og höfum alltaf verið mikið gefin fyrir skáldskap og bókmenntir.

Svo eru hér nokkrar nýlegar myndir.

IMG 2770Hér sést vel hið fagra fjall Akrafjall.

IMG 2780Þessi viti er á Akranesi.

IMG 2782Þessi klöpp er líka á Akranesi.

IMG 2801Hér gnæfa Keilir og Trölladyngja yfir byggðinni og eftir nýjustu fregnum að dæma er jörð farin að hrista sig á þessum slóðum.

IMG 2831Mörkin tala (saman). Þessi mynd er tekin í Kópavogi.

IMG 2839Vörur til sölu í Bónus við Smáratorg.

IMG 2857Illúðleg ský við Kársnesið.

IMG 2860Sólarlagið nálgast.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband