712- Icesave og ríkissaksóknari

Það er vissulega eðlilegt að vera á móti því að samþykkja væntanlegt frumvarp um ríkisábyrgð á Icesave samningnum. Fyrir því eru gild rök. Ég hef hingað til verir hallur undir samþykki en það álit gæti breyst. Helstu rökin fyrir samþykkt frumvarpsins eru að það sé óhjákvæmilegt. Ef þessi ósköp verði ekki samþykkt fari allt til fjandans. Ríkisstjórnin hrökklist frá völdum og alger upplausn verði ofaná. Allir verði á móti okkur Íslendingum og við eigum engan kost annan en að fara aftur í moldarkofana.

Allra best er samt að eiga þann kost að ýta þessu frá sér. Sökin er annarra og ég get bara hætt að hugsa um málið og farið að gera eitthvað annað. Hinir kjörnu alþingismenn hafa boðist til að vera umboðsmenn okkar og taka ábyrgð á þessu. Látum þá gera það. Líklegt er að flestir þeirra finni sér afsakanir fyrir að fylgja sínum formönnum. Guðfríður Lilja Grétarsdóttir skoraði áreiðanlega mörg prik með því að lýsa yfir að hún væri á móti þessu þó formaður flokks hennar hafi staðið að samningnum.

Því hefur verið hreyft að eðlilegt sé að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu um þetta mál. Það er alls ekki fráleitt og mikil spurning hvers vegna lítið er nú rætt um kröfuna um stjórnlagaþing og þjóðaratkvæðagreiðslur.

En hvað tekur við ef frumvarpið verður fellt. Veit það ekki. Eflaust ekkert gott. Þetta mál er bara stærra og afmarkaðra en það sem alþingismenn eru vanir að greiða atkvæði um. Rökin fyrir samþykkt eru alveg gild. Einkum hugnast mörgum frestunin vel og sú staðreynd að nú getum við farið að snúa okkur að öðru án þess að þetta sé hangandi yfir okkur. Óvissan og kyrrstaðan er alla að drepa.

Ekkert gengur að endurheimta eitthvað af þeim peningum sem stolið var frá okkur. Nú er Eva Joly farin að hafa hátt og gera kröfur á stjórnvöld. Kannski hefur það áhrif. Fram kom í Morgunblaðinu í dag að dregist hafi að skipa nýjan ríkissaksóknara vegna lagalegra annmarka. Vegna sleifarlags og aumingjaskapar mundi ég segja.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

"Einkum hugnast mörgum frestunin vel og sú staðreynd að nú getum við farið að snúa okkur að öðru án þess að þetta sé hangandi yfir okkur".

En þetta mun hanga yfir okkur áfram. Það verður ekki hægt að gera neinar áætlanir fyrr en það skýrist hver greiðslubyrðin verður eftir þessi sjö ár.

Og það eru meiri líkur á því en minni að þegar að myndin skýrist reynist greiðslubyrðin óviðráðanleg. Þá þarf að lengja í láninu og við sitjum í vaxta og fátæktargildru.

Allar þjóðir sem eru mjög skuldugar í erlendri mynt eru fátækar. Ísland verður ekki undantekning. Við þurfum að klára þetta mál strax þótt það gæti kostað "einangrun" til lengri eða skemmri tíma. Annað hvort þurfum við að fá litla eða enga vexti og mjög langan lánstíma eða þá að við verðum að neita að borga.

Hans Haraldsson 11.6.2009 kl. 00:52

2 Smámynd: Baldur Gautur Baldursson

Ég vona innilega að Eva Joly verði ekki svipt starfinu sem rannsóknarkona í spillingarmálum þjóðarinnar.  Það þarf að stinga út og ég tel Evu Joly vera rétta manneskju til starfans. Nú er bara að gæta þess að hún hafi fjármuni, myndugleika og mannaforráð til að leysa þennan Gordíanshnút allra tíma á Íslandi.

Baldur Gautur Baldursson, 11.6.2009 kl. 13:25

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband