Bloggfærslur mánaðarins, október 2009

850 - Fljótavík

Vorið 2007 dvaldi ég í nokkra daga í Fljótavík á Vestfjörðum. Við keyrðum til Ísafjarðar og fórum með flugvél þaðan til Fljótavíkur og eins til baka. Um þessa ferð skrifaði ég í bloggi númer 62 og ætla ekki að endurtaka það. 

Ekki er hægt að líkja þessari ferð við utanlandsferð. Þar er enginn samanburður mögulegur. Í minningunni tekur Fljótavík fram flestum öðrum stöðum sem ég hef komið á. Helst að Hveragerði jafnist á við hana.

Fögur þessi Fljótavík
finnst mér alltaf vera.
Auðnin þar er engu lík
og ekkert þarf að gera.

Einangrunin er líka engu lík. Nokkrum árum fyrir síðustu aldamót fór ég í vikuferð um Hornstandir. Þá sigldum við frá Ísafirði inn í Hrafnsfjarðarbotn og gengum sem leið lá yfir í Furufjörð og þaðan í Hornvík og Kjaransvík og síðan yfir fjallið til þorpsins í Hesteyrarfirði.

Eitt það allra eftirminnilegasta úr þeirri ferð er einmitt einangrunin. Enginn sími, ekkert útvarp, ekki neitt. Maður er bara einn með sjálfum sér og það eina sem skipti máli eru ferðafélagarnir og þeir sem á leið manns verða og svo auðvitað landið og náttúran. Að öðru leyti er maður gjörsamlega einn í heiminum.

Sagt er að 5700 manns séu dánir úr svínaflensunni sem nú gengur yfir heiminn. Ekki margir á Íslandi þó en mér er sama. Ég er skíthræddur við hana. Hef fengið flensu og það er alveg nógu slæmt. Skilst að svínaflensan sé verri en sú venjulega.

Um daginn var forvardað til mín bréfi sem upphaflega var stílað á Netútgáfuna. Það var frá Guðmundi Sigurfrey höfundi bókarinnar um Nostradamus sem verið hefur á vef útgáfunnar. Í bréfinu var ég beðinn um að taka bókina niður því verið væri að endurútgefa hana. Hafði þegar samband við Björn Davíðsson hjá Snerpu sem gerði bókina óaðgengilega gestum Netútgáfunnar. Geri ráð fyrir að þar með sé mínum afskiptum af þessu máli lokið.


849 - Icesave farðu burt, burt, burt

Halldór Kiljan Laxness orti einhverntíma: 

Mamma sín fór burt, burt, burt.
Burt er hún farin hún mamma.
Mamma sín fór hvurt, hvurt, hvurt?
Hvurt er hún farin hún mamma?

Þetta var mér sagt og ég trúi því. Laxness var engum líkur.

Mér finnst aftur á móti ótrúlegt og með miklum ólíkindum að heilu stjórnmálaflokkarnir haldi að hægt sé að segja við Icesave: Farðu bara burt, burt, burt. Við ætlum að vera í fýlu og viljum ekki borga neitt. Staksteinar Morgunblaðsins mæla þó sterklega með þessari aðferð. Og talsverður fjöldi kjósenda virðist vera á sömu skoðun. Ekki átta ég mig á því hvernig þeir hafa komist á hana og hjá öðrum en íslenskum kjósendum virðist hún ekki eiga neinn hljómgrunn.

Auðvitað væri gott ef þetta væri hægt. En svo er bara alls ekki. Margir þrástagast á að þeir vilji fara dómstólaleiðina. Það var kannski einhverntíma hægt en sá möguleiki er löngu liðinn. Langlíklegast er líka að sú leið hefði orðið okkur miklu dýrari en sú sem nú er talað um.

Við Íslendingar erum í algjörri afneitun. Viljum enga ábyrgð bera. Vælum utan í nágrannaþjóðunum fyrir að henda ekki peningum í okkur. Morgunblaðið rembist eins og rjúpan við staurinn að telja lesendum sínum trú um að hvítt sé svart og svart hvítt. Enda er það að fara á hausinn. Vildi bara óska að Fréttablaðið færi sömu leið og raunverulega óháð dagblað kæmi í staðinn. Nú eða ekkert blað. Hvað höfum við svosem við dagblað að gera. Er það ekki kappnóg af auglýsingum sem mokað er inn um bréfalúgur landsmanna á hverjum degi. Dagblöðin eru bara til auglýsendanna vegna. Annað efni sem slysast með væri mun betur komið þar sem þeir sem kærðu sig um gætu sótt það án endurgjalds og án þess að fylla allt af rusli.

Dagblöðin ættu að vera öll á einum stað og þeir sem endilega vildu lesa þau gætu náð í þau. Þar mætti gluggapósturinn allur gjarnan vera líka.


848 - Búsáhaldabyltingin

Þegar mótmælendur grýttu lögregluþjóna við Stjórnarráðshúsið í janúar í vetur og almennir borgarar úr röðum mótmælenda stilltu sér upp á milli grjótkastaranna og lögreglunnar held ég að legið hafi við raunverulegu byltingarástandi hér á Íslandi. Þjóðin hafi hinsvegar sýnt að hún vill ekki slíkt og þeir sem kalla eftir byltingu núna eru að misskilja ástandið. 

Umtalað er hve Moggablogginu hefur hrakað að undanförnu. Tvennt er það einkum sem ég hef haft til viðmiðunar um vinsældir þess. Til að komast í sæti 400 á vinsældalistanum hefur oft þurft svona þrjú til fimmhundruð vikuheimsóknir. Nú eru þær 195. Hinsvegar er það hve langt er síðan nýr bloggari númer 400 kom. Nú eru 112 dagar síðan og ég held að áður fyrr hafi dagarnir verið miklu færri. Það erum við sem eftir erum hér sem væntanlega tryggjum áframhaldandi vinsældir Moggabloggsins. Það er að segja ef það verður áfram vinsælt. Reyndar veit ég ekki hve margir heimsækja mbl.is eða blog.is og hvert hlutfall þeirra er í heildarvefheimsóknum netverja hér á landi en mælingar eru til um það og segja sennilega til um auglýsingaverð.

Flest sem um Schengen-samkomulagið er sagt er afskaplega neikvætt. Fæstir skilja mikið í því og alls ekki hver fengur er í því fyrir okkur Íslendinga. Þegar verið var að koma þessu á var sagt að kostirnir væru margir. Meðal annars áttum við að geta fengið strax allar upplýsingar sem við þyrftum um glæpamenn sem legðu leið sína hingað. Ekki held ég að það hafi gengið eftir. Mér vitanlega eru þeir ekki sérmerktir þegar þeir koma.

Jú, eitt er sennilega Schengen að þakka. Við eigum tiltölulega auðvelt með að losa okkur við óæskilega hælisleitendur. Kannski er það ekki sérlega jákvætt fyrir hælisleitendurna, en ekki verður við öllu séð. Eitthvað hlýtur að vera jákvætt við Schengen þó Bretar og Írar hafi ekki komið auga á það.

Og nokkrar myndir í lokin sem teknar voru í rokinu í dag.

IMG 0015Svanir og endur.

IMG 0020Skýjafar í Árbænum.

IMG 0022Er þetta hvönn?

IMG 0031Önd í öldugangi.

IMG 0032Vatnsflaumur í Elliðaárdalnum.


847 - Austurlandaegill

Mér er sagt að hér bloggi varla orðið aðrir en hægri sinnaðir öfgamenn. Mér er alveg sama. Hér ætla ég að blogga enn um sinn. Það getur vel verið að ég bloggi minna um bankahrunið og stjórnmál almennt en aðrir. Það er samt ágætt að blogga hér og ég kann orðið vel við kerfið sem hér ræður ríkjum. Doddson truflar mig ekki heldur og mér finnst ég ekki vera að styðja hann á neinn hátt þó ég haldi áfram að vera hér. Reyni bara að láta bankahrunið og stjórnmálin ekki hafa of mikil áhrif á mig.

Hirðin eina hefur peð
hádegis í móunum.
Truflar sumra grálynt geð
sem gjarnan vilja lóga honum.

Einhver var að gera athugsemd við að Loftur flugnavinur væri kominn í fjórða sætið á vinsældalistanum og taldi það til marks um að hægri sinnaðir öfgamenn réðu orðið hér ríkjum. Ég er ekki sammála því. Þónokkrir af þeim sem vanir voru að vera ofarlega á vinsældalistanum er hættir að blogga hér. Þessvegna er í fyllsta máta eðlilegt að aðrir komi í staðinn. Sjálfur er ég alls ekki frá því að gestum hafi fjölgað uppá síðkastið hjá mér.

Eitt er það blogg sem ég skoða oft um þessar mundir en það er bloggið hans Egils Bjarnasonar frænda míns (austurlandaegill.blog.is) Það er alltaf gaman að fylgjast með honum á ferðalögum. Nú er hann að flækjast um Eþíópíu og bloggar reglulega þaðan. Myndirnar hans eru líka feikigóðar.


846 - Teygjustökk og síðbuxur

Fyrsta alvöru teygjustökkið sem ég sá á ævinni var fyrir allmörgum árum við Kringluna. Þar var öllum boðið að stökkva ef þeir þyrðu og lengi vel voru menn ekki áfjáðir í það. Einn lét sig þó hafa það og hoppaði af palli einum sem krani nokkur hélt í háalofti. Sá sem stökk og var með teygjukaðal um fæturna á sér var enginn annar en Tommi í Tommaborgurum sem nú er kominn með Fischerskegg eitt mikið og vígalegt. Mér þótti samt meira til hans koma í stökkinu.

Metró sem áður var byggingarvöruverslun í Skeifunni er nú tekin við McDonalds. Sama er mér. Væri kannski þess virði að setja saman vísu um það. Davíð sjálfur gæti komið þar við sögu. Dettur bara ekkert í hug. Samkvæmt mynd í Moggatetrinu virðist mér umbúðalínan minna á matvælalínu hjá MS.

Las í dag ágæta grein eftir Njörð P. Njarðvík í boði Láru Hönnu. Hún gerir það oft að taka myndir af athyglisverðum greinum og setja þær á bloggið sitt. Fyrir það er ég henni þakklátur því ég nenni yfirleitt ekki að lesa dagblöðin. Bloggið hennar og fleiri blogg skoða ég samt yfirleitt á hverjum degi.

Rauðhærður riddari reið inn í Rómaborg. Rændi þar og ruplaði rabbarbara, radísum og rófum. Hvað eru mörg R í því? Þetta er ein af þeim þulum sem vinsælar voru í mínu ungdæmi. Man að ég velti því líka oft fyrir mér hvað átt væri við þegar aldrað fólk talaði um sín sokkabandsár. Sjálfur man ég eftir að hafa verið í koti og notað sokkabönd þegar ég var lítill og hve mikil upphefð það var að fá að fara í síðbuxur.


845 - Um Loft, Jón og ýmislegt annað

Nú er hamast við að endurvekja útrásartraustið og taka margir þátt í því. Útrásarvíkingarnir ætla sér að komast aftur til valda.

Umrætt er meðal bloggara hvernig Morgunblaðið hagar sér. Birtar hafa verið glefsur úr bloggfærslum eða athugasemdum Lofts Altice Þorsteinssonar og Jóns Vals Jenssonar og hneyklast á þeim. Ég hef lent í skrifklónum á þeim báðum og veit að þeir svífast einskis. Samt mundi ég í sporum Moggabloggsstjórnenda hika við að loka á þá. Að loka á umræðu vil ég forðast í lengstu lög. Einhvers staðar verður þó að setja mörkin. Ummæli þeirra um Jóhönnu og Steingrím eru þannig að engin furða er þó fólki ofbjóði.

Vinstri menn sumir ætlast til að lokun bloggs Halldórs Egilssonar verði tekin aftur. Hann er sagður vera litli landssímamaðurinn sem umtalaður varð fyrir nokkrum árum og á að hafa skrifað illa um Baldur Guðlaugsson í blogg-grein sem nefnd er „Skinheilagur innherjasvikari". Ég hef því miður ekki séð þá grein og ekki nein málefnaleg rök fyrir því að vegna hennar hafi bloggi Halldórs verið lokað.

Ef hrunflokkarnir hefðu fengið ráðningu í hlutfalli við það sem þeir áttu skilið í síðustu kosningum hefði öðruvísi ríkisstjórn verið mynduð að þeim loknum. Ríkisstjórn sem enga ábyrgð hefði borið á bankahruninu.

Slík ríkisstjórn hefði getað sett sig á háan hest og neitað öllum samningum, bæði um Icesave og annað. Sú ríkisstjórn sem nú situr ber að talsverðu leyti ábyrgð á hruninu og vill að sjálfsögðu semja. Væru Sjálfstæðis- eða Framsóknarmenn í stjórn núna mundu þeir auðvitað vilja semja eins og skot. Þetta vita allir en flokkshestar viðkenna það ekki ótilneyddir.

Stjórnmálin á Íslandi eru þannig að tvískinnungur af þessu tagi þykir eðlilegur. Oftast er mikilvægara að valda andstæðingnum hörmungum en gera það sem eflir þjóðarhag.

Fyrir neðan blogg Eiríks Jónssonar á dv.is stendur eftirfarandi:

Ath: Eldri athugasemdir eru birtar hér fyrir neðan, en hér eftir verður aðeins hægt að skrifa athugasemdir með Facebook aðgangi.

Á endanum verð ég eflaust að slaka á klónni varðandi Facebook. En fleiri beita ofbeldi en Davíð.

 

844 - "Allt er betra en íhaldið"

Séra Baldur Kristjánsson í Þorlákshöfn skrifar um helstu dægurpenna landsins. Hann vill meina að núorðið hverfi frægir og umtalaðir menn ekki bara hægt og hljóðalaust þegar þeirra tími er kominn heldur gerist þeir bloggarar, ritstjórar eða eitthvað þess háttar. Það er nefnilega svo auðvelt að láta að sér kveða á Netinu nú orðið. Bara ýta á takka og þá gusast yfir alla.

Mér finnst hann einkum vera að tala um Eið Svanberg Guðnason. Það er vegna þess að ég les jafnan pistlana hans. Hann einbeitir sér að gagnrýni á málfar, framburð og aðrar vitleysur í fjölmiðlum og gerir það vel. Einhæft verður það samt til lengdar því fjölmiðlafólk virðist vera ótrúlega illa að sér og margt af því alls ekki á réttri hillu. Auk þess er ritstjórn oft afleit og ekki að sjá að prófarkalestur sé stundaður af neinni alvöru.

Greinin hjá Baldri er full Jónasarleg en samt ágæt. Þegar Jónas Jónsson frá Hriflu var orðinn óþarfur í framsóknarflokknum fór hann að skrifa í Mánudagsblaðið og dró hvergi af sér, svo þetta er ekkert nýtt. Þegar ég segi að grein Baldurs sé Jónasarleg á ég samt við Jónas Kristjánsson fyrrverandi ritstjóra en ekki Hriflu-Jónas.

„Allt er betra en íhaldið", sagði Hermann Jónasson forðum og sú hugsun er sennilega það eina sem heldur núverandi ríkisstjórn saman.

Morgunblaðinu fer aftur. Hélt að áhrif Davíðs næðu ekki til Moggabloggsins og afturför þess væri einkum vegna þess ágæta fólks sem héðan hefur horfið. Er ekki lengur viss um að svo sé. Þó Davíð sé greinilega að sigla Mogganum í strand er hávaðinn í náhirðinni og útrásarvíkingunum slíkur að ríkisstjórnin gæti vel runnið á rassinn.

Fjandinn sjálfur. Ýtti óvart á cappuccino takkann á drykkjarvélinni í staðinn fyrir kakótakkann. Það voru ekki góð skipti. Kakóið er mun betra.

Það er alltaf að koma betur og betur í ljós að stjórnmálaumræðan hér á Íslandi minnir um margt á frægt barnaspil. Eiginlega er ég sannfærður um það núna að Ömmi er með Svarta Pétur.

 

843 - Varðhundar valdsins

Hættulegasta fyrirbrigðið á Internetinu eru nafnlausir einstaklingar sem henda skít í allar áttir og eyðileggja orðstír vammlausra manna. Spúa eitri sínu um allan þjóðarlíkamann og reyna að valda sem mestum skaða. Þetta er skoðun margra. Ekki bara Sturlu Böðvarssonar og Björns Bjarnasonar. Margir taka undir þetta og atlaga sú sem nú er gerð að tjáningarfrelsinu er heiftarlegri en áður hefur þekkst. 

Það er langt frá því að ég sé yfirleitt sammála Agli Helgasyni í stjórnmálaskoðunum. En í viðleitninni til að hrista af sér óværu ritskoðunar stend ég heilshugar með honum. Vegna þess að nafnleysi er stundum misnotað í miður góðu skyni á nú að hefta málfrelsi allra þeirra sem hafa eitthvað að segja en þurfa að leyna nöfnum sínum og uppruna. Ég er ekki þeirrar skoðunar að drepa beri sjúklinginn til að stöðva sjúkdóminn. Sú aðferð hefur verið reynd og gefist illa. Fyrir hvert höfuð sem höggvið er spretta upp þrjú önnur.

Í mörgum tilvikum býr Gróa á Leiti í blogginu og athugasemdum þess. Við því er ekkert að gera. Kjaftasögurnar berast út með ógnarhraða. Það er bara betra en að þær kraumi lengi í skúmaskotum og aukist og margfaldist þar. Áhrif þeirra verða kannski talsverð um stund, en þeir sem saklausir eru og fyrir þeim verða, fá þó tækifæri til að bera þær af sér. Nafnlaust níð er heldur ekki til vinsælda fallið og fyrr en varir snýr fólk baki við slíku. Atkvæðin liggja hjá almenningi og fólk er búið að fá nóg af ráðsmennsku liðinna ára.

Ritskoðun er auðvelt að færa í fagran búning föðurlandsástar og hreinleika. Búning þjóðrembu og sjálfsánægju einnig. Úlfshárin sjást þó jafnan. Nafnlausir og orðljótir athugasemdavitleysingar á Eyjunni eru aðalmálið núna. Næst verða það aðrir og svo ég og þú. Við megum samt halda áfram svolitla stund enn því við höfum trúað Stóra Bróður fyrir kennitölum okkar, en okkur er ráðlegast að fara varlega.

 

842 - "Nei, þetta er of þröngt"

Í athugasemdum hjá Eiði Svanberg Guðnasyni við bloggfærslu sem hann nefnir: „Mola um  málfar og miðla 181" eru markverðar gæsalappapælingar og bendi ég áhugamönnum á þær. Eiður ræðir auk þess um málfar og framburð en á því hef ég mikinn áhuga. Málfar íþróttafréttamanna er oft til umræðu. Málfar þeirra er gjarnan óvandað en afsakanir fyrir því er oftast auðvelt að finna. 

Stundum liggur þeim mikið á og þá verða til orðskrípi eins og „himstrakeppi" sem á víst að þýða heimsmeistarakeppni. Stundum liggur þeim hins vegar lítið á og hafa lítið að segja og þá verða til fjólur eins og „Markvörður Íslands spyrnir nú frá marki sínu" (það yrði aldeilis upplit á mönnum ef hann spyrnti frá marki andstæðinganna). Þegar sókn upp miðjuna mistekst þá er gjarnan sagt og andvapað þungt. „Nei, þetta er of þröngt."

Kiljan í gærkvöldi (miðvikudag) var áhugaverð. Þar ræddi Egill Helga við Bjarna frænda um nýútkomna skáldsögu hans og að auki við Eyþór Árnason sem ég þekki dálítið frá veru minni á Stöð 2.

Heilmikill taugatitringur er nú á blogginu vegna þess að Björn Bjarnason sjálfur gagnrýnir Egil Helga ótæpilega fyrir blogg sitt og fleira. Ég get ekki að því gert að mér finnst Egill vera orðinn fulláberandi án þess að ég vilji eitthvað vera að gagnrýna hann. Silfrið horfi ég oft á og mér finnst alls ekki hægt að gagnrýna val hans á viðmælendum þar. Auðvitað hefur hann skoðanir á málum. Skárra væri það nú. Það gerir BB líka. Sá í dag fyrirsögn á Mbl.is sem var einhvern vegin svona: „Björn á skautum réðst á Sirkusstjóra." En hún var víst ekkert um þetta mál.

Í kastljósi kvöldsins var appelsínuhúð frestað til morguns af óviðráðanlegum orsökum.


841 - Að fréttabloggast

Þetta eilífa fréttabloggs-stand er heldur leiðinlegt. Af hverju þarf ég alltaf að hafa skoðanir á öllu um Icesave, Séra Gunnar eða hvað það er sem eftst er á baugi hverju sinni? Jafnvel Óskar Bergsson eða mansalsmál vekja ekki hjá mér sterkar tilfinningar enda er ég búsettur í Kópavogi. Finnst merkilegast hvað allir sem um þessi mál skrifa eru með allt á hreinu og vita bókstaflega allt um þau. Tökum Icesave sem dæmi. Ekki hef ég hugmynd um hvernig dómsmálum um það mundi ljúka, væri sú leið í boði. Nær allir sem ég hef séð blogga um þetta mál eru samt með það alveg á hreinu að Íslendingar mundu vinna þau fyrirhafnarlaust og auðveldlega. Ekki ég. 

Flokkspólitíkin er farin að ráða mestu um skoðanir fólks í Icsave og bankahruns málum. Yfirleitt er það sem áhersla er lögð á einmitt það sem mundi koma flokki viðkomandi sem allra best. Þetta er hryggilegt.

Fritz Már Jörgensen sendir mér póst til að minna mig á að nú sé Sjónvarpsstöðin  ÍNN sú eina á landinu (fyrir utan RUV) sem sendir sitt efni ókeypis. Með fylgir listi yfir verð á aulýsingum. Þetta sendir hann mér (eða Netútgáfunni) sem aldrei auglýsi neitt. Jæja, sama er mér. Sveltur sitjandi kráka en fljúgandi fær.

Sennilega er ég að fá einhvern snert af bloggleiða. Nenni varla að blogga meira núna. Þetta daglega svartagallsraus er alveg að drepa mig. Finnst miklu skemmtilegra að blogga um eitthvað annað.

Ég er í vafa um að það sé Alþingi til framdráttar að sjónvarpa yfir landslýð umræðum í þingsal. Málfundaæfingar þær sem þar tíðkast eru sumum hvimleiðar. Svo mismæla þingmenn sig svo oft að fólki ofbýður. Í dag var ég til dæmis að hlusta á umræður þar og þá sagði Siv Friðleifsdóttir eitthvað á þessa leið: „Ég vil fagna þennan tón..."

 

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband