844 - "Allt er betra en íhaldið"

Séra Baldur Kristjánsson í Þorlákshöfn skrifar um helstu dægurpenna landsins. Hann vill meina að núorðið hverfi frægir og umtalaðir menn ekki bara hægt og hljóðalaust þegar þeirra tími er kominn heldur gerist þeir bloggarar, ritstjórar eða eitthvað þess háttar. Það er nefnilega svo auðvelt að láta að sér kveða á Netinu nú orðið. Bara ýta á takka og þá gusast yfir alla.

Mér finnst hann einkum vera að tala um Eið Svanberg Guðnason. Það er vegna þess að ég les jafnan pistlana hans. Hann einbeitir sér að gagnrýni á málfar, framburð og aðrar vitleysur í fjölmiðlum og gerir það vel. Einhæft verður það samt til lengdar því fjölmiðlafólk virðist vera ótrúlega illa að sér og margt af því alls ekki á réttri hillu. Auk þess er ritstjórn oft afleit og ekki að sjá að prófarkalestur sé stundaður af neinni alvöru.

Greinin hjá Baldri er full Jónasarleg en samt ágæt. Þegar Jónas Jónsson frá Hriflu var orðinn óþarfur í framsóknarflokknum fór hann að skrifa í Mánudagsblaðið og dró hvergi af sér, svo þetta er ekkert nýtt. Þegar ég segi að grein Baldurs sé Jónasarleg á ég samt við Jónas Kristjánsson fyrrverandi ritstjóra en ekki Hriflu-Jónas.

„Allt er betra en íhaldið", sagði Hermann Jónasson forðum og sú hugsun er sennilega það eina sem heldur núverandi ríkisstjórn saman.

Morgunblaðinu fer aftur. Hélt að áhrif Davíðs næðu ekki til Moggabloggsins og afturför þess væri einkum vegna þess ágæta fólks sem héðan hefur horfið. Er ekki lengur viss um að svo sé. Þó Davíð sé greinilega að sigla Mogganum í strand er hávaðinn í náhirðinni og útrásarvíkingunum slíkur að ríkisstjórnin gæti vel runnið á rassinn.

Fjandinn sjálfur. Ýtti óvart á cappuccino takkann á drykkjarvélinni í staðinn fyrir kakótakkann. Það voru ekki góð skipti. Kakóið er mun betra.

Það er alltaf að koma betur og betur í ljós að stjórnmálaumræðan hér á Íslandi minnir um margt á frægt barnaspil. Eiginlega er ég sannfærður um það núna að Ömmi er með Svarta Pétur.

 

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband