Bloggfærslur mánaðarins, október 2009

840 - Ekkert

Hluti af Sæmundarhætti í bloggi er að blogga á hverjum degi hvort sem maður hefur eitthvað að segja eða ekki. Hef ekkert að segja núna. Er búinn að eyða öllu mínu púðri í komment bæði hjá sjálfum mér og öðrum. Læt þar við sitja. Þessi Sæmundarháttur er ansi þægilegur. Get bara mótað hann on the run.
 

839 - Emanuel Lasker

Þýski heimspekingurinn og stærðfræðingurinn Emanuel Lasker var heimsmeistari í skák frá 1894 til 1921. Á þeim árum voru reykingar leyfðar við skák þó ekki sé svo nú. Vinsælt var að púa vindlareyk beint framan í andstæðinginn.

Einhverju sinni var Lasker að tafli og tók upp vindil og eldfæri og gerði sig líklegan til að kveikja í honum. Andstæðingurinn kallaði þá á skákstjórann og kvartaði undan þessu. Lasker benti á að hann hefði alls ekki kveikt í vindlinum hvað þá púað framan í andstæðing sinn. Andstæðingurinn svaraði þá:

„Já, en þú hefur sjálfur sagt í bók um skák að hótun geti verið sterkari en framkvæmd og svo sannarlega ertu að hóta því að blása vindlareyk framan í mig."

Minnir að það hafi verið 1991 sem tilraun til stjórnarbyltingar var gerð í Rússlandi. Þá voru tölvur yfirleitt ekki nettengdar en þó man ég eftir að þegar skotið var úr fallbyssum á þinghúsið í Moskvu voru menn við tölvur í nærliggjandi húsum sem lýstu því sem var að gerast sitjandi við sínar tölvur og skrifandi á gopher. Internetið er nefnilega alls ekki nýtt. Minnir að það sé frá því laust eftir stríð. Árið 1991 voru fáir á Íslandi sem fylgdust með á Netinu.

Þegar sjóflóðin féllu á Vestfjörðum man ég eftir að hafa oft endursagt það helsta úr fréttum og sett á island-list. Nokkur fjöldi námsmanna fylgdist með því.

Helsti gallinn við frammígjammið á Alþingi er að það heyrist óttalega illa í sjónvarpinu hvað kallað er. Þessi köll eru að færast í aukana og til mikillar skammar fyrir þá sem það iðka. Nefni engin nöfn.

Annars eru pólitískir andstæðingar Icesave samkomulagsins óvenju orðljótir þessa dagana hér á Moggablogginu. Ég segi pass.

 

838 - Stjórnlagaþing

Nú er Icesave-málinu líklega að ljúka. Ég sé ekki annað en ríkisstjórnin muni hafa það í gegn. Þegar Ögmundur sagði af sér sem ráðherra sagðist hann styðja ríkisstjórnina. Ég geri ráð fyrir að hann og fleiri úr óánægjuhóp vinstri grænna samþykki frumvarpið sem til stendur að leggja fram um þetta mál. 

Það er samt augljóst að málið er mjög umdeilt meðal þjóðarinnar og truflar menn ákaflega. Áhrifin sem samþykkt frumvarpsins er talin muni hafa á alþjóðasamfélagið eru áreiðanlega oftúlkuð hjá stjórnarsinnum.

Skoðanakannanir benda til að kjósendur séu aftur að fara til fjórflokksins og er það lítil furða. Borgarahreyfingin hefur ekki hagað sér þannig að líklegt sé að úr áhrifum hans dragi.

Nú er að mestu hætt að ræða um stjórnlagaþing. Ástæðan er einkum sú að næsta vonlaust er að slíkt verði haldið. Verði það haldið eru mestar líkur á að það verði valdalítið hvort sem reynt verður að leyna því eða ekki. Völd sem það hugsanlega fær verða eingöngu frá Alþingi tekin. Óbein völd geta þó orðið talsverð ef vel tekst til. Stjórnmálamenn munu finna ótal ráð til að draga úr völdum þess. Mikill kostnaður verður bara eitt atriði. Miklu máli skiptir hverjir veljast þangað og með hvaða hætti.

Í fréttum hefur verið sagt frá hópi sem kallar sig Mauraþúfuna og ætlar á næstunni að standa fyrir því sem kallað er Þjóðfundur. Hann mun standa í einn dag og verða haldinn í Laugardalshöllinni. Þar munu verða um 300 fulltrúar frá ýmsum stofnunum og samtökum og auk þess einir 1200 þátttakendur sem mér hefur skilist að verði valdir af handahófi úr Þjóðskrá. Þessu verður án efa vel stjórnað og ályktanir sem frá þessum fundi koma geta vel orðið marktækar. Ef Gúgli er spurður um þetta vísar hann aðallega á Facebook og þar held ég að mestar upplýsingar um þetta mál sé að finna.

Sigurður Þór Guðjónsson(nimbus.blog.is) skrifar ágætar blogghugleiðingar í grein sem hann nefnir „Breytt blogg". Þar er margt mjög merkilegt og einlægt að finna og einnig í athugasemdunum. Ég er ekki frá því að Moggabloggið sé að breytast en get þó ekki alveg fullyrt í hvaða átt. Við þurfum samt áreiðanlega að vera á verði gagnvart því að reynt verður á næstunni að gera nýja árás á þá sem blogga og kommenta. Einkum þá nafnlausu. Það má ekki útiloka þá þó stundum sé nafnleysið augljóslega misnotað.


837 - Séra Gunnar

Allir eru á tauginni útaf séra Gunnari. Mér finnst þetta fremur ómerkilegt mál. Viðurkenni þó að auðvitað getur það haft áhrif. Anna K. Kristjánsdóttir ræðir svolítið um þetta á sínu bloggi og segir meðal annars í lokin: „Það grátlegasta er samt það að einustu sigurvegarar í slíkri rimmu sem hér um ræðir eru andstæðingar þjóðkirkjunnar og trúleysingjar."

Mér er ósárt um þó þjóðkirkjan setji niður við þetta. Finnst biskupinn samt hafa rétt fyrir sér í þessu máli. Ef hann má ekki færa menn til í starfi ræður hann ansi litlu. Prestsstarfið er viðkvæmara en önnur fyrir málum sem þessu og ef ósætti er mikið í söfnuðinum vegna prestsins finnst mér að hann eigi að víkja. Ríkiskirkja er reyndar allsekki í takt við tímann. Auðvitað eru mörg mál sem leysa þarf, til að af aðskilnaði ríkis og kirkju geti orðið. Kirkjan ætti samt að stefna í þá átt en ekki berjast á móti því.

Menn eru því vanastir að hafa sinn prest og sína kirkju. Vandamálið er auðvitað hver á að borga prestinum kaup og bera annan kostnað sem leiðir af kirkjulegu starfi. Mér finnst engin ástæða til að ríkið geri það. Auðvitað mundi margt breytast ef ríkið hætti að styðja kirkjuna og líklega er ekki hægt að gera það mjög snögglega. Tími er þó kominn til að ríkið hætti að vasast í trúmálum. Nóg er nú samt.

Umræðan um orkulindir landsins og auðæfi þess á eflaust eftir að fara vaxandi enda er það sú umræða sem mestu máli skiptir. Hvernig við högum okkur í málum sem einkum snerta ókomnar kynslóðir er það mikilvægasta. Okkur finnst kannski að það sé okkar efnalega velferð sem mestu máli skiptir en svo er ekki. Hvernig Ísland framtíðarinnar verður er það sem mestu máli skiptir.

Næstu daga mun pólitísk umræða ná nýjum hæðum. Icesave mun verða meira áberandi en nokkru sinni. Hvort það dugar til að koma ríkisstjórninni frá veit ég ekki og hef enga sannfæringu fyrir að það yrði til bóta.


836 - Ný fjölmiðlalög

Ný fjölmiðlalög eru á leiðinni. Katrín Jakobsdóttir menntamálaráðherra skýrði frá því að ný fjölmiðlalög væru væntanleg. Þegar reynt var að koma slíkum lögum á árið 2004 varð allt vitlaust. Ekki veit ég hvort svo verður nú og heldur ekki hvort í þessum lögum verður tekið á málum sem snerta Internetið. Búast má þó við að reynt verði að koma böndum yfir þá aðila sem mest fara í taugarnar á stjórnvöldum. Fyllsta ástæða er til að vera á verði. Mannréttindi eru ekki bara til hátíðabrúks og fjálglegra ræðuhalda.

Netsamskipti fólks eru með ýmsu móti. Blogg, Facebook, tölvupóstur og ýmislegt annað. Þau hafa svo áhrif á samskipti fólks í kjötheimum. Margt verður með þessum hætti flóknara en áður var. Kostirnir eru samt margir. Sjálfur hef ég hingað til komist af án þess að skrá mig á Facebook. Kannski fer ég samt þangað á endanum.

Þar sem Auðbrekkan kemur niður á Nýbýlaveginn er komið hringtorg og ný aðkeyrsla að veitingahúsunum og verslununum þar í kring. Engu að síður eru alltaf þónokkrir bílar á hverjum degi sem koma áleiðis upp Auðbrekkuna og snúa við þar í brekkunni til að komast að fyrirtækjunum. Maður gæti ímyndað sér að stjórnendur bifreiðanna mundu smám saman læra á þetta en svo virðist ekki vera. Kannski eru bílarnir bara svona margir.

Annars minnir þetta mig á nýja sláturhúsið úti í Brákarey í Borgarnesi. (Já, það var einu sinni nýtt.) Þar var langur, brattur og mjór gangur úr réttinni í banaklefann og lömbin voru afar treg til að fara eftir honum. Einhver sagði þá: „Þau læra þetta smátt og smátt."

Vel má halda því fram að ráðning Davíðs Oddssonar sem ritstjóra Morgunblaðsins hafi verið pólitísk aðgerð. Ef til vill ekki flokkspólitísk þó. Ýmislegt bendir til að þessi ráðning ætli að hafa heilmiklar afleiðingar. Ekki bara fyrir Morgunblaðið heldur einnig fyrir stjórnarandstöðuna sem áreiðanlega hélt að hún hefði líf ríkisstjórnarinnar í hendi sér. Ömmi situr svo bara eftir með sárt ennið.


835 - Sviptingar í bloggheimum

Sturla Böðvarsson fyrrum samgönguráðherra og forseti Alþingis ritar grein á Pressuna þar sem hann gagnrýnir Egil Helgason harkalega auk þess að koma netlögguhugmyndum sínum á framfæri. Egill er pólitískur í bloggi sínu og leyfir allar athugasemdir þar. Að hann skuli um leið vera starfsmaður RUV gerir málið svolítið flókið. Það sem Sturla vill í þessu getur hæglega verið stórhættulegt fyrir málfrelsið í landinu.

Pressan leyfir engar athugasemdir. Eyjan gerir það hinsvegar og þá að sjálfsögðu Egill líka. Enda er hann eyjubloggari. Mbl.is leyfir athugasemdir þeim sem skráðir eru hjá þeim og þá verður athugasemdin um leið að sjálfstæðu bloggi sem aftur er hægt að gera athugasemdir við. Allt er þetta nokkuð skrýtið og eflaust er hugmyndin sú að fjölga bloggurum með þessu og gefa um leið stjórnendum Moggabloggsins sem mest vald yfir þeim sem þar athugasemdast eða blogga.

Nú sigli ég hraðbyri upp vinsældalistann á Moggablogginu. Það er auðvitað mest vegna þess að margir fínir bloggarar fóru á Eyjuna eða sögðust ætla þangað, þegar Davíð Oddsson var gerður að ritstjóra á Morgunblaðinu. Svo á hún Óskírð Bjarnadóttir ef til vill einhvern hlut í þessum nýfengnu vinsældum. En úr því Lára Hanna yfirgefur okkur Davíð ekki þá er ég að hugsa um að vera kyrr hér enn um sinn.

Fyrst eftir kosningarnar í vor vorkenndi ég þeim sem höfðu kosið Vinstri græna vegna þess að þeir væru flokka líklegastir til að koma í veg fyrir að Ísland yrði ESB að bráð. Nú eru það ég og aðrir þeir sem Borgarahreyfinguna kusu sem eru vorkunnar þurfi.

Það var eiginlega Friðrik Þór Guðmundsson (lillo.blog.is) sem segja má að hafi platað mig til að kjósa Borgarahreyfinguna á sínum tíma. Meðan hann var hér á Moggablogginu las ég bloggið hans oft og að sumu leyti var það fyrir hans áhrif að ég ákvað að kjósa hreyfinguna.

„Heyra má ég erkibiskups boðskap en ráðinn er ég í að hafa hann að engu." Segir séra Gunnar Björnsson og nú má búast við að hitni í kolunum á Selfossi þó eflaust séu engin ný Staðamál í uppsiglingu.

 

 

834 - Söngur útrásarvíkinganna

Jóhanna er vitlaus
og gerir aldrei neitt. 

Betri eru skattalækkanir
en skattahækkanir

Virkjum allt sem hægt er að virkja
og reisum álver út um allt.

Látum hjól atvinnulífsins snúast
og snúast sem allra hraðast.

Burt með AGS.
Nojarar eiga bunch of monní

Við viljum fá völdin aftur.
Þá líður öllum svo vel.

Annars er ég orðinn hundleiður á þessari sífelldu og illskeyttu umræðu um Icesave, bankahrun og þessháttar vitleysu. Jafnvel prúðustu menn tryllast á lyklaborðinu þegar þeir fara að blogga. Ausa óhróðri á báðar hendur og kalla það rökræðu. Skil heldur ekki nema sumt af því sem sagt er og veit þessvegna ekkert hvaða afstöðu ég á að taka. Allt er ómögulegt. Er ekki fjöldasjálfsmorð bara lausnin?

Og svo var Ástþór Magnússon svikinn um friðarverðlaunin einu sinni enn.

Hvar endar þetta eiginlega?

 

833 - Afastelpan litla

Auðvitað get ég um fátt annað hugsað en afastelpuna nýfæddu. Móðir hennar er frá Bahama eyjum svo hún valdi réttan dag til að koma í heiminn. Tólfti október er nefnilega svonefndur Kólumbusardagur og haldinn hátíðlegur víða. Að minnsta kosti í Bandaríkjunum. Þar er það reyndar jafnan gert annan mánudag í október. Í þetta skipti var 12. október einmitt mánudagur. 

Það var 12. október 1492 sem Kristófer Kólumbus steig á land á eyjunni San Salvador og hélt að hann væri kominn til Asíu. Svo var ekki því nú tilheyrir þessi eyja Bahama eyjaklasanum á Karíbahafi. Reyndar er líka til eyja í Galapagos eyjaklasanum undan Ekvador sem heitir San Salvador. Sú eyja er oft kölluð Santiago eyja.

Svo má ekki má rugla San Salvador eyjunum saman við höfuðborg El Salvador í Mið-Ameríku sem einnig er kölluð San Salvador. San Salvador eyja í Bahama klasanum er stundum kölluð Watling eyja. Þegar Kólumbus kom þangað er sagt að eyjaskeggjar hafi kallað eyjuna Guanahani.

Já ég veit að Leifur heppni Eiríksson fann Ameríku fyrstur Evrópumanna (eða öllu heldur Bjarni Herjólfsson - en förum ekki nánar út í það) Leifur hafði vit á að týna Ameríku aftur en vitið þið hvernig hann fékk viðurnefni sitt? Heppnin var ekki fólgin í því að finna Ameríku. Nei, hann var svo heppinn að bjarga heilli skipshöfn í sjávarháska.

Eyþór Árnason hlaut bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar árið 2009 fyrir ljóðabókina „Hundgá úr annarri sveit." Eyþór þekki ég frá veru minni á Stöð 2 og hann er Moggabloggari og bloggvinur minn. Hefur ekki bloggað neitt nýlega. Alltaf skemmtilegur samt. Til hamingju Eyþór!

Þetta er að finna á RUV vefnum:

Eyþór er fæddur 2. ágúst 1954. Hann ólst upp í Skagafirði, á Uppsölum í Blönduhlíð, og stundaði almenn sveitastörf frameftir aldri og tilfallandi vinnu, svo sem við brúarsmíði og grenjavinnslu. Vorið 1983 útskrifaðist hann úr Leiklistarskóla Íslands. Eftir það tóku við ýmis verkefni eins og leikstjórn hjá áhugaleikfélögum og vinna við auglýsingagerð. Árið 1987 hóf hann störf hjá Stöð 2 sem sviðsstjóri og vann þar til 2006 er hann flutti sig yfir til Saga Film. Sem stendur er hann sjálfstætt starfandi.

 

832 - Óskírð Bjarnadóttir

Blogga yfirleitt ekki um persónuleg efni. Undantekning samt núna. Óskírð Bjarnadóttir fæddist í morgun (mánudag) og ég er búinn að vera í mestallan dag á Akranesi og má eiginlega ekkert vera að því að blogga. Talsverðar upplýsingar um hana og myndir skilst mér að séu þegar komnar á Facebook og kannski er hægt að finna þær víðar á Netinu. Tók myndir af henni og tvær þeirra fylgja hér með. Blogga meira á morgun ef ég nenni.

IMG 4115

IMG 4120


831 - Jóhanna og Davíð

Að mörgu leyti legg ég að jöfnu það sem er að gerast í íslenskum stjórnmálum þessa dagana og það sem gerðist í sambandi við fjölmiðlalögin árið 2004. Svipaðar ofsóknir eru í gangi. Menn týna sjálfum sér í óþörfum ofsa. Orðræðan er komin úr öllu samhengi við tilefnið og stjórnmálamenn sjást ekki fyrir. 

Þó mér hafi fundist eðlilegt að sauma að Davíð Oddssyni í sambandi við fjölmiðlalögin er ég viss um að stuðningsmenn hans hafa upplifað ástandið sem þá skapaðist sem árás á hann. Ég vil ekki vera að fjölyrða mikið um þetta því stjórnmál eru leiðinleg og mannskemmandi.

Að sumu leyti er ég á öndverðum meiði við Láru Hönnu Einarsdóttur varðandi stjórnmálaskoðanir en hún stendur sig vissulega vel í því að halda útrásarbesefunum í skefjum og það er frábært að geta gengið í safn hennar af athyglisverðum hlutum. Um daginn birti hún á bloggi sínu grein sem Njörður P. Njarðvík hafði skrifað og nefnt: „Ef árgalli kemur í siðu."

Sú grein er mjög góð og ég vil hvetja alla til að lesa hana. Greinin birtist á Vísi.is og bæði má sjá hana þar og í bloggi Láru Hönnu. (Visir.is - Umræðan - Yfirlit greina. Blogg Láru Hönnu 8. október s.l.)

Njörður segir meðal annars:

Einna verst þótti mér þó að frétta af fjölda háskólanema sem sótti fé í atvinnuleysissjóð á meðan þeir voru í námi. Íslenska þjóðin gefur þessu fólki ókeypis háskólanám, sem er fjarri því að vera regla í öðrum löndum. Þessir nemendur launa þá miklu gjöf með því að svíkja fé úr almannasjóði ætluðum fólki sem hefur misst atvinnu sína. Ég hlýt að spyrja: Hvers virði er menntun fólks sem sýnir af sér þvílíka siðblindu? Hefur það ekki í raun fyrirgert rétti sínum til ókeypis æðri menntunar?

Þegar ég var við nám á Bifröst forðum daga áttum við nemendurnir hver og einn eftir vissum reglum að standa upp í matsal og lesa einhverja tilvitnum. Það kostaði oft mikil og langvarandi heilabrot að finna réttu tilvitnunina. Ætli ég hafi ekki þurft að standa skil á svona tilvitnunum í tvö til þrjú skipti. Einni þeirra man ég eftir. Hún var einhvern vegin svona: „Nútímamenn fordæma Júdas ekki fyrir að hafa svikið herra sinn heldur fyrir að hafa kastað frá sér þrjátíu silfurpeningum." 

Hugsunin er ekki ósvipuð og í klausu Njarðar. Græðgin er þvílík hjá nær öllum að frávik frá henni eru beinlínis skrýtin.

Ekki hefur neinum þótt taka því að mótmæla efnislega því sem ég sagði um ESB á blogginu mínu í gær. Geng útfrá því að þeir sem lesið hafa séu mér sammála.

 

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband