462. - Lítið eitt um Naustið og ýmislegt fleira

Ekki virðist mega minnast á trúmál eða útlendinga án þess að einhverjir umhverfist. Óralangir svarhalar verða gjarnan hálfmarklausir. Bloggvinur minn Svanur Gísli Þorkelsson lenti í þessu um daginn. Þá var hann að finna að því að Óskar Arnórsson hefði læst blogginu sínu. Því hafði þá víst verið lokað. En áður en við yrði litið var svarhalinn orðinn svo ógnarlangur að það var varla nokkrum ætlandi að lesa hann.

Helga Guðrún fyrrum Moggabloggari og aðrir brottreknir bloggarar og fleiri blogga nú sem mest þau mega á blekpennar.com og skora á aðra að gera það sama. Segjast ætla að veita Moggablogginu verðuga samkeppni. Ég á nú eftir að sjá það.

Annars er ágætt að vita að maður yrði líklega velkominn annars staðar ef manni yrði úthýst hérna. Ætla samt að halda áfram hér, takk fyrir. Hér er ágætt að vera. Ég er líka svo meinlaus að enginn nennir að ráðast á mig. Ég hef ekki einu sinni döngun í mér til að óskapast útaf málfari sem þó væri auðvelt.

Það var Villi í Kaupmannahöfn sem hafði orð á því í kommenti að síðan mín væri þjóðleg. Ekki veit ég það en það minnti mig á einhverja þjóðlegustu stofnum á Íslandi sem hér var haldið úti þangað til ekki alls fyrir löngu. En nú er hún Snorrabúð stekkur.

Inni á Nausti aldrei þverr
ánægjunnar sjóður.
Þorramatur þykir mér
þjóðlegur og góður.

Já, svona auglýstu þeir Naustverjar lengi vel. Ekki fundu þeir samt upp Þorramatinn en mér er nær að halda að þeir hafi blásið nýju lífi í Þorrablótin sem grasseruðu um allt land að minnsta kosti þangað til jólaglöggið kom til sögunnar.

Naustið var miklu frekar stofnun og fyrirbrigði en veitingastaður. Eins og öll almennileg fyrirtæki fór Naustið samt að lokum á hausinn. Þar reis einhver afskaplega fínn og flottur kínverskur veitingastaður sem ég varð aldrei svo frægur að komast á. Svo fór hann á hausinn líka og líklega verða húsin rifin fljótlega enda bara gamalt drasl.

Margt hefur samt gerst á Naustinu og mætti eflaust skrifa um það margar þykkar bækur. Ég þekki sögu þess samt alls ekki vel og ætla ekkert að reyna að rifja hana upp. Auðvitað kom ég samt þangað nokkrum sinnum eins og margir fleiri.

Það þykir við hæfi að allir sem komnir eru á efri ár lofsyngi Þorramat. Mér þótti hann samt alltaf frekar vondur. Þorrablót voru samt oft skemmtileg. Þar var venjulega allt fljótandi í brennivíni og menn kátir og fjörugir. Þegar ég fór á Þorrablót át ég venjulega mest af harðfiski og hangikjöti. Annað borðaði ég einkum að gamni mínu og til bragðbætis. Til dæmis er alveg í lagi að fá sér einn og einn bita af skyrhákarli en sem matur held ég að hann sé nauðaómerkilegur. Líklega á borð við kæsta skötu sem ég hef aldrei látið inn fyrir mínar varir.

Eiður Guðnason (kannski fyrrverandi alþingismaður og sendiherra) segir í kommenti hjá mér að vísan um Ingólfskaffi sé eftir Leif Haraldsson. Það held ég að sé alveg rétt. Ég las einhverntíma bók um lífskúnstnerinn Leif Haraldsson. Hann var merkilegur maður sem átti mikil og góð samskipti við skáld og listamenn af ýmsu tagi um miðja síðustu öld en samdi ekki mikið sjálfur. Hann var jafnvel ekki álitinn sérlega skáldmæltur en leyndi talsvert á sér.

 

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Birgitta Jónsdóttir

Gaman að þessari toppmynd hjá þér:)

Birgitta Jónsdóttir, 28.9.2008 kl. 10:07

2 Smámynd: Baldur Kristjánsson

Takk fyrir pistilinn. Kveðja. B

Baldur Kristjánsson, 28.9.2008 kl. 10:26

3 Smámynd: Svanur Gísli Þorkelsson

Ég sé að við höfum sama matarsmekk. Bestu þakkir .

Svanur Gísli Þorkelsson, 28.9.2008 kl. 20:57

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband