460. - Að bulla, þrugla og ströggla + myndir frá Kaupmannahöfn

Aðalkosturinn við að blogga er að það er ókeypis.

Hinn aðalkosturinn er hvað þetta tekur fljótt af. Þegar búið er að senda efnið útí rafeindaiðuna á Internetinu er hægt að snúa sér að öðru.

Bækur eru að mörgu leyti að verða úrelt þing. Spurning hvort ekki sé kominn markaður fyrir léttar og handhægar fartölvur sem hægt er að hafa með sér í rúmið. Hugsið ykkur bara hvað það væri þægilegt að sofna útfrá endalausum blogglestri.

Hæg er leið til helvítis, hallar undan fæti. Þangað hefur mig alltaf langað að fara. Veit bara ekki hvernig ég kemst upp aftur.

Með autt Word-skjal í tölvu fyrir framan mig er ég óstöðvandi. Það segja Rebus og Rankin. Eða mundu segja ef þeir vissu eitthvað í sinn haus.

Andy Murrey nýja tennisstjarnan þeirra Bretanna á að hafa svarað þegar honum var sagt að hann hefði unnið eina milljón dollara með því að verða annar í US Open:

"Já, eru það ekki ein tíu pund?" Greinilega brandarakarl hinn mesti. Henman var alltaf svo alvarlegur.

Líklega verður Lára Hanna í öðru sæti á listanum hjá Ómari Ragnarssyni í næstu alþingiskosningum og ég gæti jafnvel trúað að ég exi bara við þau skötuhjúin. Munið að þið sáuð þetta fyrst hérna.

"Nei, nei, nei, nei, nei, nei. Ég er bara framliðinn," sagði Ómar Ragnarsson þegar það var borið uppá hann að hann væri dauður. Er mér sagt.

Þegar bókin hennar Jónu Á. Gísladóttur kemur út er ég að hugsa um að kaupa hana ekki. Mér finnst Jóna oft vera svolítið væmin en hún skrifar vel, það má hún eiga. Meðan ég fæ að lesa bloggið hennar ókeypis og get hugsanlega fengið bókina á bókasafninu fer ég ekki að eyða peningum í þetta.

Það er erfitt að þurfa alltaf að þykjast vera gáfaður og eiga svör við öllu en vera samt frekar vitlaus. Þetta hef ég lengi þurft að búa við.

Nú duga ekki mega-vikur lengur hjá Dominós. Giga-vikur skulu það vera. Tera-vikur koma víst eftir áramótin. Hvað svo tekur við veit ég ekki.

Við Íslendingar erum í hópi þeirra þjóða sem mest leyfum af tollalausum matvælainnflutningi segir Bjarni Harðarson þingmaður framsóknarflokksins. Það liggur við að ég trúi þessu.

Mér finnst Bjarni langskemmtilegastur þegar hann skrifar um eitthvað annað en pólitík. Til dæmis ættfræði eða mótorhjólaferðir.

Sú hugsun er farin að ásækja mig þegar ég blogga endurminnngar að ég hafi kannski minnst á þetta áður. Best að athuga betur leitarfúnksjónina á Moggablogginu.

Þetta er að verða langhundur hinn mesti og þar að auki ein allsherjar langavitleysa. Best að hætta áður en höfuðið verður bitið af skömminni. Gott ef þetta fer ekki beint á okursíðuna hans Dr. Gunna.

Enn get ég nýtt Kaupmannahafnarmyndirnar enda tók ég þær ansi margar. Hér koma nokkrar myndir af kirkjum, turnum og ýmsum byggingum. Ég sleppi því alveg að útlista hvað er hvað. Það gæti verið tóm vitleysa hjá mér.

 
Picture 320Picture 513Picture 538Picture 543Picture 555Picture 560Picture 568Picture 569Picture 612Picture 634

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

"Það er erfitt að þurfa alltaf að þykjast vera gáfaður og eiga svör við öllu en vera samt frekar vitlaus. Þetta hef ég lengi þurft að búa við."

Láttu mig vita það!  Ég hef áratuga reynslu af þessum fjanda!  Eintóm kvöl og pína...

Malína 26.9.2008 kl. 01:19

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Allir eru vitlausir á einhverju sviði. Gengur bara misvel að dylja það.

Sæmundur Bjarnason, 26.9.2008 kl. 15:56

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband