463. - Nýr vísnaþáttur. Smáhvíld frá vandræðum á öllum öðrum sviðum

Ég er að hugsa um að setja hér nokkrar vísur sem allar eru því markinu brenndar að ég hefði að óreyndu reiknað með að næstum allir kynnu þær. Reynsla mín segir hinsvegar að allsekki sé víst að svo sé og þessvegna koma þær hér. 

Ferskeytlan er Frónbúans
fyrsta barnaglingur.
En verður seinna í höndum hans
hvöss sem byssustingur.

Mér var einhverntíma sagt að höfundur þessarar vísu héti Andrés Björnsson og væri kenndur við Síðumúla. Ég tók það sem Síðumúla í Borgarfirðinun en verið getur að svo sé ekki. Góð er vísan samt.

Í skólanum í gamla daga máttum við gjöra svo vel að læra vísur og kvæði utanað í stórum stíl. Þeirra á meðal voru heilræðavísur Hallgríms Péturssonar. Ég man allmargar þeirra enn þann dag í dag.

Ungum er það allra best
að óttast Guð sinn herra.
þeim mun virðing veitast mest
og virðing aldrei þverra.

Hugsaðu um það helst og fremst
sem heiður þinn má næra.
Aldrei sá til æru kemst
sem ekkert gott vill læra.

Hafðu hvorki háð né spott
hugsa um ræðu mína.
Elska Guð og gjörðu gott
geym vel æru þína.

Foreldrum þínum þéna af dyggð,
það mun gæfu veita.
Varastu þeim að veita styggð
viljirðu gott barn heita.

Víst ávalt þeim vana halt.
Vinna lesa og iðja.
En umfram allt þú ætið skalt
elska Guð og biðja.

Lærður er í lyndi glaður,
lof ber hann hjá þjóðum.
Hinn er ei nema hálfur maður
sem hafnar siðum góðum.

Hallgrímur var ótrúlegur. Sagt er hann hafi verið þriggja eða fimm ára (man ekki hvort) þegar hann orti eftirfarandi vísu:

Í huganum var ég hikandi
af hræðslu nærri fallinn.
Kattarrófan kvikandi
kom þar uppá pallinn.

Næstu sex vísur kannast áreiðanlega flestir við:

Bí, bí og blaka
álftirnar kvaka.
Ég læt sem ég sofi
en samt mun ég vaka.

Ég held að Jóhannes úr Kötlum hafi nefnt ljóðabækur eftir ljóðlínunum í þessari þekktu vísu. (um Jóhannes má fræðast á johannes.is)

Bíum bíum bamba.
Börnin litlu ramba.
Fram á fjallakamba
að leita sér lamba.

Vel getur verið að eitthvað hafi skolast til í þessari vísu hjá mér enda er hún óttalegt bull.

Yfir kaldan eyðisand
einn um nótt ég sveima.
Nú er horfið Norðurland.
Nú á ég hvergi heima.

Einu sinni átti ég hest
ofturlítið skjóttan.
Það var sem mér þótti verst
þegar dauðinn sótti hann.

Þar sem enginn þekkir mann
þar er gott að vera.
Því að allan andskotann
er þar hægt að gera.

Nú er úti veður vott
verður allt að klessu.
Ekki fær hann Grímur gott
að gifta sig í þessu.

Þessar þrjár eru líka alþekktar.

Litla Jörp með lipran fót
labbar götu þvera.
Hún mun seinna á mannamót
mig í söðli bera.

Afi minn og amma mín
úti á Bakka búa.
Þau eru bæði flott og fín.
Þangað vil ég fljúga.

Allt fram streymir endalaust
ár og dagar líða.
Nú er komið hrímkalt haust
horfin sumarblíða.

En þó vísur séu alkunnar er ekki þar með sagt að ekki megi blogga um þær. Vísurnar hér eru nær allar mjög vel þekktar og ég er ansi hræddur um að mörgum vísnavininum þyki þetta þunnur þrettándi, en ég skal reyna að gera betur næst.

 

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Þekki þær allar. 

Lára Hanna Einarsdóttir, 29.9.2008 kl. 00:15

2 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

hmm, í ljóðinu Afi minn og amma mín er þriðja línan svona, þau eru bæði sæt og fín. 

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 29.9.2008 kl. 00:19

3 identicon

Ég held að í vísunni Bíum bíum ..... Sé botninn svona:  Fram á fjallakamba /  fara að leita lamba

asben 29.9.2008 kl. 08:40

4 identicon

 

 

Ég sé að síðuhöfundur hefur farið línuvillt í Heilræðavísum Hallgríms Péturssonar

og skrifað ”virðing” í tvígang.

----

Þeim mun vizkan veitast mest

og virðing aldrei þverra

 

-         á þetta að vera. Og svo vil ég mótmæla því að ”Bíum bíum bamba” sé hið mesta bull -  jú , ef til vill -  en það er a. m. k. nytsamlegt bull fyrir börn, sem þannig læra rím og hljóðfall. Svona ” bull” er sjálfsagt til á flestum tungumálum. ”Nonsensrim” er það kallað á sænsku og skáldið og fv. ritstjóri Dagens Nyheter, Olof Lagercrantz, vitnaði oft í frænda sinn Hugo Lagercrantz sem setti saman þvílíkt vísnabull. Kvaðst Olof hafa orðið hugfanginn af ríminu þegar hann var lítið barn.

 

Nú hef ég reyndar vísuna svona:

 
 Bíum bíum bamba
Börnin litlu ramba
Fram á fjallakamba

Þau fara að leita lamba.

 En það má hver syngja með sínu nefi fyrir mér, svo lengi sem menn misþyrma ekki stuðlum og hljóðstöfum eða fara augljóslega vitlaust með.

Einhvern veginn finnst mér fötin fara illa á Baldri Kristjánssyni sem hefur tilvitnunina  ”Betra að augun deyi en hjartað” því þetta minnir mig svo mjög á ljóðlínur eftir Stefán G. Stefánsson. ”Láttu hug þinn aldrei eldast eða hjartað” o s frv.

 Svo að lokum ein ferskeytla sem mér datt í hug í þessu sambandi eftir Kristján Ólason frá Húsavík.

 
Ekki er bjart ef þurrt og þyrst
þrumir svarta-skar á kveiknum,
eins er margt um orðsins list
eftir að hjartað skerst úr leiknum.

-          

 

 

 

 

 

s.H. 29.9.2008 kl. 16:49

5 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Þakka athugsemdirnar. Sé ekki betur en þær séu réttmætar. Stuðlasetning er dálítið undarleg í sumum vísnanna. Hefði þurft að lesa þetta betur yfir. Þetta með viskuna hefði ég nú átt að sjá.

Sæmundur Bjarnason, 29.9.2008 kl. 21:25

6 Smámynd: Svanur Gísli Þorkelsson

Rétt Sæmundur, börnin ramba fram á fjallakamba að leita sér lamba og þurfa ekki að fara neitt.

Svanur Gísli Þorkelsson, 29.9.2008 kl. 23:19

7 Smámynd: Emil Örn Kristjánsson

Hvort sem afi og amma eru bæði flott og fín eða sæt og fín þá er þetta óttalegur leirburður.

Að litlu börnin fari að leita lamba bjargar hins vegar stuðlasetningunni í þeirri vísu.

Svo má koma með eftirfarandi tilbrigði við skjóta hestinn:

Einu sinni átti ég hest / ofurlítið rauðan. / Það var sem mér þótti verst / þegar manna sauð hann.

Emil Örn Kristjánsson, 30.9.2008 kl. 14:57

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband